Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Sjáandi sjá þeir ekki

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest dóm æðsta dómstóls Austurríkis þess efnis, að það sé ekki brot á 10.gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi, að dæma konu sem sagði að Múhameð hefði verið barnaníðingur til sektar fyrir þau ummæli, sem voru túlkuð sem hatursorðræða. 

Konan flutti fyrirlestur um Íslam haustið 2009, þar sem hún fjallaði um hjónaband Múhameðs spámanns Allah og stúlkunnar Aishu, sem var sex ára þegar Múhameð þá 56 ára giftist henni og hafði fyrst við hana samfarir þegar hún var níu ára og hann þá 59 ára.

Fyrirlesarinn konan E.S. sem býr í Vín í Austurríki spurði "hvað köllum við svona háttalag annað en barnaníð". 

Frú E.S. var dæmd af æðsta dómstól Austurríkis fyrir að kalla framferði Múhameðs barnaníð og dæmd til að greiða 480 Evrur í sekt fyrir að vanvirða trúarkenningar.

Frú E.S vísaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og taldi dóm æðsta dómstóls Austurríkis vera brot á tjáningarfrelsi. Á fimmtudaginn var kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp þann dóm, að sektardómurinn yfir E.S væri ekki brot á 10.gr. mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi.

Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins er vikið að því að fólk eigi rétt á því að trúarskoðanir þeirra séu verndaðar og dómur æðsta dómstóls Austurríkis væri til þess fallinn að viðhalda friði milli trúarbragða í Austurríki og ummæli frú E.S væru umfram það sem væri leyfilegt í málefnalegri umræðu og taldi þau niðrandi ummæli um spámanninn Múhameð, sem gæti leitt til fordóma og ógnað friði milli trúarbragða.

Hvað nefnum við sextugan mann, sem hefur samræði við níu ára stúlku? Barnaníðing. Í öllum tilvikum nema um sé að ræða Múhameð spámann af því það geta ógnað friði í samfélaginu. Hvers konar samfélag er það þá eiginlega?

Í hinni vestrænu Evrópu má ekki segja sannleikann um Múhameð spámann að viðlögðum sektum. 

Hversu langt á læpuskapur og aumingjadómur Evrópskra stofnana og stjórnvalda að ganga áður en fólk hristir af sér þessa hlekki fáránleikans. 

Dómur Mannréttindadómstólsins  í Evrópu í máli frú  E.S hefur ekkert með mannréttindi eða lögfræði að gera heldur er hann dæmigerður fyrir dómstól, sem sveiflast eftir almenningsáliti og tekur afstöðu á ómálefnalegum grundvelli. 

Mannréttindi þ.á.m. tjáningarfrelsi eru algild. Það má aldrei gefa afslátt af því eins og því miður er gert í þessum dómi.


Tillögur hinnar "róttæku" verkalýðshreyfingar ganga ekki nógu langt

Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn barðist hart gegn auknum ríkisútgjöldum og aukinni skattheimtu. Eftir að ríkisbáknið hefur þanist út m.a. vegna aðhaldsleysis Sjálfstæðisflokksins og þáttöku í velferðaryfirboðum hinna flokkanna, er skattheimtan á launafólk í landinu orðin óbærileg.

Sú var líka tíðin að verkalýðshreyfingin þrýsti á um félagsmálapakka og aðrar aðgerðir sem miðuðu að því að stækka ríkisbáknið og mæltu samhliða með aukinn skattheimtu því eitt leiddi af öðru. Nú krefst það sem er kallað hin "róttæka" verkalýðshreyfing að skattleysismörk verði hækkuð í rúmar 400 þúsundir, semsagt veruleg skattalækkun á launafólk í landinu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra finnur þessum hugmyndum verkalýðshreyfingarinnar allt til foráttu en setur ekki fram neinar hugmyndir um skattkerfisbreytingar eða sparnað. 

Ef eitthvað er þá ganga hugmyndir "róttæku" verkalýðsforustunar varðandi skattleysismörk ekki nógu og langt. Það á ekki að skattleggja tekjur undir 500 þúsund krónum. Er ekki kominn tími til að gefa launþegum sem enn nenna og geta unnið tækifæri til að njóta atvinnutekna sinna í ríkara mæli?

Væru skattleysismörk hækkuð í 500 þúsund krónur þá þyrfti ekki að eyða tímanum í að tala um frítekjumark ákveðinna hópa. Draga mundi úr svartri atvinnustarfsemi og aukinn hvati væri til þess hjá ýmsum að auka tekjur sínar, sem mundi leiða til aukinnar einkaneyslu en hluti þess mundi síðan renna í ríkissjóð í formi óbeinna skatta. Tekjuskerðing ríkisins yrði því mun minni en möppudýrin í fjármálaráðuneytinu segja fjármálaráðerra að raunin verði. 

Allt er þetta spurning um pólitískan vilja og grundvallarstefnu í pólitík. Vilji stjórnmálamenn draga úr bákninu þá er það hægur vandi þar sem að á það hefur verið hlaðið alla þessa öld og auðvelt að skera verulega niður. Bara bruðlið og óráðssían kostar laun þúsunda láglaunafólks.

Burt með báknið og burt með ofurskattana. Með því bætum við lífskjör í landinu og gerum ungu fólki auðveldara að hasla sér völl í þjóðfélaginu verða eignafólk. 

En því miður virðast þeir sem helst ættu að mæla fyrir sparnaði og ráðdeild í ríkisbúskapnum vilja einhenda sér í aukna samneyslu og gæluverkefni í stórum stíl á kostnað skattgreiðenda og eru því orðnir hluti af því sósíalska kerfi ánauðar og ofurskattheimtu sem dregur mátt úr þjóðinni. 

Við það er ekki hægt að una.


Þursaríkið afhjúpað

Undanfarin ár hefur Saudi Arabía stutt við hryðjuverkastarfsemi vítt og breytt um heiminn, konur og farandverkafólk er nánast svipt öllum mannréttindum. Þá fer Saudi Arabía með hernaði á hendur Yemen þar sem þúsundir almennra borgara hafa verið drepin og hungursneið milljóna fólks vofir yfir. Framferði Sáda í Yemen hefur verið óafsakanlegt, en einhverra hluta vegna hefur þetta verið gleymda stríðið og fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa ekki séð ástæðu til að fordæma það með sama hætti og t.d. borgarastryjöldina í Sýrlandi.

Ekkert af þessu hefur leitt til fordæmingar alþjóðasamfélagsins á Sádi-Arabíu og refsiviðurlaga. Þvert á móti þá eru Sádar með fulltrúa í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og stjórnendur lýðræðisríkja í Evrópu einkum Trump og May mæla til mikillar vináttu við þursaríkið og setja kíkinn fyrir blinda augað þegar rætt er um framferði þessa þursaríkis.

þ.2.október s.l. fór landflótta Sádi Arabi Jamal Khashoggi inn á sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl og kom ekki lifandi út af henni aftur. Khashoggi sem bjó í Bandaríkjunum hafði snúið sér til sendiskrifstofu Sádi-Arabíu í Whasington DC til að fá skilnaðarpappíra vegna þess að hann ætlaði að giftast tyrkneskri unnustu sinni. Honum var sagt að þeir gætu ekki afgreitt það heldur yrði hann að fara til Istanbúl þ.2. október og sækja pappírana þangað. 

Sama dag og Khashoggi átti að fá pappírana flugu 15 opinberir starfsmenn frá Saudi Arabíu og komu sér fyrir á sendiskrifstofunni og tóku síðan á móti Khashoggi þegar hann birtist. Þeirra á meðal voru þrír menn úr lífverði krónprinsins og sérfræðingur í að saga upp líkama með beinasög mann að nafni Salah Tubaigy.

Þegar Khashoggi kom ekki lifandi út, sögðu Sádi Arbar, að hann hefði víst gert það. Síðan sögðu þeir að hann hefði látið lífið eftir að kom til átaka milli hans og einhverra í sendiráðinu. Í síðustu útgáfunni segja stjórnvöld í Sádi Arabíu, að teppi hafi verið vafið utan um lík hans og honum komið fyrir í því og flutur þannig út úr sendiráðinu. 

Allt í einu vaknaði heimurinn og hafði meiri áhyggjur af morði blaðamannsins, en öllum þeim ódæðum sem þetta þursaríki fremur á degi hverjum. Trump rembist þó eins og hann getur við að bera blak af stjórnvöldum í Saudi Arabíu, enda telur hann stjórnendur þessa þursaríkis til vina sinna. Theresa May mælir ekki með refsiaðgerðum eins og hún gerði gagnvart Rússlandi vegna máls Skrípal feðga enda eiga bretar billjóna hagsmuni af samskiptum við Sáda eins og Bandaríkin. 

En með morðinu á Khashoggi hefur verið velt hlassi, sem hefði átt að vera velt fyrir áratugum síðan og vonandi láta stjórnendur Vesturlanda nú til sín taka þannig að heimurinn sjái að vinnubrögð eins og þau að myrða fólk á sendiskrifstofum, svipta fólk mannréttindum og ógna lífi heillar þjóðar með miskunarlausum hernaðaraðgerðum verður ekki liðið. 

Það verður fróðlegt að sjá hvort að stjórnvöld á Vesturlöndum falla á þessu prófi og það verður líka fróðlegt að sjá hvort að Pútín Rússlandsforseti muni reyna að fiska í gruggugu vatni eða sýna þann manndóm að fordæma aðfarir Sáda. 

Skipan mála í Sádi Arabíu og framferði stjórnvalda þar hefði átt að vera öllum á Vesturlöndum ljós, eftir að fyrrum forstöðumaður CIA leyniþjónustu Bandríkjanna í Mið-Austurlöndum skrifaði eftir starfslok bókina:

¨Sleeping with the Devil"  

Hvað sem líður billjóna viðskiptahagsmunum þá er ekki hægt að láta framferði eins og Sádi Arabar sýna nánast á öllum sviðum viðgangast. 


Prinsinn fagri gekk of langt

Nýjasta fórnarlamb Me-too byltingarinnar er prinsinn fagri sem kyssti Þyrnirós og vakti hana af værum 100 ára svefni. Nútíma öfgakonur hafa komist að því að prinsinn hafi ekki fengið leyfi og sýnt sofandi konu ósæmilegt kynferðislegt áreiti.

Vafalaust hefur höfundur ævintýrisins um Þyrnirós aldrei látið sér til hugar koma, að prinsinn fagri yrði sekur fundinn um eitthvað ósæmilegt þegar hann í aðdáun sinni smellti kossi á varir Þyrnirósar. Þetta fallega ævintýri um Þyrnirós var ekki skrifað út frá kynrænum sjónarmiðum heldur sem fallegt ævintýr sem fær góðan enda, einmitt vegna þess að prinsinn fagri frelsar Þyrnirós úr álögum með því að kyssa hana.

Hefði prinsinn fagri ekki kysst Þyrnirós, þá svæfi hún enþá og þau hún og prinsinn hefðu ekki lifað hamingjusömu lífi það sem eftir var þeirra ævi eins og segir í ævintýrinu að þau hafi gert. 

Umræða sem þessi og fordæming á söguhetjum ævintýra eins og þessu er til þess fallin að draga athyglina frá ósæmilegu og jafnvel hrottafengnu áreiti sem margt fólk verður fyrir, en það er einmitt slík hegðun sem er fordæmanleg, en ekki eðlileg athygli og viðbrögð fólks varðandi hitt kynið. 

 


Dauðans alvara þegar fréttamiðlar stunda hatursáróður.

Varla hefur liðið sá frétttími í fjölmörgum fréttamiðlum í henni Ameríku án þess að andskotast væri út í Donald Trump og allt sem hann gerir og stendur fyrir. Garmurinn hann Ketill íslenska Ríkisútvarpið hefur fylgt dyggilega eftir þessum hatursáróðri, sem nú er farinn að taka á sig hættulega,  grafalvarlega og andlýðræðislega mynd.

Fyrir nokkru var Ted Cruz öldungardeildarþingmaður frá Texas, sem var helsti andstæðingur Trump í forkosningum Repúblikana fyrir síðustu kosningar á veitingastað ásamt konu sinni þegar hópur fólks veittist að þeim fyrir það eitt, að Ted Cruz hafði greitt atkvæði með staðfestingu dómarans Brett Kavanaugh í embætti Hæstaréttardómara. Hjónin þurftu á vernd lögreglu að halda þegar þau yfirgáfu veitingastaðinn. 

Öldungardeildarþingmaður Repúblikana frá Maine í norðausturhluta Bandaríkjanna hefur orðið fyrir ítrekuðu aðkasti undanfarið vegna þess að hún greiddi líka atkvæði með staðfestingu Brett Kavanaugh Hæstaréttardómara. Veitingahúsakeðja í Texas hefur hætt að kaupa skelfisk frá Maine og segist gera það til að refsa fylkinu fyrir að hafa Senator sem greiðir atkvæði með þessum hætti.

Ekki nóg með það. Öldungardeildarþingmaðurinn frá Maine, Susan Collins hefur fengið hótanir og í gær var lögreglan kvödd að heimili hennar í öryggisskyni vegna haturspósta og grunsamlegra sendinga.

Þessi tvö dæmi er það nýjasta af röð þess, sem að öfgafullir Demókratar hafa staðið fyrir, þar sem þeir hika ekki við að ráðast að fólki sem hefur aðrar skoðanir. Þessir Demókratar virða ekki það sjónarmið sem talsmenn lýðræðis, lýðfrelsis og hugmyndafræði upplýsingaaldarinnar færa fram um að allar skoðanir skipti máli og fólk hafi rétt til að tjá skoðanir sínar hversu vitlausar sem okkur þykja þær þó vera. 

Þegar vikið er frá þessu grundvallaratriði réttarríkisins og fasisminn tekur völdin og krest þess að fólki verði refsað vegna skoðana sinna þá er hætta á ferðum í lýðræðisríki. 

Sök þess fólks sem staðfesti tilnefningu Brett Kavanaugh í embætti Hæstaréttardómara var að greiða atkvæði með því að óumdeilanlega mjög hæfur lögfræðingur með óaðfinnanlegan feril sem dómari settist í Hæstarétt Bandaríkjanna. 

Demókratarnir veitast að fólki sem greiddi þessum hæfa dómara atkvæði sitt vegna þess að það hafnaði honum ekki vegna ósannaðara og upploginna saka sem á hann voru bornar.

Forusta Demókrataflokksins ætti að fordæma þetta athæfi öfgafullra flokkssystkina sinna og Ríkisútvarpið á Íslandi ætti að sjá sóma sinn í að flytja sannar hlutlægar fréttir af því sem gerist án þess að setja fram dóma. Væri e.t.v. ekki við hæfi að kalla þessa öfgafullu Demókrata sem hér er á minnst, "öfgavinstri" fólk. Það hugtak virðist ekki til á fréttastofu RÚV en "öfgahægri" að jafnaði fjórum sinnum í viku eða oftar. 

Það er dauðans alvara í orðsins fyllstu merkingu að vera í pólitík ef fréttamiðlar og skoðanafasistarnir hvaðan sem þeir koma heimila einstaklingum ekki að fylgja sannfæringu sinni án þess að þeir eigi það á hættu að vera úthrópaðir og hvatt til árása á þá vegna skoðana þeirra.


Vondu kapítalistarnir og bjórinn.

Í frábærum þætti Veröld sem var sem sýndur var um helgina í sjónvarpinu var fjallað um fyrirbrigðið bjórlíki og afnám banns við bjórsölu. 

Vafalaust finnst mörgum skondið í dag, að það skuli hafa verið leyft að drekka sterk vín, meðalsterk vín og létt vín, en ekki bjór. En það tók heldur betur tíma að ná meirihluta stuðningi á Alþingi við að leyfa bjórinn. 

Í ofangreindum þætti var viðtal við Guðnýju Halldórsdóttur vegna bjórbannsins, en faðir hennar Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxnes var einlægur stuðningsmaður þess að bjórinn yrði leyfður. Í viðtalinu sagði Guðný að vondir kapítalistar hefðu staðið á móti því að bjórinn yrði leyfður. Það er rangt. Það voru góðir kapítalistar, sem náðu því fram.

Fyrst flutti Pétur Sigurðsson frumvarp til breytinga á áfengislögum þess efnis, að bjór yrði leyfður. Síðan flutti ég frumvarp um að bjór yrðu leyfður og það í tvígang og þeir sem voru meðflutningsmenn á frumvarpinu sem fór í gegn með breytingum voru þeir Ingi Björn Albersson og Geir H. Haarde eða allt þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þannig að fyrirstaðan var ekki hjá kapítalistunum Guðný. 

Staðreyndin er líka sú að lengi vel var einn flokkur sem skar sig úr og hafði flokkslega afstöðu gegn því að bjór yrði leyfður en það var Alþýðubandalagið helsti andstöðuflokkur okkar kapítalistanna, en mikill meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins greiddi ávallt atkvæði með því að bjór yrðu leyfður í landinu.

Það hefði því verið réttara hefði Guðný sagt að það hafi verið vondu kommarnir sem voru á móti því að fólk nyti frelsisins, en kapítalistarnir hefðu barist þá sem fyrr fyrir frelsinu.

Halldór Kiljan Laxnes, var eins og áður sagði einlægur áhugamaður um að bjórinn yrði leyfður og var að því leyti í andstöðu við flokkinn sem eignaði sér hann. Hann skrifaði ítrekað greinar í blöð því til stuðnings og hafði nokkrum sinnum samband við mig eftir að ég flutti frumvörp um að leyfa bjórinn og lagði mér margt til, sem ég notaði í framsöguræðu mína í málinu á Alþingi á sínum tíma með leyfi höfundar.  

 


Sannleikurinn er sagna verstur

Amineh Kakabaveh er 47 ára Kúrdi frá Íran og hún barðist í röðum Peshmerga. Þessi kona er ekki líkleg til að vera hægri sinnaður pópúlisti, rasisti og á móti Íslam(Íslamophope)

Hún var dæmd til dauða í heimalandi sínu og flúði til Svíþjóðar 1992. Hún var ólæs þegar hún kom til Svíþjóðar, en fór í skóla m.a. háskóla og gekk í Vinstri flokkinn í Svíþjóð. 

Saga hennar er saga um innflytjenda sem gekk frábærlega vel í framandi landi. Hún varð þingmaður Vinstri flokksins (sem er lengst til vinstri)En þarf nú á lögregluvernd að halda allan sólarhringinn vegna hættu sem henni stafar af trúarsystkinum sínum og vinstri öfgahópum.

Glæpur Kakabaveh var sá að gera athugasemdir við þöggunina um innflytjendamál í Svíþjóð. Hún hefur gagnrýnt það hvernig Svíar hafa tekið á móti 400.000 þúsundum hælisleitenda frá 2012 og segir að Svíþjóð hefði haft innflytjendavandamál í 20 ár og þetta fjölmenningarsamfélag hafi leitt til aðskilnaðar og hliðstæðra samfélaga, sem lifa hvert út af fyrir sig.

Kakabaveh bendir á að umræðan um fjöldainnflutning fólks sé sjúkleg og raunar megi ekki ræða um málið og þess vegna séu Svíþjóðardemókratar hetjur almennings af því að þeir segi það sem aðrir flokkar þora ekki að segja þrátt fyrir að milljónir fólks hafi áhyggjur af þessum málum. 

Hvernig brást svo Svíþjóð við þessum orðum konu, sem er vinstri sinnuð,femínisti og innflytjandi? Allt í einu varð hún úrhrak vinstri elítunnar og er ógnað af Íslamistum. Vinstri flokkurinn hafnaði því að setja hana á lista flokksins af því að þeir telja hana vera rasista.

Athyglisert,að Kúrdi frá Íran, sem gagnrýnir innflytjendastefnu Svía  og er vinstri sinnaður femínisti skuli allt í einu vera orðin hægri öfgamaður vegna þess eins að hún gagnrýnir innflytjendastefnu Svíþjóðar. 

Saga Kakabaveh sýnir vel hversu sjúk umræðan um innflytjendamálin eru í Svíþjóð.

Það er nauðsynlegt að Íslendingar bregðist við og láti ekki það sama henda sig og Svía, að brennimerkja sannleikann sem lygi.


Karl Marx Stadt sama sem Chemnitz lygi og sannleikur

Einu sinni var borg í Þýsklandi sem hét Karl Marx Stadt. Hún var fyrirmyndarborg og til sýnis í hinu Kommúníska Austur-Þýskalandi.  Nú heitir hún Chemnitz og þar hafa hópar venjulegra Þjóðverja mótmælt undanfarna daga, morðum og nauðgunum sem innflytjendur eru sekir um. Í frásögn helstu fréttamiðla eru mótmælendur kallaðir hægri öfgamenn, yst til hægri eða nasistar. Sannleikurinn er sá að einhverjir slíkir eru í hópnum, en þeir eru minnihluti mótmælendanna.

Þýskur maður var myrtur fyrir nokkrum dögum í borginni Chemnitz og það er kveikjan að mótmælunum. Í ljós kom að innflytjendur frá Írak og Sýrlandi eru grunaðir um morðið og reiði fjölmiðla og yfirvalda beindist að fangaverði sem sagði frá þjóðerni þeirra. Af hverju mátti ekki segja frá því?

Þjóðverjinn sem var myrtur hét Daniel Hillig 35 ára trésmiður. Fjölmiðlar hamast við að segja frá því að hann sé Þjóðverji af kúbönskum ættu. Allt í einu skipti það máli. Af hverju? Faðir hans er þýskur og móðirinn frá Kúbu. Er hann þá ekki Þjóðverji með sama hætti og maður sem er íslenskur ríkisborgari og á íslenskan föður og sómalska móður er hann ekki íslenskur. Ef hann er drepinn af innflytjendum verður hann þá allt í einu íslenskur sómali? Í stað þess að vera bara Íslendingur? Af hverju finnst þjóðarfréttastofum svona mikilvægt að tönnlast á því að hinn myrti hafi ekki verið "alvöru Þjóðverji"? 

Sögusagnir hafa verið á kreiki, hvað hafi valdið því að innflytjendurnir myrtu Hillig. Sumir segja þetta ránsmorð. Aðrir að hann hafi lent í deilum við innflytjendurna og enn aðrir að hann hafi verið að hjálpa konu sem innflytjendurnir höfðu ráðist á. Lögreglan segir ekki neitt utan þess að mótmæla því að hann hafi komið konu til hjálpar. Því miður treysta Þjóðverjar ekki lengur því sem lögreglan segir þegar kemur að innflytjendum því að hún hefur ítrekað verið afhjúpuð fyrir að ljúga til um staðreyndir mála eins og t.d. um fjöldanauðganirnar í Köln á nýársnótt fyrir nokkrum árum.  

Í blaðinu Daily Telegraph í dag segir að reiðin í Chemnitz sé ósvikin og haft er eftir íbúum, að hægri öfgafólk sé að reyna að stela mótmælunum. Pressan hjálpar þeim alla vega vel við það. 

Í mótmælagöngu í gær báru allmargir göngumenn myndir af Þjóðverjum sem höfðu verið myrtir eða nauðgað af innflytjendum. Sá hópur er stór og yfirvöld hafa reynt hvað þau geta til að ljúga til um þann veruleika sem þjóðin stendur frammi fyrir eftir asnaspark Angelu Merkel þegar hún opnaði landamærin árið 2015. Lygin og yfirhilmingin er til að koma í veg fyrir opnar raunhæfar umræður um vandamálið. Yfirvöld vonast greinilega til þess, að takist vel að hilma yfir glæpi innflytjenda, að þá hverfi vandamálið. 

Það hefur ekki verið reynslan nokkurs staðar í veröldinni. En afleiðingarnar því miður þær, að viðbrögðin verða að lokum ofsafengnari og öfgakenndari en þau hefðu orðið ef eðlileg umræða og stefnumótun ætti sér stað. 

Það er dæmigert fyrir strútshátt þeirra sem vilja opin landamæri eða verja innflytjendastefnuna í Evrópu þ.m.t. á Íslandi að segja að verið sé að búa til ógn sem sé ekki fyrir hendi sbr. Eiríkur Bergman sérfræðing í sósíalískri analýsu á pólítík. Myndirnar af Þjóðverjum sem hafa fallið í valinn eða verið nauðgað af innflytjendum til Þýskalands bera því hins vegar vitni að ógnin er raunveruleg. Hún verður enn verri meðan yfirvöld hilma yfir og ljúga að borgurunum. Slík viðbrögð yfirvalda er besta leiðin til að fæða af sér öfgar. 

Af hverju mega staðreyndirnar ekki koma í dagsljósið? Af hverju má ekki ræða þessi mál? Af hveru eru útgjöld vegna innflytjenda hér á landi falin eins vandlega og mögulegt er og allt reynt til að koma í veg fyrir alvöru umræður um málið? 

Heldur virkilega einhver að það sé til farsældar fallið?


"Vér einir vitum"

Sú var tíðin að danskir arfakonungar töldu sig afbragð annars fólks að vitsmunum og öðru atgervi og þessi skoðun þeirra kom iðulega fram í umræðum og við ákvarðanatökur þegar þeir sögðu "Vér einir vitum" og þá var allri alþýðu ljóst hvað var rétt og hað var rangt. 

Nú hefur Ísland eignast þingkonu Helgu Völu Helgadóttur sem hefur sama álit á sjálfri sér og hæfi sínu og arfakonungar forðum.

Þegar henni var kurteislega bent á að sósíaldemókratar systurflokkur Samfylkingarinnar hefðu svipaða stefnu og Pia Kærsgaard í innflytjendamálum þá segir Helga Vala.

"að hún þekki vel til systurflokksins í Danmörku og þyki leitt, að hann hafi villst af leið frá jöfnuði, umhyggju fyrir öðru fólki og mannréttindum." 

Systurflokkurinn er Jafnaðarmannaflokkur Danmerkur (det socialdemokratiske parti)

Ekki hefur þess orðið vart í pólitískri umræðu í Danmörku að nokkur pólitískur andstæðingur danskra jafnaðarmanna hafi gengið svona langt í gagnrýni sinni á flokkinn.

Þetta eru stór orð og að sjálfsögðu finnur Helga Vala Helgadóttir þeim ekki stað, en um það þarf ekki að ræða frekar þar sem hún telur sig hafa sama alræðisvald til skoðunamótunar og danskir arfakonungar áður "Vér einir vitum."


Öreigar allra landa sameinist - hvað?

Vígorð kommúnista "Öreigar allra landa sameinist". Í síðustu málsgrein kommúnistaávarps Karls Marx og Friedrich Engels á undan vígorðinu segir: "Kommúnistar álíta sér ekki sæmandi að leyna skoðunum sínum og áformum. Þeir lýsa því opinberlega yfir að tilgangi þeirra verði aðeins náð í alsherjarbyltingu. Látum ríkjandi stéttir skjálfa af ótta við kommúnistabyltinguna. Öreigarnir hafa þar engu að tapa öðru en hlekkjunum. En þeir hafa heilan heim að vinna".

Þeir verkalýsðleiðtogar og aðrir sem taka sér þetta vígorð "Öreigar allra landa sameinist" í munn, verða að átta sig á að þetta er vígorð og herhvöt um kommúníska allsherjarbyltingu. Þeir sem eiga ekki samleið með slíkri hugmyndafræði ættu því að sleppa þessu vígorði. 

Á þeim 170 árum sem liðin eru frá því að Kommúnistaávarpið kom út hafa ýmis tilbrigði kommúnískra byltinga og stjórnarhátta verið prófuð í fjölda landa. Niðurstaðan er alls staðar sú sama. Harðstjórn, fjöldamorð, aukin fátækt og eymd, öreigum fjölgar.

Fólk ætti ekki að gleyma morðum Stalíns á tugum milljóna eða stóra stökks Mao framávið sem kostaði tugi milljóna lífið auk menningarbyltingarinnar þar sem fjöldaaftökur voru algengar. Ógnarstjórnin í Kambódíu undir stjórn Rauðu Khmerana ætti líka að vera víti til varnaðar þar sem stór hluti landsmanna dó eða var drepinn vegna stjórnarhátta kommúnistanna. 

Kommúnistastjórnir hafa aldrei gefið öreigum betra líf heldur fjölgað þeim þar sem þeir hafa komist til valda. Engin hugmyndafræði hefur kostað fleiri mannslíf en kommúnisminn. 

Sovétríkin dóu vegna þess að þau gátu á endanum ekki brauðfætt sig. Hungursneyð var víðtæk í ýmsum hérðum Kína allt til þess að kommúnistastjórnin þar fór að heimila markaðshagkerfinu að vinna í landinu. Síðan þá hafa milljónir öreiga orðið eignafólk.

Gjaldþrot kommúnismans blasir allsstaðar við,þar sem hann hefur verið reyndur. Samt telja ýmsir sæmandi að taka helsta vígorð herhvöt kommúnistabyltingarinnar sér í munn. 

Í dag er annar hópur þjóðfélagsins sem þarf að sameinast og rísa upp en það eru skattgreiðendur, sem eru þrautpíndasti hópur samfélagsins, sem þarf að greiða um helming launatekna sinna í einu eða öðru formi til hins opinbera. Skattpíningin veldur því,að stórir hópar eiga þess ekki kost að spara til eignauppbyggingar. Ríkiskerfið og bákn sveitarfélaganna stækkar og stækkar ár frá ári og hindrar borgarana í að spara og skapa sér bætt lífskjör. 

Besta kjarabót launþega er sú að persónuafsláttur verði hækkaður verulega og hlutfall skatta af lágum og meðaltekjum lækkaður verulega. Allir mundu hafa hag af því að umgjörðin um vinnu einstaklinga og smáfyrirtækja í atvinnurekstri yrðu einfölduð og gjöld lækkuð. Með því móti væri hægt að lyfta fleirum og fleirum frá fátækt til bjargálna og koma fleirum og fleirum úr stétt öreiga í stétt eignafólks.

Með því að virkja dugnað, áræði, útsjónasemi og sparnað fólks og gefa hinum vinnandi einstaklingi kost á því að spara til eignauppbyggingar í stað þess að hirða allt af honum í skatta, umfram brýnustu lífsnauðsynjar, vinnum við best gegn fátækt, örbirgð og því að öreigar verði í landinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 18
  • Sl. sólarhring: 782
  • Sl. viku: 3205
  • Frá upphafi: 2515118

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 2952
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband