Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Hvar eru skuldleiðréttingarnar Sigmundur Davíð?

Nefnd forsætisráðherra um niðurfærslu verðtryggðra skulda skilaði góðu áliti fyrir nokkru. En hvað svo? Ekki neitt hefur verið gert.

Engin frumvörp hafa verið lögð fyrir Alþingi til skuldaleiðréttingar í samræmi við tillögur nefndarinnar. Alþingi verður slitið í dag.  Slíkar tillögur koma þá ekki fram á Alþingi fyrr en í fyrsta lagi í janúar 2014. Ekki er vitað að verið sé að vinna lagafrumvörp í samræmi við tillögur nefndarinnar.  Kærkomið væri að fá að vita ef svo er.  Eftir því sem ég kemst næst þá hefur ekkert verið gert í málinu síðan nefndin skilaði inn tillögum sínum.

Fólk bíður eftir skuldaleiðréttingunni sem lofað hefur verið. Meðan beðið er og ekki er ljóst hvernig málið verður endanlega afgreitt ríkir óvissa sem er skaðleg fyrir þjóðfélagið. Fólk frestar því að gera ráðstafanir sem líklegar eru til aukins hagvaxtar.

Enn hefur nefndin um verðtrygginguna ekki skilað af sér.  Verði verðtryggingin af neytendalánum ekki afnumin þá munu hækkanir verðtryggðra lána frá því að ríkisstjórnin var mynduð og fram á mitt næsta ár éta upp skuldaleiðréttinguna að mestu eða öllu leyti nema það sem fók tekur undan sjálfum sér í séreignasparnaðinum. Verði svo til hvers er þá barist Steingrímur Davíð og hvar er þitt réttlæti.

Til að eyða óvissu í þjóðfélaginu bar brýna nauðsyn til að afgreiða öll frumvörp varðandi skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar fyrir áramót. Hver mánuður er dýrmætur. 

Frá orðum til athafna Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson. Strax og þig kemur saman í janúar. Biðin er þegar orðin allt of löng.  


Fólk eða ferkílómetrar

Sá merki maður Nelson Mandela er nýlátinn. Flestir eru í dag sammála um það þar sé genginn einn merkasti stjórnmálamaður á síðari hluta 20. aldar og byrjun þeirrar 21.

Nelson Mandela barðist fyrir því að fólk fengi kosningarétt sem einstaklingar en ekki á grundvelli litarháttar, kynferðis eða jarðeigna. Grunnurinn í hans baráttu var að allir ættu að eiga jafnan kosningarétt þannig að vægi atkvæðanna væri það sama.  Vegna þessarar afstöðu þurfti Mandela að sitja í fangelsi stóran hluta bestu æviára sinna.

Er það nokkur í dag sem er ósammála því að ofangreind baráttumál Nelson Mandela um jafnt vægi atkvæða fólks sé grundvallaratriði í lýðræðislandi

Raunar er það svo. Þannig er atkvæðavægið á Íslandi ennþá ójafnt og sum atkvæði vega meira en helmingi meira en önnur. Enn þann dag í dag er til fólk í þessu landi sem afsakar það að kjósendur njóti ekki jafnræðis. Hvernig væri nú að þjóðin tæki sér Nelson Mandela til fyrirmyndar og gerði þær breytingar á stjórnarskránni að vægi allra atkvæða væri það sama á Íslandsi óháð búsetu, kynferði eða litarhætti.

Væri það til of mikils mælst. Eða er atkvæðsirétturinn fyrir ferkílómetra en ekki fólk? 


Upphaf og endir pólitískrar ákæru á hendur Geir H. Haarde

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til meðferðar kæru Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra vegna sakfellingar Landsdóms á hendur honum fyrir að halda ekki formlega fundi. Sú afstaða Mannréttindadómstólsins að taka málið til meðferðar sýnir, að dómurinn telur fulla ástæðu til að skoða hvort að við meðferð málsins og dóm Landsdóms hafi verið brotin mannréttindi gagnvart fyrrverandi forsætisráðherra.

Ákæran á hendur Geir H. Haarde var pólitísk og samþykkt af pólitískum andstæðingum hans. Meðferð Alþingis á málinu sýndi að þar voru ákveðnir þingmenn í pólitískum skotgröfum og tóku flokksleg sjónarmið og pólitískan hefndarleiðangur fram yfir málefnaleg sjónarmið. Þegar Alþingi greiddi atkvæði um ákæru á hendur Geir H. Haarde voru fyrir hendi nægjanlegar upplýsingar sem sýndu að hann hafði hvorki gerst sekur um athafnir né athafnaleysi sem leiddu til eða gátu komið í veg fyrir hrun þriggja stærstu viðskiptabanka á Íslandi þannig að það bæri að ákæra hann.

Sú niðurstaða að ákæra Geir H. Haarde átti þó ekki upphaf sitt hjá pólitískum hatursmönnum hans. Upphafið og ástæða þessa málatilbúnaðar voru órökstuddar og rangar ávirðingar á hendur honum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Nú þegar liggur fyrir að ýmislegt var rangt með farið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og vinnubrögð voru ekki til fyrirmyndar. Skýrslan er stemmningsskýrsla, sem horfir einangrað á Ísland en tekur ekki tillit til alþjóðlegu fjármálahamfaranna, sem enn skekur heiminn. Þá túlkaði Rannsóknarnefndin grundvallaratriði í bankalöggjöf með röngum hætti, eins og reglur um stórar áhættuskuldbindingar og hefur það verið staðfest af Hæstarétti. Þessu til viðbótar hafa fullyrðingar nefndarinnar um fjölda augljósra brota í bankakerfinu reynst rangar, miðað við að fáar ákærur frá embætti sérstaks saksóknara þegar á sjötta ár er liðið frá bankahruni. Dæmi eru um að sérstakur saksóknari hafi fellt niður mál sem Rannsóknarnefndin tiltók sem lögbrot. Að síðustu braut Rannsóknarnefndin gegn ýmsum meginreglum um hlutlausa og vandaða málsmeðferð.

Þrátt fyrir allan málatilbúnaðinn gegn Geir H. Haarde þá var hann samt sýknaður af öllum mikilvægustu ákæruatriðunum.  Með dómi Landsdóms var því  kveðinn upp áfellisdómur yfir störfum Rannsóknarnefndar Alþingis, þingnefndar Atla Gíslasonar og þeim alþingismönnum sem lögðu upp pólitískan hefndarleiðangur á grundvelli lítt málefnalegra skrifa.

Sú sneypuför Rannsóknarnefndar Alþingis og ákærenda í þinginu yrði fullkomnuð ef Mannréttindadómstóll Evrópu kæmist að þeirri niðurstöðu að mannréttindi hefðu verið brotin á Geir H. Haarde.

Hver mun axla ábyrgð á því?


Meira en helmingur þjóðar á launum hjá ríkinu

Í bók sem kom út í gær  "Af hverju ég ætla að fara frá Frakklandi" kemur fram að  vinnufært fólk í Frakklandi sé um 28 milljónir og af þeim fái 14.5 milljónir eða rúmur helmingur laun sín frá ríkinu með einum eða öðrum hætti. Opinberir starfsmenn eru rúmlega 22% af vinnufæru fólki. Höfundur bætir síðan við þeim sem eru atvinnulausir og fá ríkisstuðning við atvinnustarfsemi sína.

Um eða yfir helming þjóðartekna í vestrænum ríkjum Evrópu tekur hið opinbera og eyðir því. Í Alþýðulýðveldinu Kína er sambærileg tala 19% eða rúmur þriðjungur af því sem Vestur-Evrópu ríkin taka til hins opinbera. Það er því tæpast spurning um hvar sósíalisminn hefur yfirtekið af fullum þunga.

Hér á landi tekur hið opinbera um helming af þjóðartekjum og dugar ekki til miðað við daglegar fréttir af meintu hörmungarástandi víða í heilbrigðis-,velferðar- og menntamálum miðað við talsmenn opinberra stofnanna á þeim sviðum.

En hvenær komast skattgreiðendur yfir sín þolmörk?  Mikilvægasta byltingin sem verður að eiga sér stað er bylting hugarfarsins  gegn ríkisvæðingu en fyrir aukinni ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og takmarkaðri skattheimtu.  

Enginn hugmyndafræðilegur grundvöllur eða heildstæð stefna hefur verið mörkuð um niðurskurð ríkisútgjalda. Meðan svo er þá tekst ekki að draga úr kostnaði hin opinbera svo neinu nemi.  Skuldsetning ríkisins og sveitarfélaga er svo gríðarleg að þar er um algjört ábyrgðarleysi stjórnmálastéttarinnar að ræða.  Framkvæmdavílji og framkvæmdageta einstaklinganna er lömuð vegna ofurskatta og eignamyndun einstaklinga nánast útilokuð í skattkerfi þar sem fólki er refsað fyrir dugnað en sumir velferðarfarþegar verðlaunaðir.

 


Pólitísk réttyrði, líf og mannréttindi.

Fyrir nokkru voru þeir sem komu inn í lönd án leyfis nefndir ólöglegir innflytjendur. Ólöglegur innflytjandi er ekki jákvætt orð. Takmörkuð samúð er með ólöglegum innflytjendum en það vilja allir vera góðir við þá sem eiga hvergi höfði sínu að halla eða eru ofsóttir í heimalandi sínu. Þannig breyttist ólöglegur innflytjandi í orðræðu fjölmiðla í flóttamenn eða hælisleitendur.

Kostnaður Evrópuríkja vegna ólöglegra innflytjenda þ.e. flóttamanna þ.e. hælisleitenda,  á svokölluðu Schengen svæði þ.e. svæðinu sem eru með sameiginleg landamæri, en við erum eitt þeira ríkja, er gríðarlegur. Fyrir nokkru sagði Fréttablaðið frá því að ESB hafi smalað "hælisleitendum" þ.e. ólöglegum innflytjendum frá Albaníu saman í flugvél til að flytja þá til heimalandsins.

Ástandið getur ekki annað en versnað vegna þess að óstjórnin víða í Afríku og Mið-Austurlöndum er slík. Þess vegna er þörf á því að taka á þessum málum af skynsemi á grundvelli mannúðar.

Svo virðist sem að heimurinn hafi þróast til hins verra undanfarin ár þrátt fyrir aukna tækni og meiri friðar í heiminum en oftast áður. Fólk sem leitar að nýjum verustað af því að það sér ekki fram á lífsafkomu eða líf heima hjá sér deyr úr sulti. Þetta fólk er drepið, selt í þrælasölu, misþyrmt og nauðgað samkvæmt nýlegum fréttum frá Afríku og Suður Ameríku.

Lausnin felst ekki í að þróuð lönd taki við fleirum og fleirum meðan ekki er tekið á  undirliggjandi vandamálum á svæðunum þaðan sem fólkið flýr.  Þetta má þó ekki segja nema eiga það á hættu að vera stimplaður af nýyrðasmiðum fjölmiðla sem rasisti eða hægri öfgamaður eða hvorutveggja.  Athyglisvert þegar það er skoðað að flokkar sem byggja á sósíalískri ríkishyggju eru nefndir hægri öfgaflokkar í íslenskum fjölmiðlum.

Samfélag þeirra ríkja sem geta aðstoðað er forustulaust m.a. vegna þess að forusta Evrópusambandsins og Bandaríkjanna hafa að því er virðist takmarkaða framtíðarsýn.  Orðaglamur og merkimiðar skipta ekki máli.  Vandamál flóttamanna undan óstjórn og hungri er það alvarlegt vandamál og þær mannlegu hörmungar sem því fylgja eru svo skelfilegar að það ber brýna nauðsyn til að taka á þeim málum með myndarlegum, mannúðlegum og raunsæjum hætti. Hvernig væri að íslenska ríkisstjórnin legði til að vandamál þessa fólks og lausn þess hefði forgang og fylgdi því máli eftir með sannfærandi hætti.

 

 


Mistök við veitingu friðarverðlauna Nóbels

Nefnd Þorbjörns Jagland sem úthlutar friðarverðlaunum Nóbels notar ítrekað vald sitt til að koma á framfæri pólitískum sjónarmiðum í stað þess að veita þeim verðlaunin sem verðskulda þau.

OPWC(samtök um bann við notkun efnavopna) fengu friðarverðlaunin. Opinber stofnun með aðsetur í Hag í Hollandi með yfir 500 starfsmenn og aðild 189 þjóðríkja.  Ekkert sérstakt hefur komið frá þessari opinberu nefnd undanfarin ár. Sú ákvörðun Putin Rússlandsforseta og Assads Sýrlandsforseta að fela nefndinni að eyða efnavopnum Sýrlands drógu athyglina að nefndinni. Þeir Assad og Pútin eiga því hlutdeild í friðarverðlaununum í ár eins gáfulegt og það nú er.

Fyrri mistök nefndarinnar við úthlutun verðlaunanna eru m.a .þegar Barrack Obama Bandaríkjaforseti, Alþjóðlega kjarnorkustofnunin og opinbera nefndin um loftslagsbreytingar af mannavöldum fengu þau.

Malala Yousafzai, Pakistanska stúlkan sem Talíbanar reyndu að myrða vegna þess að hún berst fyrir menntun stúlkna átti skilið að fá verðlaunin. Fyrrum bekkjarsystur Malölu í Mingora í Swat dalnum í Pakistan urðu vonsviknar þegar það fréttist að hún hefði ekki unnið. Annarsstaðar í borginni þar sem forn sjónarmið um yfirburði karla eru ráðandi var fagnað. Konur eiga að vera heima, þær eiga ekki að fara í skóla það hentar þeim ekki sagði talsmaður þeirra sjónarmiða.

Málsvari Talibana í Pakistan fagnaði ákvörðun nefndar Þorbjörns Jagland og sagðist ánægður með að Malala hefði ekki unnið.

Norska verðlaunanefndin gat lagt mannréttindabaráttu kvenna lið með því að veita Malölu verðlaunin í stað þess að ganga að þessu leiti í lið með Talibönum. En það hentaði greinilega ekki heimspólitískum sjónarmiðum sósíaldemókratans Þorbjörns Jagland.


Íslam, kaþólikar, Franklin Graham og þjóðkirkjan.

Múhameðstrúarmenn, kaþólikar og Franklin Graham prédikari á hátíð vonar eiga það sameiginlegt að þeir eru á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Þeir eru að sjálfsögðu frjálsir að hafa þessa skoðun og njóta skoðana- og málfrelsis. Samt sem áður amast ýmsir bara við því að Franklin Graham fái að tjá þessar skoðanir sínar jafnvel þeir hinir sömu berjist fyrir byggingu Mosku í Reykjavík. 

Laugarnessöfnuður sem stýrt er af Samfylkingarklerknum Bjarna Karlssyni hefur ítrekað sent frá sér ályktanir þar sem íslensk alþýða er vöruð við villutrúarmanninum Franklin Graham en lengra nær þjóðfélagsbarátta safnaðarins ekki. Tvískinnungshátturinn sést best á því að á sama tíma og verið er að mótmæla Franklin Graham vegna skoðana hans þá berst sóknarpresturinn fyrir að söfnuður byggi Mosku til að halda fram sömu skoðunum hvað samkynhneigða varðar með hatrammari hætti en Franklin Graham.

Á sama tíma og Samfylkingarklerkar þjóðkirkjunnar voru að sjóða saman ályktunartillögur gegn Franklin Graham og biskupinn yfir Íslandi að afsaka tilveru sína við hlið hans voru hundruðir kristins fólks drepið annas vegar í Nairobí í Kenýa og hinsvegar í kirkju í Pakistan.

Samfylkingarklerkarnir í Laugarnessókninni og biskupinn yfir Íslandi hafa ekkert um þessi morð að segja. Þar er um líf og dauða að tefla. Þetta kristna fólk fékk ekki að njóta þeirra mannréttinda sem er forsenda annarra mannréttinda, rétturinn til lífs.

Er ástæða til þess að skattgreiðendur hafi þetta fólk lengur í vinnu? 

 


Tímabær umræða um ólögleg fíkniefni

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi Hæstarréttardómari skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag undir heitinu "Vöknum".  Þar er bent á nauðsyn þess að nálgast fíkniefnavandann með öðrum hætti. Þó það sé ekki orðað ótvírætt í greininni þá verður ekki annað skilið en að Jón Steinar sé að leggja til að einhver fíkniefni sem nú eru ólögleg verði lögleg.

Umræða um þessi mál er erfið vegna þess að víða er mikill harmur sem hefur fylgt fíkniefnaneyslu, afbrot og dauðsföll. Það á raunar við bæði um lögleg sem ólögleg fíkniefni. Jón Steinar hvetur til að einstaklingarnir beri í auknum mæli ábyrgð á sjálfum sér en refsivaldi ríkisins sé ekki beitt ótæpilega gagnvart þeim sem ánetjast eiturlyfjafíkn. Fyrir þeirri skoðun færir Jón sannfærandi rök.

Tímaritið Economist telur að lögleiða eigi algengustu ólögleg fíkniefni. Tímaritið hefur ítrekað bent á í ritstjórnargreinum það sama og Jón Steinar í grein sinni. Það er að sú stefna sem fylgt er í dag gerir fyrst og fremst glæpamenn ríka, dregur ekki úr neyslu, en gerir hana hættulegri en ella væri vegna mismunandi gæða, styrkleika og íblöndunarefna.

Economist hefur ítrekað bent á að almennt veigri menn sér við að taka til máls um eiturlyfjavandann þar sem að það séu svo sterkir hagsmunir sem vilji hafa óbreytta stefnu m.a. þeir sem hagnast á viðskiptunum.  Heimsviðskipti með ólögleg fíkniefni eru ef ég man rétt að verðmætum talið meiri en með vopn. Eiturlyfjahringir í Mexícó eru með einkaheri, flugskeyti og kafbáta.

Hlutfallslega flestir refsifangar eru í Bandaríkjunum vegna löggjafar í fíkniefnamálum. Fjórðungur allra fanga í heiminum er í Bandaríkjunum las ég í grein um daginn þó þar búi bara 5% jarðarbúa. Þetta gerist í landi hinna frjálsu. Bandaríkin ættu að íhuga hvernig þeim gekk að uppræta brennivínið meðan það var ólöglegt.  Skipulögð glæpastarfsemi var ekki til í Bandaríkjunum fyrir tíma áfengisbannsins. Hér er um enn verra vandamál að ræða, meiri peningar og auðveldari flutningsleiðir til neytandans.

Þær staðreyndir að stefnan í eiturlyfjamálum dregur ekki úr neyslu og gerir glæpamenn ríka ættu að duga til að ábyrgir aðilar í samfélagi þjóðanna tækju þessi mál til skynsamlegrar skoðunar.


Bannfæringar og mannorðsmorð

Fyrrum utanríkisráðherra Íslands var beðinn um að kenna í Háskóla Íslands. Enginn efast þekkingu hans og enginn frýr honum vits. Enginn velkist heldur í vafa um að þarna hafði Háskóli Íslands fengið einn af bestu fyrirlesurum þjóðarinnar.

En nei. Þegar til átti að taka gat ekki orðið af kennslunni vegna þess að kennarar í furðulegheita fagi sem heitir kynjafræði og er kennd í Háskóla Íslands af ástæðum sem Guð einn kann e.t.v. að útskýra, mótmæltu því að nemendur Háskóla Íslands ættu þess kost að hlusta á úrvals fyrirlesra annast kennslu á sviði sem hann gjörþekkir.

Enn einu sinni horfir fólk upp á það hvernig sérhagsmunahópar og sjálfskipaðir talsmenn siðferðis í þjóðfélaginu taka sér vald til að bannfæra og veitast að öðru fólki fyrir litlar eða engar sakir. Sú varð raunin í þessu tilviki og því miður féll Háskóli Íslands hrapalega á prófi umburðarlyndis og mannréttinda.

Í dag er það Jón Baldvin Hannibalsson sem verður fyrir þessu. Fyrir nokkru fór   guðfræðikennari í leyfi vegna athugasemda trúleysingja. Við marga er ekki talað af því að þeir hafa skoðanir sem sérhagsmunahópar eru á móti.

Það ber brýna nauðsyn til að þeir sem unna málfrelsi, skoðanafrelsi og lýðréttindum láti kröftuglega í sér heyra og mótmæli þeirri ásókn og skoðanakúgun sem beitt er í þjóðfélaginu.

Nú er það musteri frjálsrar hugsunar Háskóli Íslands sem misvirðir mannréttindi, skoðanafrelsi og eðlilega starfshætti. Er skrýtið að fólk veigri sér við að taka þátt í almennri umræðu í þjóðfélaginu?


Syndir feðranna

Afleiðinar rangra ákvarðana koma iðulega ekki fram fyrr en áratugum eftir að þær eru teknar.  

 Opinberuð hafa verið skjöl sem sýna fram á skipulagningu CIA og bresku leyniþjónustunnar í valdaráni  hluta Íranska hersins og síðar keisara Íran gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Afleiðingar þessarar röngu ákvörðunar komu fyrst í ljós rúmum tveim áratugum síðar.   Mohammad Mossaddeq sem þá var forsætisráðherra og forustumaður lýðræðissinna í landinu var hnepptur í stofufangelsi og var haldið föngnum til dauðadags 14 árum síðar án dóms og laga.

Skipulagning og stjórn valdaránsins fór fram í bandaríska sendiráðinu í Teheran og barnabarn Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta var lykilmaður CIA á vettvangi og stjórnaði aðgerðum. Truman Bandaríkjaforseti var vinveittur Mossaddeq og hafnaði því að gripið yrði til aðgerða gegn honum. Hann var að því leyti framsýnni en eftirmaður hans hershöfðinginn Eisenhower.

Bretar nýttu olíulindir í Íran og greiddu nánast ekkert fyrir það. Mossadegh þjóðnýtti olíulindirnar í þágu írönsku þjóðarinnar. Það var meira en alþjóðlega olíuauðvaldið og Bretar gátu þolað. Lýðræðissinnarnir í Íran treystu á að Bandaríkin mundu veita þeim lán og kaupa olíu frá Íran. Truman stjórnin reyndi að miðla málum og var jákvæð lýðræðisöflunum. En bandarísk olíufyrirtæki stóðu síðar að viðskiptabanni á Íranska olíu ásamt öðrum stórum olíufyrirtækjum. Svo langt gekk barátta olíuauðvaldsins að beitt var m.a. hafnbanni og fallbyssubátum.

Barátta Mosaddeq fyrri sjálfstæði Íran og gegn alþjóðlega olíuauðvaldinu sem og aðgerðir Bandaríkjanna og Breta til að hrekja hann frá völdum hefur gert hann að frelsishetju Íran. Mossaddeq var ákveðinn lýðræðissinni og nokkru fyrr og á hans tíma fór fram mikil hugmyndafræðileg þróun og umræður Shia múslima í Íran. Í framhaldi af valdaráninu var komið í veg fyrir lýðræðisþróun í landinu. Trúarlegir harðlínumenn tóku völdin meðal andspyrnumanna og náðu þeim síðan með valdatöku Khomenis 1973 þá var áfram girt fyrir lýðræðisþróun í landinu.

Afleiðingar valdaráns Breta og Bandaríkjamanna í Íran kom í veg fyrir jákvæða lýðræðislega og trúfræðilega þróun í Íran. Íran væri líklega helsti bandamaður Bandaríkjanna í dag hefðu Bandaríkjamenn ekki brugðist lýðræðishugsjóninni á örlagastundu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 263
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 2781
  • Frá upphafi: 2516461

Annað

  • Innlit í dag: 240
  • Innlit sl. viku: 2544
  • Gestir í dag: 231
  • IP-tölur í dag: 231

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband