Leita í fréttum mbl.is

Auðlindir og þjóðaratkvæði

Stuðfólkið Björk og Ómar hefur haldið söngvahátíðir til að vekja athygli á undirskriftarsöfnun. Rúmlega 48 þúsund undirskriftir hafa komið undir áskorun sem er verulegum annmörkum háð. Talsmaður samtakanna telur þetta vera boð um allsherjar þjóðnýtingu orkuauðlinda og er helst á honum að skilja að þar eigi að fara á svig við ákvæði stjórnarskrár um að fullt verð skuli koma fyrir verðmætin sem taka á eignarnámi.

Nú má einu gilda hversu mikið færri undirskriftirnar eru en 48 þúsund en ég sé það á vefnum að inni í talningunni af þeim síðustu 100 sem skrifa undir eru m.a. Kalli kúkur og 7777 ásamt ýmsum öðrum vafasömum aðilum.  Hvað sem því líður þá er ljóst að mikill fjöldi skrifar undir þessa áskorun. Þess vegna er slæmt að hún skuli vera jafn ómarkviss og röng og raun ber vitni.

Áskorunin er svona:

"Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra."

Nú er þess ekki getið af stuðboltunum hvað þá talsmanninum að salan á HS Orku hefur þegar farið fram.  Áskorunin er því marklaus hvað það varðar eins og  talsmaður hópsins viðurkenndi í viðtali við Karl Th. Birgisson í útvarpi fyrir nokkru. Eðlilegra hefði verið að hópurinn hefði orðað fyrri hluta áskorunarinnar þannig:  "Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að eyða 32 milljörðum af almannafé til að þjóðnýta orkuréttindi Magma Energy."   Ætli þúsund manns hefðu verið tilbúnir til að beina þeirri áskorun til stjórnvalda? Þetta er það sem Magma fjárfesti fyrir þegar í maí 2010.

Varðandi síðari hluta áskorunarinnar þá er spurt, gildir það sama um allar orkuauðlindir, nýtingu þeirra og eignarráð? Hvað með bæjarlækinn, vindorkuna og heita vatnið sem búandkarlar nota sumsstaðar til að gera heimarafstöðvar og/eða til upphitunar? Ótal fleiri spurninga mætti spyrja

Vatnsréttindi hvað með þau? Mikil umræða hefur verið um vatnalög og margir komið þar að. Má e.t.v. minna á gott starf Lúðvíks Bergvinssonar fyrrum þingflokksformanns Samfylkingarinnar og nefndar hans um þau atriði, en þar fór fram mikil og flókin sérfræðivinna. Hvað í sambandi við þá löggjöf vill fólk að greitt verði þjóðaratkvæði? Það kemur ekki fram í þessari yfirborðslegu og að hluta til villandi áskorun.

Það hefði verið betra ef áskorunin hefði fjallað um að taka upp svipaða löggfjöf og er í Alaska varðandi eignarráð á þjóðarauðlindum, en þangað tel ég að við Íslendingar eigum að leita fyrirmynda.

Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að setjast niður með þeim Ómari, Björku og Jóni aðstoðarmanni til að ræða málin. Fróðlegt verður að vita hvernig þeim viðræðum verður háttað. Skyldi Jóhanna ætla að ræða það af hverju ríkisstjórn hennar vildi ekki kaupa vatnsréttindin af HS Orku, yfirtaka þau eða semja við Magma um styttingu nýtingartímans. Skyldi hún ætla að ómerkja það mikla starf sem ýmsir sérfræðingar hennar eigin flokks hafa þegar unnið á þessu sviði. Skyldi hún ætla að boða fráhvarf frá reglum  Evrópusambandsins í þessum málaflokki. Eða skyldi hún ætla að segja stuðboltunum og Jóni aðstoðar að þetta sé allt saman tóm vitleysa. Fróðlegt verður að heyra hver niðurstaðan verður af fundinum og hvort forsætisráðherra hefur dug í sér og uppburði til að tala mannamál við mannskapinn  og segja því skoðun sína tæpitungulaust. En ekki síður láta þau vita hvað hún ætlar að gera og hvað ekki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Jóhann er nú einskonar stuðbolti líka. Aldrei gleymist mér augnaráðið og munnherpan þegar hún horfði á Jón Baldvin á Aðalfundi kratanna rétt áður en hún sagði sinn tíma koma.Það var sko alvöru stuð.

Þetta þjóðfélag er á öruggri siglingu undir forystu Ómars stjórnlagaþingmanns og seiðsöng sírenunnar Bjarkar.

Halldór Jónsson, 16.1.2011 kl. 19:42

2 Smámynd: Jónas Egilsson

Það er fullkominn réttur hvers og eins að tjá sig um sínar skoðanir og reyna að hafa áhrif á skoðanir annarra. Það hins vegar nokkur lúxus að geta tekið jafn rómantíska afstöðu eins og eins og Björk gerir í þessu máli. Hún þarf að ekki að hafa fjárhagslegar áhyggjur og getur látið sig dreyma. Það er hins vegar nokkuð sem flest okkar hinna hafa ekki og enn síður þau fjölmörgu sem bíða eftir því að atvinnutækifæri. Draumar eru ekki alltaf veruleiki og skila litlu áþreifanlegu í veskið eða á matardiskinn. Það er því líka ábyrgðarhlutur að setja fram skoðanir af því tagi sem Björk og vinir hennar gera.

Jónas Egilsson, 16.1.2011 kl. 19:51

3 Smámynd: Jón Magnússon

Já því miður þá virðist siglinginn vera nokkuð örugg að feigðarósnum Halldór. En við skulum nú bíða við og sjá hvað Jóhanna segir við þetta sporgöngufólk þjóðnýtingarnnar á morgun.  Varð ekki Samfylkingin annars markaðshyggjuflokkur við stofnun. Var það ekki þess vegna m.a. sem að Steingrímur og Co mynduðu sérstakan vinstri flokk?

Jón Magnússon, 16.1.2011 kl. 22:23

4 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu eiga allir rétt á að tjá skoðanir sínar, en ég er sammála þér Jónas að það er ábyrgðarhluti að setja fram skoðanir með þeim hætti sem þau gera sérstaklega stjórnlagaþingmaðurinn Ómar og Jón Árnason aðstoðarmaður Evu Joly.

Jón er í raun ekki að prédika annað en hreinræktaðan kommúnisma.  En ég er hræddur um að bæði Björk og Ómar séu í hlutverki hinna nytsömu sakleysingja í þeim leik.

Jón Magnússon, 16.1.2011 kl. 22:26

5 identicon

Kommúnisma? Nennirðu að rökstyðja það?

marat (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 02:35

6 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Það er einn galli við umræðuna um að "setja auðlindir í þjóðareigu" og hann er sá að það er svo gott sem aldrei minnst á hvaða auðlindir er um að ræða. Fiskinn? Vatnið? Jarðhita? Fjöllin? Grasið? Mannauðinn? Gróður? Eðalmálmar? Jöklarnir? "Hreina loftið okkar"? Hugvit?

Svona óræðin umræða er bara til að æra óstöðugan. Ég sé alveg fyrir mér að Stjórnlaganefnd setji þetta ákvæði inn í tillögu sína um "auðlindir í eigu þjóðarinnar" og svo verður það þá næsti óræði hlutinn í stjórnarskránni sem mun svo valda enn meiri deilum um hvað í þessu felst heldur en gerðist þegar ÓRG neitaði að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið. 

Stjórnarskráin á að vera stutt og skýr. Ekki óljós. Sama á við um svona áskoranir eins og "rödd þjóðarinnar" stendur fyrir (eins hrokafullt nafn og það er). Þessi yfirlýsing sem þarna er "skrifað undir" eins óljós og ótæk og hægt er að hafa það. Ekki einungis er verið að biðja fólk um að styðja í raun 32-33 milljarða kostnað/skuldsetningu ríkisins heldur einnig að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem varla er minnst á hvað á að vera (þjóðaratkvæðagreiðslan). Jón Þórisson sagði reyndar í viðtali á Rás 2 að þetta hafi verið skilið eftir opið af ásetningi þar sem sú umræða (smáatriðin) væri sjálfstæður áfangi, en Guð minn góður hvað sú umræða þarf að vera á betri forsendum og raunsærri en sá málstaður sem Jón og Co standa fyrir. Að fara í vegferð sem er góðra gjalda verð, án þess að hafa að leiðarljósi "smáatriði" eins og Stjórnarskrá Íslands (þar sem bannað er að þjóðnýta nema fyrir fullt verð) er stórhættulegt. Og borðleggjandi dæmi um af hverju réttlætisreiði, án rökhugsunar og raunsæis, gengur ekki upp.

Það sem eftir stendur er að núna eru Björk og co að krefjast þess að HS Orka verði þjóðnýtt, og þá verður slíkt gert skv. stjórnarskrá og fullt verð kemur fyrir. Er í lagi þá að krefjast slíks þegar "einhver annar" borgar, og sá "einhver annar" erum við skattborgarar? Nóg er maður nú skattpíndur fyrir!! ÞETTA VERÐUR EKKERT ÓKEYPIS!

Sigurjón Sveinsson, 17.1.2011 kl. 11:20

7 Smámynd: Jón Magnússon

Nei Marat þú getur flett upp í bókum til að afla þér upplýsinga um hvers konar stjórnmálastefna það er ef þú ekki veist það þá þegar, sem ég held raunar að þú vitir en viljir drepa umræðunni á dreif.

Jón Magnússon, 17.1.2011 kl. 12:35

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir einstaklega góða og markvissa færslu Sigurjón.

Jón Magnússon, 17.1.2011 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 120
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 3061
  • Frá upphafi: 2294680

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 2790
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband