Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Nýar áherslur eða orð án innihalds

Árni Páll Árnason flutti um margt athyglisverða ræðu eftir að hann var kjörinn formaður Samfylkingarinnar.  Tal Árna Páls um samfélagssýn norrænna jafnaðarmanna og fráhvarf frá hugmyndafræðilegum skotgröfum er  árás á stefnu Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur vikið frá samfélagssýn jafnaðarmanna og stendur föst í foræði vinstri sinnaðrar hugmyndfræðilegrar skotgrafar, þar sem m.a. er lýst yfir stríði við markaðshagkerfið.

Árni Páll Árnason er markaðshyggjumaður eins og flokksbræður hans á hinum Norðurlöndunum. Áhersla  hans á frið og sátt er athyglisverð.  Meini Árni Páll það sem hann sagði þá tekur hann stjórnarskrármálið strax úr átakaferli og  finnur  sátt með sama hætti og jafnaðarmenn á hinum Norðurlöndunum. 

Skuldavandi heimilanna er mikilvægasta málið sem verður að leysa á næsta kjörtímabili. Árni Páll hafði þetta að segja um málið:

"Heil kynslóð stendur frammi fyrir óleystum vanda. Eitt er skuldavandinn sem heldur mörgum í helgreipum ofveðsetningar. Það er ekki ásættanlegt að gefa ekki skýr svör um hvort lausna sé að vænta í afmörkuðum málum, eins og lánsveðsmálunum. Ég er tilbúinn til að hlusta á allar hugmyndir um lausnir á skuldavandanum, en veit af biturri reynslu að hann er of umfangsmikill til að honum verði létt af öllum án þess að hann verði færður á aðra sársaukalaust og ég veit líka að allar nýstárlegar úrlausnir munu reyna á þanþol stjórnarskrárinnar. En ég er til.“

Í fyrsta lagi viðurkennir Árni Páll að ríkisstjórnin hafi ekki leyst skuldavanda heimilanna hvað svo sem Jóhanna segir. Í annan stað þá segir hann að það sé ekki ásættanlegt að halda mörgum í helgreipum ofurveðsetningar. Í þriðja lagi að gefa verði skýr svör um hvort lausna sé að vænta. Í fjórða lagi að hann sé tilbúinn í að hlusta á allar góðar tillögur jafnvel þó það reyni á þanþol stjórnarskrárinnar.

Þetta þýðir að Árni Páll er tilbúinn að ganga lengra en gert hefur verið jafnvel svo langt að reyni á þanþol stjórnarskrárinnar. Á það þol reynir ekki nema um einhvers konar skerðingar eignarréttar sé að ræða. 

Eina skynsamlega lausnin og sú eina tæka út frá janfréttissjónarmiðum, hagrænum sjónarmiðum og sanngirnissjónarmiðum er að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður lánin þó ekki væri um meira en hækkanir lánanna vegna skattahækanna en það eitt hefur fært 100 milljarða frá neytendum til fjármagnseigenda.

En Árni Páll við viljum sjá tillögur þínar  til að ná aukinni sátt í samfélagið og raunhæfar tillögur um lausn skuldavandans. Vígorð hins nýja formanns eru: Lífskjör, leikreglur, tækifæri og lífsgleði. 

Þjóðin getur ekki notið góðra lífskjara nema skattar verði lækkaðir, fjárfesting aukin og verðtrygging á neytendalánum afnumin. Það verða engin tækifæri eða hagræn lífsgleði eða eðlilegar leikreglur nema arðrán verðtryggingarinnar verði afnumið af neytendalánum Árni Páll Árnason. 

Þess vegna Árni Páll Árnason markaðu stefnuna. Það er þitt hlutverk sem formanns.  Hvað viltu gera?


Dýr mundi Steingrímur allur

Nú liggur fyrir að ákvarðanir Steingríms J. Sigfússonar varðandi sparisjóðinn í Keflavík mun kosta skattgreiðendur 25 milljarða króna.  Tap af aðgerðum Steingríms vegna Sjóvá-Almennar tryggingar kostar 4 milljarða og Byr-ákvarðanir Steingríms kosta a.m.k.  100 milljónir. 

Þessu til viðbótar fengu VBS, Saga Capital og Askar Capital  52 milljarða frá Steingrími þegar hann lánaði þessum félögum þá fjárhæð.  Í ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA kemur fram hvað VBS og Saga Capital mátu þennan ríkisstuðning til margra milljarða þannig að það þarf enginn að velkjast í vafa um það.

Beint tap ríkisins vegna Steingríms er hátt í 80 milljarðar króna. 

Þá er ótalið mögulegt tjón vegna gengisákvæða í uppgjörssamningum Landsbankans. Undirverðlagning við sölu bankanna til kröfuhafa (vogunarsjóða). 

Sem betur fer tókst Steingrími ekki að koma 500 milljarða Icesave kröfunni til viðbótar á þjóðina eins og hann lagði til eftir sumarsamninga flokksbróður hans Svavars Gestssonar, sem sá enga ástæðu til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar af því að það var komið sumar. 


Steingrímur J. kostar margfalt meira en Icesave

Steingrímur  J. Sigfússon hefur kostað þjóðina margfalt meira en Icesave.

Nefna má má dæmi sem eitt og sér kostar þjóðina meira en Icesave, en það er meðferð Steingríms J á málum Sparisjóðs Keflavíkur.

Sparisjóður Keflavíkur átti rúma 5 milljarða í eigið fé samkvæmt ársreikningi sem kom út í apríl 2009 þar sem tekið hafði verið tillit til Hrunsins. Eiginfjárhlutfallið var undir lögbundnu lágmarki og því fékk Sparisjóður Keflavíkur undanþágu til að lagfæra eiginfjárhlutfallið. Sparisjóðurinn starfaði síðan á undanþágu í eitt ár með stórtapi.

Í apríl 2010 stofnaði Seingrímur J. nýjan sparisjóð SpKef, sem var að öllu leyti í eigu ríkisins. Fjármálaráðherrann Steingrímur J var eini stofnfjáreigandinn og fór með öllu völd. Eignir sem færðar voru í þetta nýja fjármálafyrirtæki Steingríms J. áttu að vera umfram skuldir.

SpKef sparisjóður Steingríms J starfaði í 11 mánuði án þess að uppfylla kröfur um lögbundið eiginfjárhlutfall, en slíkt er augljóst lagabrot.  SpKef tapaði stórfé á þessu tæpa ári sem Steingrímur J rak sparisjóðinn.

Kostnaður ríkisins vegna SpKef var rúmir 25 milljarðar en þá er eftir að telja nokkra kostnaðarliði.

Með því að reka Sparisjóð Keflavíkur og SpKef í 2 ár olli Steingrímur J ríkissjóði tjóni sem nemur að lágmarki 25 milljarða króna. Auk þess varð þetta brölt Steingríms J til mismuna samkeppnisaðilum á fjármálamarkaðinum.

Er ekki kominn tími til að stjórnarandstaðan leggi fram vantrausttillögu á þennan ráðherra. Þetta er bara eitt dæmi sem sýnir að Steingrímur er okkur dýrari en Icesave. Þrátt fyrir að þjóðinni hafi tekist að koma í veg fyrir að hann velti yfir á þjóðina hundruðum milljarða skuldbindingum vegna Icesave sem þjóðin bar aldrei ábyrgð á.


Lánaokrið á Íslandi og lánamarkaðurinn í Englandi

Í laugardagsblaði Daily Telgraph er sagt frá því að íbúðaverð hafi lækkað í Englandi og vextir séu nálægt sögulegu lágmarki og búist við enn meiri lækkun.

Í greininni segir m.a. að Yorkshire Building Society hafi lækkað vexti nýlega á fasteignaveðlánum niður í 1.99% ársvexti og því spáð að þessir vextir geti farið niður í 1.15% ársvexti. Að sjálfsögðu óverðtryggt þó að verðbólga í Bretlandi sé um og yfir 2%

Loks er sagt frá því að meðalvaxtagjöld séu nú 3.38% ársvextir á fasteignaveðlánum.

Í Brelandi dettur engum í hug að taka upp verðtryggingu. Þar áttar fólk sig á að þegar verð á fasteignum lækkar þá verður líka að lækka vexti á fasteignaveðlánum.

Skrýtið að við hér í sérleiðunum okkar skulum ekki átta okkur á því að það er ekki hægt að misbjóða neytendum endalaust og láta þá borga langhæstu vexti í Evrópu og búa við verstu lánakjör. Við byggjum ekki upp velferðarþjóðfélag með þeim hætti.

Með verðtryggðum lánum á okurvöxtum eyðileggjum við möguleika fólks til að rísa úr fátækt til bjargálna og fleiri og fleiri fara úr landi til að sækja sér viðunandi afkomu og lífskjör.

Er ekki tími til kominn fyrir unga Ísland og framtíðna að afnema verðtryggingu á neytendalánum og taka upp sambærilega lánastarfsemi og í nágrannalöndunum? 


Járnfrúin, prófessorinn og tölfræðin.

Benjamin Disreli hinn merki forsætisráðherra Breta sagði einu sinni að það væri til þrenns konar lygi. Það væri lygi, helvítis lygi og tölfræði. Fyrir nokkru skrifaði ég grein vegna bókar sem fyrrum lífvörður Margaret Thatcher skrifaði um hana og lýsti henni sem mjög umhyggjusamri og hjartahlýrri konu, sem gerði allt til að starfsfólki hennar liði vel. Lífvörðurinn var upphaflega andstæðingur hennar í pólitík og varð undrandi að kynnast þessari góðu konu og taldi rétt að láta það koma fram í bók sinni.Þetta var meira en Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands gat þolað.  Ekki mátti tala vel um Thatcher. Prófessorinn segir m.a. að Jón Magnússon „lögfræðingur í Sjálfstæðisflokknum,  „var búinn að skrifa grein í dag sem hann kallar „Umhyggjusama járnfrúin“, datt mér í hug að þarna væri kominn enn ein tilraunin til að tengja frjálshyggjuna við hugmyndafræði hippana, með áherslu á friði, ást og umhyggju.“Síðar í greininni segir prófessorinn að þróun fátæktar og ójafnaðar í stjórnartíð Thatcher 1979-1990 hafi verið mikil og vísar í tölfræðiúttekt  um hlutfall barna sem búa í fjölskyldum undir fátæktarmörkum. Prófessorinn gleymir því meðvitað að greina frá því að þegar Thatcher tók við var kreppa í Bretlandi og gríðarlegt atvinnuleysi.  Á valdatíma hennar komust Bretar út úr kreppunni og hagur alls almennings batnaði til muna.  En það gildir ekki þegar reiknilíkan tölfræðinnar hans Stefáns prófessors er skoðað. Þar er reiknuð út hlutfallsleg fátækt en ekki raunveruleg. Þegar Verkamannaflokkurinn kom til valda í Bretlandi árið 1997 vöktu þeir sérstaka athygli á að 35% barna í Bretlandi lifði í fátækt.  Ekki algjörri fátækt því jafnvel þeir fátækustu voru almennt ekki í neinum vanda varðandi mat, föt, nám eða heilsugæslu.  Hlutfallsleg fátækt hét það.  Allir eru á móti fátækt og vilja vinna gegn henni. Hún er hræðileg. En hlutfallsleg fátækt þarf ekki að vera annað en gott pólitískt vígorð eins og í þessu tilviki. Í bók sinni „Crimes against logic“  eða glæpur gegn rökhyggju, talar Jamie Whyte sérstaklega um þessa birtingarmynd áróðurs Verkamannaflokksins í Bretlandi, sem félagsfræðiprófessorinn Stefán er svo hugfanginn af.  Whyte bendir á að þetta dæmi sýni með almennum hætti hvernig tölfræði geti afvegaleitt þegar byggt sé á röngum eða ófullnægjandi forsendum.  Í úttekt Verkamannaflokksins og prófessorsins var miðað við að þeir sem væru með undir 60% af meðaltekjum byggju við hlutfallslega fátækt. Það þýðir að jafnvel þó að þjóðfélagið auðgist og allir hafi það betra þá eykst jafnvel fjöldi þeirra sem búa við hlutfallslega fátækt samkvæmt þessum tölfræðikúnstunum.  Svo merkilega vill líka til að sósíalistarnir í Verkamannaflokknum og prófessor Stefán gleyma alltaf að reikna inn í formúluna sína áhrif skattlagningar og velferðarkerfisins til jöfnunar í þjóðfélaginu. Whyte bendir á sláandi dæmi í þessu sambandi: Tveir enskir skóladrengir búa hlið við hlið í áþekkum húsum í Bretlandi og ganga í sama skóla, ganga í sambærilegum fötum, stunda sömu áhugamál og fara til sama læknis þegar þeir eru veikir.  Efnaleg velferð þeirra er sú sama að öllu leyti nema að því leyti að annar fær 10 pund í vasapeninga en hinn 5 pund.  Samkvæmt þeim tölfræðikúnstum sem prófessor Stefán Ólafsson og Verkamannaflokkurinn byggja á þá er sá sem fær 5 pundin hlutfallslega fátækur þó hann hafi allt til alls og mismunur á efnalegri velferð beggja drengjanna sé ekki umtalsverður.

Tölfræðin getur verið varasöm og stundum verri en bölvuð lygi prófessor Stefán Ólafsson. Þar fyrir utan var sérstakt að prófessor eins og Stefán skyldi hlaupa svona upp á nef sér bara af því að fjallað var um Margaret Thatcher persónulega og kosti hennar.

(Grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu á þriðjudaginn 8.1. (Stefán Ólafsson er greinilga ekki áskrifandi að Morgunblaðinu því að í dag heldur hann áfram með tölfræðikúnstir sínar í pistli)

 

Hálfsannleikur og stolnar fjaðrir

Áramótaboðskapur forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar er athyglisverður. Steingrímur J. Sigfússon minnir á árangur sem hafi náðst, en gleymir að nefna að flestar mikilvægustu ráðstafanirnar voru gerðar áður en hann varð ráðherra. Jóhanna Sig. flytur hefðbundinn reiðilestur um Sjálfstæðisflokkinn og frjálshyggju.

Jóhanna hefur aldrei skilgreint hvað hún á við með frjálshyggju. Helst má skilja að í því felist stuðningur við frjálst markaðshagkerfi. Hvort sem Jóhönnu líkar betur eða verr, þá hefur frjálst markaðshagkerfi sannað kosti sína með þeim hætti að engum málsmetandi stjórnmálamanni í Evrópu dettur í hug að hallmæla því sem slíku eða tala fyrir því að hverfa frá því nema e.t.v. Jóhönnu á tyllidögum.

Jóhanna miklast af því að ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu hafi minnkað um tæpan helming frá árinu 2007. Hvernig skyldi standa á því?  Tekjur og afkoma láglauna- og millitekjufólks hafa ekki batnað. Árangur til jafnaðar hefur því náðst með því að fleiri hafa nú lakari kjör en áður og færri góð kjör. Er það jákvæður árangur?

Þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um bankahrunið telur Jóhanna að rætur bankahrunsins liggi aðallega í einkavæðingu bankanna. Þeir sem halda þessu fram hafa annað hvort ekki kynnt sér staðreyndir um bankahrunið og fjármálakreppuna í heiminum árið 2008 eða ekki skilning á viðfangsefninu. Sennilega á hvoru tveggja við um Jóhönnu.   

Óneitanlega er það ömurlegt að forsætisráðherra ríkisstjórnar sem kallar sig velferðarstjórn skuli halda því fram að skuldir heimilanna hafi lækkað verulega og 200 milljarðar verið afskrifaðar af lánum heimilanna. Þetta er ósatt. Skuldir heimilanna hafa ekki lækkað. Þær hafa hækkað.  Afskriftirnar sem Jóhanna talar um eru aðallega vegna leiðréttingar á ólöglegum gengislánum. 

Engar afskriftir hafa verið gerðar á lánum venjulegs fólks sem reisti sér ekki óleysanlegar skuldabyrðar.  Skuldir þess fólks hafa hækkað og hækkað. Verðtryggingin sem Jóhanna lofaði að afnema heldur svo áfram að éta upp eignir þess fólks. Sú  staðreynd er dapurleg arfleifð Jóhönnu Sigurðardóttir og versta dæmið um svik hennar við fólkið í landinu.


Fátækt

Fréttir frá Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpinni og fleiri hjálparstofnunum eru fyrirferðarmiklar. Talsfólk hjálparstofnana talar um vaxandi neyð og aukna fátækt.

Af hverju er neyð í velferðarþjóðfélaginu Íslandi?

Ég ætla ekki að minnast á ríkisstjórnina sem kallar sig norrænu velferðarstjórnina. Það er óviðkomandi þessum þanka.

Fólk í neyð fær hjálp frá ríki og sveitarfélögum. Þar er um miklar fjárhæðir að ræða. Er þeim fjármunum þá svona misskipt? Getur verið að sumir fái margfalt meðan aðrir fá lítið?

Getur verið að velferðarkerfið þarfnist umbyltingar frá grunni þannig að um raunverulega velferð allra geti verið að ræða? Á ekki velferðin fyrst og fremst að vera fyrir fátæka?  Er það eðlilegt velferðarkerfi þar sem milljarðamæringurinn nær í ellilaunin sín frá ríkinu á sama tíma og sonur hans nær í námslánið frá ríkinu?

Flestir vilja hjálpa fátækum en hvenær er fólk fátækt? Allir ættu að vera sammála um að fólk sem hefur ekki viðunandi húsnæði og fær ekki nóg að borða er fátækt og það er þjóðarsátt um að velferðarkerfið komi í veg fyrir að nokkur sé án húsnæðis eða fái ekki nóg að borða. Ef sú staðhæfing mín er rétt að það sé þjóðasátt um að tryggja fólki a.m.k. þá lágmarksvelferð að hafa viðunandi íverustaði og mat. Af hverju er þá þessi vandi sem talsmenn hjálparstofnana lýsa?

Það er eitthvað bogið við velferðarkerfið? 


Millifærsluþjóðfélagið

Millifærsluþjóðféalgið byggir á því að peningar eru teknir frá sumum til að láta aðra hafa. "Velviljaðir" stjórnmálamenn sem vilja slá sig til riddara fyrir vasklega framgöngu í þágu sérhagsmuna ákveðinna hópa leggja því til nýa skatta fyrir þá sem náðar njóta.

Almenn sátt varð eftir miðja síðustu öld um almennt velferðarkerfi sem byggðist á hjálp við þá sem virkilega þörf höfðu, til að tryggja þeim fæði, húsnæði, almenna heilsugæslu og menntun.  

Nú er velferðar- og millifærslukerfið komið í algjörar ógöngur. Grundvallarvelferðin verður oft útundan og fólk þarf að leita eftir matargjöfum frá hjálparstofnunum. Á sama tíma er flókið millifærslukerfi t.d. á stundum fyrir atvinnugreinar og þá sem betur mega sín í þjóðfélaginu.

Eftir því sem stjórnmálamenn föndra lengur við vinsældaleit með frekari ríkisafskiptum án heildarstefnu eða markmiða þá verður kerfið dýrara, flóknara og ómarkvissara. Sumir fá margfalt meira en aðrir þó þörfin sé hin sama.

Velferðarkerfi Vesturlanda er löngu orðið ósjálfbært en þjónar samt ekki nægjanlega vel þeim grundvallaratriðum sem þjóðfélagssáttinn um velferð byggir á. Þjóðirnar horfa fram á auknar lántökur,  ríkisgjaldþrot og hrun velferðarkerfisins innan fárra ára með sama áframhaldi.

Eitt mikilvægasta verkefni Sjálfstæðisflokksins er að móta velferðarstefnu sem byggir á raunverulegri velferð fyrir þá sem á þurfa að halda og sem mestri takmörkun á millifærslum.  Það er forsenda minni ríkisútjgalda, skattalækkana og kemur í veg fyrir þjóðargjaldþrot.

Samband ungra Sjálfstæðismanna bendir réttilega á það að ástandið sé ekki björgulegt þegar hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins mælir fyrir auknum millifærslum, sem renni til sumra með aukinni skattheimtu á allan almenning. 

Unga fólkið í flokknum spyr með hvaða hætti og hvernig ætla menn að móta stefnu velferðar til framtíðar og  komast út úr þeim vanda sem millifærslurnar valda.

Smáskammtalækningar fyrir suma skapa ekki raunverulegt velferðarkerfi jöfnuðar með lágmarksskattheimtu, en samt afgangi á ríkisútgjöldum.


Hvað kostar bókin.

Í bókabúðum og stórmörkuðum landsins svigna borð undan þeim tæplega 1000 bókum sem gefnar eru út fyrir þessi jól. Bóksala er mjög takmörkuð nema bara í desember. Þess vegna er rangt að við séum bókaþjóð. Við erum bókagjafaþjóð. 

Mér virtist sem verð á ýmsum þýddum skáldverkum væri um 5.000 krónur. Sumar dýrari aðrar ódýrari. Aðrar bækur almennt dýrari. Hægt er að deila um hvort það er dýrt eða ódýrt. Hitt er ljóst að fæstir höfundar fá lágmarkslaun fyrir vinnu sína við samningu og frágang bóka sinna. Hönnun, umbrot, pappír, prentun og markaðssetning kostar sitt. Bókagjafaþjóðin gefur nefnilega innbundnar bækur. Þegar allt kemur til alls þá eru bækur sennilega ekki dýrar miðað við tilkostnað.

Í gær keypti ég tvær bækur inn á lestölvuna mína frá Amason. Að sjálfsögðu fara þær ekki í bókahillur eða verða gefnar. Komnar hingað í bókabúðir innbundnar hefði hvor um sig sennilega kostað nálægt 10 þúsund krónur og því prýðis jólagjöf. Kostnaður minn var þó rétt um 2.000 íslenskar krónur fyrir báðar bækurnar eða innan við helming af þýddri, innbundinni spennusögu í bókabúð í Reykjavík.

Spurning er þá hvað er dýrt og hvað er ódýrt og hvernig ráðstafar neytandinn peningunum sínum sem best.


Sí-gjaldþrota ríkisbankar

Eftir bankahrunið urðu margir til að halda því fram að vandamálið væri einkavæðing bankanna. Ríkisbankar fara ekki á hausinn sögðu þessir spekingar. Staðreyndirnar segja raunar annað.

Ríkið rekur tvær fjármálastofnanir sem ítrekað komast í þrot og fá peninga frá skattgreiðendum til að komast hjá gjaldþroti. Önnur þessara bankastofnana er Byggðasjóður sem hefur verið í stöðugu gjaldþroti um áratuga skeið. Ekki árlegu en því sem næst.

Hin bankastofnunin er nú Íbúðalánasjóður sem þarfnast þess enn og aftur að skattgreiðendur leggi bankanum til fé til að hann komist hjá gjaldþroti.

Það þarf mikla snilld til að reka Íbúðalánasjóð lóðbeint til andskotans eins og ágætur fyrrum bankastjóri hefði orðað það.  Íbúðalánasjóður ætti í dag að vera öflugur lánasjóður með góða eiginfjárstöðu. Staða sjóðsins í dag er hins vegar sú að hann þarf nú árlegt milljarða framlag úr ríkissjóði.

Talsmenn ríkisvæðingar fjármálalífsins og "spekingar" í spillingu sumra,  ættu líka að gaumgæfa að öll vondu einkennin, agaleysið og spillingin voru til staðar í þeim bönkum sem ríkið seldi upp úr aldamótum fyrir einkavæðingu þeirra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 384
  • Sl. sólarhring: 853
  • Sl. viku: 5033
  • Frá upphafi: 2587497

Annað

  • Innlit í dag: 348
  • Innlit sl. viku: 4685
  • Gestir í dag: 336
  • IP-tölur í dag: 330

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband