Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Hver ber ábyrgð á eignabruna sparisjóðanna?

Steingrímur J. Sigfússon hefur  haldið málefnum sparisjóðanna í gíslingu lengur en góðu hófi gegnir. Á þeim tíma hafa eignir þeirra rýrnað og kostnaður og ábyrgðir ríkisins aukist. 

Sparisjóður Keflavíkur fékk að starfa á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu í 1 ár fram í apríl 2010, en það er einungis heimilt ef líklegt er talið að eigið fé hans verði jákvætt.  Þá var starfseminni skipt í nýja og gamla sparisjóðinn og áfram töpuðust fjármunir.  Þessar ákvarðanir voru augljóslega rangar og Steingrímur J. Sigfússon ber höfuðábyrgð á því, en Bankasýsla ríkisins ber líka ábyrgð á þessari vitleysu.  Ár  leið án aðgerða og stefnumótunar.

 Á þessum tíma hafa milljarðar brunnið á kostnað þjóðarinnar.  Loksins þegar allt er komið í þrot og fyrir liggur að kostnaðurinn vegna stefnuleysis Steingríms er ríkinu ofviða er gripið til þess ráðs sem allan tímann lá fyrir að var skynsamlegast, að sameina Sparisjóðinn í Keflavík Landsbankanum. Þar með er 9. fjármálafyirtækið fallið í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Skrýtið að sú staðreynd skuli fara framhjá ríkisfjölmiðlunum.

Enn heldur Bankasýsla ríkisins utan um fjárhag nokkurra sparisjóða sem reynt er að halda lífinu í. Engin stefnumörkun liggur fyrir varðandi þá, þrátt fyrir að strax á árinu 2009 mátti vera ljóst að heppilegast væri að fela einhverjum af stóru bönkunum þremur að taka yfir sparisjóðina í því skyni að takmarka tjón ríkisins og til að byggja upp öflugara fjármálakerfi.

Hvað töpuðust margir milljarðar á þessum tíma vegna stefnuleysis?


Mokað í flórinn

Einu sinni var viðmiðun í frjálsum atvinnurekstri að eigendurnir bæru ábyrgð á rekstrinum. Nytu arðsins ef vel gengi, en töpuðu ef illa gengi. Önnur viðmiðun varð upp úr 2002. Þá tóku eigendur margra  fyrirtækja arð út úr þeim jafnvel þó að fyrirtækin væru rekin með tapi. Óábyrg lánastarfsemi banka og vafasamar bókfærslur endurskoðenda urðu til þess að þetta leit vel út.

Nýlega benti Ólafur B. Thors fyrrverandi forstjóri Sjóvá-Almennra trygginga á með hvaða hætti fyrirtækið hefði verið rekið meðan hann hélt um stjórnvölin og lýsti furðu á því að þeir hlutir hefðu gerst sem gerðust í rekstri fyrirtækisins eftir það og hvað bæri að varast.

Ætla hefði mátt að einhver hefði lært eitthvað af öllu þessu en svo er ekki. Bent hefur verið á dæmi þar sem bankarnir fella niður milljarða skuldir en keyra aðra í þrot.  Í samræmi við það fyrirkomulag var eðlilegt að nútíma eigandi fyrirtækis skyldi flytja þessa ræðu (stílfærða) fyrir nokkru.

Það er ómögulegt að standa í einkarekstri meðan bankinn afgreiðir ekki hlutina. Það er gjörsamlega óviðunandi að þurfa að vera í þessari óvissu þegar maður er með yfir hundrað manns í vinnu. Við erum búin að bíða eftir aðgerðum bankans í tæp tvö ár. Þetta er óþolandi fyrir fyrirtæki sem veitir svona mörgum vinnu.

Af umræðum sem fóru fram í kjölfar þessarar orðræðu var ljóst að samúð þeirra sem tjáðu sig um málið var hjá þeim stórhuga athafnamanni sem þarna talaði og viðskiptabankanum var formælt.

Við skoðun á reikningum fyrirtækisins mátti sjá að fyrirtækið var rekið með glórulausu tapi undanfarin ár. Heildarskuldir þess eru  tveir milljarðar og tapið síðustu 3 ár nam rúmum milljarði. Samt höfðu eigendur fyrirtækisins tekið út 200 milljónir í  arð á sama tíma. 

Er það ekki einmitt svona svona fólk sem á að halda áfram að stjórna fyrirtækjum landsins?

Er ekki hin sanna markaðshyggja nútímans fólgin í því að allir beri ábyrgð aðrir en eigandinn og allir leggi fram fé í fyrirtækið nema eigendur? 

Yfirsást einhverjum eitthvað einhversstaðar í þessu þjóðfélagi?  Með því að halda svona starfsemi gangandi út og suður er þá ekki verið að moka í flórinn áfram í stað þess sem átti að gera?


Dýr verður Steingrímur allur

Steingrímur J. Sigfússon ætlar að setja 14 milljarða í að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur. Síðan ætlar hann að setja álíka fjárhæð í að endurreisa Byr og eitthvað lægri fjárhæð í að halda við og endurreisa aðra sparisjóði. Alls má því búast við að Steingrímur og sporgöngumenn hans leggi allt að 30 milljarða af ríkisins fé til Sparisjóðanna.

Engin þörf er á því að leggja  sparisjóðum til allt að 30 milljörðum frá skattgreiðendum. Nú þegar eru fjármálafyrirtæki of mörg. Framlag fjármálaráðherra er dæmi um bruðl, spillingu og misbeiting valds.

Þetta bætist ofan á það sem Steingrímur hefur þegar til saka unnið. Má minna á framlagið til VBS, Saga Capitla og  Sjóvá-Almennar tryggingar. Með öllu nema  þarflausar og að hluta til heimildarlausar greiðslur Steingríms úr ríkissjóði sem hér eru taldar um 80 milljörðum króna.

Á sama tíma fannst Steingrími nauðsynlegt að fella SPRON og Straum fjárfestingabanka, sem mátti auðveldlega bjarga. 

Dettur einhverjum í hug að ekki ráði för hjá fjármálaráðherra pólitísk hentistefna og pólitísk  fyrirgreiðsla.


Verstu viðskipti ársins

Í viðskiptablaði Fréttablaðsins, Markaðnum er gerð  úttekt á verstu viðskiptum ársins. Athyglivert er að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra tengist þeim öllum.

Í fyrsta lagi er nefnt sem dæmi um verstu viðskipti ársins þegar ríkið lagði fram tólf milljarða fyrir atbeina Steingríms J. Sigfússonar til Sjóvá-Almennra trygginga. Síðan er rakið hvernig flokksbróðir Steingríms, seðlabankastjórinn eyðilagði nú fyrir nokkru sölu á fyrirtækinu. Ríkið situr því uppi með þann beiska kaleik að eiga og reka tryggingafélag vegna aðgerða Steingríms og aðgerða og aðgerðarleysis Más Seðlabankastjóra

Í annan stað er nefnt af Markaðnum sem dæmi um slæm viðskipti á árinu eru 26 milljarða framlag Ríkisins fyrir atbeina Steingríms J.Sigfússonar til VBS fjárfestingabanka.

Í þriðja lagi nefnir Markaðurinn sem dæmi um verstu viðskipti ársins, yfirtöku Ríkisins á sparisjóðum landsins. Þar er rakið að Ríkið tók yfir rekstur Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs, en í blaðinu segir að björgunaraðgerðir Ríkisins kunni að kosta á annan tug milljarða. Steingrímur J. Sigfússon ber einnig höfuðábyrgð á því að farið skuli í þessa vegferð.

Markaðurinn hefði í framhaldi af þessu mati sínu átt að velja versta viðskiptamann ársins, en það hefði þá án vafa orðið maðurinn sem stendur fyrir öllum þessum vondu viðskiptum, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður Vinstri Grænna.

Steingrímur J. Sigfússon og gjörvallur þingflokkur hans greiddi atkvæði með því í haust að fjórir fyrirverandi ráðherrar yrðu ákærðir og dregnir fyrir Landsdóm. Er ekki rétt að Steingrímur J. Sigfússon sem ber ábyrgð á verstu viðskiptum ársins svari til saka fyrir Landsdómi fyrir þær raunverulegu sakir sem fyrir liggja hvað hann varðar.  Það væri mannsbragur að því að þingflokkur Vinstri grænna bæri fram tillöguna til að vera sjálfum sér samkvæmur.


Varnarlínan um Steingrím J.

Samningsdrögin í Icesave málinu eru allt að 300 milljörðum hagstæðari  okkur en Icesave samningurinn sem Steingrímur J. og Jóhanna vildu þvinga upp á þjóðina.

Samninganefndin sem Steingrímur J. skipaði undir forustu Svavars Gestssonar var vanhæf. Næsta samninganefnd undir forustu aðstoðarmanns Steingríms var líka vanhæf. Í báðum tilvikum lýsti Steingrímur yfir sérstöku trausti á samningamenn sína. Eftir að alvörusamningamenn voru kallaðir til liggur fyrir að aðgerðir Steingríms í málinu voru í besta falli alvarleg mistök, vanræksla og dómgreindarleysi.

Mistökin,vanræskslan og dómgreindarleysið sem  Steingrímur J. hefur gerst sekur um í Icesave málinu mundu í öðrum lýðræðisríkjum leiða til þess að viðkomandi ráðherra segði af sér. Það ætlar Steingrímur ekki að gera og nú er dregin varnarlína í kring um hann.

Jón Baldvin og aðrir sem verja Steingrím vísa til  kurteisisorða forustumanns samninganefndar Íslands í Icesave málinu. Slík kurteisisorð heiðursmanns sýna innræti hans en afsakar ekki Steingrím J í nokkru. 

Sú síbylja er kyrjuð og markvisst haldið að fólki að þau samningsdrög sem nú liggja fyrir um Icesave séu svona miklu hagstæðari en þau fyrri vegna þess að nú séu aðstæður allt aðrar í heiminum og því hafi í raun ekkert áunnist.

Þegar nær er skoðað sést að þessi varnarlína er þunn og heldur ekki. Kurteisisorð heiðursmanns hafa litla þýðingu við mat á því sem raunverulega gerðist. 

Málefnalegar röksemdir varnarlínunnar um Steingrím halda ekki heldur. Mikill órói er í Evrópu og mun meiri en var þegar samninganefndir Steingríms voru að störfum og luku þeim með  óskapnaði sínum. Efnahagsástandið í Bretlandi hefur versnað til muna og ríkisstjórnin þar verður að grípa til mun harkalegri niðurskurðar í ríkisútgjöldum en Steingrímur J. gerir þó hann þyrfti þess. Það eru því falsrök að halda því fram að aðstæður séu nú allt aðrar og hagstæðari okkur til að ná hagfelldum samningum um Icesave.

Steingrímur á sér enga málsvörn í Icesave klúðri sínu og ber að segja af sér.

Því  má ekki gleyma að Steingrímur J. Sigfússon vildi draga 4 fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm vegna vanrækslu. Nú liggur fyrir að  Steingrímur J. hefur gerst sekur um mun alvarlegri hluti sem hefðu getað bakað þjóðinni mun meira raunverulegt tjón, en það meinta tjón sem þeir fjórir ráðherrar sem Steingrímur ákærði áttu að hafa gerst sekir um.

Steingrímur J. verður að axla ábyrgð á gjörðum sínum og segja af sér?


Afvegaleidd umræða

Smám saman kemur betur í ljós hvað það var sem brást í aðdraganda hrunsins. Sú mynd á eftir að skýrast enn betur þegar Sérstakur Saksóknari fer að láta hendur standa fram úr ermum.

Í fréttum í gær var sagt frá rannsóknarskýrslu erlendra sérfræðinga um meint bókhaldsbrot endurskoðanda og forustumanna Glitnis banka og boðað er að sagt verði frá svipuðum hlutum varðandi sömu aðila í Landsbankanum þegar líður á daginn.

Þó svo að taka verði fréttum með fyrirvara og engin sé sekur þar til sekt hans er sönnuð, þá lá það nokkuð í augum uppi skömmu eftir hrunið  að vafningarnir, viðskiptavildin og bullið sem fært var sem eigið fé banka og vogunarsjóða og flestra fyrirtækja í Kauphöllinni,  hefði ekki getað verið fært með þeim hætti í bókhald þessara aðila án aðkomu endurskoðenda og æðstu stjórnenda þessara aðila.

Miðað við fréttir í gær þá gat það vart dulist stjórnendum Glitnis banka að hann var hruninn í ársbyrjun 2008. Samt sem áður höfðu helstu leikendur hrunsins sem höfðu markvisst sogið peninga út úr Glitni upp stór orð þegar Glitnir var yfirtekinn í september 2008 og kenndu því um að Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri hefði horn í síðu eigenda bankans.

Síðan þá hefur umræðan verið markvisst afvegaleidd af hrunverjum með aðstoð nytsamra sakleysingja og pólitískra rugludalla. Ráðist var að stjórnmálamönnum og embættismönnum og þeir hraktir úr embættum.  Fjölmiðlar spillingaraflanna, ríkisfjölmiðillinn og hluti Háskólasamfélagsins tók þátt í þessari herferð afvegaleiðingarinnar.  Þessir aðilar bera mikla ábyrgð á þeirri bullkenndu umræðu sem hefur verið í landinu. Afvegaleiðing háskólasamfélagsins náði hámarki þegar sigurvegari í kosningum til  stjórnlagaþings sagði að hrunið væri stjórnarskránni að kenna.

Í allri þeirri auðn pólitískra fúkyrða, öfugsnúninga sem einkennt hefur íslenska pólitík ekki síst fyrir tilverknað þeirra Jóhönnu og Stengríms með hjálp vinstri sinnaða Háskólasamfélagsins, var ánægjulegt að sjá til tilbreytingar vitræna og athyglisverða  blaðagrein frá stjórnmálamanni. Þá grein skrifaði  formaður Framsóknarflokksins í Morgunblaðið fyirr nokkru. Sú grein var góð tilbreyting frá innihaldsalusum kjaftavaðli  og bulli sem einkennir almennt umræðuna. Fleiri forustumenn í íslenskum stjórnmálum ættu að taka formann Framsóknarflokksins sér til fyrirmyndar í þessu efni.

Það er löngu kominn tími til að fólk snúi sér að aðalatriðunum í umræðunni á rökrænan og vitrænan hátt.


Ein versta fjármálastofnun landsins

Byggðastofnun hefur ítrekað tapað öllu eigin fé sínu og þurft að fá stuðning frá skattgreiðendum aftur og aftur. Stuðning í milljarðavís.

Byggðastofnun er lánastofnun sem ávallt hefur verið í eigu og umsjá ríkisins og nýtur þess vafasama heiðurs að vera sú lánastofnun íslensk sem oftast hefur þurft að bjarga frá gjaldþroti. Í starfi Byggðastofnunar hafa farið saman pólitísk spilling ásamt andvana hugmyndum byggðastefnu síðustu aldar.  

Lánastofnanir í eigu ríkisins eru  of margar og of miklu af peningum skattgreiðenda hefur verið sóað í gæluverkefni fjármálaráðherra. Tugir milljaða frá skattgreiðendum til  VBS, Saga Capital, Sparisjóðanna, Sjóvár-Almennra trygginga  og núna skal Byggðastofnun réttur örlítill milljarður svo enn eitt hrun fjármálastofnunar verði ekki að veruleika á vakt þessarar ríkisstjórnar. 

Þeir sem tala um gildi opinberra lánastofnana og heimta slíkar ættu að kynna sér starfsemi Byggðastofnunar.  Sporin hræða ekki síður en með eftirlitslausar stórar fjármálastofnanir í einkaeigu að stórum hluta á ábyrgð skattgreiðenda.  Það er best að vera laus við hvoru tveggja.


Ekkert

Ríkisstjórnin hélt blaðamannafund á föstudaginn og skrifaði þar ásamt forustumönnum lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja undir samning um ekki neitt nema þá helst að skattgreiðendur auki niðurgreiðslur vaxta fyrir fjármálafyrirtæki.

Niðurstaðan:  Innheimtanlegar skuldir skulu innheimtar af fullri hörku. Ekki skal taka tillit til þess að hundruðir milljarða verðbætur hafa fallið á höfuðstóla verðtryggðra lána frá bankahruninu þó samdráttur hafi verið í þjóðarframleiðslu og eignvarverð hafi lækkað verulega. Þar af hafa lífeyrissjóðirnir fengið í sinn hlut 126 milljarða vegna verðtryggingar frá hruni.

Ríkisstjórnin viðheldur gjaldeyrishöftum til að verja krónuna og fjármálafyrirtækin.  Ríkisvaldið ábyrgist allar innistæður fjármálastofnana á kostnað skattgreiðenda. Samt sem áður er viðhaldið gervigjaldmiðli verðtryggingar sem hækkar höfuðstóla lána þrátt fyrir hrun á verði eigna, minnkandi þjóðarframleiðslu og lækkunar launa. Er það virkilega svo að stjórnvöld, stjórnendur lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja átti sig ekki á að það er engin sanngirni í þessu heldur argasta óréttlæti.

Er það virkilega svo að meðan fjármálastofnanirnar eru varðar með gjaldeyrishöftum og ríkisábyrgð að þá sé ekki svigrúm til að fá fulltrúa þeirra til að fallast á afnám verðtryggingar og bakfærslu ránsfengsins. Ef það var ekki hægt þá átti að taka ránsfenginn af þeim. Það hefði verið sanngirni.

Norrænu velferðarstjórninni er sama um sanngirnina og hún hefur enga stefnu í skuldamálum heimilanna.

Staðreyndin er sú að hefði ríkisstjórnin ekkert gert þá væri flækjustigið minna í dag og heimilin betur stödd. 

Með síðustu aðgerðum sínum hefur ríkisstjórnin endanlega tekið vonina frá fólki.  Hún hefur enn einu sinni sýnt að hún er stefnu- og úrræðalaus og gerir þjóðinni mest gagn með því að segja af sér.


Hjálparhöndin

Ríkisstjórnin rétti út hjálparhendina 4.október s.l. og sagði að nú yrði eitthvað gert fyrir skulduga einstaklinga. En það var ekkert í hendinni. Ríkisstjórnin hafði enga stefnu og vissi ekki hvert átti að halda. Bjargráð Jóhönnu og Steingríms var þá að fá reiknimeistara til að reikna með hvaða hætti mætti rétta fram hjálparhendi til skuldara án þess að nokkuð væri í henni sem máli skipti.

Reiknimeistararnir reiknuðu og komust m.a. að þeirri merkilegu niðurstöðu að það mundi kosta meira en 100 milljarða að lækka skuldir á yfirveðsettum fasteignum niður í 110% verðmæti eignarinnar. Þannig sáu reiknimeistararnir það ljós að væri eign 50 milljón króna virði þá væri það sérstakt bjargráð og hjálp að bjóða eigendum eignarinnar að yfirtaka skuldir á eigninni á kr. 55 milljónir eða 5 milljónir umfram raunvirði eignarinnar. Samt sem áður spáir Seðlabankinn áframhaldandi lækkun fasteignaverðs.

Valdamestu menn landsins lífeyrisfurstarnir komu að bjargráðum ríkisstjórnarinnar með þeim yfirlýsingum að ekki mætti gefa eftir kröfur sem væru innheimtanlegar. Það sögðu lífeyrisfurstarnir að væri aðalatriðið í stöðunni.  Í framhaldi af þessum yfirlýsingum var tilkynnt síðdegis í gær að samkomulag hefði náðst með ríkisstjórninni og lífeyrissjóðunum þá sennilega á grundvelli ofangreindra forsendna.

Nú bíða menn spenntir eftir því að sjá hversu galtóm hjálparhendi ríkisstjórnarinnar verður. Mun velferðar Jóhanna færa fólki þær gleðifregnir í jólamánuðinum að þrælarnir á skuldagaleiðu verðtryggingarinnar fái niðurskrifuð lán sín þannig að þeir sem skulda meira en nemur verði fasteignar þeirra fái eitthvað en hinir sem enn eiga eitthvað í eignunum haldi áfram að borga eins og lítið hafi í skorist.

Datt engum í hug að bakfæra ósiðlega hækkun verðtryggðra lána frá hruni til dagsins í dag. Datt heldur engum í hug að koma á lánakerfi eins og er hjá síðuðum þjóðum.

Átta stjórnendur þessa þjóðfélags sig ekki á að það er spurning um framtíð og heill íslensku þjóðarinnar að horfa á skuldamál einstaklinga með sanngirni en ekki síngirni. 

Galeiðuþrælar í skiprúmi verðtryggingarinnar munu leggja frá sér árar og hafna því að þræla áfram nema þeir eygi von um frelsi undan skuldaánauðinni innan skynsamlegra tímamarka.


Árni Páll ber stjórnskipulega ábyrgð

Jafnvel þó  fjármálaráðherra hafi beitt sér með ótilhlýðilegum hætti til að færa fjármuni frá skattgreiðendum til kjósenda sinna í Árbót í Aðaldal og einhverjir þingmenn kjördæmisins hafi verið áfram um að misfarið yrði með ríkisins fé, þá ber Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra stjórnskipulega og pólitíska ábyrgð á málinu.

Árni Páll Árnason heldur því fram að eðlilega hafi verið að málum staðíð af sinni hálfu og það hafi verið ráðlegging sinna embættismanna að ganga frá málinu með þeim hætti sem gert var þ.e. greiða 30 milljónir umfram skyldu.  Eðlilegt er að Árni Páll verði krafinn svara um það hvaða embættismenn ráðlögðu honum þetta og á hvaða forsendu.  Raunar er hæpið að ráðherra sé að segja satt, vegna þess að framkvæmdin er andstæð góðri stjórnsýslu.

Árni Páll sagði einnig að óþarfi hafi verið að leita eftir áliti Ríkislögmanns þar sem hann væri sjálfur lögfræðingur og gæti því dæmt um það hvort greiða ætti bætur í svona máli eða ekki, en bætir svo við að hann hafi ekki tekið neinar ákvarðanir í málinu og einungis gert það sem sínir embættismenn hafi lagt til. Hvað kom menntun hans sem lögfræðings þá málinu við?

Fyrir liggur að fjármálaráðherra skrifaði þáverandi félagsmálaráðherra Árna Páli nánast hótunarbréf vegna málsins. Í einu orðinu segist Árni Páll hafa dæmt um málið sjálfur út frá lögfræðiþekkingu sinni.  Í hinu orðinu að hann hafi í raun ekki gert það heldur það sem embættismenn hans lögðu til.

Hvaða rökræna samhengi er í svona málflutningi ?

Alla vega þegar öllu er á botninn hvolft þá var ekki leitað til rétts aðila í ríkiskerfinu, Ríkislögmanns, til að fjalla um málið. Fram hjá því komast hvorki Árni Páll Árnason né Steingrímur J. Sígfússon

Nú verður ekki hjá því komist miðað við ummæli Árna Páls að þeir embættismenn komi fram eða verði nafngreindir sem Árni Páll segir að hafi í raun afgreitt málið. Verði ekki vísað á neinn eða nokkur gefi sig fram þá eru líkur fyrir því að ráðherra sé ekki að segja satt. Það er raunar ekki einsdæmi með viðskiptaráðherra að þeir geri það.

Eftir stendur hvað sem hótunarbréfi Steingríms J. líður og áliti embættismanna að Árni Páll Árnason ber stjórnskipulega ábyrgð á þessari vafasömu bótagreiðslu.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 150
  • Sl. sólarhring: 403
  • Sl. viku: 5784
  • Frá upphafi: 2591885

Annað

  • Innlit í dag: 139
  • Innlit sl. viku: 5424
  • Gestir í dag: 139
  • IP-tölur í dag: 137

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband