Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Sársaukafullt en nauðsynlegt

Ég spurði Göran Person fyrrum forsætisráðherra Svía að því á fundi í Hátíðarsal Háskóla Íslands hvort ekki væri nauðsynlegt að afnema verðtryggingu lána ef ná ætti tökum á skuldavanda neytenda í landinu og benti á að stór hópur fólks milli 25 ára og fimmtugs væri búið að missa eignir sinnar vegna verðtryggingarinnar.

 Göran Person svaraði því til að í Svíþjóð þá hefðu þeir gert það. Afnumið alla verðtryggingu hverju nafni sem nefndist. Það hafi verið sársaukafullt en nauðsynlegt. Hann sagði að verðtrygging væri "disaster" (stórslys) á verðbólgutímum.  Hann sagði að það væri nauðsynlegt að drepa verðbólguna en bætti við:

 Bankarnir um allan heim eru að prenta peninga trilljónir af dollurum, pundum, Evrum og Yenum. Fyrr eða síðar leiðir það til aukinnar eftirspurnar og aukinnar verðbólgu.

Eigum við að bíða eftir því að sú verðbólga geri sparnað allra íbúðarkaupenda að engu? - Eða taka skynsamlega ákvörðun á leið út úr hrunvandanum og afnema verðtrygginguna þó það sé sársaukafullt?


Prófkjör og verðtrygging

Ég þakka öllum þeim sem hafa hvatt mig til að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna komandi Alþingiskosninga. Niðurstaða mín varð samt sú að gera það ekki af ýmsum ástæðum.

Þessi ákvörðun breytir engu um pólitískan áhuga, skoðanir, áherslur eða baráttu fyrir réttlátu þjóðfélagi.

Mikilvægasta réttlætismálið er að fá réttlát, sanngörn og eðlileg lánakjör fyrir fólk og fyrirtæki. Mikilvægast í því sambandi er að afnema verðtrygginguna af lánum til neytenda.

Lausastök í efnahagsmálum þjóðarinnar sem valda m.a. hárri verðbólgu stafa ekki síst af því hvað auðvelt er vegna verðtryggingarinnar að velta óstjórninni yfir á almenning í landinu.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti án mótatkvæða að afnema verðtryggingu á netyendalánum. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur haft þessa ályktun að engu. Þessi afstaða þingflokksins hefur valdið mér vonbrigðum.

Miðað við það hvernig mál skipast í störfum á  Alþingi og þingflokka tel ég auðveldara að sinni að berjast fyrir þessu réttlætismáli utan þingflokksins en innan hans.


Peningastjórn eða óstjórn Seðlabankans

Krónan hefur fallið mikið gagnvart erlendum gjaldmiðlum undanfarið. Yfirlýsingar Seðlabankastjóra eru ekki þess eðlis að þær skýri hvað um er að ræða eða við hverju megi búast.

Með gjaldeyrishöftunum og þeirri peningastefnu sem mótuð var af Seðlabankastjóra og ríkisstjórn var við það miðað að halda genginu þokkalega stöðugu og verðbólgu innan ákveðinna marka. Hvorugt hefur gengið eftir.  Spurning er þá hvað er framundan?

Á sínum tíma mótaði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri þá stefnu í íslenskum gengismálum sem átti eftir að verða þjóðinni mjög dýrkeypt, þegar hann seldi stjórnvöldum og stjórnum Seðlabanka hugmyndina um flotkrónuna. 

Ef til vill er það ein mesta kaldhæðnin sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur sýnt að ráða Má Guðmundsson sem Seðlabankastjóra til að láta hann dansa í rústum misheppnaðrar kenningar hans sjálfs um stjórn gengismála.

Mér datt í hug þegar ég hlustaði á Má Guðmundsson í Silfri Egils um daginn það sem vitur maður sagði um hagfræðinga. "Fólk gerir grín að þeim sem trúa á stjörnuspár, en gerir síðan áætlanir og trúir því sem hagfræðingar segja."


Stjórnarskráin lagar ekki lífskjörin. Atlagan að stjórnarskránni VI)

Margir halda að tillögur stjórnlagaráðsins hafi þýðingu varðandi breytingu á kvótakerfinu. Þannig er það ekki. Tillögur stjórnlagaráðs þó samþykktar yrðu breyta engu um stjórn fiskveiða.

Tillögur stjórnlagaráðs breyta engu um starfsemi fjármálafyrirtækja eða almenna starfsemi á markaði.

Tillögur stjórnlagaráðs  létta ekki af verðtryggingunni eða lánaokrinu í landinu. Þær draga ekki úr hættu á nýju bankahruni eða spillingu í fjármálakerfinu.

Með því að fara í aðför að stjórnarskránni eins og ríkisstjórnin beitti sér fyrir var athygli fólks beint frá mikilvægustu úrlausnarefnum í þjóðfélagsmálum en efnt til deilna um stjórnarskrána.

Mikilvægasta viðfangsefnið í þjóðfélaginu í dag og allt frá bankahruni eru og hafa verið  að skapa viðunandi lífskjör fyrir unga fólkið í landinu sem og aðra. Það verður að búa þannig að atvinnumálum að dugandi fólk hafi svipuð kjör og á hinum Norðurlöndunum.  Þá verður að afnema verðtrygginguna og tryggja að fólk búi við svipuð lánakjör og á hinum Norðurlöndunum.  Verðlag í landinu er  þriðja atriðið sem mestu máli skiptir varðandi velmegun og lífskjör í landinu.

Þessi atriði  eru þau sem mestu máli skipta til að koma hlutum í viðunandi horf eftir bankahrun. 

Þessi mál urðu aukaatriði eins konar afgangsmál. Þess í stað einhenti ríkisstjórnin sér í  umræður um formalisma og stjórnarskrá. Með því að beina sjónum almennings í áttir sem skipta lífskjör og velmegun í núinu engu máli eins og stjórnarskrármálið tókst því miður að rugla margt gott fólk í ríminu. Með milljarðs kostnaði og einhliða áróðri er síðan haldið fram að stjórnlagaráðstillögurnar séu eitthvað annað en þær eru.

Tillögur stjórnlagaráðs bjarga ekki húsinu þínu frá uppboði. Þær búa ekki til arðbær störf eða draga úr forréttindum eða spillingu í þjóðfélaginu. Tillögurnar fjalla um allt annað.

Með glöggum hætti benda þeir Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við H.Í og Ágúst Þór Árnason formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri á meginstaðreynd í stjórnarskrármálinu og hvetja fólk til að segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum en þeir segja:

" hryggjarstykki stjórnarskrárinnar á sér djúpar rætur í íslensku samfélagi. Með frumvarpi stjórnlagaráðs er gerð tillaga um að þessar rætur séu rifnar upp og haldið verði út í óvissuna."

Við skulum standa vörð um rætur og grundvöll íslensks samfélags og segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum.

Berjumst fyrir þeim breytingum sem skipta máli varðandi lífskjör og velmegun í landinu tillögur stjórnlagaráðs fjalla ekki um þau atriði.


Dapurlegur asnagangur

Það er dapulegt að horfa upp á það að meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis skuli haga sér eins og kjánar. Það er ekkert annað en asnaspark að ákveða að Ríkisendurskoðun skuli ekki fá sent fjáraukalög til umsagnar.

Almennt verklag nefnda á Alþingi er að senda mál til umsagnar öllum sem málið kann að varða. Hvernig sem því er á botninn hvolft þá skipta fjáraukalög Ríkisendurskoðun máli og það skiptir mál fyrir Alþingi að fá umsögn Ríkisendurskoðunar vilji fjárlaganenfnd sýna fagleg vinnubrögð.

Hvað ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að vinna með þessu?

Svona asnaspark er einsdæmi í þingsögunni og vonandi verður það aldrei endurtekið.


Verndarar sjálftökuliðsins.

Í október 2008 tókst á ótrúlegan hátt að taka yfir rekstur bankanna og  tryggja almenningi bankaþjónustu.  Skipaðar voru skilanefndir sem fengu það hlutverk að koma fram sem stjórnir í viðkomandi fyrirtækjum.  Samið var við skilanefndarmenn um 16.000 króna tímagjald.

Jóhanna Sigurðardóttir og Kúbu-Gylfi Magnússon fordæmdu tímataxta skilanefnda í ársbyrjun 2009.  Þóttust þau ætla að koma böndum á ofurlaun þeirra.  Árangur Gylfa og Jóhönnu í þessu var ekki betri en í öðru sem þau hafa tekið sér fyrir hendur.  Laun í skilanefndum og slitastjórnum lækkuðu ekki undir handleiðslu Gylfa og Jóhönnu.  Þvert á móti hefur komið fram í fréttum að þau hafi fljótt hækkað um 120%.  Þessu til viðbótar var sjálftökuliðinu heimilað að semja við eigin fyrirtæki um þjónustu við þrotabú gömlu bankanna sem þetta sama fólk stjórnar sem skilanefndarmenn.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki hafa skilanefndarmenn og slitastjórnarmenn stöðu stjórnarmanna - auk þess að vera opinberir sýslunarmenn.  Stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum bera ákveðnar skyldur og Fjármálaeftirlitið, sem heyrði undir ráðuneyti Gylfa, og nú Steingríms J. hefur eftirlit með stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja. Eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins var síðan að nauðsynjalausu sérstaklega áréttuð með lögum nr. 78/2011 sem tóku gildi fyrir tæpu einu og hálfu ári.

Gylfi Magnússon og Jóhanna Sigurðardóttir gerðu ekkert til að fylgja eftir stóru orðunum frá 2009 ?  Þau voru  verndarar sjálftökunnar. Nú eru það Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem eru verndarar sjálftökuliðsins.  Undan þeirri ábyrgð getur Steingrímur J. ekki vikist þó hann fari ítrekað með fleipur um málið í fjölmiðlum af alkunnum orðhengilshætti. Annað hvort veit Steingrímur J ekki betur, en það sýnir þá vanhæfni hans, eða þá að hann stendur meðvitað með sjálftökuliðinu. 


Sjálftaka skilanefnda og aðgerðarleysi ráðherra.

Umræða um ofurlaun skilanefnda og slitastjórna föllnu bankanna kemur upp reglubundið. Í gær var upplýst um óheyrilegar greiðslur til tveggja aðila skilanefndar Glitnis. Þrátt fyrir umræður og athugasemdir hafa þeir aðilar ekki látið umræðuna um ofurlaunatökur sínar trufla sig heldur gengið stöðugt harðar fram í sjálftökum fyrir sjálf sig og sína.

Í janúar 2010 fyrir tveim og hálfu ári komu þessu mál fyrst til umræðu á Alþingi, þá fordæmdi Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra og Gylfi Magnússon þáverandi viðskiptaráðherra ofurlaun skila- og slitastjórna. Þessir ráðherrar  hétu því að gera eitthvað í málinu til að koma böndum á ósómann.

Gylfi er horfinn á braut og gerði ekkert. Steingrímur J. Sigfússon situr enn sem valdamesti ráðherrann og gerir ekkert.

Það er ekki von á góðu í landi þar sem ráðamenn tala og tala um það sem þarf að gera en gera ekkert. Lofa að gera, en lyfta síðan ekki litlafingri til eins eða neins.  Þess vegna vex spilling, sjálftaka og vonleysi.


The Empire strikes back

Í myndaflokknum Star Wars er fjallað um ofurveldið sem vill undiroka alla. Hetjurnar berjast gegn myrku öflunum með Svarthöfða í fararbroddi. Þó góða aflið nái tímabundnum sigrum í þá kemur Svarthöfði og ofurríkið tvíeflt til baka sbr. myndina  "The Empire strikes back".

Í dag gerðu Samtök fjármálafyrirtækja  grein fyrir og birtu skýrslu  um verðtrygginguna þar sem niðurstaðan er sú að verðtryggingin sé alls ekki svo slæm fyrir neytendur þrátt fyrir allt og þó. Við því var að búast eins og í Stjörnustríðs myndunum að ofurveldið léti ekki bugast við goluþyt hugsjónafólks.

Þessi niðurstaða er nokkuð sérstök þar sem að í könnun eftir könnun sem unnin hefur verið af ýmsum aðilum kemur fram að versta lánakerfi húsnæðislána fyrir neytendur í okkar heimshluta  er á Íslandi.

Skýrsluhöfundar fjármálafyrirtækjanna véfengja í sjálfu sér ekki að verðtryggðu lánin séu óhagkvæm fyrir neytendur en komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar geti aldrei notið sömu lánakjara og íbúar nágrannalandanna meðan krónan er við lýði. Auk þess segja skýrsluhöfundar að verðtryggingin skapi hvata fyrir of mikla skuldsetningu neytenda.  

Fjármálafyrirtækin gera það sem þau geta til að halda í þá sérstöðu ófjafnaðarins sem verðtryggingin er. Verðtryggingin er besta og öruggasta lánakerfið fyrir fjármálafyrirtæki. En það versta fyrir neytendur. Það er niðurstaðan þegar grannt er skoðað og líka skýrslan sem kom út í dag. Ásgeiri Jónssyni málsvara skýrsluhöfunda er langt frá því að vera alls varnað og enginn frýr honum vits. 


ASÍ forustan berst gegn hagsmunum launþega.

Forusta ASÍ hefur orðið viðskila við raunverulega verkalýðsbaráttu. Heildarhagsmunir launþega eru í dag aðrir en þeir hagsmunir sem forusta ASÍ hefur gert að inntaki í starfi sínu.

Hagsmunir launþega er að fá sem mest gæði fyrir laun sín. Þess vegna skiptir máli að verð á nauðsynjum sé sem hagstæðast fyrir launþega. Það skiptir líka álíka máli fyrir launþega að verð á lánum sé lágt.

ASÍ forustan heldur úti verðkönnunum á matvælum öðru hvoru, sem er góðra gjalda vert. En það er ekki nóg að mæla hitastigið á matvælamarkaðnum eins og ASÍ myndast við að gera. Það þarf líka að berjast fyrir og móta tillögur til raunlækkunar vöruverðs í landinu. Það er mikilvægasta kjarabót launþega í landi verðtryggingarinnar.

Hagstæð lán eru líka forsenda góðra kjara launþega. Þar hefur ASÍ forustan ekki bara brugðist, heldur vinnur gegn hagsmunum launþega. ASÍ forustan stendur dyggastan vörð allra um verðtrygginguna sem þýðir óhagkvæmustu lán til neytenda sem til eru í Evrópu og Norður Ameríku. 

ASÍ hefur ekki ljáð máls á því að neysluskattar séu teknir út úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.  Þess vegna bitna auknir neysluskattar með tvöföldum þunga á launþegum. Hækka matarverð og hækka lán í leiðinni.  Þá berst ASÍ forustan nú fyrir því að launþegar á Íslandi þurfi að þola hækkun lána sinna vegna t.d. uppskerubrests á korni í IOWA í Bandaríkjunum, en lánastofnanir fái meira í sinn hlut vegna þess.

Ekki má gleyma því að forseti ASÍ drap á dreif tilögum um að verðtryggingin yrði tekin úr sambandi með neyðarlögum í október 2008. Hann var formaður nefndar til að fjalla um málið á vegum Jóhönnu Sigurðardóttur og niðurstaða hans og Jóhönnu var sú að frekar skyldu heimilin tekin af fólkinu en að gæta sanngirni á óvissu og erfiðleikatímum.  

Hætt er við að gengi krónunnar gefi eitthvað eftir á næstunni. Það mun hækka verðtryggðu lánin. Þá er framundan veruleg hækkun matvæla vegna verulegrar hækkunar á kornveði. Hækki eldsneytisverð líka verður hér ný verðbólguholskefla. Hún bitnar þyngst á launþegum sem eru með verðtryggð lán. ASÍ forustan virðist neita að horfast í augu við þessar staðreyndir.

Stefna forustu ASÍ gagnvart heimilunum í landinu er álíka og stjórnenda flutningaskips sem byrjar að leka úti á rúmsjó og meðan hásetarnir rembast af öllu afli við að stöðva lekann og ausa þá bora yfirmennirnir stöðugt fleiri göt á skipið. Slíkum stjórnendum yrði kastað fyrir borð til að skipið sykki ekki.  Það þurfa launþegar líka að gera gagnvart forustu ASÍ meðan hún rekur helstefnu gegn heildarlífskjörum launþega í landinu.


Neytendur sviknir. Þess vegna hækka lánin.

Flest lán almennings eru bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Vöruverð í landinu skiptir því meira máli hér en í nokkru öðru landi fyrir velmegun fólksins. Svo virðist sem kaupmenn hafi svikið neytendur í sumar með þeim afleiðingum að neytendur greiddu hærra verð fyrir vörurnar en þeir áttu að gera. Þess vegna hækkuðu lánin líka í stað þess að lækka.

Frá því í apríl þangað til í júlí hækkaði gengi krónunnar um tæp 12%. Af þeim sökum hefði vöruverð innfluttrar vöru átt að lækka um svipaða prósentutölu en svo er ekki. Þegar vísitölur Hagstofunnar eru skoðaðar, sést að breytingar á vöruverði vegna styrkingar krónunnar skilar sér ekki til neytenda.

Breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sýnir líka að  hækkun á gengi krónunnar skilar sér mjög illa til lækkunar á vöruverði. Hvað gerist þá núna þegar krónan er að veikjast?

Skrýtið að vöruverð skuli nánast standa í stað þegar Evran er 168.4 og þegar hún er 146.6. Þrátt fyrir þessa tæplega 12% hækkun krónunnar gagnvart Evru þá damlar vísitala neysluverðs til verðtryggingar á sama róli og hækkar milli júlí og ágúst en lækkar aðeins í september eða sem svarar broti úr prósenti.

Það er vitlaust gefið og það er allt á kostnað neytenda og þeirra sem skulda verðtryggð lán. Meðan stjórnvöld láta þetta viðgangast þá eru þau ekki að vinna fyrir almenning í landinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 514
  • Sl. sólarhring: 831
  • Sl. viku: 5163
  • Frá upphafi: 2587627

Annað

  • Innlit í dag: 473
  • Innlit sl. viku: 4810
  • Gestir í dag: 445
  • IP-tölur í dag: 433

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband