Leita í fréttum mbl.is

Við skulum senda samúðarkveðjur til Rússa.

Föstudaginn 22. mars var framið hræðilegt hryðjuverk í tónlistarhöll í Moskvu. Íslamskir hryðjuverkamenn ÍSIS voru að verki og myrtu unga fólkið, sem var að fylgjast með tónleikum, með köldu blóði. Tala látinna er nú 137 manns. 

Hryðjuverk eru alltaf fordæmanleg og ekki skiptir máli á hverjum þau bitna. ÍSIS hafa tvisvar áður framið mannskæð hryðjuverk í tónlistarhúsum annars vegar í Bataclan í París og hins vegar í Manchester á Englandi. 

Þegar hryðjuverkin voru framin í Bataclan og Manchester sendu íslenskir ráðamenn strax samúðarkveðjur til ríkisstjórna og/eða forseta viðkomandi landa.

Nú að kvöldi dags tveim dögum eftir þetta hryllilega hryðjuverk ÍSIS í Rússlandi, hafa íslenskir ráðamenn ekki hafi haft döngun í sér til að senda Rússum samúðarkveðjur. Það er þeim til skammar. Vonandi verður úr þessu bætt strax.  

 

 


Líkið gengur aftur og aftur

Bankasýsla ríkisins er skondið fyrirbæri, en lífdagar hennar voru ákveðnar með lögum. Þrátt fyrir dánardægrið, hélt líkið áfram, enda hagkvæmt fyrir fjármálaráðherra að geta skammtað Lalla frænda og öðrum handgengnum góðan bitling.

Í kjölfar klúðurs við sölu hluta í Íslandsbanka tilkynnti síðan forsætisráðherra ábúðarmikil, að bankasýslan væri lögð niður. 

Nú bregður svo við, að bankastjóri Landsbankans, sem er í eigu allra landsmanna telur rétt að þjónusta fyrrum útrásarvíkinga og þeirra líka með því að kaupa tryggingarfélag, sem bankinn hefur ekkert með að gera, til að kynda undir nýjan gleðileik í fármálalífinu a la 2007 og fjárfestisins George Zoros.

Fjármálaráðherra var að vonum ofboðið og lýsti því yfir á Podcasti, samskiptamiðlun fína fólksins, að hún telji rangt að ríkisbankinn kaupi tryggingarfélag og peningunum yrði betur varið með því að hún geti sólundað þeim til að stoppa upp í fjárlagagatið í stað sparnaðar eða aukinnar ráðdeildar.  

Bankastjóri banka allra landsmanna svaraði um hæl á fjölmiðlum og sagði ráðherranum ekki koma þetta við. Landsbankinn væri ekki ríkisbanki. Bankinn starfaði á einhverju Astral plani,að geðþótta bankastjóra og bankaráðs og hún ætlaði hvað sem ráðherrann segði að kaupa tryggingarfélag fyrir offjár. 

Gætnir menn og raunagóðir í fjármálalífi og dyntum bankakerfisins, sáu að þetta gat ekki gengið skv. öllum eðlilegum viðmiðunum í fjármálalífinu hefði Landsbankanum borið að upplýsa eiganda sinn með fullnægjandi hætti um meiriháttar fjárfestingu eins og þá að kaupa tryggingarfélag, sem kom bankarekstrinum ekkert við. Jafnvel hefði verið eðlilegt að bankastjórinn pantaði viðtal hjá fjármálaráðherra til að upplýsa hana um málið og falast eftir hennar skoðunum sem eiganda bankans. Hægt er um vik þar sem innan við 300 metrar eru á milli skrifstofu bankastjórans og fjármálaráðherra. Varla hefðu síðan gullhringirnir dottið af fjármálaráðherra eða bankastjóranum með því að biðja aðstoðarmenn sína um að hringja í gagnaðila um leið og það lá fyrir að einhver meiningarmunur eða ágreiningur væri uppi.

 

En þessi tegund mannlegra samskipta virðast hafa verið þeim ofraun og því var rykinu dustað af Bankasýslunni, líkinu, sem forsætisráðherra hafði tilkynnt rúmu ári áður að heyrði sögunni til.

Eftir því sem næst verður komist miðlaði líkið ekki upplýsingum sem því barst og þurfti nokkurn að undra það. Lík eða uppvakningar eru almennt ekki notuð til boðmiðlunar í nútíma þjóðfélagi, sem fetað hefur sig inn á gervigreind þegar þeirri mannlegu sleppir.

Þannig liggur þá málið fyrir að spurningin er um hver sagði hvað við hvern hvenær eða hver sagði ekki hvað við einhvern aldrei. Í þessu gruggi syndir síðan fyrrum Bankadrottningin Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sem fékk 100 milljónir í meðgjöf frá Kviku banka og hefur eðlilega skoðun á þessu og þá aðeins formlega um hver hefði átt að segja hvað við hvern hvenær en ekki efnislega hvort þjóðbankinn eigi að kaupa tryggingarfélag eða ekki og henni fer eins og var með Ketil skræk frænda hennar, sem sagði forðum: "Sáuð þið hvernig ég tók hann"  þegar Skugga Sveinn hafði lagt andstæðinga þeirra að velli.

Bankastjóri vill kaupa. Eigandinn vill ekki kaupa og foringi stjórnarandstöðunnar vill beita umræðustjórnmálum um það sem ekki skiptir máli lengur. 

Ekki verður séð að feðraveldið hafi haft nokkra aðkomu að málinu og þessvegna er það e.t.v. í þessum farvegi. 

 


Bloggfærslur 24. mars 2024

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 3079
  • Frá upphafi: 2294757

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 2808
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband