Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna III

Mikilvægustu tillögur forsætisráðherra vegna skuldavanda heimilanna eru höfuðstólsleiðréttingar verðtryggðra skulda og afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Önnur atriði sem nefnd eru felast í eins konar lyklafrumvarpi þ.e. að eigendur yfirveðsettra íbúða geti skilað þeim án þess að þola gjaldþrotameðferð í framhaldinu vegna ógreiddra húsnæðisskulda.  Hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða fyrir venjulegt fólk sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði á þenslu og verðbólgutímum.

Afnema á stimpilgjalda vegna kaupa á húsnæði til eigin nota og frumvarp þess efnis lagt fyrir á haustþingi 2013. Ég flutti frumvarp þessa efnis þegar ég sat á þingi og það mætti dusta rykið af því og hér með gef ég Bjarna Benediktssyni sem hefur umsjón með verkefninu höfundarréttinn.

Sum önnur atriði í tillögum forsætisráðherra skipta litlu eða engu máli eða eru langtímaverkefni. Þannig verður ekki séð réttlæting sérstakrar gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum vegna endurútreiknings gengistryggðra lána nema um skaðabótaábyrgð sé að ræða. Ríkið getur fellt niður gjaldtöku vegna gjaldþrota einstaklinga og auðveldað eignalausum einstaklingum að óska eftir gjaldrþoti. Ekki flókið.

Hvað sem þessu öllu líður þá er það fyrst og fremst afnám verðtryggingar og niðurfærsla höfuðstóla sem skipta máli fyrir venjulegt fólk. Það skiptir máli að þar verði hendur látnar standa fram úr ermum og gerðar þær leiðréttingar sem sanngjarnar eru og nauðsynlegar.  Það þýðir ekkert hálfklák. Með myndarlegum aðgerðum í þessum efnum skapast grundvöllur til nýrrar sóknar þjóðarinnar til farsælli og hamingjuríkari framtíðar.

Aukinn hagvöxtur og einkaneysla mun þá knýja áfram þær aflvélar þjóðfélagsins sem skipta mestu til að ná fram verulegum kjarabótum og hagsæld.


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna II.

Forsætisráðherra leggur til að skipaður verði sérfræðihópur um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Með neytendalánum virðist forsætisráðherra miða við verðtryggðar lánveitingar til neytenda hvort heldur er til húsnæðiskaupa eða annars. Verkefni sérfræðingahópsins er að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána.

Hér er ekki gengið nógu langt. Nokkur óvissa gildir um það hvort verðtryggð neytendalán séu lögleg. Löng og óslitin lagaframkvæmd gæti haft þýðingu við mat á því. Hins vegar virðist nokkuð ljóst að verðtrygging neytendalána mundi ekki standast lög ef setja ætti hana á núna.

Verði verkefni sérfræðingahópsins að útfæra afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum er verkefni hans einfalt og mætti ljúka starfinu fyrir helgi og leggja frumvarp fyrir sumarþing til að ljúka þeim þætti málsins.

Raunar hefur almenningur í landinu flúið verðtryggðu lánin í nokkur ár með sama hætti og fólkið sem bjó við Kommúnismann greiddi atkvæði með fótunum gegn Kommúnismanum og flúði í frelsið til Vesturlanda. Ríkisstjórnin verður að gefa þeim sem bundnir eru á klafa verðtryggingarinnar kost á að flýja hana og njóta frelsis í stað helsis verðtryggðra skulda.

Mikilvægt er að víkka verkefni sérfræðingahópsins og miða við að hópurinn útfæri afnám verðtryggingar neytendalána jafnt gamalla sem nýrra. 


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna I.

Forsætisráðherra hefur kynnt tímasetta aðgerðaráætlun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Þær hugmyndir lofa góðu og tímamörk sem einstökum ráðherrum eru sett til að ljúka vinnunni.

Miðað er við það í tillögu forsætisráðherra að ná fram leiðréttingu verðtryggðra höfuðstóla lána vegna verðbólguskots áranna 2007-2010.  Verðbólguskotið sem talað er um hófst raunar ekki að marki fyrr en í janúar árið 2008 og var komið niður í þokkalega ástættanleg mörk í júní árið 2010. Annað verðbólguskot kom frá júlí 2011 til júlí 2012. 

Viðmiðun forsætisráðherra er að leiðrétta verðtryggða höfuðstóla á ákveðnu tímabili. Einfaldasta leiðin, sem tryggir fullt jafnræði, er sú að taka vísitölu verðtryggingar úr sambandi frá því í janúar 2008 til júní 2010. Höfuðstóll lánanna yrði þá óbreyttur að frádregnum greiðslum inn á höfuðstól frá 1.1.2008 til 1.6.2010. Höfuðstólshækkun mundi þá ekki reiknast fyrr en í júní 2010 af höfuðstólnum 1. janúar 2008 miðað við vísitöluhækkun m.v. næsta mánuð á undan. Uppfærður höfuðstóll miðað við þennan útreikning mundu skuldarar síðan geta breytt í óverðtryggð lán með 2% hærri ársvöxtum en verðtryggðu lánin bera frá og með 1.1.2014. 

Þessi leið sem hér er bent á er einföld, sanngjörn og mismunar ekki skuldurum. Varla er hægt að ganga skemur í leiðréttingu stökkbreyttra höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Vissulega kostar þessi leið, en sá kostnaður er fyrst og fremst því að kenna að stjórnmálamenn neituðu að taka á þessum vanda þegar átti að taka á honum í október 2008 og vandinn varð verri og verri í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Forsætisráðherra hefur með framsetningu sinni hvað varðar niðurfærslu stökkbreyttra verðtryggðra höfuðstóla  stigið jákvæðasta skrefið sem ráðamaður í landinu hefur stigið frá bankahruni og fram til þessa.

Þessa vinnu verður að vinna hratt vegna þess að hver mánuður sem líður er dýr.


Stjórnarsáttmáli og verðtrygging

Það er röng staðhæfing í stjórnarsáttmálanum að skuldavandi heimila sé tilkominn "vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins."

Höfuðstólshækkanir verðtryggðu lánanna voru að öllu leyti fyrirsjáanlegar og á það benti ég í þingræðu sama dag og neyðarlögin svokölluðu voru samþykkt í október 2008 og krafðist að sett yrðu neyðarlög fyrir heimilin í landinu þar sem verðtryggingin yrði tekin úr sambandi þá strax.

Það þurfti engan spámann til að sjá fyrir höfuðstólshækkanir verðtryggðra lána, lækkun fasteignaverðs og lækkun launa við hrun fjármálafyrirtækjanna. Það gerist alls staðar á öllum tímum þegar slík kreppa dynur yfir. 

Norræna velferðarstjórnin gerði ekkert af viti varðandi skuldavanda heimilanna og þess vegna er sá skuldavandi eitt brýnasta vandamálið að leysa til að stuðla að jafnræði neytenda og fjármagnseigenda sem og koma hjólum efnahagslífsins í gang.

Brýnast er að afnema verðtryggingu á neytendalánum þegar í stað. Ekki bíða til áramóta og láta málið þæfast í nefnd. Það er ekki flókin lagabreyting að afnema verðtryggingu á neytendalánum.

Hitt er flóknara að færa niður höfuðstóla og í þá vegferð verður að fara af mikilli varfærni og nákvæmni til að hún nýtist sem best og kosti skattgreiðendur sem minnst. 

Það er hins vegar ekki ásættanlegt að leiðrétting verðtryggðu höfuðstólanna sé miðuð við árin 2007-2010. Væri ekki rétt að taka líka höfuðstólshækkunina á verðtryggðu lánunum frá því að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti árið 2011 að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður höfuðstóla.  Frá þeim tíma hafa höfuðstólar verðtryggðu lánanna hækkað meir en 100 milljarða.

Það er alltaf dýrt að vera vitur eftir á.  Það er gæfa þjóða að eiga stjórnmálaleiðtoga sem eru vitrir þegar á þarf að halda og hafa þekkingu og menntun til að takast á við verkefnin af skynsemi strax.

Vonandi erum við að fá slíka leiðtoga.


Hálfsannleikur og rangfærslur RÚV og Kúbu Gylfa

Í sjónvarpsfréttum RÚV var fjallað um sölu FIH bankans í Danmörku og útlánatap Seðlabanka Íslands.  Fréttin hafði það yfirbragð að þetta væri allt Davíð Oddssyni að kenna. Kúbu Gylfi Magnússon fyrrum viðskiptaráðherra var fenginn til að fjalla um málið, sem óháður fræðimaður, dósent úr Háskóla Íslands.  Hróður Gylfa dósents eykst ekki við þetta og þurfti þó ekki mikið til að koma til þess að ná þeim árangri.

Staðreynd málsins er þessi. Talið var af öllum sem um það véluðu að hugsanlega mætti bjarga Kaupþingi með því að lána 500 milljarða Evra til bankans í byrjun október. Öllum var ljós erfið staða og þess vegna var þess gætt að góð veð væri fyrir láninu. Engin ágreiningur var um það í pólitík, fjármálálífi eða þeim samtökum sem að komu að nauðsynlegt væri að reyna þetta. Ef til vill hefði tekist að bjarga Kaupþingi með þessu hefðu Bretar ekki sett á okkur hryðjuverkalög.

Veðið í FIH bankanum var fullnægjandi trygging. Fréttin sem RÚV hefði átt að fjalla um er því hvernig Kúbu Gylfa sem þá var viðskiptaráðherra og Má Guðmundssyni seðlabankastjóra tókst að haga málum þannig að seðlabankinn varð fyrir miklu tjóni vegna ákvarðana þeirra um sölu FIH bankans árið 2010. Fréttastofa RÚV setti hins vegar ekki frétt á svið með aðkomu Kúbu Gylfa sem fræðimanns til að gefa umsögn  um mál sem í raun snúnast um afglöp hans sem viðskiptaráðherra og Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

Í september 2010 bárust tvö tilboð í FIH bankann annað tilboðið frá ATP,PFA(danskir lífeyrissjóðir) og sænska tryggingarfélaginu Folksam tryggði fulla endurgreiðslu lánsins upp á 500 milljarða Evra. Hitt tilboðið var lægra og af einhverjum ástæðum var ákveðið að taka lægra tilboðinu og um það véluðu þeir Gylfi þáverandi viðskiptaráðherra og Már Guðmundsson seðlbankastjóri ásamt skilanefnd Kaupþings.

Hægt var að tryggja fullar endurheimtur láns Seðlabankans í september 2010 en Már Guðmundsson og Gylfi Magnússon vildu fara aðra leið. Samkvæmt því sem Gylfi Magnússon upplýsti munu þessi mistök hans og Más kosta skattgreiðendur álíka mikið og það sem um var deilt á lokasprettinum varðandi Icesave.

Kúbu Gylfi hefur verið skattgreiðendum dýr. Í fyrsta lagi ber hann ábyrgð á Sp/Kef máilnu þar sem milljörðum var hent út um gluggann. Í öðru lagi vildi hann leggja hundraða milljarða skuld á skattgreiðendur með því að samþykkja Icesave 1. Loks ber hann ásamt Má Guðmundssyni ábyrgð á því að hafa klúðrað sölu FIH þannig að skattgreiðendur verða fyrir verulegu tjóni að sögn hans sjálfs. 

Rannsóknarnefndir hafa verið skipaðar af minna tilefni og gefnar út Landsdómsákærur. Skoða verður náið embættisfærslur þeirra Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Gylfa Magnússonar fyrrum viðskitparáðherra, varðandi klúðrið við sölu FIH bankans.

Það er svo annað mál að Fréttastofa RÚV setur ítrekað fram áróðursfréttir eins og þessa sem hafa það að markmiði að koma höggi á Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn og kallar nú til sem heimildarmann þann aðila sem var handverksmaðurinn við ranga ákvarðanatöku sem kostar skattgreiðendur álíka mikið og vaxtagreiðslur Icesave að hans eigin mati. 

Fréttastofa RÚV hefur marga hæfa fréttamenn. Fréttamaðurinn Helgi Seljan hefur unnið tvö stórvirki í vikunni og Sigmar Guðmundsson hefur ítrekað sýnt frábær tilþrif.  En það breytir því ekki að vinnubrögð við fréttina af FIH bankanum er ósæmileg og langt frá því að standast siðferðlegt mat hlutlægrar fréttamennsku.

Fréttastofa RÚV ætti því að sýna styrk og taka á innri málum til að koma í veg fyrir rangar, hlutdrægar og áróðurskenndar fréttir. Þá gæti auglýsing Fréttastofunnar um eigið ágæti e.t.v. átt nokkurn rétt á sér.


Peningar annarra.

Margaret Thatcher sagði að vandamálið við sósíalismann væri að hann mundi að lokum vera uppiskroppa með annarra fé.

Velferðarþjóðfélög Vesturlanda eru fyrir löngu orðin uppiskroppa með peninga annars fólks.

Sósíalismi Vesturlanda sem því miður allir stjórnmálaflokkar taka þátt í byrjaði með því að skattar voru hækkaðir. Svo voru tekin lán og skattar hækkaðir. Síðan voru gefin út ríkisskuldabréf á framtíðina. Svo voru tekin ný lán og kúlulán sem barnabörnin okkar þurfa að borga og skattar hækkaðir.

Loksins kom að því að útgjöld hins opinbera urðu meiri en helmingur þjóðarframleiðslunnar. Sum lönd komust í greiðsluvanda og eru raunar gjaldþrota. Þá kom Evrópski seðlabankinn og framleiddi vörubílsfarma af skuldabréfum sem gjaldþrota Evruríkjum er lánað. Bretar beittu aftur og aftur Quantitative Easing sem er ákveðið form af seðlaprentun sem gengur í gegn um bankakerfið. Bandaríkjamenn hika ekki við að  að prenta dollara til að ná sér út úr vandanum. Í þessum gleðileik dreifingar innistæðulausra seðla á ábyrgð skattgreiðenda hækka og hækka hlutabréf og eru komin langt upp fyrir gengið 2008. Samt er innistæðan ekkert meiri en þá.

Þessi gleðileikur samspils velferðarsósíalisma og innistæðulauss fjármálabraskveldis er síðan kallað markaðshagkerfi af sósíalistunum,  þó það sé komið eins langt frá hugmyndum um frjálsa samkeppni, eðlilega verðmætasköpun og hagkvæmni og markaðssamfélag og hægt er.

Sama gilti raunar líka um ástandið hér fyrir Hrun þegar bankarnir prentuðu og prentuðu innistæðulaus verðmæti sem brunnu upp þegar lánalínur lokuðust. Árið 2008 jukust ríkisútgjöld um rúm 20% fyrst og fremst fyrir tilstilli Samfylkingarinnar. Í þeim gleðileik aukinna ríkisafskipta og spilltra fjármálaafla var hlaðið í bálköst Hrunsins.  Sá sósíalismi varð að lokum uppiskroppa með peninga annarra en þeir sem voru virkastir í því að koma raunverulegum peningum á framfæri við Hrunbarónanan voru lífeyrissjóðirnir sem töpuðu um 600 milljörðum af peningum annarra. Þeir peningar voru olían sem smurði hrunadans útrásarvíknganna og föllnu bankanna.

Það er ekkert pláss fyrir dugmikið framkvæmdafólk sem ber ábyrgð á sjálfu sér í þessu umhverfi og þess vegna móðgun við dugandi einstaklinga sem reka sín fyrirtæki með dugnaði og á eigin ábyrgð að kenna því og þeirri hugmynd sem býr að baki markaðssamfélagsins um Hrun árið 2008 og þess sem vænta má með áframhaldandi galgopahætti hins opinbera. 

 

 

 


Hækkaði höfuðstóll lánsins þíns um 340 þúsund?

Verðbólga mælist 4.6%. Frá því var sagt að meðal verðtryggt lán fjölskyldna í landinu væri um 22 milljónir og höfuðstóll þess mundi hækka um 340 þúsund um þessi mánaðarmót. 

Eignir fólksins í landinu eru étnar upp af verðtryggingunni. 22 milljóna lánið verður 1.mars 22.340.000 og þann 1.apríl haldi fram sem horfir 22.700.000.- Þetta er glórulaus vitleysa og rán frá fólkinu.

Á 4 árum hefur verðtryggingin hækkað lánin um 400 milljarða. Verðmæti alls fiskafla landsins í á þeim tíma eru um 500 milljarðar.  Fiskurinn er helsta auðlind okka.  Þetta sýnir að það er engin virðisauki í þjóðfélaginu sem stendur undir þessu eða réttlætir þetta lánaokur.

Fólkið tapar eignum sínum. Greiðsluvandi verður meiri. Eignastaða banka og lífeyrissjóða uppfærist en það eru falskar eignir sem eru ekki til.  Gjaldþrota Íbúðalánasjóður ætti að segja verðtryggingarblindingjunum að þetta gengur ekki  þetta er ekki hægt. Verðtryggingin er þjóðhættulegt fyrirbæri og fjandsamleg eðlilegri efnahagsstarfsemi og gerir fólk að öreigum.

Meðan  verðtryggingarruglinu er haldið áfram þá er ekki hægt að koma hér á eðlilegri þjóðfélagsstarfsemi. Útilokað að það verði kaupmáttur eða fjármagn sem geti komið okkur út úr sívaxandi og harðnandi kreppu með auknum fólksflótta.

Verðtryggingarfurstarnir verða að skila ránsfengnum til fólksins. Annars er hætt við því að þeir tapi á endanum öllu sínu sínu eins og fólkið í landinu.


Sjálfstæðisflokkurinn á móti verðtryggingu?

Ýmsir lásu það út úr lokaafgreiðslu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins að við andstæðingar verðtryggingarinnar hefðum ekki haft neina eftirtekju af baráttunni gegn verðtryggingu og fyrir sambærilegu lánakerfi og í nágrannalöndum okkar. Þetta er hins vegar nokkur misskilningur. Þó ég hefði persónulega kosið ákveðnari ályktun gegn verðtryggingunni, þá felst samt í ályktun Landsfundar sem samþykkt var með nánast öllum greiddum atkvæðum að verðtrygging verði lögð af og skuldavandi heimilanna verði leystur með almennum aðgerðum, en ekki sértækum. Þannig segir í ályktun Landsfundar:

"Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verði markvissar aðgerðir til að bregðast við greiðslu- og skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum Þessi aðgerð er mikilvæg forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. Framtíðarskipan húsnæðis- og neytendalána þarf að taka mið af ríkjandi neytendaverndarreglum innan EES sem Ísland hefur þegar lögleitt. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðikaupa sem getur leitt til þess að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar."

Meginatriðin sem þarna koma fram er í samræmi við ályktunartillögu sem við lögðum fram og þýðir að stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu er þessi m.a. 1. Miðað er við sambærilegt lánakerfi og í nágrannalöndum okkar. 2. Almennar aðgerðir til lausnar skuldavanda heimilanna. 3. Afnám verðtryggingar, en neytendareglur EES mundu ekki heimila verðtryggð lán með þeim hætti sem nú er gert. 

Þessi atriði eru mikilvæg auk þess að skoða önnur ákvæði svo sem ákvæði í stjórnmálaályktun og víðar um að verðtrygging verði ekki almenn regla í lánaviðskiptum við neytendur.

Með þessu er í raun verið að segja að verðtryggingin verði ekki lengur valkostur í neytendalánum eins og við vildum að yrði sagt beinum orðum en ekki með hringleiðum.

En dropinn holar steininn og nú hefur forusta Sjálfstæðisflokksins skuldbundið sig með því að flytja þá málamiðlunartillögu sem þýðir afnám verðtryggingar í raun, til þess að vinna að hagsmunamálum heimilanna og til að leysa skuldavandann með þeim hætti að verðtrygging verði afnumin og skuldavandinn leystur með almennum aðgerðum.

Það er bara til ein almenn aðgerð í þessum málum og hún er að færa niður höfuðstóla innheimtanlegra skulda þannig að þær verði viðráðanlegar fyrir venjulegt fólk og verðtryggða ránsfengnum verði skilað til baka.

Sjálfstæðiflokkurinn afgreiddi ályktun með loðnu orðalagi sem verður ekki skýrð með öðrum hætti en þeim þegar hún er lesin í heild en að verðtrygging verði afnumin og almenn niðurfærsla skulda eigi sér stað.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu því að geta myndað velferðar- og viðreisnarstjórn til að afnema verðtrygginguna og leiðrétta skuldir heimilanna með almennri niðurfærslu svo fremi þeir fái fylgi til þess. Þeir eru skuldbundnir kjósendum að gera það.


Hvað þýðir að draga úr vægi verðtryggingar?

Öðru hvoru reyna stjórnmálamenn sem hafa svikið loforð sín um að afnema verðtryggingu á neytendalánum að klóra í bakkann og segjast vilja draga úr vægi verðtryggingar. Í dag sagði Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra þetta.  Þetta hjal hefur enga merkingu í raun.

Dregið hefur úr verulega úr vægi verðtryggingar á þessu kjörtímabili ekki vegna þess að stjórnmálamenn hafi gert neitt heldur vegna þess að neytendur vilja ekki taka verðtryggð lán. Þeir vita að það eru dýrustu og verstu lán í heimi. Spurningin er að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Annað hefur ekki merkingu.

Verðtryggð lán til neytenda samrýmist ekki leikreglum þess fjármálakerfis sem við erum aðilar að. Ætlum við samt að halda í verðtrygginguna? Verðtryggð lán mundu ekki fást samþykkt ef setja ætti þau á í dag. Þau eru ósamrýmanleg reglum um neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu. Ætla menn samt að halda þessu áfram?

Eitt er að afnema og annað að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla. Þeir sem á annað borð vilja gæta hagsmuna neytenda ættu að sameinast um það að afnema verðtryggingu á neytendalánum strax. Svo er það flóknara úrlausnarefni að færa niður stökkbreytta höfuðstóla en það verður samt að gera til að Ísland komist sem fyrst út úr kreppunni.

Verðtrygging eykur verðbólgu og étur upp eignir fólks. Verðtrygging er óréttlát gagnvart lántakendum og þess vegna getur hún ekki verið valkostur í þjóðfélagi sem vill gæta réttlætis, sanngirni og jafnréttis borgaranna.


Einkavinavæðing Steingríms J.

Steingrímur J. skipaði einkavin sinn Svavar Gestsson yfirmann Icesave samninganefndarinnar. Þjóðin þekkir hvernig til tókst.

 

Nú hefur annar einkavinur Steingríms, Gylfi Magnússon, fyrrum samráðherra hans hlotið umbun þjónkunar sinnar og störf sín fyrir Vinstri grænu byltinguna í desember 2008 og janúar 2009.

 

Steingrímur J telur eðlilegt að Gylfi Magnússon sé formaður nefndar um tillögur að fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða.  Margir velta því fyrir sér hvort það hafi hvarflað að Steingrími J að þessi skipan væri fagleg og besti maðurinn valinn til þessara mikilvægu starfa. 

 

Gylfi hefur vissulega töluverða reynslu úr stjórn Kauphallarinnar á bóluárunum, en einhverra hluta vegna hafa menn eins og Gylfi og Steingrímur alveg gleymt að ræða um ábyrgð þeirrar stofnunar. 

 

Skarpskyggni Gylfa og spá varðandi  Icesave-samninga þar sem Gylfi sagði að við yrðum  Kúba noðursins ef við samþykktum ekki Svavarssamningana um Icesave sýndi djúpa og einlæga samkennd með Steingrími

 

Sömu samkennd sýndi Kúbu Gylfi líka við sóun á fjármunum skattborgara í fjármálafyrirtæki á borð við VBS, Sögu Capital, Askar Capital, SpKef og Byr. 

 

Einhvern tímann hefði Steingrímur talið fráleitt að skipa útgefanda skráðra verðbréfa í slíka nefnd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 25
  • Sl. sólarhring: 1034
  • Sl. viku: 4674
  • Frá upphafi: 2587138

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 4362
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband