Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Uppgötvun Jóhönnu

Það var athyglivert að heyra það  í hádegisfréttum að forsætisráðherra hafði uppgötvað að stór hópur fólks ætti í skuldavanda.  Hún sagði að nú þyrfti að skoða málin en vildi ekki segja hvað ætti að gera. Hefur Jóhanna virkilega ekki skoðað málin og liggja ekki staðreyndir fyrir hjá henni eftir samfellda setu í ríkisstjórn frá 2007 og þingsetu nokkru eftir að Úlfljótur og Grímur geitskór hættu á Alþingi.

Eftir að hafa hlustað á stefnuræðu forsætisráðherar og viðbrögð núna þá datt mér í hug það sem danska drottningin sagði í byrjun síðustu aldar þegar hún spurði af hverju fólk væri sósíalistar og var svarað að sumir væru ekki ánægðir með ríkisstjórnina og konunginn. Þá sagði drottningin. "Hvílíkt vanþakklæti og við sem höfum gefið fólkinu Tívolí." 

Þá eins og nú þá má upplýsa Jóhönnu um að fólk hvorki borðar né býr í sértækri skuldaaðlögun.


Þeir lána Steingrímur eyðir

Um svipað leyti og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tilkynnti að hann ætlaði að lána til Íslands 16 milljarða króna í kjölfar 3. endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda barst sú frétt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mundi leggja fram frumvarp til fjárlaga þar sem hallinn væri nálægt hundrað milljörðum.

Eftir alla baráttuna við að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá er staðan sú að lánið eftir 3. endurskoðun dugar fyrir tveggja mánaða óráðssíu Steingríms J. Sigfússonar í ríkisfjármálum.

Við þessar aðstæður þá eru það ófyrirgefanleg afglöp í starfi fjármálaráðherra að reka ríkissjóð með halla.

Að ári liðnu þá hafa vextirnir af óráðssíu Steingríms J. étið upp lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en við sitjum uppi með skuldirnar en vonandi ekki Steingrím J. sem ráðherra.


Vaxtadómur

Mér þykir líklegt að Hæstiréttur kveði upp dóm í svonefndu vaxtamáli á morgun fimmtudag.

Í kvöld var kynnt árshlutauppgjör Arion banka fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2010 en skv. því er arðsemi eigin fjár yfir 17% og hagnaður bankans er tugur milljarða.  Nýlega skilaði Íslandsbanki álíka uppgjöri. Það er því ljóst að bankarnir þola að fólkið í landinu búi við svipuð lánakjör og fólk í nágrannalöndum okkar.

Ég á ekki von á öðru en að Hæstiréttur staðfesti ákvæði staðalsamninga um svonefnd gengislán um vexti og hnekki héraðsdómnum hvað það varðar. 

Með því að dæma neytendum í vil í þessu máli gerir það fólki og fyrirtækjum sem tóku slík lán kleyft að standa við skuldbindingar sínar og búa við lánakjör sem eru sambærileg lánakjörum sem eru í okkar heimshluta.  Slíkur dómur gerir þá líka kröfu til að verðtryggðu lánin verði leiðrétt þegar í stað og rán verðtryggingarinnar verði ekki látið viðgangast lengur.

Ljóst er miðað við árshlutauppgjör bankanna að það er hægt að koma á lánakerfi á Íslandi sem býður fólki upp á sambærileg kjör og gilda í nágrannalöndum okkar. Allt annað er óþolandi og leiðir til þess að engin sátt getur orðið í þjóðfélaginu. 

Þjófur verðtryggingarinnar má ekki lengur leika lausum hala og stela eignum fólksins í landinu. 


Sjáandi sjá þau ekki. Heyrandi heyra þau ekki.

Forsætis- og fjármálaráðherra virðast hvorki sjá né heyra mikilvægustu skilaboðin um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Í gær hélt Jóhanna Sigurðardóttir dæmalausustu ræðu sem nokkur forsætisráðherra hefur haldið í samræmi við greinaflokk fjármálaráðherra  "Landið tekur að rísa".

Stundum hefur þjóðin átt  talnaglöggt fólk eins og á sínum tíma Sölva Helgason sem reiknaði barn í konu. Einnig áreiðanlegt fólk eins og Vellygna Bjarna sem sagði m.a. sögur  af því  þegar hann atti kappi við Drottinn allsherjar og hafði að sjálfsögðu betur.

Yfirlýsingar og hreystiyrði  Jóhönnu og Steingríms um hve vel miði og allt sé nú með öðrum tón en áður í fjötrum Íhalds og Framsóknar eru í góðu samræmi við reikningskúnstir Sölva Helgasonar og frásagnir Vellygna Bjarna.

Hagstofan segir okkur samt að um samfellt samdráttarskeið hafi verið að ræða árið 2009 og fyrstu mánuði ársins 2010. Samdráttur landsframleiðslu árið 2009 varð 6.8% og fyrstu 6 mánuði ársins 2010 er samdráttur landsframleiðslu 7.3%.  Það þýðir líka að lífskjörin í dag eru að verulegu leyti skuldsett annars væru þau til muna verri vegna þessa gríðarlega samdráttar.

Þjóðir heims miða við að sé landsframleiðsla neikvæð í 3 mánuði í röð þá sé kreppuástand. Hér hefur samdráttur landsframleiðslu verið samfelldur í 18 mánuði en Jóhanna og Steingrímur tala um það sem sérstakan árangur ríkisstjórnarinnar.

Því miður er að sannast að kreppan verður verri en hún hefði þurft að vera vegna óhæfrar ríkisstjórnar. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er ástandið grafalvarlegt því miður.

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2010/09/03/3_1_prosent_samdrattur/

 


Skattahækkanir lengja og dýpka kreppuna. Steingrímur hefur brugðist.

Bretar, Írar og Íslendingar lentu í verulegum erfiðleikum vegna bankahruns síðari hluta árs 2008. Hér völdu menn bestu leiðina með því að fella vonlausa banka í stað þess að pumpa inn í þá peningum sem ekki voru til eins og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vildi gera.

Ljóst var strax haustið 2008 að tekjur ríkissjóðs mundi dragast saman og Írar brugðust við þeim vanda með því að skera verulega niður ríkisútgjöld. Þeir lækkuðu laun opinberra starfsmanna og drógu saman á öllum sviðum þjóðlífsins þó hlutfallslega minnst í velferðarmálum.

Írar voru í erfiðari aðstæðum en við að því leyti að þeir gátu ekki verðfellt alla hluti í þjóðfélaginu af því að þeir eru með Evru. Það hafði hins vegar þá þýðingu að eignir fólksins héldu nánast verðgildi sínu í stað þess að hrapa í verði um 50-65% í Evrum talið eins og hér.

Sú sársaukafulla leið sem Írar völdu að draga saman ríkisútgjöld hefur nú skilað árangri og hagvöxtur eykst á ný þar í landi. Írska ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að auka samkeppni og skapa eðlilegt umhverfi fyrir fjármála- og atvinnulíf. Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Paul Krugmann hefur lofað mjög þessar aðgerðir Íra og gagnrýnt að þeir fái ekki eðlileg verðlaun í samræmi við þann efnahagsbata sem hafi orðið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar þar í landi.

Hér er fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon sem stöðugt ber sér á brjóst og segist hafa gert mjög mikið. Samt sem áður er hann að reka ríkissjóð með bullandi halla og samdráttur í eyðslu hins opinbera er hverfandi lítill þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Steingrímur fór þá leið öfugt við Íra að hækka skatta og draga óverulega úr ríkisútgjöldum. Nú situr skattahækkana nefnd hans að störfum við að leita leiða til að auka enn skattheimtuna.

Aðgerðarleysiskostnaður ríkisstjórnarinnar þá sérstaklega Steingríms J í ríkisfjármálum er orðinn að gríðarlegum vanda og dregur úr hagvexti og framtíðarmöguleikum. Rangar ákvarðanir og heigulsháttur við að taka á opinberum útgjöldum veldur því að kreppan verður hér mun lengri en ella hefði þurft að vera.

Það sem verður að gera nú er að draga verulega úr ríkisútgjöldum í stað þess að hækka skatta. Áframhald skattastefnunnar og óhófseyðslunnar eykur hættu á því að nýtt efnahagshrun verði í stað efnahagsbata sem hefði getað verið kominn fram hefðum við haft alvöru ríkisstjórn sem hefði þorað að gera það sem þarf að gera.


Skjaldborgin um Gylfa Magnússon ráðherra

Undanfarna daga hefur þjóðin orðið vitni að  alvarlegustu tilraun forustumanna í ríkisstjórn og stjórnsýslu til að leyna hana upplýsingum og afflytja mál í því skyni að slá skjaldborg um viðskiptaráðherra.

Afskipti Jóhönnu Sigurðardóttur og nokkurra hátt settra embættismanna þ.m.t. Seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra af vandamálum viðskiptaráðherra bera ekki vott um opna og heiðarlega stjórnsýslu.  Þrátt fyrir tilraunir forustumanna í stjórnsýslu og ríkisstjórn til að halda upplýsnigum frá þjóðinni þá liggja samt fyrir upplýsingar sem sýna að viðskiptaráðherra getur ekki setið.

Viðskiptaráðherra hefur verið beraður af því að gefa Alþingi rangar upplýsingar um gengisviðmiðuðu lánin. Upplýst hefur verið að upplýsingar um verulegan vafa um gildi lánanna lágu fyrir í ráðuneytinu vorið 2009 og ráðherra hefur viðurkennt að hafa vitað af málinu sama haust. Samt sem áður gerði hann í fyrsta lagi ekkert til að leiðrétta ummæli sín á Alþingi sem svar við fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um málið.

Í öðru lagi þá hafði viðskiptaráðherra engan viðbúnað vegna þess vafa sem óneitanlega var fyrir hendi um gildi lánanna.

Í þriðja lagi þá verður ekki séð að hann hafi gert samráðherrum sínum í ríkisstjórn grein fyrir málinu svo sem honum bar að gera.

Í fjórða lagi leitaði viðskiptaráðherra ekki upplýsinga um málið hjá Neytendastofu eða Fjármálaeftirliti og kannast ekki við aðvaranir Talsmanns neytenda svo merkilegt sem það nú er.

Í fimmta lagi gerði viðskiptaráðherra ekkert með viðvaranir sem honum bárust sannanlega eftir því sem hann sjálfur segir í september 2009. 

Í sjötta lagi þá kann viðskiptaráðherra með vanrækslu sinni að hafa bakað þjóðinni skaðabótaábyrgð svo nemur milljörðum króna, en um það ræðir Árni Tómasson hjá skilanefnd Glitnis í morgun hafi menn vitað meira en þeir gerðu grein fyrir.

Óneitanlega er það furðulegt að skjaldborg skuli nú slegin um viðskiptaráðherrann, Gylfa Magnússon af  ríkisstjórn og forustumönnum Seðlabanka Íslands. Hvar sem væri í nágrannalöndum okkar hefði verið óhjákvæmilegt að Gylfi Magnússon segði af sér að ósk forsætisráðherra ekki síðar en á mánudaginn. Sú staðreynd að hann skuli sitja ennþá sem ráðherra sýnir betur en margt annað hversu spillt og vanhæf ríkisstjórnin er og hvað litla dómgreind og stjórn Jóhanna Sigurðardóttir hefur á málunum.

Óneitanlega velta margir fyrír sér hvernig á því stendur að vaski stjórnsýslufræðingurinn Sigurbjörg kveður sér ekki hljóðs núna um vanhæfa ráðamenn og vonda stjórnsýslu. Hvar er nú Lilja Mósesdóttir sem er formaður viðskiptanefndar?

Þá vekur þögn vinanna og bandamannanna Egils Helgasonar og verðlaunablaðamannsins Jóhanns Haukssonar sérstaka athygli. E.t.v. er vert að minna á að meðan Gylfi Magnússon var formaður Samkeppnisráðs þá sá ráðið ekki ástæðu til annars en fara mildum höndum um Baug og fyrirtæki því tengdu.

Geri forsætisráðherra sér ekki ljóst að Gylfi Magnússon getur ekki setið lengur sem ráðherra og henni ber að víkja honum úr ríkisstjórn sinni þegar í stað,  sýnir hún ótvírætt fram á vanhæfni sína til að leiða ríkisstjórnina.


Hvað ef?

Hefði gengi íslensku krónunnar ekkert breyst hefði nokkrum þá dottið í hug að það væru forsendur til að hækka vexti á gengislánum?  Datt einhverjum í hug að lækka vexti á gengislánum eftir að íslenska krónan hrundi?  

Vextir af lánum eru ákveðnir í lánasamningum.  Í lánasamningum um gengislán eru ákvæði um heimild til að endurskoða vexti lánanna samkvæmt ákveðnum reglum. Slík endurskoðun getur þó aldrei tekið til fortíðar heldur einungis framtíðar, en til slíkrar breytingar verða að liggja þau rök og sjónarmið sem kveðið er á um í lánasamningnum.  Þetta eru leikreglur á markaði.

Norræna "velferðarstjórn" Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms hefur uppi ráðagerðir  um að vega að neytendum með ólögmætum aðgerðum varðandi vaxtaákvarðanir af gjaldeyrislánunum. Vextir þeirra hafa ekkert breyst við dóm Hæstaréttar og verður ekki breytt nema til komi heimild í lánasamningi.  Kæmi til þess mundi "velferðarstjórn" bankanna undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur grípa til siðlausra og ólögmætra aðgerða. 

Gamli Marxistinn Már Guðmundsson Seðlabankastjóri telur að sjálfsögðu eðlilegt að valdstjórnin beiti sér með  þeim hætti sem honum þykir eðlilegt án tilltits til ákvæða laga og eðlilegra stjórnunarhátta.


Verðtrygging er verri en gengislán

Hvernig sem það er reiknað þá eru verðtryggð lán til langs tíma verri lán en gengislán þó að gengishrun verði.  Sé miðað við lánstíma til 20 ára eða lengri þá kemur verðtryggða lánið  verst út.

Enginn gjaldmiðill í öllum heiminum stenst sterkasta gjaldmiðli heimsins snúning. Sá gjaldmiðill er verðtryggða íslenska krónan. Þessi gervimynt, útreikningsmynt hagfræðinga sem kyndir undir verðbólgubál og stuðlar að óábyrgri lánastarsemi.

Það er einstakt að fulltrúar verkalýðsins skuli harðast verja verðtrygginguna eins og forseti ASÍ og aðrir lífeyrisfurstar. Þá er það einstök upplifun að sjá gamla komma eins og Mörð Árnason og Kristinn H. Gunnarsson sameinast í kröfunni um, að þeir sem hafa verið skornir niður úr skuldasnörunni með dómi Hæstaréttar verði hengdir upp á aðra verri þ.e. verðtryggingarsnöruna.

Verðtryggingin kann að vera lögleg en hún er algerlega siðlaus. Þegar ég settist á þing lét ég verða eitt mitt fyrsta verk að setja fram kröfu um að fólkið í landinu byggi við sambærileg lánakjör og fólk á hinum Norðurlöndunum. Athyglivert að aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðirnir og bankarnir skyldu vera á móti því.  Af hverju skyldi það vera?

Er hægt að halda uppi þjóðfélagi sem er á algjörum sérleiðum í lánamálum og gjaldmiðilsmálum?

Ég  held ekki.


Gengislán. Vondir fjölmiðlar og lélegir fulltrúar fólksins

Sérkennilegt er að fylgjast með opinberri umræðu um dóma Hæstaréttar í gengistryggingarmálum. Dómarnir segja að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla og slík ákvæði í lánasamningum skuldbindi ekki lántakendur.  Dómarnir kveða hins vegar ekki á um breytingar á öðru í lánasamningum aðila.

Af fjölmiðlaumræðunni og frá sumum þingmönnum hefur heyrst að eitthvað meira felist í dómnum. Þannig hefur verið fjallað með gálausum og iðulega röngum hætti um vexti af þessum lánum eins og fram komi ákvæði í dómunum um breytingar á umsömdum vöxtum. Svo er ekki. 

Fjármálafyrirtækin geta reynt að skýra málið með sínum hætti en þau geta hins vegar ekki farið á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í málinu eða túlkað einhliða breytingar á gengistryggðum lánasamningum hvað varðar vexti eða önnur lánakjör. 

Það er öldungis merkilegt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hinn vaski viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon virðast hafa verið gjörsamlega óviðbúin niðurstöðu Hæstaréttar og ekki haft neinn viðbúnað. Sama gildir um orðfima en starfslitla fjármálaráðherrann.  Mörgum fannst nóg um andvaraleysi ríkisstjórnarinnar þegar bankahrunið varð. Hvað má þá segja um fólkið sem nú stýrir þjóðarskútunni?


Fimm sinnum fimm eru simsalabimm

Tap Íslands á bankahruninu nemur a. m. k. 10 þúsund milljörðum segir í frétt af ræðu fyrrum ríkisendurskoðanda.  Hann segir að tapið felist í virðisrýrnun bankanna og hlutabréfa þeirra  um 9 þúsund og fjögurhundruð milljarða auk taps Seðlabanka og annarra og út úr því komi rúmlega 10 þúsund milljaða tap Íslands í bankahruninu.

Endurskoðendur eru lagnari við að fá þá útkomu sem þeir ætla sér en aðrir sérfræðingar í útreikningum. Þeir reiknuðu út frábæra stöðu íslensku bankanna og fjármálakerfisins þó að verðmætin væru aðallega hugarfóstur.

Þannig er það einnig með þetta tröllaukna tap sem fyrrum ríkisendurskoðandi reiknar út að hafi verið tap okkar í bankahruninu.  Sú útkoma er  sambærileg útkomu skáldsins sem sagði í grínljóðabókinni sinni   "Fimm sinnum fimm eru simsalabimm."

Raunverulegt virði bankanna var aldrei mikið.  Verðfall á þessum gerviverðmætum er því ekki raunverulegt tap heldur afturhvarf til raunveruleikans úr undralandinu.

Nettó tap þjóðarbúsins hleypur á hundruðum milljarða en ekki þúsundum eins og ríkisendurskoðandi heldur fram nema menn vilji halda áfram að lifa í gerviveröld uppblásinna efnahagsreikninga fjármálafyrirtækja. Hefði tapið hlaupið á þúsundum milljarða þá hefði ekki verið hægt að halda hér úti þjóðfélagsstarfsemi eftir hrunið.

Sagt er að Sölvi Helgason sá mikli lífskúnstner sem lifði öldum fyrr hafi afrekað það að reikna barn í konu. Það er sjálfsagt ekki flóknara en fá út þá útkomu sem kom fram í ræðu ríkisendurskoðanda hjá félagi Viðskipta- og  hagfræðinga í dag. Er að vonum að fjörugar umræður og fyrirspurnir hafi orðið í þessu gagnmerka félagi um niðurstöður fyrrum ríkisendurskoðanda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 4
  • Sl. sólarhring: 210
  • Sl. viku: 4843
  • Frá upphafi: 2591956

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 4544
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband