Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Engir höfuðklútar, blæjur eða slæður í háskólum í Tyrklandi.

Á sama tíma og ýmis kristin Evrópuríki vandræðast með það hvort banna eigi tákn kvennakúgunar og ófrelsis, blæjur og slæður ákveður stjórnlagadómstóll Tyrklands að slíkur klæðnaður sé óheimill í háskólum landsins. Semsagt konum í Tyrklandi er bannað að bera þetta tákn kvennakúgunar.

Margir hafa haldið því fram að það væri óvirðing við Íslam að vera á móti slæðu- og blæjuburði kvenna. En það hefur ekkert með trúarbrögðin að gera. Þetta tákn kvennakúgunar var tekið upp í Íslam eftir að karlarnir stálu trúarbrögðunum og fóru að túlka þau sér í hag. Blæjuburður kvenna er gamall persneskur siður.

Íslensku stjórnmálakonurnar sem hafa sett upp blæjur og slæður á ferðum sínum til Afghanistan og Saudi Arabíu svo dæmi séu nefnd síðast utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ættu að hugleiða sjónarmið Tyrkneska stjórnarskrárdómstólsins áður en þær láta sér til hugar koma að sveipa þessu tákni kvennakúgunar um sig.

Það sem mér hefur komið mest á óvart í þessu er að ekkert skuli heyrast um þessi mál frá Femínistum eða Kvennréttindafélagi Íslands svo önnur dæmi séu tekin.


mbl.is Slæður brot á stjórnarskrá Tyrklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama sigurvegari.

Loksins hefur Obama tryggt sér nægjanlega marga kjörmenn til að ná tilnefningu Demókrataflokksins sem forsetaefni skv upplýsingum helstu fréttamiðla vestra.  Obama verður fyrsti hörundsdökki maðurinn sem verður þá í framboði fyrir einn af stóru flokkunum vestra.

Nú er að sjá hvort að kjósendur í Bandaríkjunum láta það skipta máli hvaða húðlit Obama hefur eða ekki.  Ég hef fylgst með forkosningum Demókrata. Mér hefur komið á óvart hvað fordómarnir hafa verið litlir gagnvart Obama í þeim kosningum. Satt að segja bjóst ég við meiri fordómum gagnvart honum vegna litarháttar hans.

Barack Obama er athygliverður stjórnmálamaður hann hefur sýnt það í kosningabaráttunni að hann kveikir von í brjósti fólks og talar á jákvæðan hátt um vandamálin. Það verður gaman að fylgjast með viðureign hans og John Mc Cain. John Mc. Cain er athygliverður og góður stjórnmálamaður en hann geldur þess vafalaust að George W. Bush hefur verið mistök sem forseti. Þess vegna eru líkur á að Obama verði næsti forseti, en það er enn nokkuð í land.

Spurning er hvort Obama er ekki einmitt það forsetaefni sem að á bestu möguleika á að endurvinna traust til Bandaríkjanna í þeim hlutum heimsins sem Bandaríkin hafa gjörsamlega tapað trausti í forsetatíð George W. Bush.


Er eitthvað sérstakt að gerast?

Það er athyglivert að krónan skuli veikjast svona mikið. Evran er nú komin í um 120 krónur en fór niður í 113 krónur fyrir nokkru síðan.  Það er ekkis svo ýkja langt síðan hægt var að fá eina Evru fyrir 80 krónur. Þetta mikla gengisfall verður þrátt fyrir að við séum með Evrópumet í háum stýrivöxtum.

Áframhaldandi flökt á krónunni kemur til með að valda atvinnulífinu miklum erfiðleikum.  Sjálfstæður gjaldmiðill í minnsta myntkerfi í heimi kostar okkur mikla peninga. Er það þess virði að halda þessum glæfraleik áfram?

Við Frjálslynd bentum á það í kosningabaráttunni og höfum á stefnuskrá okkar að tengja myntina við gegniskörfu með vikmörkum til að tryggja aukinn stöðugleika.  Það kann að vera enn betra að tengjast stóru myntkerfi eins og Evrusvæðinu þar sem meginhluti viðskipta okkar er við Evrusvæðið. Ég hef bent á að við gætum reynt að semja við danska seðlabankann um að tengjast dönsku krónunni með vikmörkum en með því værum við sjálfkrafa komin í Evrutengingu. Spurning er hvort Danir mundu samþykkja það. En það sakar aldrei að banka upp á til að skoða málið.

Við höfum ekki efni á að borga marga milljarða á ári í herkostnað við að halda sjálfstæðum gjaldmiðli sem er ofurseldur vogunarsjóðum og spekúlöntum. Íslenskir neytendur og íslenskt atvinnulíf á betra skilið. Eins og staðan er í dag þá þjónar íslenska krónan með þeim fimleikaaðferðum sem henni tengjast eingöngu hagsmunum ákveðinna stjórnenda í efnahagsmálum til að breiða yfir alvarleg hagstjórnarmistök liðinna ára.


mbl.is Krónan veikist um 1,80%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkur ritstjóri lætur af störfum.

Styrmir Gunnarsson er tvímælalaust einn merkasti ritstjóri og blaðamaður sem við höfum átt. Hann hefið getað haslað sér völl með öðrum hætti í pólitíkinni hefði hann kosið það og orðið einn af helstu forustumönnum Sjálfstæðisflokksins á Alþingi og líklega í ríkisstjórn. Styrmir Gunnarsson kaus hins vegar að heyja sína pólitísku baráttu sem ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hefur vafalaust séð að hann var mun áhrifameiri í íslenskum stjórnmálum með þeim hætti en með því að láta af ristjórastörfum og setjast á Alþingi.

Það er raunar nokkur nýlunda að tveir síðustu ritstjórar Morgunblaðsins þeir Matthías Johanessen og Styrmir Gunnarsson skuli hvorugur hafa setið á þingi eða gælt svo nokkru nemi við þingmennsku. Fyrirrennarar þeirra t.d. Eyjólfur Konráð Jónsson, Sigurður Bjarnason og að ógleymdum Bjarna Benediktssyni hurfu frá ritstjórnarstörfum á Morgunblaðinu og settust á þing og mörkuðu hver með sínum hætti spor sín í póilitíks síns samtíma.

Ég hef lengi haldið því fram að Styrmir Gunnarsson væri eini pólitíski áhrifamaðurinn í íslenskri blaðamennsku  og kemur þar margt til m.a. yfirburðaþekking á íslenskum þjóðmálum og stjórnmálamönnum sem því miður virðist vera af æ skornari skammti meðal íslenskra blaðamanna.

Styrmir hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir í pólitík og verið trúr þeirri varðstöðu sem hann hefur tekið sér hverju sinni.

Við Styrmir höfum verið samferðarmenn að nokkru í íslenskri pólitík. Ég sat í stjórn hjá honum þegar hann var formaður Heimdallar félags ungra Sjálfstæðismanna og mér fannst þá og finnst enn að Styrmir hafi verið góður formaður Heimdallar og hrinti á þeim tíma stórvirkjum í gang sem sjást ekki lengur á vettvangi ungra manna í pólitík.  Ég leyfi mér að halda því fram að við Styrmir höfum yfirleitt verið sammála um stefnuna í þjóðmálum þó að okkur hafi hins vegar greint verulega á um afstöðu til einstaklinga. Það  varð til þess að við skipuðumst á sínum tíma með ólíkum hætti í hópa  innan Sjálfstæðisflokksins meðan við störfuðum þar báðir.

Styrmir Gunnarsson hefur öðrum fremur áttað sig á því í hvaða vanda Sjálfstæðisflokkurinn er í dag. Það sést m.a. á skrifum hans undanfarna daga um borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins og margt annað.

Mér finnst ólíklegt annað en að Styrmir Gunnarsson hasli sér áfram völl á síðum Morgunblaðsins og það verður fróðlegt að lesa skrif hans þegar hann er ekki lengur bundinn af þeirri byrði sem það óneitanlega er að vera ritstjóri Morgunblaðsins.


mbl.is Ritstjóraskipti á Morgunblaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin brýtur rétt á borgurum sínum.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði á síðasta ári að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið bryti í bág við 26. gr. sáttmálans um  borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Um er að ræða sáttmála sem Ísland hefur undirritað og fullgilt.  Mannréttindanefndin gaf íslenskum stjórnvöldum 180 daga frest til að bregðast við og leggja tillögur um umbætur fyrir nefndina.

Nú eru 14 dagar eftir af frestinum og sjávarútvegsráðherra upplýsti á Alþingi í dag að hann mundi ekki leggja neinar tillögur fyrir til að koma í veg fyrir áframhaldandi mannréttindabrot og taldi auk heldur spurningu um hvort að við værum bundin af þjóðarrétti af áliti mannréttindanefndarinnar.

Í mínum huga er engin spurning um að við erum bundin að þjóðarrétti. Benda má á að um fullgildan alþjóðasamning er að ræða og við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir honum. Þá tók íslenska ríkið til varna og véfengdi ekki hæfi nefndarinnar meðan málsmeðferð stóð gegn Íslandi.

Við þingmenn Frjálslyndra og vinstri grænna lögðum fram þingsályktunartillögu í janúar þar sem lagt var til að Alþingi ályktaði að farið skyldi að niðurstöðum mannréttindanefndarinnar. Sú tillaga fékk við umræður á Alþingi stuðning allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins en fæst ekki afgreidd úr sjávarútvegsnefnd þingsins. Þannig kemur annar ríkisstjórnarflokkurinn í veg fyrir að vilji Alþingis í málinu komi skýrt og ótvírætt fram.

Þetta er atlaga að þingræðinu og virðingu Alþingis. Við munum ekki gefast upp við að koma málinu á dagskrá þegar þing kemur saman í haust. 

Það kemur ekki til greina að Ísland haldi áfram að brjóta mannréttindi á borgurum sínum.


Átti dómsmálaráðherra að biðjast afsökunar?

Rætt var um símahleranir á tímum kalda stríðsins á Alþingi í dag. Um er að ræða áratuga gömul mál. Ljóst er að farið var lagalega rétt að í öllum tilvikum og beiðnir um símahleranir lagðar fyrir dómara til að úrskurða. Ekki eru dæmi svo vitað sé um að hlerað hafi verið án fullnægjandi heimilda skv lögum.

Farið var fram á að dómsmálaráðherra bæðist afsökunar á hlerununum. Að sjálfsögðu kom það ekki til mála. Á hverju átti hann að biðjast afsökunar. Á  því að tilefni þótti til að grípa til sérstakra öryggisráðstafana? 

Það má ekki gleyma því að  fullveldi landsins stafaði hætta af heimskommúnismanum á sínum tíma og sporgöngumenn "Sovét Íslands óskalandsins" geta ekki amast við því að lýðræðislega kjörin stjórnvöld hafi gripið til þeirra varúðarráðstafana sem þau töldu nauðsynleg til að verja sjálfstæði og fullveldi Íslands.

Er einhver sem telur að dómsmálaráðherra hefði átt að biðjast afsökunar á símahlerununum og sé svo á hverju átti hann þá að biðjast afsökunar? 


Blindir fá sýn og spádómsgáfu eða hvað?

Greiningardeild Glitnis kynnir nýja þjóðhagsspá og spáir því að hafið sé tveggja ára stöðnunarskeið í íslensku efnahagslífi.  Því miður má gera ráð fyrir að þessi spá sé rétt en að sjálfsögðu er alltaf óvissa í svona spám og spurja má af hverju sáu greiningardeildir bankanna og aðrar greiningardeildir ekki nokkra mánuði fram í tímann fyrir tæpu ári.

Stöðnunarskeið og framfaraskeið í efnahagslífinu er komið undir mörgum atriðum og eitt af því sem miklu skiptir er hvað og hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma að málum.  Því miður er ástæða til að vera svartsýnn um framvinduna í íslensku efnahagslífi vegna þess að Samfylkingin ætlar sér að koma í veg fyrir nýja framfarasókn á grundvelli trúarsetninga hugmyndafræðinnar sem þeir Samfylkingarmenn gáfu heitið "Fagra Ísland".   

Ástæða er til að óttast að samdráttarskeið og stöðnun vari lengur en greiningardeildin spáir í íslenska efnahagslífinu. Það er undir því komið hvort Samfylkingin verður áfram í ríkisstjórn  og hvort Samfylkingin ætlar að láta rómantíska stefnumótun velmegunaráranna koma í veg fyrir nýja framfarasókn þjóðarinnar í efnahags- og atvinnumálum.


mbl.is Tveggja ára stöðnunarskeið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttafólk og stefna Frjálslynda flokksins

Frjálslyndi flokkurinn markaði sér þá stefnu á flokksþingi sínu fyrir nokkrum árum í málefnum flóttafólks að „Ísland ætti ekki að skorast undan ábyrgð á málefnum flóttafólks. Einnig beri Íslendingum að taka þátt í mannúðar- og hjálparstarfi áerlendum vettvangi. Stefna flokksins mætti vera ítarlegri en væntanlega verður við því brugðist á næsta flokksþingi flokksins í janúar næstkomandi.  

Ég tel nauðsynlegt að Ísland reki myndarlegt hjálparstarf og hvað flóttamenn varðar þá ber að leggja áherslu á að mesta og besta hjálpin sem hægt er að veita flóttamönnum  er að hjálpin eigi sér stað á þeim menningarsvæðum sem eru næst viðkomandi flóttamönnum hverju sinni. Jafnframt skiptir máli að flóttamenn fái aðstoð og móttöku sem næst þeim landssvæðum sem þeir koma frá svo fremi að þau svæði séu örugg og svipuð að menningu. Spurning er alltaf með hvaða hætti getum við hjálpað sem flestum. Hvernig nýtum við peningana sem við veitum til hjálparstarfs sem best. Ég tel að við eigum að einbeita okkur að því að hjálpa flóttafólki á þeim svæðum sem það býr eða getur dvalist við öryggi. Það er gríðarleg neyð í Suður Afríku, Súdan, Sómalíu, Írak, Jórdaníu, og áfram og áfram gæti ég talið. Það kostar meira að taka flóttafólk inn í landið og með því að nota peningana okkar með þeim hætti þá hjálpum við mun færri en við gætum gert ella með þeim fjármunum sem við verjum til hjálparstarfs. Ég tel afar mikilvægt að við miðum við að hjálpa jafnan sem flestum og peningarnir nýtist sem best og leggjum áherslu á það sem skiptir máli en stöndum ekki í sýndaraðgerðum sem litlu máli skipta.  

Af þessum ástæðum mun ég leggja til og vænti þess að þingflokkur Frjálslynda flokksins standi að tillögugerð með mér um að stórauka framlag þjóðarinnar til aðstoðar við flóttafólk og til mannúðarstarfs.  

Á undanförnum vikum hefur verið deilt um móttöku flóttamanna frá Írak til Akraness. Talað er um að 30 manna hópur flóttafólks úr Al-Waleed flóttamannabúðunum í Írak komi til landsins og fái vist á Akranesi. Þá er einnig talað um að 30 til viðbótar komi síðar þannig að alls komi um 60 manns. Talað hefur verið um að þarna sé um að ræða einstæðar mæður og börn þeirra en í raun liggur ekki alveg ljóst fyrir hvernig hópurinn verði samsettur.  

Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslynda flokksins gerði athugsemdir sem formaður Félagsmálaráðs Akraness við það hvernig staðið væri að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar og vísaði til þess í vandaðri greinargerð sem hann gekk frá af gefnu þessu tilefni. Strax og greinargerð Magnúsar Þórs kom fram mátti hann þola að á honum dyndu vammir og skammir. Hann var sakaður um rasisma. Hann var sakaður um að vilja ekki bregðst við og hjálpa fólki í neyð. Þá var hann sakaður um að vera á móti Palestínumönnum auk margs annars. Allar þessar ásakanir eru rangar. Magnús Þór Hafsteinsson hefur ítrekað tjáð sig um málefni Palestínumanna og lagði málstað þeirra lið með virkum hætti meðan hann átti sæti á Alþingi. Það er því rangt og rógburður að saka hann um rasisma eða að vera á móti Palestínumönnum eða hagsmunum þeirra. Orð hans og gerðir vitna um annað.  

En taka verður undir þær efasemdir sem koma fram hjá Magnúsi um að rétt sé að málum staðið og við séum að nýta fjármunina sem best með því að taka við 30 flóttamönnum frá Al-Waleed búðunum.  

Þeir sem eru í Al-Waleed búðunum eru í sárri neyð. Fólkið þarf á virkri aðstoð að halda. Þessar flóttamannabúðir eru á einskismannslandi í eyðimörkinni í Írak. Alls munu búa rúmlega 2000 manns í þessum flóttamannabúðum. Ekki hefur verið ákveðið hverjir úr þessum 2000 manna hópi verði valdir til að fá að koma hingað til landins. En svo tölfræðin sé notuð þá er verið að tala um 1.5% þeirra sem eru í búðunum. Hjálpin sem veitt er með þessu er því vægast sagt afar takmörkuð og nánast eingöngu táknræn. Fjármunirnir sem fara til að velja fólki sem á að koma og til móttöku og aðlögunar í íslensku samfélagi eru hins vegar miklir og þá fjármuni hefði mátt nota til að koma öllum í Al-Waleed flóttamannabúðunum til virkrar hjálpar. Fólkið í þessum búðum er misjafnlega statt. Þeir sem valdir verða til að koma hingað til lands eru þeir sem best eru settir í flóttamannabúðunum. Þeir sem velja hverjir koma gera það á grundvelli mats á því hversu líklegir þeir eru til að geta spjarað sig í íslensku samfélagi.  

Örkumla fólk og geðfatlaðir kemur ekki til greina við það val miðað við hvaða venjur hafa skapast í þessu efni. Þeir fulltrúar sem koma í búðirnar og velja flóttafólki velur það ekki út frá þeim sjónarmiðum hverjir séu í brýnustu þörfinni. Nei valið fer fram á öðrum grundvelli.  

Þegar þetta er haft í huga þá finnst mér vandlæting þeirra sem hafa talað niður til Magnúsar Þórs og gagnrýnt hann fyrir að vilja að fram fari ítarleg umræða og undirbúningur í málinu vera hræsni.  Þá er það óréttlætanlegt yfirvarp að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir fólkið í Al-Waleed flóttamannabúðunum með því að taka rúmt eitt prósent sem þar eru þá sem best eru settir til að flytja í gjörólíkt og framandi umhverfi. Með betra skipulagi hefði mátt gera miklu betur og nýta penigana þannig að þeir kæmu fólkinu í þessum flóttamanabúðum öllum til góða.  

Af hverju tökum við ekki frekar skynsamlega ákvörðun sem felur í sér raunverulega mannúðarstarfsemi og tökum að okkur flóttamannabúðirnar í Al-Waleed og sendum hjálparstarfsmenn, lyf og búnað til að veita öllum í þeim búðum virka hjálp. Það er mannúðarstarf sem nýtist þeim sem verst eru settir og skiptir máli í mannúðarstarfi og mun meiru en verið er að gera nú með því að taka þá sem best eru settir í búðunum rúmt eitt prósent íbúana og flytja þá í framandi land í ólíkan menningarheim. 

Eigum við ekki að taka þessa umræðu öfgalaust og með hagsmuni þeirra sem við getum hjálpaðp í huga í stað þess að vera í sýndaraðgerðum eins og utanríkisráðuneytið stendur fyrir í málefnum flóttamannanna í Al-Waleed búðunum. Satt best að segja varð ég undrandi þegar ég kynnti mér málið af hverju utanríkisráðuneytði telur það virkustu hjálpina við fólkið að hjálpa rúmu einu prósenti íbúana en gera ekkert fyrir rúm 98% íbúana sem þó eru verr settir en þeir sem valdir verða.  

Af hverju ræðum við það ekki í alvöru hvernig við eigum að reka alvöru mannúðarstarfsemi.


Stýrivextir hefðu átt að lækka.

Stýrivextir Seðlabankans eru of háir. Þeir virka lamandi á atvinnulífið í landinu.  Sú þennsla sem að Seðlabankinn vildi vinna gegn með því að hækka stýrivexti umfram allt eðlilegt er ekki lengur fyrir hendi. Nú skiptir máli að örva atvinnulífið í landinu sérstaklega framleiðsluatvinnustarfsemina og efla fjármálafyrirtækin.  Háir stýrivextir eru ekki leiðin til þess.

Seðlabankinn hefur aldrei náð verðbólgumarkmiðum sínum með beitingu stýrivaxta. Eins og margoft hefur verið bent á þá hefði bankinn átt að beita mun víðtækari aðgerðum en stýrivöxtunum. Færa má rök fyrir því að háhæð stýrivaxta Seðlabankans hafi valdið efnahagslegu ójafnvægi sem mun taka okkur langan tíma að vinna úr.


mbl.is Stýrivextir áfram 15,50%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrasti matur í Evrópu.

Enn einu sinni er það staðfest í samanburðarkönnun að matur og drykkjarvörur eru dýrastar á Íslandi. Birt er samanburður á verðlagi á Íslandi og öðrum Evrópulöndum árið 2003 og árið 2006. Árið 2006 er munurinn sá að matvörur hér eru  64% dýrari en´að meðaltali í ESB ríkjunum. Árið 2003 var munurinn  sá að mat- og drykkjarvörur voru 42% dýrari hér en í Evrópusambandslöndunum.

Þetta er óásættanlegur munur. Noregur er með næst dýrustu mat- og drykkjarvörur en þar var maturinn rúmlega 50% dýrari en meðaltal í ESB ríkjunum árið 2006. Af hverju skyldu Ísland sérstaklega og raunar einnig Noregur skera sig úr að því leyti að matur er langdýrastur? Getur það verið vegna þess að við stöndum utan ESB?

Getur íslenskur almenningur sætt sig við að borga 64% meira en Evrópubúar að meðaltali fyrir brýnustu lífsnauðsynjar. Er ekki einhversstaðar vitlaust gefið?


mbl.is Verð á mat 64% hærra en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 119
  • Sl. sólarhring: 889
  • Sl. viku: 3909
  • Frá upphafi: 2295644

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 3578
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband