Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Ekki rétti staðurinn ekki rétti tíminn.

Ár: 1936.  Staður: Berlín. Atburður: Olympíuleikar.   

HitlerAdolf Hitler kanslari Þýskalands setur elleftu Olympíuleikanna eftir að keppnisliðin höfðu gengið undir fánum landa sinna inn á Olympíuleikvanginn. Sum keppnisliðin felldu ríkisfána sína í átt að  kanslarastúkunni  í virðingarskyni við kanslarann. Gríska og franska liðið  ásamt ýmsum öðrum heilsuðu með nasistakveðjunni þegar þau gengu framhjá Foringjanum. Allur undirbúningur leikanna var stórkostlegur. Sýningargluggi einræðisins var glæstur.  

Upplýst fólk vissi að það var ekki lýðræði í Þýskalandi. Allt upplýst fólk vissi að Gyðingar, Sígaunar og   ýmsir þjóðfélagshópar og andstæðingar voru ofsóttir. Hvaða máli skipti það?  Ríkisstjórn þjóðlega þýska verkamannaflokksins hafði skipulagt Olympíuleikanna af meiri glæsileika en áður hafði sést. Þjóðhöfðingjar og fyrirmenn þess tíma streymdu til Berlínar til að vera viðstaddir þessa sögulegu stund. Það var jú enginn maður með mönnum nema hann væri viðstaddur opnunarhátíð Olympíuleikanna í Berlín.  

Nokkrir fýlupúkar m.a. úrtölu- og vandræðamenn eins og Winston Churchill og Anthony Eden gerðu athugasemdir en þurfti nokkur að vandræðast með það. Olympíuleikarnir voru ekki rétti staðurinn til að hafa uppi  mótmæli. Auk heldur var ekki rétti tíminn árið 1936 á Olympíuleikum til að vera með mótmæli og mæta ekki við setningarhátíð Olympíuleikanna. Hvað með mannréttindi og líf nokkurra Gyðinga, Sígauna og pólitískra andstæðinga?  Á  slíkum “minni háttar” málum  varð að taka á síðar. Þar að auki var Þýskaland stórt og sterkt og miklir viðskiptahagsmunir gátu verið í húfi. Það voru önnur mál sem skiptu meira máli og alla vega var þetta ekki rétti staðurinn eða tíminn til að mótmæla. Þá höfðu Þjóðverjar auk heldur ekki ráðist á neina þjóð eða undirokað þjóð eða þjóðarbrot.  Það sem fýlupokarnir voru að tala um var innanríkismál hins stolta þjóðlega þýska ríkis.  Auk heldur sem sjálfsagt var að hafa sjónarmið fýlupokanna að  engu þá var það beinlínis móðgun við hina merku þýsku þjóð að fara að mótmæla við þetta tækfæri. 

Þrátt fyrir að Frakkar og Grikkir felldu fána sína og gæfu nasistakveðju í virðingarskyni við Foringjann þá dugði það ekki til að koma í veg fyrir að hersveitir hans réðust inn í lönd þeirra áður en kom að nýjum Olympíuleikum 

Ár. 2008.  Staður: Peking. Atburður Olympíuleikar

MaoKínverjar hafa svipt Tíbetbúa sjálfstæði og undiroka þjóðina og ýmis þjóðarbrot. Allir vita að kommúnistastjórnin í Kína virðir ekki mannréttindi Tíbetbúa og hefur svipt þjóðina frelsi. Allir vita að Kínverska ríkisstjórnin virðir ekki mannréttindi eigin þegna og hefur m.a. keypt þögn foreldra barna sem fórustu í jarðskjálftum nýverið til að sú handvömm stjórnvalda skyggi ekki á gleði langt aðkominna gesta eða komi í veg fyrir að tiginbornir gestir mæti við setningarathöfn Olympíuleikanna í Peking.  

Stjórnin í hinu stolta kommúníska Alþýðulýðveldi í Kína er óslitið framhald af stjórn Maó sem kostaði fleiri mannslíf í eigin landi en nokkur önnur ógnarstjórn fyrr eða síðar.  Hvaða máli skiptir það? Opnunarhátíðin verður glæsileg og þeir sem vilja vera heldra fólk með heldra fólki mætir á opnunarhátíð Olympíuleikanna. Það er hvort heldur ekki rétti staðurinn eða rétti tíminn til að vera með mótmæli við slíkt tækifæri.  Auk heldur þá eru það bara fáeinir fýlupokar sem mótmæla.

Forseti lýðveldisins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins vita hvað á að gera, hvar og hvenær.  Þeim er ljóst að það er ekki rétti staðurinn og það er ekki rétti tíminn til að mótmæla við setningarhátíð Olympíuleikanna í Peking. Þess vegna mæta þau eins og annað heldra fólk.    

Ólafur RagnarÞorgerður Katrín

Birtist sem grein í 24 stundum 30.7.2008  


Obama æði.

Í skoðanakönnunum í Bretlandi og Þýskalandi hafa um 80% aðspurðra lýst yfir stuðningi við Barack Obama en aðeins um 20% við keppinaut hans John McCain.   En það eru ekki Bretar eða Þjóðverjar sem kjósa forseta Bandaríkjanna.  Samt sem áður sýna þessar skoðanakannanir og viðtökur sem Obama hefur fengið að Evrópubúar líta þannig á að Obama geti orðið góður forseti Bandaríkjanna. Obama geti lagfært það sem fór úrskeiðis á valdatíð George W. Bush jr.

Þó ég sé eindreginn stuðningsmaður Obama og telji hann líklegri til að færa Bandaríkjamönnum nýja von og græða þau sár sem óstjórn Bush hefur valdið þá má ekki ofmeta getu forsetans til að gera breytingar.  Forsetinn er bundinn af þinginu t.d.

Mér finnst sú stefnumörkun Obama að kalla herinn heim frá Írak og leggja áherslu á að ljúka ætlunarverkinu í Afghanistan vera skynsamlegri en sú stefna sem Bush fylgir. Samt sem áður hef ég verulegar efasemdir um að Bandaríkin eða NATO þjóðirnar eigi að skipta sér af málum í Afghanistan umfram það að þjálfa her, lögreglu og sinna mannúðar- og hjálparstarfsemi.  Þá hefur Obama nýlega lýst yfir vilja til að auka frelsi í milliríkjaviðskiptum sem væri kærkomið skref, ef hann kæmi því þá í framkvæmd fyrir þinginu.  Obama hefur gert þó ein alvarleg mistök, en það var þegar hann lýsti því yfir að Jerúsalem mætti aldrei skipta. Í vestur Jerúsalem búa Gyðingar en í Austur Jerúsalem að mestu leyti Arabar.  Hvorki Clinton né Bush gengu svona langt. Sem betur fer mun þó Obama hafa dregið í land með þetta og vonandi skipt um skoðun. 

Það er mikilvægt að fólk geti búið við frelsi og með reisn hvar svo sem það býr.  Stóra vandamál Bandaríkjanna gagnvart  arabaheiminum og raunar múslimaríkjunum er stefna þeirra gagnvart Palestínumönnum og Ísrael.  Obama ætti að hafa betri skilning á því en flestir aðrir, en það verður að  bíða og sjá.


mbl.is Obama tekið sem rokkstjörnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákall um hjálp.

Hún Halla Rut vinkona okkar hefur óskað eftir aðstoð við að vekja athygli á vandamáli vinkonu sinnar sem berst við erfiðan sjúkdóm og þarfnast hjálpar. Í staðinn fyrir að endurprenta upplýsingarnar sem birtast á bloggsíðu Höllu Rutar þá vísa ég í skrif hennar en slóðin er:

http://hallarut.blog.is/blog/hallarut/entry/594049/ 


Vanmerktar vörur og íslenskukunnátta.

Það er alvarlegt að varnaðarmerkingar séu ekki á öllum hættulegum efnavörum. Það kemur í ljós við könnun  að um 30% af hættulegum efnavörum í byggingarvöruverslunum hafa ekki fullnægjandi varnaðarmerkingar.  Þetta er lögbrot. Með þessu eru seljendur að leggja viðskiptavini sína í hættu.

Vandinn er einnig sá að iðulega er litlar leiðbeiningar að fá í verslunum vegna þess að stór hluti af starfsfólki verslana talar iðulega litla sem enga íslensku. 

Það verður að gera kröfu til þess að allar hættulegar vörur séu merktar með viðeigandi varnaðarmerkingum eins og krafist er í lögum. Þá verður líka að gera kröfu til þess að í öllum verslunum sé einhver sem geti gefið fullnægjandi svör og lýsingar á hlutum og svarað fyrirspurnum viðskiptavina á íslensku.  Við erum jú á Íslandi og minni kröfur er ekki hægt að gera.


mbl.is Vanmerktar efnavörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi Geir vita af þessu?

Nú hafa Samfylkingarmenn kastað Sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn Grindavíkur frá sér og myndað meiri hluta með Framsókn.  Ýmsir Sjálfstæðismenn halda því fram að Samfylkingin bíði  færis eftir að losa sig úr stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Aðrir benda á að skóflustunga viðskiptaráðherra fyrir álveri í Helguvík og samningur Össurar um álver á Bakka við Húsavík séu hins vegar dæmi um að Samfylkingin vilji halda friðinn og stjórnarsamstarfinu.

Í dag sendir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, Árna Matthiesen fjármálaráðherra tóninn. Í gær sendi Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður og helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins meða ungu kynslóðarinnar, Björgvin Sigurðssyni viðskiptaráðherra tóninn.  Umhverfisráðherra sendir síðan ríkisstjórninni sem slíkri tóninn.  Utanríkisráðherra biður um aðgerðir í máli sem heyrir undir dómsmálaráðherra. Aðgerðir sem að strákarnir í Útlendingastofuninni í Róm eru enn að hlæja að.

Verkstjórinn í ríkisstjórninni Geir H. Haarde virðist láta sig þetta sundurlyndi mill ráðherra sinna engu skipta. 

Einu sinni var talið mikilvægt og forsenda góðs ríkisstjórnarsamstarfs að flokkar og einstakir ráðherrar væru samstíga og birtu ekki ágreining sinn opinberlega. Það gildir annað í þessu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Verða það örlög Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn að vakna við það einn góðan veðurdag að fyrir þeim verði komið eins og Sjálfstæðismönnunum í bæjarstjórn Grindavíkur að vakna upp við það að þeim hefði verið kastað burt, samstarfi slitið en Samfylkingin búin að tryggja sér nýjan meirihluta.


mbl.is Segir ásakanir um trúnaðarbrest fyrirslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friður í Afghanistan?

NATO blandaði sér illu heilli í átökin í Afghanistan. Þrátt fyrir verulega aðstoð Vesturlanda til stjórnar Hamid Karsai og fjölmennt herlið frá NATO þá gengur hvorki né rekur að koma á eðlilegu ástandi í landinu. Spurning er hvort það sé hlutverk NATO ríkjanna og hvort það sé afsakanlegt að senda ungt fólk frá Evrópu og Norður Ameríku til að vera skotmörk vígasveita og hermdarverkamanna.

Í gærkvöldi barst sú frétt að flugvélar NATO hefðu sprengt brúðkaup í Afghanistan í loft upp. Það er þá ekki í fyrsta skipti sem svo er. Fyrstu viðbrögð frá NATO var að þetta hefðu verið Talibanar. Karsai forseti sagði að þetta yrði rannsakað. Hvað sem því líður þá sýna atburðir eins og þessi hvað það er varhugavert fyrir NATO að blanda sér í átök sem bandalaginu koma í raun ekkert við.

Nú hafa Bandaríkin og NATO ríkin verið lengur í Afghanistan með lið undir vopnum en sem nemur þeim tíma sem seinni heimstyrjöldin tók.  Það hlítur að vera mikið að og nauðsynlegt að endurskoða hvort hafa eigi lið í Afghanistan eða ekki.


mbl.is 41 látinn í Kabul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hakakross og hamar og sigð.

Hakakrossinn tákn nasistanna hefur verið bannaður í mörgum löndum  frá stríðslokum. Nú hefur þing Litháen bannað sovésk tákn eins og hamarinn og sigðina og sovésku kommúnistastjörnuna.

Hvað á að ganga langt í að banna? Mörgum kann að finnast meira spennandi að nota tákn sem eru bönnuð. Það er líka spurning um önnur merki og tákn hvort ekki eigi að banna þau eða taka úr umferð.

Ofan á Alþingishúsinu trónir merki dansks arfakonungs. Ekki er vilji til að taka það niður og setja íslenska skjaldarmerkið í staðinn. Þessi danski arfakonungur var andsnúinn þingræði merki hans er tákn um ófrelsi Íslands. Samt höldum við í það. 

Ég velti fyrir mér hvort það sé eðlilegt að banna merki eins og þessi og afmá spor sögunnar.  Hver tími verður að hafa frelsi til að aðlaga hlutina að eigin veruleika. Þess vegna vil ég losna við merki danska arfakonungsins af Alþingishúsinu. Það má þó nota annarsstaðar.

Hin merkin sem minna á ófrelsi, mannhatur og ógnarstjórnir hafa gildi til að minna okkur á. Er rétt að banna hakakrossinn og hamarinn og sigðina?


Kemur verðbólgan engum á óvart?

Verðbólga mælist nú meiri en verið hefur í tæpa 2 áratugi. Þessi verðbólga virðist ekki koma neinum á óvart miðað við að greiningardeildir bankanna höfðu sumar spáð meiri verðbólgu en skráð er. Þrátt fyrir Evrópumet í stýrivöxtum til að vinna gegn verðbólgu hefur Seðlabankinn aldrei náð verðbólgumarkmiðum sínum. Þvert á móti má færa rök að því að stefna Seðlabankans sé mikill orsakavaldur vandans nú og þess vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og síðustu ríkisstjórna, einkum skattastefnan og síaukin útþensla opinbera báknsins ásamt vanhugsuðum og allt of takmörkuðum aðgerðum Seðlabankans leiddi til hágengis, spennu í efnahagslífinu og mikillar einkaneyslu. Þjóðin verður nú að taka afleiðingum af þessari vitlausu stefnu. Það var alltaf ljóst að það mundi koma að skuldadögunum. Þrátt fyrir það markaði hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki neina stefnu um það hvernig bregðast ætti við þegar hágenginu yrði ekki lengur haldið uppi. Þegar skuldasöfnun þjóðarinnar gæti ekki haldið áfram og þegar verðbólgudraugurinn berði að dyrum.

Efnahagskreppur á Íslandi hafa hingað til stafað af lækkandi fiskverði og minnkandi sjávarafla. Nú er fiskverð hinsvegar í hámarki og útflutningsverðmæti haldast þrátt fyrir að heimilað sé að veiða minna en oftast áður. Efnahagskreppan nú er því af öðrum toga en áður. Hún er heimatilbúin. Hún er bein afleiðing hagstjórnarmistaka Seðlabanka og ríkisstjórna í rúman áratug.

Aukin umsvif og skattheimta hins opinbera er einn af helstu orsakavöldum þeirra efnahagsþrenginga sem við erum nú að ganga í gegn um. Það er því með ólíkindum að þrátt fyrir þetta og stöðugt vaxandi hlutar hins opinbera þá skuli talsmenn sósíalismans í Vinstri Grænum og Samfylkingunni nú kalla eftir enn meiri ríkisafskiptum og jafnvel þjóðnýtingu á kostnað skattborgaranna. 

Er ekki nóg komið af sósíalismanum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir? Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðasta áratug aukið útgjöld og umsvif hins opinbera þvert á stefnu sína? Sjálfstæðisflokkurinn hefur aukið skattheimtuna á launafólk í landinu en lækkað skatta þeirra sem best eru settir? Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sumum þjóðarauðlindir og selt öðrum rýmingarsöluverði.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig  stundað sósíalisma í anda sérkenninegrar frjálshyggju?

Væri ekki skynsamlegra að takmarka umsvif hins opinbera, lækka skatta og leyfa borgurum þessa lands að ráða meiru um fjármál sín. Er nokkur hætta á því að fólkið mundi stjórna fjármálum sínum verr en ríkið og Seðlabankinn hefur gert fyrir það?


mbl.is Verðbólga mælist 12,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju selja eignir?

Ágúst Ólafur Ágústsson krefst hluta af fyrirtækjum sem stjórnmálamenn geta almennt ekki krafist. Stjórnendur fyrirtækja  taka ákvarðanir í samræmi vid  hagsmuni fyrirtækjanna en ekki stjórnmálamanna. Hitt er annað mál að vafalaust væri best fyrir sum íslensk útrásar fyrirtæki að selja eignir erlendis og minnka skuldir. En svona skrifar ekki stjórnmálamaður sem ber ábyrgð á ríkisstjórn nema  vandamálin séu ofvaxin ríkisstjórninni?
mbl.is Fyrirtæki selji eignir í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann Birna leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Samstillt aðför Morgunblaðsins og forustu Sjálfstæðisflokksins tókst og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hættir sem oddviti borgarstjórnarflokks  Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Hanna Birna Kristjánsdóttir tekur við. 

Það var fyrirséð að þannig mundi það verða vegna þess að flokkseigendafélagið í Sjálfstæðisflokknum var greinilega búið að ákveða þetta fyrir nokkru eða jafnvel löngu. 

Það bíður Hönnu Birnu óneitanlga erfitt verkefni. Í fyrsta lagi þarf hún að vinna að því að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins verði trúverðugur. Í öðru lagi bíður hennar líka það verkefni að móta stefnu í borgarmálum sem aðgreinir Sjálfstæðisflokkinn frá hinum flokkunum í borgarstjórn. Staðreyndin er sú að stefna flokkana í borgarmálum er svo áþekk og einsleit að iðulega er erfitt að gera sér grein fyrir hver ágreiningurinn er á milli flokkana ef hann er þá yfir höfðu nokkur. Þetta veldur því að allir flokkarnir í borgarstjórn eiga svo auðvelt með að vinna saman. Málefnin þvælast ekki fyrir þeim.

Verst er að það skuli ekki vera fulltrúar frjálsyndrar einstaklingshyggju í borgarstjórn. Slíkir fulltrúar mundu ekki líða þá sóun, bruðl og síðast en ekki síst óheyrilega sjálftöku borgarfulltrúa og varamanna þeirra sér til handa á fjármunum borgarbúa.

Það vantar fulltrúa aðhalds sparnaðar og heilbrigðrar skynsemi í borgarstjórn. Fulltrúa sem hafa ákveðna stefnu og framtíðarsýn í borgarmálum. Fulltrúa sem vinna að því að eðlilegar samgöngur verði í borginni og út úr og inn í hana. Sjái til að hreinsun borgarinnar sé með eðlilegum hætti en borgin fari ekki aftur og aftur yfir hættumörk vegna svifryksmengunar.  Slíka fulltrúa verðum við að fá eftir næstu borgastjórnarkosningar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 156
  • Sl. sólarhring: 1109
  • Sl. viku: 5801
  • Frá upphafi: 2276439

Annað

  • Innlit í dag: 145
  • Innlit sl. viku: 5383
  • Gestir í dag: 144
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband