Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2023

Mesti heigulshátturinn

Rithöfundurinn C.S. Lewis sagði eitt sinn: "Einn mesti heigulshátturinn, sem venjulegt fólk getur gert er að loka augunum fyrir staðreyndum. 

Nýverið hélt æðsta ráð þjóðkirkjunnar fund, sem kallast kirkjuþing. Látið er í veðri vaka að þar sé um hámörkun lýðræðis að ræða í samtökum sem teljist hafa innan sinna vébanda hátt á þriðja hundrað þúsunda landsmanna. Samt sem áður hef ég aldrei orðið var við almennar kosningar í þessari kirkjudeild og átti þess aldrei kost meðan ég var innan vébanda hennar að kjósa prest, velja fólk til setu á kirkjuþingi hvað þá að kjósa biskup. Það er ekki í boði nema fyrir sérvalda.

Hvað sem líður lýðræðinu, þá náði kirkjunnar fólk, að sameinast um að lýsa fullum stuðningi og trausti við biskup sem situr þó að kjörtímabili hennar sé löngu lokið og hún sé umboðslaus skv. áliti þess dómara, sem kirkjan hefur falið að véla um slík mál. En það skiptir kirkjuþing ekki máli. 

Um svipað leyti og Kirkjuþing var haldið var birt skoðanakönnun um stöðu þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan hefði átt að vera kirkjunnar fólki umhugsunarefni, en álit fólks á kirkjunni og stuðningur við hana hefur aldrei verið minni. 

Þrátt fyrir að fyrir liggi ótvíræð niðurstaða um vanhæfni biskups og umboðsleysi og þrátt fyrir að liggi fyrir ótvíræð niðurstaða könnunar um verstu stöðu þjóðkirkjunnar frá upphafi vega, þá sameinaðist Kirkjuþing í að lýsa yfir einróma stuðningi við umboðslausan biskup. 

Greinilegt er að á Kirkjuþingi situr ekki þverskurður þeirra sem eru í kirkjudeildinni sbr. skoðanakönnunina. 

Kirkjuþing valdi leið þolandans í ofbeldissambandi, sem sættir sig við það og mælir ofbeldinu bót og samsamar sig með því.

Það er svo  auðvelt að loka augunum fyrir staðreyndum ef það hentar, en stórmannlegt er það ekki sbr. tilvitunin hér að ofan. 


Við áttum að hafna Hamastillögunni hjá SÞ.

Í leiðara Daily Telegraph í gær er fjallað um nauðsyn þess, að breska ríkisstjórnin haldi áfram að sýna fram á hversu fráleitar og óframkvæmanlegar kröfur um vopnahlé séu í stríðinu milli Ísrael og Hamas á Gasa.

Í leiðaranum segir eftirfarandi:

„Það er hryllilegt að óbreyttir borgarar skuli falla á Gasa. En ábyrgðin er algjörlega Hamas. Hamas samtökin gætu lokið stríðinu með því að gefast upp og leysa úr haldi meira en 200 gísla sem samtökin hernámu 7.október. Þeir gætu líka dregið úr hættu eigin borgara með því að hvetja þá til að flytja sig tímabundið til suðurhluta Gasa. Þess í stað eins ógeðfellt og það er þá ákváðu liðsmenn samtakanna að nota bæði gísla sína og íbúa á Gasa sem mannlega skildi.

Hamas er líka um að kenna allan skort á nauðsynjum þ.m.t. eldsneyti. Sagt er að samtökin séu með miklar birgðir og noti mikla orku til að lýsa upp víðtækt og umfangsmikið net neðanjarðarganga. Ísrael hefur líka sýnt fram á að Hamas staðsettu höfuðstöðvar sínar í neðanjarðarbyrgi undir helsta sjúkrahúsinu, Shifa sjúkrahúsinu, sem veldur beinni hættu fyrir sjúka og þá sem eru illa settir.

Það er skiljanlegt að fólk vonist til að það verði stund milli stríða (humanitarian „pause“) í átökunum, til að neyðarhjálp komist inn á Gasa svæðið. En vopnahlé kemur ekki til greina. Það mundi ekki aðeins gefa Hamas tækifæri til að endurskipuleggja liðssveitir sínar og undirbúa frekari eldflaugaárásir á Ísrael.

Margir þeirra sem krefjast þess að Ísrael leggi niður vopn eru óheiðarlegir. Eru til nokkur hernaðarleg umsvif Ísrael sem að gagnrýnendur þeirra vilja leyfa landinu að taka til að svara fyrir svívirðilega hryðjuverkaárás Hamas? Halda þeir virkilega að það sé einhver pólitísk lausn í sjónmáli milli Ísrael og samtakanna, sem vilja eyða Ísraelsríki af yfirborði jarðar? Ísraelsmenn vita nú, að yfirlýsingar og stefna Hamas um þjóðarmorð á Gyðingum er ekki tómt orðagjálfur.

Ísrael stendur nú frammi fyrir hugsanlegu stríði á mörgum vígstöðvum. Þeim liggur á að sýna fram á að þeir geti komið í veg fyrir árásir á Ísrael með því að sýna fram á ótvíræðan hernaðarlegan styrk og lausnir.

Það eru hagsmunir bæði Ísrael og Palestínumanna, að Ísrael verði leyft að eyða Hamas.“

Hér er ekki töluð vitleysan en bent á staðreyndir. Stríð er alltaf slæmt, en stundum er það því miður óumflýjanlegt. Bandaríkin mátu það svo þegar Japanir gerðu árás á flotastöð þeirra í Pearl Harbour á sínum tíma að það væri óumflýjanlegt fyrir þá að ganga milli bols og höfuðs á þeim sem bæru ábyrgð á þeirri fólksulegu árás. Þeir gerðu það og engum datt í hug á þeim tíma að krefjast þess að Bandaríkjamenn samþykktu vopnahlé þegar Japönum hentaði eða slíkt vopnahlé yrði algerlega á þeirra forsendum eins og tillaga Jórdaníu kvað á um varðandi vopnahlé hjá Sameinuðu þjóðunum.

Að sjálfsögðu hoppaði erkipópúlistinn Katrín Jakobsdóttir á vagn Hamasvænu tillögu Jórdana og vælir yfir því að utanríkisráðherra hafi ekki talað við sig. Einhverra hluta vegna sér sá ráðherra ekki ástæðu til að varða þá vegferð sem hann ákvað neinum rökum eða sýna fram á að afstaða Íslands í atkvæðagreiðslunni var pólitískt rétt.

Óneitanlega sérkennileg ríkisstjórn svo ekki sé meira sagt. Einhverntíma og það jafnvel fyrr hefði forsætisráðherra í ríkisstjórninni sagt: „Innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um neitt sem máli skiptir og því einboðið að hún segi af sér og fari frá.“


Má Davíð fara í bað?

Eitt sinn gagnrýndi ég þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins Davíð Oddsson fyrir að ekki hefði náðst í hann við vinnslu ákveðinnar fréttar á RÚV.

Magnús Óskarsson heitinn, lögmaður m.a. borgarlögmaður og stórsnillingur svaraði greininni með grein sem hét. "Má Davíð fara í bað." þar gerði hann grein fyrir að stjórnmálamenn væri að sjálfsögðu ekki alltaf tiltækir. Við Magnús urðum sammála um það, að Davíð mætti fara í bað en ekki dvelja þar svo lengi að heilsu hans væri hætta búinn eða hann vanrækti stjórnsýsluna.

Davíð Oddson má eiga það að meðan hann var formaður Sjálfstæðisflokksins þá stóð ekki upp á hann að gera pólitíska grein fyrir afstöðu sinni og flokksins varðandi pólitísk ágreiningsmál. Hann gerði það raunar svo vel,að hátt í 40% kjósenda studdu Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma. 

Ekki hefur náðst í formann Sjálfstæðisflokksins í mun lengri tíma en tekur að fara í bað, til að hann skýri afstöðu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í mikilvægu pólitísku ágreiningsmáli þ.e. hjáseta við tillögu um vopnahlé á Gasa. 

Að sjálfsögðu á utanríkisráðherra,formaður Sjálfstæðisflokksins að rökfæra þá ákvörðun, að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna strax í kjölfar hennar. Það er skylda hans sem utanríkisráðherra og það er skylda hans sem formanns Sjálfstæðisflokksins að gera grein fyrir stjórnmálastefnunni í mikilvægum málum. Það hefur sýnt sig að til þess er hann vel hæfur. Þetta var enn brýnna varðandi atkvæðagreiðsluna þar sem forsætisráðherra kvikaði strax í afstöðunni sem og flokkur hennar.

Það er ekki sérstakt hlutverk, ritstjóra Morgunblaðsins,  Björns Bjarnasonar, Hannesar H.Gissurarsonar og annarra minni spámanna að standa stöðugt í því hlutverki að rökfæra stefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn meðan formaður og stór hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins, telur rétt að vera fríhjólandi í guðsgrænni náttúrunni. Það kann ekki góðri lukku að stýra.


Samsæriskenningar og staðreyndir

Ég lauk í gær við að lesa bókina "Case Closed" (Málinu lokið) eftir Gerald Posner rannsóknarlögfræðing. Bókin fjallar um morðið á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta 22. nóvember 1963 og gerir góða úttekt á þeim samsæriskenningum sem hafa verið uppi og niðurstöðum Warren nefndarinnar svokölluðu sem rannsakaði málið í upphafi á vegum stjórnvalda.

Niðurstöður Warren nefndarinnar voru trúverðugar og niðurstaðan, að Lee Harvey Oswald hefði verið einn að verki og myrt Kennedy. Ég var hissa þegar ég sá stórmynd Oliver Stone: JFK, sem var um bullkenningu Jim Garrison saksóknara í sambandi við morðið, að þessi þekkti leikstjóri skyldi gera slíkri bullkenningu svona hátt undir höfði.

Það var of einfalt fyrir marga að rugludallur eins og Lee Harvey Oswald hefði myrt Kennedy og leitað var allskyns skýringa og margvíslegar hugmyndir settar fram oft frekar af óskhyggju eða sjúkri ímyndun frekar en nokkuð annað. Haldið var fram, að bandaríska mafían stæði að baki morðinu, leyniþjónustur Bandaríkjanna, ríkisstjórn Kúbu, Sovétríkjanna. Já og jafnvel Lyndon B. Johnson viðtakandi forseti. Allar samsæriskenningar eru rangar og bók Posner er góð úttekt á því hvað gerðist. Niðurstaða Warren nefndarinnar var rétt og Posner sýnir enn betur fram á það í bók sinni en áður hefur verið gert. Málinu er lokið. Hin eina rétta niðurstaða liggur fyrir: 

Lee Harvey Oswald myrti John F. Kennedy. Hann var einn að verki. Sönnunargögnin eru fullnægjandi og ekkert vitrænt sem hnekkir þeirri niðurstöðu eða styður samsæriskenningarnar. 

 


Sr. Friðrik Friðriksson og Edward Heath

Edward Heath var formaður breska Íhaldsflokksins 1965-1975 og forsætisráðherra Bretlands 1970-1974. Þó nokkru eftir dauða hans árið 2005 komu fram ásakanir í hans garð um barnaníð o.fl. Hann var fordæmdur vegna þessara ásakana, en eftir að mikla rannsókn, kom í ljós að ásakanirnar rangar. Edward Heath hafði ekkert til saka unnið.

Það tók 10 ár að leiðrétta lygina og á meðan beið minning Heath óbætanlega hnekki og pólitískir andstæðingar notfærðu sér þessar röngu ásakanir út í æsar.  

Það er auðvelt að ljúga upp á látið fólk. Saga Heath sýnir, að réttarfar alþýðudómstóla byggir á því að hver sem er ásakaður um kynferðisglæp teljist sekur nema meint sök sé afsönnuð.

Nú er sótt að sr. Friðrik Friðrikssyni þeim mæta frumkvöðli og sómamanni. Ákveðin þjóðfélagsleg öfl hafa alltaf haft horn í síðu sr. Friðriks. Hann var sannur baráttumaður trúarinnar og lagði grunn að mikilvægu æskulýðsstarfi bæði trúarlegu og félagslegu. Sr. Friðrik lést í mars 1961 og hefur því verið látinn í rúm 62 ár.

Staðhæfingar um kynferðislega áreitni sr. Friðriks styðjast ekki við jafn traustar heimildir og ásakanirnar í garð Ted (Edward) Heath voru taldar, þegar rannsókn þess máls hófst. Ásakanirnar í garð Heath reyndust samt alrangar og ég tel upp á, að það sama gangi eftir um sr. Friðrik. 

Það er eftirtektarvert að ákveðnir þjóðfélagshópar sérstaklega vinstri sinnaðir sósíalistar hafa þegar fellt sinn dóm yfir sr. Friðrik en það er frekar óskhyggja þeirra og pólitískar öfgar en vinátta þeirra við sannleikann.

Það vill svo til, að ég kynntist báðum þessum mönnum. Heath að vísu lítið en sr. Friðrik meira, en þá var ég krakki og ungur maður um 15 ára þegar hann lést.

Báðir þessir menn voru þeirrar gerðar, að manni leið vel í návist þeirra þó ólíkir væru.

Edward Heath hafði mjög fágaða framkomu og góðan húmor og tók því vel þegar hlutunum var snúið upp á hann. Einu sinni sátum við Friðrik Sóphusson til borðs með Heath og þá sagði hann "Hversvegna er ungt fólk að ganga í flokka í dag? Til að ná sér í maka eða hvað? Friðrik svaraði að bragði. "Er líklegt miðað við þína reynslu að fólk telji það réttu leiðina? (Heath var einhleypur). Heath hló og sagði excellent answer(frábært svar). 


Tilveruréttur Ísrael og hryðjuverkaárásir Hamas.

Hamas eru hryðjuverkasamtök, sem ráða Gasa svæðinu. Ríkisstjórn, embættismenn og stjórnendur Gasa eru Hamas liðar.

Þegar Hamas sendi herlið sitt inn í Ísrael, til að fremja fjöldamorð á ísraelskum borgurum, skera ungabörn á háls og misþyrma fjölda fólks þ.á.m. líkum og taka stóran hóp fólks í gíslingu lýsti Gasa yfir stríði við Ísrael.

Gasa heyrir ekki undir stjórnvöld í Ísrael. Það slæma sem þar gerist er Hamas að kenna og  langvarandi sjálfskaparvíti.

Árið 2005 sá Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels til þess, að Ísraelsmenn færu frá Gasa og létu íbúum Gasa eftir stjórnina. Gasa búar tóku við stjórninni og sumir vonuðu, að byggt yrði upp gott framsækið borgarsamfélag sbr Hong Kong og Singapore.

Ráðgert var að laða að túrista, reisa stórt spilavíti og nýta strendurnar sem eru með þeim bestu í heiminum ekki síst fyrir sjóbrettaíþróttir og flugvöllur var á teikniborðinu.

Því er ranglega haldið fram, af Gyðingahöturnum og nytsömum sakleysingjum, að Gasa hafi aldrei átt möguleika á að þróast efnahagslega og byggja upp sambönd við aðra. Gasa búar höfðu alla möguleika til  að byggja upp ríki friðar og samvinnu, en þeir kusu að fara með ófriði gegn Egyptalandi og Ísrael, sem  leiddi til lokunar beggja landamæra.

Áætlanir um spilavíti voru teknar af dagskrá og búnaður sem erlend ríki sendu sem hjálpargögn til Gasa var breytt í eldflaugaskotpalla og fljótlega eftir að Ísrael gaf Gasa sjálfsstjórn byrjuðu ógæfumenn Hamas og annarra haturshreyfinga að skjóta eldflaugum á Ísrael hundruðum og þúsundum saman. Þannig hefur það verið þau 18 ár sem liðin eru frá því að Gasa búar tóku örlög sín í eigin hendur já og veldur hver á heldur.

Hamas réðist á Ísrael úr launsátri og Ísraelsk stjórnvöld brugðust við og eiga nú í varnarstríði við stjórnendur Gasa svæðisins eins og Bandamenn áttu í varnarstríði við Þjóðverja í síðustu heimstyrjöld. Ekki þá frekar en nú var stríð við þýska borgara heldur nasísk stjórnvöld í Þýskalandi eins og nú nasísk hryðjuverkasamtök sem stjórna Gasa og heita Hamas.

Genfarsáttmálin um stríðsátök kveður m.a. á um að í hernaði beri að lágmarka svo sem kostur er að átökin bitni á almennum borgurum. Það reyndist erfitt þá og æ síðan sérstaklega eins og á Gasa þar sem vígamenn Hamas fela sig meðal borgaranna og skjóta eldflaugum frá skólum, bænahúsum og jafnvel sjúkrahúsum og sprengdu m.a.eigið sjúkrahús í loft upp og kenna Ísrael um.

Nú fara leiðtogar Vesturlanda hver á fætur öðrum í pílagrímsferðir til Jerúsalem og lýsa yfir stuðningi við Ísrael, sérstaklega ef Ísrael gerir ekki neitt. Það er ekki einu sinni talað um að refsa hryðjuverkamönnum og leysa gíslana úr haldi. Hvernig dettur ábyrgum þjóðarleiðtogum í hug að hægt sé að leysa ágreining við hryðjuverkamenn með kökuboðum og þeir haldi síðan áfram hryðjuverkum eins og ekkert hafi í skorist.

Fordæming fáráðlinga og Gyðingahatara á Vesturlöndum nær síðan algleymi þegar þeir saka Ísrael um að skrúfa fyrir rafmagn og hætta að senda vatn til Gasa(sem er um 10 km á breidd og 40 km. á lengd þó RÚV segi að það nái yfir svipað svæði og Reykjavík og Kópavogur)

Hvenær hefðu Churchill, Roosevelt eða Stalín dottið í hug að senda vatn, matvæli, sjúkragögn til Þýskalands í síðari heimstyrjöld og sjá Þjóðverjum fyrir rafmagni. En vestrænum fréttastofum, nytsömum sakleysingjum og Gyðingahöturum á Vesturlöndum telja að Ísrael eigi að sjá borgurum óvinaríkis fyrir vatni, rafmagni og sjúkragögnum sem og fleiru.

Síðan dynja yfir fréttir af mannfalli á Gasa allt úr áróðurssmiðju Hamas og fréttastofur eins og RÚV taka því sem heilögum sannleika. Af hverju á að taka það trúanlegt sem barnamorðingjarnir segja, hafa þeir sýnt það að þeir séu áreiðanleg heimild?

Ísrael á í mikilvægu varnarstríði og þeir sem standa á bak við hernaðaraðgerðir Hamas og veita peningum til þeirra er m.a. þursaríkið Íran. Koma má með getgátur um þáttöku annarra ríkja m.a. þeirra sem hafa hagsmuni af því að Vesturlönd séu upptekin við fleira en bara Úkraínu. Það er ljóst, að árásarstríð Aserbajana gegn Armenum kemur Vesturlöndum ekki við svo merkilegt sem það nú er og greinilega ekki háheilög landamæri þar eins og í Úkraínu.

Íran veitir líka Hisbollah í Líbanon virkan stuðning og talið er að eldflaugaforði þeirra sé meiri í dag en stórs hluta ríkja NATO í Evrópu. Þeim eldflaugum er bara beint gegn hinum eina óvini „Ísrael.“ Á sama tíma er reynt að kveikja glóðir elds á Vesturbakkanum svokallaða, þannig að Ísrael verði enn einu sinni að berjast fyrir tilveru sinni á þrem vígstöðvum. Hingað til hefur það gengið vel, en það er ekki þar með sagt að það sama gerist alltaf.

Tapi Ísrael, þá er úti um Ísrael og griðlandi Gyðinga þar og Ísrael heyrir þá sögunni til. Þetta vita Gyðingar og einnig sæmilega skynugir íbúar Vestur Evrópu og Bandaríkjanna.

Hamas liðar munu þá reyna að ná fram hinni endanlegu lausn, sem er enn hroðalegri en nasistana dreymdi nokkru sinni um. Endanleg lausn nasistanna í Þýskalandi var að útrýma Gyðingum í Evrópu með því að koma þeim á brott eða útrýma þeim ella. Hamas nasistarnir ganga enn lengra. 

Stefna Hamas er að drepa alla Gyðinga hvar svo sem þeir finnast. Eða eins og segir í hugmyndafræði og stefnumörkun Hamas sem byggir á að drepa alla Gyðinga ekki bara Gyðinga í Ísrael heldur hvar svo sem þeir finnast eða eins og þeir segja: 

„Þá munu Gyðingarnir fela sig á bak við kletta og tré, en klettarnir og trén munu hrópa: „Ó þú múslimi það er Gyðingur, að fela sig á bakvið mig, komdu og dreptu hann.“

Þessari grunnstefnu Hamas hefur ekki verið breitt og á þessum forsendum unnu Hamas liðarnir sem gerðu innrás í Ísrael fyrr í mánuðinum. Ráðist var á ungt fólk á tónleikahátíð í Negev eyðimörkinni og það myrt, svívirt og tekið í gíslningu. Fólkið á tónleikunum faldi sig á bakvið steina og tré, en hryðjuverkamennirnir eltu það og drápu um 300 unglinga og ungt fólk. Ungabörn voru tekin og skorin á háls og villimennirnir sendu myndbönd til að hæla sér af voðaverkunum. Þarna var Ísis endurborið á ferðinni.

Hvernig getur fólk á Vesturlöndum varið þetta eða slett í góm og sagt jamm eru ekki margar hliðar á málinu?

Hryðjuverk hafa alltaf eina hlið og þau ber alltaf að fordæma hver svo sem vinnur þau og í hvaða tilgangi sem er.

Viðbrögðum við hryðjuverkum hættir til að fara út í öfgar og hugsanlega hafa Hamas liðar haft það í hyggju þegar þér gerðu hryðjuverkaárásina á Ísrael á dögunum. Þeim gæti orðið að ósk sinni ef ríki Vesturlanda standa ekki þétt við bakið á Ísrael og krefjist þess að öllum gíslum verði skilað og hryðjuverkamennirnir framseldir þeim alþjóðlegu dómstólum sem ákæra og dæma í málum varðandi þjóðarmorð og hryðjuverk.

Ekkert minna kemur til greina ásamt því að stjórnvöld Hamas fari frá og Gasa verði sett undir tímabundna stjórn Arababandalagsins sem skuldbindi sig til að reyna að koma á friðsamlegri sambúð við nágranna Gasa Egyptaland og Ísrael, sem stuðli þá að eðlilegum samkiptum og nýrri tilraun til að Gasa brauðfæði sig og íbúar Gasa hugsi ekki einungis um hvað þeir eiga bágt og hvernig þeir geti náð sér niðri á Gyðingum og drepið þá sem flesta.

Já og Gasa búar læri að elska börnin sín meira en þeir hata Gyðinga.


Vegin og léttvæg fundin

Biskupinn yfir Íslandi situr umboðslaus, deilir og drottnar og skammtar meintum undirsátum sínum tíma og tíðir heimildar- og umboðslaust.

Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar kvað í gær upp þann úrskurð að biskupinn yfir Íslandi væri vanhæf til að gegna embætti frá því að skipunartími hennar rann út 1. júlí 2022.

Í sjálfu sér þurfti enga úrskurðarnefnd til að komast að þeirri niðurstöðu að þegar skipunartími embættismanna er liðinn, þá eru þeir umboðslausir eins og forsetar Íslands og Bandaríkjanna hafa engar heimildir að loknu kjörtímabili til að ragast í stjórnunarmálefnum. En þeim Donald Trump og Agnesi M. Sigurðardóttur sést yfir þessar einföldu staðreyndir.

Skipunartími Agnesar fyrrverandi biskups rann út 1. júlí 2022. Biskup hlutaðist ekki til um að eftirmaður hennar yrði kjörinn eða leita eftir endurkjöri. Hún sat sem fastast ólöglega. 

Forherðing Biskups var raunar svo algjör að hún fékk eitt fáránlegasta lögfræðiálit sem samið hefur verið á Íslandi, þar sem lögmaður hennar komst á þeirri niðurstöðu, að embættismaður ef hann væri kirkjunnar maður gæti haldið starfi sínu áfram þó kjörtímabil eða skipunartími væri liðin. Álitið var byggt á svipuðum forsendum og 2 plús 2 séu fimm og Vatnajökulsþjóðgarðurinn sé aldingarður.

Þegar einfaldar staðreyndir eru reknir framan í umboðslausa biskupinn, þá ætlar hún að áfrýja málinu að því er segir "með hagsmuni þjóðkirkjunnar að leiðarljósi" Forherðing biskups er algjör. Hagsmunir þjóðkirkjunar er að hún hætti strax að þykjast vera biskup. 

Ef til vill væri eðlilegt að biskupinn yfir Íslandi og lögmaður hennar skoðuðu 116 gr. almennra hegningarlaga nú þegar biskupinn hefur verið veginn og léttvæg fundin, en þar segir: 

"Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum."

Agnes biskup. Þú hefur verið vegin og léttvæg fundinn. Gerðu þjóðkirkjunni það gagn að axla ábyrgð og tryggja að lögmætur biskup geti tekið til starfa sem fyrst. 

Þarf e.t.v. ósýnileg hönd að skrifa á vegginn "mene tekel parsin" eins og mig minnir að standi í Daníelsbók til að biskup skynji sinn vitjunartíma.


Endalok lýðræðis

Þegar kemur að pólitískri innrætingu og áróðri, á fréttastofa RÚV fáa sína líka.

Í kvöldfréttum var langur fréttapistill um kosningar í Póllandi. Boðskapur RÚV var,að mikil ógn steðjaði að Pólverjum ef núverandi stjórnarflokkur sem telst til hægri ynni sigur. Talað var ítrekað um að það kynni að þýða endalok lýðræðis í Póllandi. Loks var kynnt áróðurskvikmynd andstæðinga stjórnarflokksins "Lög og réttur"

Svipaða tuggu hefur fólk iðulega heyrt áður á RÚV. Hægri flokkar sem vilja stjórna eigin landamærum, fá neikvæða umfjöllun hjá RÚV sbr.t.d.Viktor Orban í Ungverjalandi, Svíþjóðardemókratar og Alternative für Deutschland. Engum hefur þó verið gert svo hátt undir höfði að nánast fullyrða, að sigur þeirra mundi þýða endalok lýðræðis. 

Merkilegt að engin umræða skuli fara fram á Alþingi um þessa ríkisfréttastofu og þau brot á almennum mannréttindum að skikka fólk og fyrirtæki til að borga fyrir einhliða áróðursmiðstöð.

Af hverju má fólk ekki ráða því hvort það eru áskrifendur að útvarpsstöð eða ekki. Það ættu að vera ótvíræð lýðréttindi að einstaklingar geti sjálft valið sína miðla í stað þess að ríkisvaldið troði þeim ofan í fólk með góðu eða illu.  


Kyrrstöðustjórnin heldur áfram

Þeir sem töldu, að Bjarni Benediktsson yrði utn ríkisstjórnar eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag hafa lítið pólitískt innsæi. Formaður stærsta stjórnarflokksins getur ekki verið utan ríkisstjórnar. 

Stólaskipti varaformanns og formanns Sjálfstæðisflokksins voru líka fyrirséð. E.t.v. hefði farið betur á því að Guðrún Hafsteinsdóttir og Bjarni hefðu haft stólaskipti, þar sem bæði búa yfir þekkingu sem mundi nýtast í þeim ráðherrastólum. 

Stjórnarflokkarnir efndu til hópeflisfundar þingflokka stjórnarflokkana um ekki neitt. Þrátt fyrir það er gott fyrir þingmenn að fara á Þingvöll og treysta sín heit.  Sem raunar vekur upp spurningu um að láta draum Fjölnismanna rætast um Alþingi á Þingvöllum. Þingtímann væri þá frá mars- desember.

Nýtt ráðuneyti tekur við á ríkisráðsfundi þó allir ráðherrar séu þeir sömu og undir sömu verkstjórn og málefnagrundvelli. Vissulega má taka undir það með formönnum stjórnarflokkana að viðfangsefnin eru mörg og mikilvæg, en þannig er það alltaf í pólitík og afsakar ekki þrásetu ríkisstjórnar sem hefur ekkert nýtt til málanna að leggja.

Þrásetu- og kyrrstöðustjórnin hefur það eina markmið að vera við völd án takmarks og enn minni tilgangs.Eftir nokkru er að slægjast á mesta góðæristíma í íslensku samfélagi og ekki nokkrar líkur á að gætt verði aðhalds og sparnaðar. Verðbólgan töltir því í takt við eyðslustefnu ríkisstjórnarinnar hvað svo sem Seðlabankastjóri gerir. 


Staðreyndum verður ekki endalaust hafnað.

Rishi Sunak forsætisráðherra Breta kom inn á mörg mikilvæg mál í ræðu sinni á Flokksþingi breskra Íhaldsmanna sem nú stendur yfir. 

Hann leyfði sér m.a. að benda á þá staðreynd, að karlmaður væri karlmaður og kona væri kona og það væru bara tvö kyn. Svonefnd kvár eru þar af leiðandi eitthvað allt annað.

Þá benti hann á að það væri fásinna að fólk gæti skilgreint kyn sitt eftir hentugleikum jafnvel andstætt líffræðilegum staðreyndum varðandi viðkomandi. 

Einnig tók hann sérstaklega undir þá kröfu, að foreldrar fái að vita hvað er verið að kenna börnunum þeirra t.d. í kynfræðslu og slík viðkvæm mál væru alltaf borin undir foreldra. 

Rannsóknir hafa sýnt, að konur eru alls ekki öruggar og líður ekki nægjanlega vel á ýmsum Breskum sjúkrastofnunum sem þjóna báðum kynjum. Forsætisráðherrann lofar að taka á því vandamáli, en nýlega var greint frá miklum fjölda kynferðisofbeldis á ókynjaskiptum sjúkrahúsum í Bretlandi. 

Flott að forsætisráðherra Breta skuli tala rödd skynseminnar. Það gerir forsætisráðherra Íslands heldur betur ekki heldur snýr öllu á hvolf þar á meðal líffræðilegum staðreyndum 

En væri þá nokkuð til of mikils máls að fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins leyfði sér að hafa aðra skoðun en Katrín og gerði okkur grein fyrir þeirri skoðun sinni umbúðalaust þ.e. ef hann þá hefur eitthvað við málflutning vinkonu sinnar Katrínu Jakobsdóttur að athuga. 

 

 

 


mbl.is „Karlmaður er karlmaður og kona er kona“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 1251
  • Sl. sólarhring: 1309
  • Sl. viku: 6393
  • Frá upphafi: 2470777

Annað

  • Innlit í dag: 1168
  • Innlit sl. viku: 5876
  • Gestir í dag: 1120
  • IP-tölur í dag: 1085

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband