Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Postulinn Páll og Þjóðkirkjan

Frumvarp um að banna limlestingu á getnaðarlim nýfæddra sveinbarna hefur valdið meiri ólgu og tilfinningaóreiðu en önnur lagafrumvörp sem lögð hafa verið fram á þessu þingi. 

Íslenska þjóðkirkjan hefur blandað sér í málið og telur yfirmaður þeirrar kirkjudeildar að leyfa beri áfram að höggva forhúð af getnaðarlim ómálga sveinbarna, að því er virðist til að komast hjá því að móðga þá sem vilja halda þeim fornaldarsið áfram.

Með þessu neitar þjóðkirkjan sér um að hafa aðra skoðun en þá sem er þóknanleg öðrum trúarhópum. Spurning er hvaða gildi slík kirkjudeild hefur sem sviptir sig heimild til að taka afstöðu, ef það getur valdið því að einhver sé ósáttur við afstöðuna. 

Í frumkristni var umskurnin töluvert til umræðu og postulinn Páll tók mjög eindregna afstöðu gegn því að hún væri eitthvað sem máli skipti og taldi að óumskornir gætu orðið hólpnir í náðarfaðmi Guðs ekkert síður en umskornir. 

Þannig segir Páll postuli í I. Korintubréfi 7.kap 18-19. versi "Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig. Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs."

Biskupinn yfir Íslandi gat ekki tekið undir með Páli postula ef til vill vegna trúfræðilegrar vanþekkingar og e.t.v. vegna vilja til að sýna hversu undansláttarstefna og hugmyndasneyð hinnar evangelísku Lúthersku kirkju er algjör. 

Er ekki rétt að standa með réttindum ungbarna og boðun Páls Postula og leyfa þeim sem vilja láta limlesta kynfæri sín með umskurði að gera það þegar þeir hafa vit á að taka sjálfir þá ákvörðun. 

Þeir sem halda því fram að sú ákvörðun að banna umskurn ungbarna á Íslandi sé móðgun við fornaldarhugsun ákveðinna trúarbragða geta í sjálfu sér gert það, en það má ekki breyta því að við tökum rétta ákvörðun gegn hjátrú og hindurvitnum. Jafnvel þó það séu valdamikil öfl sem styðji ofbeldið. 


Ber einhver ábyrgð í núinu?

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með varnarræðum Barnaverndarnefndar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna ótrúlegra mistaka beggja þessara stofnana vegna máls kynferðarafbrotamanns gagnvart börnum. 

Barnaverndarstofa lét manninn starfa áfram þrátt fyrir fyrri brot hans, sem sýndu að honum var ekki hægt að treysta. 

Lögreglan tilkynnti ekki um kæru gegn manninum vegna brots svo mánuðum skipti þótt hann væri í vinnu á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. 

Engum vafa er undirorpið að þarna urðu báðum aðilum á alvarleg mistök, sem eðliegt er að verði skýrð og gaumgæft hvort einhverjir beri þá ábyrgð á þessum mistökum að þeim sé ekki lengur sætt í störfum sínum. Þetta ætti að vera augljóst öllum. 

Nú bregður hins vegar svo við í umræðunni að þegar fjallað er um mistök Barnaverndarnefndar og lögreglu sem gerðust í þátíð og í núinu, þá setja talsmenn þessara stofnana á alinlangar ræður um hvað þeir ætli að gera í framtíðinni til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Allt er það gott og blessað, en hefur ekkert með þá spurningu að gera:  "Hver eða hverjir bera ábyrgð" á þessum mistökum.

Það er satt að segja óttalega kauðslegt að tuða endalaust um framtíðina þegar viðfangsefnið er í nútíð og þátíð, en bendir til þess að það sé verið að fela eitthvað. 

Nokkrir hlutir hafa komið á óvart við umfjöllun fréttamiðla um þetta mál. Í fyrsta lagi er engin nafnbirting, sem er ólíkt því sem áður hefur þekkst í sambærilegum málum. Í öðru lagi þá er eins og einhverri verndarhendi hafi verið haldið yfir þessum manni af einhverjum, en sé svo er brýnt að upplýsa það. 

Ágæti lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og talsmaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þurfið þið ekki að hreinsa til og segið fólkinu í landinu hvað gerðist. Af hverju þessi alvarlegu mistök áttu sér stað og hver ber ábyrgð á þeim og hvort viðkomandi þurfi að svara til saka vegna þess.

Fólk á rétt á að fá að vita það.


Styðjum baráttu Kúrda fyrir sjálfstæði

Erdogan Tyrkjaforseti hefur gert innrás í Sýrland. Her Tyrkja ásamt hryðjuverkamönnum í Sýrlandi, sem Tyrkir styðja sækja nú að Kúrdum, en Tyrkjaher hefur í aðdraganda innrásarinnar verið með linnulausa stórskotahríð og loftárásir á borgir, þorp og bækistöðvar Kúrda.

Innrás Tyrkja er til að ganga milli bols og höfuðs á Kúrdum í Sýrlandi. Hvaða rétt hafa þeir til þess? Engan.

Hvaða rétt eiga þeir til að styðja hryðjuverkamenn í Sýrlandi og nota þá nú beint til óhæfuverka sinna gegn Kúrdum. Engan.

Kúrdar eru sérstök þjóð með eigin sögu og menningu og eiga rétt á því að staða þeirra sé virt í alþjóðasamfélaginu og þeir eigi þess kost að mynda sjálfstætt ríki á þeim svæðum þar sem Kúrdar eru í afgerandi meirihluta íbúa. Á þetta vilja Tyrkir og raunar fleiri einræðisstjórnir á svæðinu ekki hlusta. Tyrkir stunda kerfisbundnar ofsóknir gegn Kúrdíska minnihlutanum í Tyrklandi og sækja nú að Kúrdum utan landamæra Tyrklands og fara þar í bág við alþjóðalög.  

Komi Bandaríkjamenn Kúrdum ekki til aðstoðar í þessari stöðu sýna þeir að USA er vondur bandamaður. 

Hvað ef Tyrkir lenda í útistöðum við Rússa í þessu herhlaupi. Ætlar NATO þá og þar á meðal við að standa við bakið á Tyrkjum?

Tyrkir hvöttu til uppreisnar gegn stjórnvöldum í Sýrlandi og hafa stutt hryðjuverkafólk þar. Tyrkir stóðu í ábatasömum viðskiptum við ISIS og sáu til þess að þeim bærist liðsauki og félagar í ISIS ættu frjálsa för um Tyrkland allt til þess að slettist upp á vinskapinn. Vesturlönd ættu því að sýna Tyrkjum fullkomna andúð.

Við Íslendingar sem lítil þjóð, sem fékk sjálfstæði á þeim grundvelli að við værum sérstök þjóð með eigin menningu ættum að stilla okkur upp með Kúrdum, sem eru að berjast fyrir sjálfstæðri tilveru og viðurkenningu. Við ættum á alþjóðavettvangi að fordæma harðlega framferði Tyrkja og krefjst þess um leið að réttindi Kúrda verði virt. 

Oft hefur verið lítið tilefni til yfirlýsinga af hálfu utanríkisráðherra, en nú skiptir máli að hann láti í sér heyra og fordæmi Tyrklandsforseta og Tyrki fyrir innrás á frjálst og fullvalda ríki og hernað gegn Kúrdum.  


Utanríkisstefna Íslands hver er hún?

Ísland ætlar að gera fríverslunarsamning við Tyrkland þrátt fyrir að Erdogan Tyrklandsforseti, hafi lokað á tjáningarfrelsið, rekið tugi þúsunda opinberra embættismanna og fangelsað þúsundir borgara m.a. alla helstu blaða- og fréttamenn landsins. Þá firrir það íslenska ráðamenn ekki nætursvefni að Erdogan hefur staðið fyrir árásum á nágrannalönd auk virkrar aðstoðar við hryðjuverkasamtök í Sýrlandi.

Á sama tíma er það utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar að viðhalda viðskiptabanni á Rússa, sem gjalda líku líkt. Viðskiptabannið skaðar framleiðendur í sjávarútvegi og landbúnaði. Leiða má rök að því að stór hluti af vanda sauðfjárbænda stafi af þessari glórulausu kaldastríðshugsun. 

Þá telja íslenskir ráðamenn það eðlilegt að vandræðast við þá þjóð sem hefur sýnt okkur mesta vináttu og stuðning allra þjóða í meir en hálfa öld, Bandaríkin vegna vals þeirra á forseta og viðurkenningar á Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael.  

Utanríkisstefna íslands í dag er að samsama sig með ófrelsi og árásarstefnu Tyrkjaforseta og gera sérstaka samninga við þá - sem skipta Ísland nánast engu máli, en á sama tíma að bekkjast við vinaþjóðir til langs tíma, sem veldur okkur miklu tjóni. 

Hvar er vitræna glóran í íslenskri utanríkisstefnu?

Eru það ekki hagsmunir smáþjóðar eins og Íslands að eiga vinsamleg samskipti við öll lönd og gæta sérstaklega að því að eiga náin og vinsamleg samskipti við þær þjóðir sem við höfum sérstaka hagsmuni af að vera í góðu sambandi við.

Vilji Ísland hafa þá meginstefnu ber að aflétta viðskiptabanninu á Rússa þegar í stað og leggja rækt við að efla samskipti okkar , samstöðu og vináttu við Bandríkin.


Er snjórinn hvítur?

Hingað til hefur það ekki verið vandamál og tala um hvítan snjó. Mest selda jólalagið frá upphafi er "I´m dreaming of a white Christmas" (mig dreymir hvít jól) Engi hefur efast um það hvað það þýðir og engum hefur frammi að þessu dottið í hug að það gæti flokkast undir rasisma að tala um hvítan snjó. 

Nú bregður hins vegar svo við á þessum ofurteprutímum, að biðjast verður afsökunar á því að tala um hvítan snjó. 

University College í London (UCL) hefur beðist afsökunar eftir að twitter færsla var talin rasísk, en UCL tísti þá

"Dreaming of white campus? ------ /(We can´t gurantee snow but we´ll try).

Háskólinn segir að því miður hafi orðalag tístsins ekki verið nægilega vandað. 

Þegar svo er komið að biðjast þarf afsökunar á því að tala um hvítan snjó erum við þá ekki komin yfir öll skynsamleg mörk í réttrúnaðinum og búin að dæma okkur til alvarlegrar sjálfsritskoðunar og tjáningarbanns?

 


Þá verð ég ofboðslega reiður og þú munt finna fyrir því.

Leiðtogar Tyrkja og ýmissa Arabaríkja, hafa stundað það að hóta Vesturlöndum með því að geri þau ákveðna hluti muni þeir verða ofboðslega reiðir og grípi til hefndaraðgerða.

Evrópa og Bandaríkin hafa látið þetta yfir sig ganga oftar en ekki og látið undan ógninni í stað þess að standa með sjálfum sér. Vesturlönd eru dæmi um eitt alvarlegasta METOO fórnarlambið aðili, sem unir endalausri ósæmilegri áreitni, hótunum og ógnunum, án þess að bregðast við með viðeigandi hætti.

Erdogan Tyrklandsforseti hótar að opni Evrópusambandið ekki fjárhirslur sínar upp á gátt til að senda meiri peninga til Tyrkja þá muni "flóttamenn" streyma til Evrópu frá Tyrklandi sem aldrei fyrr.  Merkel fer síðan í samningaviðræður við ógnvaldinn í stað þess að loka landamærunum til Tyrklands, sem væri það eina rétta og segja þeim að sjá sjálfir um sína "flóttamenn".

Fyrir skömmu ákvað Bandaríkjaforseti að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael. Ekki stóð á hótunum frá Erdogan, Hamas, Al Fatah og Arabaleiðtogum, sem hótuðu öllu illu kæmi til þess að Bandaríkin nýttu þann rétt sem þau eiga skv. alþjóðalögum. 

Bandaríkjamenn létu ekki undan ógninni að þessu sinni. Evrópusambandið boðaði þá til neyðarfundar til að játast undir ógnina og lýsa vanþóknun sinni á því að Bandaríkin skuli enn haga sér sem frjálst og fullvalda ríki.

Neyðarfundur var boðaður í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem ekki horfði friðvænlega á svæðin. Raunar hefur ekki verið friðvænlegt á þessum slóðum í árþúsundir, en það er annað mál.

Arabar á Gasa og Vesturbakka Jórdanárinnar hafa síðan sýnt fram á það hvað þeir eru óskaplega reiðir með óeirðum og fjöldamótmælum þó það skaði þá meira en nokkra aðra. Hin meðvirka Evrópa fordæmir sjálfsákvörðunarrétt Bandaríkjanna og svokallað félagshyggjufólk á Vesturlöndum lýsir stuðningi við og skilningi á aðgerðum ofbeldismanna og hryðjuverkahópa.

Evrópa mælist síðan til þess að allir aðrir en Arabaar sýni skilning og umburðarlyndi og sendir kveðjur til Hamas liða, sem hafa það á stefnuskrá sinni að útrýma öllum Gyðingum. Ekki bara þeim sem eru í Ísrael heldur öllum Gyðingum. Slíkt Gyðingahatur gengur lengra en hjá stjórnendum þursaveldis Nasismans. Á sama tíma og Evrópa fordæmir kynþáttahatur og fjöldamorð fyrir miðja síðustu öld á Gyðingum játast hún undir ok þeirra sem vilja ganga enn lengra í aðför að Gyðingum en nasistar nokkru sinni

Hvar skyldi nú vitræna samhengið vera í þessu öllu? Erum við virkilega orðin að Evrarabíu í undirlægjuhætti okkar við ógnina? 


Er ábyrgðin okkar?

Þegar öfgamenn Íslamista fremja hryðjuverk í Evrópu bendir vinstra fólk og nytsamir sakleysingjar í síbylju á, að við  getum sjálfir okkur um kennt vegna nýlendustefnu fyrri alda, sem og skamssýnna herhlaupa aðallega Bandaríkjamanna og Breta inn í ríki eins og Írak og Líbýu, sem og skaðlegri afskiptasemi af málefnum nánast allra þjóða í hinum svonefndu Mið-Austurlöndum.

Þessi sjálfsásökun og afsökunarhugmyndafræði vinstra fólks fyrir illsku Íslamistanna stenst hins vegar engin rök. 

Aðrir vísa til þess að hugmyndafræði illskunar sem hefur heltekið hópa öfga Íslamista, sem fremja voðaverk nánast daglega sé angi af miðaldamyrkri. Það er líka fjarri raunveruleikanum.

Öfgahópar illskunar hafa nánast enga skírskotun til miðalda. Grýtingar, manndráp og illskan í nánast öllum myndum sem hefur birst í stjórn þeirra og hugmyndum hefur enga skírskotun til þess veruleika sem ríkti í ríkjum sem játuðu Múhameðstrú á miðöldum. 

Í fyrradag réðist öfgahópur Íslamista á mosku á Sínaískaganum í Egyptalandi og drápu meira en 300 eigin landsmanna og trúarsystkina. Skotið var á alla sem til náðist og ekki skipti máli hvort þar voru börn, vanfærar konur eða unglingar. Sú illska hefur ekkert með Vesturlönd að gera eða galna utanríkisstefnu Bandaríkjanna á þessari öld. Ekki frekar en tíð mannvíg Íslamista á trúarsystkinum sínum í Afganistan, Írak, Sýrlandi, Nígeríu og víðar. 

Sú Marxíska söguskýring sósíalistanna og nytsamra sakleysingja á illskunni í Íslamska heiminum, sem birtist okkur í hryðjuverkaárásum á saklausa borgara í Evrópu hefur ekkert með okkur að gera, nýlendustefnu nokkurra Evrópuríkja, stofnun Ísralesríkis eða galinnar utanríkisstefnu í tíð George W. Bush og Obama. Ekki neitt. 

Þessi illska er sjálfsprottin úr hugmyndaheimi fólks sem í raun óttast raunveruleikann og breytingar og veit innst inni að trúarboðunin stenst ekki gagnrýna skoðun og streitist við að kæfa þær staðreyndir með Göbbelískri síbylju og stöðugri leit að óvinum innan Múslímska heimsins sem og á Vesturlöndum. 

Ætli Vesturlandabúar að hjálpa til að leysa þessi vandamál verða þau að gera það í samvinnu við stjórnvöld á hverjum stað, en ekki með einhliða aðgerðum eins og Bandaríkjamönnum er svo gjarnt að gera á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að skjóta fyrst og spyrja spurninga síðar. 

Vesturlönd verða fyrst og fremst að huga að eigin öryggi gagnvart illskunni í hvaða útgáfu sem hún birtist. Vesturlönd verða einnig að vera trú eigin gildum varðandi mannréttindi og réttlæti. Í því sambandi er aumkunarvert að horfa á ýmsa hópa vinstra fólks lýsa yfir stuðningi og horfa með velþóknun til ríkja og baráttuhópa í Mið-Austurlöndum þar sem mannréttindi og mannvirðing eru ekki virt. Þar sem kvennakúgun er staðreynd, minnihlutahópar eru ofsóttir og dauðasök að játa önnur trúarbrögð en Múhameðstrú. 

Þó Vesturlönd hafi margt gert rangt á öldum áður, þá er það ekki okkur að kenna að öfgar og illska skuli brjótast út meðal framandi þjóða. Það hefur ekkert með okkur að gera. Það hefur hins vegar með okkur að gera að þora að bera sannleikanum vitni og berjast gegn illskunni í hvaða mynd sem hún birtist og vera trú okkar arfleifð og gildum. Með því eina móti vinnum við gegn og getum sigrað illskuna og hjálpað til að koma á umbótum þar sem illskan og kúgunin hefur ráðið ríkjum í Mið-Austurlöndum og víðar. 

 


Samband við kjósendur og kröfusamkomur

Vilmundur heitinn Gylfason tók upp það nýmæli í kosningabaráttu fyrir margt löngu að fara á vinnustaði og vera í lifandi sambandi við kjósendur. Aðrir tóku þetta upp en svo breyttist þetta og var stofnanavætt.

Stofnanavæðing vinnustaðafundanna er sú, að nú eru það nær eingöngu hagsmunahópar sem boða einn frá öllum flokkum til sín til að fá þá til að lofa auknum fjárframlögum í sína þágu.

Forsvarsfólk þrýstihópsins eða stofnunarinnar flytur ræðu  og krefst skýrra svara frá stjórnmálamönnum um stóraukin framlög. Stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum í algjörum pópúlisma, keppast við, að lofa meiri peningum frá skattgreiðendum. Sá fær hæst klappið sem mestu lofar. 

Á fundunum kynna stjórnmálaflokkarnir ekki stefnu sína eða baráttumál heldur úða út peningaloforðum í algjöru glóruleysi. Kröfugerðarhópurinn minnir síðan stöðugt á loforðin. 

Stjórnmálamenn eru því ekki lengur að flytja fólki sinn boðskap heldur að láta hrekja sig út í að vera talsfólk sérhagsmuna. 

Loforðin sem hagsmunahóparnir kreista fram  verða bara framkvæmd með peningum frá skattgreiðendum. Auknar millifærslur og fleiri bótaþegar kosta mikið og draga á endanum úr almennri velmegun.

Frambjóðendur ættu að hætta að mæta á þessu kröfugerðarfundi og snúa sér beint til kjósenda. Hlusta á kjósendur á vinnustöðum, verslunarmiðstöðum, sjúkrastofnunum og mannamótum og segja þeim í einlægni fyrir hvað þeir standa án þess að lofa því að misfara með peninga skattgreiðenda. Það er mun betra samband við hinn almenna kjósenda en stofnanavæddu kröfugerðarfundirnir þar sem milljarðar fjúka í loforðum.

Mér telst til að einn frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi þegar lofað yfir 20 milljarða útgjaldaaukningu á kröfufundum í yfirboðskapphlaupinu. 

Vonandi linnir þessum dáraskap með því að ábyrgir stjórnmálaflokkar hætti að elta þá óábyrgu í yfirboðunum, en átti sig á að velferðin er mest þar sem fólkið sjálft fær sem mest að vera sínir gæfu smiðir án aðkomu stjórnmálafólks og skattlagning er í lágmarki.

 


Að vilja Lilju kveðið hafa

Fyrrum formaður Framsóknarflokksins sá mæti maður Guðni Ágústsson hvetur fólk í Morgunblaðsgrein í dag til að kjósa Lilju Alfreðsdóttur alþingismann hvar svo í flokki sem það stendur eftir því sem skilja má og segir hana eiga mikið erindi í íslenskum stjórnmálum. 

Hægt er að taka undir það sem Guðni segir varðandi Lilju Alfreðsdóttur, sem hefur komið fram á sínum stutta pólitíska ferli af háttvísi og kurteisi, en verið á sama tíma einörð og málefnaleg í sínum málflutningi.

Nú er það svo að kosningakerfið okkar heimilar okkur ekki að greiða nema eitt atkvæði listabókstaf flokks.

Sem flokksbundinn Sjálfstæðismaður, meðmælandi með lista flokksins í kjördæminu og baráttumaður fyrir góðri kosningu Sjálfstæðisflokksins, get ég því ekki greitt Lilju atkvæði mitt. Það skiptir einnig miklu máli að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra, sem á ekki síður erindi í íslenskri pólitík en Lilja fái góða kosningu, hún hefur heldur betur sýnt það í störfum sínum. 

Grein Guðna vakti mig hins vegar til umhugsunar um það hvað kosningakerfið okkar er gallað. Mörg vildum við sjá gott fólk úr öðrum flokkum en okkar eigin á Alþingi. Ég hef t.d. áhuga á að Ólafur Ísleifsson og Halldór Gunnarsson úr Flokki fólksins komist á þing og tel þá eiga þangað fullt erindi. Þannig get ég einnig talið upp fólk úr fleiri flokkum.  En við höfum bara eitt atkvæði þó kjósa eigi 63 alþingismenn.

Kosningakerfið okkar er gallað af því að það veitir kjósandanum ekki eðlilegt vald á kjördegi. Til að kjósandinn hefði raunverulegt vald á kjördegi þá ætti hann að hafa 63 atkvæði til ráðstöfunar þar sem hann gæti greitt fólki úr mismunandi flokkum atkvæði eða greitt frambjóðendum eigin flokks öll atkvæðin. Þá væri lýðræðið virkara og vilji kjósandans kæmi skýrar í ljós.

Til að setja kjósandann í öndvegi í stað stjórnmálaflokka og flokksræðis ættum við því að sameinast um að breyta kosningalögunum og stjórnarskránni þannig að kjósandinn færi með jafnmörg atkvæði og þeim fjölda fulltrúa nemur sem kjósa á. Þá gætum við kosið allar okkar Liljur og Sigríðar sem og annað hæft fólk en sleppt hinum.

 


Sjálfstæði Kúrda

Í dag ganga Kúrdar að kjörborðinu í Írak til að greiða atkvæði um sérstakt ríki Kúrda. Ekki er vafi á því að mikill meiri hluti Kúrda mun greiða atkvæði með sjálfstæðu ríki, en spurningin er bara hvort það verða 90% eða meira af Kúrdum sem greiða því atkvæði. 

Kúrdar eru sérstök þjóð og eiga mikla og langa sögu og menningu. Saladin sá frægi soldán og hershöfðingi sem náði m.a. Jerúsalem frá Kristnu krossförunum var Kúrdi svo dæmi séu nefnd og Kúrdar hafa átt sameiginlega sögu og baráttu að hluta með öðrum í Arabíu, en eru samt þjóð með sama hætti og Norðmenn eru ekki Svíar og Danir og Hollendingar eru ekki Þjóðverjar.

Kúrdar eru aðallega í Tyrklandi, Írak, Íran og Sýrlandi og eru allsstaðar undirrokaðir og njóta ekki fullra mannréttinda nema e.t.v. í Írak frá falli Saddam Hussein. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Kúrdum og stórveldin hafa látið aðra hagsmuni en frelsi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða ráða umfram það að vilja tryggja þjóðum sjálfsögð mannréttindi og sjálfstætt þjóðríki. 

Fólk sem ann frelsi, mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti fólks ætti að skipa sér í fylkingu með þeirri sjálfsögðu réttindabaráttu Kúrda að fá að vera í sjálfstæðu Kúrdistan og stjórna eigin málum eins og aðrar þjóðir. Allt annað er undirokun, mannréttindaskerðing og kúgun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 55
  • Sl. sólarhring: 817
  • Sl. viku: 3242
  • Frá upphafi: 2515155

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2988
  • Gestir í dag: 53
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband