Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Vopnahlé

Samkomulag hefur náðst um nokkurra daga vopnahlé á Gasa og 50 af 230 gíslum Hamas samtakanna verði skilað. Hvað með hina gíslana 180? Eru þeir e.t.v. ekki gíslar lengur heldur lík. Varnarlaust fólk, myrt af Hamas án þess að siðferðispostular vinstrisins á Vesturlöndum og harðlínufólksins í Háskóla Íslands sem undirritaði stuðningsyfirlýsingu við Hamas hafi nokkuð við það að athuga.

Hvernig skyldi annars standa á því, að þrátt fyrir að Hamas liðar hafi byggt um 500 kílómetra af neðanjarðargöngum þar sem hryðjuverk eru skipulögð, þá hafi þeim ekki komið til hugar að byggja loftvarnarbyrgi eða annan varnarviðbúnað fyrir almenning. Er það ekkert sem veldur háskólafólkinu afvegaleidda, sem skrifaði undir Gyðingahatursyfirlýsingu Semu Erlu Serdar í HÍ neinum vökum.

E.t.v. ekki frekar en, að Hamas skuli vera með stjórnstöðvar undir sjúkrahúsum m.a. sjúkarhúsinu sem barist hefur verið við og um undanfarna daga, sem og skólum og leikskólum, þar sem almennir borgarar eru notaðir til að verja vígamenn Hamas og nota það í áróðursstríði sínu til að afvegaleiða fólk á Vesturlöndum.

Hvernig skyldi standa á að skriffinnum haturslista Semu Erlu Serdar skuli ekki hafa hugað að því, að Ísraelsmenn hafa aldrei meinað rýmingu af sjúkrahúsum á Gasa. Þvert á móti hafa þeir hvatt til rýmingar og að almenningur yfirgefi átakasvæði. Það hafa Hamas liðar hinsvegar iðulega komið í veg fyrir til að fá skjól af sjúklingum og óbreyttum borgurum. 

Í Úkraínu er háð styrjöld þar sem rúmlega 300 þúsund ungir menn hafa verið drepnir og fjöldi óbreyttra borgara. Mun fleiri en á Gaza. Hvernig skyldi standa á því að engin gerir athugasemd við það og Háskólafólk skuli ekki sjá neina ástæðu tli að tjá sig um þau ósköp á meðan það hatast út í Gyðinga sem eru að reyna að tryggja tilverurétt sinn og öryggi eigin borgara í Ísrael með því að ganga á milli bols og höfuðs á hryðjuverkaliði Hamas.

Við erum epli sögðu hrútaberin og það sama virðist eiga við um fólkið í HÍ sem skrifaði undir hatursyfirlýsingu Semu Erlu gegn Ísrael. 


Bankarnir, ráðherrann og lausnirnar.

Húseigendur í Grindavík eru tryggðir fyrir tjóni vegna jarðskjálfta og eldgosa skv. lögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Þrátt fyrir það reynir bankamálaráðherra að slá pólitískar keilur á Alþingi með óræðum kröfum á hendur lánastofnana um aðgerðir þegar boltinn er hjá henni um að móta tillögur um lausn vandans í núinu. 

Á endanum þarf Náttúruhamfaratrygging Íslands að greiða húseigendum í Grindavík nánast fullar bætur vegna þess tjóns sem þeir kunna að verða fyrir. 

En þá er spurningin um millibilsástandið? Eðlilegast er að ráðherra bankamála komi með tillögur í því efni, það er hennar hlutverk og hún verður að gera sér það ljóst. Lánastofnanirnar ættu hins vegar þegar í stað að gera samninga við húseigendur í Grindavík um að ekki verði innheimtar afborganir og vextir af húsnæðislánum í Grindavík meðan óvissuástandið er Aðkoma að því samkomulagi þarf bankamálaráðherra og stjórn Náttúruhamfaratrygginga að eiga.

Það er ljótt að hræða fólk í vanda. Grindvíkingar eru núna í miklum og margvíslegum vanda og stjórnvöld sem og aðrir eiga að vinna að eðlilegum jákvæðum lausnum í stað þess að bulla á Alþingi. Það ber alltaf að leysa málin á grundvelli þess velferðar- og tryggingarkerfis sem er fyrir hendi annað væri ósæmilegt.  

 


mbl.is Ræða eftirgjöf og niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er tími til að brosa í Argentínu.

Um aldamótin 1900 var Argentína í hópi þriggja ríkustu þjóða heims ásamt Sviss og Svíþjóð. Upp úr miðri 20.öldinni seig á ógæfuhliðina. Stjórnlyndir stjórnmálamenn, sem vildu allra vanda leysa með auknum ríkisumsvifum gerðu sitt til að eyðileggja efnahag ríkisins á grundvelli og forsendum meintrar góðmennsku. 

Allar götur síðan hefur Argentína verið í erfiðleikum og frekar sigið á ógæfuhliðina. Verðbólga hefur verið í hæstu hæðum og gjaldmiðill þjóðarinnar oftar en einu sinni orðið ónýtur og Argentína hefur ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. 

Skriffinskubáknið í Argentínu hefur verið stórt og stjórnmálastéttin hefur aukið umsvif ríkisins og fjölgað starfsmönnum ríkisins. 

Nú er nóg komið og Argentínumenn kusu þann frambjóðanda sem var lengst til hægri og vill beita markaðslausnum. Fækka ríkisstarfsmönnum, auka svigrúm einstaklinga til að stofna og reka fyrirtæki og einkavæða sem mest og taka starfsemi Seðlabankans til endurskoðunar hugsanlega leggja hann niður og hætta að færa fórnir á altari loftslagsbullsins. Fólkið í Argentínu kaus hann vegna þess, að allar vinstri lausnirnar hver á fætur annarri hvort sem var hjá hershöfðingum eða sósíalskri verkalýðshreyfingu landsins hafa verið haldlausar. 

Spurning er hvernig gengur nýja forsetanum að glíma við vandamálin. Vonandi vel, en hann fær ekki gott veganesti. Skuldir Argentínu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn nema 44 þúsund milljónum dollara svo þess eins sé getið. En kjósendur mátu það greinilega þannig, að hann og stefna hans væri besti kosturinn þar sem að mótframbjóðandi hans var fulltrúi stjórnmálastéttarinnar og var hafnað.

Þetta flotta og stolta ríki og þjóð á skilið að fá skynsamlega stjórn eftir óstjórn í tæpa öld. Vonandi fær nýr forseti svigrúm til að koma framfarasinnaðri stefnu sinni í framkvæmd.

Vonandi þarf Argentína ekki lengur að gráta heldur getur brosað út í bæði. 


Fólk innviðir og svonefndir hælisleitendur.

13.nóv. samþykkti Alþingi með ógnarhraða lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Engar skilgreiningar eru í lögunum hvað átt er við með innviðum eða almannahagsmunum, en svo virðist sem átt sé við að heimila skurðgröft ýmiskonar og byggingu varnargarða um veitumannvirki.

Margt er athyglisvert við þessa lagasetningu, en það þó helst, að í öllum asanum og látunum við að koma þessum lögum á koppinn, datt engum þingmanna í hug, að það væri líka mikilvægt að byggja vörn fyrir fólk ekki síður en innviði. 

Íbúar í Grindavík munu ekki geta búið heima hjá sér um ófyrirsjáanlega framtíð. Vonandi verður það stutt, en engin veit á þessari stundu hver framtíð byggðar í Grindavík verður. Meðan á því stendur er brýn nauðsyn að Alþingi setji lög og reglur sem tryggi sem best stöðu íbúa Grindavíkur og möguleika þeirra á að komast í mannsæmandi húsnæði og aðstöðu sem fyrst. 

Hér er mikill fjöldi ólöglegra innflytjenda, sem hafa fengið húsnæði, fæði, klæði, læknisaðstoð og meira að segja  farsíma á kostnað skattgreiðenda vegna fráleitrar löggjafar. Nánast undantekningarlaust er þetta fólk ekki raunverulegir flóttamenn.

Nú þurfum við á öllu okkar að halda til að tryggja mannsæmandi kjör íslenskra ríkisborgara í neyð. Þessvegna liggur beint við að setja lög, sem loka landinu algjörlega fyrir svonefndum hælisleitendum ótímabundið meðan við búum við það neyðarástand sem nú hefur skapast og flytja þá sem hér eru ólöglega af landi brott þegar í stað. 

Við erum í vanda og verðum því að taka til okkar ráða og hætta  að henda peningum skattgreiðenda í rugl eins og hælisleitendur þar sem meir en 99% eru á fölskum forsendum.

Það er nefnilega aldrei nóg til eins sumir hafa hafa haldið fram. Þannig hefur ríkisstjórnin stolið peningum úr hamfarasjóðum til að fjármagna dekur sitt við ólöglega innflytjendur og fleiri ónauðsynleg verkefni og reynt með því að fela framlög og kostnað.

Við verðum að beina öllum okkar krafti að því að fólkið í Grindavík njóti alls hins besta. Þau eiga það skilið. 

 


Hvort, Hvar eða Hvenær

Undanfarið hafa fréttamenn ítrekað spurt helstu vísindamenn landsins í jarðfræði um: hvort það muni gjósa, hvar og hvenær. Fréttamennirnir virðast ekki geta skilið, að sérfræðingarnir vita þetta ekki. Vísindin eru ekki nákvæmari en það. 

Vísindamennirnir greina hvað er að gerast undir yfirborðinu og geta varað við hugsanlega yfirvofandi hættu. Lengra nær það ekki. 

Fyrir rúmri viku, varð ljóst, að hætta gat steðjað að í Grindavík og var bærinn réttilega rýmdur. Þá þegar var ljóst, að mikilvægt var að fólk og fyrirsvarsfólk fyrirtækja gæti unnið að því að lágmarka hugsanlegt tjón með því að ná í eignir sínar og forða verðmætum frá eyðileggingu. 

Því miður brugðust yfirvöld og létu sér helst umhugað um að draga úr mannréttindum Grindvíkinga sem mest mátti vera og í stað þess að setja í gang skipulega flutninga búslóða og annarra verðmæta frá Grindavík voru búnar til fáránlegar reglur um allt of takmarkaða aðkomu íbúa að eigum sínum. 

Það þýðir aldrei að fjargviðrast út af því sem liðið er og við fáum ekki breytt. En þá er mikilvægt að læra af reynslunni og í stað þess að vera með hörkulegar lögregluaðgerðir til að koma í veg fyrir að fólk geti náð eigum sínum,þarf að skipuleggja í samvinnu við íbúa að tryggja  flutningatæki og öruggt geymsluhúsnæði fyrir búslóðir og önnur verðmæti.

Væri ekki nær fyrir hamfarastjórnina að einbeita sér að því að hjálpa fólki við að koma í veg fyrir tjón og skipuleggja aðgerðir til að lágmarka hættu í stað þess að einbeita sér að lögregluaðgerðum til að takmarka rétt fólksins í Grindavík til að vera sjálfs sín ráðandi með óeðlilega hörkulegum hætti. 

Engin er að tala um neinn galgopaskap. En fyrr má nú aldeilis fyrr vera.  

 


Gerum allt sem í okkar valdi stendur

Engin ágreiningur er um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa sem þéttast með Grindvíkingum og styðja þá og styrkja eins og okkur er unnt. Þá er engin ágreiningur um að verja mannvirki svo sem kostur er og bæta tjón. 

Á hættustundum reyna stjórnmálamenn jafnan að gera sem mest úr eigin mikilvægi og möguleikum til að hafa áhrif á gang mála, jafnvel þó engir séu. Dæmi um það er stjórnarfrumvarp, sem nú er til umræðu á Alþingi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Asinn er svo mikill, að meiningin er að afgreiða málið í kvöld og/eða nótt þó engin brýn þörf sé á því.

Við höfum lög um almannavarnir nr. 82/2008, sem duga í tilvikum sem þessum e.t.v. þarf að bæta örlitlu við 25.gr. laganna vegna uppbyggingu varnargarða á Reykjanesi og varðandi fjármögnun.

Hættan við fum og fát í lagasetningu er ekki síst sú að Alþingi samþykki vond lög, þar sem ekki er gætt vandaðra vinnubragða við lagasetningu. Sú virðist ætla að vera raunin varðandi það frumvarp, sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. 

Bent skal á, að skv. stjórnarfrumvarpinu um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi á m.a. að víkja til hliðar lögum eins og stjórnsýslulögum. Af hverju þarf að víkja þeim til hliðar? Svo að stjórnvöld geti farið sínu fram af geðþótta og eftirlit með aðgerðum þeirra verði ekkert og réttindum almennra borgara verði vikið til hliðar. Við eigum aldrei að samþykkja slíkt.

Almenn umgjörð um mannréttindi og takmörkun á því að ríkisvaldið geti farið sínu fram eftirlitslaust að geðþótta verður alltaf að vera leiðarstefið við lagasetningu í landinu ekki síst þegar skyndileg hætta steðjar að.

  


Stórhuga Framsóknarflokkur

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins ritaði ágæta grein í Morgunblaðið s.l. laugardag, þar segir m.a. " Staðreyndin er sú að um þessar mundir er orkuvinnslukerfi landsins fullnýtt og skortur á orku er farinn að valda vanda."

Af hverju búa Íslendingar, sem eiga gnógt vistvænnar orku við orkuskort? Vegna þess, að engin vatnsaflsvirkjun hefur verið gerð á 7 ára valdatíma samstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðis og VG  eða fyrirhuguð vegna þvergirðingsháttar VG.

Á 7 ára valdatíma ríkisstjórnarinnar hafa ráðherrar orkumála ekki hreyft af alvöru hugmyndum um stórar vistvænar virkjanir, sem brýn þörf er á sbr. ummæli þingflokksformannsins. 

Stórhugur þingflokksformannsins er þó ekki meiri en svo, að hún bendir á þá leið, að kanna hvort ekki sé hægt að stækka smávirkjanir. Sú tillaga er góðra gjalda verð, en dugar þó hvergi. 

Nauðsyn ber til að koma í veg fyrir áframhaldandi orkuskort og tryggja að myndarlega verði tekið á í orkumálum til að skapa atvinnu- og framfarasókn þjóðarinnar. Nýta verður hagkvæma virkjunarkosti. Það getur ekki orðið að veruleika meðan sértrúarsöfnuður VG situr í ríkisstjórn. 

Þjóðin verður því að losna við VG úr ríkisstjórn ef koma á í veg fyrir vaxandi orkuskort í landinu.


Varnarsveitir Ísrael eru að vinna sigur

Dálkhöfundurinn og hernaðarsérfræðingurinn Richard Kemp segir eftirfarandi í grein í DT í dag: 

Varnarsveitir Ísrael hafi barist á Gasa undanfarnar vikur og náð meiri árangri en þeir sjálfir höfðu þorað að vona. Sótt fram með meiri hraða og eyðilagt mikið af stjórnstöðvum Hamas, náð mikilvægum gögnum og beðið minna manntjón en búist hafði verið við.

Þegar Hamas réðist á Ísrael 7.október vissu þeir, að Ísraelar mundu svara og undirbjuggu sig fyrir það með eins góðum hætti og þeim var unnt m.a. með því að færa allar meiriháttar stjórnstöðvar undir sjúkrahús og skóla til þess að fullkomna þá stefnu sína að óbreyttir borgarar mundu líða og deyja frekar en nauðgarar og barnamorðingjar Hamas.

Varnarsveitir Ísrael hafa sprengt göng Hamas ofan frá með góðum árangri. Þó að varnarsveitir Ísrael hafi ekki náð að staðsetja og drepa æðstu stjórn hryðjuverkasamtaka Hamas þá eru augljós merki þess, að Hamas er undir miklu álagi. Eldflaugaskot frá Gasa eru í algjöru lágmarki og sagt er að leiðtogar Hamas biðji Hisbollah í Líbanon um að gera árásir til að Varnarsveitir Ísrael þurfi að berjast á fleiri vígstöðvum.

Annað merki þess að Hamas sé í vandræðum er að boðum hefur verið komið til Katar um að reyna að ná samningum við Ísrael um vopnahlé. Ísrael hafnar vopnahléi sem felur það í sér, að þeir dragi herlið sitt til baka og gefi Hamas tækifæri til að endurskipuleggja sig, fávísir stjórnmálamenn á Vesturlöndum þ.á.m. Íslandi krejast þessa líka í stað þess að leggja áherslu á mannúðarhlé til að almennir borgarar geti yfirgefið átakasvæði eins og Ísrael hefur gert reglulega.

Tölur um fallna og særða á Gasa koma eingöngu frá heilsugæslu Hamas, sem gerir engan mun á óbreyttum borgurum í þessu efni og stríðsmönnum Hamas.

Varnarsveitirnar fara að alþjóðalögum um hernað og vopnaviðskipti og gera sitt besta til að lágmarka manntjón meðal almennra borgara. Sendar eru út viðvaranir til fólks um að yfirgefa væntanleg átakasvæði, svæði sem varnarsveitirnar ætla að ráðast inn á. Síðan stríðið byrjaði hafa varnarsveitirnar sent yfir 1.5 milljónir dreifimiða úr lofti, sex milljónir talskilaboð, 4 milljónir stafræn skilaboð og hringt og gert mannúðarvopnahlé. Þrátt fyrir þessa viðleitni varnarsveitanna hafa margir óbreyttir borgarar dáið á Gasa. Það er sorglegt, en hjá því verður ekki komist meðan Hamas felur sig meðal óbreyttra borgara og þvingar þá iðulega til að vera um kyrrt á svæðum, sem vitað er að verði næst fyrir árásum.

Joe Biden og Rishi Sunak hafa hingað til staðið í lappirnar og staðið gegn kröfum um vopnahlé (annað en Alþingi Íslendinga), þá hafa þeir jafnan tekið fram, að Ísrael verði að fara eftir reglum og alþjóðalögum, sem gilda um hernað og reyna að komast hjá því svo framast verði við komið að óbreyttir borgarar falli. Þeir vita að það er einmitt það sem varnarsveitir Ísrael eru að gera, en telja þetta pólitískt klókt vegna sumra kjósenda sinna að orða þetta svona á sama tíma og það er með öllu ljóst, að á þessari stundu þá er vopnahlé umfram stutt mannúðarvopnahlé eingöngu til þess fallið að koma nauðgurnum og barnamorðingjum Hamas til góða. Svo mörg voru þau orð dálkahöfundar DT. Gott fyrir þá sem hamast við að tala um stríðsglæpi og útrýmingaherferð að skoða málið miðað við það sem kunnáttumenn segja að sé að gerast í stað þess að taka fréttir frá hryðjuverkafólkinu eins og heilögum sannleik. 


Skyldan við þjóðina

Ógnin af hugsanlegum jarðeldum á Reykjanesi er mikil og tók nokkuð óvænta stefnu þegar kom í ljós, að kvikugangur er kominn undir Grindavík. Grindavíkur gætu því beðið sömu örlög og Vestmannaeyja, að gosið verði svo nálægt byggð eða í byggð, að Grindvíkingar neyðist til að flytja búferlum tímabundið. Þetta glæsilega samfélag, þar sem byggð hafa verið upp sterk fyrirtæki sérstaklega í sjávarútvegi á annað skilið, en að því er ekki spurt þegar óblíð náttúra tekur völdin.

Vonandi líður hættan hjá og vonandi finnur hugsanlegt gos sér annan farveg fjarri byggð. En þær staðreyndir sem við okkur blasa nú verðum við að taka alvarlega og undirbúa okkur sem best til að takast á við þau óblíðu náttúruöfl, sem lengst af hafa með reglubundnum hætti valdið gríðarlegu tjóni í landinu og leiddu á árum áður iðulega til mannfellis og viðvarandi hörmunga.

Nú erum við betur undir búin til að takast á við óblíð náttúruöfl, en nokkru sinni fyrr. Við megum þó aldrei gleyma því hvað við erum ógnarsmá og lítils meigandi þegar kemur að viðureign við náttúruöflin.

Við verðum alltaf að muna, að okkur ber fyrst og fremst skylda við fólkið í landinu og gæta hagsmuna þess og verðum að láta allt annað víkja meðan við bætum tjón, sem fólk og fyrirtæki kunna að verða fyrir í hugsanlegri viðureign við jarðelda og aðra náttúruvá.

 


Viðbúnaður og undirbúningur

Jörð skelfur sem aldrei fyrr á Reykjanesi. Við sem fylgjumst með úr fjarlægð vorkennum þeim sem búa í nágrenninu sérstaklega Grindvíkingum, sem þurfa að þola margar svefnlausar nætur auk ýmiss annars og veltum fyrir okkur hvað við getum gert.  

Vonandi linnir skjálftum og vonandi komumst við hjá því í lengstu lög að það gjósi nálægt byggð á Reykjanesi. Gos nálægt byggð er ein alvarlegasta náttúruvá, sem um ræðir. 

Við þessar aðstæður ber öllum að undirbúa sig sem best. Huga verður að möguleikum á brottflutningi fólks með skömmum fyrirvara og koma upp hjálparstöðvum og bráðabirgðahúsnæði. 

Ekki verður komist hjá að skoða gerð nýs flugvallar fyrir innan- og millilandaflug annarsstaðar en á Reykjanesskaga. Þá kemur helst í huga Melasveit í Borgarfirði eða nágrenni Selfoss. Þó svo ekkert verði gert eða þurfi að gera, þá er gott að hafa valmöguleikann og láta vinna nauðsynlega hönnunarvinnu. 

Ísland er illa sett ef gos leiðir til þess að fjöldi fólks þarf að yfirgefa heimili sín og Keflavíkurflugvöllur lokast. Það er því miður raunhæfur möguleiki. Við verðum að búa okkur undir það og verðum að setja peninga í slíkan undirbúning en hætta að mala með stofukommúnistunum um mögulega hlýnun af mannavöldum.

Dekurverkefnum verður að ýta til hliðar þegar alvaran bankar á dyrnar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 780
  • Sl. sólarhring: 1337
  • Sl. viku: 6553
  • Frá upphafi: 2303868

Annað

  • Innlit í dag: 723
  • Innlit sl. viku: 6054
  • Gestir í dag: 700
  • IP-tölur í dag: 681

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband