Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Kaupþingslánið og ráðsmennska Seðlabankastjóra

Kaupþing fékk 500 milljón Evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands (SÍ) 6.10.2008. Öllum sem sátu á Alþingi mátti vera ljóst að mjög var þrýst á það af ýmsum hagsmunaaðilum og ríkisstjórn að SÍ veitti Kauþingi lánið. Öllum var einnig ljóst að miklu skipti að einn af stóru viðskiptabönkunum lifði af bankakreppu. Þess vegna var lánvetingin talin áhættunnar virði.

Seðlabankinn veitti lánið að fengnum upplýsingum frá stjórnendum Kaupþings, sem að hluta til voru rangar og tók veð í nánast öllum hlutum í FIH bankanum í Danmörku til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Þegar Bretar settu hryðjuverkalög á Ísland og bankann Singer og Friedlander í eigu Kaupþings varð ekki við neitt ráðið. Kaupþing fór í slitameðferð. 

Stjórnarandstaðan og fréttamiðlar m.a. fréttastofa RÚV virðist haldin þeirir þráhyggju að símtal millil þáverandi forsætisráðherra Geirs H. Haarde og þáverandi Seðlabankastjóra og  Davíðs Oddssonar, skipti einhverjum sköpum varðandi lánveitinguna.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 22.2.s.l. er fjallað um þá staðreynd að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og INgibjargar Sólrúnar Gísladóttu var áfram um að lánið yrði veitt. Enfremur að að þeri sem tóku við í Seðlabankanum beri ábyrgð á meðferð veðsins og endurheimtu lánsins.

Viðbrögð stjórnarandstöðu  og fréttamiðla við þessum upplýsingum hafa verið með ólíkindum. Enn eru settar fram upphrópanir um símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde og síðan gert mikið úr því að Seðlabankinn beri ábyrgð á lánveitinunni eins og það liggi ekki ljóst fyrir.

Hefði Davíð Oddsson og sambankastjórarar hans í SÍ ekki haft víðtækt samráð við ráðandi aðila í þjóðfélaginu um veitingu lánsins þá hefði það verið óeðlilegt miðað við þær alvarlegu aðstæður sem blöstu við. Þá er spurningin hvort rangt hafi verið að veita lánið gegn því veði sem SÍ tók? Miðað við aðstæður á þeim tíma og þær upplýsingar sem fyrir lágu þá var það ekki.

Það sem mestu máli skiptir er að SÍ gat fengið lánið endurgreitt að fullu í september 2010. Tjón skattgreiðenda vegna neyðarlánsins til Kaupþigs hefði þá ekkert orðið.

Þannig greinir viðskiptabalað Berlinske Tidende og Morgunblaðið og raunar fleiri miðlar frá því þann 17.9.2010 að tvö tilboð hafi verið gerð í hlutabréfi í FIH-bankanum. Annað tilboðið hafi tryggt endurgreiðslu 500 milljóna evra neyðarlánsins að fullu. Ef Már Guðmundsson bankastjóri SÍ, hefði fallist á það tilboð þá hefði tjón SÍ og skattgreiðenda ekkert orðið af veitingu neyðarlánsins.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla  ákvað Már Guðmundsson að taka áhættu og fallast á annað tilboð þar sem hluti neyðarlánsins var endurgreiddur, en SÍ tók síðan áhættu af gengi danska skartgripafyrirtækisins Pandóru vaðandi eftirstöðvarnar þannig að skilanefnd Kaupþings gæti þá hugsanlega fengið einhverja fjármuni í sinn hlut. SÍ undir stjórn Más ákvað því að taka áhættu án ávinnings nema þá fyrir þriðja aðila. Þetta virðist hafa verið gert án samhliða kröfu til þess, að slitabúið myndi ábyrgjast  greiðslu þess sem ekki fengist greitt af láninu.

Með þessari ákvörðun setti Már Guðmundsson hagsmuni skattgreiðenda í hættu. SÍ gat aldrei fengið meira en sem nam andvirði neyðarlánsins og eini aðillinn sem gat hagnast á þessari ráðstöfun var skilanefnd Kaupþings.

Það þarf ekki að rannsaka neitt eða hlusta á símtöl. Málavextir liggja ljósir fyrir. Í fyrsta lagi þá var um eðlilega lánveitingu að ræða til Kaupþings með neyðarláninu upp á 500 milljónir evra miðað við aðstæður. Í öðru lagi gætti SÍ þess að taka fullnægjandi veð og í þriðja lagi þá virðist núverandi bankastjóri SÍ hafa teflt hagsmunum bankans í hættu með því að taka ekki tilboði um sölu veðsins í september árið 2010 sem tryggt hefði fulla endurgreiðslu neyðarlánsins. Niðurstaða þess ræðst ekki endanlega fyrr en í árslok 2015.

Mér er það ráðgáta að fjölmiðlar og stjórnmálamenn þessarar þjóðar skuli ekki gera sér grein fyrir jafn einföldum staðreyndum og greina aðalatriði frá aukaatriðum og átta sig á hver er Svarti Péturinn í spilinu.

(Grein í Morgunblaðinu birt 24.2.2015)

 


Til varnar Jóni Kristinssyni Gnarr

Þó ég hafi ítrekað gagnrýnt Jón Kristinsson sem kallar sig Gnarr vegna ýmissa sjónarmiða sem hann hefur sett fram, þá erum við sammála um það grundvallaratriði að hver borgari hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar hversu gáfulegar eða vitlauasar sem öðrum finnast þær.

Í pistli sínum í dag bendir Jón réttilega á að Guð er ekki einkamál presta og að þeir séu engir rétthafar að guðshugtakinu. Í því sambandi má benda Jóni Kristjánssyni á það að Jesús segir að hverjum og einum sé heimilt að nálgast sig með þeim hætti sem hann/hún óskar. Jesús segir það beinum orðum að engin hafi einkarétt á guðshugtakinu eða að nálgast sig heldur geri það hver sem er eftir vilja og skilningi á boðun hans.

Kerfisfólk allra tíma hefur hins vegar viljað takmarka rétt einstaklingsins til þeirrar sjálfstæði nálgunar sem Jesús boðar. Kerfismennirnir tóku yfir á  kirkjuþinginu í Níkeu 325 með afleiðingum sem að mínu viti hamlar eðlilegri nútímalegri boðun Kristinnar trúar.

Í annan stað biður Jón um að trúaðir virði rétt hans til að hafa aðra skoðun. Af sjálfu leiðir að við sem viljum frelsi einstaklingsins og skoðanafrelsi virðum þann rétt.

Í þriðja lagi segir Jón Kristinsson orðrétt: "að ekki megi gera grín að trú fólks. Það þykir mér hættulegt viðhorf."  Breski leikarinn Rowand Atkinson (Mr. Bean) hefur ítrekað bent á þetta sama, en þar skiptir sköpum hverrar trúar fólk er. Kristið fólk lætur grín um trú sína yfir sig ganga, en ítrekað höfum við orðið þess vör á síðustu vikum að það gera Íslamistar ekki. Það er mikilvægt að við á Vesturlöndum ítrekum stöðugt þessi sjónarmið. Það á að vera heimilt og refsilaust að gagnrýna og gera grín að trúarskoðunum og sérhópum, þó hver verði að bera ábyrgð skoðana sinna. 

Það er grundvallaratriði að einstaklingarnir hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar í lýðfrjálum löndum og við tileinkum okkur öll þau viðhorf sem að eignuð eru heimspekingnum Voltaire. "Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég er tilbúinn að leggja mikið á mig til að þú fáir að halda þeim fram. " 


Spáð fyrir um bankahrun?

Ítrekað halda fjölmiðlungar því fram að Lars Christiansen hafi spáð fyrir um bankahrunið í skýrslu sinni "Iceland Geysir crisis" árið 2006. Það gerði hann ekki. Skýrslan fjallar um ofhitnað efnahagskerfi og hvaða bankana varðar að þeir gætu lent í mótvindi og þurft að selja hluta eigna sinna erlendis. En ekkert bankahrun var í spilunum hjá Lars

Það ber ekki vott um góð vinnubrögð hjá fjölmiðlafólki þegar það heldur ítrekað fram að eitthvað sé með allt öðrum hætti en það er og það jafnvel þó búið sé að leiðrétt það oftar en einu sinni.

Þeim varnaðarorðum sem Lars Christiansen kom með í skýrslu sinni árið 2006 var vísað út í hafsauga af ráðandi stjórnmálamönnum og útrásarvíkingum sem töldu skýrsluna sína afbrýðisemi Dana út í viðskiptalegu ofurmennin með hið sérstaka viðskiptagen sem forseti lýðveldisins talaði um.

Það væri e.t.v. mikilvægara fyrir þjóðina að skoða það hvað Lars sagði í raun og veru árið 2006, hvernig brugðist var við og hverjir andmæltu því sem hann sagði og hverjir tóku undir með honum og vöruðu við. 

Í framhaldi af varnaðarorðum Lars Christiansen árið 2006 um ofhitnað efnahagskerfi ákváðu þáverandi stjórnarflokkar að hækka útgjöld ríkisins um rúm 20% að raunvirði til að ofhita það ennþá meira. Slík var hagspekin.


Gegn Guði

Eftir að Jón Ásgeir helsti skuggastjórnandi 365 miðla hf gerði mágkonu lögmanns síns að yfirstjórnanda miðilsins var það eitt fyrsta verkið að láta fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins hætta með laugardagspistla sem hann hafði skrifað um árabil. Þeir pistlar voru skrifaðir á vandaðri íslensku og fjölluðu jafnan um Evrópusambandið.

Í staðinn var Jón sem kallar sig Gnarr fenginn sem pistlahöfundur. Stílbrögð hans eru til muna einfaldari og fjalla um pistlahöfundinn sjálfan upplifanir hans og baráttu. Síðasti pistillinn sem hefði eins getað heitið "Barátta mín" fjallar um átök pistlahöfundar við Guðdóminn og þá niðurstöðu hans að Guð sé ekki til.

Raunar eru þessar hugleiðingar borgarstjórans fyrrverandi léleg eftiröpun á heimspeki Friedrich Nietsche sem sagði m.a. á næst síðustu öld: "Faðirinn í Guði hefur verið rækilega afsannaður" Niðurstaðan var síðan hin sama og hjá Jóni Gnarr að afneita allri tilvist æðri máttar af því að Guð væri dauður eða ekki til. 

Þó pistlar ritstjórans fyrrverandi hafi á stundum verið einsleitir þar sem hann fjallaði nánast eingöngu um Evrópusambandið, þá er þar þó af meiru að taka og mun víðtækra, mikilvægaara og flóknara viðfangsefni en umfjöllun Jóns Gnarr um sjálfan sig.

Hætt er við að fljótlega þrjóti Jón Gnarr örendið ef hann ætlar eingöngu að einbeita sér að umfjöllun um þetta takmarkaða viðfangsefni,sjálfan sig og barátttu sína. Þó er dæmi þess að stjórnmálamaður fyrir miðja síðustu öld í Þýskalandi hafi um árabil haldið úti skrifum um sjálfan sig og baráttu sína og endað með  því að gefa út bók um efnið,  sem hét einmitt því merka nafni

"Barátta mín."  


Gerist þetta aldrei hér?

Skothvellir glumdu í annars friðsælli Kaupmannahöfn í gær. Enn einn Íslamisti ákvað að ráðast annars vegar gegn Gyðingum og hins vegar gegn tjáningarfrelsinu, þar sem drepa átti sænskan skopmyndateiknara sem hafði teiknað kjánalega mynd af spámanninum. Íslamistinn drap tvo og særði þrjá í skotárásunum.

Getum við verið viss um að samskonar atburður gerist ekki hér ef einhver sem Íslamistar telja rétt að drepa er hér á landi eða kemur sem gestur. Það væri barnalegt að álíta að svo væri. Þessi skotárás í Kaupmannahöfn í gær er umfram það sem höfundar bókarinnar "Íslamistar og naívistar" ímynduðu sér þegar þeir skrifuðu bókina. Grundvöllurinn sem höfundarnir ganga út frá er þó enn í fullu gildi. Þöggunin og neita að horfast í augu við þá ógn sem frelsi og mannréttindum stendur af Íslamistum.

Varnaðarorð mín sem komu fram í grein árið 2006 m.a. um syni Allah og fordæmd voru af vinstri menningar- og fréttaelítunni sem rasismi eru nú staðreynd og almennt viðurkennd. Vestrænar ríkisstjórnir glíma við vandann vegna andvaraleysis. Hryðjuverkaárásir Íslamista hafa verið gerðar í Madríd, París, London, Kaupmannahöfn, Amsterdam o.s.frv. o.s.frv.

Á sama tíma er vinstri sinnaða menningar- og fréttaelítan upptekin við að hundelta alla þá sem vara við ógninni. Sú ógn sem stafar af Íslamistunum og hugmyndafræði þeirra veldur hins vegar ekki vökunum hjá þessu fólki. Ekki þykir ástæða til að fjalla um ógnina nema í almennu framhjáhlaupi í almennum fréttatímum. Meiri tíma er varið í að eltast við fólk vegna ummæla um staðsetningu mosku og þegar Ásmundi Friðrikssyni þingmanni varð fótaskortur á tungunni. Ítrekað er Ásmundi líkt við fjöldamorðingjann Breivik í íslenskum blöðum. Það finnst fréttaelítunni allt í lagi og ekki þurfi að amast við eða fordæma slíkt.

Við getum ekki lengur litið á atburðina sem gerðust í París fyrir nokkru og nú í Kaupmannahöfn sem einangruð fyrirbrigði sem kom fyrir annað fólk langt í burtu. Ógnin er fyrir hendi í öllum lýðræðisríkjum Vesturlanda.

Markmið Íslamistanna er að eyðileggja vestræn mannréttindi og frelsi. Það er skylda allra sem unna mannréttindum og einstaklingsfrelsi að berjast gegn þeirri ógn hvað sem það kann að kosta. Í þeirri baráttu er ekki hægt að gefa afslátt og þeir sem ítrekað líta undan og láta sem ekkert sé eru svikarar við þau gildi sem hafa fært þjóðum heims frelsi, mannréttindi og velmegun.

 


Læknaverkfall og RÚV

Enn einu sinni kom fréttastofa Ríkisútvarpsins á óvart í síðasta læknaverkfalli.

Burtséð frá því hvort kröfur lækna væru sanngjarnar eða ósanngjarnar eða hvort samningamenn ríkis eða lækna væru bilgjarnar eða óbilgjarnar þá afsakaði það ekki með hvaða hætti fréttastofa Ríkissjónvarpsins flutti fréttir á þeim tíma sem læknaverkfallið stóð.

Dag eftir dag í hverjum fréttatíma voru samviskusamlega fluttar fréttir af þeirri vá sem væri að skapast á sjúkrahúsum og þá hættu sem landsmönnum væri búin ef svo héldi fram sem horfði varðandi læknadeiluna. Þá voru okkur samviskusamlega flutar fréttir af einstaklingum sem ættu um sárt að binda vegna verkfalls lækna. Svo langt gekk það að daginn áður en samið var flutti ríkissjónvarpið fréttir af ungum dreng sem væri fórnarlamb læknaverkfallsins jafnvel þó að í ljós kæmi síðar að aðgerð hans og töf á því að ljúka henni hefði ekkert með læknadeiluna að geera.

Einhliða áróður og ávirk umfjöllun fréttastofu RÚV af læknadeilunni og meint ömurlegt ástand í heilbrigðismálum var langt frá því að vera hlutlæg umfjöllun og minnti um margt á áróðursferðina sem þessi sama fréttastofa fór í gegn mönnum og málefnum frá október 2008 og fram á mitt ár 2009 í framhaldi af bankahruninu.

Fyrst á annað borð er verið að troða upp á mann ríkisrekinni fréttastofu sem fólk verður að borga fyrir hvort sem því líkar eða ekki þá er lágmarkskrafan að gætt sé þokkalegrar hlutlægni við val og framsetningu frétta og fréttaflutningurinn sé vandaður og ítarlegur. En því miður þá skortir á allt þetta.

Mér verður stundum hugsað til þess þegar sá mæti fréttamaður Haukur Hólm var einn um hituna á Útvarpi Sögu að þá fannst mér hann flytja mun vandaðri og ítarlegri fréttir en nú þegar hann er ásamt þeim tugum fréttamanna sem daglega koma að því að vinna fréttir fyrir okkur á RÚV.  Óeintanlega veltir maður því fyrir sér hvað veldur.


Guðlastið og hatrið.

Ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir samhengi hryðjuverkaárásar Jihadistanna á blaðið Charlie Hedbo og 125.gr. almennra hegningarlaga á Íslandi um guðlast. Þingflokkur Pírata og Egill Helgason eiga því þakkir skyldar fyrir að leiða okkur í allan sannleika um raunverulegt orsakasamhengi þeirra hluta enda gildir hér hið fornkveðna. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Þingflokkur Pírata hefur tilkynnt að í tilefni árása og morða Jihadista á starfsfólki franska blaðsins Charlie Hedbo telji þeir rétt að 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast verði afnumin. Ekki verður alveg séð orsakasamhengið milli veru 125.gr. almennra hegningarlaga í löggjöf landsins og árásarinnar, en þar sem Egill Helgason pistlahöfunur hefur blessað þetta sem eitt mesta nauðsynjamál varðandi breytingar á löggjöf landsins af gefnu tilefni, þá hlítur svo að vera.

Hægt er að taka undir með Pírötum og Agli Helgasyni að þetta ákvæði í refsilöggjöf er óþarft og almenn æruvernd og friðhelgi einstaklinga og samtaka á að vera varin af almennum ákvæðum hegningarlaga. Það þarf því að skoða það mál í samhengi og hvort ekki sé rétt að breyta fleiru.

Í tilefni fréttatilkynningar Pírata um að þeir vilji afnema 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast þá er rétt að þeir gaumgæfi hvort ekki sé líka rétt að afnema 233.gr.almennra hegningarlaga svonefnt hatursákvæði.  Ekki verður annað séð en að blað eins og t.d. Charlie Hedbo hefði ítrekað gerst sekt um brot gegn þeirri grein almennra hegningarlaga ekki síður en 125.gr. almennra hegningarlaga.

Þó visst tilefni sé til að hafa bæði 125.gr. og 233.gr. almennra hegningarlaga þá vega almenn rök tjáningarfrelsis þyngra um að afnema beri þessi sérákvæði æruverndar enda eru þau fyrst og fremst notuð til að koma í veg fyrir eðlilega umræðu og kímni eins og leikarinn Rowand Atkinson (Mr. Bean) hefur ítrekað bent á.

Gott mál afnemum hvorutveggja og miðum við að allir séu jafnir fyrir lögunum og njóti sömu æruverndar.

 


Mótmæli gegn ímyndaðri aðför

Hópur fólks ætlar að efna til samstöðufundar gegn meintri aðför að RÚV kl. 17 síðdegis. En hvaða aðför er verið að tala um?  Þeir sem fyrir fundinum standa og stjórnarandstaðan heldur því fram að verið sé í skipulagri aðför að RÚV undir forustu ríkisstjórnarinnar. Aðförin að RÚV sem talað er um er þó ekki til staðar nema í hugarheimi stjórnaranstöðunnar og samtöðuaðilanna sem ætla að skunda á Austurvöll í dag og treysta sín heit við stofnunina.

Fyrir nokkru rétti menntamálaráðherra RÚV um hálfan milljarð til að mæta útgjöldum vegna viðvarandi tapreksturs RÚV og jafnframt til að fresta því óumflýjanlega. Varla getur gjafmildi menntamálaráðherra á kostnað skattgreiðenda talist vera í aðför að RÚV. Þetta er fyrst og fremst aðför gegn skattgreiðendum.

Lífskúnstnerinn og listamaðurinn Jakob Magnússon einn þeirra sem stendur fyrir samstöðufundi ímundunarveikra á Austurvelli síðar í dag segir þann tilgang vera helstan með fundinum

"að við fáum að borga okkar útvarpsgjald með atbeina ríkisins"

Það þýðir að samstaðan er um að ríkið taki útvarpsgjöld af öllum hvort heldur þeir vilja þjónustuna eða ekki. Fundur Jakobs og félaga er þá samstaða um skattheimtu þeirra sem ekki vilja þjónustu fjölmiðils. Síðar talar Jakob um að hann vilji fá að borga 2.000 krónur á ári í útvarpsgjald og virðist ekki gera sér grein fyrir að útvarpsgjaldið er nánast tíu sinnum hærri fjárhæð.

Ímundunin og vænisýkin getur ekki orðið öllu meiri en staðfest er í viðtali við Jakob Magnússon. Í fyrsta lagi á að halda samtsöðufund til að mótmæla aðför að RÚV, sem engin er. Þvert á móti liggur fyrir að stofununin fær aukafjárveitingu. Í annan stað þá er það ímyndun fundarboðenda að útvarpsgjaldið sé 2.000 krónur þegar það er tæplega tíu sinnum hærra.

Væri nú ekki í ráð að ná samtöðu um að útvarpsgjaldið verði árlega það sem boðendur samstöðufundarins á Austurvelli berjast fyrir að útvarpsgjaldið verði kr. 2.000. Mér finnst ástæða til að hvetja fólk til að mæta og krefjast þess með Jakobi að útvarpsgjaldið verði í samræmi við það sem hann talar um eða 2000 krónur á ári.

 


Óbilgjarnir öfgasinnar

Guðmundur Andri Thorson segir í blaðagrein að óbilgjarnir öfgasinnar sæki að Ríkisútvarpinu með linnulausum árásum. Ekki gerir greinarhöfundur tilraun til að skilgreina hvað felist í því sem hann kallar óbilgjarnar árásir öfgasinna.

Nú er það svo að gagnrýni á RÚV er af mörgum og mismunandi toga. Einn hópur telur að þar sé um að ræða pólitíska hlutdrægni. Aðrir gagnrýna á þeim forsendum að það sé ekki nægjanlega faglega unnið og metnaður ekki nægur. Enn aðrir gagnrýna RÚV vegna stöðnunar og þess að ekki sé brotið upp á nýungum. Svo eru þeir sem segja að ekki sé farið nægjanlega vel með það mikla fé sem stofnuin fær af nefskatti fólks og fyrirtækja. Loks eru það óbilgjarnir öfgasinnar eins og ég að mati Guðmundar Andra sem gagnrýna það að geta ekki valið um það hvort ég vilji vera áskrifandi eða ekki.

Það er brot gegn sjálfsákvörðunarrétti mínum sem borgara að skylda mig til að greiða til ljósvakamiðils í eigu ríkisins. Með því að hafa þá skoðun er ég orðinn óbilgjarn öfgasinni?

Stofnun eins og RúV verður að þola gagnrýni. Stofnun eins og Rúv verður að sætta sig við að forsendur rekstrar ríkisfjölmiðils eru allt aðrar nú þegar hægt er að nálgast fréttir og afþreyingarefni með einföldum hætti nánast hvar sem er. Stofnun eins og RÚV hefur ekki brugðist við kalli tímans og brotið upp á nýungum í takti við breytingar á fjölmiðlaumhverfinu.  Ég get með engu móti séð hvernig það kemur heim og saman að þeir sem gagnrýna stöðnun og vond vinnubrögð RÚV séu óbilgjarnir öfgamenn sem vilji sundra þjóðinni.

Ekki dettur mér í hug að kalla Guðmund Andra óbilgjarnan öfgasinna þó við séum ekki á sama máli varðandi hljóðvakamiðlun. Mér finnst það hinsvegar öfgar hjá öllum þeim sem telja rétt að svipta mig og aðra frelsi til að vera áskrifendur að eða ekki áskrifendur að RÚV. Þeir eru að stela peningunum okkar til að þjóna lund sinni. Er slíkur þjófnaður á annarra fé með samþykki meiri hluta Alþingis ekki mun frekar brot á réttindum frjálsborins fólks til að ráða málum sínum sjálft?

Hver er þá óbilgjarn öfgasinni? Sá sem vill frelsi eða sá sem vill halda við helsi og frelsisskerðingu?


Nefskattur RÚV

Vinur minn sagði farir sínar ekki sléttar og telur að það sé verið að ræna sig með nefskatti til RÚV. Borga þarf 18.000 krónur fyrir hvert fullorðið nef og lögaðila.

Þetta þýðir hjá vini mínum að hann þarf að borga sjálfur eitt gjald, konan hans annað, einkahlutafélag hans eitt gjald og einkahlutafélag konunnar eitt gjald. Samtals greiða þau því fyrir sig og einkahlutafélögin sem horfa aldrei á sjónvarp eða hlusta á útvarp kr. 72.000.-

Eitt af því sem er það versta við lýðræðisþjóðfélagið er ótti þeirra sem fara með löggjafarvaldið við lýðræðið. Í samræmi við það treystir meirihluti alþingismanna ekki einstaklingunum til að taka ákvörðun um það hvort þeir vilji borga fyrir áskrift að RÚV eða ekki. Þeir skulu borga með góðu eða illu hvort sem þeir nýta þjónustu RÚV eða ekki.

Hvernig væri að við færum að velta fyrir okkur hvernig við aukum lýðræðið í landinu með því að gefa borgurnum meiri rétt til að taka ákvarðanir fyrir sig í stað þess að einvhverjir kallar og kellingar á Alþingi taki ákvörðunarvaldið af einstaklingunum.

Hvernig væri að þú fengir að ráða því hvort þú vilt kaupa áskrift að RÚV eða ekki

Hvernig væri t.d. að þú réðir því í hvaða lífeyrissjóði þú ert eða hvernig þú vilt haga sparnaði þínum innan eða utan lífeyrissjóðs.

svo dæmi séu tekin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 639
  • Sl. sólarhring: 822
  • Sl. viku: 4106
  • Frá upphafi: 2603813

Annað

  • Innlit í dag: 603
  • Innlit sl. viku: 3844
  • Gestir í dag: 574
  • IP-tölur í dag: 560

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband