Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Grípum tækifærin

Þegar syrtir í álinn er mörgum gjarnt að sjá ekkert nema svartnættið. Klifað hefur verið á því að C-19 sé fordæmalaus sjúkdómur. Það er rangt. Mörg dæmi eru um sjúkdóma svipaðrar gerðar og farsóttir sem hafa verið mun skæðari. Það sem er fordæmalaust eru viðbrögðin þar sem þjóðfélögum er lokað og fólk skyldað til inniveru svo vikum skiptir.

Við höfum fengið á okkur högg,einkum ferðaþjónustan. C-19 veiran er skepna sem við þekkjum lítið, en smám saman hafa hrotið fróðleiksmolar af borðum vísindamanna. Sumir hverjir þess eðlis, að ætla má, að faraldurinn líði fyrr hjá, en ætlað hafði verið.

Tekist hefur að lágmarka útbreiðsluna hér á landi. Nú er því tími til kominn að athuga þá kosti sem eru í stöðunni. Óhætt ætti að vera að aflétta flestum hömlum sem verið hafa í gildi varðandi atvinnustarfsemi og mannamót, þó fjarlægðarmörk verði áfram virt auk nauðsynlegs hreinlætis.

Íslenska ferðaþjónustan og þjóðin á þá þann kost að markaðssetja Ísland sem land þar sem hvað öruggast er að vera bæði hvað varðar C-19 sem og góða heilbrigðisþjónustu. Ætla má að margir, sem hafa þurft að sætta sig við útgöngubann og inniveru svo vikum og mánuðum skiptir mundi kjósa það helst að fá að komast til lands sem býður upp á öryggi, ómenguð víðerni,hreint loft og vatn.

Við eigum því að vera viðbúin með markaðssókn um leið og ferðatakmörkunum er aflétt. Sá tími kemur fyrr en varir.  


Gleðilegt sumar

Sem betur fer er þessi leiðinlegi vetur veðurfarselga liðinn. Hægt er að horfa vongóður fram á við þó að váboðar séu víða og samfélagið að hluta til lamað. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir veturinn hafa verið í kaldara lagi þ.e. einn kaldasti frá aldamótum og veðurfarið hafi lagst í "skakviðri" frá miðjum desember. Gott orð og það var einmitt skakviðrið sem gerði veturinn svona erfiðan.

Veðurstofan setti iðulega viðvaranir, en síðan kom í ljós að takmörkuð ástæða hafði verið til slíks.Í sjálfu sér er eðlilegt að settar séu viðvaranir þegar veður eru válynd. Gerði stofnunin það ekki yrði henni heldur betur um kennt ef illa færi. Veðurstofan verður því að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Sama gildir í baráttunni við Covid 19. Veirutríóið hefur iðulega sett tilmæli og reglur, í ítrasta varúðarskyni. Það er eðlilegt og þeirra skylda. Síðan er það ríkisstjórnar að meta heildstætt hvort ástæða sé til að fara eftir ráðleggingunum í einu og öllu. En það er hlutverk ríkisstjórnar að taka ákvarðanir út frá heildarmati.

Minna má á íslenska máltækið "Öll él styttir upp um síðir" í þeirri stöðu sem við erum nú á þetta máltæki vel við. Einkum eftir þennan hrakviðrissama vetur. Viðfangsefnið nú er að taka réttar ákvarðanir til þess að élin berjist ekki óðslega langt fram eftir sumri. 

Það er alvöru mál að loka þjóðfélagi og takmarka verðmætasköpun. Það leiðir til þess að tekjur einstaklinga, sveitarfélaga og ríkisins dragast saman sem m.a. leiðir til þess að samfélagsþjónusta minnkar og verður e.t.v. lélegri að gæðum. Það getur líka kostað mannslíf. Þessvegna er nauðsynlegt að við getum sem fyrst horft á gróandi þjóðlíf þar sem fólk tekst á við vandamál hversdagsins og áttar sig á að á endanum þá er "hver sinnar gæfu smiður".

Erfiðir tímar vara ekki að elífu. Duglegt fólk leysir vandamálin. Það getur tekið tíma. Þeim mun styttri tíma sem við sýnum sameiginlega þjóðfélagslega ábyrgð og ætlumst til meira af okkur sjálfum en öðrum. 

Gleðilegt sumar. 

 


Ekki staðurinn eða tíminn.

WHO hefur gefið rangar upplýsingar og stutt kínversku kommúnistastjórnina í því að ljúga að heimsbyggðinni.

Rifjum aðeins upp: 

2019

30.12. Kínverskur læknir Li Wenliang 34 ára varar   við hættulegri veiru. Lögreglan þaggar niður í honum.

31.12. Taiwan hefur samband við WHO eftir að hafa séð skýrslu Li Wenliang um að veiran smitist á milli fólks. WHO heldur skýrslunni leyndri.

2020

3.1. Heilbrigðisyfirvöld í Kína krefjast þess af læknum og sjúkrastofnunum, að engar upplýsingar séu gefnar um veiruna.

9.1. Kína tilkynnir um undarlegan sjúkdóm í Wuhan.

14.1 Tíst frá WHO. Engar sannanir fyrir að veiran smitist milli fólks. 

20.1. Kína tilkynnir að smit berist á milli manna.

23.1. Wuhan héraðið lokað af en fram til þess voru ferðir frjálsar frá Wuhan til hvaða lands í heimi, en ferðabann var frá Wuhan til annarra héraða Kína á sama tíma.

28.1  Tedros framkvæmdastjóri WHO ber lof á Kínversku ríkisstjórnina fyrir góð viðbrögð við veirunni og lofar þau fyrir upplýsingagjöf.

30.1. Tedros heimsækir Kína og lofar stjórnvöld fyrir frábær viðbrögð til að vinna bug á veirunni.

31.1. Trump Bandaríkjaforseti tilkynnir um bann við flugferðum til Bandaríkjanna sem taki gildi 2.2.

4.2. Tedros framkvæmdastjóri átelur Bandaríkjaforseta vegna ferðabannsins og segir það geta haft alvarlegar afleiðingar og aukið á ótta fólks án þess að hafa jákvæða heilsufarslega þýðingu.

7.2. Le Wenliang læknir sá sem fyrstur vakti athygli á veirunni deyr.

14.2 Tedros varar fólk við að gagnrýna Kína nú sé ekki rétti staðurinn eða tíminn.

28.2. WHO gefur út 40 síðna skýrslu þar sem framganga Kínverja við að ráða niðurlögum veirunnar eru lofuð.

11.3. Tedros yfirlýsir að um heimsfaraldur sé að ræða.

18.3. Yfirmaður hjá WHO gagnrýnir Trump fyrir að tala um Kínaveiru.

29.3. Ai Fen læknir í Wuhan sem var meðal þeirra fyrstu til að vara við veirunni hverfur. Talið að kínversk stjórnvöld beri ábyrgð á því.

Þessi upptalning sýnir að WHO hafði aldrei frumkvæði og lagði aldrei neitt til sem skipti máli varðandi veiruna. WHO brást algjörlega. WHO er algjörlega í vasanum á Kínverjum. Þá sést líka, að Kínverjar leyndu staðreyndum eins lengi og þeir gátu um veiruna. 

Á meðan ferðabann var frá Wuhan til Kína var ekkert ferðabann frá Wuhan til annarra landa. Veiran dreifðist óhindrað út frá Kína. Kínversk yfirvöld héldu því fram lengi að veiran smitaðist ekki á milli fólks þó svo þau vissu að það var rangt. Tedros WHO forstjóri tók undir það og sagði lengi vel að veiran smitaðist ekki á milli fólks. Hvar skyldu rannsóknirnar sem réttlætu þær yfirlýsingar vera. Einfalt: Þær eru ekki til. Þetta var argasta lygi og bæði Tedros og kínversk stjórnvöld vissu það.

Til er orðtæki sem segir "margur verður af aurum api." Það mætti útfæra og segja "Margur verður af annars aurum api." Það virðist svo sannarlega eiga við um þær ríkisstjórnir Vesturlanda sem fordæma þá ákvörðun Trump að greiða ekki að sinni til WHO. Hvað þá heldur þann stjórnmálamann á Vesturlöndum, utanríkisráðherra Íslands, sem jók í kjölfarið framlag til WHO.

Stjórnmálamenn á Vesturlöndum eru á nálum yfir því að missa velvild kínverskra stjórnvalda og hafa látið þá gera sig að viðundri allt of lengi. Þeir hafa ekki staðið með lýðræði og mannréttindum til að njóta viðskiptalegrar náðarsólar Kínverja. Nú reynir á. Ætlar Evrópa að standa með þeim gildum, sem hafa skapað frelsi og velmegun í álfunni eða á að halda áfram að standa með ófrelsinu og afsaka það, að Kínverjar skuli hafa hrint af stað heimsfaraldri sem þeim hefði verið í lófa lagið að koma í veg fyrir og segja satt og fá aðrar þjóðir í lið með sér á upphafsdögum veirunnar. 

Í leiðara Fréttablaðsins á fimmtudaginn var vísað í aðgerðir Trump gagnvart WHO og sagt að nú "væri hvorki rétti staðurinn eða tíminn til að vandræðast við WHO. Nákvæmlega sama sögðu stjórnmálamenn og íþróttaforusta Evrópu fyrir Olympíuleikana í Berlín. Þó vitað væri um mannréttindabrot nasista og ofsóknir gegn Gyðingum þá sameinaðist hagsmunakór velviljaðra afglapa í að segja. "Nú er ekki rétti staðurinn eða tíminn til að gagnrýna"  

Seint virðist það ætla að ganga að stjórnvöld lýðræðisríkja grípi tímanlega til sameiginlegra aðgerða gegn ógnar- og einræðisstjórnum þrátt fyrir að þær sýni eðli sitt eins og Kínverjar núna. 

Ef það er ekki rétti staðurinn eða tíminn núna til að láta Kína og WHO svara til saka fyrir afglöp sín, sem valdið hafa heimsfaraldri og ógnar efnahagskerfi Vesturlanda og fleiri svæða í heiminum hvenær þá?

Nú er einmitt rétti staðurinn og tíminn fyrir Vesturlönd til að mótmæla lyginni og krefjast rannsóknar á framgöngu Kínverja og WHO í málinu. 

        

 

 


Danir opna á morgun- Af hverju ekki við?

Dönsk yfirvöld hafa ákveðið að heimila á ný að margvísleg atvinnustarfsemi verði leyst úr viðjum C-19 lokunnar. Fjarri fer því að danir hafi ekki beitt ýtrustu varfærni í samskiptum við þessa veiru og gengið ef eitthvað er lengra en við.

Hárskerar,hárgreiðsla, sjúkraþjálfarar og margar fleiri starfsgreinar verða opnar og til þjónustu frá og með morgundeginum 20.apríl skv. tilkynningu frá dönsku ríkisstjórninni. Skilyrt er að gætt verið ákveðinna leiðbeiningarreglna.

Þar sem samfélagslegt smit hér á landi er komið niður í lágmark er spurning af hverju á að meina þessum starfsstéttum hér að hefja störf næsta hálfa mánuðinn?

Er einhver vitræna glóra í því að halda við stífri lokun til 4. maí og gera höggið á efnahagskerfið enn þyngra en það þyrfti að vera? Er ekki hætta á því að fólk í auknum mæli hætti að vera "almannavarnir" ef samskiptareglur og atvinnustarfsemi er lokað mun lengur en nokkur skynsemi er til að gera það?


Er rétt að styðja WHO eða hætta stuðningi við þá eins og USA

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ákveðið að hætta tuga milljarða fjárhagsstuðningi við WHO. Donald Trump Bandaríkjaforseti liggur undir ámæli fyrir þessa ákvörðun m.a. frá þjóðarleiðtogum, sem leggja hlutfallslega mun minna til WHO en Bandaríkjamenn hafa gert.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur gagnrýnt WHO fyrir að hafa ekki staðið sig þegar C-19 kom upp. Ekki haft forustu. Ekki gengist fyrir samræmdum aðgerðum. Látið þöggun Kínverja framhjá sér fara og stutt þá í þögguninni.  WHO hafi því brugðist hlutverki sínu með hræðilegum afleiðingum, heimsfaraldri C-19. 

WHO hefur ekki staðið fyrir samræmdum aðgerðum til að vinna bug á faraldrinum eins og WHO ber að gera og sýnt af sér ótrúlega vanhæfni. Margir sem komnir eru fram yfir miðjan aldur halda, að Sameinuðu þjóðirnar séu það sem þær voru fyrir 20 árum eða 30 árum eða 40 árum. En því fer fjarri. 

Óstjórn innan SÞ og vanhæfni leiddi til þess m.a. að USA sagði sig frá samstarfi við UNESCO m.a. og fleiri stofnanir og þar var nú Trump ekki að verki.  

WHO hefur enga forustu og hefur ekki burði til þess og það er alvarlegt mál. Þessvegna fara þjóðir heims sínar eigin leiðir og ekkert samræmi er í gjörðum þeirra. WHO brást því og bregst algjörlega ætlunarverki sínu. 

Ekki var hægt að búast við neinu af WHO undir núverandi stjórn. Framkvæmdastjóri þeirra Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus gegndi háum embættum hjá Frelsisfylkingu Marxist Lenínista í Eþíópíu, sem hefur ekki kallað allt ömmu sína þegar kemur að hermdarverkum. Dr. Tedros tilnefndi harðstjóra og einræðisherra Zimbabwe, Robert Mugabe,  sem sérstakan velgjörðar sendiherra WHO. Robert Mugabe stóð fyrir fjöldamorðum á hvítum bændum í Zimbabwe og beitti lét drepa og pynta fjölda stjórnarandstæðinga í Zimbabwe. Þá hefur Dr. Tedros verið í nánu trúnaðarsambandi við Kommúnistastjórnina í Kína. Dr. Tedros hefur því hvorki né mun gagnrýna yfirhilmingar og rangfærslur Kínverja þegar C-19 faraldurinn braust út heldur staðið að þeim með Kínverjum. 

Þessvegna sagði Dr. Tedros í byrjun febrúar 2020 að ekki væri þörf samræmdra aðgerða það kom heldur betur á daginn.

Þegar stofnun eins og WHO sýnir algjöra vanhæfni og vangetu til að sinna því sem þeim er ætlað að gera, þá er eðlilegt að einhverjar þjóðir telji sér nóg boðið og þær neyðist til að fara sínar eigin leiðir. Miðað við frammistöðu WHO og framkomu hvað þá heldur forustu WHO þá er ótrúlegt að ekki skuli fleiri en Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt hana og lýst algeru vantrausti á hana. Stofnunin og framkvæmdastjóri hennar eiga það svo sannarlega skilið. 

Í stað þess að gagnrýna Trump fyrir að gera það rétta í stöðunni ættu ríkisstjórnir Evrópu og fleiri að krefjast þess, að núverandi forusta WHO verði látin fara og hæfir einstaklingar verði kallaðir til í þeirra stað. Það skiptir máli fyrir heimsbyggðina að grípa til slíkra aðgerða í stað þess að ráðast á Trump fyrir að gera það eina rétta í þessari stöðu.

Vanhæft fólk getur ekki verið í forustu þegar baráttan er upp á líf og dauða. 

 


Hvað svo?

Í dag segir breska stórblaðið the Daily Telegraph, að bókanir í ferðir með skemmtiferðaskipum árið 2021 hafi tekið kipp þrátt fyrir hryllingssögur af skemmiferðaskipum í sóttkví vegna C-19. Áhugi fólks á ferðalögum í framtíðinni hefur því ekki minnkað. 

Við ættum því ekki að örvænta hvað varðar íslenska ferðaþjónustu.

Miklu skiptir hvernig heimurinn bregst við á næstunni. Athyglisvert er að sjá hvernig Hong Kong brást við. Hong Kong er í nágrenni við Guangdong í Kína,sem varð illa úti vegna C-19. Faraldurinn náði sér samt ekki á strik í Hong Kong. Einn fremsti veirusérfræðingur Þýskalands Alexander Kekulé bendir á, að þeir hafi byrjað að nota andlitsgrímur fljótlega eftir að fréttist af sjúkdómnum. Hann segir að þær skipti litlu máli úti, en innandyra skipti þær miklu máli. Vígorð hans er "Kein Held ohne Maske" enginn hetja sem er án grímu. 

Mikilvægt er að þjóðfélagið komist sem fyrst í eðlilegt horf, þó brýnt verði áfram fyrir áhættuhópa að gæta sín sérstaklega. Ríkisstjórnin verður að meta heildarhagsmuni í því sambandi og getur ekki endalaust framselt vald sitt til sérfræðinga á afmörkuðum sviðum. 

Af hverju leggja yfirvöld ekki áherslu á að nægt framboð sé af andlitsgrímum og skyldi fólk til að vera með þær t.d. í verslunum og leyfi rökurum og hárgreiðslumeisturum og fleiri þjónustustéttum að vinna vinnuna sína, en skylda þá og viðskiptavinina til að vera með andlitsgrímur meðan smithætta er enn fyrir hendi. 

Mikilvægt er að þjóðfélagið komist sem fyrst í samt lag. Krafa um að fólk sé með andlitsgrímur innandyra í fjölmenni er ekki of hátt verð fyrir það. 

En hvar fáum við fullnægjandi andlitsgrímur í dag? Er það e.t.v. yfirsjón af hálfu þeirra sem öllu ráða, að hafa ekki tryggt fólki nauðsynlegan aðgang að þeim?

 


Sök og ábyrgð Kínverja

Kínverjar reyndu í lengstu lög að þegja staðreyndir um C-19 í hel. Afleiðingin er sú,að hnattrænn faraldur sem kostar þúsundir mannslífa geisar nú um alla veröld.

Afhverju sögðu Kínverjar ekki frá og lugu til um C-19 í langan tíma. Er það e.t.v. í eðli ráðstjórnarríkja, að reyna að láta hlutina alltaf líta öðruvísi út en raunveruleikann.

Aðrar þjóðir gátu ekki brugðist við sjúkdómnum. Í tæpa tvo mánuði þögðu stjórnvöld í Kína þunnu hljóði eða gerðu lítið úr ástandinu. Farþegaflug að og frá Kína gekk sinn vanagang.

Kínverjar lýstu yfir sigri í baráttunni við C-19 þ.19 mars og létu stórkallalega yfir þeim mikla árangri sem þeir hefðu náð og buðu fram aðstoð. En þrátt fyrir að sigri hafi verið lýst yfir í Kína þá er C-19 því miður enn á kreiki í því landi. Ný smit eru greind daglega en Kínverjar segja að það séu allt smit sem séu vegna fólks sem kemur erlendis frá. Spurning er hvort Kínverjar ætli enn á ný að reyna að koma í veg fyrir að staðreyndir um það sem er að gerast nú, berist frá landinu. 

Það er síðan tímanna tákn, að yfirmaður WHO skuli lýsa yfir aðdáun sinni á því hvað Kínverjar hafi staðið sig vel í baráttunni gegn C-19,þrátt fyrir að fyrir liggi að þeir bera ábyrgð á dauða þúsunda vegna þess að þeir reyndu að koma í veg fyrir fréttaflutningi af málinu og vöruðu þjóðir heims ekki við í tíma.

Það eru engir sem bera eins mikla ábyrgð á þessum heimsfaraldri og Kínverjar. En eru þjóðir heims tilbúnir til að gera kröfur til að þeir greiði skaðabætur vegna atferlis síns eða beita þá refsingum vegna þess ábyrgðarleysis sem þeir hafa sýnt af sér gagnvart öryggi borgara annarra þjóða m.a. okkar?


Ólíkt hafast menn að.

Ráðherrar í ríkisstjórn Filipseyja hafa ákveðið að gefa 75% af launum sínum til að hjálpa til við baráttuna gegn Covid 19 veiruna. 

Á Íslandi ákvað ríkisstjórnin að fresta launahækkunum sínum til áramóta. 


Andlitsgrímur.

Austurríki skyldar fólk til að vera með andlitsgrímur í stórmörkuðum og í þýsku borginni Jena er skylt að vera með andlitsgrímur í búðum flugvélum, lestum og strætisvögnum. Tékkar, Slóvakar og Bosnia Herzegovinia ganga enn lengra og skylda fólk til að nota andlitsgrímur á almannafæri. 

Skv nýrri rannsókn sem Daily Telegraph vitnar til í dag kemur fram að noti fólk sem er sýkt af C-19 eða álíka veirum andlitsgrímu, þá dregur það verulega úr fjölda sýkinga sem berast út í andrúmsloftið.

Á sama tíma bendir þýskur sérfræðingur í veirufræðum prófessor Hendrik Streeck á, að það sé í lagi að fara á hárgreiðslustofu eða til rakara, Covid 19 smit berist ekki eins auðveldlega og fólk haldi.

Prófessor Streeck bendir á, eftir rannsókn á heimili sýktrar fjölskyldu hafi ekki verið hægt að finna lifandi C-19 veiru á neinu yfirborði m.a. símum og hurðarhúnum. Þá bendir hann á, að fyrsti C-19 smitaði Þjóðverjinn hafi smitað þá sem voru að borða með henni, en ekki aðra gesti í matsalnum eða á hótelinu. 

Hann segir að C-19 hafi dreifst á fótboltaleikjum,kúbbum og börum og ennfremur "Við vitum að það er ekki um snertismitun að ræða þegar fólk snertir hluti, heldur smitast fólk vegna nándar hvort við annað eins og t.d. á dansgólfinu, fótboltaleikju, skíðabrekkum og við hátíðarhöld.

Þetta tvennt er athyglisvert og hafi Streeck rétt fyrir sér eins og rannsóknir hans sýna, þá hefur spritt- og hanskanotkun sáralitla jafnvel enga þýðingu til að draga úr smiti, þó hvorutveggja stuðli að almennu hreinlæti.

Það er hinsvegar nánd fólks sem skiptir máli við útbreiðslu C-19. Tveggja metra fjarlægðin er því skynsamleg og til þess fallin að koma í veg fyrir smit. En þá skiptir máli líka, að fólk noti andlitsgrímur úti við til að forðast að dreifa smiti. 

Væri ekki eðlilegt að Veirutríóið tæki það til alvarlegrar skoðunar miðað við það sem komið hefur í ljós, að skylda fólk eða alla vega mæla með að fólk væri með andlitsgrímur í stórmörkuðum, almenningsfarartækju og við  ýmis önnur tækifæri.

Þó ég viðurkenni, að ákveðin hjarðhegðun sé nauðsynleg við aðstæður eins og þessar sbr. "ég hlýði Víði," þá er nauðsynlegt í lýðræðisríki að ræða hlutina og komast jafnan að bestu niðurstöðunni miðað við þekkingu okkar hverju sinni. Því enn gildir það, að mennirnir eru ekki Guðir og enginn er óskeikull.  

  


Heilbrigðiskerfið

Íslenska heilbrigðiskerfið er greinilega eitt það besta sem til er í heiminum. 

Í Covid fárinu sem herjar nú á lönd og álfur verður ekki annað séð miðað við það sem kemur fram á hinum ýmsustu fréttastöðvum erlendis, en að íslenska heilbrigðiskerfið sé að standa sig best í baráttunni við Covid veiruna og sinna þeim sjúklingum vel sem þurfa á spítalavist og sérhæfðum búnaði að halda. 

Dánartíðni af veirunni er enn lægst hér og vonandi verður svo áfram.

Þó alltaf megi að öllu finna og fráleitt annað en gerð séu á stundum mistök í svo viðkvæmum málum sem heilbrigðisstarfsfólk þarf að fást við. Þó mistök eigi sér stað, þá verður alltaf að skoða hver er heildarárangurinn og gæðin í alþjóðlegum samanburði

Undanfarin ár hefur heyrst margraddaður söngur úrtölu- og sjálfshirtingarfólks, sem hefur kyrjað það að heilbrigðiskerfið væri ónýtt. Meira að segja hafa samtök og félög lækna sent hin ýmsustu betli- og kröfubréf þannig orðuð að heilbrigðiskerfið væri ónýtt. Jafnvel svo að biði upp á almannahættu.

Þær staðreyndir sem blasa við okkur í dag ættu að sýna, hversu glórulaus opinber umræða getur stundum verið á landi hér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 642
  • Sl. sólarhring: 701
  • Sl. viku: 4347
  • Frá upphafi: 2586743

Annað

  • Innlit í dag: 600
  • Innlit sl. viku: 4050
  • Gestir í dag: 591
  • IP-tölur í dag: 570

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband