Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Hinir ábyrgðarlausu

Hver vill bera ábyrgð á því, að sjúkraþyrla komist ekki til að ná í dauðveika sjúklinga til að bjarga lífi þeirra eða aðstoða sjómenn í sjávarháska?

Tveir stjórnmálaflokkar Samfylkingin og Píratar segja að það komi þeim ekki við. Aðrir stjórnmálaflokkar öxluðu þá ábyrgð sem fylgir því að vera í pólitík og greiddu atkvæði með því að mikilvæg björgunartæki séu til taks ef líf liggur við. 

Píratar hafa á líftíma sínum markað sér stöðu, sem ábyrgðarlaus á móti flokkur án takmarks eða skiljanlegs tilgangs. 

Öðru máli gegnir um Samfylkinguna, sem á sér nokkra sögu um að vera ábyrgur flokkur. En frá því að Logi Már Einarsson tók við formennsku, hefur Samfylkingin hoppað í takt með Pírötum og frumkvæðislaus, en gagnrýnt allar aðgerðir með óábyrgum yfirboðum. Logi skákaði Samfylkingunni síðan rækilega út í horn með því að útiloka samstarf við flokka sem njóta fylgis um 40% þjóðarinnar.

Það er slæmt fyrir íslensk stjórnmál, að jafnaðarmenn skuli ekki eiga flokk lengur, sem hefur hugmyndafræðilega kjölfestu eins og jafnaðarmannaflokkar á hinum Norðurlöndunum og þor til að takast á við vandamál sem koma upp í þjóðfélaginu, en skáka sér út í ábyrgðarleysishornið í hverju málinu á fætur öðru. 


Viljum við hjálpa eða viljum við sýnast?

Það er neyðarástand í Yemen. Hungursneyð ríkir í landinu. Börn eru vannærð og deyja úr hungri og sjúkdómum vegna þess, að það eru ekki heldur til lyf til að lækna auðlæknanlega sjúkdóma. 

Þeir sem bera höfuðábyrgð á þessu eru Saudi Arabía og Íran, sem hafa blandað sér í stríðsátök í landinu um árabil. Þessi höfuðríki helstu trúarskóla Íslam, hafa þó meiri áhuga á að útvega vopin og vígtól til að andstæðar fylkingar geti drepið sem flesta til dýrðar spámanninum, en að sinna síður velferð íbúanna og koma í veg fyrir mannlegar hörmungar. 

Það var gaman að sjá í gær unga konu, sem mælti fyrir að fólk legði til hjálparstarfs fyrir hungruð og vannærð Yemensk börn í fréttum í gær. Við ættum öll að leggjast á þær árar og sýna raunverulegan mannkærleik í verki. 

Upphæðin sem þarf til að taka myndarlega á og hjálpa þúsundum barna og sjá til þess, að þau fái nóg að borða og lyf og aðrar nauðsynjar er lág, en samt eru Vesturlönd ekki að taka á þessu vandamáli með myndarskap. Getur það verið vegna þess, að svo mikið af fjármunum fara til að aðstoða hlaupastráka til að leggjast upp á velferðarkerfi Vesturlanda

Við eyðum á annan tug milljarða á ári við að taka á móti hlaupastrákum víðsvegar að úr heimnum, sem hafa það helst að markmiði að leggjast upp á velferðarerfið. Okkur eru margar bjargir bannaðar vegna þess að við búum við gjrösamlega sturlað lagaumhverfi, útlendingalög,  sem búin voru til af "góða fólkinu" sem telur að með því að ala önn fyrir hlaupastrákunum, sem hafa greitt smyglurum háar fjárhæðir til að komast að velferðarkerfi Vesturlanda, að þá séum við að gera eitthvað góðverk. Það erum við sjaldnast að gera. 

Til að sinna skyldum okkar sem þjóð, sem vill láta gott af sér leiða og vera virk í hjálparstarfi, ættum við því að breyta útlendingalögunum og draga úr kostnaði til þessara hlaupastráka, sem eru raunar um og yfir 80% þeirra sem koma í þessum tilgangi, en sinna raunverulegu hjálparstarfi af myndarskap. Með því gerum við meira gagn og hjálpum fleirum en bullukollast áfram á grundvelli fráleitrar hugmyndafræði "góða fólksins" sem miðar að því helst að skipta um þjóð í landinu. 


Baráttuvettvangur Samfylkingarinnar

Loksins hefur Samfylkingin fundið baráttumál, sem getur sameinað flokksmenn og fyllt þá baráttuanda eftir pólitíska eyðimerkurgöngu í áratug.

Sumt forustufólk Samfylkingarinnar er þeirrar gerðar, að þegar kemur að Bandaríkjunum, fara talfærin þegar úr sambandi við heilabúið,afleiðingin verður í samræmi við það. 

Hinn sameiginlegi óvinur, sem reiðin beinist nú að, er amríski sendiherrann, sem leyfði sér að tala um samstöðu Íslands og Bandaríkjanna til að vinna bug á Kínaveirunni. Að sjálfsögðu var þetta hin mesta ósvinna hjá sendiherranum. Eitthvað sem nauðsynlegt er að mati formanns Samfylkingarinnar að mótmæla svo eftir verði tekið. Enda að sjálfsögðu um stórmál að ræða sem gæti ráðið úrslitum í þjóðmálabaráttu komandi ára.

Fyrrum varaformaður Samfylkingarinnar var miður sín yfir dóna- og ruddaskap sendiherrans, sem og telur skrif hans bera vott um rasisma af versta tagi, hvernig svo sem hægt er að finna það út. En Samfylkingarfólk er lagnara en aðrir við að hengja neikvæða merkimiða á andstæðinga sína. 

Samfylkingin hefur loksins fundið fjölina sína, stefnumál, sem sameinað getur flokksmenn undir einu merki. Spurning er hinsvegar hvort þessi vaðall Loga og Co leiði til þess að einhverjir aðrir en innsti kjarni Samfylkingarfólks skynji hið mikilvæga þjóðfélagslega samhengi tísts bandaríska sendiherrans og íslenskrar þjóðmálabaráttu. E.t.v. átta flokksmenn sig á að haldi forustumenn flokksins áfram tala með þessum hætti er líklegt að pólitísk eyðimerkurganga flokksins verði ekki styttri, en hún var hjá Gyðingum forðum á leið til fyrirheitna landsins.


mbl.is Óviðeigandi og dónalegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðflokkurinn í kompaníi við allífið.

Sú var tíðin að Sameinaða Samfylkingin (SS) þ.e. Píratar,Viðreisn, Flokkur fólksins og að sjálfsögðu Samfylkingin útskúfuðu Miðflokknum og töldu hann ómerkilegri og ef eitthvað var ógeðslegri en skítinn undir skónum sínum. Talsmenn þessara flokka sögðu í einkasamtölum, ræðu og riti eftir Klausturhlerunina, að ekki væri komandi nálægt Miðflokknum og útskúfa ætti honum algerlega í þingstörfum og helst að gera hann þingrækan. 

Stormsveit Pírata tók auk heldur til þess ráðs að beita einn Klausturbaróninn einelti þegar hann kom í ræðustól Alþingis og stillti stormsveitin sér upp í sérútbúnum klæðnaði þar sem lýst var yfir skefjalausri óbeit á viðkomandi.

Miðflokkurinn var firrtur vinum á hinu háa Alþingi þar sem stjórnarflokkarnir sýndu þeim óvirðingu sem og SS, þó það væri allt mun þekkilegra.

Svo sérkennilega brá við, að eins fór um Miðflokkinn og púkann á fjósbitanum. Miðflokkurinn fitnaði því meir hvað fylgi varðaði, þeim mun harðar sem SS sótti að honum.

Nú er öldin önnur. Miðflokkurinn er kominn í kompaní við allífið eins og Matthías Johannesen ritstjóri og skáld orðaði það í viðtalsbókinni við meistara Þórberg. Í gær stóð SS ásamt Miðflokknum að sameiginlegum tillögum um hefðbundið sósíalískt yfirboð í anda slíkrar stjórnarandstöðu. Þetta gerðist, þegar mestu skipti að stjórnmálamenn þessa lands standi saman og láti skynsemina ráða frekar en reyna að fiska atkvæði með yfirboðum.

Miðflokkurinn er greinilega ekki ótækur lengur að mati SS, allar bjargir bannaðar og enginn hlutur heimill nema helvíti eins og það var orðað til forna þegar einstaklingur, hópar eða þjóðir voru bannfærðir af prelátum kaþólsku kirkjunnar.

Miðflokkurinn hefur verið tekinn í sátt

Spurningin er þá hvort fjósbitanum hafi verið kippt undan Miðflokknum með alkunnum afleiðingum fyrir þann sem þann bita sat. 

 


Ekki gleyma: og friður í heiminum að sjálfsögðu.

Í fegurðarsamkeppnum eru keppendur teknir í ímyndarkennslu. Þar er þeim sagt hvað má segja og hvað ekki. Allt til að keppendurnir sýni að þeir séu mannvinir og telji að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Eitt sem er ómissandi er að segja að þeim sé umhugað um frið í heiminum.

Óneitanlega sótti sú hugsun á, við þessi áramót, að stjórnmálamenn og forustufólk þjóðarinnar væru allir, að einum undanskildum, farnir að ganga í sama hönnunarskóla staðalímynda og keppendur í fegurðarsamkeppnum. En á þeim bæjum er það ekki heimsfriður heldur barátta gegn loftslagsbreytingum.

Biskupinn yfir Íslandi gerði loftslagsbreytingar að inntaki nýársræðu sinnar, en gleymdi kristindómnum og ofsóknum á hendur kristnu fólki. Sama gerði forsetinn og forsætisráðherra og aðrir stjórnmálaleiðtogar í áramótagreinum sínum í Morgunblaðinu að einum undanskildum.

Það sem einkenndi umfram allt annað greinar og ræður stjórnmálaleiðtoga, forseta og biskups var skortur á framtíðarsýn og boðun aðgerða sem hefðu áhrif til lengri tíma litið. Svo virðist sem íslenskt forustufólk sé þess ekki umkomið að horfa lengra fram á við en til viðfangsefna og vandamála í núinu. Framtíðarsýn til lengri tíma er greinilega ekki kennd í hönnunarskólanum. 

Hugsanlega er ástæðan sú, að engin pólitísk hugmyndafræði er til lengur í íslenskri pólitík.

Samt sem áður voru áramótagreinar og ræður forustufólks þjóðarinar vel samdar og engir hnökrar á umbúðum tómra pakka. Áramótapakkar, sem umgjörð sjálfsagðra hluta um ekki neitt sem máli skipti með einni undantekningu.

And world peace of course. Eða að breyttum breytanda í heimi nútímans. Og loftslagsbreytingar að sjálfsögðu.


Blekkingar forseta Alþingis og málfþófið.

Steingrímur J. Sigússon forseti Alþingis hefur setið lengst allra núverandi þingmanna á Alþingi. Hann þekkir því vel til þeirra bragða sem hægt er að grípa til vilji alþingismenn tefja framgang mála. Sjálfur hefur hann oftar tekið þátt í málþófi á Alþingi en nokkur annar sitjandi þingmaður. 

Umræðan um 3.orkupakkann hefur staðið um nokkurt skeið. Forseti hagar dagskrá þingsins þannig að áfram skuli endalaust haldið að ræða 3.orkupakkann. Síðan ítrekar hann daglega að orðræður þingmanna Miðflokksins setji önnur störf þingsins og framgang mála í uppnám, en þetta er rangt og það veit forseti fullvel.

Fulltrúi Steingríms þingfréttaritari Ríkissjónvarpsins hefur þetta daglega orðrétt eftir honum, en varast að greina frá efnisatriðum eða öðru sem varðar umræðuna. 

Steigrímur J lætur eins og hann sé ósjálfbjarga í gíslingu þingmanna Miðflokksins og öðrum málum verði ekki fram komið vegna málþófsins. Honum er þó að sjálfsögðu ljóst að þetta er rangt. Forseti Alþingis hefur öll ráð varðandi dagskrá og skipulag þingstarfa 

Í 1.mgr. 77.gr.laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis segir: "Forseti boðar þingfundi og ákveður dagskrá hvers fundar."

Í 2.mgr. 77.gr. laganna segir: "Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá."

Forseti hefur því skv. þingskaparlögum allt vald varðandi dagskrá þingsins. Þess vegna getur hann tekið önnur mál á dagskrá og látið afgreiða þau. Ástríða þingmanna Miðflokksins til að ræða þriðja orkupakkanum skiptir því engu máli í því sambandi. 

Af þessu leiðir að það sem haft er eftir Steingrími J. í síbylju á fréttamiðlum er rangt. En með því er fyrst og fremst verið að vega að þingmönnum Miðflokksins og þessi framkoma forseta Alþingis gagnvart þingflokki er vægast sagt óviðeigandi og í versta falli hreinar rangfærslur í þeirra garð. 

Fallast má á að málþóf er hvimleitt, en er hins vegar löglegt úrræði þeirra sem eru á móti málum. Forseti Alþingis og alþingismenn, ættu því að hlutast til um, að tekin verði upp ákvæði í þingskaparlög og stjórnarskrá þess efnis, að 20% þingmanna geti vísað ákveðnum málum til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og breyta síðan þingskaparlögum með þeim hætti, að útilokað verði að hafa frammi endalaust málþóf. 

En meðan lögin eru með þeim hætti sem þau eru nú þá geta þingmenn að sjálfsögðu nýtt sér lögbundinn rétt sinn til umræðu um mál til lengri eða skemmri tíma. Það er síðan kjósend að meta hvort þeim þykir rétt hafa verið að málum staðið eða ekki.


Öreigar allra landa sameinist - hvað?

Vígorð kommúnista "Öreigar allra landa sameinist". Í síðustu málsgrein kommúnistaávarps Karls Marx og Friedrich Engels á undan vígorðinu segir: "Kommúnistar álíta sér ekki sæmandi að leyna skoðunum sínum og áformum. Þeir lýsa því opinberlega yfir að tilgangi þeirra verði aðeins náð í alsherjarbyltingu. Látum ríkjandi stéttir skjálfa af ótta við kommúnistabyltinguna. Öreigarnir hafa þar engu að tapa öðru en hlekkjunum. En þeir hafa heilan heim að vinna".

Þeir verkalýsðleiðtogar og aðrir sem taka sér þetta vígorð "Öreigar allra landa sameinist" í munn, verða að átta sig á að þetta er vígorð og herhvöt um kommúníska allsherjarbyltingu. Þeir sem eiga ekki samleið með slíkri hugmyndafræði ættu því að sleppa þessu vígorði. 

Á þeim 170 árum sem liðin eru frá því að Kommúnistaávarpið kom út hafa ýmis tilbrigði kommúnískra byltinga og stjórnarhátta verið prófuð í fjölda landa. Niðurstaðan er alls staðar sú sama. Harðstjórn, fjöldamorð, aukin fátækt og eymd, öreigum fjölgar.

Fólk ætti ekki að gleyma morðum Stalíns á tugum milljóna eða stóra stökks Mao framávið sem kostaði tugi milljóna lífið auk menningarbyltingarinnar þar sem fjöldaaftökur voru algengar. Ógnarstjórnin í Kambódíu undir stjórn Rauðu Khmerana ætti líka að vera víti til varnaðar þar sem stór hluti landsmanna dó eða var drepinn vegna stjórnarhátta kommúnistanna. 

Kommúnistastjórnir hafa aldrei gefið öreigum betra líf heldur fjölgað þeim þar sem þeir hafa komist til valda. Engin hugmyndafræði hefur kostað fleiri mannslíf en kommúnisminn. 

Sovétríkin dóu vegna þess að þau gátu á endanum ekki brauðfætt sig. Hungursneyð var víðtæk í ýmsum hérðum Kína allt til þess að kommúnistastjórnin þar fór að heimila markaðshagkerfinu að vinna í landinu. Síðan þá hafa milljónir öreiga orðið eignafólk.

Gjaldþrot kommúnismans blasir allsstaðar við,þar sem hann hefur verið reyndur. Samt telja ýmsir sæmandi að taka helsta vígorð herhvöt kommúnistabyltingarinnar sér í munn. 

Í dag er annar hópur þjóðfélagsins sem þarf að sameinast og rísa upp en það eru skattgreiðendur, sem eru þrautpíndasti hópur samfélagsins, sem þarf að greiða um helming launatekna sinna í einu eða öðru formi til hins opinbera. Skattpíningin veldur því,að stórir hópar eiga þess ekki kost að spara til eignauppbyggingar. Ríkiskerfið og bákn sveitarfélaganna stækkar og stækkar ár frá ári og hindrar borgarana í að spara og skapa sér bætt lífskjör. 

Besta kjarabót launþega er sú að persónuafsláttur verði hækkaður verulega og hlutfall skatta af lágum og meðaltekjum lækkaður verulega. Allir mundu hafa hag af því að umgjörðin um vinnu einstaklinga og smáfyrirtækja í atvinnurekstri yrðu einfölduð og gjöld lækkuð. Með því móti væri hægt að lyfta fleirum og fleirum frá fátækt til bjargálna og koma fleirum og fleirum úr stétt öreiga í stétt eignafólks.

Með því að virkja dugnað, áræði, útsjónasemi og sparnað fólks og gefa hinum vinnandi einstaklingi kost á því að spara til eignauppbyggingar í stað þess að hirða allt af honum í skatta, umfram brýnustu lífsnauðsynjar, vinnum við best gegn fátækt, örbirgð og því að öreigar verði í landinu. 


Góður listi Sjálfstæðisflokksins en það er ekki nóg.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík standa sameinaðir um framboðslista flokksins til borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Þrátt fyrir að kjörnefnd gerði tillögu um verulegar breytingar m.a. mikið af hæfu ungu fólki og margir byggjust við verulegum andmælum og andófi þá fór ekki svo. Flokksmenn ákváðu að standa sameinaðir að baki framboðsins. Þannig að það hefur alla vega þann fararheill.

Miklu skipti að vel tækist til um framboð Flokksins þannig að samhent heild starfaði með Eyþóri Arnalds sem flokksmenn höfðu valið sem oddvita sinn í borginni með yfirgnæfandi stuðningi flokksfólks.

Nú reynir á. Reykvíkingar hafa mátt þola óstjórn í borgarmálum um árabil og fyrst keyrði um þverbak þegar tvíeykið Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson skiptu með sér kökunni og ekki batnaði það eftir að Dagur sat einn að aðgerðum.

Nú skiptir máli að Sjálfstæðisfólk í Reykjavík móti sér framsækna stefnu í borgarmálum - af því að það er ekki nóg að hafa bara góðan framboðslista hann verður að eiga fullt erindi til að ná brautargengi. Það þarf að skerga burt Báknið í Reykjavík. Það þarf að tryggja nauðsynlega þjónustu og greiða umferð og umfram allt lækka álögur á borgarbúa. Þetta er vel hægt ef vel verður að verki staðið. 

Þreyttur hugmyndasnauður meirihluti á að víkja fyrir framsækinni stefnu til framfara í Borginni.


Glæsilegur sigur Eyþórs Arnalds

Eyþór Arnalds vann glæsilegan sigur í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og fékk rúm 60% greiddra atkvæða. Sá frambjóðandi sem næstur kom, sitjandi borgarfulltrúi til margra ára fékk um 20% atkvæða. Ekki fer á milli mála hver vilji kjósenda er. 

Eyþór er vel að þessum sigri kominn. Hann hefur sýnt það þar sem hann hefur tekið þátt í sveitarstjórnarmálum, að þar fer traustur,duglegur maður, sem kann að vinna. Ég óska Eyþóri alls velfarnaðar í kosningabaráttunni sem framundan er. 

Vilji Sjálfstæðisfólks í Reykjavík stendur augljóslega til algjörrar endurnýjunar á framboðslista flokksins.

Kjörnefnd er nokkur vandi á höndum, en verður að horfast í augu við þá staðreynd að til að skapa trúverðugt framboð þá verður að koma til algjör endurnýjun og velja samhentan hóp fólks sem veit fyrir hvað það stendur og stendur saman sem órofa fylking til sigurs í kosningunum.

Takist kjörnefnd að leiða verkefni sitt farsællega til lykta þá á Sjálfstæðisflokkurinn möguleika á að auka fylgi sitt verulega. 

Það er áhyggjuefni að ekki skuli fleiri en tæp fjögurþúsund taka þátt í prófkjörinu. Á árum áður tóku að jafnaði yfir 10 þúsund manns þátt í prófkjörum flokksins í Reykjavík. Þetta sýnir að nauðsynlegt er að taka félagsstarfið til gagngerrar endurskoðunar og gleyma því ekki, að það verður að gera útrás á grundvelli nýrra tíma,hugmynda, hugsjóna og nýrra samskiptamöguleika. 

Vert er að óska Eyþóri Arnalds til hamingju með góðan sigur og skora á hann að gera sitt til að Sjálfstæðisflokkurinn fái góða kosningu í Reykjavík og helst að vinna aftur meirihlutann í borginni. Til þess liggja öll málefnaleg rök og spor vinstri meirihlutans hræða. Það er mikil vinna framundan.

Verkamennirnir e.t.v. fáir en uppskeran ríkuleg ef fólk stendur saman og vinnur saman. 


Afleiðingar án orsakatengsla og ríkisstjórn springur.

Óttar Proppé og þingflokkur hans sleit stjórnarsamstarfi vegna þess að faðir forsætisráðherra mælti með að afbrotamaður sem hafði afplánað refsingu fengi uppreisn æru.

Í öllu því argafasi sem er í dag vegna þeirra sem fengið hafa uppreisn æru þá virðist sem fjölmiðlafólki og ýmsum hefðbundnum álitsgjöfum sjáist yfir þær grundvallarstaðreyndir að þeir sem skrifa upp á meðmæli með því að einstaklingar fái uppreisn æru eru hvorki að samþykkja né leggja blessun á eða samsama sig með þeim glæp sem viðkomandi framdi. Alls ekki.

Hvað eru þeir sem skrifa á bréf eins og þessi að gera. Þeir eru að votta samkvæmt þeirra bestu vitund þá hafi viðkomandi hagað sér vel eftir afplánun refsingar. Meðmælandinn í þessu tilviki Benedikt Sveinsson er ekki að samþykkja eða lýsa yfir velþóknun á afbrotinu fjarri því.

fMeðmælabréf föður forsætisráðherra um uppreisn æru hefur ekkert með starf ríkisstjórnar að gera og er syni hans forsætisráðherra óviðkomandi enda vissi hann ekki af bréfi föður síns fyrr en dómsmálaráðherra upplýsti hann um það í júlí. 

Sú málsvörn Óttars Proppé fyrir þeirri glórulausu ákvörðun að slíta stjórnarsamstarfi vegna greiðasemi föður forsætisráðherra og hann hafi ekki verið upplýstur um bréfið í rúman mánuð girði fyrir traust í ríkisstjónarsamstarfi er vægast sagt harla aumleg og hefur ekkert með landsstjórnina að gera. 

Vænn maður og greiðvikinn eins og Benedikt Sveinsson skrifar bréf, sem lýsir hegðun manns eftir að hann afplánar refsingu. Hann ber ekki brigður á að viðkomandi hafi gerst sekur um alvarlegan glæp eða reynir að afsaka glæpinn. Hann segir einungis að hegðun hans hafi verið með ákveðnum hætti eftir að afplánun lauk. Eru íslensk stjórnmál virkilega kominn í svo galna pópúlíska umgjörð að það geti talist tæk skýring á því að stjórnmálaflokkur slíti stjórnarsamstarfi.

Braut Benedikt Sveinsson af sér með þessu? Telji einhver svo vera í hverju var þá afbrot hans fólgið? Mátti hann ekki segja frá því hver viðkynning hans var af manninum. Já og jafnvel þó fólk segi að það hafi verið ótækt hvernig í ósköpunum fá menn sem þykjast ábyrgir, þá orsakasamband milli landsstjórnarinnar og greiðasemi föður forsætisráðherra. 

Málið kemur forsætisráðherra og landsstjórninni ekki við og það að reyna að tengja það og búa til dramaleikrit vegna þess er óheiðarlegt og rangt. Það mun á endanum hitta þá fyrst fyrir sem því beita. 

Skipti ekki meira máli að forða þjóðinni frá hugsanlegri óðaverðbólgu sem verður óhjákvæmilega staðreynd ef pólitísk upplausn verður næsta skref óábyrgra stjórnmálamanna.

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 422
  • Sl. sólarhring: 1338
  • Sl. viku: 1952
  • Frá upphafi: 2293420

Annað

  • Innlit í dag: 384
  • Innlit sl. viku: 1775
  • Gestir í dag: 379
  • IP-tölur í dag: 371

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband