Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

Nýtt upphaf

Alþingiskosningar boða nýtt upphaf í stjórnun landsins hverju sinni. Niðurstaða kosninganna nú benda eindregið til þess, að ríkisstjórn sömu flokka muni halda áfram. Þó er það ekki einboðið og Framsóknar- og Sjálfstæðisfólk gætu skoðað alla aðra möguleika ef þeim sýnist svo.

Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins eru sigurvegarar kosninganna. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sjó, þó svo virðist þegar þetta er skrifað að hann tapi örlitlu fylgi. Vinstri græn tapa nokkru fylgi, sem var viðbúið eftir að Sósíalistaflokkurinn kom fram. Fylgistap VG er álíka mikið og fylgi Sósíalistaflokksins. Persónulegar vinsældir Katrínar Jakobsdóttur náðu ekki að auka fylgi flokksins eins og sumir bjuggust við. 

Ekki verður séð í þessari stöðu, að ríkisstjórn verði mynduð án Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þeir flokkar geta myndað ríkisstjórn með stuðningi og/eða þáttöku Miðflokksins, Flokks fólksins eða Viðreisnar. 

Miðað við skilgreiningu mína á hægri og vinstri í íslenskri pólitík þá virðist svo sem það sé greinileg hægri sveifla, en þá tek ég Flokk fólksins sem hægri flokk enda helmingur þingflokks hans hægra fólk og við bætist síðan gamall hægri krati. Fleira kemur til skv. skoðanakönnunum, þá er greinilegt að flokkurinn sækir fylgi sitt til hægri í pólitík þó formaður flokksins verði trauðla skipaður sess þar.

Við Sjálfstæðisfólk megum vel við una, þó að við hefðum öll viljað sjá meiri árangur. Sá árangur næst þegar Flokkurinn tekur upp ákveðnari stefnu með fullveldi þjóðarinnar, markaðssamfélaginu og þjóðlegum og kristilegum gildum. 

 

 

 


Ímyndarstjórnmál

Kosningum til Alþingis er að ljúka. Sennilega hefur kosningabaráttan aldrei verið eins málefnasnauð og örugglega hefur barátta flokkana aldrei snúist eins mikið um persónu formanna stjórnmálaflokkanna. 

Foringi stjórnmálaflokks hefur í síauknum mæli úrslitaþýðingu um gengi eða gengisleysi hans og því eðlilegt að aulýsa persónu hans og reyna að skapa jákvæða ímynd. Einstakir frambjóðendur og málefni skipta stöðugt minna máli í baráttunni.

Sigur og tap flokkana verða þá um leið sigur eða tap viðkomandi forustumanna. 

Allt er þetta skiljanlegt í heimi þar sem áhuginn á pólitískri umræðu og stefnumálum flokkana fer sífellt minnkandi. Á sama tíma hefur það leitt til þess, að ímyndarfræðingarnir búa til foringja, sem eru eðlislíkir í málflutningi og áherslum og þeir sjálfir sjá sig ekki í öðru hlutverki en því. Þannig skiptir öllu máli að vera jákvæður hvaða bull sem um er að ræða.

Í foringjaumræðunum í gær kom spurning eins og skrattinn úr sauðaleggnum. "Viljið þið að kynjafræði verði gerð að skyldunámsgrein í grunnskólum" Gjörsamlega fráleit spurning miðað við umræður í kosningabaráttunni auk þess sem það er gjörsamlega fráleitt og heimskulegt að gera kynjafræði að skyldunámsgrein. Hvað sem því líður þá svöruðu allar puntudúkkurnar sem heita forustumenn íslenskra stjórnmálaflokka umræddri spurningu játandi. Annað hefði getað leitt til ímyndarvanda og enginn þeirra vill vera annarsstaðar en í hópi góða fólksins. 

Þessvegna verða stjórnmálin einsleit og ómálefnaleg. Má ég þá frekar biðja um alvöru pólitík án ímyndarfræðinga, þar sem málefnin ráða og stjórnmálaforingjar þora að hafa skoðanir jafnvel þó óvinsælar séu í upphafi baráttunar og standa og falla með þeim en ekki persónulegri ímynd sinni.

 

  

 


Sérkennileg skattastefna Framsóknar

Leiðtogaumræðurnar í sjónvarpinu í gærkvöldi voru vægast sagt rislitlar. Eitt kom þeim sem þetta ritar sérstaklega á óvart, en það voru hugmyndir sem formaður Framsóknarflokksins reifaði um skattastefnu Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi boðaði einhverskonar háskattastefnu á þá sem gengur vel í atvinnurekstri. Þannig að færi hagnaður fyrirtækja umfram ákveðið mark, sem formaðurinn var ekki með á hreinu hvað væri, þá ætti að skattleggja viðkomandi sérstaklega þannig að helst væri að skilja, að lítið sem ekkert sæti þá eftir af hagnaðinum.

Hugmyndir sem þessar hafa iðulega komið upp, en jafnan hefur verið fallið frá þeim, þar sem þær leiða yfirleitt til þess, að vegið er í raun að hugmyndafræði frjálsrar samkeppni og markaðshyggju og skekkja samkeppnisaðstöðu fyrirtækja. 

Alla útfærslu vantaði þó hjá Sigurði Inga um það hvernig þetta ætti að vera. En aðalatriðið er það, að með þessu er Sigurður Ingi í raun að boða þá stefnu Framsóknarflokksins, að auka skattheimtu og láta hana vera valkvæða þannig, að þeir sem skara framúr skuli bera þyngri skattbyrði en aðrir eftir síðari tíma geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna. 

Íslenskir stjórnmálamenn þurfa heldur betur að vinna tillögur sínar um það hvernig þeir ætla að leggja ofurskatta á þjóðina en Sigurður Ingi hefur gert miðað við orð hans í leiðtogaumræðunum í gær. 

 


Dansinn í kringum ríkisstjórnina

Alla kosningabaráttuna hefur það verið helsta viðfangsefni fjölmiðla eftir birtingu nýrrar skoðanakönnunar að gera að aðalatriði hvort ríkisstjórnin haldi velli eða ekki. Umfjöllun um það og hugsanlega valkosti við stjórnarmyndun hefur verið einskonar samkvæmisleikur hinnar talandi og skrifandi stétta. Þar kemur fram sú viðmiðun að íslenskir stjórnmálaflokkar hafi enga meginstefnu og séu algerlega prinsíplausir. 

Jafnvel þó að stjórnarflokkarnir fengju meirihluta er ekki sjálfgefið að þeir mundu halda áfram í ríkisstjórn. 

Það gleymist, að þessi ríkissstjórn var ekki mynduð vegna þess að stjórnarflokkarnir hefðu ólmir viljað fara í samstarf heldur vegna þess, að á þeim tíma var ekki annar valkostur til myndunar starfhæfrar ríkisstjórnar í boði. 

Á hinum Norðurlöndunum veltir fólk fyrir sér hvort hægri blokkin eða sú vinstri eins og það er nefnt fái meirihluta. Þar er miðað við að flokkar sem hafa líkar þjóðfélagslegar áherslur reyni til þrautar að mynda ríkisstjórn en skauti ekki yfir til helstu andstæðinganna. 

Væri reynt að nota svipaða aðferðarfræði og á hinum Norðurlöndunum miðað við það sem fram kemur í skoðanakönnunum um viðhorf flokksmanna einstakra flokka til þjóðfélagsmála, þá væru flokkarnir í hægri blokkinni Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins, Viðreisn og Framsóknarflokkur en í vinstri blokkinni Vinstri grænir,Píratar, Samfylking og Sósíalistaflokkur. Eðlilegra væri að hinar skrifandi stéttir mundu velta því fyrir sér hvort að möguleikar væru miðað við líklega útkomu kosninga að hægri eða vinstri stjórn yrðu myndaðar. Allt færi það eftir því hvort hægri eða vinstri blokkin mundu hafa betur í kosningunum. 

Flokkar á hinum Norðurlöndunum eru ekki í vanda með að skilgreina sig til hægri eða vinstri, en hér virðist það vera eitthvað feimnismál, sennilega vegna prinsípleysis íslenskra stjórnmálamanna. 

Það er eðlilegra að Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Flokkur fólksins starfi saman en Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir svo dæmi sé nefnt. Það er ekkert eðlilegt við samstarf Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna og sá valkostur ætti að vera fyrir báða flokka síðasta úrræðið við myndun ríkisstjórnar. 

Framundan eru áskoranir, sem kalla á ábyrga efnahagsstjórn, forgangsröðun í velferðarmálum til hagsbóta fyrir þá sem hafa brýnustu þörfina og þá á við það sama í pólitík og annarsstaðar í samfélaginu að "lík börn leika best"

 


Löglegt en siðlaust

Kristrún Frostadóttir sem skipar 1. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður er sögð hafa hagnast um 100 milljónir vegna sérkjara sem henni voru boðin af vinnuveitenda hennar. Hún hefur hafnað því að gera kjósendum fulla grein fyrir þessu máli.

Telja má uppá, að löglega hafi verið gengið frá þeim gerningum, sem þarna var um að ræða sem leiddu til óeðlilegrar auðgunar Samfylkingarframbjóðandans, sem er í engu samræmi við þau kjör sem annað launafólk hefur. En jafnvel þó að löglega hafi verið að þessu staðið þá er þetta algjörlega siðlaus starfskjör miðað við það sem venjulegu launafólki býðst fyrir vinnu sína.

Hvernig ætlar Samfylkingin, sem segist berjast gegn misskiptingu í þjóðfélaginu og ofurlaunum, en fyrir jöfnuði að líða það, að einn helsti frambjóðandi hennar falli að öllum líkindum í þann flokk ofurlaunafólks og bankstera, sem flokkurinn segist berjast á móti. 

Vilji Samfylkingin halda trúverðugleika, þá kemst forusta hennar ekki hjá því að gera almenningi grein fyrir því sem máli skiptir varðandi ofurlaunakjör frambjóðandans í fyrsta sæti í Reykjavík suður og hvernig vera hennar á framboðslistanum samræmist helstu stefnumálum flokksins um að berjast gegn ofurlaunum og misskiptingu í þjóðfélaginu. 

 


mbl.is Kristrún ætlar ekki að svara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki bara best að kjósa ekki Framsókn?

Framsóknarflokkur og Viðreisn heyja harða baráttu um hvor flokkanna sé meiri "miðjuflokkur" Baráttan felst í því að sýna kjósendum, að þeir geti unnið með hverjum sem er, hvenær sem er. Þeir láti ekki hugsjónir eða stefnumál þvælast fyrir sér. Þessvegna getur Viðreisn auðveldlega stutt vilta vinstrið í borgarstjórn Reykjavíkur.

Framsóknarmenn stæra sig af því að þeir hafi jafnan verið valkostur við stjórnarmyndanir vegna þess hvað þeir séu mikill mðjunafli íslenskra stjórnmála. Réttara væri að segja að Framsókn hafi um langt árabil verið flokkur, sem hefur þann eina pólitíska tilgang að vera í ríkisstjórn, sér og sínum til framdráttar.

Miðja stjórnmála hvar sem er í heiminum er kyrrstöðuafl. Framsóknarflokkurinn kynnir sig í kosningabaráttunni sem flokk, sem þeir geti kosið,sem hafa ekkert annað að kjósa og engar sérstakar skoðanir í pólitík.

Vandi íslenskra stjórnmála er síst sá, að það séu ekki nógu margir flokkar á miðju hefðbundinna stjórnmála og sækist eftir að vera þar. Vandinn er mun frekar sá, að það vanti flokka, sem boði stefnu sem sé líkleg til að verða hreyfiafl nýrrar sóknar til velferðar einstaklinga og samfélags. Slíkir flokkar eru sjaldnast á miðjunni og alla vega ekki hér á landi.

Ekki gleyma því sem Winston Churchill forsætisráðherra Breta sagði eitt sinn. "Vandi þeirra sem eru á miðjum vegi er að það er keyrt yfir þá." Þannig er það líka í pólitíkinni þeir sem hafa enga hugmyndafræðilega rótfestu láta allt falt ef því er að skipta. Þessvegna hefur Framsóknarflokkurinn jafnan verið opinn í báða enda eins og fyrrum foringi hans orðaði það.    


Er nóg til?

Ríkasti maður heims um næstliðin aldamót John D. Rockefeller var spurður að því af blaðamanni á sjötugsafmælinu sínu hvað hann þyrfti mikið meira til að hafa nóg. Rockefeller svaraði. Bara örlítið meira "Just a little bit more" 

Forseti ASÍ telur hinsvegar að nóg sé til svo auka megi millifærslur og hækka hverskyns styrki í þjóðfélaginu jafnvel þó ríkissjóður sé rekinn með umtalsverðum halla og við séum fjarri því að vera ríkust í heiminum eins og Rokcefeller var. 

Forseti ASÍ dansar ekki ein þennan dans ímyndunarinnar. Forustumenn allra stjórnmálaflokka dansa með henni í aðdraganda kosninganna. Fréttastofu RÚV hefur auk heldur verið með fastan þátt í hverjum fréttatíma í rúm 12 ár sem gæti heitið ég eða við eigum svo bágt að stórauka verður framlög ríkisins til mín eða okkar. Sérkennilegt ef nóg er til.

Af hverju er ekki hægt að ráðast í mörg brýn verkefni fyrst nóg er til. Já og hvers vegna er ríkissjóður rekinn með hundraða milljarða halla ef nóg er til. 

Getur verið að svo sé komið fyrir íslensku stjórnmálastéttinni og fréttaelítunni sem og verkalýðshreyfingunni, að þeir hópar séu ófærir um að taka á málum eða tala um þau út frá öðrum viðmiðunum en raunveruleikaheimi Lísu í Undralandi. 

 


Alræðisríkið

Fasistaleiðtoginn Benito Mussolini kom með hugmyndina um alræðisríkið. Hann lýsti því hvernig fasisminn þyrfti að ná til allra sviða þjóðfélagsins og gæti ekki viðurkennt neina takmörkun afskipta af hvaða vettvangi þjóðfélagsins sem er enda engar málamiðlanir leyfðar.

Fasistar Mússólíni börðust fyrir sínum sósíalisma á Ítalíu og vildu á grundvelli hugmydafræði sinnar um allsherjarríkið stjórna því sem gerðist í vinnustöðum, verkalýðsfélögum, skólum, hverfum, sveitarfélögum o.s.frv.

Nú hefur íslenska þjóðin eignast svipaðan sósíalistaflokk og flokk Mússólínis, sem krefst alræðisstjórnar, sósíalistaflokk Gunnars Smára Egilssonar.

Íslensku sósíalistarnir boða eins og ítölsku fasistarnir gerðu á sínum tíma að það eigi ekki að gera neinar málamiðlanir. Semsagt andstaða lýðræðislegra hugmynda, en málamiðlanir eru ein meginstoð lýðræðislegra stjórnarhátta, þar sem tekið er tillit til mismunandi skoðana og reynt að ná sameiginlegri framtíðarlausn án ofbeldis. Sósíalistaflokkurinn er því andlýðræðislegur.

Í stefnuskrá flokksins segir: "Þess vegna þarf almenningur að ná völdum ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn,hverfið, sveitarfélagið, þorpið---." Alræðisflokkurinn ætlar að koma á sósíalísku þjóðfélagi, sem hefur í för með sér biðraðir, skort og frelsisskerðingu. Sérkennilegt ef slíkar skoðanir eiga fylgi í íslensku samfélagi.

Í dag má sjá felst ungt fólk og miðaldra, sjálfsöruggt fólk, sem hefur þekkingu og vit á því hvað það vill og hegðar sér almennt eins og upplýstir neytendur sem vilja velja sjálfir hvort þeir kaupa þessa tegund af sjónvarpi, bifreið eða hverju sem er. Það kynnir sér mismunandi verð og gæði á netsíðum og það ætlast til að því sé mætt sem fólki með sjálfstæðan vilja en ekki aðgerðarlaust fólk í biðröð eftir að geta keypt það sem kommúnistaeinokun Gunnars Smára býður þeim þann daginn fyrir það verð sem alræðisstjórn verksmiðju öreigana ákveður þann daginn. Það er að segja ef það verður þá ekki allt uppselt þegar röðin kemur að viðkomandi. Veruleiki sósíalistaflokksins er bergmál og afturhvarf til hugmynda frá því fyrir einni öld síðan, sem átti við allt aðra þjóðfélagsgerð en okkar.  

Fólk ætti að hugleiða að í raun er Gunnar Smári og sósíalistarnir hans ekki að boða annað en fráhvarf frá frelsi einstaklinganna til eigin ákvörðunartöku og alræðis Sósíalista enda á ekki að leyfa neinar málamiðlanir. 

 

  

 


Neyðarástandið

Þýski heimspekingurinn Shcopenhauer sagði í bók sinni "Die Kunst Recht zu Behalten" eða listin að vera réttu megin, að það væri engin skoðun, svo vitlaus, sem fólk mundi ekki auðveldlega snúast til fylgis við ef hægt væri að sannfæra það um að hún væri almennt viðurkennd rétt. 

Viðreisn vill lýsa yfir neyðarástandi vegna hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum. En hver er neyðin? Hvar eru vandamálin annarsstaðar en í ítrekuðum skýrslum loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, sem RÚV túlkar sem heilagan sannleika. 

IPCC hefur gefið út skýrslur um hamfarahlýnun síðustu áratugi. Ályktanir þeirra hafa ítrekað reynst rangar auk þess sem þar á bæ hefur staðreyndum verið hagrætt og þær jafnvel falsaðar eins og átti sér t.d. stað árið 2009. Reynt var þá og reynt er enn að þagga þær staðreyndir niður og IPCC heldur áfram í sama farinu enda löngu komið út fyrir eðlilega vísindalega nálgun og hefur breyst í pólitíska áróðursstofnun. 

Allt fárið í kringum hnattræna hlýnun,sem er ötullega studd t.d. af Indlandi og Kína sem hafa verið að auka stórkostlega framleiðslu á gróðurhúsalofttegundum síðustu 30 ár snýst að meginstefnu um að koma gríðarlegum fjármunum frá Vesturlöndum til mengunarlandanna eins og t.d. Kína og Indlands.

Í bók sinni "An appeal to reason a cool look at global warming" segir Nigel Lawson fyrrum fjármálaráðherra Breta, að það séu framkvæmdaaðilar í Indlandi og Kína sem hafi grætt þúsundir milljóna dollara á að byggja verksmiðjur, sem hafi þann eina tilgang að framleiða gróðurhúsalofttegundir, svo að viðskiptaaðilar Carbon aflátsbréfa á Vesturlöndum borgi fyrir að draga úr losuninni. Þetta er eitt dæmi en þau eru mörg enda eru stórkapítalistarnir orðnir helstu talsmenn aukinnar skattheimtu og greiðslna Vesturlanda til mengunarsóða í svokölluðum þróunarlöndum og hirða síðan vænar summur eftir að auðtrúa almúginn á Vesturlöndum hefur fallist á að skattleggja sjálfan sig í átt til fátæktar til að þjóna hagsmunum kauphallarfursta og ofurmilljarðamæringa.

Pólitíska viðfangsefnið hér á landi ætti að vera að spurt yrði spurninga eins og þeirra, hvort það sé afsakanlegt eða rétt, að við greiðum yfir 50 milljarða á næstu árum til einhvers sem á að hafa áhrif á loftslagið í heiminum? Er afsakanlegt að skattleggja fólk í þessu skyni á grundvelli einhvers sem er ekki brýnast að bregðast við hvað sem öðru líður? Er afsakanlegt að við skattleggjum neytendur með því að hækka vöruverð vegna aðgerða í loftslagsmálum? Hvernig er hægt að vinna gegn fátækt með slíkri stefnu? Hvernig er hægt að auka og bæta lífsgæðin í landinu með slíkri stefnu?

Þetta eru allt spurningar sem stjórnmálamenn ættu að gaumgæfa og taka afstöðu til sem og kynna sér málin áður en þeir taka þátt í margradda áróðri fjölþjóðafyrirtækja og helstu mengunarsóðanna. Áttar fólk sig virkilega ekki á því hvað er að gerast þegar svo lítið og einfalt dæmi sé tekið, þegar Landsvirkjun er orðið að Carbon sóðafyrirtæki og græðir milljarða á því að selja aflátsbréf. 

Telur fólk að það sé virkilega einhver vitræn glóra í að skattleggja okkur í átt til fátæktar vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar og gera raunverulegum framleiðslufyrirtækjunum stöðugt erfiðara fyrir en það gæti leitt til stórfellds efnahagshruns á Vesturlöndum í nánustu framtíð og aukið raunverulega fátækt.

 

 

 

Hlýjasta árið til þessa var 1934 


Best í heimi

Okkur er sagt að íslenskar konur séu þær fallegustu í heimi. Ég hef ekki séð nokkur skynsamleg rök færð fyrir því að það sé rangt.

Okkur er líka sagt að lífeyriskerfið okkar sé það besta í heimi. Þrátt fyrir það virðist sem aldraðir í okkar heimshluta hafi það jafnvel betra efnalega en aldraðir á Íslandi þrátt fyrir þetta "yfirburða" lífeyriskerfi. 

Okkur er líka sagt að fiskveiðistjórnunarkerfið sé það besta í heimi. Þrátt fyrir það er þorskafli nú ekki nema um þriðjungur á við það sem var þegar kvótakerfið var lögfest og nýliðun í greininni er nánast útilokuð.

Menntamálaráðherra miklar skólakerfið og telur það best í heimi, þrátt fyrir það að við færumst neðar og neðar í fjölþjóðakönnunum á hæfni nemenda og þekkingu og komumst ekki í hálfkvisti á við færni nemenda ýmissa annarra þjóða.

Það nýjasta er að sóttvarnarteymið á Íslandi með sóttvarnarlækni í broddi fylkingar sé það besta í heimi og hvergi hafi náðst annar eins árangur og hér. Samt sem áður liggja fyrir tölfræðilegar upplýsingar um að betri árangur hafi náðst á ýmsum stöðum og nú eru í gildi meiri hömlur á frelsi borgaranna en víðast í nágrannalöndum okkar. 

Hvernig skyldi standa á því að við erum eina þjóðin á Vesturlöndum sem erum með opna smitgátt á stærsta millilandaflugvelli landsins, þar sem fólki er hrúgað í endalausar biðraðir bæði við komu og brottför. 

Af hverju þurfum við sem eigum besta sóttvarnarlækni í heimi að búa við meiri frelsisskerðingar vegna ímyndaðs fárs vegna Kóvíd, en nágrannaþjóðir okkar. 

Væri ekki í ráði að ríkisstjórnin girti sig einu sinni í brók eins og það er kallað og færi að líta til ákvæða sóttvarnarlaga og heildarhagsmuna þjóðarinnar, en léti ekki endalaust stjórnast af minnisblöðum sóttvarnarlæknis.

Væri ekki í ráði að hætta að reyna að steindrepa ferðaþjónustuna og eðlilegar millilandaferðir landans og taka upp svipaðar reglur og t.d. í Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi eða Spáni? Af hverju geta þeir verið með meira frelsi fyrir borgarana en við sem eigum "besta sóttvarnarteymi og sóttvarnarlækni" í heimi og það Fálkaorðum prýtt í ofanálag? 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 199
  • Sl. sólarhring: 838
  • Sl. viku: 4020
  • Frá upphafi: 2427820

Annað

  • Innlit í dag: 186
  • Innlit sl. viku: 3722
  • Gestir í dag: 184
  • IP-tölur í dag: 179

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband