Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Stjórnarskráin lagar ekki lífskjörin. Atlagan að stjórnarskránni VI)

Margir halda að tillögur stjórnlagaráðsins hafi þýðingu varðandi breytingu á kvótakerfinu. Þannig er það ekki. Tillögur stjórnlagaráðs þó samþykktar yrðu breyta engu um stjórn fiskveiða.

Tillögur stjórnlagaráðs breyta engu um starfsemi fjármálafyrirtækja eða almenna starfsemi á markaði.

Tillögur stjórnlagaráðs  létta ekki af verðtryggingunni eða lánaokrinu í landinu. Þær draga ekki úr hættu á nýju bankahruni eða spillingu í fjármálakerfinu.

Með því að fara í aðför að stjórnarskránni eins og ríkisstjórnin beitti sér fyrir var athygli fólks beint frá mikilvægustu úrlausnarefnum í þjóðfélagsmálum en efnt til deilna um stjórnarskrána.

Mikilvægasta viðfangsefnið í þjóðfélaginu í dag og allt frá bankahruni eru og hafa verið  að skapa viðunandi lífskjör fyrir unga fólkið í landinu sem og aðra. Það verður að búa þannig að atvinnumálum að dugandi fólk hafi svipuð kjör og á hinum Norðurlöndunum.  Þá verður að afnema verðtrygginguna og tryggja að fólk búi við svipuð lánakjör og á hinum Norðurlöndunum.  Verðlag í landinu er  þriðja atriðið sem mestu máli skiptir varðandi velmegun og lífskjör í landinu.

Þessi atriði  eru þau sem mestu máli skipta til að koma hlutum í viðunandi horf eftir bankahrun. 

Þessi mál urðu aukaatriði eins konar afgangsmál. Þess í stað einhenti ríkisstjórnin sér í  umræður um formalisma og stjórnarskrá. Með því að beina sjónum almennings í áttir sem skipta lífskjör og velmegun í núinu engu máli eins og stjórnarskrármálið tókst því miður að rugla margt gott fólk í ríminu. Með milljarðs kostnaði og einhliða áróðri er síðan haldið fram að stjórnlagaráðstillögurnar séu eitthvað annað en þær eru.

Tillögur stjórnlagaráðs bjarga ekki húsinu þínu frá uppboði. Þær búa ekki til arðbær störf eða draga úr forréttindum eða spillingu í þjóðfélaginu. Tillögurnar fjalla um allt annað.

Með glöggum hætti benda þeir Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við H.Í og Ágúst Þór Árnason formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri á meginstaðreynd í stjórnarskrármálinu og hvetja fólk til að segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum en þeir segja:

" hryggjarstykki stjórnarskrárinnar á sér djúpar rætur í íslensku samfélagi. Með frumvarpi stjórnlagaráðs er gerð tillaga um að þessar rætur séu rifnar upp og haldið verði út í óvissuna."

Við skulum standa vörð um rætur og grundvöll íslensks samfélags og segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum.

Berjumst fyrir þeim breytingum sem skipta máli varðandi lífskjör og velmegun í landinu tillögur stjórnlagaráðs fjalla ekki um þau atriði.


Atlagan að stjórnarskránni V

Stjórnarskrár eru grundvöllur lagasetningar í flestum lýðræðisþjóðfélögum. Í þeim er mælt fyrir um meginreglur um stjórnskipulagi og æðstu stjórn ríkja og vernd mannréttinda einstaklinga gegn ofurvaldi ríkisins. Meginreglurnar eru markvissar og skýrar til að stjórnarfar sé traust og dómstólar geti beitt þessum réttindum. Stjórnarskrár eru samdar af fólki með óskorað umboð og reynt er að ná víðtækari sátt um efni þeirra. 

Þannig var ekki staðið að málum þegar elíta nokkurra vinstri háskólamanna í Reykjavík ákvað að gera atlögu að stjórnarskránni og fékk til liðs við sig margt gott fólk sem féll fyrir tilhæfulausu orðskrúði þeirra um úrelta stjórnarskrá sem hefði átt þátt í bankahruni.

Eftir að Hæstiréttur, æðsti dómstóll landsins, hafið ógilt kosningu svokallaðs stjórnlagaþings, var brotið gegn grundvallarreglum réttarríkis, stjórnskipunar og siðferðis og minnihluti Alþingis skipaði svokallað stjórnlagaráð. Fólk tók samt skipan í ólögmætu stjórnlagaráði - eins og menn sem kaupa þýfi. Það vefðist þó fyrir Salvöru Nordal sem kjörinn var formaður Stjórnlagaráðs.

Frá upphafi var ljóst svokallað stjórnlagaráð hafði ekkert umboð og takmarkaða þekkingu til að vinna að gerð stjórnarskrár. Afrakstur vinnunnar var óskýr, ómarkviss texti sem er fullur af óþarfa og beinlínis skaðlegur stjórnskipun landsins. Ef tillögurnar yrðu að grundvallarlögum myndi fjöldi ágreiningsmála koma upp og fara fyrir dómstóla.

Hingað til hefur umboðslausa fólkið í stjórnlagaráði látið eins og tillögur þess væru tímamótaverk.  Nú er hins vegar brostinn flótti í liðið. 

Salvör Nordal hefur viðurkennt að skiptar skoðanir séu innan stjórnarlagaráðs um hvort að tillögur þess hafi verið endanlegar eða hvort þær þarfnist frekari vinnu!  Hún viðurkennir einnig að tillögurnar séu ekki tækar í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þær eru!      Athyglisvert.

Þegar formaður stjórnalagaráðs hleypst undan ábyrgð á tillögum stjórnlagaráðs, eins og formaður stjórnlagaráðs  gerir, þá geta landsmenn ekki verið beðnir um að samþykkja þær.  Ljóst er af því sem kemur fram frá formanni og varaformanni stjórnlagaráðs að lagt var út í gjörsamlega ótímabærar og vanhugsaðar kosningar um málið. Þegar svo er, þá er fráleitt að samþykkja slíkan óskapnað.

Íslendingar þurfa að koma í veg fyrir stórslys og stjórnskipulegri óvissu. 

Til þess þarf að segja NEI við tillögum stjórnlagaráðs.

Ekki ætlast til að aðrir taki ómakið af þér. Mætið öll og segið NEI


Atlagan að stjórnarskránni IV.

Þ. 25.1.2011 komst 6 manna dómur Hæstaréttar að neðangreindri niðurstöðu: 

Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda hana.

Ályktarorð:

Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.

Hvað er gert í lýðræðisríkjum þegar æðsti dómstóll landsins ákvarðar kosningar ógildar.  Annmarkarnir sem voru á framkvæmd kosninganna eru lagfærðir og síðan er kosið aftur. Aðrar leiðir eru ekki tækar.

30 þingmenn á Alþingi ákváðu hins vegar að fara aðra leið. Þeir ákváðu að fara leið valdbeitingarinnar og hafna því að hlíta ákvörðun Hæstaréttar. Þess vegna var lögð fram þingsályktunartillaga um stjórnlagaráð. Athugi orðalagið stjórnlagaráð af því að kosningar til stjórnlagaþings voru ógildar.  Allir sem kosnir höfðu verið ógildri kosningu voru skipaðir í ráðið.  Þannig var stjórnlagaráðið fætt í veikleika og lögleysu og reis aldrei upp til styrkleika enda ekki von til þess miðað við það hvernig til þess var stofnað.

Þeir sem reyna að afsaka þessa ólýðræðislegu aðferðarfræði 30 þingmanna á Alþingi hafa gjarnan á orði að það sé ekkert að marka Hæstarétt og þessi ákvörðun Hæstaréttar sé röng. Þannig hafa m.a. fulltrúar í ólögmæta stjórnlagaráðinu talað. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr eða eru sáttir eða ósáttir þá er Hæstiréttur æðsti dómstóll landsins og það ber að fara að niðurstöðum hans. Það hefur enginn rétt til að taka sér það vald sem Hæstarétti er falið í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. En það vald tóku samt 30 alþingismenn með þessum hætti og þeir sem settust í stjórnlagaráðið. Stjórnarskrárliðar með siðferðiskennd reyndu að afsaka sig með sama hætti og þeir sem reyna að afsaka vísvitandi kaup á þýfi. Hinir tóku glaðir og án athugasemda það sem að þeim var rétt.

Afurðin sem ólögmæta stjórnlagaráðið skilaði af sér er síðan eins og við mátti búast. Settar eru iðulega fram tillögur sem eru nánast eins og óskalisti í stjórnmálaályktun. Slík afurð er ekki tæk til að verða grunnur að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að segja NEI við þeirri spurningu hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að leggja til grundvallar varðandi nýja stjórnarskrá.

Þá eru í tillögunum endalausir leppar þar sem kveðið er á um það að ákveðin atriði skulí ákveðin í lögum. Skoðum nokkur dæmi til byrjunar:

Dæmi: 106 gr. Nálægðarregla:

"Á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum." 

Skoðum núverandi ákvæði stjórnarskrár:

" Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða." 

Hvort er betra?  Var einhver ástæða til að krukka í þessu?

Annað dæmi: 3.gr. Yfirráðasvæði: "Íslenskt landssvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin í lögum. " Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði. Ekki neina. Skiptir máli hvort þetta er í stjórnarskrá eða ekki?

Þriðja dæmið 17.gr. Frelsi menningar og mennta: "Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista."  Hvaða efnisinntak hefur þetta ákvæði. Skiptir það máli í þróuðu lýðræðisríki? Að sjálfsögðu ekki. Er ekki nú þegar tryggt í lögum frelsi vísindas, fræða og lista?

Þannig eru fjölmörg dæmi sem sýna vel að arftakar Thomas Jefferson Bandaríkjaforseta voru víðsfjarri störfum stjórnlagaráðsins enda þess ekki að vænta miðað við hvernig til var stofnað. Sá merki maður hefði aldrei samþykkt þá lögleysu sem meðferð þessa máls er hvað þá annað sem ekkert erindi á í stjórnarskrá og er beinlínis skaðlegt fyrir stjórnarfar í einu landi.

Þess vegna er mikilvægt að segja NEI.

Annað er ávísun á stjórnskipulega óreiðu eins og  Forseti lýðveldisins hefur bent á með góðum og glöggum hætti.


Berjum manninn.

Vinur minn sendi mér úrdrátt af  fésbókarsíðu eins stuðningsmanns tillagna stjórnlagaráðsins þar sem hann og vinir hans tjá sig m.a. um síðuhöfund vegna andstöðu hans við tillögur stjórnlagaráðs.

"Það ætti að vera siðferðisleg skylda hvers manns á Íslandi að gefa Jóni Magnússyni svo kölluðum "lögmanni" utanundir þegar honum er mætt á götu. Það má furðu sæta að þessi vitfirringur skuli enn ganga laus á meðal fólks."

"Jòn Magnùsson er audvitad løggiltur f...... En thad er athyglisvert ad staksteinaòthverrinn skuli vitna ì hann med jàkvædum hætti? Thad segir nù eitthvad?"

"En því miður er það staðreynd að flest allir þeir lögmenn sem tjáð hafa sig um málið eru keyptar mellur LÍÚ og Sjálfstæðisflokksins."

Eðlilegt að vini mínum brygði í brún en þetta sýnir eitt með öðru rökþrot stuðningsmanna tillagna stjórnlagaráðsins. Þegar rökin eru ekki fyrir hendi þá þykir þessu fólki rétt að láta hendur skipta.

Er skrýtið að mikið af sómakæru fólki veigri sér við því að taka þátt í umræðu og tjá skoðanir sínar þegar það getur átt von á trakteringum eins og þessum.

En þegar þeir góðu og gáfuðu leyfa sér að standa á hliðarlínunnni þá geta vondir hlutir farið að gerast.

Svo virðist sem stuðningsmenn tillagna stjórnlagaráðs hafi engin málefnaleg rök þegar þeim er andmælt. Þess vegna grípa þeir til orðræðu eins og sýnishorn ber birt af hér að ofan.

 


Atlagan að stjórnarskránni III.

Viðurkennt er meðal lýðræðisþjóða að í stjórnarskrá felist grundvallarlög sem mæla fyrir um réttindi borgaranna, valdmörk stjórnvalda og skyldur þeirra. Stjórnarskráin er umgjörð um lýðræðislega stjórnskipun og mannréttindi. Stjórnarskrám er ekki breytt nema brýnt tilefni sé til.

Eftir bankahrunið komu fram raddir fólks sem af vankunnáttu hélt því fram að stjórnarskránni þyrfti að breyta vegna vanda fjármálafyrirtækja. Stjórnarskráin hafði ekkert með fjármálafyrirtækin að gera og þar af leiðandi var þessi krafa byggð á röngum forsendum.

Nú talar helsti foringi þeirra sem krefjast breytinga á stjórnarskránni og samþykkt verði þau drög sem fyrir liggja frá stjórnlagaráðinu um að slíkt sé nauðsynlegt vegna þess að: 1. Fólkið krafðist þess í búsáhaldabyltingunni.  2. Vegna þess að krafa komi fram um það í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 3. Vegna þjóðfundar sem var haldinn 2009 þar sem þjóðarviljinn  hafi komið fram. 4. Stjórnarskráin sé gömul.

Þá segir þessi sami maður Þorvaldur Gylfason, að þjóðin sé raunverulegur höfundur tillagnanna sem stjórnlagaþing setur fram.  Einu sinni var lítill hópur kommúnista sem hélt fundi á Þórsgötu 1 í Reykjavík og talaði jafnan í nafni þjóðarinnar.  Þessi hópur var hleginn í hel þegar byrjað var að tala um þjóðina á Þórsgötu 1. Mér sýnist sama vera upp á teningnum varðandi Þorvald Gylfason. Hann virðist haldinn sömu meinloku og einvaldskonungurinn Loðvík 14, Frakkakonungur sem sagði "Þjóðin það er ég."

Ekkert af því sem nefnt er varðandi kröfuna um breytingar á stjórnarskrá hefur gildi í sjálfu sér. Þá er það rangt að krafa um breytingar á stjórnarskrá komi fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Stjórnarskráin hefur reynst vel. Það skiptir máli að hafa hana áfram. Það þarf að breyta nokkrum atriðum, sem full málefnasamstaða á að geta náðst um sbr. sameiginlegar auðlindir og þjóðaratkvæði.

Þegar þjóðin á stjórnarskrá sem góður friður og sátt hefur ríkt um og hefur reynst vel, er þá vit í því að kasta henni og taka illa orðuð ákvæði frá stjórnlagaráði og samþykkja að þau skuli koma í staðinn fyrir góða vel orðaða og vandaða stjórnarskrá sem reynst hefur þjóðinni vel og reynist þjóðinni vel.

Vissulega ekki. Þess vegna segjum við NEI í atkvæðagreiðslunni á laugardaginn kemur.


Atlagan að stjórnarskránni II

Þróaðar lýðræðisþjóðir virða grunngildi og leikreglur lýðræðisins.

Lýðræði er ekki bara spurning um kosningar þar sem meirihlutinn vinnur og fer sínu fram. Lýðræði felst í fleiru m.a. að taka tillit til skoðanna minni hlutans. Einnig að vinna að því að ná sameiginlegum lausunum í ágreiningsmálum svo langt sem því verður við komið.

Stjórnlagaráð valdi að fara aðra leið. Það valdi leið einræðis meiri hlutans.

Svíþjóð skipaði sérstaka nefnd til endurskoðunar á sinni stjórnarskrá 2004.  Sú nefnd skilaði af sér þ. 17.12.2008 eftir að hafa sent tillögur til umsagnar á vinnslustigi. Stjórnarskrárnefnd Svía varð sammála og formenn allra þingflokka á sænska þinginu sameinuðust um að flytja frumvarpið.  Þannig var málið afgreitt hjá Svíum í fullkominni sátt með eðlilegum lýðræðislegum hætti.

Á þetta fordæmi frá Svíþjóð var bent ítrekað á Alþingi þegar Jóhanna Sigurðardóttir og félagar stóðu að aðför að lýðveldisstjórnarskránni árið 2009. Hvatt var til þess að við færum sömu leið og Svíar. Leið sem væri líkleg til að ná þjóðarsátt, auknu trausti á Alþingi og helstu stofnunum íslensks samfélags.

VG og Samfylking höfnuðu þessari leið hyllt af öskurkór félaga sinna í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu, þar sem háskólakennaranrir sem eru þó í meira fríi en kennslu þeir Þorvaldur Gylfason og Kúbu Gylfi Magnússon léku hvað hæst á upplausnarlúðrana.

Byltingarforingjarnir vildu ekki leið sáttar og samlyndis. Þess vegna var valin sú leið sem líklegust var til sundrungar og stjórnskipulegrar ringulreiðar.

Upplausnaröflin mega ekki komast upp með ætlunarverk sitt. Þess vegna er nauðsynlegt að mæta á kjörstað á laugardaginn og kjósa NEI.


Atlagan að stjórnarskránni I.

Hópur fólks krafðist þess í kjölfar bankahruns 2008 að gerðar yrðu víðtækar breytingar á stjórnarskránni. Helsti sporgöngumaður þeirra sjónarmiða Þorvaldur Gylfason prófessor hélt því fram þá og raunar enn að stjórnarskráin hefði eitthvað með bankahrunið að gera. Sú fullyrðing er röng.

Á tímum upplausnar og vantrausts er eðlilegt að ýmsar kröfur og sjónarmið komi fram sumar gagnlegar aðrar ótækar og jafnvel hættulegar lýðræði og þingræði. Ein slík var ákvörðun stjórnarflokkana um að gera atlögu að stjórnarskránni.

Atlagan byrjaði með frumvarpi til stjórnskipunarlaga vorið 2009. Fyrsti flutningsmaður var Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon fylgdi á hæla henni eins og venjulega. Þar var m.a. lagt til að kosið yrði sérstakt stjórnlagaþing skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga þar sem að þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn því að lagt væri upp í stjórnskipulega óvissuferð með því að framselja þennan mikilvægasta þátt löggjafarvalds Alþingis til annars aðila.

Í framhaldi af því var haldið fram m.a. af núverandi forsætisráðherra að ekkert þýddi við sjálfstæðismenn að tala þeir vildu engar breytingar á núverandi stjórnarskrá. Þessi fullyrðing er röng.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í áranna rás borið fram margvíslegar breytingar á stjórnarskrá og um endurskoðun ákveðinna kafla hennar. Þeir hafa haft forgöngu um málefnalega skoðun stjórnarskrárinnar og það er fremur við alla aðra að sakast um það að nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni hafi ekki náð fram að ganga.

Vorið 2009 lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í sérnefnd um stjórnarskrármál m.a. fram tillögur sem miðuðu að því að þjóðin greiddi atkvæði um tillögur um breytingar á stjórnarskrá skv. ákveðnum reglum eftir að Alþingi hefði samþykkt slíkar breytingar.

Þá var lögð fram eftirfarandi tillaga af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins varðandi auðlindamál:

"Við stjórnarskrána bætist ný grein 79.gr.svohljóðandi: Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeigu og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi."

Af hverju var þessi tillaga ekki samþykkt sem og tillaga okkar Sjálfstæðismanna um breytingar á stjórnarskránni vorið 2009? Það var ekki neinn efnislegur ágreiningur um þær tillögur enda settar fram af hálfu Sjálfstæðismanna til að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni.  

Ríkisstjórnin hafði ekki áhuga á að ná fram málamiðlun eða breytingum vegna þess að Jóhanna og Steingrímur ætluðu sér að nota það í kosningabaráttunni að það væri nauðsynlegt að efna til stjórnskipulegrar óreiðu í landinu með því að kjósa stjórnlagaþing og kollvarpa gildandi stjórnarskrá.

Þessi ljóti leikur þeirra Jóhönnu og Steingríms hefur síðan snúist í höndum á þeim og allt farið úrskeiðis.  

Rúmum milljarði hefur verið eytt af almannafé vegna þessarar kosningabombu Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar. Afurðin tillögur stjórnlagaráðs,  sem kostað hafa rúman milljarð er óskapnaður.

Nú er efnt til ólögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur ólögmæts stjórnlagaráðs. Vonandi verður það gæfa þjóðarinnar að segja NEI við þessum tillögum á laugardaginn kemur. 

Þannig að Ísalands óhamingju verði ekki allt að vopni.  


Umboðsmaður Alþingis og Orkuveitan

Í gær var kynnt úttektarskýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur og vikið m.a. að svokölluðu REI máli. En "stóra rannsóknin" á REI málinu hefur staðið í 5 ár. Umboðsmaður Alþingis tók REI málið til skoðunar á árinu 2007, en niðurstöður þeirrar athugunar hafa ekki enn litið dagsins ljós.

Mál dragast iðulega úr hófi  hjá umboðsmanni Alþingis. Þannig þurfti embættið 38 mánuði til að lýsa skoðun sinni á sérstöku vopnaleitarhliði fyrir Saga Class farþega á Keflavíkurflugvelli. 

Rannsókn umboðsmanns á lögmæti útreiknings Seðlabankans á verðtryggingu hefur staðið í 15 mánuði.  Fleiri dæmi mætti nefna. 

 

Til að störf, skoðanir og skýrslur Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns hafi þýðingu, þarf hann að skipuleggja störf sín þannig að tryggt sé að málum ljúki innan eðlilegs málsmeðferðartíma.  Embætti umboðsmanns er gagnslítið fyrir borgarana þegar efnisniðurstaða mála kemur seint og um síðir jafnvel eftir að tilefnið er ekki lengur til staðar.

 

Verra er þó  ef umboðsmaður forðast  að taka á óþægilegum málum fyrir stjórnvöld.

Það er e.t.v. ríkari ástæða fyrir Alþingi að beina sjónum sínum og gagnrýni  að embætti Umboðsmanns Alþingis  en Ríkisendurskoðun.


Lögleysa og rannsóknarnefndir.

Nýlega sagði reyndur héraðsdómari af sér sem formaður rannsóknarnefndar um fall sparisjóðanna Ástæðan var að meirihluti nefndarinnar taldi óþarfa að vinna á grundvelli laga.  Sigríði Ingvarsdóttur héraðsdómara er sómi af því að vilja ekki taka þátt í löglausum athöfnum.

Sama staðfesta og virðing fyrir lögum einkenndi því miður ekki störf rannsóknarnefndar Alþingis undir stjórn Páls Hreinssonar. 

Tveir nefndarmenn Rannsóknarnefndar Alþingis, þeir Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, komust að þeirri augljósu niðurstöðu að þriðji nefndarmaðurinn hefði gert sig vanhæfa með ummælum  sínum.  Þeir þorðu hins vegar ekki að standa með sjálfum sér og grundvallarreglum þegar sótt var að þeim. 

Rannsóknarnefnd Alþingis virti ekki meginreglur laga um réttindi einstaklinga og fyrirtækja til hlutlausrar rannsóknar, aðgangs að gögnum og fleira.  Verst var þó vanvirðing nefndarinnar á andmælarétti, sem eingöngu var til málamynda. Það að birta ekki andmæli í hinni prentuðu skýrslu sýndi best hugarfar skýrsluhöfunda. Auk þess var þar um algeran dónaskap að ræða í garð þeirra sem sendu andmæli.

Skýrsla rannsóknarnefndar Páls og félaga var ekki byggð á rannsókn hlutlausra aðila.  Hún er stemmingsskýrsla en ekki vönduð staðreyndaskýrsla.  Þetta sést vel á framsetningu, vali og meðferð upplýsinga. Ýmsir, þ.á.m. forseti Íslands, hafa bent á að skýrslan er full af staðreyndavillum og röngum ályktunum.

Rannsóknarnefnd Páls Hreinssonar túlkaði jafnvel lög á rangan hátt, eins og t.d. meginatriði bankalöggjafar um skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum. Það hefur Hæstiréttur staðfest.

Rannsóknarnefnd Páls Hreinssonar taldi að ýmis augljós lögbrot hefðu átt sér stað, en lítið hefur frést af ákærum vegna þeirra þegar tæpir 1000 dagar eru liðnir frá útgáfu skýrslunnar.  Þannig hafa menn setið undir sakaáburði skýrsluhöfunda án þess að hafa notið réttlátrar málsmeðferðar.

Það er umhugsunarefni hvort að skipan og vinnubrögð pólitískra rannsóknarnefnda standist grundvallarmannréttindi um réttláta málsmeðferð.  Löglaus vinnubrögð slíkra nefnda eru ávísun á pólitíska misnotkun og pöntuð álit. 


Obama, Baroso og Google

Hvað skyldu Barack Obama Bandaríkjaforseti, José Baroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og leitarvefurinn Google eiga sameiginlegt?

Að hvika fyrir kröfum Íslamista um takmörkun á skoðana- og tjáningarfrelsi.

Obama biðst afsökunar á því að það skuli vera tjáningarfrelsi í Bandaríkjunum sem felst m.a. í því að menn mega gera lélegar kvikmyndir án þess að Bandaríkjaforseti biðjist almennt afsökunar. Auk þess hefur framleiðandi umræddrar kvikmyndar verið handtekinn.

Gamli Maoistinn og kommúnistaleiðtoginn Baroso hefur sennilega aldrei skilið mikilvægi tjáningarfrelsis. Það þvælist ekki fyrir honum að beygja sig í duftið fyrir óeirðaröflum Íslamista og biðjast afsökunar á bandarískri kvikmynd eins og honum komi hún eitthvað við.

Samskipta- og upplýsingavefurinn Google samþykkir að láta undan kröfum Íslamista og takmarka upplýsingastreymi að kröfu þeirra.

Skelfing er þetta lið ómerkilegt.

Þegar Danir máttu þola aðsókn og viðskiptaþvinganir vegna mynda sem birtust af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum þá sagði þáverandi forsætisráðherra að í Danmörku væri tjáningarfelsi og honum hvorki kæmi við né hefði með það að gera hvað fólk skrifaði. Smáríkið Danmörk mátti þola mótmæli Íslamista en kiknaði ekki í hnjáliðunum eins og Obama og Baroso gera nú og Google ef það hefur þá.

Fyrir 23 árum var breska skáldið Salman Rushdie dæmdur til dauða af Írönskum stjórnvöldum fyrir að skrifa bókina "Söngvar Satans" Nú hefur þessi dómur Khomeni erkiklerks verið staðfestur  vegna myndarinnar "The Innocence of Muslims". 

Hassan Sanei erkiklerkur í Íran segir að hefði dauðadómnum yfir Rushdie verið framfylgt þá hefði síðari móðganir eins og teikningar, blaðagreinar og kvikmyndir aldrei orðið til. Til þess að koma í veg fyrir að fólk leyfi sér mál- og skoðanafrelsi þegar Múhameðstrú er annars vegar hafa verðlaun fyrir að myrða Salman Rushdie verið hækkuð í 3.3.milljónir Bandaríkjadala.

Tilgangur Íslamistanna er augljós. Að hræða fólk frá því að setja fram skoðanir sem þeim er ekki að skapi. Útiloka tjáningarfrelsi í raun.  Mikið eiga þeir gott að eiga jafn öfluga bandamenn og Obama og Baroso.

Að sama skapi er það íhugunarefni fyrir unnendur mannréttinda að svo illa skuli komið fyrir okkur að forustumenn í Evrópu og Bandaríkjunum skuli ekki skilja mikilvægi þess að gefa ekki afslátt á mannréttindum.

Mannréttindi eru algild. Baráttan fyrir þeim endar aldrei.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 344
  • Sl. sólarhring: 407
  • Sl. viku: 3299
  • Frá upphafi: 2517634

Annað

  • Innlit í dag: 309
  • Innlit sl. viku: 3044
  • Gestir í dag: 297
  • IP-tölur í dag: 292

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband