Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Sigraði hatrið?

Það er stundum grátbroslegt að lesa umfjöllun fréttaelítunnar. Á forsíðu "Fréttatímans" var yfirskrift fréttar "Hatrið sigraði" Ritstjóri blaðsins kemst þar að þeirri niðurstöðu, að sigur Donald Trump hafi verið sigur "kvenhaturs og rasisma" og í kjölfar ósigurs Hillary Clinton, hafi vaknað umræður um stöðu kvenfrelsis á Vesturlöndum.

Allt er þetta með nokkuð sérkennilegum blæ þegar staðreyndir eru skoðaðar. Hvergi hef ég rekið mig á kvenhatur eða rasisma í ummælum Donald Trump og einhvern veginn fór það nú svo að meiri hluti hvítra kvenna kaus Trump en ekki kynsystur sína Hillary. Segir það einhverja sögu um kvenfrelsið og sýnir það fram á sigur kvenhaturs?

Þá liggur einnig fyrir að Trump fékk meira fylgi spænskumælandi fólks en Mitt Romney sem  var forsetaframbjóðandi Repúblíkana í síðustu forsetakosningum. Þá fékk Hillary mun lakari stuðning fólks af afrískum ættum en frambjóðandi Demókrataflokksins í síðustu forsetakosningum. Bendir það til að almennt hafi fólk þar vestra litið á Trump sem fulltrúa rasisma?

Virðingaleysi margs fréttafólks fyrir staðreyndum og samhengi hlutanna er með ólíkindum. En sjálfsagt sjá vinstri sinnaðar femínístafraukur drauga í öllum áttum þegar Trump er nefndur enda reyndi Hillary að ófrægja hann vegna dónalegra karlrembuumæla sem hann lét falla fyrir meir en áratug og hefur sjálfur beðið afsökunar á og konan hans sagt að væru óviðunandi og varaforsetinn fordæmt. Getur ritstjórinn e.t.v. séð þar rætur þess að kvenhatur hafi sigrað eða nauðsyn sé á víðtækum umræðum vegna úrslita forsetakosninga í USA um stöðu kvenna á Íslandi eða USA.

Þessi litla frétt á forsíðu Fréttatímans sem ég hef hér vakið athygli á er í öllum aðalatriðum röng og tilhæfulaus. Skyldi ritstjórinn sjá ástæðu til að leiðrétta hana. Ég tel upp á að svo verði ekki enda er tilgangur svona framsetningar að byggja upp neikvæða mynd af Donald Trump og Bandaríkjunum sem vinstri sinnaðir fjölmiðlar um allan heim hamast nú við að gera.

Það sem femínistar ættu að einbeita sér að er hin stórkostlega kvenfyrirlitning og kvennakúgun sem á sér stað í Íslamska heiminum sem og grómtekinn rasismi sem boðaður er blygðunarlaust vítt og breytt í moskum vítt og breytt um heiminn m.a. í Evrópu. Það er sú staða kvenfrelsis eða frekar kvenófrelsis á Vesturlöndum sem við öll sem berjumst fyrir jafnstöðu og jafnrétti kynjana ættum að einbeita okkur að.  

 


Skrýtin kosningabarátta

Eftir umræðuþátt formannana í gær þá fundust mér aðeins þrír standa almennilega í lappirnar hvað varðar að hugsa heildstætt um þjóðarhag. Það voru þeir Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Benedikt Jóhannesson.

Síðan er að sjá hvort að aðrir kjósendur hafi metið það með svipuðum hætti og gefi einhverjum þessara þriggja atkvæði sitt.

Píratar gerðu B, C og D mikinn greiða með að boða til stjórnarmyndunar. Það þrýsti fylgi yfir til þeirra flokka.

Athyglisvert hvernig Samfylkingarfjölmiðlarnir breyttu allt í einu um afstöðu gagnvart Pírötum og byrjuðu að taka á þeim með sömu tökum og öðru stjórnmálafólki og þá kom í ljós að þeir höfðu ekkert fram að færa. Stóðu sig engan vegin í almennum umræðum og voru ítrekað gripnir í bullu og rangfærslum.

Eftir að hafa horft á umræðuþátt forustumanna smáflokkana í gær þá verð ég að viðurkenna að það voru bara málsvarar Dögunar og Flokks fólksins sem var fólki bjóðandi. Hinir voru eiginlega á sama stað og Pírataþingmaðurinn sem talar um Geimvísindastofun sem mikilvægasta atvinnutækifæri íslenskrar alþýðu.

Eftir að hafa hlustað á frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar þá áttaði ég mig á að hún er bara framboðsflokkur án takmarks né tilgangs.

Nú er að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum, en ekki er ég spámannlega vaxin ef Píratar fá ekki mun minna fylgi en kosningaspár hafa gefið þeim um langan tíma. Ef til vill er það þó bara mín óskhyggja. En sá flokkur er eitt það ömurlegasta sem komið hefur fram á stjórnmálavettvangi landsins.


Ríkisstyrktir stjórnmálaflokkar.

Ákvörðun og samstaða stjórnmálaflokkana um að stela milljörðum á hverju ári frá skattgreiðendum til að fjármagna starfsemi sína er siðlaus. Auk þess er fráleitt að flokksbrot geti gert út á ríkisstyrki og lifi til þess eins að vera framboðsflokkar út á ríkisstyrki.

Ég hef ávallt talað gegn ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokka sem og borgar-, bæjar- og sveitartjórnarstyrkjum til stjórnmálaflokka. Stykur til stjórnmálaflokks og fjármögnun á að vera ákvörðunaratriði hvers einstaklings og það er ekkert annað en siðlaus þjófnaður frá fólkinu að skylda það til að leggja fé til stjórnmálaflokka sem það er gjörsamlega á móti, en þannig er það í dag.

Af gefnu tilefni vegna þess að ruglaðasta Útvarpsstöð landsins, Útvarp Saga hefur haldið því fram að ég blandist inn í eða hafi eitthvað með hugmyndir sr. Halldórs Gunnarssonar um sameiningu smáframboða að gera þá er allt sem þar er sagt alrangt. Framboð sem njóta mikils fylgis eða lítils eiga að koma fram á grundvelli hugsjóna og baráttu fyrir ákveðnum málefnum. Telji einhver að sameining framboða á þeim grundvelli að fáir vilji kjósa þau séu forsenda sameiningar þá er þar illa tjaldað til einnar nætur og á pólitísk fölskum forsendum.

Meginatriðið er samt sem áður það að sá þjófnaður sem stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að stela peningum frá fólkinu í landinu til að fjármagna starfsemi sína er siðlaus og á að afnema.


Hræðslubandalagið

Píratar sáu fylgistölur dala í skoðanakönnunum og ákváðu því að ná sér í ókeypis auglýsingu hjá ljósvakamiðlunum með því að bjóða til stjórnarmyndunarviðræðna á grundvelli skoðanakannna.

Formaður Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem horfa upp á að veruleg áhöld kunna að vera um það miðað við sömu skoðanakannanir hvort flokkar þeirra ná þingmanni í næstu kosningum ákváðu að ganga til bandalagsins á grundvelli sömu sjónarmiða og Píratar það að mynda nýtt Hræðslubandalag.

Katrínu Jakobsdóttur tókst í nokkurn tíma að vera með humm og ha gagnvart þessum tilburðum Hræðslubandalagsins einkum vegna þess að hennar flokkur hefur verið í sókn skv.sömu könnunum. Svo fór að lokum að hún ákvað að setjast með Hræðslubandalaginu enda ljóst að ef til kæmi þá yrði hún forsætisráðherra. Velferð landsins mætti þá skoða með tilliti til þess með hvaða hætti Katrín Jakobsdóttir stóð sig sem menntamálaráðherra í tíð síðustu vinstri stjórnar.

Í framhaldinu gumar Hræðslubandalagið af því að nú verði stofnuð ný vinstri stjórn sem hafi það að meginmarkmiði að taka miklu meiri peninga frá þér skattgreiðandi góður til að auka millifærslur í ný ríkisstyrkt gæluverkefni og bruðl. Þá er það einnig yfirlýst viðfangsefni að rugla í stjórnarskránni með óskilgreindum hætti.

Svo er komið að hófsömu félagshyggju- og vinstra fólki er brugðið þegar það horfir upp á að foringjar Hræðslubandalagsins ætla að mynda nýja hreinræktaða vinstri stjórn eins og Jóhanna og Steingrímur gerðu áður og leiða hina Guðs voluðu Pírata til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.

Hófsömu félagshyggju- og vinstrafólki hrýs hugur við þessu og það spyr hvað getum við kosið fyrst svona er komið af því að það horfir á það með skelfingu hvers konar óstjórn þjóðin fengi með þessu ofurríkishyggjuliði. Það spyr hvað getum við kosið og finnst að mörgu leyti með réttu erfitt að kjósa flokka sem hafa ekki tekið til hjá sér með nauðsynlegum hætti og leyft sérhyggju og spillingarliði að fara sínu fram.

En jafnvel þetta hófsama vinstra- og félagshyggjufólk segir allt er betra en þetta glórulausa lið sem nú hefur sest niður í boði Pírata sem njóta einungis fylgis "ég er á móti fólks" úr öllum áttum.

Hugsandi fólk sem þekkir söguna er eðlilega á varðbergi og því er brugðið, ef það á eina ferðina enn að sigla upp með ríkisstjórn í sama anda og þær ríkisstjórnir sem verst hafa reynst á Íslandi.

 


Pólitískir fréttaskýringar í kufli fræðimennsku.

Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið á um að RÚV miðli fréttum með sem hlutlægustum og sönnustum hætti. Ríkisútvarpið er rekið fyrir almannafé og þess vegna geta neytendur gert kröfu til að fréttastofa RÚV standi sig ekki verr en einkastöðvar sem þurfa ekki að lúta sömu lagafyrirmælum.

Samt sem áður gerist fréttastofa RÚV sig ítrekað seka um að flytja áróður í stað frétta og lýsa einni skoðun sem þá á að vera hinn heilagi sannleikur. Kallaðir eru til stjórnmálamenn í kufli fræðimanna eins og Silja Bára Ómarsdóttir, Eiríkur Bergmann og Ólafur Harðarsson til að þrýsta áróðrinum enn betur ofaní pöpulinn.

Þessi viðleitni er áberandi þegar bornar eru saman umfjallanir fréttastofu RÚV og erlendra fjölmiðla. Í morgun var t.d. fjallað um kappræður Donald Trump og Hillary Clinton með þeim hætti í RÚV að ómögulegt var að álíta annað en Trump væri stórhættulegur "monster" og Silja Bára gaf "fræðilega"skýringu á málinu.

Í breska stórblaðinu Daily Telegraph er farin önnur leið. Átta blaðamenn lýsa sinni skoðun á kappræðunum og draga fram mismunandi hluti. Meirihlutinn segir að Trump hafi verið sigurvegari en 3 af átta hafa aðra skoðun og einn segir að kappræðurnar hafi verið "disaster" fyrir Trump. Með því að lesa skoðanir blaðamannana fæst betri mynd af því sem um gerðist, en áróður RÚV með Silju Báru í ofanálag.

Í gær var Kastljósþáttur um símtal sem Geir H. Haarde og Davíð Oddsson áttu í aðdraganda þess að stóru viðskiptabankarnir þrír féllu í október 2008. Þar láðist að geta þess sem mestu máli skiptir. Í ljós kom að veðið sem tekið var í FIH bankanum fyrir lánveitingunni reyndist fullnægjandi.

Ríkissjóður og/eða Seðlabankinn hefðu verið skaðlaus af láninu ef Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefði ekki tekið þá ákvörðun að hafna tilboði í bankann sem hefði tryggt fulla endurgreiðslu en þess í stað ákveðið að leika sér sem vogunarsjóður eingöngu til hugsanlegs ábata fyrir slitastjórn Kaupþings en áhættu fyrir ríkissjóð. Áhættan sem Már Guðmundsson tók kostaði ríkissjóð milljarða en ekki lánveitingin sjálf. Um það fjallar RÚV ekki.

Sá kafli málsins sem snýr að núverandi Seðlabankastjóra er mun athyglisverðari en símtal Davíðs og Geirs. Af hverju skyldi Kastljós eða fréttastofa RÚV ekki fjalla um það hvað þá heldur pólitísku fréttaskýrendur RÚV í kufli fræðimanna.  


Stjórnarmyndun í ljósi skoðanakannana

Undanfarið hafa Píratar séð fylgið minnka með hverri nýrri skoðanakönnun sem birtist. Þess vegna spiluðu þeir út þeirri hugmynd að vinstri flokkarnir mynduðu ríkisstjórn í samræmi við skoðanakannanir.

Forustumenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sáu við þessum ruglanda og þökkuðu pent fyrir sig. Katrín Jakobsdóttir sem á erfitt með að taka afstöðu í nokkru máli setti tilboðið í "ferli" en Samfylkingin sem er við dauðans dyr sá kærkomið tækifæri til að leika á sömu pópúlísku pípuna og Píratar.

Formaður Samfylkingarinnar lýsti áhuga á stjórnarsamvinnu Pírata og annarra vinstri flokka og rykið var dustað af Ólafi Harðarsyni stjórnmálafræðingi sem lýsti þessari auglýsingu sem merkilegustu uppákomu í íslenskum stjórnmálum í tugi ára. Enn meira ryk var síðan dustað og uppmunstraður Jón Baldvin Hannibalsson sem á sínum tíma stóð að stofnun Samfylkingarinna og hann vitnaði um þá  pólitíska blessun sem fælist í tilboði Pírata í sama anda og Steinn Steinar orti á sinni tíð um Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hjálpræðishernum.

Meira þurfti til að koma í þeirri viðleitni að fá einhverja til að glepjast. Fréttadeild Samfylkingarinnar á RÚV lagði sitt að mörkum og þriðjungur kvöldfréttatímans á sunnudagskvöldi fór í að fjalla um þetta "merka pópúlíska útspil" Pírata og kallaðir til meintir sérfræðingar til að slá þá hörpustrengi sem hentuðu Samfylkingunni.

Það er nú einu sinni þannig að það eru kosningar en ekki skoðanakannanir sem telja. Stjórnarmyndun á grundvelli skoðanakannana er hvað svo sem þeir heiðursmenn og eðalkratar Jón Baldvin og Ólafur Harðarson segja lítilfjölegt útspil málefnasnauðs flokks til að vekja á sér athygli og viðbrögð Samfylkingarinnar eru dæmigerð viðbrögð annars málefnasnauðs flokks.

Vert er að óska forustufólki Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar til hamingju með að hafa ekki fallið í Píratapyttinn, en þeir Jón Baldvin og Ólafur Harðarson geta kyrjað úr ofangreindu kvæði Steins Steinar:

"Það fékk á vor fátæku hjörtu

og færði oss huggun í sál

að hlusta á þitt Halelúja

og hugljúfa bænamál.

Halelúja Birgittu Jónsdóttir varð í umfjöllun þessara herramanna sem æðri opinberun og mikið yrði nú landinn sæll að fá Steingrím J. aftur sem ráðherra svo ekki sé talð um væri rykið dustað af fleirum krataforingjum eins og t.d. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvílík snilld yrði það nú í stjórnarmyndun að fá það dáindisfólk eða lærisveina þess aftur að stjórn landsins. Tær snilld eins og bankastjórinn orðaði Iceseifið forðum.


Helv. rasistar, nasistar og hægri öfgamenn

Morgunblaðið greinir frá því í dag að hægri öfgamenn í bænum Bautzen í Þýskalandi hafi ráðist að innflytjendum þeir hafi jafnvel haft uppi nasistayrðingar. Í málum sem þessum þarf að skoða vel hvað gerðist í stað þess að hrapa að fullyrðingum sem standast ekki eins og fréttamönnum  í dag er allt of gjarnt að gera.

Þegar málið er skoðað grannt, þá virðist eftirfarandi hafa gerst. Hópur ólöglegra innflytjenda í boði Angelu Merkel safnaðist saman á bæjartorginu í Bautzen og sinnti ekki tilmælum lögreglu og hóf að kasta m.a. eldsprengjum að lögreglu og jafnvel vegfarendum einhver meiðsli urðu vegna þessa athæfis.

Í kjölfarið safnaðist saman ungt fólk sem réðist að ólöglegu innflytjendunum og einhverjir hrópuðu að Bautsen væri fyrir Þjóðverja. Það virðist hafa verið sú nasistayrðing sem sumir fréttamiðlar vísa til. Lögregla kom þá ólöglegu innflytjendunum til síns hælis svo sem lögregluyfirvöld höfðu krafist að þeir færu áður en þeir byrjuðu aðsókn að lögreglunni.

Íbúar í Bautzen eru um 40 þúsund og pólitíska landslagið þar hefur verið þannig að Kristilegir Demókratar Merkel Kanslara og Sósíaldemókratar hafa yfirburðafylgi í bænum en hingað til hefur stuðningur við flokka hægra megin við Kristilega verið mjög takmarkaður. Íbúar Bautzen eru hins vegar afar ósáttir við stefnu Angelu Merkel og gerð voru hróp að forseta landsins vegna innflytjendamálanna, þegar hann heimsótti bæinn fyrir skömmu.

Eftir að hafa kynnt mér umsagnir fjölmargra fréttamiðla um atburðinn þá velti ég því fyrir mér, hvort unga fólkið sem safnaðist saman í Bautzen var ekki bara venjulegt ungt fólk sem ofbýður yfirgangur og skrílslæti ólöglegu innflytjendanna?

En það er alltaf handhægt til að koma í veg fyrir vitræna umræðu að hrópa: "þú talar eins og Hitler."


Krakkafréttir og innræting

Krakkafréttir, sem RÚV sjónvarpar eru ætlaðar börnum 8-12 ára. Ég sá þessar fréttir af tilviljun í gær.

Fyrsta fréttin var um Íranskan flóttamann, sem á að senda úr landi í samræmi við Dyflinarreglugerðina. Fram kom að hann væri kristinn og hefði hlotið dauðadóm í heimalandi sínu fyrir þá sök en í fréttinni sagði að afar ströng lög giltu um slíkt athæfi í Íran. Vitnað var í lögmann mannsins og vilja  biskupsins yfir Íslandi til að þessi einstaklingur fengi að vera hér áfram.

Óneitanlega skrýtið að þetta skyldi vera í krakkafréttum. Sýnir e.t.v. hversu innrætingin er mikil og víða í samfélaginu hvað varðar flóttafólk og ólöglega innflytjendur.

Fyrst á annað borð var gerð frétt úr þessu fyrir börn hefði verið eðlilegt,  að fá líka talsmann Útlendingastofnunar til að skýra málið þannig að börnin fengju ekki bara einhliða frétt.

Ég þekki ekki til þessa máls, en hef verið talsmaður þess að við eigum að taka við kristnu fólki í neyð, en það er sá þjóðfélaghópur í löndum Múslima sem sætir skefjalausum ofsóknum, þrælkun sem og einstaklings- og hópmorðum. 

Fyrst á annað borð gerð var frétt um þetta í krakkafréttum þá hefði verið eðlilegt að segja allan sannleikann um málið og m.a. það að í löndum Múhameðstrúarmanna þá líðst fólki ekki að skipta um trú og taka upp kristni, búddatrú, hindúatrú eða hvað annað sem er annað en þessa afturhaldsömu miðaldatrúarbrögð. Víða liggur dauðadómur við í því skefilega umhverfi og mannvonsku sem umlykur nú meira en minna allan hinn Íslamska heim. Skyldi fréttamönnunum hafa dottið í hug að benda krökkunum á það í fréttinni hvað við erum heppin að búa við frelsið og vera laus undan ánauð Íslam sem byggist á sömu heildarhyggjunni og kommúnisminn í Norður Kóreu.

Á það má sjálfsagt ekki minnast vegna þess að þá á fólk á hættu að vera atyrt fyrir rasisma og fordóma. Þess vegna verða jafnvel krakkafréttir svona skrýtnar í umhverfi hælisleitendainnrætingarinnar.

 


Fréttablaðið, Geert Wilders og ISIS

Stundum er athyglisvert að sjá mismunandi tök fréttamiðla á sömu frétt. Í gær sagði Fréttablaðið frá ummælum Jórdanska prinsins Zeid Ra,ad al-Hussein formanns Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann líkti baráttuaðferðum stjórnmálafólksins Geert Wilders, Donald Trump, Marine Le Pen, Nigel Farage og Viktor Orban við aðferðir ógnarsamtakana ISIS. Samlíkin ein hefði átt að kveikja allar aðvörunarbjöllur hjá fréttamiðlinum, en þess í stað þá sagði Fréttablaðið frá ummælum þessa Jórdanska prins nánast eins og þar hefði almættið einu sinni enn höndlað stóra sannleikann og greinin var að öðru leyti samfelld árás á hollenska stjórnmálamanninn Geert Wilders.

Stórblaðið Daily Telegraph fjallar um þessi sömu ummæli Jórdanska prinsins með öðrum hætti en Fréttablaðið.

Daily Telegraph gagnrýnir prinsinn fyrir að segja að frjálst markaðshagkerfi sé ógn við heiminn. Blaðið segir að Hussein prins sé heiftarlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli sín og ummæli um Geert Wilders og aðra hægri sinnaða stjórnmálamenn. Telegraph segir að Hillel Neuer yfirmaður UN Watch tali um þetta sem "loony tweed" á sama tíma og þjóðarmorð milljóna fólks eigi sér stað, sem og þrælahald og hungur.

Það er athyglisvert að skoða þessi ummæli jórdanska prinsins ekki síst vegna þess að allar tilraunir til að stjórna á grundvelli annars en frjáls markaðshagkerfis hafa brugðist. Augljósasta dæmið í dag er Venesúela þar sem milljónir búa í dag við hungur í þessu áður auðuga landi og frjálst markaðshagkerfi hefur komið hundruðum milljóna Kínverja frá fátækt til velmegunar.

Það athyglisverðasta er samt að skoða mismunandi umfjöllun breska stórblaðsins og Fréttablaðsins. Fréttablaðið er andaktugt yfir ummælum Jórdanans og tekur því eins og Guð hafi sagt það og bergmálar skoðanir hans, en Daily Telgraph vekur athygli á hversu arfa vitlaus þessi ummæli prinsins eru.

Umfjöllun Fréttablaðsins eru í samræmi við þá glórulausu pólitísku innrætingu sem þessi fjölmiðill stundar, en sjaldan hafa þeir verið teknir eins illilega í bólinu og nú.

Meðal annarra orða. Hvernig stendur á því að Jórdanskur prins er formaður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í Jórdaníu njóta konur ekki sömu réttinda og karlar, mál- funda- og tjáningarfrelsi er skert. Stöðugar árásir eru á samkynhneigða og erlent verkafólk. Trúfrelsi er skert og hluti íbúanna er svipt borgaralegum réttindum af því að þeir eiga uppruna sinn í gömlu svonefndur Palestínu. Ekkert af þessu vekur athygli Fréttablaðsins, sem skrifar á stundum eins og því sé stjórnað af fréttamiðlum frá Katar eða Saudi Arabíu.   


Lögreglunám í boði pólitískra hrossakaupa?

Það kom á óvart að menntamálaráðherra skyldi ákveða að pólitískum geðþótta að nám lögreglumanna skyldi vera við Háskólann á Akureyri, þrátt fyrir að Háskóli Íslands hefði verið talinn bestur skv. könnun ráðherrans.

Vegir skringilegra pólitískra ákvarðana eru oft álíka órannsakanlegir og almættisins. Stundum er þó varpað skímu á hvað veldur og það hefur rektor Háskólans á Bifröst gert með athyglisverðum hætti í viðtali í blaðinu Skessuhorn og á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Vilhjálmur rekur þau undirmál,sem urðu þess valdandi að menntamálaráðhera tók þessa ákvörðun.

Saga Vilhjálms er ekki falleg um pólitísk undirmál, hrossakaup og tilraunir hins nýja flokkseigendafélags í Sjálfstæðisflokknum til að varða stöður. Aðstoðarmaður Innanríkisráðherra og aðstoðarmaður Fjármálaráðherra hafa brugðist hart við ummælum Vilhjálms, en bæði eru í prófkjörsframboði í NV kjördæmi og þykir að sér vegið. 

Hver er þá sannleikurinn? Er það rétt eða rangt sem Vilhjálmur heldur fram?

Vilhjálmur Egilsson hefur hvatt sér hljóðs í þjóðmálaumræðunni, sem framkvæmdastjóri Verslunarráðs, alþingismaður, framkvæmdastjóri samtaka atvinnulífsins og nú háskólarektor á Bifröst. Vilhjálmur nýtur þess álits að vera talinn sannorður og fara ekki með fleipur.

Svo mætti minnast þess fornkveðna að sjaldan er reykur þá engin er eldurinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 292
  • Sl. sólarhring: 303
  • Sl. viku: 3793
  • Frá upphafi: 2513597

Annað

  • Innlit í dag: 274
  • Innlit sl. viku: 3551
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 256

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband