Leita í fréttum mbl.is

Af hverju ekki?

Formaður Sjálfstæðisflokksins setti Landsfund flokksins með frábærri og kröftugri ræðu. Þétt var setinn bekkurinn í Laugardalshöll og þurftu margir að standa enda hátt á annað þúsund manns komin til að taka þátt í störfum Landsfundar. 

Ekki var að sjá að loft væri neitt lævi blandið vegna formanns og/eða kosninga til ritara flokksins. Sama hátíðarstemmningin og jafnan þegar þessi fjölmennasti þjóðmálafundur á Íslandi, Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er settur. 

Í dag og á morgun tekur alvaran við, þar sem fólk tekst á um málefni og sporgöngufólk hinna ýmsu frambjóðanda munu reyna að tryggja sínum frambjóðanda sem mest fylgi. Allt er það hluti af því lýðræði, sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á skv. skipulagsreglum flokksins. 

Að mörgu leyti er sjarmerandi, að það skuli allir vera í kjöri til æðstu embætta Sjálfstæðisflokksins þó að einungis tveir hafi lýst yfir framboði til formanns einn til varaformanns og þrír til ritara. 

Í lýðræðisflokki er alltaf nauðsynlegt að gaumgæfa hvort mögulegt sé að koma vali á æðstu trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir með betra hætti. Spyrja má af hverju fá ekki allir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins að kjósa æðstu trúnaðarmenn flokksins. Af hverju bara ákveðnir útvaldir Landsfundarfulltrúar? Af hverju að bjóða upp á tortryggni og særindi vegna vals fulltrúa á Landsfund, þar sem mörgum dyggum og góðum flokksmönnum er nú úthýst af Landsfundi vegna kosningabaráttu þeirra sem þegar hafa lýst yfir framboði í æðstu trúnaðarstöður.

Sjálfstæðisflokkurinn ætti þegar í stað að breyta skipulagsreglum sínum og miða við að formaður flokksins, varaformaður og ritari séu kosin til ákveðins tíma í opnum lýðræðislegum kosningum allra flokksbundinna Sjálfstæðismanna. Núverandi fyrirkomulag kosningaréttar útvaldra á að heyra fortíðinni til. 


Lygum hæfa laun ill

Illt er að vinna hjá vanþakklátum vinnuveitanda. Enn verra ef vinnuveitandinn skipar þér til verka og skammar þig síðan fyrir að gera það sem fyrir þig er lagt. 

Hugsið ykkur starfsaðstöðu Útlendingastofnunar og lögreglu við að framfylgja lögum um útlendingamál. Lögin kveða á um ákveðna framkvæmd, sem ákveðin er af Alþingi og stjórnvöld skipa starfsfólki Útlendingastofnunar og lögreglu til verka í samræmi við lögin. Síðan kannast stjórnmálamennirnir ekki við neitt og fordæma jafnvel lögreglu fyrir að vinna þau verk sem þeir hafa sjálfir lagt fyrir hana að vinna. 

Forsætisráðherra harmar að lögregla skuli hafa farið að lögum og krefst rannsóknar og fjármálaráðherra og umhverfis- og orkumálaráðherra, sem báðir sækjast eftir formannsstöðu í Sjálfstæðisflokknum fara undan eins og hérar í málinu þegar um er spurt. 

Til stóð að flytja 28 ólöglega innflytjendur úr landi í gær, en 13 fundust ekki og eru því hér enn ólöglega. Áróðursmiðill opinna landamæra á Íslandi RÚV brást við með því með einhliða áróðursfréttum og torveldaði störf lögreglunnar og gerði þau tortryggileg. Útvarpsstjóri sem var lögreglustjóri ætti að hafa þá starfsskyldu að benda starfsfólki sínu á skyldu sína skv. lögum m.a. um hlutlægni í fréttaflutningi. En útvarpsstjóri virðist ekki hafa fundið sér neitt verkefni enn. Forveri hans las þó altént fréttir þannig að ekki var hann með öllu ónýtur.

Biskupinn yfir Íslandi þverar forsíðu Fréttablaðsins og biður um miskunn fyrir ólöglega innflytjendur, sem hefur þegar verið sýnd öll sú miskunn, sem útlendingalög kveða á um og þar er af miklu að taka enda hefur miskuninn þegar kostað skattgreiðendur hundruði milljóna hvað þessa ólöglegu innflytjendur eina varðar. Sjálf telur þessi biskup ekki neina ástæðu til að sýna öðrum þessvegan undirmönnum sínum neina miskun og hefur hamast við að gleyma dæmisögu Jesú um bersyndugu konuna. (Sá yðar sem syndlaus er o.s.frv.)

Loks geltir Viðreisnarþingmaðurinn fyrrverandi, sem var talinn út af þingi eftir síðustu kosningar í leiðara Fréttablaðsins og segir að við búum við "fjandsamlega stefnu í útlendingamálum" Maðurinn veit greinilega ekki að það er engin þjóð í Evrópu, sem hefur jafn vinsamleg lög hælisleitendum og við Íslendingar.

Stjórnmálaelítan og fréttaelítan ásamt Garminum í Gnipahelli í líki biskupsins yfir Íslandi eru annað hvort á harðahlaupum undan eigin ákvörðunum eða stefna að því væntanlega vísvitandi, að eyðileggja íslenskt velferðarkerfi, öryggi og velferð þessarar þjóðar með því að skipta um þjóð í landinu. Aumt er að sjá þetta lið allt í einni lest eins og Bólu Hjálmar orti á sínum tíma.

Eru virkilega ekki til stjórnmálamenn á Íslandi sem þora að stíga fram og taka upp baráttuna fyrir íslenska þjóð, menningu og gildi og standa vörð um að þessi auðæfi glatist ekki í þjóðarhafinu vegna skammsýni stjórnmálafólks, sem þorir ekki að standa við sannfæringu sína og eigin aðgerðir en varpar meintri sök á þá,sem skipað er til þeirra verka sem það sjálft hefur krafist af þeim.

 

 

 


Stjórnmálastéttin bregst öldrðum og öryrkjum

Verkefnastjóri hjá umboðsmanni skuldara segir þurfa að bregðast við stöðu öryrkja sem hefur farið versnandi á árinu. Öryrkjar sem leitað hafa til umboðsmanns skuldara í ár eru að meðaltali 3500 krónur í mínus eftir að hafa greitt öll föst útgjöld. Það þýðir, að öryrkjarnir geta ekki keypt föt, læknisþjónustu eða farið í leikhús eða á tónleika svo fátt eitt sé nefnt. 

Sama á við um marga aldraða, sem búa við bág kjör og það er ömurlegt að horfa upp á aldrað fólk, sem hefur ekki efni á því að veita sér neitt, jafnvel ekki nauðsynlega læknisþjónustu. Það er dapurlegt að horfa á aldrað fólk vera í öngum sínum vegna þess að það getur ekki gefið börnum og/eða barnabörnum jóla- eða afmælisgjafir. 

Á aðalfundi eldri Sjálfstæðismanna fyrir viku var borin upp viðamikil ályktun um velferðarmál aldraðra, sem var allra góðra gjalda verð og mundi hafa í för með sér bættan hag aldraðra. 

Ég benti á, að ekki þyrfti svo viðamikla tillögu,en að gera einungis þá kröfu að aldraðir og öryrkjar nytu sömu fyrirgreiðslu og hælisleitendur,sbr. 33.gr. útlendingalaga.

Upphaf hennar hljóðar svo: 

Umsækjanda um alþjóðlega vernd skal standa til boða: a. húsnæði, b. framfærsla, c. nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Sérstakt tillit skal tekið til þeirra sem hafa sérþarfir eða þurfa sérstaka aðstoð.

Svona er nú komið í lýðveldinu Íslandi, að á sama tíma og margir öryrkjar og aldraðir geta ekki lifað mannsæmandi lífi eða notið læknisþjónustu og margs annars, þá hafa þingmenn þjóðarinnar búið svo um hnútana vegna "mannúðarsjónarmiða" að þeirra sögn, að fólk sem að meginhluta kemur hingað ólöglega og þarf að vísa brott þrátt fyrir hávær mótmæli fréttastofu Ríkisútvarpsins skuli njóta mannsæmandi lífskjara,en öryrkjum og öldruðum skuli hinsvegar ekki standa til boða slíkur lúxus. 

Þarf ekki að staldra við og gaumgæfa í hverju eðlileg "mannúð" á að vera fólgin í þessu landi. Er hún bara fyrir erlenda hlaupastráka en ekki okkar minnstu bræður í okkar íslenska samfélagi.

 

 


Olía á verðbólgubálið

Borgartjórinn í Reykjavík gerði grein fyrir því í gær, að borgarstjóður væri rekinn með milljarða halla og hallarekstur væri fyrirsjáanlegur. Vissulega nokkuð önnur mynd en dregin var upp í aðdraganda kosninganna s.l. vor. 

Lausnin sem borgarstjóri býður borgurunum upp á er aukin skattheimta og veruleg hækkun á þjónustugjöldum, sem munu auka enn á verðbólgubálið, en meirihlutanum í Reykjavík kemur það ekki við. Samfylking, Viðreisn og Framsóknarflokkurinn bera alla ábyrgð á því að svona skuli vera komið og engin þeirra flokka ætlar sér að axla ábyrgð vegna þessa eða annars. Það gera óreiðustjórnmálamenn almennt ekki hvorki hjá ríki eða borg.

Á sama tíma og borgarstjóri tilkynnir um óreiðuna og skuldasöfnunina hjá Reykjavíkurborg hækka fasteignagjöld verulega vegna ofurhækkana á fasteignum á síðasta ári, en það dugar samt hvergi til. Í tillögum meirihlutans er auk heldur engar haldbærar tillögur til lausnar aukinni skuldasöfnun, þar sem áætlanir meirihlutans miða við áframhaldandi hallrekstur og aukna skuldasöfnun.

Þrátt fyrir hallareksturinn sem bitnar á borgurum Reykjavíkur vegna ofurskatta á fasteignir og hækkaðra þjónustugjalda ætlar Reykjavík samt ekki að hægja neitt á bruðlinu. Áfram verða borgarfulltrúar á glórulausum ofurlaunum miðað við vinnuframlag og pólitískum vinum og vandamönnum verður áfram gefið á garðann svo sem mest má verða.  Það er því ekki neins góðs að vænta meðan þessi meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar fer með völdin í Reykjavík.  Mál er að linni. 

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2022
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 175
  • Sl. viku: 2418
  • Frá upphafi: 2298391

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2252
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband