Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Bjór á bensínstöðvar

Nú stendur til að valdar bensínstöðvar fái að selja bjór og léttvín. Vínmenningarfulltrúar veitingavalds og múgamannagæslu hafa með þessu ákveðið að bjóða upp á þessa neysluvöru í tengslum við akstur bifreiða.

Eftir einn ei aki neinn var sjálfsagt vígorð til að vara við afleiðingum þess að vera ekki alsgáður við akstur. Nú má segja að útúrsnúningurinn úr þessu vígorði hafi orðið ofan á; "fáðu þér tvo og aktu svo".

Akstur og áfengi er ekkert grín eins og ótal mörg dauðsföll og varanleg örkuml fólks sýna best. Bensínstöðvar sem eiga tilveru sína fyrst og fremst undir akstri bifreiða eru því ekki bestu útsölustaðir þessa vímugjafa og passa jafnvel saman og fiskur og reiðhjól eða eitthvað þaðan af afkáralegra.

Á síðasta þingi var lagt fram frumvarp til breytinga á áfengislögum þar sem gert var ráð fyrir að selja mætti bjór og léttvín í matvöruverslunum. Margir brugðust illa við þeirri tillögu og töldu hana vera hið versta mál og færðu ýmis ágætis rök fyrir þeim sjónarmiðum sínum. Málið dagaði því uppi einu sinni enn á Alþingi

Ef til vill gæti það orðið mörgum alþingismanninum til uppljómunar að átta sig á, að láti Alþingi undir höfuð leggjast að ganga frá skynsamlegri löggjöf um mikilvæg mál þá kann svo að fara að þróunin verði enn verri en þeir sem varlega vildu fara ætluðu sér.

Nú hefur það skeð í þessu brennivínssölumáli á bensínstöðvum, illu heilli.


Helsi er frelsi

Þingfundur er boðaður í fyrsta skipti á sunnudagskvöld. Fæstir búast við því að Alþingismenn komi saman um náttmál á helgideginum nema eitthvað verulega mikilvægt sem þolir enga bið þurfi að afgreiða með hraði.

Sumir hefðu haldið að nú ætti að taka á þeim vanda sem hefur skapast og er að skapast vegna verkfalla og setja ætti lög sem frestuðu verkföllum alla vega öryggisstétta. Nei svo er ekki. Tilefnið er að ræða nýtt haftafrumvarp frá Seðlabankanum þar sem boðað er að enn skuli gjaldeyrishöftin hert í þeim tilgangi að þau verði afnumin sem fyrst.

Óneitanlega dettur manni í hug pólitískt nýmæal George Orwell í bókinni 1984, en hann aðhylltist um tíma sömu pólitísku hugmyndafræði og Seðlabankastjóri. En sá er munurinn að George Orwell gerði upp við þá hugmyndafræði en það hefur Seðlabankastjóri ekki gert enn og gengur vel að selja stjórnarherrunum og hinu háa Alþingi að helsi sé frelsi.

Ekkert hefur verið lagt fyrir Alþingi um afnám gjaldeyrishafta, en það hlíur að koma að því fljótlega þar sem ítrekað er verið að herða gjaldeyrishöftin í því skyni að afnema þau. Ef til vill lítur ríkisstjórnin og Seðlabankastjóri þannig að að þetta sé eins og ró sem endar með að brotna í sundur ef endalaust er hert. Þannig var það alla vega með Sovétið.

Ráðlegg þeim sem ætluði að fylgjast með athyglisverðri umræðu frá Alþingi í kvöld drífi sig frekar í háttinn og lesi um þetta haftamál í fyrramálið - Ef það er þá þess virði.


Það er eitthvað rotið í listalífi Íslands

Einhver tók ákvörðun um að svisslendingur skyldi reisa mosku inn í kirkju í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Listamaðurinn hefur m.a, í listsköpun  lýst aðdáun á sjálfsmorðsfluginu á tvíburaturnana í New York 11. september.  Það var því að vonum að íslenska listaelítan sem sér um Feneyjatvíæringinn skuli hafa valið hann til að koma íslömskum áróðri á framfæri í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda  á forsendum listar.

Þrátt fyrir að borgaryfirvöld í Feneyjum hafi ekki leyft opnun moskunnar inn í kirkjunni þá var hún samt opnuð. Ibrahim Sverrir Agnarsson helsti talsmaður Múslima á Íslandi lýsti þessu með eftirfarandi hætti:

"Frábær dagur í moskunni í dag og ekkert vesen með yfirvöld og reglulegt hefðbundið bænahald. Sádar og fleiri forríkir hafa reynt að fá að byggja mosku í Feneyjum í áratugi og ekkert gengið---- Svo kemur hið smáa Langtiburtustan Ísland og reisir fallegustu og áhrifamestu mosku í Evrópu. Glæsilegt Múslimar taka andköf af hrifningu."

Þá liggur það fyrir. Markmiðið var að byggja mosku í Feneyjum á fölskum forsendum.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hver ber ábyrgð á þessu?  Málið heyrir undir menntamálaráðuneytið og Illugi Gunnarsson verður að svara fyrir málið. Ber hann ábyrgð en ef ekki hver þá.

 


Fjórmenningaklíkan/ The gang of four

Sú var tíðin að hópur valdþyrstra einstaklinga, kölluð fjórmenningaklíkan reyndi að ná alræðisvaldi í kínverska Kommúnistaflokknum og þar með Kína. Klíkan stóð fyrir menningarbyltingunni í Kína, en sú bylting var til að niðurlægja pólitíska andstæðinga Maos formanns og reyna að tryggja honum alræðisvald. Þegar leið á valdaránstilraunina þá réttu andstæðingar fjórmenningaklíkunnar jafnan upp fimm fingur en fimmti valdaránsmaðurinn var að sjálfsögðu Mao Tse Tung.

Samfylkingin hefur átt sína fjórmenningaklíku um nokkurra ára skeið. Hún kom fyrst fram grímulaust á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um Landsdómsmálið, en þá skáru þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Ólína Þorvarðardóttir og Helgi Hjörvar sig úr hópi þingmanna Samfylkingarinnar og greiddu atkvæði með ákærum á hendur m.a. Geir Haarde.

Ýmsir urðu til að halda því fram að þarna hefði verið um að ræða þaulhugsað plott Samfylkingarinnar, en svo var ekki. Það var bara fjórmenningaklíkan sem stóð fyrir þessu, en þá eins og í Kína forðum, þá glitti í andlit Jóhönnu Sigurðardóttur á bakvið plottið eins og í andlit Mao forðum í Menningarbyltingunni.

Í hlutafélagi hefði það verið talin tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku hefði hópur hluthafa paufast með mótframboð gegn sitjandi stjórn og safnað liði á laun og látið til skarar skríða þegar gagnaðilinn uggði ekki að sér. .Í Samfylkingunni er samskonar tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku og valdaráns af hálfu fjórmenningaklíkunnar kallað virkt lýðræði

Foringi valdaránstilraunarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sagði eftir tap sitt að hún væri að íhuga stöðu sína af því að hún hefði orðið fyrir árásum. Það tók hana ekki nema nokkra klukkutíma enda öllum ljóst að með því var hún aðeins að biðja sér griða. Formaðurinn sem Sigríður Ingibjörg vóg að úr launsátri,  lýsti því yfir í kristilegum kærleiksanda að syndir hennar væru henni fyrirgefnar.  

Öll Samfylkingardýrin eiga að vera vinir þrátt fyrir að nætur hinna löngu hnífa séu jafnan tiltækar plottmeisturum fjórmenningaklíkunnar. Þegar valdaránstilraunin hafði mistekist voru sumir hershöfðingjar valdaránsins eins og Ólína Þorvarðardóttir fljótir að beina athyglinni að einhverju sem engu máli skipti eins og  tillögu ungra Samfylkingarmanna um að hætt skuli tilraunum til olíuvinnslu í íslenskri lögsögu. Tillaga sem vó að fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar Össuri Skarphéðinssyni. Væringjum innan Samfylkingarinnar er ekki lokið, af því að fjórmenningaklíkan hefur enn trausta valdastöðu. Á bakvið þau fjögur glittir í fimmta andliðit. Andlit Jóhönnu Sigurðardóttur sem  engu hefur gleymt, en ekkert man þegar það hentar.

Er það virkilega bara Sighvatur Björgvinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir meðal Samfylkingarfólks,  sem geta talað þokkalega hreint úr pokanum um það sem Vilmundur heitinn Gylfason hefði kallað sk...pa..

 

 


Flokkur verðtryggingar og banka

Sigríður Inga Ingadóttir sem býður sig fram til formanns í Samfylkingunni sagði í framboðsræðu að Samfylkingin ætti ekki að vera flokkur verðtryggingar og banka í hugum fólks.

Á þessari dyggu stuðningskonu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum forsætisráðherra mátti skilja að það væri bara í hugum fólks sem Samfylkingin væri flokkur verðtryggingar og banka. Furðulegt að þingkonan skuli ekki vita að Samfylkingin er einmitt flokkur verðtryggingar og banka og engin hefur staðið betri vörð um þetta tvennt en foringi hennar og leiðtogi Jóhanna Sigurðardóttir með fylgi flokksins í heild, líka Sigríðar Ingu.

Sigríður Inga Ingadóttir sat á þingi síðasta kjörtímabil. Þá neitaði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ítrekað að gera nokkrar lagfæringar á verðtryggingunni en bauð ofurskuldugu fólki upp á 110% leið sem fól í sér að kaupa húsin sín á 10% yfirverði. Hún sat líka á þingi sem stuðningsmaður ríkisstjórnar þegar erlendum hrægammasjóðum voru færðir bankarnir á silfurfati án þess að svigrúm til skuldaleiðréttingar fyrir almenning væri nýtt.

Hafi þessi formannskandídat Samfylkingarinnar fylgst með þjóðmálum í lengri tíma en hún hefur setið á þingi þá hefur hún sennilega vitað af því að ég vildi að verðtryggingin væri tekin úr sambandi strax við hrunið og þáverandi forsætisráðherra vildi skoða þá hugmynd, en málið stoppaði hjá Jóhönnu Sigurðardóttur.

Án efa veit Sigríður Inga þetta allt saman en telur líklegt til fylgisaukningar að þykjast og reyna að slá ryki í augun á auðtrúa sálum Samfylkingarinnar. Eitt má Sigríður Inga eiga, en það er að hún hefur lipran talanda og nú kemur einnig í ljós varðandi Sigríði Ingu það sem skáldið sagði:

Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

 


Óbærilegur léttleiki tilverunnar

Eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar, afhenti utanríkisráðherra Litháen lítið letters bréf um slit aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið hafa margir velt fyrir sér hvort sú aðferð sé lögformlega rétt,lýðræðisleg, þingræðisleg eða jafnvel ekkert af þessu.

Í 7.mgr 45.gr. þingskaparlaga 55/1991 segir: "Forsætisráðherra leggur í október á hverju ári fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar auk yfirlits um framkvæmd þingsályktana sl.þrjú ár nema lögin kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal enn fremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Nefndin getur lagt fyrir þingið álit sitt á skýrslu ráðherra, ef hún telur ástæðu til, gert tillögur til þingsins um einstök atriði í skýrslunni."

Af þessu ákvæði þingsskaparlaga verður ekki ráðið en að einstakir ráðherrar eða ríkisstjórn geti einhliða og án atbeina meirihluta Alþingis fellt úr gildi þingsályktun sem Alþingi hefur samþykkt. Alla vega yrði þá að gera það með þeim formlega hætti sem 7.mgr. 45.gr. þingskaparlaga kveður á um. Ríkisstjórn hefur enga stjórnskipulega heimild til að fella úr gildi þingsályktunartillögu og það dugar ekki að laumast úr landi með lítið letters bréf og ímynda sér að þar með hafi ríkisstjórnin hnekkt þingsályktun.  Sú aðgerð er stjórnskipulega marklaus.

Aðferð ríkisstjórnarinnar í málinu er því stjórnskipulega röng. Auk heldur er hún ólýðræðisleg. Hún er ekki þingræðisleg og getur leitt til þess að bolabrögðum verði beitt í auknum mæli í íslenskum stjórnmálum. En hvað brýnast var nú að leiða stjórnmálin út úr þeim farvegi og  í þann sem tíðkast með þróuðum lýðræðisríkjum.

Afstaða til Evrópusambandsins skiptir ekki máli í þessu sambandi.

                        

 


Kaupþingslánið og ráðsmennska Seðlabankastjóra

Kaupþing fékk 500 milljón Evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands (SÍ) 6.10.2008. Öllum sem sátu á Alþingi mátti vera ljóst að mjög var þrýst á það af ýmsum hagsmunaaðilum og ríkisstjórn að SÍ veitti Kauþingi lánið. Öllum var einnig ljóst að miklu skipti að einn af stóru viðskiptabönkunum lifði af bankakreppu. Þess vegna var lánvetingin talin áhættunnar virði.

Seðlabankinn veitti lánið að fengnum upplýsingum frá stjórnendum Kaupþings, sem að hluta til voru rangar og tók veð í nánast öllum hlutum í FIH bankanum í Danmörku til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Þegar Bretar settu hryðjuverkalög á Ísland og bankann Singer og Friedlander í eigu Kaupþings varð ekki við neitt ráðið. Kaupþing fór í slitameðferð. 

Stjórnarandstaðan og fréttamiðlar m.a. fréttastofa RÚV virðist haldin þeirir þráhyggju að símtal millil þáverandi forsætisráðherra Geirs H. Haarde og þáverandi Seðlabankastjóra og  Davíðs Oddssonar, skipti einhverjum sköpum varðandi lánveitinguna.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 22.2.s.l. er fjallað um þá staðreynd að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og INgibjargar Sólrúnar Gísladóttu var áfram um að lánið yrði veitt. Enfremur að að þeri sem tóku við í Seðlabankanum beri ábyrgð á meðferð veðsins og endurheimtu lánsins.

Viðbrögð stjórnarandstöðu  og fréttamiðla við þessum upplýsingum hafa verið með ólíkindum. Enn eru settar fram upphrópanir um símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde og síðan gert mikið úr því að Seðlabankinn beri ábyrgð á lánveitinunni eins og það liggi ekki ljóst fyrir.

Hefði Davíð Oddsson og sambankastjórarar hans í SÍ ekki haft víðtækt samráð við ráðandi aðila í þjóðfélaginu um veitingu lánsins þá hefði það verið óeðlilegt miðað við þær alvarlegu aðstæður sem blöstu við. Þá er spurningin hvort rangt hafi verið að veita lánið gegn því veði sem SÍ tók? Miðað við aðstæður á þeim tíma og þær upplýsingar sem fyrir lágu þá var það ekki.

Það sem mestu máli skiptir er að SÍ gat fengið lánið endurgreitt að fullu í september 2010. Tjón skattgreiðenda vegna neyðarlánsins til Kaupþigs hefði þá ekkert orðið.

Þannig greinir viðskiptabalað Berlinske Tidende og Morgunblaðið og raunar fleiri miðlar frá því þann 17.9.2010 að tvö tilboð hafi verið gerð í hlutabréfi í FIH-bankanum. Annað tilboðið hafi tryggt endurgreiðslu 500 milljóna evra neyðarlánsins að fullu. Ef Már Guðmundsson bankastjóri SÍ, hefði fallist á það tilboð þá hefði tjón SÍ og skattgreiðenda ekkert orðið af veitingu neyðarlánsins.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla  ákvað Már Guðmundsson að taka áhættu og fallast á annað tilboð þar sem hluti neyðarlánsins var endurgreiddur, en SÍ tók síðan áhættu af gengi danska skartgripafyrirtækisins Pandóru vaðandi eftirstöðvarnar þannig að skilanefnd Kaupþings gæti þá hugsanlega fengið einhverja fjármuni í sinn hlut. SÍ undir stjórn Más ákvað því að taka áhættu án ávinnings nema þá fyrir þriðja aðila. Þetta virðist hafa verið gert án samhliða kröfu til þess, að slitabúið myndi ábyrgjast  greiðslu þess sem ekki fengist greitt af láninu.

Með þessari ákvörðun setti Már Guðmundsson hagsmuni skattgreiðenda í hættu. SÍ gat aldrei fengið meira en sem nam andvirði neyðarlánsins og eini aðillinn sem gat hagnast á þessari ráðstöfun var skilanefnd Kaupþings.

Það þarf ekki að rannsaka neitt eða hlusta á símtöl. Málavextir liggja ljósir fyrir. Í fyrsta lagi þá var um eðlilega lánveitingu að ræða til Kaupþings með neyðarláninu upp á 500 milljónir evra miðað við aðstæður. Í öðru lagi gætti SÍ þess að taka fullnægjandi veð og í þriðja lagi þá virðist núverandi bankastjóri SÍ hafa teflt hagsmunum bankans í hættu með því að taka ekki tilboði um sölu veðsins í september árið 2010 sem tryggt hefði fulla endurgreiðslu neyðarlánsins. Niðurstaða þess ræðst ekki endanlega fyrr en í árslok 2015.

Mér er það ráðgáta að fjölmiðlar og stjórnmálamenn þessarar þjóðar skuli ekki gera sér grein fyrir jafn einföldum staðreyndum og greina aðalatriði frá aukaatriðum og átta sig á hver er Svarti Péturinn í spilinu.

(Grein í Morgunblaðinu birt 24.2.2015)

 


Ég um mig frá mér til mín.

Í greinarkorni sem Jón Gnarr ritar í Fréttablaðið í dag tekst honum að nota persónufornafnið, ég í meir en tuttugu skipti. Nú er það ekki nýlunda að stjórnmálafólki þyki vænt um sjálft sig og þyki mikið til sín koma, en það er fátítt að þeir hinir sömu sýni það á jafn grímulausan hátt og Jón Gnarr gerir í greininni.

Grínistinn Tom Lehrer sem var vinsæll á áttunda áratug síðustu aldar segir frá því í einu ljóði sínu, "We are the folk song army" með sinni kaldhæðnislegu kímni, hvað það er erfitt og óvinsælt að berjast fyrir hlutum, "sem allir aðrir eru á móti" og Jón Gnarr fjallar um í grein sinni málum eins og friði, vináttu og mannkærleik.  

Hér skal tekið undir allar hugrenningar og stílbrögð Jóns Gnarr um gæskuna og mannkærleikann, sem gott er að hafa jafnan í huga og þá er e.t.v. ekki fráleitt að spyrja fyrrum ráðandi stjórnmálamann hvort það hafi verið inntakið í stjórnsýslu hans á liðnu kjörtímabili sem borgarstjóri í Reykjavík. Einhver mundi segja að þar hafi verið "business as usual" (sama stefna og áður) með þeim blæbrigðum sem fólust í lélegri stjórnun, hækkun gjalda og verri þjónustu fyrir borgaranna.

 


Þjónusta borgarinnar er í ólestri.

Sama dag og rektor Háskóla Íslands blandaði þeirri merku stofnun í kosningabaráttu Jóns Gnarr með þáttöku í svonefndu friðarsetri þar sem Dagur B. Eggertsson og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur forgöngu fyrir þennan foringja sinn og leiðtoga, þurftu almennir Reykvíkingar að gera sérstakar ráðstafanir vegna þess að Reykjavíkurborg er hætt að sinna lögmæltum skyldum sínum við borgarana sem skyldi.

Sorp hefur hlaðist upp þar sem einstaklingarnir hafa ekki úrræði til að koma því sjálfir frá sér. Afsökun borgaryfirvalda er sú að færðin í Reykjavík sé með þeim hætti að það afsaki sleifarlagið. Veður eru þó ekki vályndari en við má búast á þessum árstíma og ófærð hefur ekki verið svo máli skipti í henni Reykjavík.

Jafnvel þó að sú afsökun borgarstjóra væri tekin sem sannleikur að vont veður hefði hamlað því að borgararnir fengju eðlilega og viðunandi þjónustu, þá væri samt hægt að bregðast við væri þokkalega hugmyndaríkur borgarstjórnarmeirihluti við völd. Það er hægt að leysa slík vandamál ef vilji er fyrir hendi án mikils kostnaðar. En viljann skortir og þetta er afgangsverkefni hjá Latte lepjandi gáfumönnunum sem stjórna Reyikjavíkurborg.

Á sama tíma og fólk paufast með stóra svarta plastpoka á endurvinnslustöðvar eftir að sorptunnurnar eru löngu orðnar yfirfullar, klæðir borgarstjóri sig uppá og býður til veislu í Höfða til að sinna að hans mati brýnasta verkefni borgarinnar, að stofna kosningamiðstöð fyrir Jón Gnarr. Bogarstjóri og meðvirkur háskólarektor lýsa því síðan fjálglega hvað Reykjavíkurborg geti unnið mikið starf í þágu friðar. Fróðlegt að fylgjast með því.

Við erum epli sögðu hrútaberin.

 


Hefur bensín lækkað um 30%

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið að lækka undanfarna mánuði. Olíuverð er nú rúmlega 30% lægra en það var í byrjun ársins. Sú verðlækkun ætti að skila sér í a.m.k  30% verðlækkun á bensíni og olíuvörum til neytenda.

Hafa neytendur orðið varir við að bensín og olíur væru að lækka verulega í verði?

Sé ekki svo þá getur samkeppni ekki verið virk á þessum markaði og bensínverð allt of hátt.

En svo getur náttúrulega birgðastaðan verið óheppileg þannig að olíufélögin geta ekki lækkað fyrr en þegar nýjar birgðir eru keyptar. Slíkt var jafnan viðkvæðið þegar gengið gekk í bylgjum. En nú er því ekki að heilsa.

Eru olíufélögin á beit í buddunni þinni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 544
  • Sl. sólarhring: 674
  • Sl. viku: 2562
  • Frá upphafi: 2505990

Annað

  • Innlit í dag: 496
  • Innlit sl. viku: 2391
  • Gestir í dag: 469
  • IP-tölur í dag: 454

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband