Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Hvernig hefðu þau brugðist við?

Fyrir um hálfum mánuði skilaði reikningsnefnd forsætirsráðherra útreikningum sínum vegna skuldavanda einstaklinga.

Tæpir tveir mánuðir eru síðan forsætisráðherra skynjaði réttláta reiði fólks vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar. Þá átti hún að skilja að það er ekki hægt að láta fólk sem hefu þola launalækkun og skattahækkun bera síhækkandi skuldabyrðar.  Leiðrétta varð verðtryggðu og gengisbundnu lánin og afnema okurvexti af húsnæðislánum.

Vandinn vegna verðtryggðu og gengisbundnu lánanna hefur verið ljós frá því að ríkisstjórnin tók við völdum. Jóhönnu Sigurðardóttur varð vandinn ljós a.m.k. fyrir tveim mánuðum. Reikningsnefndin skilaði af sér fyrir hálfum mánuði. Ekkert gerist enn þrátt fyrir þetta.

Hvernig hefðu Steingrímur og Jóhanna  brugðist við bankahruninu sem kom óvæn,t þegar þau geta ekki tekið ákvörðun um lausn vanda sem hefur verið ljós og aðsteðjandi í meir en tvö ár.   


Tími útreikninga og kannana er liðinn. Tími aðgerða er kominn.

Undanfarið hafa um 10 Íslendingar flutt af landi brott á dag eftir því sem haft var eftir Pétri Blöndal á Bylgjunni á föstudagsmorgun. 10 manns flýja skuldafárið og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Ég hef barist fyrir eðlilegri skipan lánamála um árabil þannig að verðtrygging væri afnumin en lánakjör væru svipuð og á hinum Norðurlöndunum.  Vegna þess fæ ég fjölda af tölvupóstum frá fólki sem flýr og segir mér sögu sína í nýja landinu, Danmörku, Noregi eða Svíþjóð. Sögurnar eru allar keimlíkar og fólk trúir því varla að því bjóðist óverðtryggð lán með 4% ársvöxtum. Lán þar sem höfuðstóllinn lækkar við hverja afborgun.  Þá segist fólkið líka hafa mun betri launakjör.

Almenn skuldaniðurfærsla, afnám verðtryggingar og gjaldmiðill sem virkar er því meðal þeirra forsendna sem verða að koma til svo að þjóðfélagið geti unnið sig út úr vandanum.  Þjóðfélagssátt getur ekki tekist um neitt annað eða minna. Það er engin gjöf heldur réttmæt krafa að höfuðstólar lánanna verði leiðréttir.

Ríkisstjórnin getur ekki beðið lengur. Stund ákvarðananna er runnin upp.


Gjaldþrota fjármálastofnun

Sú fjármálastofnun á Íslandi sem oftast hefur verið siglt í strand óreiðunnar og peningaþrots er Byggðastofnun.

Þeir sem hæst tala um ábyrgðarleysi fjármálastofnana í eigu einstaklinga ættu að líta til þess að a.m.k. tveir ríkisbankar hefðu orðið gjaldþrota á árunum fyrir einkavæðingu þeirra ef ekki hefði komið til myndarlegur ríkisstuðningur.  Það jafnast þó ekkert á við Byggðastofnun sem aftur og aftur verður að fá viðbótarfjárframlög frá ríkinu til að komast hjá greiðsluþroti.

Þessi ríkisrekna lánastofnun hefur um árabil verið stjórnað af geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna. Aftur og aftur hafa vildarvinir og gæluverkefni fengið lán frá Byggðastofnun þó að fyrir hafi legið við einfalda skoðun að lánveitingin var glórulaus.

Það er óneitanlega kaldhæðni örlaganna að þegar kallað er eftir grænum lausnum til að vinna sig út úr kreppunni og nýafstaðið þing Norðurlandaráðs hafi starfað undir því vígorði, að þá skuli Byggðasjóður þurfa að afskrifa lán til Grænna lausna ehf. Því hálfopinbera fyrirtæki var ýtt úr vör vegna þeirrar ímyndunar þáverandi viðskiptaráðherra að með því mætti skapa störf í kjördæmi hennar.

Getur verið að hægt sé að draga einhverja lærdóma af þessu. Ef til vill þá að dæla meiri peningum í Byggðasjóð eða þá að leggja sjóðinn niður og sameina hann Ríkisbankanum. 

Ef til vill er Byggðasjóður sá hluti gamla Íslands sem stjórnmálastéttin ætlar að standa vörð um.

 


Sérleiðirnar enda í ófærum

Íslendingar hafa of lengi reynt að fara sínar sérleiðir í efnahags- og lánamálum sem hafa allar  og alltaf endað með skelfingu.  Nú freistar ríkisstjórnin þess að fara í nýjar sérleiðir með lánapakka, vaxtabætur og bix til að komast hjá því að horfast í augu við raunveruleikann.

Stjórnvöldum sem vilja halda áfram sérleiðunum eins og ríkisstjórnin, hluti stjórnarandstöðunnar, lífeyrissjóðirnir og fjármálafyrirtækin ferst eins og manninum sem vaknar upp eftir mikið langvarandi fyllerí horfir á sjálfan sig í spegli og segir. Ég á alla vega ekki við áfengisvandamál að glíma.

Af hverju dettur Jóhönnu, Bjarna Ben, Steingrími, lífeyrissjóðunum, ASÍ og fjármálafyrirtækjunum ekki í hug að það kunni að vera best fyrir okkur að hafa sama hátt á lánamálum og er í nágrannalöndum okkar og hætta að fara sérleiðirnar.  


Á forsendum okursins

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar minna um margt á björgunarsveit sem kemur á slysstað þar sem hópur fólks er að drukkna og fær hóp sérfræðinga til að eyða drjúgum tíma í að reikna út hvaða bjarghringur gæti gagnast best. Meðan á því stendur drukkna nokkrir en bjögunarsveitarforinginn er ekki að velta því fyrir sér. Hún hefur fyrirfram enga skoðun eða stefnu í málinu.  

Reikninefnd ríkisstjórnarinnar hefur skilað útreikningum um skuldavanda fólks og möguleg úrræði.  Öll úrræðin eru  reiknuð á forsendum okurþjóðfélagsins óháð því hvort um raunhæfa innheimtu er að ræða eða ekki.

Niðurstaða reiknimeistaranna er sú að það kosti um 180 milljarða að bakfæra höfuðstóla okurlána verðtryggingarinnar um 15% en það er um það bil það sem ranglega hefur verið lagt ofan á lánin á síðustu misserum.  Út frá þeirri forsendu er tapið ekki  annað en að skila þarf óréttmætri og siðlausri auðgun lífeyrissjóða og fjármálastofnana til baka.

Bakfærsla er alltaf erfið og þess vegna hef ég bent á þá leið að stofnaður verði neyðarsjóður og þangað renni 3% af gjöldum sem annars færu í lífeyrissjóði a.m.k. næstu 4 árin og þeir fjármunir sem þar mynduðust um 200 milljarðar yrðu notaðir til að bakfæra höfuðstóla og lánakjör til þess, sem fólk á hinum Norðurlöndunum býr við. Þá mundi neyðarsjóðurinn  koma að fjármögnun Íbúðalánasjóðs á eðlilegum lánakjörum. Þá  væri hægt væri að endurlána fólki vegna íbúðarkaupa á breytilegum vöxtum, óverðtryggt með sömu vöxtum og á hinum Norðurlöndunum.

Stjórnmálamenn þessa lands jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu ættu að gaumgæfa það að fólki verður ekki haldið endalaust í okursamfélaginu. Við eigum rétt á að njóta sambærlegra lífskjara og lánakjara og frændur okkar á hinum Norðurlöndunum og til þess höfum við allar forsendur ef sérhagsmunirnir eru ekki endalaust látnir ráða ferðinni.


Gaman saman fyrir hundrað milljónir á kostnað ríkisins

Hópeflisfundurinn í Laugardalshöllinni um helgina kostar ríkissjóð um hundrað milljónir. Stjórnendur fundarins voru ánægðir með hve vel tókst til og hve vel var mætt. Raunar er sérstakt að það skuli vekja jafn mikla undrun forsvarsmanna hópeflisfundarins þar sem 4000 varamenn stóðu á bak við þá þúsund sem valdir voru með slembiúrtakinu til að mæta.

Niðurstaða fundarins var að vonum að allir voru ánægðir með stjórnunina á fundinum og að fá tækifæri til að taka þátt í hópefli um stjórnarskrána á kostnað skattgreiðenda. Fjölmargar tillögur komu líka fram þar sem megin áhersla  flestra er raunar á þau gildi sem núverandi stjórnarskrá byggir á.

Eftir að hafa lesið tillögur sem þóttu allrar athygli verðar þá velti ég því fyrir mér hvort engum hafi dottið það í hug að stjórnarskrárbinda að bannað sé að bankar lendi í vandræðum svo einhverjum tengslum við bankahrunið verði komið á þessa makalausu hugmynd hóps háskóla- og fjölmiðlamanna um þjóðfundi og stjórnlagaþing.

Þjóð sem rekur velferð sína á lánum og ætlar að segja upp fjölda starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni vegna fjárskorts ætti að velta því fyrir sér hvort það er afsakanlegt að forgangsraða með þeim hætti að  eyða hundrað milljónum í sunnudags "brain storm" hópeflisfund og ætla að eyða milljarði eða meira í stjórnlagaþing sem í raun er haldið þegar öllu er á botnin hvolft án takmarks eða tilgangs miðað við hvernig til er stofnað.


Uppljóstrun eða Barbabrella?

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri er um margt athyglisverður maður. Í dag sagði hann í ræðu að starfsmenn Seðlabankans hefðu vitað það árið 2006 að íslenska hagkerfið stefndi í þrot, en ekki þorað að birta þær niðurstöður. Starfsmennirnir hefðu birt rangar niðurstöður. Semsagt logið að þjóðinni allt frá árinu 2006.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu verður Már að skýra frá því hverjir gáfu þjóðinni rangar upplýsingar og hvers vegna. Einnig hvort það var geðþóttaákvörðun viðkomandi starfsmanna eða einhverra annarra að leyna þjóðina upplýsingum og birta rangar.

Þá verður Már að sýna hverjar voru niðurstöður starfsmanna Seðlabankans frá 2006 og áfram og bera saman þær niðurstöður og það sem viðkomandi starfsmenn og Seðlabankinn sendu frá sér opinberlega.

Þá liggur fyrir að Seðlabankinn hefur engan trúverðugleika í kjölfar þessarar yfirlýsingar Más Guðmundssnar nema þeir víki sem gáfu þjóðinni rangar upplýsingar og máið verði upplýst að fullu.

Víki Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sér undan að upplýsa þjóðina um þær spurningar sem vakna í kjölfar uppljóstrunar hans, þá er ekki hægt að líta á yfirlýsinguna öðrum augum en eins konar Barbabrellu, sem Seðlabankastjóri kann þá að hafa lært af borgarstjóranum.

Eða af stjórnendum Goldman Sachs bankans sem hann heimsótti undirdánugastur ásamt fjármálaráðherra í Bandaríkjaför sinni. En þeir hjá Goldman Sachs bankanum þykja hvað hugmyndaríkastir hrunbankamanna heimsins.


Hvika nú allir stjórnarliðar nema Ögmundur?

Svo virðist sem Jóhanna og meðreiðarlið hennar í ríkisstjórninni sé horfið frá niðurfærslu lána allir nema Ögmundur Jónasson sem enn stendur vel í ístaðinu og virðist skynja alvöru málsins og samhengi hlutanna.

Á tímum kaupmáttarskerðingar upp á rúman tug prósenta, skattahækkana og verðlækkunar á fasteignum, þá þýðir ekki fyrir fjármálastofnanir og lífeyrissjóði að ætlast til þess að fólk sætti sig við eitthvað annað og minna en eðlilega niðurfærslu verðtryggðra lána.

Stjórnarandstaðan ætti að láta myndarlega í sér heyra varðandi þetta réttlætismál og knýja á um það að almenn leiðrétting lána í samræmi við staðreyndir í þjóðfélaginu nái fram að ganga.

Gerviheimur verðtryggingarinnar býr ekki til nein raunveruleg verðmæti, en hún getur eyðilagt sum.


Slæm tíðindi

Neyðarfundir Jóhönnu Sigurðardóttur vegna skuldavanda einstaklinga, með forustumönnum fjármálastofnana, lykilráðherrum nokkrum þingnefndum og fulltrúum Hagsmunasamtaka heimila og talsmanni neytenda virðast ekki ætla að skila neinu. Það eru slæmar fréttir.

Stærsti vandinn er sá að ríkisstjórnin hefur enga stefnu, engar tillögur og engar lausnir. Séð utanfrá þá virkar forsætisráðherra eins og aðkeyptur fundarstjóri á almennri helgarráðstefnu og ekki verður annað séð en helsti ráðamaður ríkisstjórnarinnar,  fjármálaráðherra, hafi takmarkaðan áhuga á ráðstefnu forsætisráðherra um skuldavandann.

Ötulasti talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, Marinó G. Njálsson, segir á bloggi sínu í morgun að ríkisstjórnin bjóði í raun aðeins upp á þrjár leiðir sem allar feli í sér að fólk flytur úr landi með búslóðir sínar. Með því er Marinó í raun að segja að ekkert  hafi gerst á neyðarfundum forsætisráðherra. Ég verð að viðurkenna það að mér fannst slæmt að heyra að svona væri komið því að alltaf held ég í vonina um að forystumenn í íslensku stjórnmála- og fjármálalífs horfist í augu við staðreyndir þeirra vandamála sem venjulegt fólk glímir við í þjóðfélaginu í dag.

Forsenda þjóðarsáttar og nýs upphafs á Íslandi fellst í því að leiðrétta skuldir fólks og fyrirtækja. Hún fellst ekki í því að gefa einhverjum eitthvað heldur leiðrétta það sem ranglega er lagt á fólk eða frá því hefur verið tekið, á grundvelli verðtryggingar eða vegna þeirra fjármálahamfara í þjóðfélaginu sem byrjuðu með gengishruninu.  Annað þarf ekki en ekkert minna dugar.


Skuggaelítan

New Left Review, sem er málgagn fyrrum kommúnista og öfgafullra vinstri manna, og amast m.a. við frjálsu markaðsþjóðfélagi, birtir greiningu um hrunið á Íslandi. Greinin nefnist "Skuggaeilítan: Innherjarnir sem felldu efnahag Íslands."

Af fyrirsögninni að dæma hefði mátt ætla að umfjöllunin væri um fallin fjármálafyrirtæki og tug- og hundraðamilljarða skuldara sem voru orsakavaldar hrunsins.  Annað kom í ljós. Greinarhöfundar halda því fram, að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson hafi af valdagræðgi og með því að stýra sjálfum sér og vildarvinum í lykilstöður, verið helstu orsakavaldar hrunsins.

Þessi niðurstaða kemur á óvart miðað við hlutlægustu greiningar sem farið hafa fram á hruninu eins og hjá Mats Josefsson, Karlo Jänneri og m.a. jafnvel hinni stjórnsýslumiðuðu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Niðurstöður greinarhöfunda New Left Review miðað við greiningar ofangreindra aðila er rugl.

Niðurstaðan kemur ekki á óvart þegar betur er að gáð. Höfundar þessarar rugluðu greinar og röngu greiningar í New Left Review eru nefnilega helstu viðmælendur og vildarvinir silfur Egils Helgasonar þau  Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og Robert Wade sambýlismaður hennar. 

Með greinarskrifum sínum opinbera Robert Wade og Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur Sigurgeirsdóttir hvað það fer víðs fjarri að þau séu hlutlausir rýnendur í samtímaviðburði eða hafi hæfi eða burði til að horfa á mál og/eða atburði með hlutlægum hætti. Þeirra viðmið eru pólitísk og grunduð á hatri á markaðsþjóðfélaginu sem persónugerist í tveim einstaklingum að þessu sinni. 

Skrýtið að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur skuli gleyma því að Ingibjörg Sólrún vinkona hennar og fyrrum sambýlingur var alveg sammála þeim Davíð og Geir um markaðsþjóðfélagið og vildi jafnvel gefa peningaöflunum enn lausari tauminn en þeir vildu. 

Bullið í Robert Wade og Sigurbjögu Sigurgeirsdóttur ber þess glöggt vitni að þau eru fyrst og fremst pólitískt ofstækisfólk. Þau hafa vaðið uppi í skjóli Silfur Egils Helgasonar og fréttamanns á RÚV. Þeim hefur verið gefinn kostur á því af Silfur Agli og fréttamanninum vini Sigurbjargar að sveipa um sig kufli fræðimennskunnar við hefur blasið nakið lýðskrum og pólitískt ofstæki þessara skötuhjúa.

Vonandi kemur sá tími að  Sigurlaug og Wade,  fái ekki frekari tækifæri til að rógbera land og þjóð á erlendum vettvangi og níða niður fólk vegna pólitískra skoðana þess. Þá verður fróðlegt að sjá hvort og þá hverjir það verða sem kalla í annað hvort eða bæði þessara skötuhjúa til að tjá sig um mál í framtíðinni.

Hin raunverulega skuggaelíta er allt annað fólk en Davíð og Geir. Þeir eiga ekki heima þar en það eiga þau bæði Wade og Sigurbjörg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 195
  • Sl. sólarhring: 289
  • Sl. viku: 5829
  • Frá upphafi: 2591930

Annað

  • Innlit í dag: 181
  • Innlit sl. viku: 5466
  • Gestir í dag: 173
  • IP-tölur í dag: 166

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband