Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Hyskið á landsbyggðinni og útældi skíturinn á gólfinu

Rithöfundur sem ég held töluvert upp á talar í dag um hyskið á landsbyggðinni. Um daginn talaði skipuleggjandi mótmælafundar á Austurvelli um útældan skít á gólfi. Er svona orðfæri viðeigandi í umræðu siðaðs fólks?

Sýnir þetta ekki skort á að fólk gæti hófs í almennri umræðu og sýni hvort öðru tilhlhýðilega virðingu.

Fólkið á landsbyggðinni er ekki hyski heldur almennt gott fólk. Með sama hætti og það fólk sem býr í Reykjavík og foringi Framsóknarflokksins kallaði einu sinni "Grimsbýlýðinn" er líka almennt gott fólk. Að nota orðið hyski eða lýður er því orðanotkun sem lýsir hroka þess sem notar það og lítilsvirðingu gagnvart þeim sem hljóta þessar einkunnir.

Þegar stærstu viðskiptabankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 varð þjóðin fyrir verulegu áfalli og þurfti að horfast í augu við að við vorum ekki með sérstök viðskiptagen sem gerðu okkur að "übermenschen"(ofurfólki) í viðskipta- og fjármálalífi eins og forseti lýðveldisins talaði iðulega um. Við vorum í besta falli fyrirhyggjulítið fólk í fjármálum.

Í framhaldi af því virðist eins og annað Hrun hafi orðið, sem birtist oft í illvígri umræðu, illmælgi gagnvart mönnum og málefnum þar sem stöðugt er verið að kenna einhverjum um það, sem ef til vill var, ef betur er að gáð ansi mörgum að kenna.

Það skiptir máli fyrir þjóðina til að komast áfram í tilverunni og skapa sér og afkomendum sínum betri tilveru og betri lífskjör að sýna hvort öðru virðingu og gaumgæfa hvað horfir til framfara.

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja er orðtæki sem er alveg rétt. En það má hins vegar ekki láta fortíðina skyggja svo á framtíðina að hún verði ekki. 


Fréttablaðið, maðurinn og boltinn.

Fjölmiðlafólk sem margt vinnur við að setja fram skoðanir og gagnrýna aðra, á oft erfitt með að taka gagnrýni. Sér í lagi þegar svara verður vant. Þá er stundum gripið til þagnarinnar. Stundum til útúrsnúninga en ef viðkomandi hefur engin rök og getur ekki svarað málefnalega þá grípa lélegir fjölmiðlar stundum til þess ráðs að fara í manninn sem gagnrýndi og setja á hann stimpil sem á að gera hann ótrúverðugan.

Í bloggfærslu fyrr í vikunni benti ég á að Fréttablaðið færi rangt með staðreyndir og höndlaði þær eins og blaðið væri komið í kosningabaráttu fyrir Jón Gnarr.  Engin á Fréttablaðinu hefur getað svarað þessari réttmætu gagnrýni og þar sem svara varð vant var ákveðið að fara í manninn sem gagnrýndi og hengja á hann merkimiða.  Þetta var innleggið til að sýna fram á að lítt mark væri á gagnrýninni takandi.

Nú tel ég mér heiður af því að vera í þeim hópi sem blaðið bendlaði mig við en þar greinir menn þó á um ýmislegt. En þessi merkimiði kemur málinu ekkert við þar er reynt að fara í manninn en ekki boltann eins og allir góðir KR ingar skilja.  Eftir stendur að blaðið gerir kjánalega tilraun til útúrsnúninga af því að það treystir sér ekki til að svara málefnalega. 

Er við því að búast að umræða geti verið vönduð og málefnaleg þegar fjölmiðlar kinoka sér við að halda uppi málefnalegri umræðu en telja þess í stað rétt að bullukollast um menn og málefni.

það skiptir máli að fjölmiðlar séu vandaðir og taki sjálfa sig alvarlega og taki tillit til réttmætrar gagnrýni í stað þess að stuðla að ómálefnalegri umræðu út í bláinn.

 

 


Er RÚV hemill á framsækna fjölmiðlun í landinu?

Samkvæmt reikningum 365 miðla helsta fjölmiðlafyrirtækis landsins fyrir utan RÚV, þá eiga 365 miðlar ekki fyrir skuldum og og vantar þar marga milljarða upp á.  En skuldir 365 miðla umfram eignir nema samt ekki meiru en því sem árlega er lagt til RÚV af skattgreiðendum.

Fjölmiðlar sem 365 reka hafa oft verið framsæknir og tekið upp nýungar þegar ríkisfjölmiðillinn svaf. Til upprifjunar má minna á að Stöð 2 varð fyrst til að taka upp almennilegt barnaefni m.a. á laugardagsmorgnum. Stöð 2 stundaði lengi metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð og áfram mætti telja. Í dag er Bylgjan ein besta útvarpsstöð landsins.

Meðan morgunútvarp RÚV ætlar alla lifandi að drepa úr leiðindum og með slappar fréttir, þá er Bylgjan með lifandi skemmtilegt og fræðandi morgunútvarp. Sama er að segja um síðdegisútvarp Bylgunar sem ber af þó þar sé minni munur en á morgnana. Sá þáttur á RÚV sem tekur eiginlega helst fram því sem Bylgjan hefur fram að færa er þáttur Andra Snæs og Guðrúnar Dís sem er með skemmtilegasta útvarpsefni RÚV.

RÚV hefur sérstöðu á markaðnum. Árlega greiða skattgreiðendur RÚV meir en 5 milljarða. Forskot RÚV á auglýsingamarkaði er líka gríðarlegt. Samt er RÚV skuldum vafinn fjölmiðill. Hvernig er hægt að reka einn fjölmiðil sem hefur þetta gríðarlega forskot svona illa? Hvernig geta aðrir fjölmiðlar staðist ríkisfjölmiðlinum snúning þegar forgjöfin er svona mikil?

Með því að taka rúma 5 milljarða á ári til að leggja til eins fjölmiðils er verið að draga úr samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum og koma í veg fyrir að upp spretti þúsund blóm í stað visins fjölmiðlaakurs RÚV.

Sennilega mundi það koma best íslenskri fjölmiðlun, blaðaútgáfu, ljósvakamiðlun, öryggi, menningu og tungu að ríkið hætti öðrum fjölmiðlarekstri en þeim sem væri vegna öryggis og fræðslu en veitti þess í stað styrki til innlendrar þátta- og dagskrárgerðar. Jafnframt hyrfi RÚV af auglýsingamarkaði, en það eitt ætti að geta tryggt eðlilegan framgang þeirra fjölmiðla sem eiga erindi við neytendur jafnt blaða sem ljósvakamiðla.


Breyttist eitthvað við bankahrunið?

Þegar stóru viðskiptabankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 opnaðist fyrir fólki margt furðulegt í fjármálaheiminum. Margir ráku augun í að sami eða sömu aðilar áttu ógrynni félaga sem áttu síðan hvort í öðru og mynduðu ógrynni af viðskiptavild og óefnislegum verðmætum sem voru síðan einskis virði.

Spurningarnar sem vöknuðu hjá fólki voru m.a. af hverju þurftu sömu aðilar að eiga tug eða hundruð einkahlutafélaga þegar eitt hefði  verið nóg nema þegar þurfti að millifæra, búa eitthvað til og kaupa þrotabú félaga í eigu sömu aðila. Þá spurði fólk líka hvernig á því hefði staðið að stjórnendur gjaldþrota bankanna hefðu verið svo vitlausir að lána félögum sem voru í raun gjaldþrota ef ekki hefði tilkomið bókhaldslegar færslur um svonefnd óefnisleg verðmæti.

En hefur eitthvað breyst?

Helsti samnefnari eigenda fjölmiðlasamsteypunnar 365 miðla, sem á 99.97% hlutafjár hefur  sett  hlutafjáreign sína að veði til  Landsbankans. Hvað skyldi vera virði þeirra?

Heildarskuldir 365 eru í dag 7.6 milljarðar og heildareignir eru 8.4 milljarðar samkvæmt nýju uppgjöri. Í sjálfu sér fínt þegar skuldsett félag á  700 milljónum meira en það skuldar. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að 5.7 milljarðar af eigninni er óefnisleg,viðskiptavild. Rauneignir félagsins eru bara 2.4 milljarðar.

Nýi Landsbankinn hefur lánað 365 miðlum 7 milljarða þrátt fyrir að efnislegar eignir félagsins séu aðeins 2.4 milljarðar eða þriðjungur lánsins.  Er einhver glóra í svona lánveitingum. Hvað skyldu nú vökulir rannsóknarblaðamenn og margverðlaunaðir fréttahaukar á RÚV og víðar hafa um þetta að segja? 


Kosningabarátta Fréttablaðsins

Fréttablaðið hefur hafið markvissa baráttu fyrir því að koma Jóni Gnarr fyrrum borgarstjóra í embætti forseta Íslands. Fyrsti liður baráttunnar var að gera skoðanakönnun þar sem yfir 800 manns voru spurðir og af þeim nefndu rúm 15% Jón Gnarr sem einstakling sem þeim hugnaðist.

Næsta skref blaðsins í baráttunni fyrir kjöri Jóns Gnarr var að birta forsíðufrétt með stríðsletri á forsíðu helgarblaðsins þar sem fullyrt var að 40% landsmanna vildi fá Jón Gnarr sem forseta. Sú fullyrðing var röng, en gaf hins vegar kosningastjórn Jóns Gnarr á Fréttablaðinu tilefni til að  birta við hann drottningarviðtal í blaðinu, sem var þá þriðja skrefið í baráttu blaðsins fyrir kjöri mannsins.

Nýjasta skref Fréttablaðsins í baráttunni og það fjórða á þrem dögum er ritstjórnargrein þar sem ritstjóri blaðsins telur Jón Gnarr verðugan fulltrúa sem baráttumann fyrir alheimsfriði.  Fyrst það gerir Jón Gnarr hæfastan íslendinga til að verða forseti þá hefði þjóðin samkvæmt þessari rökfræði betur kosið Ástþór Magnússon á sínum tíma sem fulltrúa allsherjarfriðar.

Fróðlegt verður að sjá hvert verður næsta skref Fréttablaðsins í baráttunni fyrir að koma Jóni Gnarr á Bessastaði og fróðlegt væri að sá sem skrifaði ritstjórnargrein blaðsins í dag mánudaginn 3. nóvember útskýrði fyrir þjóðinni með hvaða hætti hugmyndafræði sú sem hann talar svo fjálglega um í leiðaranum geta leyst aðsteðjandi vanda vegna hryðjuverkaógnar og skulu þá ótalin önnur hryðjuverkasamtök en ISIL.

 


Vettvangur ritsóða og ómerkilegra frétta

DV vefurinn hefur ekkert breyst þrátt fyrir nýja stjórn útgáfufélagsins og nýjan ritstjóra.

Í gær birtist sérstök frétt á vefsíðu DV þess efnis að Jón Bjartmars lögreglumaður hefði viljað láta lögregluna vinna vinnuna sína með sama hætti og lögregla gerir í nágrannalöndum okkar á árunum 2008 og 2009.  Fréttin er vissulega sett upp með öðrum hætti í DV í þeim tilgangi einum að varpa rýrð á viðkomandi lögreglumann og gera hann tortryggilegan.

Ekki stendur á viðbrögðum. Ritsóðarnir sem eru aðall og einkennismerki þeirra sem tjá sig á þessum vefmiðli koma hver á fætur öðrum og bregða lögreglumanninum m.a. um að vera fasisti, svín og geðveikur í ofanálag auk margs annars.  Svona ummæli eru ritstjórn vefmiðilsins greinilega þóknanleg. DV áskilur sér rétt til að fjarlægja óviðurkvæmileg ummæli, en þessi ummæli um lögreglumanninn eru greinilega ekki þess eðlis að mati ritstjórnarinnar.

Hvernig væri að nýr ritstjóri Hallgrímur Thorsteinsson stigi nú fram og legði sig fram um að ábyrg og góð fréttamennska yrði stunduð á þessum sóðamiðli og ritsóðum yrði ekki vært með óviðurkvæmilegar athugasemdir um einstaklinga á vef miðilsins sem hann stjórnar.   

 


Hlýnunin sem hvarf.

Klappstýrur vísindamanna sem boðað hafa hlýnun jarðar af mannavöldum í tvo áratugi rembast við að að halda því fram að hún sé enn í gangi, þrátt fyrir  þá óþægilegu staðreynd, að engin hlýnun hefur verið í heiminum í síðustu 14 ár samfellt.

Öll tölvúlíkön og forspár talsmanna hnattrænnar hlýnunar hafa reynst röng. Einn helsti sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í hnattrænum hlýnunarmálum Kevin Trenberth, segir að ástæða þess að hnattræn hlýnun hafi ekki mælst í 14 ár sé vegna þess að heimshöfin hafi gleypt hlýnunina frá árinu 1997 djúpt í sjónum þar sem við verðum hennar ekki vör. Heimshöfin eru því að hlýna gríðarlega þar sem við verðum þess ekki vör. Æðstu prestar  hnattrænu hlýnunarinnar  hafa gripið þessa kenningu fegins hendi.

Engar sannanir eða líkindi hafa verið færð fram fyrir þessari kenningu  Trenberth. Nú hefur virtasti haffræðingur heimsins  Carl Wunsch staðhæft að það sé ekkert sem styðji kenningu Trenberths nema tölvulíkön og þvert á kenninguna þá hafi heimshöfin ekki hlýnað heldur  kólnað síðustu ár. 

Nigel Lawson fyrrum fjármálaráðherra Breta heldur því fram að kenningar um hnattræna hlýnun af mannavöldum standist ekki rökfræðilega skoðun. Af þeim sökum  fær ekki að tjá sig á BBC. Þeir sem efast er haldið frá fjölmiðlum og opinberum styrkjum.  Það er billjóna bísníss í dag að hræða fólk með hnattrænni hlýnun. Sá bísníss gæti orðið dýrasta lygi mannkynssögunnar. 

Hvernig er hægt að skýra það með vitrænum hætti að um sé að ræða hnattræna hlýnun af mannavöldum vegna koltvísýringsmengunar þegar engin hlýnun hefur átt sér stað í 14 ár þrátt fyrir aukinn útblástur. Af hverju ekki skoða hlutina með opnum huga. Af hverju ekki að leggja meiri peninga í umhvefisvernd, hreinlæti og uppbyggingu og draga úr dansinum í kring um þessa pólítísku veðurfræðina. 


Hin heilögu landamæri

Obama Bandríkjaforseti og David Cameron forsætisráðherra Bretlands hafa farið hamförum vegna þeirrar ógæfu, þegar farþegaflugvél var skotin niður fyrir mistök yfir Úkraínu.  Þeir hafa reynt að nýta sér þetta hörmulega slys til að ná sér niðri á Rússum og knýja á um hertar refsiaðgerðir gegn þeim.

Cameron hefur m.a. krafist þess að Frakkar hættu vinnu við og afhendingu orustuskipa sem þeir eru að smíða fyrir Rússa.  Franska forsætisráðherranum var nóg boðið og benti á að Bretar ættu þá frekar að taka á rússnesku oligörkunum sem væru hvergi fleiri en í London í stað þess að gera kröfur um að Frakkar stæðu að aðgerðum sem mundu kosta þúsundir manna atvinnuna. 

Sumir fjölmiðlar bjuggu til vandamál úr því að uppreisnarmenn í Úkraínu komu líkum úr flugvélinni fyrir í kældum vögnum í stað þess að láta þau liggja óhreyfð á víðavangi í ofsahita. Þessar fréttir voru rugl frá upphafi til enda, en  til þess fallnar að valda óþægindum og sorg hjá nánum ættingjum þeirra sem höfðu misst ástvini sína í þessu hörmulega slysi. Einnig til að reyna að koma höggi á Rússa. Þetta sýnir hversu gagnrýnislausir fréttamiðlar á Vesturlöndum eru orðnir og hvað illa þeir vinna fréttir og taka við tilbúnum áróðursfréttum leyndra eða augljósra ríkisstofnana í Bandaríkjunum.

Hatrammur áróður gegn Rússum byrjaði nokkru eftir að þeir veittu Snowden hæli. Snowden var hundeltur af útsendurum Obama fyrir að bera sannleikanum vitni. Í framhaldi af niðurlægingu Obama og Cameron í Sýrlandsdeilunni,  þegar þeir vildu ganga í lið með Al Kaída liðum og ISIS og hefja lofthernað gegn löglegum yfirvöldum í Sýrlandi en fengu ekki stuðning þjóðþinga sinna og þeim fannst þeir niðurlægðir af Putin harnaði áróðurinn gegn Rússum til muna. Áróðurinn gegn Rússum náði þá m.a. til Íslands þar sem Rússar voru allt í einu orðnir sekir um að vera mestu hatarar samkynhneigðra í heiminum þó það sé fjarri öllum sanni.

Þegar uppreins í Úkraínu heppnaðist fyrir tilstyrk Bandaríkjanna og Evrópusambandsins bjuggu þeir Cameron og Obama til þá kenningu að landamærum mætti ekki raska hvergi í heiminum óháð því hvernig þau væru tilkomin. Slík stefna hefur iðulega leitt til styrjalda sem hefði mátt komast hjá hefðu stjórnendur haft sögulega þekkingu, yfirsýn og víðsýni. En þeir Obama og Cameron virðast ekki búa yfir slíkri þekkingu eða hæfileikum. 

Þegar Sovétríkin féllu og járntjaldið féll vonaðist ég til að Vesturlönd og fyrrum kommúnistaríki gætu náð saman til að skapa betri heim. Eftir árásirnar á tvíburaturnana bauð Putin fram alla þá aðstoð sem Rússar gætu veitt. Því miður tóku Vesturlönd ekki í þá útréttu sáttarhönd. Tveir lítt hæfir Bandaríkjaforsetar og forsætisráðherrar Bretlands hafa valdið gríðalegu tjóni í alþjóðamálum og komið í veg fyrir alla vega tímabundið að hægt væri að skapa alþjóðlegt skipulag og frið í heiminum því miður. Engum öðrum verður frekar um það kennt.    


Fasismi,kynþáttahyggja og lýðskrum.

Undanfarið hefur ítrekað verið vísað til fasískrar kynþáttahyggju af forustufólki á fjölmiðlum og í stjórnmálum. Samt sem áður var fasistaflokkur Ítalíu ekki kynþáttahyggjuflokkur miðað við þann tíma frekar en breski Verkamannaflokkurinn á sama tíma. Það var ekki fyrr en ítalskir fasistar lentu undir hælnum á þýsku nasistunum sem kynþáttahyggjan náði tökum í þeim flokki.

Annað rangnefni er að tala um "fasískan hægri flokk". Fasistar voru sprottnir upp úr sósíalista- og kommúnistaflokki Ítalíu og stofnandi flokksins Benito Mussolini var áður vinstri sinnaður sósíalisti og pennavinur byltingarmannsins Lenin. Fasistar vildu alræði ríkisins og voru á móti einstaklingshyggju.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna var ekkert mál sem kallaði á jafnmikla athygli fjölmiðlafólks og ummæli um lóð fyrir mosku í borginni. Sú umræða á vettvangi fjölmiðlanna er einsleit og fjarri því að uppfylla skilyrði eðlilegrar og hlutlægrar fréttamennsku. Fréttastofa RÚV gjaldfellir sjálfa sig ítrekað með síbylju um málið. Á sama tíma miðað við rétttrúnaðarsjónarmiðin fitnaði púkinn á fjósbitanum, sem er Framsóknarflokkurinn í þessu tilviki, að mati þessa pólitíska nauðhyggjufólks.

Byggingar trúfélaga eru víðar dreilumál en í Reykjavík og fyrir nokkrum árum greiddi meirihluti kjósenda í Sviss atkvæði gegn því að kallturnar spámannsins yrðu á alfaraleiðum í landinu.  

Viðurkennd trúfélög njóta stjórnskipulegrar verndar stjórnarskrár og annarra íslenskra laga og eiga að gera það. Þar með eiga þau að njóta jafnræðis að því marki sem unnt er þegar um er að ræða þjóðkirkju. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Múslimar, Búddatrúar og aðrir eiga því sama rétt til að byggja samkomuhús, helgistaði eða kirkjur.  Hvort heldur einhverjum líkar betur eða verr.

Á sama tíma og það er réttur trúfélaga að geta komið sér upp trúarlegum griðarstað þá hafa aðrir borgarar líka rétt. Ég þarf t.d. ekki  að sætta mig við það að mannréttindi mín séu ekki virt af því að trúarhópur hafa uppi hávaða eða háreysti á timum sem einstaklingarnir eiga að njóta kyrrðar og friðar samkvæmt lögum.

Af hverju má aldrei ræða þessi mál öfgalaust án þess að hengja merkimiða öfga, fasisma, lýðskrums, hægri öfga og rasisma á þá sem ræða málin þó þeir geri það e.t.v. með klaufalegum hætti miðað við "political newspeak" (pólitískt nýmál) eins og George Orwell lýsti réttrúnaðarríkinu í bók sinni 1984.

Fjölmiðlum sést hins vegar yfir e.t.v. af ástettu ráði að helsti lýðskrumsflokkurinn Samfylkingin náði mestu fylgi með loforðinu um 2.500-3000 nýjar leiguíbúðir. Við skulum fylgjast með því hvernig staðið verður að efndum þess lýðskrumsloforðs.  


Betur má ef duga skal.

Einn af hverjum þrem kjósendum í Reykjavík sáu ekki ástæðu til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og kjósa. Samfylkingin er því  með um 20% fylgi allra kjósenda í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkurinn 18%. Þeir sem heima sátu eru því fjölmennasti hópur kjósenda í Reykjavík

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn reyndist vera með meira fylgi í Reykjavík en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna, þá er niðurstaðan samt fjarri því að vera viðunandi fyrir flokk sem hefur fengið um og yfir helming atkvæða í kjósenda þegar best hefur gengið.  Betur má því ef duga skal.

Sem innfæddur Akurnesingur get ég ekki annað en fagnað því að Sjálfstæðismenn með Ólaf Adolfsson í broddi fylkingar skyldu vera hástökkvarar kvöldsins og vinna hreinan meirihluta.

Fréttastofa RÚV vann mikinn sigur með öfugum formerkjum. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík getur öðrum fremur þakkað framgöngu fréttamanna RÚV fyrir góðan árangur í kosningunum. Í hálfan mánuð fyrir kosningar var varla til sá fréttatími þar sem hrokafullir fréttamenn á RÚV létu hjá líða að finna nýja og nýja fordæmingu á ummælum oddvita Framsóknar í Reykjavík um lóð fyrir mosku.

Framsóknarmaddömurnar Sveinbjörg og Guðfinna ættu því að láta það verða sitt fyrsta verk nýkjörnar í borgarstjórn, að færa fréttastofu RÚV veglegan blómvönd í þakklætisskyni fyrir kosningabaráttuna.

Meiri hluti Gnarrista féll og borgarstjórastóll Dags B. Eggertssonar er því valtari en spáð var.  En VG er alltaf til staðar sem hækja Samfylkingarinnar. Ef til vill ætti Dagur að lesa bókina ár drekans eftir flokksbróður sinn Össur Skarphéðinsson áður en hann lætur fleka sig inn í slíkt samstarf. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 693
  • Sl. sólarhring: 778
  • Sl. viku: 4160
  • Frá upphafi: 2603867

Annað

  • Innlit í dag: 654
  • Innlit sl. viku: 3895
  • Gestir í dag: 618
  • IP-tölur í dag: 601

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband