Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Sigur á fátækt

Forseti alþýðulýðveldisins Kína, Xi Jinping, lýsti því yfir í morgun að sigur hefði unnist gegn algjörri fátækt í Kína. Þetta er merkileg yfirlýsing. 

Fyrir rúmum tveim áratugum tók kommnúistaríkið Kína upp kapítalískt eða markaðstengt kerfi að mestu leyti. Á þeim tíma hefur velmegun aukist. Sennilega eru fleiri ofurríkir einstaklingar í Kína en nokkru öðru ríki heims, millistétt í borgum Kína hefur styrkst efnalega mjög mikið og nú hefur tekist að útrýma algjörri fátækt að sögn forsetans.

Sigur kommúnistanna í Kína á algjörri fátækt er sigur markaðshagkerfisins, sem hefur náð að lyfta landinu frá fátækt til bjargálna.

Forsetinn talar um að sigur hefði unnist gegn algjörri fátækt. Það er sú viðmiðun sem er eðlilegust. Hér á landi og hjá þeirri stöðugt furðulegri stofnun Sameinuðu þjóðunum er hinsvegar ekki miðað við raunverulega fátækt heldur hlutfallslega. Sigur getur aldrei unnist á hlutfallslegri fátækt. Þessvegna getur Inga Sælandi og aðrir af slíku sauðahúsi endalaust bullukollast um fátækt út frá slíkum ruglanda. 

Hlutfallsleg fátækt er ekki spurning um fátækt heldur tekjuskiptingu. Þannig getur verið meiri hlutfallsleg fátækt í Noregi en í Serbíu svo dæmi sé tekið, þrátt fyrir að meðaltekjur þeirra sem hafa það lakast í Noregi séu mörgum sinnum hærri en í Serbíu. En þetta er sú viðmiðun sem talað er um hér og þegar síðast var rætt um málið á Alþingi þá var notast við þessa viðmiðun og samkvæmt henni áttu þá tug þúsund barna að búa við fátækt hér á landi, sem er rangt miðað við alþjóðlegar viðmiðanir um raunverulega fátækt. 

Æskilegt væri, að rannsakað yrði hverjir búa við raunverulega fátækt og snúið sér að því að koma öllum þeim sem búa við raunverulaga fátækt frá þeim lífskjörum til bjargálna, þannig að við getum státað að því þegar kemur að næstu kosningum eins og Alþýðulýðveldið Kína að hafa lyft öllum borgurum þessa lands frá raunverulegri fátækt. 


Mannréttindafrömuðurinn Erdogan Tyrklandsforseti.

Skömmu eftir að Erdogan nánast einræðisherra í Tyrklandi kvaddi Róbert Spanó forseta Mannréttindadómstóls Evrópu með miklum gagnkvæmum kærleika af beggja hálfu, skipaði hann félaga sinn og flokksbróður rektor í helsta háskóla í Tyrklandi BOUN sem stendur fyrir Bosporus University í Konstantínópel nú Istanbul.

Fjölmargir stúdentar við skólann voru ósáttir við að flokkslíkamabarn úr flokki Erdogan yrði rektor við skólann og mótmæltu því kröftuglega, en þó friðsamlega. Erdogan hefur látið handtaka meir en 250 stúdenta vegna þessara mótmæla og ekki nóg með það. Húsleit hefur verið framkvæmd hjá mörgum þeirra og fjölskyldur þeirra teknar til spurninga og yfirheyrslu hjá lögreglu. Þannig er nú farið að í mannréttindaríkinu Tyrklandi.  

En að sjálfsögðu hefur Erdogan vaðið fyrir neðan sig og segir að stúentarnir sem leyfðu sér að mótmæla, séu ekki mótmælendur heldur hryðjuverkamenn. Sé svo, þá eru þetta fyrstu mótmæli hryðjuverkafólks, sem fara friðsamlega fram dögum saman.

En skyld Mannréttindasómstóllin kaupa skýringu Erdogan eða hafa eitthvað um þetta mál að segja yfir höfuð?


Klerkastjórnin í Íran hnykklar vöðvana

Klerkastjórnin í Íran telur Biden greinilega vera veikan forseta. Biden var varla sestur í forsetastólinn fyrr en hann tilkynnti, að hann ætlaði að afnema höft og viðskiptaþvinganir og skrifa undir kjarnorkusamninginn, sem Trump hafnaði um leið og hann tók upp víðtækar refsiaðgerðir gegn klerkastjórninni. 

Klerkastjórnin í Íran er talin helsta ógnin við frið,  sem ríki í Mið-Austurlöndum standa frammi fyrir, hvort heldur er um að ræða Flóaríkin, Jórdaníu, Írak, Saudi Arabíu eða Ísrael. Íran styðjur hryðjuverkasamtök og hópa víðsvegar í Mið-Austurlöndum og þeir hafa undanfarna daga látið til sín taka í auknum mæli af því að nú óttat þeir ekki aðgerðir af hálfu Bandaríkjanna.

Klerkastjórnin er svo sannfærð um að Biden sé veikur forseti, að þeir setja það sem skilyrði fyrir að taka á nýjan leik þátt í samningaumleitunum við Bandaríkjamenn um kjarnorkumál, að Bandaríkin aflétti strax öllum höftum og viðskiptaþvingunum áður en sest er að samningaborðinu. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti þarf heldur betur að sýna það gagnvart Íran hvað í honum býr. Ætlar hann ekkert að aðhafast gagnvart ógninni frá Íran og ætlar hann virkilega að sýna það að ofbeldisríki þurfi ekkert að óttast meðan hann er við völd. 


Frelsið og manndáðin best.

Í gær var sagt frá því í fréttum, að síðast hefði greinst Covid smit utan sóttkvíar þann 20.janúar s.l.

Eðlilegt er að spurt sé hversvegna þarf að beita sóttvarnaraðgerðum innanlands þegar engin er sóttin? Er afsakanlegt að svipta fólk frelsi vegna sóttar sem geisar ekki í landinu? 

Af hverju þarf að telja inn í verslanir og af hverju er grímuskylda. Já og af hverju er tveggja metra fjarlægðarregla og fólki bannað að horfa á íþróttakappleiki nema í sjónvarpi. Hversvegna er fólki bannað að heimsækja vini og ættingja á elli- og sjúkraheimili og bannað að mæta í jarðafarir án þess að það sé talið inn. 

Íslenska þjóðin hefur tekið ótrúlega vel í þau tilmæli sem til hennar hefur verið beint varðandi sóttvarnir í Covidinu og góðan árangur í baráttunni má fyrst og fremst þakka ábyrgðarkennd alls þorra landsmanna, sem hefur gætt þess í hvívetna að hamla sem mest smitum vegna Covid.

Nú eru liðnir 37 dagar án þess að smit hafi greinst í landinu utan sóttkvíar. Yfirvöld hafa því engan rétt af sóttvarnarástæðum eða öðrum til að takmarka frelsi fólksins til að lifa lífi sínu með venulegum og eðlilegum hætti. 

Við þessar aðstæður er það ekkert annað en ábyrgðarleysi af ríkisstjórninni að létta ekki af hömlum á frelsi fólksins til leika og starfa eins og var fyrir Covid með þeirri undantekningu þó, að gæta verður þess að smit berist ekki inn í landið. 

Það kostar þjóðfélagið mikið að skerða frelsi fólksins og það er atlaga að framtíð og velmegun í landinu beiti ríkisvaldið áfram ónauðsynlegum frelsisskerðingum með þeim afleiðingum, að yfirdráttur ríkisins vegna innistæðulausra útgjalda eykst um eina milljón króna á hverri mínútu líka meðan fjármálaráðherra sefur. 

Það er greinilega auðveldara að svipta fólk frelsi en að koma því á aftur, jafnvel þó að ástæðu frelsissviptingarinnar sé löngu liðin hjá. Hvar skyldi nú vera "frelsið og manndáðin best", sem þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson kvað um?

Ef til vill fallin í gleymsku og dá 

 

 

 


Spámaður válegra tíðinda.

Sama dag og Veðurstofan skýrði frá því, að nýliðinn janúar væri kaldasti janúar á öldinni á landi hér og þó víðar væri leitað, kom hamfarafræðingurinn Halldór Björnsson fram í kvöldfréttum RÚV til að greina landsmönnum frá því að veður gerðust öll válegri vegna hamfarahlýnunar.

Þannig er farið með suma spámenn válegra tíðinda, að þeir seilast æ lengra til fanga og gerast ofsafengnari í boðun sinni, eftir því sem spár þeirra verða ótrúverðugri. 

Í gærkvöldi sagði Halldór Björnsson váboði Veðurstofunnar varðandi hamfarahlýnun, að sem dæmi um þær gríðarlegu loftslagsbreytingar sem væru orðnar, þá hefðu orðið skriðuföll á Seyðisfirði og snjóflóð hefðu ekki í aðra tíð fallið jafnvíða. Í huga váboðans var orsökin loftslagsbreytingar en ekki þær sem blasa við. Gríðarlegar rigningar á Seyðisfirði ollu skriðum eins og gerist víða í heiminum og snjóflóðin voru vegna mikillar snjókomu. 

Þetta minnti mig á, að hamfarahlýnunarspámenn eins og Halldór sögðu þegar fellibylurinn Katarína gekk yfir með mikilli eyðileggingu í byrjun aldarinnar, að nú væri komin óræk sönnun hlýnunar andrúmsloftsins af mannavöldum og fellibylir yrðu úr þessu stöðugt hatrammari og algengari en verið hefði. Þetta reyndist rangt eins og raunar allar hamfaraspár hinnar pólitísku veðurfræði.

En sannleikurinn og staðreyndirnar blasa við, þó reynt sé að segja að þær séu öðruvísi en þær eru. Þannig er janúar hvort sem okkur líkar betur eða verr kaldasti janúar á öldinni. 

Átrúnaðurinn á hamfarahlýnunina af mannavöldum gerir það samt ekki endasleppt og alþjóðastofnanir sem hafa fjárfest í þessum boðskap hamast við að setja upp fleiri og fleiri hitamæla í þéttbýli, jafnvel við enda flugbrauta, til að geta mælt hækkandi hitastig, þvert á raunveruleikann. 

Því miður þá eru leiðitamir stjórnmálamenn, sem nenna ekki að kynna sér málin svo helteknir af boðskap pólitískra veðurfræðinga, að milljarðar eru lagðir árlega á herðar skattgreiðenda og neytenda og það gríðarlega fé sent úr landi til einhvers, einhverra hluta vegna fórnað á altari þessara trúarbragða. 

Ömurleiki þessara frumstæðu trúarbragða í lofstlagsmálum, birtist nú hvað helst í nýju musteri koltvísýringseyðingar á Hellisheiði sem hamast við að breyta koltvísýringi í stein að því sem okkur er sagt. Ofanímokstri skurða sem gerðir voru á sínum tíma til að búa til nytjaland, en því svæði skal nú breytt í votlendi eins og skortur sé á því í landi hér. Glóruleysið birtist síðan í allri sinni dýrð í aflátsbréfum Landvirkjunar, sem hamast við að selja hreint loft til mengunarvalda í heiminum og falsa með því þær staðreyndir að við notum hvorki kol né kjarnorku. Bullið í loftslagsmálum er nefnilega orðið stórbíness stórfyrirtækja og það ofurgróðavænlegur á kostnað neytenda.

Hvenær fær þjóðin nóg af þessari vitleysu er ekki löngu mál til komið?

 

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 196
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4017
  • Frá upphafi: 2427817

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 3719
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband