Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Frjálslyndi eða afturhald.

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tjáðu sig um sinn hvorn málaflokkinn um helgina.  Landbúnaðarráðherra tjáði sig með þeim hætti um landbúnaðarmálin að þar ætti engu að breyta þrátt fyrir alvarlegar ábendingar sem koma farm í síðustu skýrslu OECD þar sem m.a. er bent á að við erum með mesta markaðsstuðning í heimi við landbúnað og fyrirkomulag styrkja í mjólkuriðnaðinum sé slæmt og því þurfi að breyta. Þrátt fyrir það móta landbúnaðarráðherra enga stefnu og neitar að ræað um staðreyndir sem fram koma í skýrslunni.  Þetta er alvarlegt vegna þess að við erum með hæsta markaðsstuðning við landbúnað í heiminum. Við erum með dýrustu matvæli í heimi en þrátt fyrir það búa stórir hópar bænda við kröpp kjör.  Það er því tími til kominn að taka á þessu máli til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Núverandi kyrrstaða hamlar því að dugmikið fólk geti komið búvöruframleiðslunni til þess vegs sem hún á skilið.

Af einhverjum ástæðum var Sigurður Kári Kristjánsson fenginn til að tala á þingi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þar hélt þingmaðurinn því fram að stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar gerðu lítið úr gildil sjávarútvegsins í íslensku þjóðlífi. Þetta kom mér nokkuð á óvart. Hvað hafði þingmaðurinn fyrir sér varðandi þessa staðhæfingu. Jú að menn segðu að sjávarútvegurinn skipti minna máli en áður í þjóðarbúskapnum. Það eru einfaldlega tölulegar staðreyndir. Málflutningur þingmannsins var því byggður í besta falli á misskilningi eða annars á vísvitandi útúrsnúningum. Ég hef ekki orðið var við að nokkur gerði lítið úr gildi sjávarútvegsins í íslenskum þjóðarbúskap hvort heldur þeir styddu ES aðild eða ekki. 

Vandamál Sjálfstæðisflokksins er eins og kristallast í orðum þessara tveggja þingmanna hans að þar er ekki lengur á ferðinni frjó hugsun nýsköpunar heldur stöðnuð afturhaldshyggja kyrrstöðu.


Einkaeign á orkulindunum.

Birgir Tjörvi Pétursson skrifar grein í markaðinn í dag og setur þar fram þá skoðun að eðlilegt sé að einkavæða orkulindir landsins. Helstu rökin sem sett eru fram eru þau að ríki eða sveitarfélög eigi ekki að hafa með þetta að gera þau hafi öðrum og merkari störfum að gegna.

Ég er ósammála Birgi Tjörva. Það er eðlilegt að almannavald hafi með auðlindir þjóðarinnar að gera. Almannavaldið getur síðan heimilað einkaaðilum nýtingu ávkeðinn tíma gegn gjaldi. Íslenski orkumarkaðurinn er svo lítill og svæðisbundinn að engin samkeppni eða í besta falli ófullkominn samkeppni gæti orðið á markaðnum. Eru þá sérstakir kostir í því að láta nokkra auðmenn mynda nýtt GasProm og það á Íslandi. Mundu íslenskir neytendur hagnast á því???? Ég fæ ekki séð að svo mundi verða.

Þjóðin telur eðlilegt að koma í veg fyrir að útlendingar geti eignast hlutdeild í fiskinum í sjónum í kring um landið.  Færa má rök fyrir því að orkan í iðrum jarðar og fallvötnum landsins verði verðmætari og verðmætari með árunum og líklega verðmætari en fiskimiðin í kring um landið.  Skiptir þá ekki máli að orkulindirnar séu þjóðareign?

Það er nauðsynlegt að ræða auðlindamálin áður en fleiri slys verða en þegar eru orðin þannig að þjóðin njóti auðlinda sinna en ekki bara fáir útvaldir sem fái þær að gjöf.

Auðlindir í almannaþágu er vígorð sem frjáslynt fólk í stjórnnmálum á að fylkja sér undir á sama tíma og við skulum efla séreignarréttinn og koma allri atvinnustarfsemi þar sem eðlileg samkeppni getur þróast eða er fyrir hendi til einkaaðila.


Hvað er sjálfstæð rannsókn?

Nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur neitar því sem Júlíus Vífill Ingvarsson heldur fram að stjórn Orkuveitunnar hyggist hefja sjálfstæða rannsókn á málefnum REI.  Samt sem áður viðurkennir stjórnarformaðurinn  að ákveðið hafi verið að nýjum stjórnarmönnum Orkuveitunnar verði afhent gögn varðandi REI þannig að þeir geti gert sér grein fyrir forsögu málsins.

Túlkun orða og orðskilningur getur verið vandmeðfarinn en vegna þessara yfirlýsinga annars vegar Júlíusar Vífils Ingvarssonar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitunnar  og hins vegar Bryndísar Hlöðversdóttur stjórnarformanns Orkuveitunnar á vegum BorgarBræðingsins, þá liggur alla vega fyrir að nýir stjórnarmenn Orkuveitunnar eiga að fá öll gögn í hendur varðandi REI. Til hvers er það gert? Væntanlega er ætlast til þess að nýir fulltrúar lesi gögnin en fari ekki að eins og fyrrverandi stjórn. Hvað svo geri einhver hinna nýju fulltrúa athugasemd við eitthvað sem fram kemur í gögnunum. Athugasemd sem á við full rök að styðjast. Verður hún þá ekki tekin til greina? Eiga stjórnarmenn Orkuveitunnar bara að skoða gögnin eins og um einskonar lestraræfingu á síðkvöldum sé að ræða? Eða er þetta sjálfstæði rannsókn af þeirra hálfu?

Af sjálfu leiðir að þegar lagt er fyrir starfsmenn Orkuveitunnar að útvega öll gögn um REI þá er það gert til að stjórnarmenn  geti kynnt sér þau sjálfstætt og gert sínar sjálfstæðu rannsóknir á þeim.

Hvað kallaði þá á yfirlýsingu Bryndísar Hlöðversdóttir um að túlkun Júlíusar Vífils væri fráleit? 


mbl.is Yfirlýsing stjórnarformanns OR: Túlkun Júlíusar Vífils fráleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjórn Reykjavíkur á alla möguleika vegna REI

Eftir því sem best verður séð af þeim fregnum sem þegar hafa borist til almennings vegna samninga Reykjavík Energy Invest og meintum samruna Geysis Green Energy og REI þá hefur  samningaferlið farið í þann farveg að borgarstjórn Reykjavíkur geti valið þá leið að líta á það sem gert hefur verið sem ógilt.  Hvort heldur er samruna Geysis Green og Rei, verksamninginn og kaupréttarsamningana.  Sé þessi staða fyrir hendi sem virðist líkleg miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram þá er meirihlutinn í Reykjavík ekki bundinn með einum eða neinum hætti af þeim ráðstöfunum sem fyrri meirihluti gerði varðandi Orkuveitu Reykjavíkur og REI.  Nýi meirihlutinn hefur því óbundnar hendur og það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu þeir taka.

Þá vek ég athygli á grein Bolla Héðinssonar hagfræðings í Morgunblaðinu í dag undir heitinu "Ekki meir, ekki meir." en þar segir Bolli. "Getum við sætt okkur við nokkuð annað en allir gjörningar verði færðar á byrjunarreit og nýjar samningaviðræður hefjist um tilhögun og eignarhald fyrirtækjanna?"

Ég svara því þannig að við getum að sjálfsögðu ekki sætt okkur við neitt annað en allir gjörningar verði færðir á byrjunarreit og nýjar samningaviðræður hefjist. Þar verður að gæta þess að náttúruauðlindir borgaranna verði áfram almannaeign og allir borgarar sitji við sama borð varðandi kauprétt og möguleika í REI. Ekkert minna er ásættanlegt.

Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn á möguleika á því að láta alla borgara sitja við sama borð.  Það verður fróðlegt að sjá hvort þeir gera það eða hvort þeir falla á prófinu eins og meirihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn gerði.


Hermdarverk í Írak

Tveir bandarískir hermenn hafa verið dæmdir fyrir fjöldamorð á saklausum borgurum í Íraska bænum Haditha. Frásögnin af þeim hermdarverkum var hræðileg. Fólk sat í mestu makindum við venjulega iðju á heimilum sínum þegar bandarískir hermenn ruddust inn og skutu á allt kvikt.

Innrásin í Írak var gerð til að koma í veg fyrir að Írakar gætu notað gereyðingarvopn sem sagt var að þeir ættu. Í ljós hefur komið að þeir áttu engin slík.  Þegar það lá fyrir sögðu sumir ráðamenn í veröldinni þ.á.m. íslenski forsætisráðherrann sem þá var Halldór Ásgrímsson að það hefði samt verið gott að losna við hinn illa Saddam Hussein. 

Í hverjum mánuði frá því að löglaus innrás Bandaríkjamanna og Breta var gerð með siðferðilegum stuðningi Íslands hafa verið framdir fleiri hermdarverk en að meðaltali á stjórnartíma Saddams.  Tvær milljónir Íraka hafa flúið land. Tvær milljónir til viðbótar eru á flótta utan heimasvæða sinna í Írak sjálfu. Tugir þúsunda saklausra borgara hafa verið drepin. Hver ber ábyrgð á því? Hver skyldi verða dregin fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag til að svara til saka fyrir þá stríðsglæpi? Örugglega ekki George W. Bush jr. 

Hvaða ábyrgð á að láta þá sæta sem drógu Ísland siðferðilega inn í þessa ólöglegu innrás í Írak?


Rússar styrkja stöðu sína sem stórveldi.

Vladimir Pútin hefur hægt og með yfirveguðum hætti byggt upp Rússneska stórveldið. Eftir árásirnar á Bandaríkin 9. september 2001 þá sýndi hann fulla samtöðu með Bandaríkjunum og George W. Bush jr Bandaríkjaforseta. Bush nýtti sér ekki þá framréttu hönd sem Pútín rétti þá fram og hlustaði ekki á varkára stjórnmálamenn í Frakklandi, Þýskalandi og víðar áður en hann hóf herhlaup út í kviksyndið í Írak. Með innrásinni í Írak braut Bush og bandamenn hans reglur Sameinuðu Þjóðanna og innrásin og hernaðurinn er andstæður reglum alþjóðaréttar.

Nú sér Pútín sér leik á borði. Hann aðstoðar Írani við kjarnorkuuppbyggingu þeirra. Hann styrkir stöðu Rússa í nágrannalöndunum og lætur í vaxandi mæli finna fyrir sér á alþjóðavettvangi. Leikurinn er auðveldari en áður vegna þess að stefna Bush hefur veikt Bandaríkin verulega og dregið úr trúverðugleika þeirra því miður.

Það  verður fróðlegt að sjá hvað verður í kosningunum í Rússlandi en líklegt er að bak við andlit þeirra sem kjörnir verða gægist fram sterki maðurinn í Rússneskri pólitík Vladimir Pútin.


mbl.is Pútín vill að Bandaríkin tímasetji brottför hers síns frá Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver bjóst við þessu?

Ég sá ekki ástæðu til að horfa á landsleik Íslands og Lichtenstein. Taldi það gefið að strákarnir okkar mundu vinna Lichtenstein stórt. En svona getur það verið og 3-0 tap fyrir Lichtenstein er meiri háttar áfall fyrir landsliðið.  Nú þýðir heldur betur ekki að hengja haus og gráta eða vandræðast yfir því sem ekki er hægt að breyta heldur láta hendur standa fram úr ermum á móti Dönum.  Það eru held ég miðað við metinn styrkleika þjóðanna í knattspyrnu meiri tölfræðilegar líkur á að við vinnum Dani en Lichtenstein Ísland.
mbl.is Eiður Smári: Þurfum að líta í eigin barm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmennur fundur Frjálslyndra í Reykjavík

Fjölmennur fundur Frjálslyndra var haldinn í gær. Á fundinum var rætt um borgarmál í tilefni nýs meirihlutasamstarfs og vægast sagt sérkennilegra mála tengd Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest.  Fram kom á fundinum sú krafa að við Frjálslynd gætum þess að skera okkur úr í íslenskri pólitík að því leyti að taka málefni fram yfir valdastóla.

Til gamla meirihlutasamstarfsins milli Framsóknar og Sjáflstæðisflokks var ekkert burðugra. Oddvitar listannna komu sér saman um að mynda meirihluta en um hvað lá ekkert fyrir. Dagur Eggertsson er borgarstjóri meirihluta fjögurra aðila sem að því samstarfi koma og þessir aðilar sem mynda meirihlutann hafa ekki komið sér saman um það með hvaða hætti þeir ætla að standa að stjórn borgarinnar. Allir borgarfulltrúar sem nú sitja sem fulltrúar Reykjvíkinga hafa því opinberað að þeir eru ekki í pólitískri baráttu. Ekki í baráttu fyrir þvi að koma einhverjum málum fram heldur fyrir því að fá og hafa völd og njóta bruðlsins sem ríkir í valdstjórninni í Reykjavík.

Bruðlið í Reykjavík er með ólíkindum og undarlegt að fjölmiðlar skuli ekki hafa fjallað meira um það en raun ber vitni.  Er ekki ástæða til að spyrja um tíðar fjölmennar utanlandsferðir stórra sendinefnda. Greiðslur fyrir nefndarsetur.  Greiðslur til borgarfulltrúa.  Bíll og bílstjóri fyrir 3 kjörna fulltrúa í borgarstjórn og áfram má halda og verður haldið.

Við Frjálslynd þurfum að fara í andstöðu við spillilngaröflin í borginni og koma sterkt inn í næstu borgarstjórnarkosningum.  Siðvæðing íslenksra stjórnmála þarf að setja á oddinn. Ekki vanþörf á í Reykjavík.


Dr. Jekyll og Mr. Hyde

Sagan af Dr. Jekyll og Mr. Hyde fjallar um sömu persónuna. Ég man það ekki lengur en minnir þó að Dr. Jekyll hafi verið góður en Mr. Hyde vondur. Hvorugur hafði áhyggjru af því sem hinn hafði gert þó þetta væri sami maðurinn.

Mér datt þessi saga í hug þegar ég las þá merku frétt að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur styðji nú málssókn Svandísar Svavarsdóttur Vinstri grænum til að fá ógiltan eigendafund sem að Vilhjálmur borgarstjóri og þáverandi meðreiðarsveinar hans stóðu að því að boða.  Fyrir tillögunni mælti fráfarandi borgarstjóri sem áður stóð ásamt þjónum sínum að boðun fundarins sem hann vill nú fá ógiltan.

Það verður  varla sagt  að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé  ekki stefnufastur og samkvæmur sjálfum sér.


mbl.is Sjálfstæðismenn vilja styðja málsókn Svandísar Svavarsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýi meirihlutinn í Reykjavík stóðst fyrsta prófið.

Val Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarmanna á fulltrúum í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var gott. Hægt er að binda vonir við að nýi stjórnarformaðurinn Bryndís Hlöðversdóttir standi sig vel í starfi ólíkt fyrirrennurum hennar. Þá sýnir  val á Jóni Sigurðssyni fyrrum formanni Framsóknarflokksins og Ástráði Haraldssyni hrl. í stjórn Orkuveitunnar að því er ég best fæ séð vilja til að tekið verði til í spillingarfeninu sem hefur verið að gerjast mörg undanfarin ár í Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er mikilvægt að fá allar upplýsingar upp á borðið varðandi Reykjavík Energy Invest og aðra umdeilda fjármálastarfsemi Orkuveitunnar.

Mikilvægast er samt að tryggja borgurunum eignarhald á náttúruauðlindunum hvort heldur Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja og gæta þess að fyrirtækið sinni vel þeirri grunnþjónustu sem Orkuveitunn er ætlað að sinna þ.e að selja borgurunum heitt og kalt vatn og rafmagn á sanngjörnu verði. Það skiptir mestu.

Önnur starfsemi á að vera í höndum annarra aðila. Orkuveitan á ekki að hætta peningum sínum og auðlindum í markaðsstarfsemi sem fyrirtækinu kemur ekki við. Það er nóg komið af slíku.


mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 21
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 4237
  • Frá upphafi: 2449935

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 3948
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband