Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Íþróttir

Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar er skelfilegt.

Enn á ný beitir stjórn KSÍ refsivaldi gegn leikmanni landsliðsins í knattspyrnu vegna ásökunar sem hann getur ekki afsannað að svo stöddu. Öll þessi dyggðarskreyting stjórnar KSÍ er andstæð grundvallarreglum laga um að hver skuli talinn saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. 

Stjórn KSÍ eyðilagði íslenska landsiðið um árabil vegna þessarar dyggðarskreytingar gagnvart okkar bestu landsliðsmönnum vegna ásakana, sem ekkert varð úr. Nú á að halda áfram þeim leik. 

KSÍ er ekki eitt um þessi viðbrögð því miður. Íslenska dyggðarsamfélagið hefur hverfst um refsigleði af þessum toga um nokkurra ára skeið. En það er ekki hlutverk KSÍ að refsa fólki og það á ekki að taka sér refsivald í hönd.

Það sem er enn alvarlegra við þessa nýtískulegu refsigleði gagnvart mönnum, sem hafa ekki haft tækifæri til að grípa til varna er að refsing hins nýgerða almannavalds í réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar felst í því sama og var á svörtustu tímum í sögu kaþólsku kirkjunnar þegar menn voru bannfærðir og gátu enga björg sér veitt. Þeir máttu ekki vinna og enginn mátti rétta þeim hjálparhönd. Í Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar eru menn flæmdir úr starfi og geta takmarkaða björg sér veitt að því leyti er um harðari refsingu að ræða, en almannavaldið gerir mönnum sannist meint sök þeirra. 

Svona má þetta ekki ganga til. Hver einstaklingur verður að njóta mannréttinda og þeirra kosta sem réttarríkið býður þegnum sínum. 


Þjóðarátak um

Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og borgarstjóri kynntu í dag stöðu og næstu skref byggingar nýrrar þjóðarhallar. Sem á mæltu máli kallast íþróttahús þeirrar gerðar, að það standist alþjóðlegar kröfur, en Laugardalshöllin er löngu hætt að gera það. 

Það er ekki vansalaust, að við skulum ekki hafa haft döngun í okkur til að byggja sómasamlegt íþróttahús og þjóðaríþróttin svokallað handboltin skuli hafa verið á hrakhólum og undanþágum. 

Áætlað að bygging þjóðarhallarinnar kost 15 milljarða,en ekki liggur fyrir hver borgar hvað ríki eða Reykjavík.

15 milljarðar ættu ekki að þvælast fyrir "ofurríkri þjóð", sem eyðir árlega hærri upphæð í vafstur í kringum hælisleitendur.

En sum verkefni eru brýnni en önnur. 


Dómarar í sjálfs síns sök

Dómarar á íþróttaleikjum sæta oft ámæli fyrir að vera lélegir eða dæma illa. Sjaldnast eru þeir þó sakaðir um óheiðarleika. Gagnrýnin lítur að því að þeir séu ekki nógu góðir. 

Ríkisútvarpið rekur fjölmenna fréttastofu. Fréttamennirnir taka ákvörðun um hvað þyki fréttnæmt og hvað ekki. Iðulega hefur verið á það bent, að þessi fréttastofa sinni hlutverki sínu illa. Fréttir séu lélegar en þó það sem verra er að það sé ekki fullkominn heiðarleiki í framsetningu frétta vegna pólitískrar afstöðu fréttamanna. Þá virðist sem að RÚV sé ætíð málsvari einnar skoðunar og afstöðu sbr. kastljósþætti og kveik. Aðrar skoðanir en þær einu réttu að mati fréttamanna RÚV fá að komast að.

Á valdatíma Donald Trump Bandaríkjaforseta leið varla sá dagur, að fréttastofa RÚV segði ekki fréttir af válegum tíðinum í Bandaríkjunum eða hvað Trump væri hroðalega vitlaus. Morgufréttir byrjuðu nánast alltaf á því þegar Kóvídið kom, hvað margir hefði smitast daginn áður í Bandaríkjunum og síðan var hamrað á því daginn á enda með ýmsmum tilbrigðum. 

Þegar Joe Biden tók við hurfu þessar fréttir úr  RÚV. Gat verið að þá hefði ekkert fréttnæmt verið að gerast í því landi? 

Þessa dagana undir stjórn Joe Biden, eru innlagnir á spítala í Bandaríkjunum fleiri en nokkru sinni fyrr. Verðbólga er hærri en hún hefur verið síðustu fjóra áratugina og þeir sem eru ánægðir með störf forsetans eru einungis 33% þjóðarinnar eða 5% færri en voru ánægðir með störf Trump á sama tíma. Af hverju þykir fréttamönnum RÚV þetta ekki fréttaefni? Þær hefðu vafalaust verið stórfréttir hefði Trump verið forseti.

Íþróttadómarar eru stundum lélegir af því að þeim yfirsést. En það læðist að mörgum sá grunur,að fréttastofa RÚV sé ekki bara léleg vegna þess að þeim hafi yfirsést. 

Svo miklu varðar á íþróttaleikjum,að það eru sérstakir eftirlitsdómarar og hægt er að endurskoða dóma með því að horfa á upptökur. Fréttamenn RÚV hafa enga eftirlitsdómara til að fylgjast með að þeir halli ekki réttu máli og aðhald og eftirlit með fréttstofunni er ekkert. 


Sem betur fer er til fólk sem þorir.

Sem betur fer eigum við einstaklinga, sem kikna ekki í hnjáliðunum og þora að vera málsvarar sannleikans og skynseminnar þegar allt of margir kikna í hnjáliðunum og láta berast með ímynduðum meginstraumi til að samsama sig því sem þeir telja til vinsælda fallið. 

Hrósið í dag eiga þau Guðmundur Oddson fyrrum skólastjóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi og Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður, sem leyfa sér og þora að vera málsvarar sannleikans og skynseminnar í umfjöllun um meinta ofbeldis- og nauðgunarmenningu knattspyrnumanna. Því miður báru forsætisráðherra, menntamálaráðherra, dómsmálaráðherra sem og því miður forseti lýðveldisins ekki gæfu til að vera málsvarar sannleikans og réttarríkisins í þessu máli heldur kiknuðu og létu berast með ofurstraumi rangra staðhæfinga og ofbeldis.

Hefði þá mátt vísa til þess fornkveðna. "Heggur sá er hlífa skyldi."

Guðmundi Oddssyni er ofboðið og í grein sinni í mbl. í dag spyr hann m.a."Erum við virkilega komin á sama stað og Talíbanarnir? Hann vísar þar til siðapostula Öfga og Stígamóta, sem nú tröllríða samfélagsmiðlum og hverju það varði komist þeir upp með það að halda áfram að fordæma allt og alla."

Í frábærum leiðara í Fréttablaðinu í dag segir Kolbrún m.a.

"Í miklum dómadagshávaða þar sem alls kyns fullyrðingum og ásökunum hefur verið kastað fram reynist mörgum erfitt að halda haus. Það á við um stjórn KSÍ sem þoldi ekki álagið og sagði af sér á einu bretti. Stjórnin hefði sýnt meiri manndóm með því að standa í lappirnar fremur en lúffa fyrir múgæsingi.

Allt þetta mál er dæmi um það þegar farið er algjörlega offari. Fullyrðingum og ásökunum er kastað fram og þar sem margir fara á taugum er málið ekki rannsakað ofan í kjölinn. Yfirvegun og skynsemi fýkur út í veður og vind.

Það er ekki nema von að mörgum ofbjóði þótt fáir þori að opinbera það af ótta við fordæmingu."

Hér er ekki farið fram af neinu offorsi heldur það sagt sem ætti að liggja í augum uppi. Þessvegna er svo dapurlegt að dómsmálaráðherra skuli ekki hafa strax tekið upp þykkjuna fyrir réttarríkið og eðlilega réttarvernd einstaklinga, en reyna þess í stað að samsama sig með múgæsingunni og öfgunum. Forsætisráðherra og menntamálaráðherra gengu þó enn lengra svo ekki sé talað um forseta lýðveldisins. 

Það hefði einhverntímann þótt saga til næsta bæjar, að tveir eðalkratar, en ég leyfi mér að kenna þau Guðmund og Kolbrúnu við þann ágæta merka fyrrum stjórnmálaflokk, þora að bera sannleikanum vitni og rísa gegn pópúlísku ofbeldi, þegar helstu ráðherrar þjóðarinnar og forseti lýðveldisins telja sér hentast að samsama sig með talíbanismanum í aðsókninni að íslenskum knattspyrnumönnum.


Ungverjar

Það var að mörgu leyti gaman að fylgjast með leik Ungverja og Þjóðverja á EM í gærkvöldi. Ungverjar leiddu lengst af, en þegar Þjóðverjar skoruðu og jöfnuðu leikinn svöruðu Ungverjar fyrir sig eftir rúma mínútu. Þar við sat þar til tæpar 10 mínútur voru til leiksloka þegar Þjóðverjar jöfnuðu loksins. 

Ungverjar voru úr leik, en samt sem áður gengu þeir að stúkunni þar sem stuðningsmenn þeirra sátu og klöppuðu að hætti íslenska landsliðsins í knattspyrnu og stuðningsmanna þeirra. Það var aldeilis að liðið sem sendi okkur út í kuldann skuli hafa tileinkað sér Víkingaklappið okkar. Stuðningsmennirnir þeirra svöruðu að bragði taktfast eins og okkur Íslendingum hefur hingað til einum verið lagið. Þar tóku þeir okkur til fyrirmyndar þó þeir hefðu unnið okkur og farið á EM í staðinn fyrir okkur. 

Ungverjar voru í riðli með helstu knattspyrnuþjóðum Evrópu, Frakklandi, Portúgal og Þýskalandi og fóru í gegnum mótið með miklum sóma og minntu um margt á íslenska landsliðið, að leggja sig allan fram og berjast ef á þurfti að halda fullir af vilja og keppnisgleði. 

Eigum við ekki að þakka okkur það að hafa kennt Ungverjum þetta tvennt: Að leggja sig alla fram og keppa ef á þarf að halda á viljanum þegar máttinn skorti og klappið góða.  

 


Ellert

Ég lauk við að lesa bókina Ellert, endurminningar Ellerts B. Schram vinar míns fyrir nokkru. Bókin er skemmtileg aflestrar og frásagnarstíllinn léttur og skemmtilegur mjög svo í anda höfundar. 

Gerð er góð grein fyrir fjölbreytileikanum í lífi, starfi og áhugamálum höfundar. Þar er af svo mörgu að taka, að eðlilegt er að því séu ekki öllu gerð ítarleg skil og sumu raunar yfirborðslega. Ég reikna með að þeir sem fylgdu Ellert í íþróttastarfi og innan íþróttahreyfingarinnar sakni margs, sem þeir telja mikilvægt að hefði komið fram alveg eins og við samferðamenn Ellerts í pólitík söknum margs, sem hefði verið gaman að höfundur gerði fyllri skil. 

Við Ellert áttum lengi samleið í pólitík eða allt til þess, að hann gekk í Samfylkinguna, en við það fjölgaði raunar skemmtilegu fólki í Samfylkingunni um þriðjung. Ég hefði viljað sjá ítarlegri umfjöllun í bókinni um hvað réði því, að Ellert sagði endanlega skilið við Sjálfstæðisflokkinn og valdi að ganga í Samfylkinguna. Einnig að höfundur hefði gert fyllri grein fyrir þeim átökum sem voru í Sjálfstæðisflokknum í átökunum milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen og þá ákvörðun hans að hætta við að gefa kost á sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins í framboði á móti Geir Hallgrímssyni, en af því tilefni,skrifaði meðritstjóri Ellerts á DV, Jónas Kristjánsson heitinn, að þjóðin hefði eignast sinn Hamlet.

Ellert gerir takmarkað grein fyrir þingstörfum sínum á fyrri árum þingmennsku sinnar og á það skortir að gerð sé grein fyrir ýmsum helstu baráttumálum höfundar í pólitík í gegnum tíðina.

Hefði höfundur og Björn Jón Bragason sem vann bókina með Ellert kosið að gera ítarlegri grein fyrir þeim mörgu atriðum, sem æskilegt hefði verið að gert yrði og ég hefði kosið, hefði bókin að sjálfsögðu orðið öðruvísi og vafalítið leiðinlegri aflestrar fyrir flesta og bókin meir en helmingi lengri.

Bókin er eins og hún er, létt og skemmtileg og lýsir vel leiftrandi frásagnargáfu höfundar og gerir góða grein fyrir helstu þáttum í lífi og starfi höfundar og sýnir lesendum inn í þann heim sem höfundur ólst upp við, þroskaferil hans, áföllum og sigrum. 

Það má virkilega mæla með þessari bók fyrir þá sem vilja lesa skemmtilega bók um endurminningar manns, sem hefur komið víða við og gegnt mörgum trúnaðarstörfum og tekur sjálfan sig ekki allt of hátíðlega nema í undantekningartilvikum. 

 

 


Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Illa hefur gengið að ráða við C-19 veiruna í þessari nýju árás hennar á þjóðina. Þrátt fyrir aðgerðir og hertar aðgerðir, gengur lítið því miður. Þegar svo háttar til hættir fólki til að grípa til örþrifaráða að ástæðulausu.

Nú er þannig komið fyrir sóttvarnaryfirvöldum, af því að illa hefur gengið, að þau telja skyldu sína að finna upp á einhverju nýju til að banna, til að sýnast vera að gera eitthvað merkilegt. Grípi sóttvarnaryfirvöld til þess, þá eru þau í leið að viðurkenna, að þau hafi ekki gert rétta hluti síðast þegar þau takmörkuðu frelsi borgaranna. 

Af gefnu tilefni talaði RÚV við landstjórann, Kára Stefánsson í Kastljósi í gær, en jafnan er talað við hann þegar býður þjóðarsómi. Kári lýsti þörf á víðtækum aðgerðum og hertum m.a. að lokað yrði öllum verslunum nema matvöruverslunum. Í sjálfu sér er það ekkert vitlausara en að banna fólki að fara til rakara eða á hárgreiðslustofu. En vitlaust samt.

Getur verið að uppspretta smita sé í járnvöruverslunum, rafmagnsverslunum eða fataverslunum? Svarið er nei. Sama á raunar við um rakara- og hárgreiðslustofur. Hvaða rök eru þá fyrir því að loka þeirri starfsemi?

Úr því sem komið er, þá verður ekki við það unað lengur, að sóttvarnaryfirvöld grípi til víðtækra lokana og frelsisskerðingar borgaranna með ástimplun dáðlausrar ríkisstjórnar, nema færð séu rök fyrir nauðsyn og tilgangi. Hingað til hefur þess ekki þurft og þessir aðilar hafa farið sínu fram vitandi, að óttinn sem hefur gripið um sig í þjóðfélaginu leiðir til þess, að fáir og jafnvel engir spyrja spurninga hversu vitlausar svo sem aðgerðirnar eru. 

En nú er komið að vatnaskilum. Þjóðfélagið þolir ekki frekari frelsisskerðingar og takmarkanir, hvað þá þegar engin rök hníga að því að þau skipti máli eins og er um almenna mannlega starfsemi svo fremi fólk gæti að fjarlægðarmörkum og almennu hreinlæti. 

Aðalatriðið er að fólk passi sig og fari eftir almennum sóttvarnarreglum, en fái að lifa í frjálsu samfélagi, þar sem múrar og girðingar eru ekki settar um venjulegt líf borgaranna.

Því til viðbótar má leiða líkur að því að þessi faraldur muni réna innan skamms án frekari frelsisskerðinga og jafnvel þó að ýmsum takmörkunum yrði aflétt svo sem banni við að strákar og stelpur fái að spila fótbolta. Þess vegna er komið að ríkisstjórninni að standa í lappirnar en halda ekki áfram að eyðileggja efnahagslíf og velmegun þjóðarinnar til langframa.

Erfiðasti hjallinn er að komast í gegnum hópsýkingar á hjúkrunar- og öldrunarstofnunum, sem ekki tókst að koma í veg fyrir þrátt fyrir allar ráðstafanirnar. Þær eru staðreynd og við þeim verður ekkert gert núna annað en að hlúa sem best að þeim veiku og öldruðu sem smituðust á þessum stofnunum. En að öðru leyti og í framhaldi af því má ætla að smitum fækki verulega.

En í slíkum tilvikum, þegar sótt er í rénun eða við það að komast á það stig, þá skiptir heldur betur máli fyrir sóttvarnaryfirvöld að herða á ráðstöfunum til að geta sagt eins og Jón sterki forðum í Skugga Sveini, Matthíasar Jochumsonar.

"Sáuð þið hvernig ég tók hann." 


Í tilefni fundar nr. 100

Veirutríóið mun byrja sinn hundraðasta fund vegna C-19 fljótlega. Í byrjun var skírt markmið: að halda veikinni í því lágmarki að heilbrigðisþjónustan gæti jafnan sinnt þeim sjúku. 

Markmiðið náðist.Fullur sigur miðað við markmiðssetninguna. 

Síðan varð stefnulaust tómarúm. Haldið var við allskyns varúðarráðstafanir eftir sem áður jafnvel þó smit greindust ekki svo vikum skipti. 

Svo komu smit. Engum dettur þó í hug að það verði til þess, að heilbrigðisþjónustan geti ekki sinnt þeim sjúku. Hvert er markmiðið núna? Hvenær á að létta af takmörkunum á frelsi fólks?

Ríkisstjórnin hefur ekki markað neina stefnu í málinu hvorki fyrr né síðar. Hún hefur jafnan borið Þórólf sóttvarnarlækni fyrir sig eins og skjöld, sem þessvegna hefði mátt letra á: "Sómi Íslands sverð og skjöldur". Hún hefur skrifað upp á allt sem hann hefur lagt til. Svo fór á endanum, að jafnvel þessum sóma þjóðarinnar ofbauð og fór fram á, að ríkisstjórnin færi að stjórna landinu. Hann er í hópi örfárra einstaklinga sem njóta þess ekki að vera einráðir, en eru tilbúnir að afsala sér völdum.

Hvað sem lokunum og opinberum þvingunarúrræðum áhrærir, þá sýndi það sig um helgina,að sá hópur þjóðfélagsins sem er í mikilli þörf fyrir að viðhalda tegundinni og hefur fulla getu til þess, jafnvel á hinsegin dögum, lét sér lítt segjast um fjarlægðartakmarkanir og önnur bönn. Fróðlegt verður að sjá hvort að C-19 smitum fjölgar vegna þessa eftir viku eða svo. Ef ekki er þá ekki nokkuð ljóst að samfélagssmit eru hér fá og óþarfi að banna strákum og stelpum að hlaupa léttklæddum eftir fótbolta eða öðrum að horfa á þau hvað þá ýmsar anna sambærilegt og samfélagslegt. 

Nú þegar 100 fundir veirutríósins hafa verið haldnir. Hvernig væri þá að ríkisstjórnin birti stefnumið sín varðandi baráttuna við C-19 og hvað þarf til að fólk fái aftur að búa við fullt frelsi og því verði sjálfu treyst fyrir eigin sóttvörnum. 


Móðir allra sigra

Svo virðist sem að sigur íslenska landsliðsins í knattspyrnu hafi valdið því að þjóðinni muni fjölga töluvert níu mánuðum eftir þennan sögulega sigur.

Blaðið Daily Telegraph segir, að á Íslandi verði sigursins yfir Englandi minnst um ókomna tíð, en nú sé talið að sigurinn hafi einnig haft þá þýðingu að óvænt fjölgun barnseigna fylgi í kjölfarið. Blaðið vísar í lækninn Ásgeir Pétur Þorvaldsson í því sambandi.

Þá er bara að vona að landsliðið haldi áfram að vinna góða sigra svo að framhald geti orðið á fjölgun barnseigna með blómstrandi þjóðlífi og fleiri ánægjustundum með þjóðinni.

Er þá ekki við hæfi að segja áfram Ísland?


The lowly Iceland

Gremja Englendinga brýst fram með ýmsum hætti vegna þess að landsliðið þeirra tapaði fyrir Íslandi. Í grein í Daily Telegraph í dag er talað um að þeir hefðu tapaði fyrir "the lowly Iceland" þ.e. tapað fyrir þessu ómerkilega Íslandi. Annarsstaðar í blaðinu er liðinu hins vegar hrósað fyrir einbeitni og góðan fótbolta.

Seinna í dag keppir Íslenska landsliðið við það franska á þjóðarleikvangi Frakka í París. Leikvangurinn rúmar meir en 80 þúsund manns eða eins og einn af hverjum fjórum Íslendingum. Þannig kæmust rúmlega 25% íslensku þjóðarinnar á þennan völl.

Þessi stærðarhlutföll og sú staðreynd að við erum ítrekað að keppa við milljónaþjóðir og höfum haft betur fram að þessu sýnir hversu frábær árangur íslenska landsliðsins er.

Það þarf margt að ganga vel og fótboltinn er nú einu sinni þannig að það þarf góða og sterka liðsheild ásamt heppni til að vinna leiki þegar keppt er við álíka góð eða betri lið. Við höfum aldrei átt jafn sterkt og heilstætt landslið þar sem valinn maður er í hverju rúmi og við getum valið um frábæra varamenn til að fylla þeirra skörð ef nauðsyn ber til.

Synir mínir ákváðu að skella sér til Parísar til að styðja okkar menn og buðu mér að koma með, en ég sagðist frekar vilja slá tvær flugur í einu höggi og sjá undanúrslitaleik Íslands við Þýskaland og síðan úrslitaleikinn. Ég vona að mér verði að ósk minni og Ísland vinni Frakkland seinna í dag.

Þegar sú stund nálgast að strákarnir okkar fari að spila á þjóðarleikvangi Frakka í París mun ég fara í svitastorkinn íþróttabúninginn minn, en ég hef ekki viljað þvo hann síðan við byrjuðum að vinna af eintómri þjóðlegri hjátrú, en ég er eins og margir aðrir sem halda að þeir eigi besta leik allra á hliðarlínunni og það sé undir þeim komið hvernig leikurinn fer.

Hvernig svo sem gengur í dag þá erum við samt með langbesta landslið í heimi miðað við fólksfjölda.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 339
  • Sl. sólarhring: 571
  • Sl. viku: 4160
  • Frá upphafi: 2427960

Annað

  • Innlit í dag: 313
  • Innlit sl. viku: 3849
  • Gestir í dag: 299
  • IP-tölur í dag: 278

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband