Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Ríkisstjórnin er bráðfeig

Það er fátítt í íslenskum stjórnmálmum að ráðherra segi af sér embætti. Ég minnist þess ekki að ráðherra hafi áður sagt af sér hér á landi vegna málefnalegs ágreinings eins og Ögmundur gerir nú. Eins og við var að búast kemur Ögmundur hreint fram og heldur sínum hlutum til haga og heldur vopnum sínum og jafnvel nær fleirum með þeirri afstöðu sinni að segja af sér.

Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon eru sterkustu menn VG og með brotthvarfi Ögmundar er ljóst að ríkisstjórnin er bráðfeig. Illa stóð hún áður.

Það er kaldhæðni örlaganna að Ögmundur Jónasson skuli segja af sér embætti nú vegna Icesave málsins. Icesave málið er í þeim hnút sem það er fyrst og fremst fyrir tilverknað formanns VG Steingríms J. Sigfússonar sem skipaði vini sína sem forustumenn samninganefndarinnar um Icesave, menn sem kunnu ekki til verka og komu með hræðilegan samning sem Steingrímur og Jóhanna skrifuðu strax undir án þess að kanna hvort þingmeiri hluti væri fyrir samþykkt ríkisábyrgðar á samningnum.

Ögmundur er því í raun að segja af sér vegna afleiðinga einkavinavæðingar flokksbróður síns og formanns Steingríms J. Sigfússonar. Útilokað er annað en Vinstri grænir verði að gera þessi mál upp innan flokksins.  Hvernig ætlar Steingrímur að sitja áfram eins og ekkert hafi ískorist miðað við þessar aðstæður?


mbl.is Ögmundur segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæður efnahagshrunsins. Skilgreiningar Samfylkingarinnar

Það er athyglivert að lesa ræðu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þar sem þau gera grein fyrir ástæðum efnahagshrunsins hér á landi fyrir ári síðan.  Sérstaka athygli vekur að þau skilgreina ástæðurnar sitt með hvorum hætti.

Hvort skyldi nú vera hin opinbera stefna Samfylkingarinnar um efnahagshrunið. Það sem Jóhanna núverandi formaður Samfylkingarinnar segir eða það sem Össur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar segir. 

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst skilgreining Össurar vitrænni en skilgreining Jóhönnu. En Samfylkingin er greinilega ekki nein samfylking í þessu máli.


Af hverju ekki að gefa með sama hætti fyrir alla

Miðstjórn ASÍ hefur birt viðamiklar tillögur um aðstoð við fólk í greiðsluvanda. Þær tillögur eru margar góðra gjalda verðar. Hins vegar skiptir mestu að byggja upp þjóðfélag þar sem gefið er með sama hætti fyrir alla og eðlileg umgjörð er um efnahagssarfsemi fólks og fyrirtækja.

Við efnahagshrunið var forgangsatriði að taka verðtrygginguna úr sambandi og færa gengisbundnu lánin til viðmiðunargengis í ársbyrjun árið 2008. Þessi aðgerð hefði kostað innan við 200 milljarða eftir því sem komið hefur fram í fjölmiðlum eða minna en það sem veitt var til greiðslu til eigenda í peningamarkaðssjóðum föllnu bankanna.

Með þessum aðgerðum hefði verið skapaður grundvöllur fyrir nýrri endurreisn og möguleikum fyrir fólk til að skapa sér lífvænlega framtíð sem eignafólk. Að sjálfsögðu hefði jafnframt því þurft að vinda bráðan bug að því að fá trúveruga mynt.

Vandinn nú er að verklausa vinstri stjórnin veit ekki sitt rjúkandi ráð varðandi skuldavanda fólksins í landinu. Sá skuldavandi er tilkominn vegna sérstakra aðstæðna á íslenskum lánamarkaði. Vegna gengitryggðra lána og verðtryggðra. Það er eins og verklausa vinstri stjórnin hafi ekki skilið þessa staðreynt og það þurfi að bregðast við vegna þessa séríslenska lánakerfis.

 

 


Ætla Vinstri grænir að drekkja landinu?

Mikið er ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli hafa gefið Landsvirkjun grænt ljós á að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun.

En hvernig var það. Voru ekki Vinstri grænir á móti fleiri vatnsaflsvirkjunum. Talaði Steingrímur J. Sigfússon ekki um það að það væri verið að drekkja landinu með vatnsaflsvirkjunum?

Mikið er gott að Vinstri grænir skuli hafa áttað sig á að vatnsaflsvirkjanir eru góður kostur og vistvænar. En hvað hefur breyst? Var þessi belgingur í Steingrími og félögum gegn vatnsaflsvirkjunum e.t.v. bara til að geta frekar veifað röngu tré en öngvu?


mbl.is 25 milljarða stórvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggsíða veldur vanhæfi

Ég verð að sæta því að almennar skoðanir mínar á þjóðfélagsmálum eru taldar þess eðlis að ég sé ekki hæfur til að gegna starfi sérstaks saksóknara. 

Í bréfi sem ég fékk frá Dómsmálaráðuneytinu varðandi umsókn mína um embætti sérstaks saksóknara kemur m.a. fram eftirfarandi:

"Eins og getið var könnuðum við sérstaklega hvort umsækjendur hefðu tekið þátt í opinberri umræðu eða umfjöllun um þjóðfélagsmál síðastliðið ár með tilliti til þess hvort á einhvern hátt mætti draga óhlutdrægni viðkomandi sem saksóknara ef skipaður væri með réttu í efa skv. g lið 6.gr. 26.gr. laga nr. 88/2008 og lög nr. 135/2008.  Einn umsækjenda Jón Magnússon heldur hins vegar úti heimasíðu á veraldarvefnum jonmagnusson.blog.is. Þar hefur Jón ítrekað tekið til umfjöllunar málefni tengd atburðunum í október 2008 er ríkið tók yfir stjórn viðskiptabankanna þriggja. Hann hefur greint frá skoðunum sínum bæði á mönnum og málefnum í þeim mæli að hætt er við að verulega myndi reyna á álitaefni um sérstakt hæfi hans sem saksóknara í tengslum við þau mál sem embættið hefur til meðferðar."

Frestur var gefinn til dagsins í dag til að skila inn athugasemdum til ráðuneytisins.

Í framhaldi af því ritaði ég eftirfarandi bréf til ráðuneytisins:

DómsmálaráðherraRagna ÁrnadóttirDómsmálaráðuneytinu v. Arnarhvol   Reykjavík, 14. september 2009.   Vísað er til bréfs ráðuneytisins vegna umsagnar embættis sérstaks saksóknara og setts ríkissaksóknara vegna umsóknar minnar um starf saksóknara við embætti sérstaks saksóknara. Samkvæmt tilvitnuðu bréfi er sú eina athugasemd gerð við umsóknina að ég hafi haldið úti bloggsíðu og tekið þátt í opinberri umræðu, m.a. um málefni er tengjast þeim atburðum er ríkið  tók yfir stjórn viðskiptabankanna.  Er talið að vegna þessa gæti reynt á álitaefni tengdu sérstöku hæfi við möguleg störf mín sem saksóknari. Undirritaður mótmælir þessari athugasemd og bendir á að enginn sérstök ummæli eru tilgreind í bréfi ráðuneytisins, en slík framsetning getur vart talist málefnaleg stjórnsýsla og gerir það að verkum að ekki eru forsendur til að beita andmælareglu. 

Undirritaður telur sig í skrifum sínum hafa sett fram sjónarmið sem lúta að almennum viðhorfum og leitast við að halda þeirri grunnreglu á lofti að menn séu saklausir þar til sekt þeirra sé sönnuð.  Hafa stærri orð fallið af hálfu einstaklinga sem tengjast rannsóknum sérstaks saksóknara án þess að gerðar hafi verið sérstakar athugasemdir.  Virðast þær yfirlýsingar falla betur að pólitísku viðhorfi samtímans.

 Eins og nefnt var þá er undirrituðum fyrirmunað að nýta andmælarétt sinn þar sem ekki er um málefnalega framsetningu að ræða.  Jafnframt er ljóst að dómsmálayfirvöld hafa ekki áhuga á að nýta sér starfskrafta undirritaðs, langa lögmannsreynslu og reynslu af starfsemi fjármálastofnana, en leita að einstaklingi með þóknanlegri viðhorf.  Af þeim ástæðum dreg ég umsókn mína til baka.  Virðingarfyllst,  

Jón Magnússon, hrl.


Það á að afnema gjaldeyrishöftin

Gjaldeyrishöftin voru mistök frá upphafi.   Á þeim tíma sem þau voru sett þá óttuðust stjórnvöld stóra gjalddaga jöklabréfa, en sá ótti var í raun ástæðulaus. Ekki hefði skipt máli þó að þeir sem áttu innistæður í jöklabréfum  hefðu á sínum tíma fengið greitt í verðminni krónun. 

Ísland er það land í heiminum sem byggir hvað mest á erlendum viðskiptum, innflutningi og útflutningi.  Að setja á gjaldeyrishöft var því afar óeðlileg ráðstöfun og viðhald gjaldeyrishaftanna er röng stefna. Afleiðingin er sú að gjaldeyrir skilar sér ekki og erlendir fjárfestar halda að sér höndum.

Talsmenn ráðstjórnarirnnar með Seðlabankastjórann sem var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar þáverandi fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins gamla, segir það hins vegar fífldirfsku að afnema gjaldeyrishöftin og hótar harðari refsingu fyrir brot á haftastefnunni.

Þannig er það alltaf undir ráðstjórn. Höftin festast í sessi og þeim verður að viðhalda með stöðugt hraðari refsingum og meira eftirliti. Er ekki betra að feta brautina til frelsis í gjaldeyrisviðskiptum?


mbl.is Eftirlit með gjaldeyri hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki benda á mig

steingrimurjSteingrímur J. Sigfússon hefur notað sér ofangreind orð úr ljóði Bubba Morthens, ekki benda á mig.

Japanskir fjárfestar beindu formlegu erindi um fjárfestingar hér á landi til fjármálaráðuneytisins í febrúar s.l. þegar Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra. Erindið týndist í meðförum ráðuneytisins í rúmt hálft ár og Steingrímur vísar ábyrgðinni algjörlega frá sér og helst á honum að skilja að þetta sé á ábyrgð fyrrum fjármálaráðherra af því að Japanirnir komu fram óformlegri beiðni í tíð fyrri ríkisstjórnar og var þá sagt að beina formlegu erindi til ráðuneytisins síðar.

Það hefði verið meiri mannsbragur af því fyrir Steingrím J. Sigfússon að viðurkenna að mistök hefðu verið gerð í ráðuneytinu í hans ráðherratíð og gera sitt til að upplýsa það af hverju þessi mistök voru gerð. Það hvarflar ekki að mér að Steingrímur J. Sigfússon hafi persónulega klúðrað einhverju í málinu en einhver gerði það.

Það er alvarlegt mál þegar sterkir fjárfestar vilja koma til landsins og fjárfesta og þeim er ekki svarað. Uppbygging atvinnulífs og leiðin út úr kreppunni liggur m.a. í því að sterkir erlendir fjárfestar séu tilbúnir til að leggja fé í rekstur hér á landi. Þess vegna ganga svona vinnubrögð ekki.

En meðal annarra orða þá ber ráðherra ábyrgð á því sem gerist í ráðuneyti hans. Þó Steingrímur J. Sigfússon hafi ekki persónulega klúðrað neinu þá gerðist það í hans ráðherratíð og hann ber ábyrgð og hann á að axla ábyrgð á því í stað þess að fara undan í flæmingi og ía að því að aðilar sem kemur máið ekki við beri ábyrgðina sem ráðherrann ber sjálfur og enginn annar.


Fólk er enn að versla í búðunum þeirra

Egill Helgason bókmennta- og fjölmiðlamaður talaði um það í morgunþætti rásar 2 í morgun að fólk væri enn að versla í búðum þeirra feðga Jóns Ásgeirs og Jóhannesar eins og það væri rangt að gera það. Ég gat alla vega ekki skilið fjölmiðlamanninn með öðrum hætti.

Spurning er í því sambandi hvort það sé siðferðilega rangt að mati Egils Helgasonar að fólk versli í búðum þeirra Bónusfeðga eða hvort það eru aðrar ástæður sem ættu að leiða til þess.

Almenni mælikvarði neytanda er að versla með löglegum hætti  þar sem hagkvæmast er að versla og kaupa þær vörur sem eru ódýrastar að þeim gæðum tilskyldum sem neytandinn leggur til grundvallar.  Vill Egill Helgason að fólk noti önnur viðmið en þau?


Mannréttindabrot í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur

Í athyglisverðri grein sem Þorvaldur Gylfason skrifar í Fréttablaðið í dag segir hann m.a. "Mannréttindabrotin halda áfram í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eins og ekkert hafi í skorist."

Í því sambandi vísar Þorvaldur til þess að ókeypis kvótaúthlutanir til sumra voru talin mannréttindabrot af Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna en hvorki fyrri ríkisstjórn né ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gert neitt til að koma á mannréttindum í landinu og greiða þeim bætur sem Mannréttindanefndin sagði að ættu rétt á bótum.

Meðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerir ekkert til að breyta reglum um fiskveiðar til að koma í veg fyrir mannréttindabrot þá bendir allt til þess að ríkisstjórnin ætli að hafa fiskveiðistjórnarkerfið óbreytt.


Vel valið

Ég hefði viljað sjá Þorstein Pálsson sem formann íslensku samninganefndarinnar og hefði talið það pólitískt mjög sterkt. Fyrst Þorsteinn gaf ekki kost á sér eða vék sér undan eins og segir í fréttinni þá átti utanríkisráðherra varla kost á að velja betur en hann gerir með því að velja Gunnar Snorra Gunnarsson til formennsku sendinefndarinnar.

Rós í hnappagat Össurar en þó ekki kratarós.


mbl.is Pressan: Gunnar Snorri stýrir viðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 64
  • Sl. sólarhring: 807
  • Sl. viku: 6263
  • Frá upphafi: 2471621

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 5714
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband