Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Gæfuspor stigið með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu.

Í dag eru 60 ár liðin frá því að Alþingi samþykkti aðild að Atlantshafsbandalaginu. Með því skipuðum við okkur í hóp vestrænna lýðræðisþjóða og tókum afstöðu gegn ógnarstjórnum kommúnista sem þá ógnuðu frelsi og öryggi fólks og þjóða í Evrópu.  Fáir fjölþjóðasamningar hafa haft jafn mikilvæg og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og aðildin að NATO.

Fyrir 60 árum þegar Alþingi ræddi aðild að NATO efndu kommúnistar til óspekta á Austurvelli og aðfarar að lýðræðislega kjörnum fulltrúum í því skyni að reyna að koma í veg fyrir að Alþingi samþykkti aðild að NATO sem betur fer mistókst sú aðför. Hefði hún tekist er hætt við að staða Íslands hefði orðið önnur og verri.

Á 60 ára afmæli aðildar að Atlantshafsbandalaginu þá ætti að minnast þess sérstaklega þegar Ísland tók afstöðu með frelsi gegn helsi. Með frjálsum þjóðum gegn einræðinu. Með mannréttindum gegn ógnarstjórnum.

Það er óneitanlega sérkennilegt að forseti Alþingis skuli ekki sjá neina ástæðu til að minnast þessara merku tímamóta en hópur kommúnista skuli ítreka andstöðu sína gegn NATO með mótmælafundi á Austurvelli. Fólkið sem hefur sannanlega haft rangt fyrir sér í utanríkismálum í 60 ár.


Lánastofnun litla kapítalistans líður undir lok.

Kaupmenn við Laugaveginn stóðu fyrir stofnun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á sínum tíma. Markmiðið var að sparisjóðurinn þeirra gæti verið lánveitandi og bakhjarl smáatvinnurekenda og einyrkja í atvinnurekstri.  Í tímans rás gleymdu stjórnendur SPRON þessu markmiði og breyttu sér í fjárfestingabanka sem veðjaði á lottómarkaðnum.

Hefðu stjórnendur SPRON gætt þess að vinna í samræmi við upphafleg markmið væri SPRON öflugasta bankastofnunin í dag.

Á sínum tíma vildu framsýnir menn steypa lánasjóðum atvinnuveganna saman í einn banka til að greiða fyrir útlánum og fjárhagslegum stuðningi við atvinnufyrirtæki í landinu og sprotafyrirtæki. Fiskveiðisjóður, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður mynduðu Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Sá fjárfestingabanki átti að vera öflugur bakhjarl til eflingar íslenskra atvinnufyrirtækja. Því miður varð sá banki fyrstur til að fara út á lottómarkaðinn og það áður en bankarnir voru einkavæddir.  Einkavæðingin olli því ekki þeim straumhvörfum sem urðu í bankamálum þjóðarinnar öfugt því sem að Steingrímur J og félagar halda fram. FBA rann inn í Íslandsbanka og saman urðu þeir að Glitni og fjármunir lánasjóða atvinnulífsins urðu að engu.

Þessi einföldu dæmi sýna hvað það var mikið óráð að hverfa frá markaðshyggju smákaupmannsins og halda að markaðshyggja Wall Street gæti verið þjóðinni lyftistöng.

Er ekki kominn tími til að endurreisa gömlu gildin í lánamálum.


Afnám verðtryggingar

Ég hef barist fyrir því um árabil að verðtrygging verði afnumin og samfara því að íslenska krónan yrði tengd alþjóðlegri mynt eða tekinn upp fjölþjóðlegur gjaldmiðill. Lengst af hefur mér fundist ég vera eins og hrópandinn í eyðimörkinni því að fáir hafa tekið undir með mér. Ég hef flutt ítrekað tillögur um málið á Alþingi en þær hafa dagað uppi í viðskiptanefnd og aldrei komið til efnislegrar afgreiðslu. Þó var ljóst að fyrri viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson hafði ákveðinn áhuga á málinu.

Bjarni Benediktsson sem gefur kost á sér í formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum hefur nú tekið undir þessa kröfu um afnám verðtryggingar. Í viðtali við Fréttablaðið í dag segir Bjarni "Því tel ég að við eigum að stefna að afnámi verðtryggingarinnar"   Mér þykir því líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn geri það að stefnumáli sínu að verðtrygging verði afnumin.

Færa má gild rök fyrir því að orsök efnahagshrunsins og bágrar fjárhagsstöðu margra sé vegna hrunadansins í kring um sjálfstæða mynt og verðtrygginguna.

Lífskjör á Íslandi verða að vera sambærileg við það sem gerist í löndunum í næsta nágrenni við okkur. Þess vegna verða lánakjör að vera það líka og við verðum að búa við stöðugleika í myntkerfinu.

Það er kominn tími til að breyta og afnema verðtrygginguna.


Of lítil lækkun

Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru allt of háir og eru að kyrkja atvinnulífið í landinu og fjárhag einstaklinganna.  Það eru ekki ný sannindi.

Nýi Seðlabankastjórinn fylgir greinilega sömu stefnu og forverar hans og ríkisstjórnin virðist ekki tala nægjanlega skýrt um nauðsyn þess að gera þurfi grundvallarbreytingar á vaxtakerfinu í landinu.

En við erum greinilega enn í landi ofurvaxtanna og lítil fyrirheit um að breyting verði á því.

Hvernig á að bjarga fjárhag heimila og fyrirtækja með því að fylgja þessari vaxtastefnu áfram?


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 17%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit liggja fyrir.

Ég vil nota þetta tækifæri hér til að þakka þeim fjölmörgu sem studdu mig og greiddu mér atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík nú um helgina.  Niðurstaðan liggur fyrir og kjósendur hafa kveðið upp sinn dóm og þeim dómi verður að una hvort sem frambjóðendum eða stuðningsmönnum þeirra líkar það betur eða verr.

Ég vissi það allan tímann frá því að ég gaf kost á mér í prófkjörinu að það yrði á brattan að sækja. Bæði var það að ég var nýkominn inn í flokkinn eftir 18 ára fjarveru og hafði engin tengsl inn í flokkskerfið í Reykjavík. Það kom í ljós að það skipti máli. 

Ég hef lagt áherslu á að byggja Sjálfstæðisflokkinn upp sem víðsýnan fjöldaflokk og ég tel að það sé mikið verk að vinna til að ná því marki og hef fullan hug á að taka þátt í því uppbyggingarstarfi.

Stefnulega verður Sjálfstæðisflokkurinn að taka ákvörðun um verðtryggingu og íslensku krónuna. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu eða ekki og hvort flokkurinn vill óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi svo nokkur dæmi séu nefnd.

Ég  óska vinum mínum og félögum sem skipa efstu sætin á í prófkjörinu í Reykjavík til hamingju með árangurinn og óska þeim allra heilla í starfi sínu.  Þau eiga mikið og vandasamt verkefni fyrir höndum í þeim erfiðu Alþingiskosningum sem framundan eru.

 


Nýtum atkvæðisréttinn.

Það skiptir máli að sem flest Sjálfstæðisfólk kjósi í prófkjöri til að vilji kjósenda komi sem best fram.  Ég vil hvetja allt Sjálfstæðisfólk til að kjósa og nýta þannig lýðræðislegan rétt sinn til að hafa áhrif á það hverjir skipa framboðslista flokksins í næstu Alþingiskosningum.

Það hefur sjaldan skipt eins miklu máli og nú að Sjálfstæðisflokkurinn nái að skipa lista sína frambjóðendum sem eru líklegir til að laða fylgi að flokknum og byggja upp breiðan víðsýnan og öflugan Sjálfstæðisflokk.

Ég hef boðið mig fram í 3. sæti í prófkjörinu í Reykjavík. Ég vonast  eftir því að fá gott fylgi en það eru kjósendur sem ráða og hver frambjóðandi verður að sætta sig við þau úrslit sem koma í lýðræðislegum kosningum.  Hvernig  sem  gengi mitt verður í þessum kosningum  mun ég gera mitt besta til að vinna Sjálstæðisstefnunni fylgi í Alþingiskosningunum sem framundan eru og síðan í framhaldi af því að  reyna að hafa áhrif á stefnu flokksins og byggja hann upp.

Stöndum saman. Nýtum lýðræðislegan rétt okkar, kjósum og stuðlum að sigri Sjálfstæðisflokksins í næstu Alþingiskosningum.

 


Nokkur atriði sem ég hef lagt áherslu á.

Á grundvelli einstaklingsfrelsis legg ég höfuðáherslu á lækkun skatta,  lækkun opinberra útgjalda og  opinber afskipti af einstaklingunum verði sem minnst.  Hver einstaklingur á í eins ríkum mæli og unnt er að taka sínar eigin efnahagslegu ákvarðanir og ákveða hvaða lífi hann vill lifa. Ég vil samfélag umburðarlyndis, réttlætis og jafnræðis þar sem borgararnir geta  verið virkir þáttakendur og bera ábyrgð  á sjálfum sér. Jón Magnússon Stefnumótun til framtíðar nóv. 2007 

Auk þess geri ég þá kröfu að verðtrygging á lánum verði felld niður og við búum við gjaldmiðil sem hægt er að treysta í öllum viðskiptumJón Magnússon S.l. 15 ár.Það er andstætt öllum hugmyndum markaðshyggjunnar að maður sem fer í áhættufjárfestingu geti velt áhættunni yfir á annan aðila en sjálfan sig. Það kerfi sem hér hefur verið við lýði varðandi bankanna er ekki markaðshyggja heldur það sem ég hef kallað “velferðarkerfi atvinnuveganna” Jón Magnússon Mars 2009   

Markaðshyggja eða kapítalismi er  í hugum flestra köld og fráhrindandi peningahyggju. Stefnuna tengja margir  þjóðfélagslegri mismunun og fátækt. Staðreyndin er þó sú að með sókn markaðshyggjunnar tókst mannkyninu í fyrsta skipti að vinna sigur á örbirgð og hungri og ná fram meira félagslegu réttlæti en áður hafði þekkst. Mannúðlegamarkaðshyggjan varð til og á rætur  í kristilegum hugmyndum vesturlandabúa.Jón Magnússon blaðagrein Nóv 2007  

Nýja Ísland  þarf að byggja á kostum mannúðlegrar markaðshyggju. Þar sem fólkið fær sem mest frelsi til nýsköpunar og arðsköpunar. Þar sem náttúruauðlindir þessa lands eru nýttar fyrir alla í almannaþágu. Þar sem lánakjör eru með því besta sem þekkist í okkar heimshluta og þar sem við byggjum á réttlátu skattkerfi og víðtæku öryggisneti fyrir þá sem þurfa á aðstoð og hjálp að halda.  Það er engin önnur farsæl leið út úr vandanum.Jón Magnússon útvarpserindi Mars 2009.  

Aðild að Evrópusambandinu eða ekki er spurning um yfirvegað rökrænt  hagsmunamat. Hvað er íslensku þjóðinni fyrir bestu í bráð og lengd?  Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn, aðrir flokkar né einstakir stjórnmálamenn geta eða mega leyfa sér að skorast undan því að ræða eða taka heiðarlega afstöðu á grundvelli almennrar skynsemi hvers og eins þegar um jafn mikilvæga þjóðarhagsmuni er að tefla. Jón Magnússon Úr greininni Almenn skynsemi haust 2008.  


Baugur gjaldþrota

Þegar efnahagshrunið varð þá bjóst ég við að Baugur og flest fylgifélög Baugs yrðu fljótlega gjaldþrota. Mér virðist sem sumum finnist það gleðiefni að Baugur skuli nú hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ég skil ekki slík viðhorf því hagur þjóðarinnar er að fyrirtækin gangi vel hvaða nafni sem þau nefnast. En fyrirtæki sem hafa ekki rekstrargrundvöll, eru skuldsett upp fyrir rjáfur og eiga enga peninga þau fara eðlilega í þrot.

Það virðist flest benda til þess að Baugur og skyld félög hafi á undanförnum árum fengið ótrúlega bankafyrirgreiðslu og ég hef ekki heyrt sennilega skýringu hjá þeim sem stýrðu þessu viðskiptaveldi á réttmæti þeirra risalána sem fyrirtæki þeirra fengu. Það stoðar lítið núna að vandræðast með það að Baugur skuli ekki geta verið 100 ár í greiðslustöðvun þegar fyrirtækið skuldar meir en hundrað milljarða umfram eignir. Einn milljarður er mikið fé hvað þá hundrað. Mér finnst satt að segja frekar dapurlegt að hlusta á þá síbylju að fyrirtækið fái ekki tíma til að vinna sig út úr vandræðum. Með hvaða hætti ætluðu forráðamenn Baugs að vinna sig út úr vandræðum. Var einhver skynsamleg áætlun í gangi.

Það er óvirðing við skynsemi fólks að halda því fram að Baugur eða skyld fyrirtæki séu knúin í þrot og ekki hafi verið gefinn eðlilegur tími til að vinna úr vandanum, þegar ekki er gefin nein trúverðug skýring á því hvað stjórnendur gjaldþrota fyrirtækisins ætluðu að gera til að bjarga því.

Meðan skýringarnar koma ekki er þá hægt að taka mark á því að vondir kröfuhafar séu að eyðileggja verðmæti?


Kirkjan komi að velferðarmálum með ákveðnari hætti.

Á fundi sem var á kosningaskrifstofu minni í hádeginu kom fram sú hugmynd frá einum fundargesta að þjóðkirkjan ætti að beita sér í auknum mæli í velferðarmálum fólks t.d. koma að hjálparstarfsemi og opna sérstaka neyðaraðstoð fyrir þá sem á þurfa að  halda.  Mér finnst þetta góð tillaga og kirkjunnar fólk ætti að taka þetta til sérstakrar skoðunar.

Það eru margir sem þurfa á aðstoð að halda og ég tel að tvær þjóðfélagsstofnanir eigi nú að bregðast við sérstaklega en þá er ég að tala um kirkju og kristilega söfnuði og verkalýðshreyfinguna.  Það er mikilvægt að við vinnum að því að komast út úr kreppunni og einstaklingsbundnum erfiðleikum með virkri samhjálp.

Eða eins og segir á einum stað í Nýja Testamentinu: "Berið hvers annars byrðar."


Össur telur sinn tíma kominn.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur undanfarið skemmt sér við að blogga með þeim hætti sem honum einum er lagið. Í síðasta bloggi sem ég las eftir þennan helsta ritsnilling þjóðarinnar þá kallar hann mig ýmist tundurspillaforingja eða skæruliðaforingja. Tilefnið eru málefnalegar umræður sem ég hef haldið uppi um þau dagskrármál þingsins sem hafa verið til umræðu síðustu tvo daga. Annars vegar séreignasparnaðinn í gær og illa ígrundað frumvarp til breytinga á stjórnarskrá í dag.

Á máli utanríkisráðherra þá heita málefnalegar umræður á Alþingi málþóf. Raunar fór besti ræðumaður Samfylkingarinnar að utanríkisráðherra frátöldum mikinn í ræðustól á Alþingi í dag og vildi fá sérstakar skýringar á hugtakinu málþóf. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt þar sem þessi háttvirti þingmaður Mörður Árnason hefur verið og er e.t.v. enn ritstjóri orðabókarinnar. Eðlilegt að hann vilji fá sem gleggstar skýringar á því hvað felst í hugtakinu málþóf. Raunar skýrði hann það sjálfur og hélt því fram að Sjálfstæðismenn væru að beita málþófi.

Málþóf er viðurkennd aðferð stjórnarandstöðu og eitt af þeim fáu tækjum sem stjórnarandstaða hefur og það þekkir Mörður Árnason og Össur Skarphéðinsson foringi hans og leiðtogi vel. Þeir þekkja það vel með hvaða hætti þeir vörðu Baugsmiðlana á sínum tíma þegar fjölmiðlafrumvarpið var til umræðu og komu í veg fyrir að málið fengi farsælan framgang.  Þá stóðu þeir félagar Mörður og Össur fyrir því að halda Alþingi í gíslingu málþófs svo dögum skiptir. Skrýtið að Mörður skyldi þurfa að spyrja að því á Alþingi í dag hvað hugtakið málþóf þýðir. Fáir ættu að geta skýrt það betur en hann ef hann kastar af sér pólitíska hamnum og fer í þann fræðilega.

En Össur telur sinn tíma kominn enda veit hann það jafnvel og ég að hann er mesti þungavigtarmaður Samfylkingarinnar bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 22
  • Sl. sólarhring: 433
  • Sl. viku: 4238
  • Frá upphafi: 2449936

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3949
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband