Leita í fréttum mbl.is

Skuldir heimilanna. Tillögur á Landsfundi.

Ég hef borið fram eftirfarandi breytingartillögur í nefndinni um Skuldavanda heimilanna á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins:

"Tillaga 1. UpphafSjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum.  Sjálfstæðisflokkurinn leggur í því  sambandi áherslu á að ungt fólk eigi kost á hagkvæmum lánum til húsnæðiskaupa.  Séreignastefnan á húsnæði á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklingana og betri lífskjör.  Skattstefnu og gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga vegna bygginga eigin húsnæðis verður að stilla mjög í hóf til að auðvelda einstaklingunum að koma sér upp þaki yfir höfuðið.  Tillaga 2. Fjármögnun íbúðarhúsnæðisLandsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðislána og lána til neytenda verði komið í svipað horf og það er á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Þannig verði verðtrygging af húsnæðis- og neytendalánum afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur tryggð. Þess verði gætt að gjald- og vaxtataka lánastofnana verði svipuð og í nágrannalöndum  okkar. Þá telur Landsfundur Sjálfstæðisflokksins brýnt að fram fari skoðun á orsökum þess að lánakjör eru önnur og verri á Íslandi en um ræðir annars staðar í okkar heimshluta.  Tillaga 3 Úrvinnsla skulda heimilanna

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur réttlátt að höfuðstóll verðtryggðra lána verði færður til þeirrar viðmiðunarvísitölu sem var í gildi 1.10.2008.  Frá 1.10.2008 hefur íbúðarverð lækkað gríðarlega í verði. Á sama tíma hefur verið samdráttur í þjóðarframleiðslu og veruleg rauntekjulækkun.  Taka verður tillit til þessara staðreynda og gæta þess að réttlæti ráði ferðinni við úrvinnslu skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja. Þannig verði miðað við almennar aðgerðir til að leysa skuldavandann en ekki sértækar. Með sértækum aðgerðum hefur verið og verður búið til ójafnræði milli borgaranna. Með þeirri niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra  lána sem hér er lagt til er ekki lengur um forsendubrest að ræða og tryggt er eðlilegt jafnræði fjármagnseigenda og skuldara." 

Þetta eru tillögur um almennar aðgerðir varðandi skuldavanda fólksins í landinu í stað þeirra sértæku aðgerða sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur gripið til. Tillögur sem leysa ekki vandann, en mismuna hins vegar fólki.  Þannig á það ekki að vera og þess vegna verða tillögur til lausnar skuldavandans vegna efnahagshrunsins að vera almennar- mismunun borgaranna gengur ekki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góðar og vandaðar tillögur.

Sigurður Þórðarson, 18.11.2011 kl. 22:44

2 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Athyglisverðar tillögur, sem vonandi fá vandaða umræðu í nefndinni. Ef þær næðu fram að ganga þá myndi Sjálfstæðisflokkurinn taka frumkvæðið í umræðunni um úrræði fyrir heimilin. Hér er um réttlætismál að ræða, en jafnframt mál sem myndi m.a. hleypa lífi í frosinn fasteignamarkað. Það verður hins vegar þrautin þyngri að ná svo róttækum tillögum í gegn á þessum landsfundi nema fyrir liggi ýtarleg greinagerð um útfærslu. Voandi er hún fyrir hendi. 

Jón Baldur Lorange, 18.11.2011 kl. 22:58

3 identicon

Líst vel á þetta hjá þér, vonandi nær þetta í gegn.

Almenn leiðrétting er nauðsynleg til að lágmarka ósanngirni milli fólks í mismunandi aðstöðu.

svo þurfum við bara að fara að fá kosningar :)

Emil Emilsson (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 23:17

4 identicon

Mikið vildi ég að svona tillögur fengju hljómgrunn hjá ráðamönnum þessarar þjóðar.  Ef landsfundurinn samþykkir þessar tillögur er enn von í þessu landi.  Nú verða menn að hætta að tala og fara að framkvæma.  Við þurfum virkilega á því að halda að óhæft fólk fari frá og nýir taki við.  Jón takk fyrir margar góðar tillögur í gegnum tíðina

Sigvaldi K. Jónsson (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 23:26

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þú átt þakkir skilið JM að halda jafnvægi. Worldbank heldur um GDP(PPP) í Alþjóðafjármálaheiminum, raunvirði efnahagskerfa, sem er talið endurspegla fasteignaveð.   Tryggja miðað við raunverð er sjálfsagt. Tryggja sölu eldra húsnæðis á raunvirði. Ríkistjórnir eiga gefa upp PPP í upphafi kjörtímabils [útreiknað gengismat Alþjóðagengismarkaðarins] svo kjósendur geti valið ríkistjórnir miðað við hlutlausan mælikvarða. Hætta vaxtatilfærslum milli 80 % Íslenskra heimila. Stilla raunvexti eftir libor millibanka grunnvöxtum í London, er ágætt. Lánsútborganir í félagslega geiranum fylgi alltaf PPP.

Frjálsmarkaður lagar sig að greiðslugetu lántaka ef reglustýring sem tryggir frelsi hans er í lagi. Almenningur: 80% neytenda á Íslandi getur ekki borgað hærri langtíma raunvexti en stærstu bankar í heimi.  Hver verður almenn skuldastaða Íslenskra ellilífeyrisþega eftir 20 ár með sama áframhaldi. 

Júlíus Björnsson, 19.11.2011 kl. 00:53

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ég sé ekkert um það í þessum tillögum þínum hvernig á að fjármagna þessar fokdýru aðgerðir. Það er eðlismunur milli þess að afskrifa kröfur sem eru að mestu eða öllu leyti tapaðar og þess að afskrifa innheimtanlegar kröfur og lenda síðan líka í að þurfa að afskrifa tapaðar kröfur því hjá því verður ekki komist,

Sigurður M Grétarsson, 19.11.2011 kl. 03:33

7 identicon

Gott mál. En afhverju í ósköpum ert þú að koma með þessar tillögur núna, bara þremur árum of seint ? Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið í hann

Kristinn J (IP-tala skráð) 19.11.2011 kl. 08:46

8 identicon

Mestu mistök sem gerð hafa verið í efnahafsmálum, er vafa lítið, að víxitalan hafi ekki verið tekin úr sambandi við Hrunið,allavega tímabundið, og þennan Forsendubrest sem varð á verðtryggðum lánum, við Hrunið verður að lagfæra með einhverjum ráðum, fyrr kemst ekki friður á í þessu þjóðfélagi,vel að merkja var verðbólgumarkmið Seðlabankans 2.5%-4.0% og væri ekki ósangjarnt að þak verði sett á víxitöluna frá 1. jan 2008 og þakið yrði 3.25%farið verði bilbeggja, og þjóðarsátt um það.

Jón Ólafs (IP-tala skráð) 19.11.2011 kl. 11:06

9 identicon

Þann Forsendubrest sem varð á verðtryggðum lánum við Hrunið, verður að leiðrétta með einhverjum ráðum.

Haldór Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.11.2011 kl. 11:40

10 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Sigurður.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:27

11 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála þér Jón og það reyndist alveg rétt hjá þér að það er þrautin þyngri. Það fór meira og minna allur dagurinn í gær frá því fyrir átta og fram eftir degi í nefndinni að afgreiða málið. En á endanum náðist viðunandi málamiðlun þar sem vinir verðtryggingarinnar urðu að láta undan síga. Spyrjum að leikslokum í dag.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:28

12 Smámynd: Jón Magnússon

Já Emil ég reyni mitt besta og kosningar eru ekki langt undan.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:29

13 Smámynd: Jón Magnússon

Sigvaldi ég vona að skilningur fólks aukist á mikilvægi þess að færa niður skuldir með þeim hætti að möguleiki skapist fyrir aukinni þjóðarframleiðslu, hagvexti og meiri atvinnu. Lykillinn að því er m.a. að færa skuldir venjulegs fólks niður en gera ekki bara eitthvað fyrir þá sem eru orðnir algerlega bjargarlausir.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:31

14 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Júlíus.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:31

15 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt Sigurður að það koma ekki fram tillögur um fjármögnun.  Þannig er það líka varðandi aðrar tillögur og markmiðssetningu í stjórnmálum. Svo sem tillögur í skólamálum. Málefnum aldraðra. Heilbrigðismálum og ég gæti haldið áfram að telja. Það væri að mörgu leyti heppilegt að gera kröfu til þess að tillögur kæmu fram um heildarfjármögnun alltaf.   En ég vil benda þér á að Steingrímur einn hefur kostað okkur með framlögum í VBS, Sögu, Sjóvá, Sp.Kef  um 70 milljarða og þá er ótalið ýmislegt annað eins og t.d. Byr. Kostnaðurinn við Steingrím J. einan er tæpur helmingur þess fjár sem þarf til þeirrar sanngjörnu niðurfærslu höfuðstólanna sem ég legg til. Því til viðbótar Sigurður er eðlilegt að þeir sem nutu hagnaðar af hækkunum sem engin forsenda var fyrir þufi að endurgreiða m.a. með því að lagðir yrðu á svipaðir skattar og hafa stundum verið lagðir á í Bretlandi og Bandaríkjunum við svipaðar aðstæður og nefnast "Wind fall taxes"

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:36

16 Smámynd: Jón Magnússon

Kristinn í þringræðu sem ég flutti þ. 6.10.2008 við umræður um neyðarlögin sagði ég að þetta væru og yrðu  vera fyrstu neyðarlögin sem væru sett vegna þess veruleika sem við blasti við hrun bankanna. Það yrðu að koma önnur lög þar sem vísitala verðtryggðra lána væri tekin úr sambandi og höfðustóll gengislána færður aftur til 1.1.2008. Ég hef klifað á þessu síðan og lagt fram svona tillögur. Þannig að þetta er búin að vera meira en 3 ára barátta fyrir þessu réttlæti Kristinn. Flestir viðurkenna það núna að það hefði verið rétt að gera eins og ég lagði til í október 2008. En það er aldrei of seint að fara að gera rétta  hluti.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:40

17 Smámynd: Halldór Jónsson

3. liður er eins og ég hef alltaf talið rétta að gera strax. Ég styð þetta

Halldór Jónsson, 20.11.2011 kl. 09:40

18 Smámynd: Jón Magnússon

Hjartanlega sammála Jón

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:40

19 Smámynd: Jón Magnússon

Það er einmitt það sem ég er að leggja til að verði gert Halldór.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 09:41

20 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jú Jón það er alveg rétt að oft koma menn með tillögur sem eru kostnaðarsamar án þess að koma með tillögur um fjármögnun á móti. Þær tillögur kosta hins vegara aðeins brot af þeim  hátt í 200 milljörðun króna sem þínar tillögur sem eru reyndar samhljóða tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna kosta.

Hvað varðar skelli ríkisins vegna klúðurs þá er versti skellurinn þeir á þriðja hundrað milljarðar sem gjaldþrot Seðlabankans vegna ástarbréfaviðskiptanna kostar ríkissjóð þar sem maðurinn sem klappaður var upp á landsfundi Sjálfstæðiflokksins og formaður flokksins mærði mikið var aðalgerandinn.

En tökum þessar ávirðingar þínar á Steingrím J.

Ef ekki hefði verið farið úr í að bjarga Sjóvá þá hefði fullt af fólki sem átti skaðabótakröfur á tryggingafélagið ekki fengið tjón sitt bætt. Þar hefði þá í mörgum tilfellum verið um að ræða fólk sem orðið hefur fyrir alvarlegu líkamstjóni sem það hefði ekki fengið bætt. Þar hefði til dæmis verið fólk sem hefur orðið fyrir líkamstjóni í bílslysi þar sem bíll tryggður hjá Sjóvá var í órétti. Þar að auki hefði það hækkað endurtryggingaverð allra íslenskra tryggingafélaga enda var klúðrið fólgið í því að láta menn komast upp með að fjárfesta í áhættufjárfestingum með vátryggingasjoðin sem er lögbrot að því er ég best veit en þú lögfræðingurinn veist sennilega betur

Hvað Sparisjóð Keflavíkur áhrærir þá var ákveðið að ábyrgjast bankainnistæður með neyðarlögunum og ef sparisóðurinn hefði veirð látinn fara á hausinn þá hefði reynt á það. Sá kostnaður hefði getað orðið meiri en kostar að endurreisa hann því það tapast alltaf ákveðin verðmæti þegar slíkum fyrirtækjum er lokað. Það sama á við um Byr. Ég þekki ekki nægjanlega til hinna atriðanna sem þú nefnir til að geta tjáð mig um það.

Niðurstaðan er þó sú að þarna er engan vegin um 70 milljarða að ræað sem valið hefur staðið til að setja í eitthvað annað.

Sigurður M Grétarsson, 20.11.2011 kl. 14:04

21 identicon

Jón. Þú verður þá afsaka mig; ég hafði ekki rekið augun í þingræðu þína og því sem þú hefur klifað á. Hafðu þakkir.

En þú segir "En það er aldrei of seint að fara að gera rétta hluti." vildi bara að rétt væri..

Kristinn (IP-tala skráð) 20.11.2011 kl. 17:35

22 Smámynd: Jón Magnússon

Sigurður það hefði ekki verið vandamál að selja Sjóvá til annars vátryggingafélags án kostnaðar fyrir ríkið. Sparisjóður Keflavíkur er dæmi um meiri háttar afglöp þar sem milljarðar brunnu upp á kostnað skattgreiðenda og endanlegur reikningur vegna þess er ekki kominn fram en talað er nú um 30 milljarða bara vegna Sp/Kef.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 20:32

23 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu afsaka ég það Kristinn en þú getur t.d. lesið þetta í ræðu minni þ. 6.10.2008  í umræðum á Alþingi um neyðarlögin.

Jón Magnússon, 20.11.2011 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 298
  • Sl. sólarhring: 855
  • Sl. viku: 4088
  • Frá upphafi: 2295823

Annað

  • Innlit í dag: 284
  • Innlit sl. viku: 3750
  • Gestir í dag: 279
  • IP-tölur í dag: 273

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband