Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Best er að róa með einni ár í ofsaroki á móti.

Davíð Oddsson og meðreiðarsveinar hans í Seðlabankanum fara þveröfugt að miðað við bandaríska Seðlabankann. Dettur einhverjum í hug að það eigi allt annað við í efnahagslífinu á Íslandi en annarsstaðar í heiminum. Stjórnendur Seðlabankans hafa haldið það í mörg ár og talið sig geta ráðið við verðbólgu með að hækka og hækka stýrivexti og ekkert annað.

Nú er að koma í ljós að efnahagsstefna ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og stefna Seðabankans nokkru áður og síðan hann varð bankastjóri er röng.  Seðlabankinn setur verðbólgumarkmið og ætlar að ná þeim með beitingu stýrivaxta sem hefur haft allt önnur áhrif og mjög skaðleg þegar til lengri tíma er litið.

Hvernig ætlar síðan Seðlabanki að halda verðbólgunni í skefjum þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka útgöldin á þessu ári um rúm 20%. Dettur einhverjum í hug að það gangi upp.

Efnahagsstefna Davíðs og ríkisstjórnarinnar er eins og segir í öfugmælavísunni. "Best er að róa einni ár í ofsaveðri á móti".

Alla vega virðist árangurinn vera sá sami. Hvað gerist þegar róið er með einni ár í ofsaveðri á móti?


mbl.is Bandarískir vextir lækkaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf íslenska samkeppniseftirlitið ekki að gera eitthvað líka?

Breska samkeppniseftirlitið telur ástæðu til að hafa sérstaka gát á stærstu keðjunum í dagvörusölunni. Samt sem áður eru stærstu keðjurnar þar í landi ekki eins hlutfallslega stórar og stærstu keðjurnar hér.

Þarf Samkeppnisstofnun ekki að gera eitthvað í málinu?


mbl.is Breska samkeppniseftirlitið boðar hertar reglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson aldarminning

Það er ánægjulegt að Morgunblaðið  og raunar Fréttablaðið skulu minnast Bjarna Benediktssonar fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra með viðeigandi hætti í dag.

Ég átti því láni að fagna sem ungur maður að kynnast Bjarna Benediktssyni og finnst hann bæði eftirminnilegasti  og mesti stjórnmálamaðurinn sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. 

Bjarni Benediktsson mótaði stefnu Sjálfstæðisflokksins um langa hríð. Á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn stefnufastur borgaraflokkur þar sem hugmyndafræði frjálslyndra borgaralegra viðhorfa og mannúðleg markaðshyggja var inntakið.  Bjarni mótaði utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins og hafði meiri framsýni en aðrir íslenskir stjórnmálamenn á þeim tíma og skilning á mikilvægi þess að Ísland væri í góðum tengslum við vinaþjóðir sínar.  Á þeim tíma mótaði Sjálfstæðisflokkurinn framsýna framtíðarstefnu í utanríkismálum og var ótvíræður forustuflokkur í því efni sem svo mörgu öðru.

Ræðu- og ritgerðarsafn Bjarna Benediktssonar sem Hörður Einarsson hrl. tók saman "Land og lýðveldi"  er ómetanlegur fjársjóður fyrir stórnmálamenn og sagnfræðinga. Þar kemur glögglega fram hversu framsýnn og raunsænn Bjarni Benediktsson var. Mér finnst mjög gott að geta leitað í þetta ritsafn og leyfi mér ítrekað að vitna í orð og stefnu þessa framsýnasta stjórnmálaleiðtoga Íslands á síðustu öld.


44 dagar eftir.

Nú eru 44 dagar eftir fyrir stjórnvöld til að bregðast við áliti mannréttindaefndar Sameinuðu þjóðanna og breyta fiskveiðistjórnarkerfinu til að það sé í samræmi við mannréttindi.

Við þrír þingmenn Frjállslyndra og 3 þingmenn Vinstri grænna lögðum fram þingsályktunartillögu þ.22. janúar s.l. um að Alþingi álykti að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október s.l. og lögum um stjórn fiskveiða breytt  í samræmi við úrskurð hennar  til að tryggja jafnræði borgaranna, sanngirni og mannréttindi.

Mannréttindi eru algild. Þau eru ekki umsemjanleg. Íslenska þjóðin getur ekki sætt sig við að hafa lög sem brjóta gegn mannréttindum. Við því verður að bregðast.  Ríkisstjórnin hefur ekki gert neina grein fyrir því hvort eða hvernig hún hyggst bregðast við niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en sjávarútvegsráðherra hefur jafnan tekið fram þegar þetta mál ber á góma að niðurstaða mannréttindanefndarinnar sé ekki bindandi að þjóðarrétti. Þar er ég honum raunar ekki sammála og það mun koma fram í umræðunum á Alþingi í dag.

En við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu sem vildum fá fram ótvíræðan vilja Alþingis til stuðnings mannréttindum höfum mátt bíða í 98 daga eftir að geta mælt fyrir þessari þingsályktunartillögu okkar eða tvöfalt lengri tíma en það sem eftir er fyrir ríkisstjórnina að bregðast við.


Þungavigtarmenn kveða sér hljóðs um Evrópusambandið.

Fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þeir Þorsteinn Pálsson og Jón Sigurðsson mæla báðir með því í skrifum sínum í blöð í dag að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

 Þorsteinn Pálsson skrifar leiðara í Fréttablaðið þar sem hann segir m.a. "Evrópusambandið er örugglega ekki endastöð í evrópskri þróun. En það er fullkomlega eðlilegur farvegur til að tryggja þá íslensku hagsmuni er hvíla á sömu grundvallargildum sem fyrr. Aðildarspurningin snýst fyrir þá sök um eðlilega þáttöku í framrás tímans í því samfélagi þjóða sem næst standa." 

Þessi niðurstaða fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins er athygliverð að því leyti að hér er ekki töluð nein tæpitunga. Í huga Þorsteins þá er aðildarumsókn að Evrópusambandinu eðlileg.

Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins segir í grein í Morgunblaðinu "Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tími umsóknar er kominn."

Nýleg skoðanakönnun leiðir í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar eða meir en 2 af hverjum 3 telja æskilegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. 

Ég hef lengi talið og látið þá skoðun mína í ljós að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef samt sem áður talið verulega spurningu um það hvort við mundum ná ásættanlegum samningum en það á ekki að hindra okkur í að leita eftir því hvort að framtíðarhagsmunum Íslensku þjóðarinnar getur verið betur borgið með aðild eða án hennar. 

Á endanum snýst spurningin ekki um annað en kalt mat á því hvað  Íslandi og Íslendingum er fyrir bestu niðurstaða um hvort svo getur verið innan eða utan Evrópusambandsins kemur fyrst fram þegar aðildarviðræðum er lokið og þjóðin á þess kost að taka afstöðu til aðildar í þjóðaratkvæðagreiðslu.


Er e.t.v. ráð að hækka stýrivexti?

Að því  hlaut að koma að óábyrg efnahagsstjórn ríkisstjórna og Seðlabanka mundi leiða til mikils efnahagsvanda.  Vandinn er enn meiri vegna þess að ríkisstjórnin er gjörsamlega úrræðalaus. Væri ríkisstjórnin ekki úrræðalaus þá mundi hún nú þegar a.m.k. boðað aðgerðir.

Ef til vill sjá þeir þá einu leið að hækka stýrivexti.

 Hvað hefur ríkisstjórn og Seðlabanki sér til varnar þegar lán einstaklinga hækka um 20-30% vegna óábyrgrar efnahagsstjórnar. Hvað hefur ríkisstjórn og Seðlabanki sér til afsökunar ef hjól atvinnulífsins stöðvast vegna hávaxtastefnu.


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers konar flokkur er Samfylkingin?

Staksteinar Morgunblaðsins á laugardag eru athygliverðir. Þar kemst Staksteinahöfundur að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé ekki jafnaðarmannaflokkur, hún sé heldur ekki sósíaldemókratískur flokkur í hefðbundnum skilningi þess orðs og mjög langt frá því að vera gamli Alþýðuflokkurinn.  Staksteinahöfundur telur að Samfylkingin sé flokkur hinnar vinstri sinnuðu menntaelítu landsins sem hefur engan áhuga á málefnum verkalýðshreyfingarinnar og vinnandi fólks. 

Það má taka undir með Staksteinahöfundi að því marki að Samfylkingin hefur ekki markað sér ákveðna hugmyndafræðilega stöðu sem sósíaldemókratískur flokkur og vinstri sinnaða menntaelítan er þar ansi fyrirferðarmikil.

Samfylkingin hefur leitað eftir stuðningi stórkapítalsins í landinu og formaður flokksins hefur ítrekað boðað að ríkið ætti að taka dýr erlend stórlán á kostnað skattgreiðenda til að gæta hagsmuna stórkapítalsins eins og Staksteinahöfundur Morgunblaðsins kallar það.  

Á það skortir að Samfylkingin hugsi fyrst og fremst um hagsmuni venjulegs íslendings með þó nokkrum heiðarlegum undantekningum sbr. t.d. Jóhönnu Sigurðardóttur og Björgvin G. Sigurðsson, fólk sem hefur fastari rætur í gömlum Alþýðuflokksgildum fremur en hugmyndafræði vinstri sinnuðu menntaelítunnar.

Mér fannst vanta í þessa stuttaralegu úttekt Staksteina sem e.t.v. er von af því að plássið var takmarkað að Samfylkingin var stofnuð til að verða valdaflokkur. Markmiðið með bræðingnum sem fékk nafnið Samfylking var umfram allt að komast til valda valdanna vegna en ekki á grundvelli hugmyndafræðilegrar stöðu og baráttu  flokksins.  Hefði Samfylkingin ekki náð að komast í ríkisstjórn eftir síðustu kosningar er hætt við að kvarnast hefði upp úr þessum sálarlitla valdaflokki.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig risunum tveim í íslenskri pólitík gengur að stjórna. Báðir hafa þeir þá meginskoðun í pólitík að stjórna eigi frá degi til dags. Báðir flokkarnir leita lausna mikillar skattheimtu og mikilla ríkisumsvifa. Það skortir ekkert á sósíalismann. Ekki vegna þess að Samfylkingin reki slíka pólitík heldur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn svo mikill ríkishyggjuflokkru að það er stundum erfitt að greina hvor flokkurinn vill hvað.

Úttekt Staksteinahöfundar á Samfylkingunni kom mér ekki á óvart og ég er að mestu leyti sammála honum en býð spenntur eftir sambærilegri úttekt hans á Sjálfstæðisflokknum.  Það væri annars frólegt að vita hvað fólki finnst almennt um þessa tvo Dínósárusa íslenskra stjórnmála.


Of lítið of seint.

Margir fjalla í dag og hafa fjallað um atburðina sem gerðust við Rauðavatn á miðvikudaginn þegar þar kom til átaka. Ég vil ekki fella dóma. Mér er ljóst að lögreglunni ber skylda til að halda uppi lögum og reglu.  Borgarar hafa líka rétt til að safnast saman og viðhafa mótmæli og eftir atvikum borgaralega óhlýðni. Þeir sem hafa verið sporgöngumenn borgaralegrar óhlýðni hafa alltaf beint því til þeirra sem hana viðhafa að aldrei undir nokkrum kringumstæðum megi beita ofbeldi eða ráðast beint gegn yfirvöldum eða fulltrúum þeirra.  Þegar  borgaralegri óhlýðni er beitt og lögreglan sér sig tilknúna til að koma á lögum og reglu þá er alltaf spurning um hvernig það er gert og hvort farið er fram með þeim hætti og gætni sem krefjast verður af lögreglu í lýðræðisþjóðfélagi. 

Ég hef ekki viljað leggja dóm á það sem þarna gerðist því mér finnast ýmis atriði ekki hafa verið skírð nægjanlega.  Það er eitt en hitt er að til mótmæla kemur iðulega vegna þess að yfirvöld í þessu tilviki ríkisstjórn bregst ekki við aðstæðum með réttum hætti og þá lenda aðilar eins og lögregla og mótmælendur í átökum vegna atriða sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að afgreiða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn getur borið ábyrgð á því að vondir hlutir gerist vegna aðgerðarleysis síns.

Svo dæmi sé nefnt þá hefði átt að vera búið fyrir löngu að lækka verð á díselolíu. Það hefði komið flutningabílstjórum til góða en þeir aka á díselbílum. Það hefði líka verið vistvæn aðgerð. Þá hefði það líka verið sanngjarnt miðað við þær yfirlýsingar sem stjórnvöld gáfu þegar reglum um þungaskatt var breytt. En ríkisstjórnin svaf og ber alla ábyrgð á því að við skulum vera eina landið í Evrópu þar sem díselolía er dýrari en bensín.  Af hverju brást ríkisstjórnin ekki við. Þurfti mótmæli. Að sjálfsögðu átti þess ekki að þurfa. Lækkun olíugjaldsins var og er sanngirnismál.

Reglur um hvíldartíma bílstjóra eru ósveigjanlegar og eðlilegt hefði verið að hafa meiri sveigjanleika. Hægt hefði verið að reyna að gera reglurnar sveigjanlegri án mótmæla.  Sem betur fer hefur samgönguráðherra áttað sig á réttmæti þessara athugasemda atvinnubílstjóra og brugðist við og á hann þakkir skyldar fyrir það.

Atburðirnir við Rauðavatn eru dapurlegir. Ég horfi töluvert á erlendar fréttastöðvar og mér hefur fundist leiðinlegt að horfa á þessi átök á Evrópskum sjónvarpsstöðvum síðustu daga. Það er það eina sem komið hefur frá Íslandi í fréttum í langan tíma. Ekki góð landkynning það og gefur alranga mynd af aðstæðum hér á landi.

Þegar ríkisstjórn bregst ekki við sanngjörnum kröfum tímanlega þá gerast vondir hlutir. Að sjálfsögðu ber hver einstaklingur ábyrgð á gerðum sínum og það er alltaf fordæmanlegt þegar menn beita ofbeldi eða ráðast gegn lögreglu.  Það verður hins vegar að hafa í huga að þessi átök hefðu ekki orðið hefði ríkisstjórnin unnið vinnuna sína í tíma.  Hún hefur enn möguleika til þess og þarf að bregðast við sanngjörnum kröfum fljótt. Það er ekki að láta undan óeirðaseggjum eins og einhver kynni að orða það. Það er að framkvæma það sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu.

Ríkisstjórn má aldrei láta hræða sig frá því að sína sanngirni og gera rétta hluti.


Er til verri umsögn?

Ég var að taka til á borðinu á skrifstofunni minni og forgangsraða eins og það heitir og koma dagatalinu mínu í eðlilegt horf. Dagatalið er "Shakespeare´s insults"  Þá rakst ég á tileinkun laugardagsins síðasta sem mér finnst með betri skammaryrðum sem ég hef heyrt.  Spurning hvort hún gæti átt við ríkisstjórnina? 

"He´s a most notable coward, an infinite and ednless liar, an hourly promise breaker, the owner of no one good quality."   (All´s well that ends well 3.6,9-11) :

Nei annars þetta er jafnvel of slæmt til að geta átt við um ríkisstjórnina þó hún geti átt þetta að hluta.  Vill einhver reyna að þýða þetta með kjarnyrtari hætti en Helgi Hálfdánarson hefur vafalaust þegar gert?


Gleðilegt sumar.

Gleðilegt sumar. Pabbi sagði við mig áðan að það væri alltaf meira gaman að fá sumardaginn fyrsta en vetrardaginn fyrsta. Í sjálfu sér finnst mér það ekki skipta öllu máli. Allar árstíðir hafa sinn sjarma. Ég uppgötvaði það þegar ég eignaðist hund fyrir margt löngu og þurfti að fara í góðan göntutúr með honum vetur sumar vor og haust að veðrið er miklu betra á Íslandi heldur en ég hafði áður haldið og það kom mér á óvart þegar ég var með hundinn í bílnum hvað maður þurfti oft að hugsa til þess að leggja honum í forsælu. Sólin skein miklu oftar en maður hafði haldið.

Ég spái góðu sumri. Sólríku og heitu. Svo er að sjá hvort það gengur eftir.

 En ég þakka þeim fjölmörgu sem ég hef haft saman við að sælda á þessum vetri fyrir sinn þátt í því að gera lífið skemmtilegt og eftirminnilegt. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 193
  • Sl. sólarhring: 833
  • Sl. viku: 4014
  • Frá upphafi: 2427814

Annað

  • Innlit í dag: 180
  • Innlit sl. viku: 3716
  • Gestir í dag: 178
  • IP-tölur í dag: 174

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband