Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Viðtal við Davíð í Daily Telegraph

Það var athyglivert að sjá stutt viðtal við Davíð Oddsson og umfjöllun um bankahurnið á Íslandi í Daily Telegraph í dag. Davíð virðist ekki hafa haft í huga að taka þetta viðtal mjög alvarlega og slær aðallega á létta strengi þó alvarlegan undirtón megi  að sjálfsögðu finna.

Davíð hefur verið kennt um margt í sambandi við bankahrunið og viðalið er m.a. vegna þess.  Ég varð þess hins vegar ekki var að blaðamaðurinn sem skrifar fréttina og tekur viðtalið sé þeirrar skoðunar. Það er annars með nokkuð sérstökum hætti að fjölmargir fréttamenn á Íslandi hafa aðallega kennt bankastjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitinu um bankahrunið en skauta vel og vandlega fram hjá því að ábyrgðarlaus útlánastarfsemi og glórulausri starfsemi og fjárfestingum helstu stórfyirtækja á Íslandi í útrás var sú höfuðástæða sem felldi bankana ásamt ónýtum gjaldmiðli sem hrundi á undan bönkunum.

Það má kenna Davíð og öðrum sem fylgdu krónunni og flotgenginu um vitlausa stefnumörkun í því efni eins og ég hef oft gagnrýnt og bent á nauðsyn þess að takia upp fjölþjóðlegan gjaldmiðil. Bankahrunið að öðru leyti en það sem skrifast á peningamálastefnuna þá verða þeir sem ráku fyirrtækin sín í þrot að bera ábyrgð á því og með öllu óásættanlegt að þeir skuli geta velt ákveðnum hluta óstjórnar sinnar yfir á skattgreiðendur.

 


Þessi orusta tapaðist. Sú næsta vinnst.

Jóhanna Sigurðardóttir er ótvíræður sigurvegari kosninganna. Nú reynir á Jóhönnu og ég óska henni alls góðs því sannarlega þarf íslenska þjóðin á því að halda.

Vinstri grænir eru að vísu hástökkvarar kosninganna miðað við síðustu alþingiskosningar og eru nú með meira fylgi en róttækir sósíalistaflokkar eru í öðrum þróuðum lýðræðisríkjum. Fróðlegt verður að fylgjast með framgangi þeirra á þessu kjörtímabili miðað við stefnu þeirra, orð og aðgerðir meðan þeir voru í stjórnarandstöðu.

Borgarahreyfingin náði markinu sem þarf til að ná fjórum þingmönnum og er full ástæða til að óska þeim til hamingju með þann árangur. Síðan reynir á að hreyfingin sýni hvað í henni býr pólitískt. í kosningabaráttunni fannst mér vanta skýra mynd á hreyfinguna en þannig er það iðulega með ný framboð. Spurning er hvar Borgarahreyfingin staðsetur sig í litrófinu og hvaða stöðu hún tekur gagnvart ríkisstjórn.

Því miður náði Sjálfstæðisflokkurinn ekki þeim árangri sem ég hafði vonast eftir. Vafalaust koma þar til margar ástæður og full ástæða er fyrir nýja forustu að setja nú þegar niður vinnunefnd til að fara yfir þau atriði sem úrskeiðis fóru í kosningabaráttunni og skilgreina hvaða atriði það voru sem helst ollu því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki betri útkomu en raun ber vitni. Mér fannst ánægjulegt að heyra það í morgun að vinur minn Jón Gunnarsson hefði náð kjöri síðastur inn og óska honum til hamingju með það.

Frjálslyndir eru taparar þessara kosninga og tapa tveim af hverjum 3 atkvæðum sem þeir fengu greidd árið 2007 eða um 67% atkvæðanna. Þetta er með ólíkindum fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu allan tímann.  Það er mér mikið ánægjuefni að nú skuli ekki vera hægt að kenna mér eða vinum mínum sem voru í Nýju afli um þennan ósigur því nú er hann alfarið á ábyrgð Guðjóns Arnars Kristjánssonar og hirðar hans sem hrakti okkur í burtu. Guðjón reyndist eftir allt ekki vera límið í flokknum.

Fróðlegt verður að sjá nýjan stjórnarsáttmála Rauðgrænu ríkisstjórnarinnar og með hvaða hætti ráðherrasætum verður skipað.  Vonandi tekst borgaralegu öflunum í Samfylkingunni að halda aftur af Sósíalistunum.

 


Mikilvægar kosningar

Kosningarnar nú eru einar mikilvægustu frá stofnun lýðveldisins.  Í næstu framtíð verður að takast á við mikinn vanda. Sjaldan hefur skipt eins miklu mál á grundvelli hvaða hugmyndafræði verður tekist á við vandann.

Í fyrsta sinn frá því að Ísland öðlaðist sjálfstæði benda skoðanakannanir til að sósíalistaflokkar nái hreinum meirihluta á Alþingi.  Eins og nú háttar til þegar atvinnuleysi er í hámarki og mikilvægt er að byggja upp fyrirtækin á grundvelli dugnaðar, ósérhlífni og framtaki  sjálfstæðra einstaklinga er hætt við að ríkisstjórn sameignarsinna hugsi frekar um að fjölga ríkistengdum störfum í stað þess að huga að raunverulegri atvinnuupbyggingu.

Kjósendur mættu skoða hvernig flokksbræður Jóhönnu Sigurðardótir stjórna á Englandi og á Spáni. Atvinnuleysi vex á Bretlandi og fyrir tveim dögum lagði Verkamannaflokkurinn enski fram tillögur um gríðarlegas skattahækkanir og önnur hefðbundin úrræði sósíalista sem flestir virðast sammála um að muni eingöngu verða til að dýpka kreppuna á Bretlandi. Sama verður sjálfsagt upp á teningnum hjá flokkssystur þeirra Verkamannaflokksmanna í Bretlandi, Jóhönnu Sigurðardóttur

Á Spáni er nú mesta atvinnuleysi í Evrópu og hefur aldrei verið jafn mikið. Ríkisstjórn sósíalistans Zapatero er gjösamlega ráðalaus. Einu hugmyndirnar eru enn sem komið er  að auka ríkisútgjöldin.

Treysta kjósendur því að samstjórn sósíalistanna muni byggja upp atvinnu í landinu. Er ekki nóg að vitna til skoðana Kolbrúnar Halldórsdóttur og varaformanns VG sem sýna að sá flokkur berst gegn núgtímalegri atvinnusköpun en talar inn í fortíðina um atvinnutækifæri sem ekki eru til, verða ekki til og eru ekki raunhæf. Hætt er við að atvinnuleysið vaxi undir samstjórn Samfylkingar og VG eins og raunin er hjá flokksbræðrum þeirra í ríkisstjórn á Bretlandi og Spáni.

Það er því mikilvægt að efla þá flokka sem byggja á framtaki einstaklinganna. Mér finnst því miklu skipta að Sjálfstæðisflokkurinn fái góðan stuðning til að vera sterkt afl í stjórnarandstöðu sem virðist vera hlutskipti flokksins eins og nú horfir. Það skiptir því máli að staða Sjálfstæðisflokksins verði sem sterkust í stjónarandstöðunni til að VG og Samfylkingin fari ekki sínu fram eins og þeim þóknast.

Það eru ekki aðrir valkostir í dag gegn sameignarsinnum og sósíalistum og fyrir atvinnuuppbyggingu en Sjálfstæðisflokkurinn

 


Skattpíningin verður algjör hjá Rauðgrænu ríkisstjóninni.

Það er athyglivert að talsmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna reyna sem mest þeir geta að tala sem minnst um hvað ríkisstjórnin ætlar að gera eftir kosningar.  Af hverju skyldi það nú vera? Vegna þess að þeir viti ekki hvað þeir ætla að gera? Eða vegna þess að þeir viti það vel að besta leiðin til að reita fylgið af Vinstri Grænum og Samfylkingunni er að gera kjósendum grein fyrir því núna hvað þeirra ríkisstjórn ætlar að gera eftir kosningar.

Mér er nær að halda að Rauðgræna ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar muni beita svipuðum aðferðum og flokksbræður þeirra í Bretlandi. Gordon Brown og Alstair Darling sem beittu Ísland hryðjuverkalögum í október s.l.  Flokksbræðurnir í Bretlandi hafa nú kynnt stefnu sína í ríkisfjármálum og þar kemur fram að stefnt er að stórkostlegum skattahækkunum. Lagður verður á hátekjuskattur. Álögur á áfengi verða hækkaðar.  Skattar á bensín verður hækkað Auk þessa er stefnt að margvíslegum öðrum skattahækkunum. Lántökur  breska ríkisins verða auknar gríðarlega og þjóðarframleiðslan mun dragast saman um 3.5% samkvæmt eigin spá sósíalistanna í Bretlandi.

Ætla má að það sama verði upp á teningnum hjá sósíalistunum í Rauðgrænu ríkisstjórninni hér að ríkisstjórn Samfylkingarinar og VG muni hækka skatta gríðarlega og reyna að skattleggja þjóðina út úr vandanum. Því miður er ég hræddur um að minna fari fyrir sparnaðinum. Hvað skyldi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segja um að leggja niður sendiráð og fækka sendiráðum og afnema aðstoðarmannakerfi sumra þingmanna?  Hún hefur ekki tjáð sig um það. Hennar stefna er að skattleggja þjóðina út úr vandanum og það mun bíða þjóðarinnar fari kosningarnar eins og skoðanakannanir gefa til kynna.

Þjóðin ætti að minnast þess nú af hverju það var vígorð eftir síðustu vinstri stjórn. Aldrei aftur vinstri stjórn.


Stjórnarskráin og umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Forseti ASÍ lýsti yfir vonbrigðum sínum á því að ekki hefði náðst samkomulag um breytingu á stjórnarskránni svo fyrr mætti sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég er Gylfa sammála að þessu leyti m.a. vegna þess að ég tel að það þurfi að breyta stjórnarskránni svo það koma í veg fyrir vafa um að EES samningurinn standist miðað við ákvæði stjórnarskrár.

Ég orðaði þetta við fyrstu umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið og benti á að það væri sérkennilegt að í stjórnarskrárfrumvarp sem Jóhanna Sigurðardóttir væri fyrsti flutningsmaður væru ekki ákvæði sem heimiluðu Alþingi og forseta að gera fjölþjóðlega samninga svipaðs efnis og ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar og tillögu sem m.a. fyrri formaður Samfylkingarinnar flutti á sínum tíma.

Ég sagði við þá umræðu að ég teldi að með  því að flytja ekki slíka breytingartillögu þá kæmi glögglega fram að Samylkingin legði enga áherslu á aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Ég er enn sömu skoðunar þar sem að á þetta var sérstaklega bent og Samfylkingin gerði ekkert í málinu þá leggur flokkurinn greinilega ekki neina áherslu á aðildarviðræður við  Evrópusambandið.


mbl.is 5 sérálit nefndar um Evrópumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slegið á útrétta sáttahönd.

Meiri hluti sérnefndar um stjórnarskrármál taldi ekki ástæðu til að ræða tillögur okkar nefndarfólks Sjálfstæðisflokksins í dag og hafnaði því að leita sátta í málinu. Þetta er í annað skipti sem meiri hlutinn tekur þessa afstöðu. Fyrst þegar málið var tekið út úr nefndinni til annarrar umræðu. Þá var það gert í andstöðu við okkur á þeim tíma sem ljóst var að grundvöllur var til að ræða samkomulag í málinu.

Í meðferð nefndarinnar í því hléi sem gert var á 2. umræðu komu sérstaklega til skoðunar ákvæði 1. og 2. gr. frumvarpsins um náttúruauðlindir og stjórnarskrárbreytingar.  Mikil gagnrýni kom fram frá flestum álitsgjöfum sem komu fyrir nefndina varðandi hugtakið "þjóðareign" þess vegna vildum við koma í veg fyrir fræðilegan ágreining í málinu og breyta orðalaginu þannig að ljóst væri hvað við væri átt og greinin um náttúruauðlindirnar í okkar útgáfu er eftirfarandi eins og hún liggur fyrir á þingskjali 949.

"Við stjórnarskrána bætist ný grein 79.gr. svohljóðandi:

"Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi."

Ég læt lesendum síðan eftir að meta hvort hér er um slíkan reginágreining við meirihlutann að ræða en þeirra tillaga orðast þannig:

"Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðíð í lögum. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi."

Er það virkilega svo að slíkt regindjúp sé á milli sjónarmiða meiri og minni hluta hvað þetta varðar að útilokað hafi verið að ná sátt um málið. Að sjálfsögðu ekki. Þetta voru mikil mistök af meiri hlutanum að hlaupa frá málinu og virða tillögu okkar nefndarfólks Sjálfstæðisflokksins ekki viðlits. Mér finnst það satt að segja ekki til sóma fyrir meirihluta nefnarinnar nema síður sé.

Annað efnistatriðið sem um var talað að reyna að ná samkomulagi um var um með hvaða hætti breytingar yrðu gerðar á stjórnarskrá og við lögðum til þá breytingu sem eining náðist um í stjórnarskrárnefnd árið 2007. Þar er um að ræða greiðari leið til breytinga á stjórnarskrá en nú er, en samt girt fyrir að stjórnarskránni verði breytt í bráðræði.

Því má ekki gleyma að stjórnarskráin er umgjörð utan um stjórnskipun okkar, dómstóla og mannréttindi. Stjórnarskráin er fyrst og fremst vörn hins veika gagnvart hinum sterka. Það þarf því að standa vörð um slík grundvallarlög og þá almannahagsmuni sem stjórnarskránni er ætlað að vernda.

Við nefndarfólk Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni gengum enn lengra til að ná samkomulagi. Ljóst var frá upphafi að við værum á móti tillögu um stjórnlagaÞing sem ég tel að mundi leiða til stjórnskipulegrar ringulreiðar. Af hverju að vera með tvö stjórnlagaþing á sama tíma og af hverju að vera með 104 þingmenn að vinna að því sem að 63 þingmenn eru annars að gera. Er það ekki einmitt krafa þjóðarinnar að fækka þingmönnum? Engin dæmi er um stjórnlagaþing hjá þróuðum lýðræðisþjóðum eins og okkur nema um sambandsríki sé að ræða þar sem önnur sjónarmið geta átt við. 

Við vildum hins vegar að fram færi ítarleg og vönduð endurskoðun á stjórnarskránni og lögðum því til allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Kristinn H. Gunnarsson að kosin yrði 25 manna nefnd með hlutfallskosningum til að gera tillögu til Alþingis um heildarendurskoðun á stjórnarskránni og miðað var við að nefndin lyki störfum tímanlega fyrir 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.  Með því að leggja þetta til vorum við að mæla með því að farin yrði sambærileg leið og Svíar ákváðu að fara varðandi heildarendurskoðun á stjórnarskrá sinni sem hefur tekið nokkur ár en sameiginlegt nefndarálit var afgreitt þar í landi í desember s.l.  Þannig fara siðaðar þjóðir í okkar heimshluta að.

Með því að leggja til ofangreindar breytingar og reyna með því að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins þá lögðum við Sjálfstæðismenn okkur fram um að ná málefnalegu samkomulagi og taka tillit til sjónarmiða meiri hlutans eins og okkur var unnt. Við töldum að meirihlutinn vildi ræða málið en því miður þá var ekki um það að ræða og meirihlutavaldinu beitt enn á ný til að koma í veg fyrir samkomulag um breytingar á stjórnarskrá. ´

Mér þykir það miður að svo skuli hafa farið vegna þess að ég gerði mér sannarlega vonir um að samkomulag mundi nást í sérnefndinni á grundvelli tillagna okkar nefndarfólks Sjálfstæðisflokksins í málinu  og lagði mig fram um að svo gæti orið.

Það er ekki við okkur að sakast að meirihluti nefndarinnar skuli koma fram af slíkri þvermóðsku og óbilgirni og raun ber vitni.  Mér er nær að halda að í raun sé ekki samstaða innan meirihlutans um neinar breytingar og einstakir nefndarmenn þar telji hentast að láta sem það sé okkur Sjálfstæðisfólki að kenna að breytingarnar nást ekki fram.

Þá er reynt að halda fram þeim reginmisskilningi að þessar breytingar á stjórnarskrá hafi eitthvað með fiskveiðistjórnarkerfið að gera. Hvorki okkar tillaga né meirihlutans hvað varðar náttúruauðlindir hefur eitt eða neitt með fiskveiðistjórnarkerfið að gera og breytir fiskveiðistjórnarkerfinu ekki neitt. Formaður þingflokks Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra fóru því með rugl og fleipur í umræðum á Alþingi í dag um tillögur okkar svo óvandaður afflutningur mála er þeim ekki til sóma.

Staðreyndin er sú að við Sjálfstæðisfólk viljum standa að ýmsum  breytingum á stjórnarskrá eins og t.d. má sjá í nýjum ályktunum Landsfundar í málinu. Við erum hins vegar ekki tilbúin til að standa að breytingum sem veikir grunnstoðir lýðræðis og mannréttinda eða leiðir til stjórnskipulegrar ringulreiðar. Hróp andstæðinga um málþóf og að við viljum engu breyta eða að við stöndum vörð um hagsmuni hinna fáu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum í þessu máli.

 


mbl.is Slegið á sáttahendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækka skatta lækka laun.

Það var athyglivert að  hlusta á Katrínu Jakobsdóttur varaformann Vinstri Grænna fjalla um framtíð velferðar- og atvinnmála á fundi frambjóðenda í Reykjavíkurkjördæmi norður. Leið varaformanns Vinstri grænna var sú að  hækka ætti skatta og lækka ætti launin.

Hver er framtíðarsýn stjórnmálamanns sem heldur því fram að helsta bjargráðið í íslenskri pólitík sé að hækka skatta og lækka laun. Hafa launin ekki lækkað nú þegar um þriðjung vegna gengisfalls íslensku krónunnar?

Það var galli að Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG skyldi ekki spurð að því í þaula hvaða skatta hún vildi hækka fyrir utan fjármagnstekjuskattinn sem mun ekki skila miklu miðað við núverandi stöðu og það verður að muna það að fjármagnstekjuskattur bitnar hart á öldruðu ráðdeildarfólki.

Þá var Katrín ekki spurð um það hvað lækka ætti laun í ríkisþjónustu mikið. Ef varaformaður VG vill lækka launin um ákveðið hlutfall þá er hún líka að tala um að lækka elli- og örorkulífeyri.

Er það svona stjórnarfar sem við viljum?  Ekki ég.


Jón Baldvin slettir skyrinu.

Jón Baldvin Hannibalsson Guðfaðir Samfylkingarinnar á greiðari leið en aðrir á miðopnu Morgunblaðsins. Í dag hvetur Guðfaðirinn landsmenn til þess að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum og vísar til þess að flokkurinn hafi fengið fjárstyrki á árum áður frá Glitni og Landsbankanum.

Talandi um siðferði í stjórnmálum þá liggur fyrir að Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt hvað harðast að fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins skyldi hafa samþykkt að tekið yrði við háum styrkjum einkafyrirtækja til flokksins.  Ég er sammála þeim sem telja það dómgreindarbrest að hafa samþykkt að taka við þessum háu styrkjum. En það gleymist í umræðunni að það var helst fyrir forgöngu Sjálfstæðismanna að reglur voru settar um fjármál stjórnmálaflokka og ríkisstuðning við þá.  Að vísu allt of miklir styrkir af almannafé en það má fjalla um það síðar.

Jón Baldvin minnir kjósendur ekki á að helsti styrktaraðili Samfylkingarinnar til margra ára er Baugur og fyrirtæki honum tengd. Ættu þá kjósendur með sama hætti að ganga hreint til verks og þurrka þennan smánarblett Samfylkinguna af Alþingi í næstu kosningum.  Það má e.t.v. minna Jón Baldvin og Samfylkingarfólk á að sá sem ber mesta ábyrgð á efnahagshruninu  er Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs.  Opinberanir stjórnmálalaflokkana á fjármálum sínum hefur sannað það sem haldið hefur verið fram lengi að Samfylkingin fengi helst styrki frá Baugi. Það væri gott fyrir Jón Baldvin að minnast þess hvernig forustumenn Samfylkingarinnar hafa hagað málflutningi sínum árum saman til að styðja við bakið á því fyrirtæki, fjölmiðlaveldi þess og amast við rannsóknum á meintum brotum fyrirsvarsmanna fyrirtækisins.

En Jón Baldvin mætti e.t.v. minnast þess líka að það var iðulega um það fjallað með hvaða hætti hann færi með opinbert fé. Afmælisveislur á kostnað ríkisins. Sérstakur fjölmiðlafulltrúi Jóns á kostnað ríkisins í London og þannig mætti lengi telja. 

Það er því miður staðreynd að þjóðin stendur frammi fyrir alvarlegasta vanda sem hún hefur staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum. Þá skiptir máli hvernig staðið er að stjórn landsins en síður það sem gerðist árið 2006.  Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir takmörkuð ríkisafskipti, takmarkaða skattheimtu og gildi einstaklingsframtaksins. Nú er meiri þörf en áður á að þessi gildi í stjórnmálum hafi öfluga málsvara á þingi. 

Samfylkingin og Vinstri grænir standa fyrir hefðbundin úrræði valdstjórnarsinna með þá trú að hjálpræðið komi frá ríkinu. Slík stefna leiðir til ofurskattheimtu og að því er mér sýnist miðað við stjórn þeirra síðustu mánuði til nýs og alvarlegra  hruns en við höfum hingað til upplifað.


Gleðilega páska.

Upprisuhátíðin er mikilvægasti boðskapur og fyrirheit kristinnar trúar.  Fyrirheitið um fyrirgefningu syndanna og eilíft líf.  Ég óska öllum gleðilegrar hátíðar og vona að við getum sem flest tileinkað okkur þá helgi sem páskahátíðinni fylgir.


Eva Joly

Fyrrverandi dómsmálaráðherra gekkst fyrir því að skipaður var sérstakur saksóknari til að fara með máli sem tengdust bankahruninu. Það skiptir miklu að vel takist til með störf sérstaks saksóknara og starfsfólks hans. Ég var ánægður með það þegar fram kom að ráða ætti erlendan sérfræðing Evu Joly til starfa sem ráðgjafa í sambandi við þessa rannsókn. Þó að vissulega hafi runnið á mig tvær grímur þegar ég komst að því að hún virðist meiri stjórnmálamaður núorðið en rannsóknardómari þá útiloka ég ekki að það sé fengur að fá hana til starfa.  

Það sem kemur mér hins vegar nokkuð spánskt fyrir sjónir hvað varðar Evu Joly er að hún skuli ekki eiga að starfa á skrifstofu sérstaks saksóknara. Að hún skuli ekki vera algjörlega tengd því embætti. Ég hefði talið að störf hennar myndu nýtast best með þeim hætti. Ég get ekki séð að það sé eðlilegt að Eva Joly starfi í einhverjum óskilgreindum tengslum við sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.   

Þá kom sú frétt Jón Þórisson, arkitekt og tengiliður Evu Joly á Íslandi eigi að fá  greiddar um 480 þúsund krónur í verktakagreiðslur næstu tólf mánuði vegna starfa fyrir hana gjörsamlega á óvart. En auk þess mun hann fá 1,3 milljónir króna til að koma upp og reka skrifstofu í hennar nafni. Að sögn Jóns munu heildargreiðslur vegna starfa hans nema um 6,7 milljónum króna á tímabilinu.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er áætlað að heildargjöld vegna verkefna á vegum Evu Joly geti kostað um 67 milljónir króna á ári. Innifalið í þeirri upphæð eru laun hennar um 1,3 milljónir króna á mánuði, greiðslur til sérfræðinga sem hún og sérstakur saksóknari koma sér saman um að geti gagnast við rannsókn á bankahruninu og greiðslur til Jóns sem tengiliðs Joly.

Samningur Joly gerir ráð fyrir því að hún starfi við rannsóknina fjóra daga í mánuði. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um málið kemur fram að Jón muni meðal annars „þýða nauðsynleg skjöl og afla trúnaðarupplýsinga hérlendis sem hann mun koma á framfæri við Evu Joly“. Mér finnst þetta með miklum ólíkindum. Nefndur Jón er arkitekt en ekki skjalaþýðandi. Hann hefur ekki svo vitað sé unnið að sakamálum eða hefur nokkra þekkingu eða reynslu í því sambandi. Þá velti ég því fyrir mér hvernig Jón á að afla trúnaðarupplýsinga. Hann hefur ekki stöðu til að skoða trúnaðarupplýsingar eða afla þeirra. Ég spyr af hverju er þessi maður ráðinn. Getur enginn annar unnið með Joly. Getur enginn sem hefur þekkingu og hæfi unnið þessi verk fyrir hana. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? 

Mér finnst eðlilegt að kallað verði eftir svörum frá dómsmálaráðherra hvað um er að ræða og hvort þetta geti kallast eðlilegt verklag og líklegra til að skila árangri en það að Eva Joly vinni á skrifstofu sérstaks Saksóknara og af hverju hún gerir það ekki.

Eins og ég var ánægður fyrst þegar ég frétti af komu Evu Joly til starfa þá verð ég að viðurkenna að allur þessi umbúnaður og undarlegheit valda mér miklum efa um að rétt sé að verki staðið hvað hana varðar og þá sérstaklega þennan sérstaka Jón skjalaþýðanda hennar og miðlara og aflara trúnaðarupplýsinga.  


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 127
  • Sl. sólarhring: 1299
  • Sl. viku: 5269
  • Frá upphafi: 2469653

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 4825
  • Gestir í dag: 117
  • IP-tölur í dag: 117

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband