Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Sitthvað gerum við vel.

Í úttekt í Daily Telegraph í gær er m.a. fjallað um könnun á fjölda smitaðra af Covid veirunni. Þar kemur fram að hvergi er skráning eða eftirlit með földa smitaðra betra en hér á landi. Skv. úttektinni verður ekki annað séð, en að útilokað sé að sjá hver fjöldi smitaðra er t.d.á Ítalíu, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum. Tölur frá þessum löndum um fjölda smitaðra og dánartíðni eru því nánast ómarktækar.

Við höfum staðið okkur best í alþjóðlegum samanburði varðandi skráningu og að mestu leyti varðandi viðbrögð, þó getum við hugsanlega sitthvað lært af Suður Kóreu. 

Fjöldi smitaðra á Íslandi nálgast að vera o.3% þjóðarinnar og tæp 3% landsmanna eru eða hafa verið í sóttkví. Miðað við það  er eðlilegt,að skoða hvort stöðugt hertari aðgerðir við að loka á mannleg samskipti og atvinnulíf séu réttlætanlegar. 

Mér er til efs, að ekki sé hægt að halda margvíslegri starfsemi gangandi, sem nú hefur verið lokað, án þess að það auki á smithættu, ef full aðgát er höfð. Í því sambandi kemur manni í hug m.a. starfsemi hárskera, líkamsræktarstöðva, sjúkraþjálfara,kvikmyndahúsa og margrar annarrar starfsemi. Hafa einhver eða það mörg smit greinst frá þesskonar starfsemi að kalli á lokun? Er ekki hægt að setja viðmiðunarreglur um slíka starfsemi til að lágmarka áhættu á smiti?

Það sem við vitum fyrir víst um þessa veiru í dag er að hún er fyrst og fremst hættuleg fyrir fólk sem hefur náð sjötíu ára aldri og þaðan af meira og er með undirliggjandi sjúkdóma.

Er þá ekki mikilvægast að reyna eftir megni að koma þeim þjóðfélagshópi í var, en láta þjóðfélagið ganga að mestu leyti sinn gang að öðru leyti?  

Fólkið sem hefur verið í framlínunni hjá okkur í baráttunni við þessa veiru hefur staðið sig vel og gert sumt best af því sem gert hefur verið í heiminum. Það kemst þó ekki hjá því að verða fyrir áhrifum stöðugt harkalegri aðgerða sem gripið er til annarsstaðar, sem og ákalli öfgafólks um að lokað verði á alla mannlega starfsemi í landinu. En þar reynir á, að það sé gert sem þarf, en frjóangar atvinnulífsins séu ekki drepnir eða settir í dvala umfram það sem brýna nauðsyn ber til. 

 


Hvar er fjölþjóðasamstarf og fjölþjóðleg ábyrgð?

Þegar þúsundir Kínverja smituðust af óþekktri veiru sem hlotið hefur nafnið Coveit 19,mátti telja víst, að um heimsfaraldur yrði að ræða. Í þá tæpu 3 mánuði sem þetta hefur legið fyrir skortir algjörlega alþjóðlegar ákvarðanir um samræmdar aðgerðir þjóða á heimsvísu til að stemma stigu við þessum ófögnuði. 

Sameinuðu þjóðirnar(SÞ) undir stjórn vinstri sósíalistans Antonío Guterres virðist ekki telja sig hafa neinar skyldur umfram það að berjast fyrir aukinni skattheimtu á almenning vegna loftslagshlýnunar og  troða sem flestum innflytjendum inn í Evrópu. Nú þegar raunveruleg vá steðjar að, gerir SÞ ekkert Stjórn Alþjóða heilbrigðismálastofnunar(WHO)gerir ekkert heldur enda er haft á orði að þar á bæ hafi menn meiri áhuga á ferðalögum, flugmiðum og flottum hótelum en nokkru öðru. 

Bandaríkin telja það ekki sitt hlutverk lengur að hafa forustu við að koma á samstarfi þjóða, heldur taka þeir ákvarðanir án alls samráðs og reyna nú að einoka kaup á væntanlegu bóluefni fyrir Bandaríkjamenn í stað þess að stuðla að því að þeir sem eru í mestri þörf fái bóluefnið fyrst. 

Evrópusambandið og einstök Evrópuríki hafa brugðist í því að koma á samræmdum aðgerðum á sínu svæði og á heimsvísu og sama má segja um Norðurlandaþjóðirnar. Evrópusinnar ættu að íhuga, hvaða þýðingu Evrópusambandið hefur þegar raunverulegur vágestur sækir að heilsufarslega og efnahagslega og víðtæk þörf er á samstarfi Evrópuríkja. Hvar er margrómað samstarf Evrópuríkja nú?

Orsök þessa eru hugmyndasnauðir og vanhæfir stjórnmálaforingjar og forustufólk hvert sem litið er. Víggirðingar og lögregla og her  eru sett á landamæri og útgöngu- og ferðabann í ætt við einræðisríki er sett á, án þess að nokkur þörf sé á víða þar sem útgöngubann er í gildi.

Ísland er fámennt land og vanmegnugt, en hefur samt rödd innan NATO, Norðurlandaráðs og Sameinuðu þjóðanna. Þá stöðu ættum við að nýta núna og láta þá skoðun heyrast, hvar sem því verður við komið, að til þess sé ætlast að Sameinuðu þjóðirnar sem og aðrir, sem fara með fjölþjóðlegt vald og fjölþjóðlegt samstarf, sýni nú af sér forustu þannig að með samræmdum hætti verði unninn sigur á þessum vágesti sem fyrst.  

 

 


Hið þekkta óþekkta

Fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna Donald Rumsfeld talaði um "the known, unknown", hið þekkta óþekkta þ.e. meint gereyðingarvopn þáverandi einræðisherra í Írak, Saddam Hussein. Rumsfeld sagði að hið þekkta væri að Saddam ætti gereyðingarvopn, en það væri óþekkt hvar þau væru.

Kórónuveiran hefur breiðst út til flestra landa, en staðreyndir um hana eru mjög á reiki, t.d.fjöldi smitaðra og dánartíðni. Það þekkta óþekkta, er að kórónuveiran er þekkt, en það er ekki vitað hversu slæmar afleiðingar hún hefur.

Í slíku andrúmslofti er hætta á, að sá sem hæst galar ráði för. Kári Stefánsson hefur bent réttilega á, að í sumum tilvikum eru stjórnvöld að grípa til ráðstafana, sem eru meira í ætt við lýðskrum en sjúkdómsvarnir.

En hversu hættulegur er kórónuvírusin? Fjöldi smitaðra er vafalaust vantalinn og verulega óþekktur, en fjöldi látinna er sennilega rétt skráður. Skráning á smitum er í skötulíki í nánast öllum löndum í heiminum, hvort heldur það er Ítalía eða Íran eða Bretland og Bandaríkin. 

Fáar ef nokkrar þjóðir  hafa jafngott yfirlit yfir fjölda smitaðra og Suður Kórea og Ísland. Hér hafa yfir 150 manns smitast, ekkert dauðsfall hefur orðið sem betur fer og einungis þrír hafa farið á sjúkrahús. Þó við og Suður Kórea höfum bestu skráninguna, þá eru sennilega fleiri smitaðir en vitað er um. 

Í Suður Kóreu hefur veiran verið í gangi frá seinni hluta janúar. Meira en 8000 hafa smitast. Suður Kórea er í fjórða sæti landa í heiminum yfir fjölda smitaðra. Suður Kórea er e.t.v. líkust okkur hvað varðar góða skráningu smita. Kannað hefur verið hjá meir en 220 þúsund manns, hvort þeir væru smitaðir, fleiri en í nokkur öðru landi. Treysta má tölum frá þeim um hvað varðar dánartíðni af völdum veirunnar. Skv. frétt í Daily Telegraph í dag eru 67 dauðsföll rakin til veirunnar í Suður Kóreu eða 0.8% af þeim sem fá veiruna. Þá virðist yfirvöldum í Suður Kóreu ganga hvað best að ráða við málið þó þeir hafi ekki gripið til jafnyfirgripsmikilla ráðstafana og t.d. Ítalir, Danir,Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Ef til vill er það vegna þess, að yfirvöld í Suður Kóreu gera allt sem þau geta til að koma upplýsingum til borgaranna. Íbúar Suður Kóreu eru meðvitaðir um samfélagslega ábyrgð sína og allir geta fengið skimun á því hvort það er sýkt eða ekki með auðveldum hætti algjörlega ókeypis. Er ekki ástæða til að taka Suður Kóreu til fyrirmyndar í vörnum gegn veirunni, að því leyti sem við höfum ekki þegar gert það? 

 


Pólitísk yfirboð eða nauðsyn?

Bandaríkjamenn hafa bannað flugferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir útbreiðslu Kórónaveirunnar. Ferðabannið er vanhugsað svo vægt sé til orða tekið.

Smit greinast í öllum heimsálfum. Hefðu Bandaríkjamenn viljað vera sjálfum sér samkvæmir, hefðu þeir sett 30 daga bann á flugferðir frá öllum löndum en ekki bara Evrópu. Slíkt hefði raunar líka verið vanhugsað.

Á tímum skorts hugmyndafræðilegrar staðfestu stjórnmálamanna eiga geðþóttaákvarðanir og pólitísk yfirboð greiðari aðgang að ráðamönnum. Krampakenndar aðgerðir stjórnvalda á Ítalíu og í Danmörku í baráttunni við veiruna sýna það heldur betur. 

Enn sem komið er hafa íslensk stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld haldið haus og ekki farið fram með óeðlilegum glannagangi. Ákvarðanir hafa verið markvissar og fumlausar, þó að spurningamerki megi setja við það hvort eðlilegt sé að halda fullfrísku fólki í sóttkví.

Vonandi halda heilbrigðsyfirvöld áfram að nálgast vandamálið af fagmennsku án þess að láta æsingafólk, sem reynir að slá pólitískar keilur vegna alvarlegs sjúkdóms rugla sig í ríminu.

Þó þessi sjúkdómur sé alvarlegur og dánartíðni há, þá hefur hann hvergi verið með þeim hætti að það afsaki að Bandaríkjamenn, Ítalir og fleiri beiti aðgerðum sem munu leiða til gríðarlegrar kreppu á heimsvísu með enn ófyrirsjáanlegri afleiðingum en sjúkdómurinn sjálfur. 

Mikilvægast er að gæta sérstaklega að þeim sem veikastir eru fyrir, eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma. Ráðstafanir stjórnvalda ættu sérstaklega að beinast að því að vernda þessa hópa með þeim ráðum sem tiltæk eru. Samkomubann fullfrísks ungs fólks, lokun skóla fyrir börn og unglinga er hinsvegar ekki rétta leiðin. 

Lífið verður að fá að ganga sinn gang, þó allur sé varinn góður. Brýna verður fyrir fólki að viðhafa allar ráðstafanir til að koma í veg fyrir smit og verja veikustu hópana í þjóðfélaginu með öllum skynsamlegum ráðum. 

Þjóðfélagið á ekki að lama með krampakenndum tilefnislausum aðgerðum það mun leiða til kreppu sem yrði mun alvarlegri en tilefni er til. 


Slæmar fréttir frá Tenerife

Sú frétt, að ferðamaður á Tenerife sé smitaður af Kórónaveirunni er eitt það versta sem gat komið fyrir. Tenerife er ferðamannaeyja, þar sem ferðamenn dveljast venjulega ekki lengur en 2-3 vikur. 

Enginn veit hverja sá smitaði umgengst, en hann er á hóteli þar sem um tugur Íslendinga er og hótel sem eru vinsæl af Íslendingum eru í næsta nágrenni. Vinur minn sem ætlaði til Tenerife í morgun, hætti við þegar hann fékk fréttirnar, en hótelið hans er einmitt næsta hótel við það, þar sem fólk er nú í einangrun.

Fólk hefur verið að koma frá Tenerife og mun koma þar sem engar takmarkanir eru á ferðum fólks. Það er því brýn ástæða til að við tökum hættuna alvarlega og gerum strax ráðstafanir til að fræða fólk um það hvernig má draga úr líkum á að smitast og koma fyrir handspritti sem víðast til að fólk geti hreinsað hendur eftir að hafa snert fólk og hluti sem eru útsettir fyrir smit. 

Hætta  á að Kórónaveiran verði greind og dreifi sér á Íslandi er nú raunveruleg. Því miður og þá er allur varinn góður. 


Jógúrt eða Kóka Kóla

Kóka Kóla er ekki talið til hollustuvara og er það ekki. Sykurmagn í Kóka Kóla er himinhátt. Jógúrt er aftur á móti talið til hollustuvara, en allt of fáir vita að sykurmagn í Jógúrt er iðulega hærra en í Kóka Kóla.

Foreldrar sem troða Jógúrt ofan í börnin sín vita sjaldnast um að oftar en ekki er um stórskaðlega næringu að ræða með litlu næringargildi.

Í nýlegri könnun sem gerð var í Bretlandi kemur í ljós, að aðeins grísk jógúrt og hrein jógúrt(natural)eru með lítinn sykur. Öll önnur jógúrt er hásykruð fæða, sem inniheldur iðulega helming af ráðlögðum dagsskammti sykurs.

Það er litið á jógurt sem heilsuvöru mun frekar en ávaxtasafa og sykraða gosdrykki, en staðreyndir úr könnuninni sýna að jógúrtin er iðulega sínu verst.

Hér á landi eru sykraðar mjölkurvörur afar vinsælar og hætt er við að við sláum jafnvel Breta út hvað varðar ofboðssykrun mjólkurvara. Væri ekki ráð, að kanna þetta hér á landi með sama hætti og í Bretlandi.

Það er út af einhverju, sem við erum orðin feitasta þjóð í Evrópu og þar kemur fleira til en ofboðssykruð jógúrt.  


Postulinn Páll og Þjóðkirkjan

Frumvarp um að banna limlestingu á getnaðarlim nýfæddra sveinbarna hefur valdið meiri ólgu og tilfinningaóreiðu en önnur lagafrumvörp sem lögð hafa verið fram á þessu þingi. 

Íslenska þjóðkirkjan hefur blandað sér í málið og telur yfirmaður þeirrar kirkjudeildar að leyfa beri áfram að höggva forhúð af getnaðarlim ómálga sveinbarna, að því er virðist til að komast hjá því að móðga þá sem vilja halda þeim fornaldarsið áfram.

Með þessu neitar þjóðkirkjan sér um að hafa aðra skoðun en þá sem er þóknanleg öðrum trúarhópum. Spurning er hvaða gildi slík kirkjudeild hefur sem sviptir sig heimild til að taka afstöðu, ef það getur valdið því að einhver sé ósáttur við afstöðuna. 

Í frumkristni var umskurnin töluvert til umræðu og postulinn Páll tók mjög eindregna afstöðu gegn því að hún væri eitthvað sem máli skipti og taldi að óumskornir gætu orðið hólpnir í náðarfaðmi Guðs ekkert síður en umskornir. 

Þannig segir Páll postuli í I. Korintubréfi 7.kap 18-19. versi "Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig. Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs."

Biskupinn yfir Íslandi gat ekki tekið undir með Páli postula ef til vill vegna trúfræðilegrar vanþekkingar og e.t.v. vegna vilja til að sýna hversu undansláttarstefna og hugmyndasneyð hinnar evangelísku Lúthersku kirkju er algjör. 

Er ekki rétt að standa með réttindum ungbarna og boðun Páls Postula og leyfa þeim sem vilja láta limlesta kynfæri sín með umskurði að gera það þegar þeir hafa vit á að taka sjálfir þá ákvörðun. 

Þeir sem halda því fram að sú ákvörðun að banna umskurn ungbarna á Íslandi sé móðgun við fornaldarhugsun ákveðinna trúarbragða geta í sjálfu sér gert það, en það má ekki breyta því að við tökum rétta ákvörðun gegn hjátrú og hindurvitnum. Jafnvel þó það séu valdamikil öfl sem styðji ofbeldið. 


Delerandi fullur eða bara delerandi.

Sagt er að frambjóðandi Flokks fólksins í 2. sæti í Norðausturkjördæmi hafi verið delerandi og fullur á framboðsfundi í Menntaskólanum á Akureyri. 

Frambjóðandinn neitar því að hafa verið fullur. En þeir sem skoða myndbandsbrot af fundinum sjá að hann er delerandi.  Taka verður orð frambjóðandans trúanleg um að hann hafi verið bláedrú, þó hann hafi delerað.

Af gefnu tilefninu kom mér í hug saga af forstjóra stórfyrirtækis í New York, sem sagði við starfsfólk sitt, að ef það þyrfti að drekka áfengi í hádeginu, þá óskaði hann þess, að það fengi sér drykki sem lyktuðu þannig að viðskiptavinirnir vissu að þau væru full en ekki svona vitlaus. 

Sitt sýnist greinilega hverjum.


Umskurður

Almennt er viðurkennt að umskurður á kynfærum kvenna eða stúlkna sé viðbjóðsleg árás á frelsi konunnar og gróf misþyrming á líkama hennar, sem hafi varanlegar skaðlegar afleiðingar. 

Í grein sem ég las nýverið er því haldið fram að umskuður á lim karlmanna eða sveinbarna sé í fleiri tilvikum en færri til þess fallinn að valda þeim karlmanni vandræðum sem fyrir því verður.

Fornaldartrúarbrögð hafa þessa ósiði og siðlausa atferli í hávegum. Þeir sem trúa á Gamla testamenntið fylgja boðum Guðs um að færa honum forhúðir drengja svo að Gyðingar megi verða Guðs útvalda þjóð. Það var og- Trúir því einhver að Guð hafi valið einhverja þjóð sérstaklega sem útvalda fram yfir aðrar þjóðir? Sá Guðdómur er þá heldur betur rasískur.

Fólk ætti að fletta upp á 17. kafla fyrstu Mósebókar 9-14. vers þar segir m.a. "Allt karlkyn meðal ykkar skal umskera. Þið skuluð umskera hold forhúðar ykkar. Það er tákn sáttmálans milli mín og ykkar." Guðdómur sem metur forhúð lims ungra drengja svona mikils er vægast sagt pervert.

Nú fjölgar fólki á landi hér frá löndum þar sem umskurður er tíðkaður. Ekki síst umskurður á kynfærum stúlkna.

Umskurður er gróf árás á kynfrelsi og líkama þess sem fyrir því verður hvort heldur er um að ræða svein- eða meybarn. Það ber að banna slíka líkamsárás ótvírætt með lögum.

Í 218.gr.a almennra hegningarlaga er vísað til líkamsárásar á konur og kynfæri hennar. Þar er hins vegar ekki minnst á sambærilega árás á kynfæri drengja. Þá er umskurður sem slíkur ekki beinlínis bannaður.

Það þarf að taka af öll tvímæli um það með beinni lagasetningu að umskurður bæði svein- og meybarna sem og unglinga sé bannaður og liggi þungar refsingar við mun þyngri en eru skv. 218.gr.a almennra hegningarlaga.

Þó svo að einhverjir Gyðingar eða þá Múhameðstrúarmenn telji að sér vegið með því, þá verða þeir að sætta sig við sjónarmið okkar um réttindi einstaklingis og vald einstaklingsins yfir eigin líkama hvort sem það er í þessu máli eða öðrum.


Er það svo?

Í dag kom utanríkisráðherra lýðveldisins Íslands á framfæri mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar við stefnu Bandaríkjaforseta í innflytjendamálum. Af því tilefni tók utanríkisráðherra fram í nafni íslensku þjóðarinnar.

"Bandaríkin hafa ætíð og framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum."

Er það svo?

Eftir að Bandaríkin voru fullmótuð hefur það verið miklum takmörkunum háð að vera samþykktur af stjórnvöldum sem innflytjandi með full borgararéttindi. Þess vegna þurfti fólk t.d. að dveljast langdvölum á Ellis Island fyrir utan New York þangað til það gat sýnt fram á að það væri ekki haldið sjúkdómum og gæti séð fyrir sér sjálft. Bandaríkjamenn voru ekki að taka við ómegð eins og Evrópa þ.á.m. Ísland eru að gera í dag.

Á þessari öld hefur verið reynt að sporna við innflutningi fólks til Bandaríkjanna með ýmsu móti. M.a. hefur verið reist girðing og múr að hluta eftir landamærum Bandaríkjanna og Mexícó og á tíma Obama var þessi landamæravarsla aukin, en dugar ekki til og þess vegna segist Trump ætla að gera hana markvissa til að ætlunarverk Obama um að koma í veg fyrir innflytjendastraum frá Mexícó verði að veruleika.

Staðreyndin er sú að á þessari öld hafa Bandaríkin ekki framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum nema síður sé.

Annar hluti mótmæla utanríkisráðherra er við þeirri ákvörðun Bandaríkjaforseta, að veita ekki fé skattborgaranna til upplýsingagjafar um fóstureyðingar.  

Forsendur ríkisstjórnarinnar í nafni íslensku þjóðarinnar eru:  

"Aðgengi að öruggum fóstureyðingum er mikilvægt mannréttinda- og heilbrigðismál".

Er það svo?

Hvar stendur það í íslensku stjórnarskránni að aðgengi að öruggum fóstureyðingum sé mannréttindamál. Er það að finna í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða Mannréttindasáttmála Evrópu eða Mannréttindalögum Íslands?

Það er eitt að hafa ákveðnar skoðanir. Annað að færa fram sanngirnisrök fyrir þeim. Síðan er spurning hvort þjóðríki  er að abbast upp á önnur ríki og stjórnvöld með þessar skoðanir.

En er það virkilega svo að íslenska ríkisstjórnin telji ástæðu til að hlutast til um það að öruggar fóstureyðingar verði leyfðar og styrktar af fé skattgreiðenda í öllum löndum heims?

Utanríkisráðherra má þá hafa sig allan við að senda mótmæli til þeirra 48 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna þar sem fóstureyðingar eru bannaðar. Í því sambandi er þá líka spurning af hverju beindi íslenska ríkisstjórin ekki mótmælum til þessara 48 ríkja í stað þess að vandræðast við Bandaríkjamenn út af mun minna tilefni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 997
  • Sl. sólarhring: 1000
  • Sl. viku: 4702
  • Frá upphafi: 2587098

Annað

  • Innlit í dag: 931
  • Innlit sl. viku: 4381
  • Gestir í dag: 903
  • IP-tölur í dag: 868

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband