Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Löggæsla

Vettvangur ritsóða og ómerkilegra frétta

DV vefurinn hefur ekkert breyst þrátt fyrir nýja stjórn útgáfufélagsins og nýjan ritstjóra.

Í gær birtist sérstök frétt á vefsíðu DV þess efnis að Jón Bjartmars lögreglumaður hefði viljað láta lögregluna vinna vinnuna sína með sama hætti og lögregla gerir í nágrannalöndum okkar á árunum 2008 og 2009.  Fréttin er vissulega sett upp með öðrum hætti í DV í þeim tilgangi einum að varpa rýrð á viðkomandi lögreglumann og gera hann tortryggilegan.

Ekki stendur á viðbrögðum. Ritsóðarnir sem eru aðall og einkennismerki þeirra sem tjá sig á þessum vefmiðli koma hver á fætur öðrum og bregða lögreglumanninum m.a. um að vera fasisti, svín og geðveikur í ofanálag auk margs annars.  Svona ummæli eru ritstjórn vefmiðilsins greinilega þóknanleg. DV áskilur sér rétt til að fjarlægja óviðurkvæmileg ummæli, en þessi ummæli um lögreglumanninn eru greinilega ekki þess eðlis að mati ritstjórnarinnar.

Hvernig væri að nýr ritstjóri Hallgrímur Thorsteinsson stigi nú fram og legði sig fram um að ábyrg og góð fréttamennska yrði stunduð á þessum sóðamiðli og ritsóðum yrði ekki vært með óviðurkvæmilegar athugasemdir um einstaklinga á vef miðilsins sem hann stjórnar.   

 


Hvað gerir Sérstakur í Seðlabankamálinu?

Fyrri nokkru ákvað þáverandi bankaráðsformaður Seðlabanka Íslands í samráði við bankastjórann,að greiða bankastjóranum kostnað hans vegna málaferla sem hann fór í á hendur Seðlabankanum og tapaði. Þannig greiddi Seðlabankinn samkvæmt laumuspili bankaráðsformannsins þáverandi og bankastjórans allan kostnað vegna málsins líka málskostnaðinn sem bankastjórinn var dæmdur til að greiða Seðlabankanum.

Þegar þetta lá fyrir var ljóst að um mál var að ræða sem vísa átti til Sérstakt saksóknara og/eða Sérstakur að taka upp og rannsaka af eigin frumkvæði samanber starfshætti hans í málum annarra fjármálafyrirtækja. En hér sannast enn hið nýkveðna úr "Animal Farml" að öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.  Þess vegna hefur Sérstakur ekkert gert. Bankaráð Seðlabankans tók síðan þá röngu ákvörðun að vísa málinu til Ríkisendurskoðunar.  Nú hefur ríkisendurskoðun kynnt þá niðurstöðu sína að:  

"út­gjöld í til­efni tengsl­um við fjár­hags­lega hags­muni seðlabanka­stjóra verði að bera upp í bankaráðinu til samþykkt­ar áður en greiðsla er innt af hendi eða að bankaráðið veiti for­manni þess form­lega heim­ild til þess að stofna til þeirra." 

Nú er spurning hvað Óli Sérstaki gerir. 

Er betra að greiða án umboðs frá bankaráði SÍ en lánanefnd í viðskiptabanka?  Þá hefur jafnvel verið talið að eftir á samþykki lánanefndar sé ekki nóg. 



Stjórnsýsla og pólitík

Stundum telja stjórnmálamenn nauðsynlegt að hafa afskipti af stjórnsýslunni þegar þeir telja að ekki sé gætt sanngirni, meðalhófs eða annars sem tillit eigi að taka til.

Það er slæmt ef stjórnmálamenn þurfa ítrekað að grípa fram fyrir hendurnar á embættismönnum hvað þá heldur sömu embættismönnunum og afleitt ef stjórnmálamenn láta feykjast undan hverjum goluþyt sem andar á þá.

Ítrekað hafa stjórnmálamenn haft afskipti af aðgerðum Útlendingastofnunar þegar  einstaklingar hafa mótmælt. Ef til vill eru þessi afskipti viðkomandi ráðherra réttlætanleg. En þá verður ekki séð að embættisfærsla Útlendingastofnunar sé eðlileg og þeir sem þar ráða séu vanda sínum vaxnir.

Sé embættisfærsla Útlendingastofnunar eðlileg og lögum samkvæmt, sem og gætt sé ítrustu sanngirni o.s.frv. þá eru afskipti ráðherrans óeðlileg.  

Út frá eðlilegum leikreglum í lýðræðisþjóðfélagi og til að fram geti farið upplýst umræða, þá er mikilvægt að fá upplýst hvort það eru stjórnendur Útlendingastofnunar sem fara ekki að lögum eða ráðherrann. 


Tímabær umræða um ólögleg fíkniefni

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi Hæstarréttardómari skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag undir heitinu "Vöknum".  Þar er bent á nauðsyn þess að nálgast fíkniefnavandann með öðrum hætti. Þó það sé ekki orðað ótvírætt í greininni þá verður ekki annað skilið en að Jón Steinar sé að leggja til að einhver fíkniefni sem nú eru ólögleg verði lögleg.

Umræða um þessi mál er erfið vegna þess að víða er mikill harmur sem hefur fylgt fíkniefnaneyslu, afbrot og dauðsföll. Það á raunar við bæði um lögleg sem ólögleg fíkniefni. Jón Steinar hvetur til að einstaklingarnir beri í auknum mæli ábyrgð á sjálfum sér en refsivaldi ríkisins sé ekki beitt ótæpilega gagnvart þeim sem ánetjast eiturlyfjafíkn. Fyrir þeirri skoðun færir Jón sannfærandi rök.

Tímaritið Economist telur að lögleiða eigi algengustu ólögleg fíkniefni. Tímaritið hefur ítrekað bent á í ritstjórnargreinum það sama og Jón Steinar í grein sinni. Það er að sú stefna sem fylgt er í dag gerir fyrst og fremst glæpamenn ríka, dregur ekki úr neyslu, en gerir hana hættulegri en ella væri vegna mismunandi gæða, styrkleika og íblöndunarefna.

Economist hefur ítrekað bent á að almennt veigri menn sér við að taka til máls um eiturlyfjavandann þar sem að það séu svo sterkir hagsmunir sem vilji hafa óbreytta stefnu m.a. þeir sem hagnast á viðskiptunum.  Heimsviðskipti með ólögleg fíkniefni eru ef ég man rétt að verðmætum talið meiri en með vopn. Eiturlyfjahringir í Mexícó eru með einkaheri, flugskeyti og kafbáta.

Hlutfallslega flestir refsifangar eru í Bandaríkjunum vegna löggjafar í fíkniefnamálum. Fjórðungur allra fanga í heiminum er í Bandaríkjunum las ég í grein um daginn þó þar búi bara 5% jarðarbúa. Þetta gerist í landi hinna frjálsu. Bandaríkin ættu að íhuga hvernig þeim gekk að uppræta brennivínið meðan það var ólöglegt.  Skipulögð glæpastarfsemi var ekki til í Bandaríkjunum fyrir tíma áfengisbannsins. Hér er um enn verra vandamál að ræða, meiri peningar og auðveldari flutningsleiðir til neytandans.

Þær staðreyndir að stefnan í eiturlyfjamálum dregur ekki úr neyslu og gerir glæpamenn ríka ættu að duga til að ábyrgir aðilar í samfélagi þjóðanna tækju þessi mál til skynsamlegrar skoðunar.


Nauðsynleg öryggisráðstöfun

Í fréttum í gær var sagt frá fjölda lögreglumanna á vakt í tveim stórum lögregluumdæmum. Ljóst var af fréttinni að lögregluþjónar á landsbyggðinni eru allt of fáir auk þess hef ég grun um að víða séu þeir ekki nógu vel tækjum búnir.

Hvað sem líður sparnaðaráætlunum og nauðsyn þess að dregið sé úr umsvifum ríkisins þá er samt nauðsynlegt að tryggja öryggi borgaranna með því að haldið sé uppi lögum og reglu  og aðstoða ef slys eða óhöpp verða. Það verður ekki gert nema fjölga lögreglufólki og endurnýja tækjakost lögreglunnar.

Spurning er hvort ekki sé nauðsynlegt að landið allt verði eitt lögregluumdæmi. Þá er líka spurning hvort ekki sé hægt að bjóða sem samfélagsverkefni almennum borgurum að koma lögreglunni til aðstoðar eftir að hafa fengið viðeigandi þjálfun t.d. varðandi umferðarstjórnun og gæslustörf svo og að tryggja aukið öryggi barna og unglinga svo dæmi séu tekin.

Við eigum að vera fyrirmyndarland varðandi löggæslu og öryggi fólks

 


Helv... ástralska kiwi p....

Nýfallinn er í Bretlandi dómur yfir konu sem fluttist þangað fyrir 6 árum frá Slóvakíu. Hún kallaði nágrannakonu sína    "helv.....  átralska kiwi P...."

Konan frá Slóvakíu sem hefur búið í Bretlandi í 6 ár kom heim með manni sínum og voru bæði drukkin og lenti þeim saman. Maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann hafði veist að konu sinni. Nágrannakonan sem er frá Nýja Sjálandi kallaði til lögreglu þar sem hún óttaðist um öryggi konunnar. Þessu reiddist konan frá Slóvakíu og notaði því þennan munnsöfnuð um nárgrannann.

Lögreglan var vitni og getið var um það í skýrslu sem leiddi til ákæru og dóms.  Í dóminum segir að:

"kynþáttafordómar felist í því að nota orðið áströlsk og kiwi með þeim hætti sem gert var og auki það á refsinæmi ummælanna."

Slóvakinn var dæmd í 110 punda sekt vegna kynþáttafordóma og 50 punda bótagreiðslu til nágrannakonunnar.

Það vekur athygli er að dómurinn telur ekki sérlega ámælisvert að notuð hafi verið orðin: helv.... og p.... .  Nei orðin "ástralska" og "kiwi" eru grafalvarleg og bera vott um kynþáttafordóma.  Þá liggur fyrir hvernig "political right speak" á að vera á hinu Stóra Bretlandi.


Þeir hamast að Ögmundi

Sporgöngufólk Steingríms J. Sigfússonar hamast nú að Ögmundi Jónassyni fyrir mannaráðningu í stöðu sýslumanns á Húsavík. Yfirsnati Steingríms, Björn Valur Gíslason er þarna í forustu eins og við mátti búast.

Sú niðurstaða að Ögmundur hefði brotið jafnréttislög var kærkomin fyrir Steingrím J.  Sama dag tilkynnti hann ráðningu ráðuneytisstjóra í nýtt atvinnuvegaráðuneyti - án auglýsingar, á grundvelli leyndarhyggju í andstöðu við góða stjórnsýslu. Þessi geðþóttaákvörðun Steingríms J. gleymdist þegar hann atti stuðningsliði sínu á Ögmund.

Sú markvissa barátta, að skapa séraðstöðu fyrir háskólamenntaðar framagjarnar konur á grunvelli hugmynda um jafnstöðu kynjanna er nokkuð sérstök. Mannréttindi eru fyrir einstaklinga en ekki hópa. Hvað afsakar það að séu tveir umsækjendur um stöðu jafnhæfir skuli kona tekin framyfir karlinn. Baráttan hefur ekki miðað við að bæta kjör og jafnstöðu láglaunakvenna. Þær hafa orðið útundan og femínistunum koma þær takmarkað við.

Árásirnar á Ögmund sýna vel að Steingrímur og hans lið ætlar að sjá til þess að menn eins og Ögmundur og Jón Bjarnason vaði ekki upp á dekk. Svik við Flokkinn og Foringjann verða ekki liðin. 


Er nauðgun aukaatriði?

Fróðlegt er að fylgjast með málatilbúnaði sporgöngumanna Julius Assange vegna nauðgunarákæru á hendur honum í Svíþjóð og kröfu Svía um að hann verði framseldur til að svara til saka. Vegna þeirrar kröfu var Julius handtekinn í Bretlandi, en látinn laus gegn tryggingu, sem greidd var af nokkrum vinstri sinnuðum auðmönnum. Nú hefur "sómamaðurinn" Júlíus hlaupist undan ábyrgð þrátt fyrir að hafa skriflega samþykkt að gefa sig fram yrði framsal heimilað. 

Julius Assange lætur vini sína sitja uppi með greiðslu tryggingarinnar. Hann svíkur loforð sem hann gaf þegar hann var leystur úr fangelsi gegn greiðslu tryggingar. Lygi og svik Julius Assange er afsakað af sporgöngumönnum hans sem telja að hann sé hafinn yfir lög og rétt.

Af hálfu sporgöngumanna Júlíusar hefur verið gert lítið úr ákærunni og þeim konum sem kærðu Júlíus. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn hafa jafnvel birt nöfn þeirra. Sjálfur hefur Júlíus neitað sök. Þrátt fyrir það hefur Júlíus verið dæmdur af þremur aðskildum óháðum dómstólum í Bretlandi til að sæta framsali til Svíþjóðar.

Nauðgun er hræðilegur glæpur sem hefur áhrif á líf brotaþola alla ævi. Með sama hætti er það hræðilegt að verða saklaus fyrir nauðgunarákæru og það hefur líka alvarleg áhrif iðulega alla ævi þess sem fyrir slíku verður. Þess vegna skiptir máli að slík mál séu afgreidd hratt og örugglega til að hið sanna sé leitt í ljós fyrir óháðum dómstól. En sporgöngumenn Assange telja hann yfir þetta hafinn.

Júlíus er þekktur fyrir að hafa verið forgöngumaður Wikileaks vefsins sem aðallega hefur birt stolin skjöl frá Bandaríkjunum. Hatursmenn Bandaríkjanna á Vesturlöndum og víðar sameinast um og  gera allt til að afsaka framferði Júlíusar og búa til sögur sem eiga að afsaka gunguskap hans varðandi það að svara til saka fyrir óháðum sænskum dómstóli. 

Sjálfur segir Júlíus að verði hann framseldur til Svíþjóðar muni hann verða framseldur þaðan til Bandaríkjanna og telur vafamál að hann sleppi lifandi frá því. Er það líklegt? Er einhver glóra í svona draugasögu? Eru Bretar ekki bestu vinir Bandaríkjanna? Af hverju ættu þeir þá ekki að framselja Júlíus frekar en Svíar?

Svíar hafa verið þekktir fyrir að vera skjól ýmissa flóttamanna undan réttvísinni í Bandaríkjunum t.d. liðhlaupa hermönnum. Er líklegt að þeir mundu ganga erinda Bandaríkjanna gagnvart Júlíus Assagne?

Óneitanlega er oft sérstakt að skoða út frá hvaða hugmyndaheimi róttækir vinstri menn í Evrópu og Suður Ameríku líta á málin. Meint brot gegn kynfrelsi kvenna, nauðgun, er afsökuð, af því er virðist eftir hver í hlut á.

Er þá nauðgun afsakanleg þegar sjóræningjar og meintar alþýðuhetjur og óvinir Bandaríkjanna eiga í hlut? Ríkisstjórn landsins sem veitir Júliusi hæli virðist líta svo á og margir vinir hans m.a. hér á landi.

Rafael Correa hinn vinstri sinnaði forseti Equador er sérstakur vinur Íran og Venesúela og annarra sem eru óvinir Bandaríkjanna. Þess vegna er Julius Assange velkominn á þeim grundvelli einum að "my enemy enemies are my friends" óháð því hvað hann hefur gert.

Það eru nöturleg örlög Julius Assange að verða skjólstæðingur Correa forseta, sem hefur bara á þessu ári lokað 14 fréttamiðlum af því að þeir gagnrýndu hann. Gefur Assange sig ekki út fyrir að vera málsvari tjáningafrelsis og upplýsingafrelsis. Þá er í góðu samræmi við hugsjónirnar að ganga í lið með gjörspilltum forseta sem takmarkar tjáningafrelsi og hefur verið sakaður um peningaþvætti og veita eiturlyfjahringjum skjól auk Írönskum fjármagnsflutningum og nú Assange. Flottur félagsskapur það.

Afsakanir Júlíus Assange eru óneitanlega holar og ómarktækar. Þarna er maður sem þorir ekki að bera ábyrgð á gerðum sínum og gerir allt til að þyrla upp rugli til að komast hjá því og gengur býsna vel.

Það sem kemur mest á óvart og er alvarlegt í þessu máli er að vinstri sinnaða "gáfumannasamfélagið" hér á landi og víðar sem á það helst sameiginlegt að hata Bandaríkin, skuli hafna því að nauðgunarákæra sé alvarlegt mál og konurnar sem kæra Július eigi rétt á því að málið verði leitt til lykta fyrir óháðum dómstól.

Ekki heyrist nú í feministum eða hetjunum á Alþingi sem helst hafa fjallað um kynfrelsi kvenna og fordæmt brot gegn konum. Af hverju ekki? Telja þessir aðilar eins og vinstri sinnaða "gáfumannasamfélagið" að Julius Assange sé hafin yfir lög?

Mannréttindi eru algild og það er engin undanþeginn að virða þau.


Kerfið í lagi

Mikið fer maður rólegur og áhyggjulaus um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli á næstunni. Talsmenn Isavia, eftirlitsaðilans með örygginu fullvissa okkur um, að kerfið virki.

Þrátt fyrir að tveir hælisleitendur sem þóttust vera börn við komuna til landsins hafi komist óséðir  á salerni flugvélar Icelandair þá segja þeir hjá Ísavia að öryggiskerfið svínvirki þar sem þeir hafi jú fundist á kamrinum.

Þá ber einnig að hafa það í huga segja þeir hjá Ísavía að þessi fullorðnu börn frá Norður Afríku séu þaulskipulagðir og hafi ekki farið í gegn um öryggishlið. Það segja þeir að þýði að gæsla við  öryggishliðin sé mjög traust. Af sjálfu leiðir að þeir hjá Ísavía gera ekki ráð fyrir eða miða viðbúnað við að einhverjir fari inn á völlinn annarsstaðar en í gegn um viðurkennd öryggishlið. Skárri væri það nú ósvífnin.

Öryggisgæslan mun því áfram beinast að öryggishliðum, kömrum flugvéla og láta fólk fara úr skóm og taka af sér belti í öryggisskyni.  Konur við aldur munu því áfram sjást hökta í flugstöð Leifs Eiríkssonar skólausar við að missa pilsin niðrum sig og karlar við aldur bisast við að halda upp buxunum og lenda í andnauð við að reima skóna.  Allt fyrir öryggið.

Að sjálfsögðu ber enginn ábyrgð á þessu. Alla vega ekki þeir sem eiga að tryggja öryggið. Það er sagt að strákarnir í höfuðstöðvum Al Qaida séu enn að hlægja af yfirlýsingu Isavía. Vonandi gera þeir það svo lengi að það fari ekki fyrir þeim hjá Ísavía eins og Batista einræðisherra á Kúbu sem var enn að hlægja að Fidel Castró þegar hann gerði innrás í Havana.

Væntanlega er von er á yfirlýsingu frá barna- Braga Guðbrandssyni  og sr. Baldri Kristjánssyni Þorlákshafnarklerki af þessu tilefni um málefni ólöglegra innflytjenda og harðræði íslenska réttarkerfisins, en ólöglegu innflytjendurnir sem sátu á kamrinum í flugvélinni var að sjálfsögðu sleppt eftir að hafa verið leiddir út í gegn um öryggishliðið á Keflavíkurflugvelli.

Nú eins og áður þá er  Lísa í Undralandi ekki skrifuð á einum degi.


Rannsókn á embætti Umboðsmanns alþingis

Í síðustu viku vakti ég athygli á skrifum Halldórs Jónssonar verkfræðings um það hvernig Umboðsmaður alþingis kom sér undan því að rannsaka kvörtun hans vegna SpKef og Byr. Einnig hvernig Umboðsmaður brást hlutverki sínu með því að taka málið ekki upp af eigin frumkvæði sbr. 5.gr. laga um Umboðsmann alþingis.  Í kjölfarið hefur mér verið bent á að ýmis fleiri dæmi séu um að Umboðsmaður alþingis geri ekkert þegar honum er bent á brot á stjórnsýslureglum hjá núverandi stjórnvöldum.

Umboðsmaður mun hafa komið sér hjá að skoða forsendur og lagagrundvöll þess að 46 milljörðum var sóað í VBS og Saga Kapítal með vísan til þess að málið væri hjá eftirlitsstofnun EFTA.  Dæmin eru fleiri.

Umboðsmaður alþingis er eftirlitsstofnun stjórnsýslunnar með ríkar valdheimildir til að taka mál upp af eigin frumkvæði, afla allra gagna  og taka skýrslur af mönnum. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem menn hafa kosið að beina að stjórnmálamönnum og stjórnsýslunni fyrir hrun, þá hefur ekki verið rannsakaður þáttur eftirlitsstofnunar stjórnsýslunnar - Umboðsmanns alþingis.

Full ástæða er til að skoða áherslur umboðsmanns, framkvæmd eftirlits hans og málshraða. Jafnframt þarf að skoða þá samkennd sem virðist hafa ríkt með umboðsmanni og bankamönnum fyrir bankahrun.

Þekkt eru ummæli umboðsmanns á fundi með bankamönnum vorið 2007 þar sem hann sagðist ætla að gæta þess vel að eftirlitsstofnanir færu í einu og öllu eftir "skráðum og óskráðum" stjórnsýslureglum.  Umboðsmaður hvatti bankamenn einnig til að leita óhikað til sín með umkvartanir gagnvart stjórnsýslunni.

Auk þess að rannsaska starfsemi Umboðsmanns fyrir hrun þarf að rannsaka starfsemi embættisins eftir hrun. Sérstaklega þarf að skoða ástæður þess að Umboðsmaður veigrar sér við að skoða málefni sem gætu komið ríkisstjórninni illa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 10
  • Sl. sólarhring: 1211
  • Sl. viku: 3547
  • Frá upphafi: 2579332

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 3314
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband