Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Leggjum niður glórulausa skattheimtu

Hræðslan við C-19 veiruna og viðbrögð stjórnvalda hafa girt fyrir tekjumöguleika fjölmargra einstaklinga í sjálfstæðri atvinnustarsemi og rýrt verulega möguleika annarra til að afla sér tekna. Við því þarf að bregðast með því að afnema skattlagningu sem nú er með öllu óréttmæt og viðmiðanir sem standast ekki lengur.

Tryggingargjald á atvinnurekstur hvort heldur stórrekstur eða einstaklingsrekstur hefur alltaf verið ósanngjarnt. Það er fráleitt að skattleggja einstaklinga sérstaklega fyrir að vinna hjá sjálfum sér hvað þá fyrir að ráða fólk til starfa.

Nú þegar tekjumöguleikar í mörgum greinum eru engir og tekjur nánast allra einstaklinga og lítilla fyrirtækja í atvinnurekstri rýrast verulega er tvennt til vilji stjórnmálamenn gera fólki kleyft að vinna sig út úr kreppunni. Annars vegar að létta af sköttum eða skattleggja fólk og dreifa síðan skattfénu út frá ríkinu að geðþótta stjórnmálamanna.

Aðgerðarpakkar ríkisstjórnarinnar hafa því miður verið með þeim hætti, að deila peningum úr ríkissjóði í stað þess að skera burt óréttmæta skattheimtu.

Það er lífsnauðsyn fyrir vöxt og viðgang eðlilegs atvinnulífs í landinu nú og þegar þessu fári lýkur, að létta af þeim sköttum sem eru óréttmætir og sérlega íþyngjandi miðað við aðstæður. Þar kemur þá helst til að skoða að leggja niður tryggingargjaldið, sem er áreiknaður skattur upp á 6.3% af ætluðum tekjum atvinnurekandans. Þá þarf að afnema viðmiðunarfjárhæðir Ríkisskattstjóra til útreiknings staðgreiðslugjalda. 

Viðmiðunarfjárhæðir Ríkisskattstjóra fyrir atvinnurekendur segja, ef þú stundar þessa atvinnugrein átt þú að hafa þessar tekjur og greiða skatt af þeim hvort sem þú hefur þær eða ekki. Fyrir liggur að þessar viðmiðanir eru allar hrundar til grunna og þá er eðlilegt að gefa borgurnum heimild til að greiða staðfgreiðslugjald á grundvelli rauntekna eins og þær eru nú í stað ímyndaðra tekna sem Ríkisskattstjóri telur að fólk í sjálfstæðum atvinnurekstri eigi að hafa skv. reikniformúlu sem heldur engu vatni núna. 

Þessar ráðstafanir verður að gera þegar í stað og þær eru affarasælli en sú stefna ríkisvaldsins skv. þeim aðgerðarpökkum sem hefur verið spilað út, að halda skattheimtunni áfram og greiða síðan til ákveðinna aðila eftir geðþótta. 

Afnám tryggingargjaldsins og viðmiðunartekna Ríkisskattstjóra eru nauðsynleg fyrsta aðgerð til að koma á móts við einkafyrirtæki í ástandi eins og nú ríkir. Slík aðgerð er til þess fallin, að lítil og meðalstór fyirtæki geti lifað af og hún gerir ekki upp á milli einstaklinga ólíkt því sem allir gjafapakkar ríkisstjórnarinnar til þessa munu gera. 


Ólíkt hafast menn að.

Ráðherrar í ríkisstjórn Filipseyja hafa ákveðið að gefa 75% af launum sínum til að hjálpa til við baráttuna gegn Covid 19 veiruna. 

Á Íslandi ákvað ríkisstjórnin að fresta launahækkunum sínum til áramóta. 


Arðgreiðslur og ríkisaðstoð

Ríkisvaldið hefur ákveðið m.a. að greiða launþegum sem þurfa að sætta sig við skert starfshlutfall vegna Kóvit faraldursins ákveðnar bætur skv. nýsamþykktum lögum um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. 

Ljóst er t.d. að ferðamannaiðnaðurinn er hruninn tímabundið og mörg lítil einkafyrirtæki í verslun og þjónustu þurfa að draga verulega saman vegna þess að eftirspurn er mun minni en áður og í sumum tilvikum engin. 

Lögin eiga aðtryggja launþegum svipaða afkomu tímabundið eins og þeir bjuggu við áður en til þessara hamfara kom. 

Allir voru sammála þessum aðgerðum þegar lögin voru afgreidd frá Alþingi. Nú heyrist hins vegar víða úr holtum nær og fjær, að það sé hið versta mál að borga launakostnað aðila sem hafi grætt vel á undanförnum árum og eigendurnir hafi leyst til sín mikinn hagnað í formi arðgreiðslna. 

Eðlilegt er að mörgum finnist það fjarri félagslegu réttlæti að borga að sumra mati hluta launakostnað fyrirtækja, sem voru í góðum rekstri og hafa mokað inn hagnaði á undanförnum árum. En lögin og þessar greiðslur hafa ekkert með arðsemi og arðgreiðslur fyrirtækjanna að gera. Lögin og úrræðin snúa að launþegum og því, að launþegar verði ekki fyrir hnjaski. 

Þeir sem gagnrýna þessar ráðstafanir út frá sjónarmiðum svokallaðs félagslegs réttlætis sést yfir þær staðreyndir, að það er ekki verið að borga launakostnað fyrirtækja hvorki Bláa lónsins né annarra og það ættu allir að geta verið sammála um að það er betra að taka þessu vonandi tímabundna höggi með því að fyrirtækin skerði starfshlutfall og því sé mætt af ríkinu með greiðslum til launþega heldur en að fyrirtækin segi upp starfsfólki. Þá yrðu heildargreiðslur vegna atvinnuleysis mun meiri en með þessu fyrirkomulagi. 

Öllum er vonandi ljóst, að segi fyrirtæki upp starfsfólki og það starfsfólk fær greiðslur úr atvinnuleysistryggingarsjóði, þá er ekki verið að borga launakostnað fyrirtækjanna ekki frekar en þegar starfsólk fyrirtækjanna þarf að sæta skertu starfshlutfalli.

Í umræðunni nú sem fyrr skiptir máli að draga réttar ályktanir af gefnum forsendum en rugla ekki saman andstöðu við einstök fyrirtæki og eigendur þeirra græði, og þess félagslega réttlætis fyrir launafólk, sem verið er að hlúa að með lögunum.


Þriðja bylgjan

Bókin "Þriðja bylgjan" eftir Alvin Toffler kom út fyrir réttum fjörutíu árum. Framtíðarspár bókarinnar og þess sem síðar hefur komið frá höfundinum eru athyglisverðar.

Fyrsta bylgjan er í huga höfundar þegar landbúnaður ýtti til hliðar þjóðfélagi veiðimanna og safnara. Önnur bylgjan er þjóðfélag iðnbyltingarinnar. Þjóðfélag fjöldaframleiðslu, ofurneyslu, miðstýringar og skrifræðis.

Þriðju bylgjuna kallar Toffler tímabilið að lokinni iðnbyltingu. Hann sér fyrir sér þróun vísinda-og tæknisamfélags okkar tíma. Horfið yrði frá skrifræði, miðstýringu og samþjöppun vinnuafls á stórum sem smáum skrifstofum í miðborgarsamfélagi. 

Mér fannst athyglisvert að kynnast þeim framtíðarspám Tofflers, að heimavinna fólks mundi aukast til muna með tölvubyltingunni. Ekki yrði lengur þörf á að fólk væri á endalausum ferðalögum til og frá vinnu eða til fundarhald, heldur gæti það sinnt daglegum störfum heima. Við tæki að hluta það sem engilsaxar kalla "cottage economy" (sjálfsþurftarbúskapur heima við)og Global village. 

Með þriðju bylgjunni yrði dagleg þörf mikilvirkra samgöngutækja mun minni og fólk gæti notið tímans sem slík ferðalög tækju, til að hugsa um sjálft sig og notið þess að versla og njóta þjónustu í nágrenni við heimilið. Orkusparnaður yrði gríðarlegur. 

Hugmyndir Toffler um framtíðina eru heillandi. Til yrðu margir bæir í borginni, þar sem fólk mundi vinna heima og hverfin yrðu lifandi hverfi og híbýli fólks yrði staður þar sem mestur hluti vinnunar yrði framkvæmdur auk þess sem að stutt yrði að sækja í þjónustu og frístundastarf. 

Eftir því sem tölvutæknin, rafrænar undirskriftir og fjarfundarbúnaður ýmis konar hafa tekið stórstígum framförum er furðulegt hvað hægt hefur gengið að þjóðfélagið aðlagaði sig að þriðju bylgjunni. Fólk yrði  meira heima og ofurskrifstofurnar heyrðu sögunni til.

Hvernig stendur á því, að það þurfi að marséra börnum og unglingum á hverjum virkum degi í skóla til að hlusta á það sem vel má nýta tölvutæknina til að miðla fróðleik með fullkomnara hætti. 

Stöðnunin og andstaðan stafar e.t.v. af því að iðnríki okkar tíma reynir að halda í óbreytt ástand, af ótta við að yrði miðstýringu hætt og skrifræðið einfaldað, mundu borgararnir fá meira frelsi til sjálfstæðs þroskaferlis án stöðugrar mötunar ofurfréttamennskunar sem reynir að tryggja meðvitaða eða ómeðvitað hugmyndafræði alræðisríkisins sem og þeim hagsmunum að halda fólki við ofurneyslu, sem það hefur enga þörf fyrir.

Nú á tímum hræðslunnar og aðgerða stjórnvalda vegna Covid veiru faraldursins þarf fjöldi fólks að vinna heima og fær þá reynslu af því hvaða hagræði er fólgið í því. Þetta hafa skáld, rithöfundar, sem og margir fleiri áttað sig á um árabil. Nauðsynlegt er að fleiri og fleiri geri sér grein fyrir þeim kostum að stund vinnu sína að heiman. 

Ef til vill munu þessar ráðstafanir vegna Covid reynast sú blessun í þessu dulargervi, að þriðja bylgjan sem Toffler spáði fyrir um árið 1980 nái í auknum mæli fótfestu í veröldinni, öllum til góðs. 


Frestur er á illu bestur en dugar ekki alltaf.

Fjármála- og efnahagsmálaráðherra mun fljótlega mæla fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar um heimild sumra skattgreiðenda til að fresta greiðslu gjalda sinna. Tillögurnar eru nauðsynlegar en duga ekki til. 

Þegar Donald Trump tók þá glórulausu ákvörðun að loka á ferðir flugvéla frá Evrópu til Bandaríkjanna varð ljóst, að kreppan vegna Kórónuveirunnar mundi dýpka verulega. Tekjur fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga munu því óhjákvæmilega dragast verulega saman eða í sumum tilvikum verða að engu. 

Við slíkar aðstæður hefur það áhrif á allt þjóðfélagið og nánast allir rekstraraðilar verða fyrir verulegu áfalli. Þá skiptir máli að ríkisstjórnin geri ráðstafanir sem dugi. Þá þarf meira að koma til en frestur á greiðslu opinberra gjalda og markaðssetning Íslans fyrir ferðafólk.

Tvennt skiptir þar máli umfram annað sem ríkisstjórnin getur gert. Í fyrsta lagi að afnema eða lækka verulega skatta á fyrirtæki og einstaklingsrekstur m.a. með tímabundnu afnámi tryggingargjalds og ýmissa annarra rekstrartengdra gjalda á fyrirtæki. Einnig að afnema tímabundið svonefnda græna skatta og kolefnisjöfnunarskatta. 

Annað sem ríkisstjórnin getur gert til að auka verðmætasköpun í landinu er að heimila verulega auknar fiskveiðar við landið og þá er verið að tala um aukningu umfram tilmæli Hafrannsóknarstofnunar auk þess, sem að krókaveiðar yrðu gefnar frjálsar tímabundið. 

Líkur eru á að verðbólga hækki nokkuð í svona árferði með falli krónunnar og þá mælir neysluverðsvísitalan verulega hækkun án þess að raunveruleg verðmætasköpun standi á bakvið þá hækkun heldur öðru nær. Við þær aðstæður er nauðsynlegt til að vernda heimilin í landinu með því, að afnema tímabundið afleiðingar hækkunar vísitölunnar. Á sama tíma þarf að fara fram á það við bankakerfið í landinu að lækka vexti almennt bæði á almennum skuldabréfum til almennings t.d. til húsnæðislána og til atvinnurekstrarins. 

Grípa þarf til þessara aðgerða strax. Síðan getur þurft að grípa til frekari aðgerða ef kreppan vegna veirunnar dregst á langinn og dýpkar enn.  

Mikilvægt er að fara að ólíkt Trump í þessu efni og taka fumlausar, velígrundaðar og skynsamar ákvarðanir, sem eru líklegar til að styðja við bakið á þeim sem mest þurfa á að halda og koma í veg fyrir að almenningur í landinu þurfi að liggja óbættur hjá garði. 


Sigurgangan

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um ríkisfjármálin nánast óslitið frá 2013 og jafnan haft það á stefnuskránni að berjast gegn útþennslu ríkisbáknsins. Einu sinni settum við þá ungir Sjálfstæðismenn fram vígorðið "Báknið burt" En það gekk ekki eftir enda báknið orðið svo stórt að það sér um sig sjálft á kostnað skattgreiðenda. 

Nú hefur sá árangur náðst undir traustri efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár, að stöðugildum hjá ríkinu hefur aðeins fjölgað um 9.3% á síðustu 6 árum eða alls 2.101 starfsmann á tímabilinu.

Þessari hlutfallslegu aukningu í fjölgun ríkisstarfsfólks hefur engin af nágrannaþjóðum okkar náð þrátt fyrir að vondir sósíalistar hafi iðulega verið þar við völd.

Sjálfstæðisflokkurinn getur því horft stoltur til þess að hafa náð þeim árangri í baráttunni við báknið að það skuli hafa vaxið með mesta hraða í okkar heimshluta þann tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað ríkisfjármálunum.

 


Vísitölur og neytendur

Sumir hlutir eiga sér lengri lífdaga en nokkur skynsemi er til. Þannig mun enn vera embættismaður í Bretlandi sem hefur það hlutverek að skyggnast um eftir því hvort landinu stafi hætta af Flotanum ósigrandi, en sá floti leið undir lok á 17.öld.

Sama er að segja um vísitölubindingu lána á Íslandi. Ekki verður séð að það sé lengur brýnni þörf hér á landi að vísitölubinda lán, en í öðrum Evrópulöndum, en vísitölubinding neytendalána eru ekki fyrir hendi í Evrópu nema hér. 

Þrátt fyrir loforð stjórnmálamanna um að koma vísitölubundnum neytendlánum fyrir kattarnef þá hefur það ekki gerst. Þá hefur sumum dottið í hug að það væri þá rétt að breyta grundvelli vísitölunnar og taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Allar slíkar breytingar eru hæpnar nema fyrir því liggi ótvíræð rök, að þetta eigi ekki lengur heima í neysluvísitölunni. 

Húsnæði er stór liður neysluvísitölu og því fráleitt að taka þann lið sérstaklega út úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar lána. Núna kemur í ljós,að það hefði verið slæmt að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni vegna þess að litlar hækkanir á húsnæði síðustu misserin draga úr hækkun lána vegna hækkana á aðfluttum vörum vegna veikingar á gengi krónunnar. 

Það hefði því verið í meira lagi gegn hagsmunum neytenda, að breyta grundvelli vísitölutryggingarinnar að þessu leyti. 

En aðalatriðið er samt, að það er nauðsynlegt að við bjóðum íslenskum borgurum upp á sömu lánakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það er óafsakanlegt að ár eftir ár og áratugi eftir áratugi skuli íslenskir neytendur þurfa að búa við lána- og vaxtaokur sem hvergi er til í okkar heimshluta nema hér. 

Meðan stjórnmálamenn líta ekki á það sem forgangsatriði að sinna hagsmunum íslenskra neytenda þá verður vaxtaokrið áfram og í framhaldi af því ofurlaun æðstu stjórnenda bankana. Ofurlaun sem engin þjóðhagsleg innistæða er fyrir.

 

 

 


Vegin og léttvæg fundin.

Upplýst hefur verið að Sigríður Benediktsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands nýtti sér fáránlegt hagræði sem Seðlabankinn setti sem heimilaði fólki að selja gjaldeyri á yfirverði. Þeir sem áttu eignir erlendis eða störfuðu þar gátu því hagnast verulega og gerðu það.

Ein af þeim sem nýtti sér þessa leið í hagnaðarskyni var Sigríður Benediktsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands. Sá böggull fylgdi hinsvegar því skammrifi hvað hana varðar, að þetta gerði hún þvert á reglur Seðlabankans, sem bönnuðu ákveðnum stjórnendum bankans þar á meðal nefndri Sigríður að nýta sér þessa leið til auðsöfnunar. 

Þrátt fyrir að Sigríði væri bannað að selja gjaldeyrinn sinn á yfirverði, þá gerði hún það samt og komst upp með það. Þrátt fyrir ótvírætt brot á reglunum, þá gerði enginn athugasemd við þetta ólögmæta framferði Sigríðar. Þannig braut einn af framkvæmdastjórum Seðlabankans, nefnd Sigríðru þær reglur sem Seðlabankinn hafði sjálfur sett og komst upp með það.

Þannig hagnaðist Sigríður með ólögmætum hætti og taldi það eðlilegt á þeirri forsendu að forréttindaaðlinum sé það heimilt sem venjulegu fólki er bannað. 

Á árinu 2009 settist nefnd Sigríður í rannsóknarnefnd Alþingis varðandi bankahrunið ein þriggja nefndarmanna. Hún tók þátt í því ásamt meðnefndarmönnum sínum að fella dóma yfir fólki oft illa ígrundaða eða jafnvel ranga eins og Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað staðfest. Þannig voru alvarlegir dómar felldir yfir fólki sem hafði ekkert til saka unnið eða  minna en Sigríður sjálf gerir sig seka um með ofangreindu atferli. 

Svo merkilegt sem það er í þessu þjóðfélagi þá þykir stjórnendaaðli þessarar þjóðar rétt að velja fólk sem álitsgjafa og stjórnunarstarfa úr þröngum hópi einstaklinga. Sigríður er ein þeirra sem náðarsól stjórnendaaðals þjóðarinnar skín hvað skærust á. Þess vegna var hún valin til þess fyrr á þessu ári að dæma um hæfi umsækjenda í starf Seðlabankastjóra þó að hún sæti í bankastjórn stærsta viðskitpabanka þjóðarinnar, sem heyrir undir Seðlabankann. Þetta var þeim mun fráleitara þar sem að með breyttri löggjöf heyrir Fjármálaeftirlitið líka undir Seðlabankann.

Bankaráðsmaðurinn í Landsbankanum hafði því virk afskipti af vali þess aðila sem á að hafa eftirlit með bankanum hennar. 

Í gamla Rómaríki var málsháttur sem hljóðaði einhvern veginn þannig "Quod licet Jovi non licet bovi". (það sem leyfist Júpíter leyfist ekki nautinu) þ.e. guðirnir mega en ekki alþýðan. Einn þessara guða í yfirfærðri merkinu í þessu þjóðfélagi sem er heimilt að dæma aðra, en er undanþegin allri skoðun og gagnrýni vegna eigin breytni er Sigríður Benediktsdóttir, sem nýtti sér með ólögmætum hætti að hagnast á grundvelli sérreglna Seðlabankans sem henni var óheimilt að nýta sér.

Já og enginn segir neitt af því að forréttindaaðallinn er ekki dæmdur eftir sömu reglum og múgamenn.

Sigríður Benediktsdóttir, sem hefur verið óvægin í dómum sínum yfir öðrum verður þó að sætta sig við að það sem segir í 7.kap. Mattheusarguðspjalls 1-2 vers hvenær svo sem það verður:

"Dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir. Því að með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér dæmdir og með þeim mæli sem þér mælið mun yður mælt verða.


Sviss og forræðishyggja Evrópusambandsins.

Svisslendingar vildu ekki gerast aðilar að EES og fannst þeir skerða fullveldi sitt um of með því. Þeir gerðu því tvíhliða samning við Evrópusambandið. Nú krefst Evrópusambandi breytinga og hótar öllu illu ef Sviss samþykkir ekki kröfur þess. 

Evrópusambandið hefur gefið Sviss frest þangað til í júní til að játast undir ok nýs regluverks. Brusselvaldið hótar Sviss, að samþykki þeir ekki nýju reglurnar þá missi þeir rétt sem þeir eiga í viðskiptum skv. tvíhliða samkomulaginu. 

Evrópusambandið krefst þess, að Sviss játist undir lögsögu Evrópudómstólsins og taki upp regluverk Evrópusambandins m.a. varðandi innflytjendur, skattamál,landbúnaðarmál, heilsugæslu og margvísleg önnur mikilvæg þjóðfélagsmál. Samþykki Sviss kröfur Evrópusambandins, verða þeir að samþykkja löggjöf án þess að hafa nokkuð um hana að segja svipað og EES ríkin. 

Eins og víða annarsstaðar þá þrýstir viðskiptaelíta Sviss á um, að gengið verði að úrslitakostum Evrópusambandsins. Langtímahagsmunir Sviss og fullveldi virðist skipta marga úr þeirra hópi minna máli en fullveldi landsins. Á sama tíma óttast margir innan verkalýðshreyfingarinnar að réttindi og launakjör láglaunafólks verði skert þegar vinnulöggjöfinni verði breytt til samræmis við reglur Evrópusambandsins og straumur aðkomuverkafólks þrýsti lágmarkslaunum niður. 

Á sama tíma og Sviss ætlar sér ekki að samþykkja afarkosti frá Brussel og Bretar vonandi ekki heldur, ætlar Alþingi Íslands að gangast undir ok Evrópusambandsins í raforkumálum, með því að samþykkja orkupakka, sem í raun kemur okkur ekkert við. Lítil eru geð guma hefði einhverntíma verið sagt. 

Evrópusambandið er í vaxandi mæli farið að hegða sér eins og herraþjóð, sem lætur sig engu skipta hvar þeir skilja eftir sig sviðna jörð og óvini þar sem áður voru vinir. Engu máli virðist skipta þó Brusselvaldið nái sínu fram með illu og afarkostum á forsendum genginna arfakónga sem höfðu það sem einkunarorð: "Vér einir vitum."


Okurlandið Ísland, orsök og afleiðing.

Fyrrverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon sagði í gær á málþingi Neytendasamtakanna o.fl. um hátt verðlag á nauðsynjavörum,skv. fréttum að dæma, að orsök allt að 60% hærra verðs á nauðsynjavörum en í viðmiðunarlöndunum væri góð launakjör í landinu. 

Mikilvægt er að gera sér jafnan grein fyrir orsökum og afleiðingum. En það getur tæpast skýrt mun hærra verð á Kornflexi eða annarri innfluttri pakkavöru að kaupgjald hér á landi sé hærra en einhvers staðar annarsstaðar. 

Niðurstaða málþingsins var, að verðlag væri mun hærra en í viðmiðunarlöndunum. Brýnt er því að gera ráðstafanir til að íslendingar búi við svipuð kjör og eru í nágrannalöndunum. Þar er kaupgjald ekki síður hátt eins og hér á landi. 

Miklu skiptir, að neytandinn fái sem mest fyrir peningana sína það er augljós kjarabót ekki síst í háskattalandi eins og Íslandi.  

Ekki er ágreiningur,að verðlag á nauðsynjavörum er mun hærra en í viðmiðunarlöndunum þá ber brýna nauðsyn til að gera eitthvað annað í málinu en tala bara um það. Nú þegar ætti ríkisstjórnin að einhenda sér í það að skipa nefnd til að kanna hvað veldur háu verðlagi í landinu og koma með tillögur til úrbóta. Þar verða allir sem vilja eðlilega viðskiptahætti í landinu að leggjast á eitt. Miðað væri við að nefndin skilaði af sér svo fljótt sem verða má. 

Ég skora á ríkisstjórnina á alþjóðadegi neytenda, að einhenda sér í það verkefni að koma landinu úr því að vera okurland í það að búa við sambærirlegt verðlag og nágrannaþjóðir okkar búa við. Það gildir ekki bara fyrir nauðsynjavörur. Það gildir líka hvað varðar lána og vaxtakjör. Þar á meðal að afnema verðtryggingu á neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum  til neytenda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 388
  • Sl. sólarhring: 769
  • Sl. viku: 3540
  • Frá upphafi: 2513133

Annað

  • Innlit í dag: 347
  • Innlit sl. viku: 3290
  • Gestir í dag: 342
  • IP-tölur í dag: 342

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband