Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

Bólusetningarkapphlaupið og heilbrigð skynsemi

Þjóðir heims berjast við að tryggja sér sem fyrst svo mikið magn af einhverju bóluefni gegn Covid, að hægt verði að bólusetja landslýðinn.

Evrópusambandið og Bretar eiga í illdeilum og hver reynir að bjarga sér hvað best hann getur. Enn á ný opinberast vangeta Evrópusambandsins til að gæta raunverulegra eða ímyndaðra hagsmuna sinna.

Stjórnmálamönnunum liggur reiðarinnar ósköp á vegna þess, að þeir hafa lamað þjóðfélagsstarfsemina með lokunum og hræðsluáróðri í samkór með heilbrigðisyfirvöldum og fjölmiðlum. Út úr því þurfa þeir að komast sem fyrst, þannig að efnahagsstarfsemin og mannlífið geti blómstrað.

Sameiginleg stefna stjórnmálamanna veraldarinnar er að drífa sem mest má vera í því að bólusetja, þó prófanir á þeim lyfjum sem dæla á í fólkið séu ófullkomnar og veiti jafnvel takmarkaða vörn auk þess sem þau geta verið dauðans alvara og dauðadómur fyrir sumt eldra fólk. 

Nýlega kom á markaðinn nýtt bóluefni gegn veirunni, Novavax, frá fyrirtækinu Johnson og Johnson. Af því sem maður les um það, þá virðist það skömminni til skárra og mun geðslegra en lyfin frá Pfizer, Moderna og Astra Seneca.

Lyfjafyrirtækjunum liggur á vegna þess að hundruða milljarða hagsmunir eru í húfi. Þau keppast við að dæla lítt prófuðum lyfjum inn á markaðinn og heilbrigðisyfirvöld hamast við að blessa þau vegna "neyðarástands". Stjórnmálamönnunum liggur á að komast úr pólitískri kóvíd innilokun og hamra því á nauðsyn allsherjar bólusetningar sem allra fyrst og þá skiptir ekki máli hvaða bóluefni er fengið bara það sem stendur til boða. 

Það er næsta óhugnanlegt að fylgjast með þessu kapphlaupi þar sem öllu máli skiptir að bólusetja sem flesta helst alla þrátt fyrir að allt of lítið sé vitað um hver endanleg áhrif bólusetningarinnar verður og ekki liggi ljóst fyrir hvaða bóluefni hefur bestu virknina og er líklegast til að valda minnstum aukaverkunum. 

Er þá ekki best að flýta sér hægt og gera hluti vitandi vits en ekki vegna örvæntingar?


Ofbeldi og ógn má ekki líða

Frá því var skýrt í gær, að skotið hefði verið á mannlausan bíl borgarstjóra við heimili hans. Skotið hefur verið að skrifstofum Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og fleiri stjórnmálaflokka að undanförnu. 

Þessar skotárásir eru óhugnanlegar. Ógnin verður alvarlegust, þegar veist er að heimilum stjórnmálafólks og eigum þeirra. 

Atburðir sem þessir gefa tilefni til að stjórnmálamenn og aðrir talandi og skrifandi einstaklingar gæti að því að vera ekki með hatursáróður í garð annarra og/eða fordæmingar, heitingar og ógnanir sem beint er að öðrum í rituðu eða mæltu máli óháð því hver í hlut á. 

Við búum í þjóðfélagi þar sem við njótum þess frelsis, að geta verið nokkuð örugg á flestum stöðum jafnvel einstaklingar, sem gegna æðstu trúnaðarstöðum í samfélaginu ganga meðal fólks eins og hver annar og/eða stunda útvist án þess að einhver þurfi að fylgjast með öryggi þeirra. 

Mér fannst jafnan gaman að því þegar ég mætti þáverandi forseta Ólafi Ragnari Grímssyni í Esjuhlíðum einsömlum eða með konunni og hundinum og það minnti mig á hvað við eru gæfusöm þjóð, að geta búið við frelsi sem er nánast hvergi til í heiminum nema hér. Við skulum ekki eyðileggja það. Við skulum vanda okkur og vísa öllu ofbeldi og ógn á bug. 

Vöndum okkur því í opinberri framsetningu og fjöllum málefnalega um mál og vísum með þeim hætti að einstaklingum, en gerum ekkert sem gæti orðið til þess að einhver eða einhverjir telji sig eiga skotleyfi í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu á annað fólk. Við höfum öll sama rétt til lífsins og skulum standa öflugan vörð um þann rétt.


Sofnað á verðinum

Fyrir nokkru greindi umboðsmaður Alþingis Tryggvi Gunnarsson frá því, að honum hefði ekki tekist að ljúka rannsókn á lögmæti gjaldtöku af almenningi og fyrirtækjum, sem stofnað var til fyrir 24 árum, en meginhluta þess tíma hefur Tryggvi Gunnarsson gegnt embætti umboðsmanns Alþingis.

Hlutverk umboðsmanns skv. lögum nr. 85/1997 er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Rannsókn á gjaldtöku hins opinbera af Alþingi er því atriði, sem fellur undir starfssvið hans skv. lögum um umboðsmann Alþingis.

Spurning um hvort gjaldtaka af almenningi og fyrirtækjum vegna þjónustu er mikilvæg spurning fyrir neytendur og eðlilegt hefði verið að umboðsmaður hefði sett það mál í forgang þannig að rannsókninni hefði þá lokið fyrir eða um síðustu aldamót fyrir 20 árum síðan, þá hefði rannsóknin tekið 4 ár sem hefði átt að vera kappnógur tími til að ljúka slíkri rannsókn. 

Nú 24 árum síðar kemur umboðsmaður og segir að ekkert verði gert frekar varðandi rannsóknina. Hún fellur niður vegna þess sleifarlags sem hefur verið á embættisfærslu umboðsmannsins s.l. 24 ár hvað þetta varðar. Þær afsakanir sem færðar eru fram af umboðsmanni varðandi þessa óboðlegu embættisfærslu eru satt að segja ótrúverðugar og standast ekki skoðun sé rýnt í það hvað og hvernig embættið hefur starfað þann tíma. 

Þetta mál varðar allan almenning og hagsmuni hans og hefði átt að vera forgangsmál, en hefur stöðugt verði sett neðst í bunkann, þar sem að umboðsmaður hefur iðulega opnað frumkvæðismál og unnið þau á methraða einkum ef þau gátu verið  til vinsælda fallið. 

Mér finnst sem talsmanni neytenda um árabil óviðunandi að rannsókn sem varðar allan almenning skuli ekki fást unnin vegna þess, að umboðsmaður telur að spurningin um réttmæti gjaldtöku af almenningi sé ekki svo mikilvæg að unnið sé að henni og rannsókninni lokið innan viðunandi tímamarka.

Þegar embætti umboðsmanns Alþingis tekst ekki á 24 árum að ljúka efnislegri rannsókn á mikilvægu máli sem varðar allan almenning og hugsanlega ólögmæta gjaldtöku af fólkinu í landinu þá er greinilega eitthvað að. Það sýnist því einboðið, að stofnunin sem kýs umboðsmanninn, Alþingi, láti þetta mál til sín taka og í því sambandi er eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis láti framkvæma stjórnsýsluendurskoðun á embætti umboðsmanns Alþingis. Minna getur það ekki verið. 


Fagnaðarboðskapur fáráða.

Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur ætlar að gangast fyrir fyrirlestrum um Íslam í Vídalínskirkju á næstunni. Það er gert til þess að styðja við fjölmenningu, sem sagt er vera hlutverk hinnar íslensku þjóðkirkju að gera. Þá veit fólk hvað er efst á verkefnalista þjóðkirkjunnar.

Svo virðist, sem það hafi farið framhjá forustufólki hinnar íslensku þjóðkirkju, að fjölmenningin svokallaða hefur mistekist hrapalega hvar sem hún hefur verið reynd. Nægir að benda á, að forsætisráðherrar m.a. Bretlands og Þýskalands hafa tekið af skarið hvað það varðar og sagt að fjölmenningarstefnan svokölluð væri alger mistök. Í sama streng tók forsætisráðherra Danmerkur fyrir nokkrum dögum og vill ekki taka við fleiri svonefndu flóttafólki. 

Fjölmenningarstefna Vesturlanda hefur falist í því að við gefum eftir af okkar gildum og samþykkjum eða látum viðgangast hluti sem eru andstæðir siðum og reglum okkar þjóðfélaga. Þannig hefur þjóðkirkjan aldrei fjallað um kvennakúgun í Íslam, aftökur kvenna fyrir að vanvirða fjölskylduna t.d. með því að giftast kristnum mönnum eða klæða sig eins og ungar stúlkur á Vesturlöndum gera. Ekki hefur verið fjallað um ofsóknir á hendur kristnu fólki í löndum Íslam og aldrei rætt um hvort kirkjan geti rétt kristnum söfnuðum sem eru ofsóttir í löndum Íslam hjálparhönd. Það fellur ekki undir hinn "Guðdómlega gleðileik" þeirrar fjölmenningarstefnu sem íslenska þjóðkirkja ætlar nú að boða. 

Þá vill kirkjan ekki viðurkenna eða horfast í augu við að Íslam er einmenningarstefna og þar gefa menn ekkert eftir og fjölmenningin svokallaða er alltaf einhliða. Vesturlandabúar gefa eftir af gildum sínum til að þóknast fornaldarhyggju flestra trúfélaga nútíma Íslamstrúar.

Nauðsynlegt er að reyna að vekja athygli  þeirra strúta innan íslensku þjóðkirkjunnar og annarsstaðar í samfélagin,  sem hafa stungið höfðum sínum hvað dýpst í sandinn varðandi ógnina sem kristnu fólki stafar í íslömskum löndum á því sem er að gerast einmitt núna. Sama sagan hefur raunar verið að gerast  ógnarlengi:

14.janúar 2021: Íslamskir stríðsmenn píndu 58 ára gamla Armenska konu í þorpinu Karintak Arstsakh, með því að skera af henni eyrun og síðan fæturna áður en þeir tóku hana af lífi. sbr. tilvísun í Kóraninn súra 5.33 og ("þeir sem heyja stríð gegn Allah og sendiboða hans og kynda undir óöld í landinu, skulu af lífi teknir, krossfestir eða handhöggnir og fóthöggnir báðum megin" Þessir vígamenn voru komnir þangað fyrir tilstilli Erdogan Tyrklandsforseta til að stríða gegn kristnu villutrúarmönnunum.

3.12.2020 Íslamskir vígamenn réðust á þorp í Kongó einum manni tókst að flýja og gat falið sig og horfði á vígamennina taka konuna hans og þrjú börn af lífi. 

29.12.2020 Íslamskir vígamenn í Níberíu drápu 5 kristna, sem þeir höfðu handtekið. Færðu þá í appelsínugula búninga og lýstu því yfir, að þeir yrðu teknir af lífi vegna þess að þeir væru kristnir og Þetta væri viðvörun til kristins fólks hvar sem væri í heiminum. Að þessu loknu voru þessir kristnu menn skotnir í höfuðið hver á fætur öðrum. 

Þetta eru bara 3 dæmi af fjölmörgum á rúmum síðasta mánuði. Á hverri viku drepa íslamistar fjölda kristins fólks, en það ratar sjaldnast eða aldrei í fréttir og íslenska þjóðkirkjan gerir ekkert til að aðstoða trúarsystkini okkar. Ekki neitt. Þessir feitu prelátar þjóðkirkjunnar ómaka sig ekki eða óhreinka á því og láta sem þeir sjái þetta ekki. Það gæti komið kuski á fagnaðarboðskapinn um fjölmenninguna.

Þjóðkirkjan íslenska hefur öðrum verkefnum að sinna. Boða fagnaðarerindi Fjölmenningar og hvað Íslam séu frábær trúarbrögð og lautinant Magnús Bernharðsson svonefndur sérfræðingur í málum Mið-Austurlanda mun síðan blessa samkomuna með erindi og mun þá væntanlega gera þeim kirkjugestum sem koma til að höndla fagnaðarboðskapinn um Íslam hvernig á því stóð, að hann, "fræðimaðurinn" hafið rangt fyrir sér í öllum atriðum sem varðaði svonefnt "Arabískt vor." og þróunina í Íslamska heiminum, fyrir tíu árum síðan.

Á kristið fólk samleið með þjóðkirkjunni lengur?  

 

 


Hver ber ábyrgð á lífi og dauða

Á eins árs afmæli Kovid sjúkdómsins er eðlilegt að spyrja hvort hann sé versti sjúkdómurinn sem riðið hefur yfir heiminn síðustu 100 árin. Svarið er næsta örugglega nei. Lömunarveiki 1950 olli dauða og lömun milljóna barna svo dæmi sé tekið. Þá var mannfjöldi heimsins um helmingi minni en í dag.

Ýmsar inflúensur hafa verið skæðar og tekið mörg mannslíf. Þegar þetta er skrifað, er mannfjöldinn í heiminum 7.698.677.585 og fólki fjölgar um 3 á sekúndu eða um 260.000 á sólarhring. Á einu ári hafa 2 milljónir dáið úr Kovid, en á sama ári hefur fólki í heiminum fjölgað um 95 milljónir. Andstætt því sem margir halda fram, þá ógnar þessi sjúkdómur þó alvarlegur sé hvorki lífi mannsins á jörðinni og mundi ekki gera þó ekki yrði gripið til neinna ráðstafana.

Þróun í læknavísindum, næringarfræði og margvísleg önnur aukin þekking hefur stuðlað að betri lýðheilsu og lengt meðalævi fólks í okkar heimshluta jafnvel um tvo áratugi. Getur verið að vegna þessara miklu framfara á heilbrigðissviðinu, þá teljum við að hægt sé að koma í veg fyrir eða fresta dauðsföllum nánast í það óendanlega og það beri að gera það, hvað svo sem það kostar? Traust almennings og trú á heilbrigðiskerfið og krafan um ábyrgð ríkisins á lífi og dauða leiddi til þess, að heilbrigðiskerfið tók völdin í Kovid fárinu, en lætur stjórnmálamennina bera siðferðislega ábyrgð á því sem gert er eða ekki gert.

Krafan um að varðveita hvert einasta mannslíf og sú staðhæfing að mannslíf verði ekki metið til fjár, er flutt fram af slíkum þunga að athugasemdir um slæm áhrif vegna sóttvarnarráðstafana m.a. á líf annarra skipta ekki máli og afgerandi þjóðfélagsleg tilraun, á heilbrigðissviðinu er sett af stað og heldur áfram út í einhvern óendanleika. Svör við spurningum um siðferðlega ábyrgð á ákvörðunum sem varða líf og dauða eru mikilvæg. Ber einstaklingurinn ábyrgð, fjölskyldan, ríkið, Guð eða einhver annar?

Er í lagi að einstaklingurinn fari sér á voða en beri aldrei ábyrgð? Viljum við að ríkisvaldið setji ákveðnar reglur um líf og lífsstíl fólksins? Ef ríkisvaldið ber ábyrgðina á lífi og dauða er þá ekki rétt, að það taki ákvarðanir um fjarlægðarmörk, hvaða mörgum megi bjóða í boð, hvað margir mega koma saman, hvenær má kyssa ömmu og hvað megi borða og drekka og í hvað miklu magni. Matseðillinn frá lýðheilsustofnun verður þá það eina sem verður í boði.

Ef ríkisvaldið borgar allt hefur það þá ekki líka rétt til að taka allar ákvarðanir m.a. um atriði eins og hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvað eigi að gera til að koma í veg fyrir að fólk deyi. Viljum við fela ríkisvaldinu svona víðtækt vald? Var það einhverntíma ákveðið að ríkið hefði alfarið með líf og dauða fólks að gera?

Sagt er að Morgan skipstjóri, mikilvirkasti sjóræningi Karabíska hafsins, hafi spurt áhöfn sína þegar hann tók við sem foringi sjóræningjanna, hvort þeir vildu stutt líf og skemmtilegt eða langt líf og leiðinlegt í hlekkjum. Áhöfnin valdi frekar stutt líf og skemmtilegt.

Í þeim faraldri sem nú ríður yfir hefur ríkisvaldið ítrekað tekið ákvörðun um og talið sér heimilt, að frysta efnahagsstarfsemina og borga fólki laun fyrir störf sem það vinnur ekki og eru jafnvel ekki lengur til. Það er fordæmalaust, að ríkisstjórnir loki á atvinnustarfsemi og opni aftur að geðþótta. Á ríkisvaldið að hafa svo víðtækar heimildir? Hvenær var það samþykkt, að ríkisvaldið hefði svona víðtæk völd yfir atvinnustarfseminni?

Yfirvofandi efnahagskreppa er vegna pólitískra ákvaðanna. Sú kreppa verður óhjákvæmilega þung, þó fáir virðist skynja alvarleika hennar og ráðherrar tali eins og aldrei komi að skuldadögum og ríkissjóður standi enn svo vel, að við getum leyft okkur þetta. Vafalaust verður reynt að viðhalda trylltum hrunadansi efnahagskerfisins fram yfir kosningar ef þess gefst nokkur kostur, en hvað svo? Hafa stjórnmálaflokkar sett fram raunhæfa stefnu um það hvað eigi að gera til að vinna okkur út úr þeirri kreppu og hvernig þá eigi að skipta þjóðarkökunni?

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti sagði. „Helsta skylda ríkisins er að vernda borgarana en ekki að stjórna lífi þeirra. Slíkt þjóðfélag krefst einstaklingsfrelsis og einstaklingsbundinnar ábyrgðar, þar sem fólki er treyst til að ráða meiru heldur en minnu um líf sitt og störf. Í slíku þjóðfélagi blómstra flest blóm og mannlífið nær þeirri reisn og fjölbreytileika, sem er útilokaður í alræðishyggju ríkislausnasamfélags, sem við höfum stefnt hraðfara til undanfarin misseri vegna þess að stjórnmálamenn dagsins vilja ekki taka á sig ábyrgð og hafa takmarkaða hugmyndafræðilega kjölfestu og viðmiðanir.

Er ekki kominn tími til að treysta heilbrigðum einstaklingnum betur og láta hann gera sína réttu hluti og/eða vitleysur á eigin ábyrgð en ekki á ábyrgð skattgreiðenda. (Grein birt í Morgunblaðinu í dag 26.1.2021.)


Fárið og fjölmiðlarnir

Í mörgum breskum fjölmiðlum er því slegið upp í dag, að nýa afbrigðið af Kóvíd sem greinst hefur í Bretlandi kæmi til með að valda 30% fleiri dauðsföllum en það hefðbundna sem glímt hefur verið við frá því í janúar 2020 og væri auk þess 70% smitnæmara.

Boris Johnson forsætisráðherra Breta sagði í gær, að nýja afbrigðið af veirunni "gæti valdið fleiri dauðsföllum (may be deadlier). Hann segir að ákveðnar upplýsingar bendi til, að þetta afbrigði kunni að vera hættulegra. 

En er þetta einhlítt og er þetta rétt frétt?

Hingað til hafa breskir vísindamenn sagt að það væri ekkert sem sýndi fram á að nýja afbrigðiði væri hættulegra þó það væri smitnæmara.

Í öllum fréttamiðlum er því slegið upp að nýja afbrigið valdi 30% fleiri dauðsföllum. Raunar er sú prósentuala líka röng þegar niðurstaða könnunarinnar er skoðuð, en það er annað mál. Síðan gleymist það hjá mörgum fjölmiðlum, að gera grein fyrir áliti helstu vísindamanna Breta um málið og þeir sem gera það birta það neðanmáls og ekki í fyrirsagnastíl eins og helfréttin um auka ógn vegna Kóvíd, sem skal niður í lýðinn með góðu eða illu.

Helsti vísindaráðgjafi bresku stjórnarinnar Sir Patrick Vallance og Chris Whitty helsti ráðgjafi bresku stjórnarinnar á lækningasviðinu segja,  að það sé mögulegt að nýja afbrigðið geti valdið fleiri dauðsföllum, en það liggi engar marktækar staðreyndir fyrir í þeim efnum og kannanir þriggja háskóla sem þessi niðurstaða byggir á séu ekki hafnar yfir vafa og hingað til hafi ekki fundist vísbendingar um a nýja afbriðið sé hættulegra þó það sé mun smitnæmara. 

Svona er hægt að búa til staðreyndir úr fyrirsögnum, sem eru engar staðreyndir og valda fjöldahræðslu að ástæðulausu. 

 


Ekki slaka á

Í síðustu sjónvarpsútsendingu sinni sagði sóttvarnarlæknir, að ekki væri ástæða til að slaka á sóttvarnaraðgerðum. Af hverju var þá ekki ástæða til að taka þær upp þegar ástandið var svipað að áliðnu sumri og það er núna?

Smit innanlands eru svo lítil, að það er full ástæða til að slaka á ef meiningin er að fólkið í landinu búi einhverntíma við venjulegt ástand. Miðað við ástandið erlendis er hinsvegar full ástæða til að gæta allrar varúðar í samskiptum við útlönd. 

Athyglisvert er að hlusta á veirutríóið og reiknimeistara þess viðhalda hræðsluáróðri og virðist ætla sér það út í það óendanlega. 

Þegar talað er um ástandið í nágrannalöndum okkar, þá gleymist að næstu nágannalönd eru Færeyja og Grænland. Hvernig gengur baráttan við veiruna þar? Í sjálfbirgingshætti okkar hættir okkur til að tala um að allt sé best og fullkomnast hjá okkur. En hvað þá með árangur Grænlendinga og Færeyinga. Er ekki rétt að skoða hann til viðmiðunar og er hann ekki eðlilegri samanburður en samanburður við milljónaþjóðir í nánu samabýli?

Stjórnmálamenn hafa vanrækt að setja almennar viðmiðanir varðandi sóttvarnir og viðbrögð við Kóvíd fárinu og þessvegna fara allar ákvarðanir eftir kenjum og geðþóttaákvörðunum eins manns og í besta falli tveggja. Stjórnmálamenn eru stikkfrí sem ábyrgðarlausir leikendur þó þeir beri á endanum pólitíska og siðferðilega ábyrgð á þeim ákvörðunum sem eru teknar þó þeir reyni til hins ítrasta að koma sér hjá þeirri ábyrgð. 

 


Átök í Borgarholtsskóla

Fyrir nokkru var sagt frá fólskulegri árás í Borgarholtsskóla. Ungur maður beitti kylfu og hníf. Rætt var um málið í öllum fréttamiðlum landsins sama dag og daginn eftir. Skólastjórinn velti fyrir sér hvort eitthvað væri að breytast í íslensku umhverfi. 

Jafn skyndilega og umræðan byrjaði, dó hún út. Engin fréttamiðill minnist lengur á þessa illvígu innrás og árás.

Þegar skyndilegur þagnarmúr er settur um ákveðið mál, þá er venjulega eitthvað skrýtið á ferðinni. Eitthvað sem fjölmiðlamenn og í þessu tilviki lögregluyfirvöld líka telja æskilegt, að almenningur verði ekki upplýstur um.

Hvað skyldi það nú annars vera?

Gæti verið að skólastjórinn hafi átt kollgátuna, að eitthvað væri að breytast í íslensku umhverfi, en stjórnmálaelítan, fréttaelítan og lögreglan telji heppilegt, að upplýsa ekki um það hvað það er? 


Það er að hlýna þó það sé að kólna.

Í ágætu viðtali við forstjóra Hafrannsóknarstofnunar í Morgunblaðinu í dag, kemur fram, að sjórinn kringum landið sé kaldari núna en var fyrir tveim árum og áratuginn þar á undan. 

Nokkru áður í greininni skrifar blaðamaðurinn. "Alls staðar er að hlýna" 

Þjóðsagan um að það sé alls staðar að hlýna er orðin að trúaratriði og hefðbundnir blaða- og stjórnmálamenn vita, að nauðsynlegt er að taka einn skammt af hnattrænni hlýnun af mannavöldum þegar fjallað er um náttúrulegar breytingar. 

En það er samt að kólna og ótvíræð ummæli forstjóra Hafró sýna það. 

Sefasjúkur áróður hlýnunarsinna minnir meira og meira á baráttu kaþólsku kirkjunnar á miðöldum fyrir því að sannfæra fólk um, að allar reikistjörnurnar og sólin snérist í kringum jörðina, en jörðin væri fasti punkturinn í alheiminum. 

Hlýnunarsinnum finnst því rétt, að skattleggja neytendur vegna ímyndaðs vanda og spurningin er hve lengi ætla neytendur að láta skerða lífskjör sín vegna þessa endemis rugls. 


Trump kveður - í bili?

Nú þegar Donald Trump lætur af embætti er hann niðurlægður af fjölmiðlum ákærður af þinginu og fær ekki að tjá skoðanir sínar á ýmsum samfélagsmiðlum. Var stjórn hans virkilega svo ill, að þetta sé verðskuldað. Svarið er afdráttarlaust nei. Þó ýmsir hlutir hafi farið úrskeiðis, þá getur Trump vel við unað þegar horft er yfir farinn veg. 

Áður en Kínaveiran færði allt úr lagi hafði tekist í stjórnartíð Trump, að koma atvinnuleysi í Bandaríkjunum niður í það lægsta sem það hefur verið í rúm 50 ár eða niður í 3.5%. Atvinnlíf í Bandaríkjunum tók við sér og tekjur fólksins sem Demókratar höfðu gleymt og fínu ríku Repúblíkanarnir höfðu aldrei munað eftir fengu verulegar raunverulegar kjarabætur og það fólk mun ekki gleyma Trump. Hann er hetjan þeirra og á það skilið. 

Trump lagði út í baráttu við Kína í andstöðu við flesta leiðtoga bandalagsþjóða sinna, en honum tókst að sýna heiminum fram á það með hvaða hætti Kína rekur sína pólitík með ofsa og yfirgangi, en nýtur í mörgum tilvikum stöðu þróunarríkis. Nýir samningar við Kína eru blóm í hnappagatið hjá Trump. 

Bullinu í loftslagsmálum var vikið til hliðar enda ljóst, að Parísarsáttmálinn er kyrkingartak á efnahagsstarfsemi Vesturlanda. Í utanríkismálum getur hann státað af ýmsu fleiru og síðast en ekki síst að hann er eini forsetinn á þessari öld, sem ekki hefur ekki hafið stríð. 

Trump var að mörgu leyti andstæðingur rótgrónu gjörspilltu stjórnmálastéttarinnar. Hann var skotspónn helstu fjölmiðla heims allan tímann meðan hann var forseti og verður það vafalaust áfram. Það er vissulega missir af því að fá ekki Trumpfréttina sína daglega frá RÚV hversu vitlausar svo sem þær gátu verið þau fjögur ár sem hann gegndi embætti. 

Raunar er með ólíkindum, að þessi sjálfhverfi maður og að mörgu leyti ógeðfelldi skyldi ná því að fá svo mikið fylgi í forsetakosningunum núna sem raun ber vitni. Hann fékk fleiri atkvæði en nokkur annar frambjóðandi Repúblíkana til forsetaembættis hefur fengið. Það fékk hann þrátt fyrir að allir helstu fjölmiðlar væri á móti honum og níddu hann niður. Það fékk hann þrátt fyrir að hefðbundnar skoðanakannanir segðu að hann fengi lítið fylgi. Það fékk hann þrátt fyrir að auðmennirnir á Wall Street og víðar gæfu milljarða á milljarða ofan í kosningasjóð Demókrata. Bankamennirnir þar á bæ vita hver er vinur þeirra og hverjum þeir geta stjórnað og það er ekki Donald Trump. Miðað við þessar aðstæður verður að segja að Trump hafi staðið sig frábærlega og umfram allar vonir. 

Trump gerði mistök í sambandi við viðbrögð gagnvart Kórónuveirunni, en verri mistök gerði hann þegar hann viðurkenndi ekki fyrr að stríðið væri tapað, hann fengi engu breytt varðandi niðurstöðu kosninganna og hætti að þybbast við með þeim afleiðingum að lokum, að ráðist var á þinghúsið.

Mesti veikleiki Trump er sennilega sjálfselskan, en það breytir í sjálfu sér engu varðandi ýmis baráttumál sem hann tók upp og  beitti sér fyrir. Sumir hafa fullyrt, að hann hafi í raun kveikt bál, sem muni magnast enn meir og ná meiri stuðningi án hans en með honum. 

Joe Biden gamalreyndur stjórnmálamaður tekur nú við. Hann hefur flotið áfram, sem þægilegur handverksmaður á vettvangi stjórnmálanna í  hálfa öld. Hann boðar afturhvarf ti fortíðar. Fróðlegt verður að sjá hvernig honum gengur og vissulega er ástæða til að óska honum og stjórn hans velfarnaðar. Góð stjórn og árangursrík í Bandaríkjunum hefur áhrif á efnalega velferð alls heimsins. Óneitanlega óttast maður samt, að vinstri slagsíðan á Demókrataflokknum muni valda miklum vandræðum fyrr heldur en síðar einkum í efnahagsmálum. 

Joe Biden var kosinn fyrst og fremst vegna andstöðu kjósenda við Trump en ekki vegna þess að nokkrum fyndist hann hrífandi stjórnmálamaður eða líklegur til að gera Bandaríkin yfirburðaríki á nýjan leik. Næstu ár skera úr um það, hvort hann átti yfirhöfuð eitthvað erindi í pólitíkina á nýjan leik.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 1251
  • Sl. sólarhring: 1307
  • Sl. viku: 6393
  • Frá upphafi: 2470777

Annað

  • Innlit í dag: 1168
  • Innlit sl. viku: 5876
  • Gestir í dag: 1120
  • IP-tölur í dag: 1085

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband