Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Kanarífuglar í gullbúrum

Formaður Vinstri grænna fór fram á fund í utanríkismálanefnd Alþingis til að fjalla um loftárásir Tyrkja í Írak og Sýrlandi með samþykki NATO. Ætla hefði mátt miðað við sögu og tilurð Vinstri grænna að hart yrði vegið að NATO á þessum fundi af formanni VG og lögð fram ályktun til að fordæma samþykki NATO við framferði Tyrkja. En ekkert af þessu gekk eftir.

Þegar upp var staðið gerðist ekkert. Fundur utanríkismálanefndar endaði með gleðileik samkomulags þar sem allir í öllum flokkum voru sammála um að gera ekki neitt og rugga ekki bátnum. Meira að segja þær stöllur Katrín Jakobsdóttir og Birgitta Jónsdóttir hreyfðu engum skilmerkilegum andmælum við framferði Tyrkja eða gerðu athugasemdir sem skiptu máli.

Fundur utanríkismálanefndar var mikilvægur að því leyti að hann afhjúpaði að hvorki Píratar né Vinstri grænir hafa aðra sýn í utanríkismálum en utanríkisráðherra. Þær stöllur Birgitta og Katrín mótmælltu ekki lúalegum loftárásum Tyrkja á Kúrda eða lögðu eitthvað fram sem sýndi sérstöðu þeirra í utanríkismálum.

Full ástæða er til að gagnrýna Tyrki og NATO vegna loftárása Tyrkja og framferðis. Utanríkismálanefnd Alþingis hefði átt að gera athugasemdir við að utanríkisráðherra fordæmdi ekki Tyrki á vettvangi NATO fyrir stuðning þeirra við ISIS og hlut í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sem hefur kostað hundruð þúsunda lífið og hrakið milljónir á vergang.

Forusta Vinstri grænna og Pírata eru svo heillum horfin að hún beygir sig undir vilja ofbeldisþjóðarinnar og samþykkti afstöðu NATO til rofs griðarsamninga Tyrkja við Kúrda og loftárása Tyrkja á þjóð sem háð hefur langa og sanngjarna sjálfstæðisbaráttu.

Margir hafa haldið að þær Katrín Jakobs og Birgitta Jóns væru valkyrjur í utanríkismálum en framganga þeirra nú sýnir að þær eru ekki annað en kanarífuglar í gullbúrum. Svo mjög er hugsjónamönnum eins og Ögmundi Jónassyni þingmanni VG brugðið að hann getur ekki orða bundist yfir þessum liðleskjum og var þar virkilega hreyft réttu máli af hans hálfu.


Að samsama sig með soranum

Charlie Hedbo var lítt útbreitt franskt ádeiluteikningarit,sem fór iðulega langt yfir öll velsæmismörk í lítilsvirðingu sinni gagnvart skoðunum annarra samborgara þar með talið trúarskoðunum. Blaðið birti ítrekað lágkúrulegar og hallærislegar sóðamyndir af Guði, Jesú, Múhameð og mörgum fleirum. 

Charlie Hedbo mátti birta þessar myndir og ádeilu vegna þess að við búum við rit- og skoðanafrelsi eða eins og merkur maður sagði eitt sinn. Klámið og ritfrelsið ganga hönd í hönd. Til að njóta þess góða þurfa menn að umbera hið slæma þó þeir þurfi ekki að samsama sig soranum.

Eitt er að virða rétt einstaklinga til að tjá sig þess vegna meiðandi og særandi fyrir marga. Hitt er að samsama sig þeim sora. Fáir málsmetandi evrópskir stjórnmálamenn hefðu tekið undir með Charlie Hedbo áður en starfsmenn blaðsins voru drepnir í hryðjuverkaárás. Þá var eðlilegt að fólk fylltist samúð og tækju sér  í munn "Je suis Charlie" til að lýsa andúð sinni á tilraunum til ritskoðunar og þöggunar.

Í dag var samþykkt að fella ákvæði um guðlast úr lögum. Í sjálfu sér skiptir það ekki miklu máli þar sem að almennt haturs ákvæði eru í almennu hegningarlögunum.

Þegar Alþingi var að samþykkja það að fella niður refisákvæði vegna guðlasts þótti þingmönnum Pírata sæma að koma upp í ræðustól Alþingis og lýsa því yfir um leið og þau greiddu atkvæði með afnámi gulasts út hegningarlögum og segja "Je suis Charlie" Hvað þýddi það? Að Píratar vilji að nú verði sótt að trúarskoðunum kristins fólks, múslima o.fl. og hæða og smá Jesús og Múhameð eins og Charlie Hedbo er þekkt fyrir þar sem ákvæði um guðlast er nú fallið úr lögum?


Hleranir og glæpir

Í gær bað Obama Bandaríkjaforseti Frakklandsforseta afsökunar á því að hafa hlerað símtöl hans og sagðist hætta því. Hann bað fyrri forseta sem sættu líka hlerunum ekki afsökunar.

Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hefur hlerað síma forustumanna helstu bandalagsríkja sinna auk ýmissar annarrar njósnastarfsemi sem er með ólíkindum. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið m.a. frá Wikileaks, hafa Bandaríkin stundað grimmar víðtækar viðskipta-og iðnarðarnjósnir auk þess að hafa njósnað persónulega um forustufólk í stjórnmálum

Vísireglan er sú að þegar upp kemst um svona athæfi þá er það einungis toppurinn á ísjakanum. Nú er komið í ljós að þjóðaröryggisstofnunin sem margir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum vöruðu við að yrði sett á laggirnar hefur mun víðtækara njósnahlutverk en að berjast gegn hryðjuverkaógn. Krafa bandalagsþjóða Bandaríkjanna í Evrópu ætti í ljósi nýrra upplýsinga að vera að Bandaríkjamenn gerðu hreint fyrir sínum dyrum í samskiptum þjóðanna.

Það ætti einnig að vera krafa evrópskra NATO ríkja að Bandaríkin gerðu hreint fyrir sínum dyrum varðandi vopnvæðingu og fjárstyrki til hryðjuverkasamtaka og afskipti t.d. af styrjöldinni í Sýrlandi sem hefur valdið þjáningum tuga milljóna einstaklinga og stuðlað að mesta flóttamannavandamáli í nútímasögu. Þá verða Bandaríkjamenn líka að gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi pyntingar fanga, dráp á saklausum borgurum m.a. með drónum og sérþjálfuðum vígasveitum að öðrum kosti verður það sama að gilda um forustumenn þeirra og aðra forustumenn að gera þá ábyrga fyrir meintum stríðsglæpum ef á sannast.

Á sama tíma og Bandaríkin eru sökuð um að hlera síma þjóðhöfðingja og helsta áhrifafólks í Evrópu og stýra ákvarðanatöku þeirra ríkja og hafa áhrif á viðskiptahagsmuni þá kalla þau eftir víðtækri samtöðu um baráttu gegn meintri útþennslustefnu Rússa.

Árið 2013 fóru síðustu skriðdrekar Bandaríkjanna frá Evrópu sem táknræn birtingarmynd þess að kalda stríðinu væri lokið. Nú tveim árum síðar hamast þeir við að senda skriðdreka sína aftur til ýmissa landa Evrópu vegna ímyndaðrar hættu af Rússum. Sú hætta er fyrst og fremst tilbúningur Obama forseta og starfsmanna hans í Pentagon sem vilja halda áfram stríðsleikjum á kostnað bandaríksra skattgreiðenda og láta fólk halda að það sé einhver ógn þó hún sé ekki til staðar.

Er ekki mál til komið að afskiptum Bandaríkjanna af okkar heimshluta ljúki. Framganga þeirra á þessari öld er ekki svo gæfulegur svo ekki sé meira sagt þó vissulega geti Evrópa þakkað þeim aðstoð í seinni heimstyrjöld og Marshall aðstoðina á síðustu öld. En þá voru öðru vísi menn við stjórnvölin sem höfðu ákveðin lýðræðisleg markmið og unnu samkvæmt þeim.


Kvennréttindi og tildur

Þessa daganna fer fram í Kanada heimsmeistarakeppni í knattspyrnu kvenna. Nokkuð annað er upp á teningnum hjá ríkisfjölmiðlinum vegna þeirrar keppni en heimsmeistarakeppni karla í fótbolta eða handbolta þar sem leikir voru nær undantekningarlaust sýndir í beinni útsendingu og fréttatímar færðir til sem og önnur dagskrá til að láta áhugafólk um þessar líkamshreyfingar ekki missa af neinu.

Heimsmeistarakeppni kevnna í fótbolta fer nánast alveg framhjá Ríkisútvarpinu. Engin leikur er sýndur í beinni útsendingu sem komið er. Samt segja fjölmiðlafræðingar erlendis að aldrei fyrr hafi verið jafnmikill áhugi almennings á þessari keppni og nú. Þó mikilvægt sé að fjölmiðlar virði jafnstöðu kynjanna þá verða þeir að taka mið af vilja og óskum neytenda, en slíkar óskir og vilja er erfitt að vita um meðan neytendum er ekki boðið upp á efnið. Vonandi sér RÚV að sér og sýni kvennaknattspyrnunni eðlilega virðingu með því að sýna úrslitaleikina.

Á sama tíma samþykkti Alþingi nánast samhljóða þ.19.júní að taka hálfan milljarð frá skattgreiðendum til að búa til sjóð varðandi konur og kvennabaráttu en gætti þess að það fjármagn rynni ekki til hluta sem skiptu máli til að auka réttindi kvenna þar sem þess gerist mest þörf. Þar sem tildursjóðurinn hafði jafn óljósa og ómarkvissa þýðingu þá er ekki hægt annað en taka ofan fyrir Sigríði Andersen fyrir að standa fast á sínu og greiða ekki atkvæði með sjóði með jafn ómarkvissa skipulagsskrá.

Er það í þágu kvennabaráttunnar að taka hálfan milljarð frá skattgreiðendum til að gera eitthvað sem með einhverjum hætti e.t.v. gæti tengst konum og kvennabaráttu.  Jafnvel þó að meiri líkur en minni séu á því að það skipti þessa baráttu engu máli en gæti útvegað nokkrum háskólakonum tekna við að skrifa lærðar úttektir og rit um kvennabaráttu liðinnar aldar.  


Stríðsæsingar og flóttamenn

Erdogan forseti Tyrklands hefur ásamt stjórnum Saudi Arabíu, Katar og Bandaríkjanna stutt uppreisnina í Sýrlandi með vopnum og gríðarlegum fjárframlögum. Fullyrða má að hefðu þessi ríki ekki stutt við uppreisnina eins og þau hafa gert væri henni löngu lokið með ósigri uppreisnarliðsins og engin flóttamannavandamál í Sýrlandi.

Erdogan Tyrkjaforseti krefst þess nú að Evrópuríki taki við fleiri flóttamönnum sem hrakist hafa frá heimilum sínum vegna útþennslustefnu hans dómgreindarlausrar utanríkisstefnu Bandaríkjanna undir Obama. Væri ekki rétt að þeir sem hafa búið til vandamálið taki afleiðingunum af því.

Ævintýramennska Bandaríkjanna varðandi borgarastyrjöldina í Sýrlandi er ótrúleg. Þeir hafa í raun búið til vígasveitir öfgafullra Íslamista, vopnað þær og fjármagnað. Eftir mistökin sem þeir gerðu í Afganistan þegar þeir bjuggu til Al Kaída mætti ætla að þeir hefðu næmari skilning á því að vígamennirnir sem berjast gegn óvinum þeirra verða ekki englar með því

Af hverju er Evrópa gjörsamlega sofandi í þessu máli og leyfir Tyrklandi, Bandaríkjunum, Katar og Saudi Arabíu að búa til þetta ástand. Milljónir fólks á flótta. Þjóðarmorð, konum nauðgað í hundraða tali dag hvern og þær seldar mannsali auk ýmiss annars hryllings. Hvað lengi ætlar Evrópa að horfa upp á þennan hrylling og ímynda sér að Bandaríkin geti verið leiðtogar í siðvæðingu heimsins?


Brot á tjáningarfrelsi?

Í dag vann Erla Hlynsdóttir blaðamaður þriðja mál sitt gegn íslenska ríkinu. Íslenska ríkið var dæmt fyrir brot á  tjáningarfrelsisákvæði 10.gr.  Mannréttindasáttmála Evrópu.

Sama dag lýsti menntamálaráðherra því yfir að yfirvöld í Feneyjum hefðu brotið gegn tjáningarfrelsinu þegar þau lokuðu mosku sem svissneskur listamaður gerði til kynningar á íslenskri myndlist.

 Illugu Gunnarsson menntamálaráðherra hlutaðist til um það að tugum milljóna af peningum skattgreiðenda væri varið til moskubyggingar og bænahalds múslima í Feneyjum og er því að vonum sár yfir því að yfirvöld í Feneyjum skuli bregðast svona illa við og skilja ekki þá mögnuðu listsköpun sem þeir Christopher og Ibrahim höfðu fram að færa til að kynna íslenska nútímamyndlist á kostnað skattgreiðenda.

Sé menntamálaráðherra raunverulega á þeirri skoðun að lokun íslensku moskunnar í Feneyjum sé brot á tjáningarfrelsi þá er dómstólaleiðin greið og hann gæti væntanlega fengið stuðnings hins margdæmda íslenska ríkis til að það borgaði fyrir málssóknina þar sem engin ætlast til að ráðherrann láti reyna á meint réttlæti á eigin kostnað eins og Erla Hlynsdóttir varð að gera.  

 


Frumkvæði Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar tímamótagrein í dag, þar sem hann setur fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá.

Þau atriði sem Bjarni nefnir hefðu flest getað náð fram að ganga á þinginu 2009, ef Samfylkingunni og Vinstri grænum hefði ekki legið svo á að reyna að koma á byltingarstjórnarskrá á þeim forsendum að stjórnarskráin væri gömul og úrelt.

Stjórnarskrá lýðveldisins þjónar vel tilgangi sínum og þær breytingar sem Bjarni Benediktsson bendir á varðandi auðlindir þjóðarinnar, samninga við erlend ríki og þjóðaratkvæðagreiðslur eru þær breytingar sem er eðlilegt að ná víðtækri sátt. Þá verður góð stjórnarskrá betri.

Á sama tíma og þetta frumkvæði Bjarna Benediktssonar er kærkomið og kemur ófrjórri umræðu um breytingar á stjórnarskránni í jákvæðan farveg, þá eru alvarlegar blikur á lofti í samfélaginu sem nauðeynlegt er að bregðast við og þar skiptir máli að fólk reyni ekki að ná stundarávinningi í pólitískum tilgangi í stað þess að vinna af heilindum fyrir land og þjóð.

Það verður að ná sátt á vinnumarkað. Við höfum ekki efni á að skaða þjóðfélagið með verkföllum. Það verður að taka á bankaokrinu og sjálftökuliðinu í fjármálastofnunum og víðar í samfélaginu. Það verður að spara í ríkisrekstrinum til að lækka skatta. Það verður að vinna lausnarmiðað að málum í stað þess að þingmenn skaði sjálfa sig og virðingu stjórnmálanna með því að standa í heimskulegu karpi sí og æ oft á tíðum um keisarans skegg.

Þá reynir á vilja og virðingu fyrir því að lýðræðið er ekki bara einræði meirihlutans frekar en það eigi að vera í gíslingu minni hlutans. Óneitanlega fannst mér sá tónn sem formaður Sjálfstæðisflokksins sló með grein sinni í dag gefa tilefni til þess að fleiri slíka tóna mætti slá landi og lýð til hagsbóta ef vili er fyrir hendi.

Vilji er allt sem þarf.

 


Það sem þú heldur að sé löglegt þarf ekki að vera það

Bifreiðastæði í miðborg Reykjavíkur gerast fágætari með hverjum deginum sem líður. Í dag þurfti ég að erinda í miðborginni og sá bifreiðastæði við Arnarhólinn suðvestan við byggingu Hæstaréttar. Þar sem að bifreið var lagt sunnan og norðan við stæðið þurfti ég að beita ökuleikni minni við að bakka inn í bílastæðið sem tókst með ágætum. Þar sem ég taldi mig vera um hálftíma að erindast þá borgaði ég fyrir stæðið til kl. 16.10 eins og stóð á miðanum sem var settur við framrúðu bifreiðarinnar.

Þegar ég kom til baka settist ég upp í bílinn og mér til undrunar þá var miði undir þurkublaðinu og þar stóð að ég væri sektaður fyrir stöðubrot. Ég skoðaði miðan vel og þar stóð að þetta hefði verið kl. 15.50 eða tæpum tíu mínútum áður en ég kom að bílnum og tuttugumínútum áður en tíminn var liðinn skv. samningnum sem ég gerði við bílastæðasjálfsalann.

Ég hringdi í bílastæðasjóð og var sagt að það væri í sjálfu sér allt í lagi að ég hefði borgað fyrir og tíminn hefði ekki verið liðinn, en ég hefði lagt of nálægt bílastæði langferðabíla. Það kom mér á óvart. Vissi raunar ekki til að langferðabifreiðar hefðu bílastæði í þessari götu en sjálfsagt er það vegna sömu skipulagsmistaka og Halldór Bragason þarf að líða fyrir daglega.

En ég sem borgari lagði í bílastæði milli tveggja fólksbifreiða. Greiddi stöðugjald og kom áður en tíminn var liðinn og þá var bílastæðið allt í einu orðið eitthvað annað en það virtist vera þegar ég af alkunnri ökuleikni minni lagði í bílastæðið sem ekkert benti til að væri ólöglegt að leggja í.

Ég er að hugsa um að fylgja fordæmi verkalýðsfélags Selfoss og andskotast út í bílastæðasjálfsalann fyrir að selja mér stæði og standa ekki við samninginn.

En það er greinilega vandlifað í Reykjavík Hjálmars Sveinssonar fyrir venjulegt fólk en frábært fyrir langferðabíla.


Það sem ekki er bannað er leyfilegt

Í lýðræðisríki er viðmiðunin sú að það sem ekki er bannað er leyfilegt. Það er ekki bannað að taka myndir af lögreglunni við störf eða að vera með myndavél í garðinum heima hjá sér. Þess vegna var það kristaltært að lörgrelumaðurinn sem fruntaðist við Halldór Bragason vegna myndatöku var kominn langt út yfir allt boðvald sem hann hafði lögum samkvæmt.

Þess vegna átti lögreglan að biðja afsökunar þegar í stað en ekki hiksta á því í sólarhring.

Svo var einkar gaman að hlusta á talsmann Persónuverndar fjalla um málið og átta sig ekki á þeirri grundvallarreglu í lýðræðisþjóðfélagi að það sem ekki er bannað er leyfilegt. Hvað sem persónuvernd, lögreglu, sérstökum saksóknara, samkeppniseftirliti, fjármálaeftirliti o.sfrv. o.sfrv. líður.

Þessi skipulagsvandi sem mál Halldórs Bragasonar og lögreglumannsins er sprottin af er vegna skipulagsmistaka borgaryfirvalda. Það var því við fáránlegt hæfi að ríkisfjölmiðillinn skyldi draga helstu áhrifavalda misheppnaðs miðbæjarskipulags til að fjalla um þetta mál. Það er ekki hægt að setja fullt af hótelum í miðbæinn og miða við að þar geti síðan áfram verið róleg íbúðahverfi fyrir venjulegt fólk.

Það gengur ekki að stórbílaumferð trufli borgarana á þeim tímum sólarhringsins sem fólk á að geta notið friðsældar á heimilum sínum og friðhelgis helgidaga þjóðkirkjunnar svo því sé nú haldið til haga.


Undarlegra en skáldsaga

Bók Eggerts Skúlasonar "Andersen skjölin", er á köflum eins og æsispennandi reyfari. Lykilmenn hittast á bílastæði Árbæjarkirkju í skjóli nætur og stjórnarformaður FME biður leigubifreiðastjóra að vera vitni þegar hann afhendir mikilvægt bréf um miðja nótt.

Rakið er hvernig veist var að einstaklingum með algerri valdníðslu og einstaklingar sviptir lífsviðurværi og virðingu samfélagsins að ástæðulausu. 

Þáttur fjölmiðlana er líka eftirtektarverð einkum fjölmiðilsins sem höfundur er nú ritstjóri hjá. Fjölmiðlamenn og  álitsgjafar bregðast og samsama sig ógnarherferð og hatri, fólk eins og t.d. Egill Helgason og Ingi Freyr Vilhjálmsson.

Háskólamenn bregðast og taka þátt í þessum sama hatursleik og samkvæmt bókinn þá skora þeir hæst í því efni prófessor Þorvaldur Gylfason og Vilhjálmur Bjarnason nú alþingismaður.

Á sama tíma er athyglsvert að lesa umfjöllun um fjölmiðlamann sem stendur upp úr í þessum hremmingum en það er Sigmar Guðmundsson ritstjóri Kastljóss. Í bókinni er aðkoma hans að því að leiða ákveðinn sannleika í ljós rakin og á Sigmar og fréttastofa RÚV heiður skilið fyrir að hafa hvergi hvikað í að bera sannleikanum vitni hvað þetta varðar.

Þó mörgum bregði vafalaust við margar þær opinberanir sem fram koma í bókinni þá þarf fólk að lesa bók eins og þessa til að átta sig vel á því hve eisntaklingurinn má sín lítils og hvað það eru í raun fáir sem eru tilbúnir til að leggja einhverja lykkju á leið sína í andrúmslofti glæpavæðingar til að gæta mannréttinda samborgara sinna. En á sama tíma margir sem vilja leiða saklaust fólk á höggstokkinn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 2794
  • Frá upphafi: 2516099

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2565
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband