Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Kaka eða faðmlag

Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa vakið athygli á því að það sé betra að fólk sem vill gera vel við samstarfsfólk sitt sýni því væntumþykju með faðmlagi eða með öðrum hætti innan siðrænna og viðurkenndra marka í stað þess að færa því kökur eða annað sætmeti,eftir komu frá útlöndum, á afmælum eða öðru tilefni.

Offita, áunnin sykursýki og vaxandi tannskemmdir eru verulegt og vaxandi heilbrigðisvandamál í Bretlandi. Þannig er það einnig hér. Nauðsynlegt er að vinna gegn sykurómenningunni.

Talið er að börn innbyrði að jafnmagni þriggja sykurmola með morgunkorninu sínu á hverjum morgni og sum mun meira. Sykur er nánast í allri tilbúinni fæðu og erfitt að varast hann. Það er heilbrigðismál að vinna gegn sykurneyslu.

Sykur er eins og hvert annað fíkniefni. Aukin sykurneysla kallar á meira magn af fíkniefninu sykri. Sykur kallar fram vellíðan hjá okkur sykurfíklunum og þess vegna sækjumst við í fíkniefnið, þrátt fyrir að vita að líkamlega er það bara vont fyrir okkur.

Á sama hátt og yfirvöld unnu gegn tóbaksreykingum ættu þau nú að setja sér markmið varðandi að draga úr sykur- og þess vegna saltneyslu þjóðarinnar. Það mundi auka vellíðan fólks þegar fram í sækir og draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér, en hann verður þá að eiga þess kost að geta valið ósykraða neysluvöru í stað sykraðrar eins og morgunkorn, brauð o.s.frv. Ef til vill mætti gera eins og með sígarettupakkana að setja varúðarmerki á neysluvörur þar sem sykurmagn er umfram ákveðið viðmið t.d:

VARÚÐ: Óhófleg sykurneysla er hættuleg heilsu þinni.


Dularklæði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frambjóðandi, hefur ítrekað þá skoðun,að banna eigi konum að klæðist búrkum á almannafæri og telur það andstætt hugmyndum um kvenfrelsi og jafnstöðu kynjanna

Vissulega er það rétt að reglur karlaveldisins í Arabíu sem heltekið hefur hinn Íslamska heim fyrirskipar ákveðinn klæðaburð kvenna, sem sýnir í öllum tilvikum veikari stöðu kvenna en karla, en íslamski heimurinn er ekki með sambærilegt "dess code" eða einkennisbúning fyrir karla.

Frjálslynt fólk vill að ríkið hafi sem minnst afskipti af borgurunum og við Þorgerður Katrín eigum það sameiginlegt að deila þeirri skoðun. Það þarf því mikið til að koma til að réttlæta afskipti opinberra aðila af  klæðaburði einstaklinga.  Slík réttlæting kemur m.a. til á grundvelli öryggissjónarmiða.

Á grundvelli öryggissjónarmiða á því að banna að fólk gangi um á almannafæri í dularklæðum. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða búrkur, blæjur eða grímur. Það er öryggisatriði í nútíma samfélagi að fólk gangi ekki um í dularklæðum.

Þorgerður Katrín og aðrir sem kunna að verða kosnir þingmenn í lok þessa mánaðar ættu því að bera fram frumvarp til laga um að bannað væri að klæðast dularklæðum á almannafæri með undantekningum eins og t.d. þegar um grímuball eða þess háttar atburði er að ræða. Banninu væri þá ekki beint að neinum sérstökum hópi heldur næði til allra þjóðfélagsborgara jafnt og hinn oft á tíðum furðulegi Mannréttindadómstóll Evrópu gæti þá ekki sett út á slíka lagasetningu.


500 þúsund deyja árlega úr malaríu og ábyrgð umhverfisverndarsinna.

Í frétt Daily Telegraph 2. júní kom fram að árlega deyja 500.000 einstaklingar vegna malaríu. Á tveggja mínútna fresti deyr barn úr malaríu. Hér er á ferðinni mannlegur harmleikur vegna áhrifa öfga umhverfisverndarsinna.

 Verulegur árangur hafði náðist í baráttunni gegn malaríu fram á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var eiturefnið DDT bannað vegna áróðurs og áhrifa öfga umhverfisverndarsinna.

DDT bjargaði uppskeru, skógum,nytjadýrum og fólki. Árið 1970 taldi stofnunin: U.S National Academy of Science:, að DDT hefði bjargað meir en 500 milljón mannslífum. Ýmsir þar á meðal vísindamenn halda því fram að DDT sé ekki skaðlegt fyrir umhverfið og ætti ekki að banna.

Á Sri Lanka voru árið 1948 voru tæplega 3 milljónir sem smituðumst af malaríu og um 8 þúsund dauðsföll á ári. Með notkun DDT þá  náðist sá árangur árið 1963 að aðeins 17 voru smitaðir af malaríu og ekkert dauðsfall. Eftir að DDT var bannað fjölgaði malaríusmitum á Sri Lanka í 2.5 milljónir nokkrum árum síðar.

Hundruðir þúsunda dóu í Afríku eftir að DDT var bannað. Í Suður Ameríku gekk vel að ráða við malaríu þar sem DDT var notað.

Kostnaðurinn við að úða hús með DDT kostar um 300 krónur á ári. Önnur efni kosta margfalt meira og eru ekki eins áhrifarík.

Rík lönd sem eiga ekki við ógn malaríunar að glíma hóta fátækum löndum refsiaðgerðum ef þau nota DDT. 

Þjóðkirkjan, aðrar kirkjudeildir og annað velmeinandi fólk, sem er annt um fátækt fólk, ætti að taka höndum saman um að vinna bug á malaríunni og nota áhrifaríkusta efnið sem við eigum kost á til að koma í veg  fyrir að hundruðir þúsunda deyi árlega.

Væri það ekki verðugt og í raun skylduverkefni?

 


Er hnattræn hlýnun vond?

Í grein sem Björn Lomborg fyrrum forustumaður í Green Peace skrifaði fyrir nokkru, kemur fram að jörðin er grænni nú en nokkru sinni fyrr vegna aukins koltvísýrings. Lomborg segir að það ætti að vera gleðiefni, en trúboðar hnattrænnar hlýnunar geti ekki lyft umræðunni á það stig að fjalla bæði um kosti og galla breytinga á hitastigi jarðar.

Lomborg bendir á að fleira fólk deyr í heiminum úr kulda en úr hita. Hlýnun jarðar mundi því leiða til fækkunar dauðsfalla. Um 7% dauðsfalla í heiminum er vegna kulda en um hálft prósent deyr úr hita. Í Englandi og Wales deyja árlega um 35 þúsund manns úr kulda en 1.500 úr hita og umtalsverð hlýnun mundi eingöngu draga úr heildarfjölda dauðsfalla vegna veðurfars.

Lomborg bendir einnig á það að gengju spár þeirra eftir sem hafa gert hnattræna hlýnun af mannavöldum að trúaratriði, þá mundu vandamál vegna hlýnunar ekki skapa meiri vandamál árið 2070 miðað við óbreytta tækni en sem næmi um 2% af framleiðslu heimsins eða helmingi  þess tjóns sem alkahól kostar í dag.

En í dag gleyma menn öllum kostnaðinum við ráðstafanir sem ríkisstjórnir hafa gripið til vegna trúrinnar á hnattræna hlýnun af mannavöldum sem Lomborg telur að geti numið allt að 6% af framleiðslu heimsins. Vindorkuver, sólarorkuver, lífeldsneyti o.s.frv. sem allt er gríðarlega niðurgreitt og kostnaðarsamt framleiða innan við hálft prósent af þeirri orku sem notuð er í dag. Mikill kostnaður án nokkurs vitræns árangurs. 

Skammsýni og vanþekking stjórnmálamanna er sennilega kostnaðarsamasti hluturinn varðandi meinta hnattræna hlýnun fyrir utan að auka ríkisumsvif og kostnað skattgreiðenda og draga úr framleiðslu. Þeir eru nefnilega fleiri hundar svartir en hundurinn prestsins.

 


Vér skítseyði borgarinnar

Við Margrét mín erum ekki þurftarfrekustu eða subbulegustu kvikindi borgarinnar, og þá sérstaklega ekki hún. Þar fyrir utan er mér skipað að gæta vel að því að taka dagblöð, pappa og aðrar umbúðir út fyrir sviga og koma þvílíku skarni á gámastöð Sorpu.

Samt sem áður lendum við ítrekað í því að sorptunnan fyllist. Þá verður að fara aukaferðir á gámastöðina.

Þeir sem annast um sorphirðu hjá Reykjavíkurborg sýnist mér gera það af samvisku- og eljusemi, en það dugar ekki til. Reykjavíkurborg er að spara og enn skal dregið úr þjónustu við öll skítseyði þessarar borgar hverju nafni sem nefnast.

Sú var tíðin að Reykjavíkurborg sótti allt sorp. Svo kom Sorpa í þágu vistvænnar sorphirðu og þá þurftu borgararnir að sjá sjálfir um að henda sumu sem áður var sett í sorptunnur.

Nú má ekki tæma ruslatunnur nema þrisvar í mánuði samkvæmt sérstakri ákvörðun borgarstjóra, sem segir það öldungis nóg fyrir hvert venjulegt skítseyði í borginni. 

Vinur minn sagði mér að hann hefði ekki komið frá sér sorpi í sorplúgu fjölbýlishússins síns, en hann býr á fyrstu hæð hússins. Sorp hefði flætt upp að lúgunni. Vinur minn sem er bæði ráðagóður og eðalsnjall brá á það ráð að fara í sorpgeymsluna, en varð þaðan að hverfa þar sem út úr flóði þegar hann opnaði dyrnar og mátti hann hafa sig allan við að geta lokað þeim aftur.

Dagur borgarstjóri og hjörð hans segir að stjórnmál snúist um að forgangsraða og það sé sýnu mikilvægara að þrengja götur í Reykjavík og gera þær illar yfirferðar, en hreinsa almúgasorp. Þau sé auk heldur mikilvægara að reka mannréttindaskrifstofu og kosta ráðgjöf fyrir innflytjendur en hreinsa skítinn frá bornu og barnfæddu almúgafólki.

Á sama tíma auglýsir Reykjavíkurborg: "Borgarbúar fagna grænni tunnu úr plasti." Þessi fagnaðarbylgja fór framhjá mér. Hélt Dagur og félagar fagnaðarsamkomu í tilefni grænu tunnunar. Hverjir fögnuði, hvar og hvenær?

Vinur minn í fjölbýlishúsinu,  sem kemst ekki einu sinni að grænu tunnunni er hins vegar ekki mikill fögnuður í huga þegar ólyktin frá sorpgeymslunni gerir íbúð hans lítt vistvæna þrátt fyrir að Dagur og félagar sjái ástæðu til þess á sama tíma, að fagna grænu tunnunni.


Þróunaraðstoð, kapítalismi, fátækt og framfarir.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði þegar hún varð forsætisráðherra að ósigur kapítalismans væri algjör og Steingrímur J. tók undir. Fullyrðingar Jóhönnu og Steingríms um andlát kapítalismans var röng.  Vinstra fólk básúnar oft fullyrðingar eins og þessar, en skoðar ekki samtímaheimildir hvað þá söguna.

Frá því að Kína tók upp markaðshagkerfi hafa 300 milljónir manna komist frá fátækt til bjargálna á rúmum áratug. Allan tímann sem Maó og hans nótar ríktu dóu milljónir Kínverja úr hungri og skorti á brýnustu lífsnauðsynjum öðrum. Fátækt var landlæg.

Í grein sem Fraser Nelson skrifaði í Daily Telegraph annan í jólum "Capitalism is another good news story at Christmas" bendir hann á auglýsingar um að malaría drepi einn einstakling á mínútu í Afríku og áskorun til fólks að hjálpa. Nelson segir m.a. að það sem auglýsingarnar segi ekki sé hvernig Afríkubúar séu að hjálpa sér sjálf. Malaría sé á hraðara undanhaldi en nokkru sinni áður og dauðsföll af hennar völdum helmingur þess sem var í byrjun aldarinnar. Sömu sögu er að segja um  vannæringu. Vannæring hefur aldrei verið minni í Afríku.

Árið 2015 hefur verið sérstakt ár fyrir Afríku. Engin nýgengni lömunarveiki hefur verið tilkynnt í ár. Aids smit eru helmingi færri en fyrir 15 árum. Stuðningur erlendis frá hefur haft mikla þýðingu en það gleymist, að mikilvægasta aflið á bak við þessa jákvæðu þróun er aukin markaðshyggja. Viðskipti færa mun meiri peninga, velmegun og hreinlæti til Afríku en þróunaraðstoð.

Viðskipti milli landa Afríku hefur fimmfaldast á 15 árum, farsímar eru eins algengir í Nígeríu og Suður-Afríku og í Bretlandi. Velgjörðaraðilar og þróunarstofnanir segja ekki þessa sögu og hafa ekki sömu sýn á nútímann og t.d. Bill Gates sem segir að þróist hlutirnir með sama hætti næstu 20 árin og frjálst markaðshagkerfi ríki og frjáls viðskipti þá verði engin fátæk lönd lengur í heiminum. Leiðin til bætra kjara er með sjálfshjálp og frjálsum viðskiptum á grunvelli markaðshyggjunnar ekki sósíalismans, sem Evrópuríki eru svo upptekin við að gera að sínum veruleika í dag.

Margir geta sagt að Bill Gates sé full bjartsýnn, en séu skoðaðar hagtölur þá benda þær allar til þess að hann hafi rétt fyrir sér. Eða eins og Nelson segir í lok greinar sinnar:

"Þetta er saga sem ekki er sögð mjög oft. Hún er samt saga aldarinnar. Alþjóðavæðing dreifir hugmyndum, lyfjum og auði. Hún dregur úr misrétti og færir fólk nær hvert öðru. Með aukinni markaðshyggju gæti fátækt heyrt sögunni til eftir allt saman."


Birgitta, Björk og Katrín og orsök og afleiðing

Kapteinn Pírata sagðist hafa verið í miklum sálarháska vegna setu við hlið Jóns Gunnarssonar fyrir ári síðan. Svo var að heyra að kapteinninn, Birgitta Jónsdóttir hefði beðið varanlegan sálrænan skaða af þessari hjásetu Jóns.

Jón Gunnarsson stóð upp á Alþingi til að bera af sér áburð Birgittu og sagðist ekki vita til annars en hann væri hin dánumannlegasti til hjásetu og hefði frekar verið sóst eftir honum til slíkra hluta en að við því væri amast.

Væntanlegur formaður Hræðslubandalagsins, Katrín Jakobsdóttir nú formaður Vinstri grænna sagði þá úr ræðustól Alþingis að þetta væri mátulegt á Jón þar sem hann hefði talað óvirðulega um Björku Guðmundsdóttur söngkonu. Kapteinninn, Birgitta sagði að þar sem Jón hefði talað niður til Bjarkar þá hefði hún áttað sig á því hversu ömurlegur sessunautur Jón hefði verið ári áður.

Þjóðin getur verið stolt af því að eiga þingmenn sem greina jafn vel og þær Katrín og Birgitta orsök og afleiðingar. Katrín telur að ummæli Birgittu um ömurleika hjásetu Jóns verði réttlætt á þeim grundvelli að Jón hefði talað óvirðulega um Björk söngkonu. Birgitta segir þá að tilefni þess að hún taldi Jón Gunnarsson ógeðfelldan sessunaut hafi verið ummæli hans um Björku söngkonu.

Jón Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir sátu ekki saman þegar Jón sagði þessi orð um Björku og andstyggð Birgittu á hjásetu Jóns gat því ekki komið til nema vegna þess að hún sé kona svo forvitri að hún hafi vitað af því að Jón mundi í framtíðinni tala óvirðulega um Björk og því þjáðst í hjarta sínu og líkama yfir því sem mundi gerast í framtíðinni meðan Jón sat í makindum við hlið hennar og uggði ekki að sér.

Tilvonandi formaður Hræðslubandalagsins hefur ekki sömu skynjunarhæfileika um það ókomna og Birgitta, en sér orsakasamband milli þess að Jón sé slæmur til hjásetu og þeirra orða sem hann viðhafði um Björku söngkonu.

Slík næmni fyrir orsök og afleiðingu hefur sjaldan heyrst úr ræðustól Alþingis og hafa margir þó átt þar góða spretti. Þær Birgitta og Katrín Jakobs eiga þakkir skildar fyrir að opinbera þjóðinni með jafn skírum hætti þá rökrænu samfellu sem hugsun þeirra einkennist af.


Læknaverkfall og RÚV

Enn einu sinni kom fréttastofa Ríkisútvarpsins á óvart í síðasta læknaverkfalli.

Burtséð frá því hvort kröfur lækna væru sanngjarnar eða ósanngjarnar eða hvort samningamenn ríkis eða lækna væru bilgjarnar eða óbilgjarnar þá afsakaði það ekki með hvaða hætti fréttastofa Ríkissjónvarpsins flutti fréttir á þeim tíma sem læknaverkfallið stóð.

Dag eftir dag í hverjum fréttatíma voru samviskusamlega fluttar fréttir af þeirri vá sem væri að skapast á sjúkrahúsum og þá hættu sem landsmönnum væri búin ef svo héldi fram sem horfði varðandi læknadeiluna. Þá voru okkur samviskusamlega flutar fréttir af einstaklingum sem ættu um sárt að binda vegna verkfalls lækna. Svo langt gekk það að daginn áður en samið var flutti ríkissjónvarpið fréttir af ungum dreng sem væri fórnarlamb læknaverkfallsins jafnvel þó að í ljós kæmi síðar að aðgerð hans og töf á því að ljúka henni hefði ekkert með læknadeiluna að geera.

Einhliða áróður og ávirk umfjöllun fréttastofu RÚV af læknadeilunni og meint ömurlegt ástand í heilbrigðismálum var langt frá því að vera hlutlæg umfjöllun og minnti um margt á áróðursferðina sem þessi sama fréttastofa fór í gegn mönnum og málefnum frá október 2008 og fram á mitt ár 2009 í framhaldi af bankahruninu.

Fyrst á annað borð er verið að troða upp á mann ríkisrekinni fréttastofu sem fólk verður að borga fyrir hvort sem því líkar eða ekki þá er lágmarkskrafan að gætt sé þokkalegrar hlutlægni við val og framsetningu frétta og fréttaflutningurinn sé vandaður og ítarlegur. En því miður þá skortir á allt þetta.

Mér verður stundum hugsað til þess þegar sá mæti fréttamaður Haukur Hólm var einn um hituna á Útvarpi Sögu að þá fannst mér hann flytja mun vandaðri og ítarlegri fréttir en nú þegar hann er ásamt þeim tugum fréttamanna sem daglega koma að því að vinna fréttir fyrir okkur á RÚV.  Óeintanlega veltir maður því fyrir sér hvað veldur.


Af eintómri göfugmennsku

Formaður læknafélagsins útskýrði fyrir landsmönnum að verkfallsaðgerðir lækna snúist ekki um að þeir fái meiri launahækkanir en aðrir. Þvert á móti snýst deilan um framtíð heilbrigðisþjónustu í landinu. Þetta göfuga markmið kjarabaráttu lækna hefur því ekkert með það að gera að þeir fái 200 þúsund krónum hærri laun á mánuði eins og krafist er heldur sú göfugmennska að efla heilbrigðisþjónustuna.

Með sama hætti lýsti heilbrigðisráðherra því yfir að hann vildi hækka laun lækna, en vissi ekki hvernig og það vildi fjármálaráðherra líka en vissi heldur ekki hvernig. Göfugmennskan væri  allsráðandi á þar sem leitað væri leiða til að efla heilbrigðisþjónustuna eins er meginatriði baráttu læknanna að sögn formanns þeirra.

Fyrst allir aðilar eru fullir göfugmennsku og læknunum er ekki annt um launahækkanir sínar heldur heilbrigðiskerfið eins og ríkisstjórninni þá virðist læknadeilan snúast um úrræðaleysi og hugmyndasneyð þeirra sem fara með þessi mál á báða bóga.

En úr því verður vafalaust leist á grundvelli göfugmennskunnar sér í lagi þegar forustumönnum þjóðar og hagsmunaaðila finnst ástæða til að tala af alvöru í stað þess að halda að það séu að yfirgnæfandi meirihluta fávitar (fyrirgefið má ekki nota setjist í staðinn: rökfræðilega frábrugðnir einstaklingar) sem þeir eru að tala til.  

 


Bólusetningar og smitsjúkdómar

Um miðja síðustu öld voru þróuð bóluefni gegn ýmsum smitsjúkdómum sem herjuðu á þeim tíma á yngri kynslóðina. Vel tókst til og þessum sjúkdómum eins og t.d. kíghósta, bólusótt, mislingum og lömunarveiki var nánast útrýmt á Vesturlöndum.

Þegar váin hverfur þá minnkar óttinn og skilningurinn á hræðilegum afleiðingum smitsjúkdóma eins og þeirra sem bent er á að ofan. Þeir sjúkdómar sem áður hjuggu mikil skörð í barnahópa voru ekki sjáanlegir eða hættulegir lengur. Afleiðingin af því hefur verið sú að allt of margir sjá ekki ástæðu til að vera á varðbergi og láta bólusetja börnin sín. Einnig hafa risið upp falsspámenn eins og á öllum tímum sem finna bólusetningum allt til foráttu og hvetja fólk til að láta ekki bólusetja börn sín.

Afleiðing af öllu þessu er að smitsjúkdómar eins og þeir sem ég nefni að framan hafa stungið sér niður víða í okkar heimshluta og í Bandaríkunum. Árið 1941 voru kíghóstasmit í Bandaríkjunum 222.000 en voru ekki nema 1000 árið 1971 vegna bólusetninga. En á árinu 2010 voru kíghóstasmit í Bandaríkjunum orðin tæp 50.000 og tíu börn dóu úr kíghóstasmiti í Kaliforníu einni saman.

Það er því ábyrgðarhluti og getur verið dýrkeypt að láta ekki bólusetja börnin sín.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 137
  • Sl. sólarhring: 1137
  • Sl. viku: 4786
  • Frá upphafi: 2587250

Annað

  • Innlit í dag: 123
  • Innlit sl. viku: 4460
  • Gestir í dag: 123
  • IP-tölur í dag: 121

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband