Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hver ber ábyrgð á eignabruna sparisjóðanna?

Steingrímur J. Sigfússon hefur  haldið málefnum sparisjóðanna í gíslingu lengur en góðu hófi gegnir. Á þeim tíma hafa eignir þeirra rýrnað og kostnaður og ábyrgðir ríkisins aukist. 

Sparisjóður Keflavíkur fékk að starfa á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu í 1 ár fram í apríl 2010, en það er einungis heimilt ef líklegt er talið að eigið fé hans verði jákvætt.  Þá var starfseminni skipt í nýja og gamla sparisjóðinn og áfram töpuðust fjármunir.  Þessar ákvarðanir voru augljóslega rangar og Steingrímur J. Sigfússon ber höfuðábyrgð á því, en Bankasýsla ríkisins ber líka ábyrgð á þessari vitleysu.  Ár  leið án aðgerða og stefnumótunar.

 Á þessum tíma hafa milljarðar brunnið á kostnað þjóðarinnar.  Loksins þegar allt er komið í þrot og fyrir liggur að kostnaðurinn vegna stefnuleysis Steingríms er ríkinu ofviða er gripið til þess ráðs sem allan tímann lá fyrir að var skynsamlegast, að sameina Sparisjóðinn í Keflavík Landsbankanum. Þar með er 9. fjármálafyirtækið fallið í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Skrýtið að sú staðreynd skuli fara framhjá ríkisfjölmiðlunum.

Enn heldur Bankasýsla ríkisins utan um fjárhag nokkurra sparisjóða sem reynt er að halda lífinu í. Engin stefnumörkun liggur fyrir varðandi þá, þrátt fyrir að strax á árinu 2009 mátti vera ljóst að heppilegast væri að fela einhverjum af stóru bönkunum þremur að taka yfir sparisjóðina í því skyni að takmarka tjón ríkisins og til að byggja upp öflugara fjármálakerfi.

Hvað töpuðust margir milljarðar á þessum tíma vegna stefnuleysis?


Hækkaði lánið þitt?

Hækkun á bensín- og olíuverði undanfarið hækkar höfuðstól verðtryggðra lána um 0.5%.  Höfuðstóll 20 milljón króna láns hækkar þá um 100 þúsund í þessum mánuði og á það leggjast vextir.  Þeir sem hafa keypt íbúðirnar sínar aftur á grundvelli úrræða Skjaldborgar Jóhönnu skulda þá enn meira en áður en eiga samt ekki neitt.

Ríkisstjórnin lætur eins og hækkun olíuverðs komi henni ekki við.  Þegar um það er rætt bullar Steingrímur J. um vistvæna orkugjafa eins og það  greiði afborgun af vísitölubundna láninu. 

Ríkissjóður tekur mest til sín af olíuverðshækkuninni. Væri hér ábyrg ríkisstjórn sem hugsaði um hag heimilanna og neytenda þá mundi hún strax í í dag lækka skatta á eldsneyti verulega. Það mikið að hækkun olíuverðs vegna tímabundins óróa í Norður Afríku ylli ekki verðbólguskoti, sem gæti þá verið byrjun á nýju verðbólgutímabili. Framleiðsluverð á vörum hækkar nefnilega líka vegna hækkandi eldsneytisverðs vegna aukins tilkostnaðar.

Ríkisstjórn sem lætur vísitölubindingu lána viðgangast og hækkar höfuðstól lánanna ítrekað með vanhugsuðum skattahækkunum er vinsamleg fjármálafyrirtækjum en fjandsamleg fólkinu í landinu.

Það verður að afnema vísitöluna og byggja upp heilbrigt lánakerfi þar sem báðir aðilar bera ábyrgð en ekki bara skuldarar.


Enn tapar Byggðastofnun

Byggðastofnun tapaði 2.6 milljarði í fyrra. Það tap bætist við árlegt tap þessarar stofnunar um áratugaskeið.  Aftur og aftur hafa skattgreiðendur borgað milljarða til Byggðastofnunar, en það dugar aldrei til. Þessi pólitíska fyrirgreiðslustofnun ætti að vera búin að ganga sinn veg á enda.

Ef til vill er Byggðastofnun gott dæmi um vandamál ríkisrekinnar lánastofnunar.  Hvernig sem árar og hvað sem á gengur þá tapar þessi stofnun.  Ríkisrekstur á fjármálafyrirtæki er því síður en svo nein trygging fyrir því að reksturinn reki ekki upp á sker gjaldþrots.

Nú talar fjármálaráðherra um að endurreisa Sparisjóðina, en þeir hafa undantekningalítið verið reknir með tapi af kjarnastarfsemi sinni alla öldina. Hvaða glóra er þá að leggja milljarða af skattfé  í endurreisn þeirra.  Hvað afsakar viðbótarframlög og ítrekaða milljarða framlög af peningum skattgreiðenda til Byggðastofnunar.

Af hverju rekur ekki ríkið eina lánastofnun Landsbankann meðan fjármálastarfsemi er hér í henglum eftir bankahrunið 2008. Hvað getur afsakað það að auka kostnað skattgreiðenda með því að henda út milljörðum á milljarða ofan í lánastofnanir sem sinna ekki neinu hlutverki sem Landsbankinn er ekki fær um að sinna. 

Þurfti ekki að breyta um vinnubrögð í kjölfar bankahrunsins. Var það ekki það sem verið var að kalla eftir. Milljarða framlög af fé skattgreiðenda til sparisjóða og Byggðastofnunar undirstrikar gaddfreðna pólitíska spillingu.


Tómarúm í miðborginni

Miðborg Reykjavíkur er fátækari eftir að bókabúð Máls og menningar lokaði.  Það var ekki að ástæðulausu að bókabúðin var valin ein af bestu bókabúðum í Evrópu.  Bókabúðin var kærkomin menningarleg vin í þessari miðstöð Mammons í Reykjavík.

Sú var tíðin að bókabúð Máls og menningar var merkisberi ákveðinnar pólitískrar hugmyndfafræði sem mér hefur alltaf verið í nöp við. Samt sem áður var gott að koma í búðina til að ná í bækur sem gátu nýst í baráttunni gegn þeim sem aðhylltust þau sjónarmið sem bókabúð Máls og menningar stóð fyrir.

Það var ef til vill kaldhæðni örlaganna að síðasta bókin sem ég keypti í bókabúð Máls og menningar var bók um ógnarstjórn kommúnista í Norður Kóreu. Þannig geta hlutirnir og tilgangurinn breyst í tímans rás. Bókabúðin varð fyrir löngu góð bókabúð án sérstakrar skírskotunar til þeirrar helstefnu sem margir af stofnendum hennar vildu að hún héldi á lofti.

Lokun bókabúðar Máls og menningar leiðir hugann að tvennu. Í fyrsta lagi að því að á Íslandi ríkir ekki eðlileg samkeppni lengur í verslun, m.a. vegna ríkishafta og afskipta en þó meir vegna stórreksturs banka og  fjármálafyrirtækja. Ójöfn barátta Máls og mennigar gegn ofurvaldi bankarekinna samkeppnisaðila varð bókabúðinni m.a. að falli. Það er enn kaldhæðni örlaganna að fall bókabúðarinnar megi rekja til skorts á samkeppni. Bókabúðin barðist einmitt gegn markaðs- og samkeppnisþjóðfélaginu í árdaga.

Í öðru lagi þá leiðir maður hugann að því hver verður framtíð hefðbundinna bókaverslana. Eins gaman og mér þykir af bókum og bóklestri þá á ég stöðugt minna erindi í bókabúðir vegna þess að nú er einfaldara og ódýrara að kaupa erlendar bækur á netinu. Tölvubókin er síðan enn ein bylting sem hlítur að hafa mikil áhrif. Í dag kaupi ég bók á Amason lestölvuna mína og hún er tilbúin til lestrar innan 5 mínútna frá því að ég ýtti á takkann um að kaupa bókina.

Unnendur bóka og bóklestrar verða að leiða hugann að því hvernig á að bregðast við í breyttum heimi bókarinnar. Ef að líkum lætur  mun frjálsi markaðurinn finna sér eðlilegan farveg í þessu efni ef hann fær þá að vera til í þessu sérkennilega miðstýrða Hörmangaraveldi viðskipta á Íslandi.


Veit Jóhanna af þessu?

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í ræðu sem hún hélt yfir  Samfylkingarmönnum, að ríkisstjórn hennar mundi hvergi hvika í innköllun aflaheimilda samkvæmt stjórnarsáttmálanum.

Daginn eftir tilkynnti sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu að hann væri tilbúinn eða næstum því tilbúinn með lagafrumvarp sem mundi eyða óvissu og sátt gæti náðst um. Það hlýtur þá að vera eitthvað annað en Jóhanna er að tala um.

Þá kom garmurinn hans Steingríms, Björn Valur Gíslason þingmaður Vinstri grænna og sagði að hugmyndir þær sem Jóhanna talaði svo fjálglega um í samfélagi  Samfylkingarmanna væru fráleitar.

Þá er spurningin hver er stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum? Er hún yfir höfuð til.

Skyldi Jóhanna vita hver stefna ríkisstjórnarinnar  raunverulega er eða verður á endanum? 


Mokað í flórinn

Einu sinni var viðmiðun í frjálsum atvinnurekstri að eigendurnir bæru ábyrgð á rekstrinum. Nytu arðsins ef vel gengi, en töpuðu ef illa gengi. Önnur viðmiðun varð upp úr 2002. Þá tóku eigendur margra  fyrirtækja arð út úr þeim jafnvel þó að fyrirtækin væru rekin með tapi. Óábyrg lánastarfsemi banka og vafasamar bókfærslur endurskoðenda urðu til þess að þetta leit vel út.

Nýlega benti Ólafur B. Thors fyrrverandi forstjóri Sjóvá-Almennra trygginga á með hvaða hætti fyrirtækið hefði verið rekið meðan hann hélt um stjórnvölin og lýsti furðu á því að þeir hlutir hefðu gerst sem gerðust í rekstri fyrirtækisins eftir það og hvað bæri að varast.

Ætla hefði mátt að einhver hefði lært eitthvað af öllu þessu en svo er ekki. Bent hefur verið á dæmi þar sem bankarnir fella niður milljarða skuldir en keyra aðra í þrot.  Í samræmi við það fyrirkomulag var eðlilegt að nútíma eigandi fyrirtækis skyldi flytja þessa ræðu (stílfærða) fyrir nokkru.

Það er ómögulegt að standa í einkarekstri meðan bankinn afgreiðir ekki hlutina. Það er gjörsamlega óviðunandi að þurfa að vera í þessari óvissu þegar maður er með yfir hundrað manns í vinnu. Við erum búin að bíða eftir aðgerðum bankans í tæp tvö ár. Þetta er óþolandi fyrir fyrirtæki sem veitir svona mörgum vinnu.

Af umræðum sem fóru fram í kjölfar þessarar orðræðu var ljóst að samúð þeirra sem tjáðu sig um málið var hjá þeim stórhuga athafnamanni sem þarna talaði og viðskiptabankanum var formælt.

Við skoðun á reikningum fyrirtækisins mátti sjá að fyrirtækið var rekið með glórulausu tapi undanfarin ár. Heildarskuldir þess eru  tveir milljarðar og tapið síðustu 3 ár nam rúmum milljarði. Samt höfðu eigendur fyrirtækisins tekið út 200 milljónir í  arð á sama tíma. 

Er það ekki einmitt svona svona fólk sem á að halda áfram að stjórna fyrirtækjum landsins?

Er ekki hin sanna markaðshyggja nútímans fólgin í því að allir beri ábyrgð aðrir en eigandinn og allir leggi fram fé í fyrirtækið nema eigendur? 

Yfirsást einhverjum eitthvað einhversstaðar í þessu þjóðfélagi?  Með því að halda svona starfsemi gangandi út og suður er þá ekki verið að moka í flórinn áfram í stað þess sem átti að gera?


Auðlindir og þjóðaratkvæði

Stuðfólkið Björk og Ómar hefur haldið söngvahátíðir til að vekja athygli á undirskriftarsöfnun. Rúmlega 48 þúsund undirskriftir hafa komið undir áskorun sem er verulegum annmörkum háð. Talsmaður samtakanna telur þetta vera boð um allsherjar þjóðnýtingu orkuauðlinda og er helst á honum að skilja að þar eigi að fara á svig við ákvæði stjórnarskrár um að fullt verð skuli koma fyrir verðmætin sem taka á eignarnámi.

Nú má einu gilda hversu mikið færri undirskriftirnar eru en 48 þúsund en ég sé það á vefnum að inni í talningunni af þeim síðustu 100 sem skrifa undir eru m.a. Kalli kúkur og 7777 ásamt ýmsum öðrum vafasömum aðilum.  Hvað sem því líður þá er ljóst að mikill fjöldi skrifar undir þessa áskorun. Þess vegna er slæmt að hún skuli vera jafn ómarkviss og röng og raun ber vitni.

Áskorunin er svona:

"Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra."

Nú er þess ekki getið af stuðboltunum hvað þá talsmanninum að salan á HS Orku hefur þegar farið fram.  Áskorunin er því marklaus hvað það varðar eins og  talsmaður hópsins viðurkenndi í viðtali við Karl Th. Birgisson í útvarpi fyrir nokkru. Eðlilegra hefði verið að hópurinn hefði orðað fyrri hluta áskorunarinnar þannig:  "Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að eyða 32 milljörðum af almannafé til að þjóðnýta orkuréttindi Magma Energy."   Ætli þúsund manns hefðu verið tilbúnir til að beina þeirri áskorun til stjórnvalda? Þetta er það sem Magma fjárfesti fyrir þegar í maí 2010.

Varðandi síðari hluta áskorunarinnar þá er spurt, gildir það sama um allar orkuauðlindir, nýtingu þeirra og eignarráð? Hvað með bæjarlækinn, vindorkuna og heita vatnið sem búandkarlar nota sumsstaðar til að gera heimarafstöðvar og/eða til upphitunar? Ótal fleiri spurninga mætti spyrja

Vatnsréttindi hvað með þau? Mikil umræða hefur verið um vatnalög og margir komið þar að. Má e.t.v. minna á gott starf Lúðvíks Bergvinssonar fyrrum þingflokksformanns Samfylkingarinnar og nefndar hans um þau atriði, en þar fór fram mikil og flókin sérfræðivinna. Hvað í sambandi við þá löggjöf vill fólk að greitt verði þjóðaratkvæði? Það kemur ekki fram í þessari yfirborðslegu og að hluta til villandi áskorun.

Það hefði verið betra ef áskorunin hefði fjallað um að taka upp svipaða löggfjöf og er í Alaska varðandi eignarráð á þjóðarauðlindum, en þangað tel ég að við Íslendingar eigum að leita fyrirmynda.

Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að setjast niður með þeim Ómari, Björku og Jóni aðstoðarmanni til að ræða málin. Fróðlegt verður að vita hvernig þeim viðræðum verður háttað. Skyldi Jóhanna ætla að ræða það af hverju ríkisstjórn hennar vildi ekki kaupa vatnsréttindin af HS Orku, yfirtaka þau eða semja við Magma um styttingu nýtingartímans. Skyldi hún ætla að ómerkja það mikla starf sem ýmsir sérfræðingar hennar eigin flokks hafa þegar unnið á þessu sviði. Skyldi hún ætla að boða fráhvarf frá reglum  Evrópusambandsins í þessum málaflokki. Eða skyldi hún ætla að segja stuðboltunum og Jóni aðstoðar að þetta sé allt saman tóm vitleysa. Fróðlegt verður að heyra hver niðurstaðan verður af fundinum og hvort forsætisráðherra hefur dug í sér og uppburði til að tala mannamál við mannskapinn  og segja því skoðun sína tæpitungulaust. En ekki síður láta þau vita hvað hún ætlar að gera og hvað ekki.

 


Dýr verður Steingrímur allur

Steingrímur J. Sigfússon ætlar að setja 14 milljarða í að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur. Síðan ætlar hann að setja álíka fjárhæð í að endurreisa Byr og eitthvað lægri fjárhæð í að halda við og endurreisa aðra sparisjóði. Alls má því búast við að Steingrímur og sporgöngumenn hans leggi allt að 30 milljarða af ríkisins fé til Sparisjóðanna.

Engin þörf er á því að leggja  sparisjóðum til allt að 30 milljörðum frá skattgreiðendum. Nú þegar eru fjármálafyrirtæki of mörg. Framlag fjármálaráðherra er dæmi um bruðl, spillingu og misbeiting valds.

Þetta bætist ofan á það sem Steingrímur hefur þegar til saka unnið. Má minna á framlagið til VBS, Saga Capitla og  Sjóvá-Almennar tryggingar. Með öllu nema  þarflausar og að hluta til heimildarlausar greiðslur Steingríms úr ríkissjóði sem hér eru taldar um 80 milljörðum króna.

Á sama tíma fannst Steingrími nauðsynlegt að fella SPRON og Straum fjárfestingabanka, sem mátti auðveldlega bjarga. 

Dettur einhverjum í hug að ekki ráði för hjá fjármálaráðherra pólitísk hentistefna og pólitísk  fyrirgreiðsla.


Verstu viðskipti ársins

Í viðskiptablaði Fréttablaðsins, Markaðnum er gerð  úttekt á verstu viðskiptum ársins. Athyglivert er að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra tengist þeim öllum.

Í fyrsta lagi er nefnt sem dæmi um verstu viðskipti ársins þegar ríkið lagði fram tólf milljarða fyrir atbeina Steingríms J. Sigfússonar til Sjóvá-Almennra trygginga. Síðan er rakið hvernig flokksbróðir Steingríms, seðlabankastjórinn eyðilagði nú fyrir nokkru sölu á fyrirtækinu. Ríkið situr því uppi með þann beiska kaleik að eiga og reka tryggingafélag vegna aðgerða Steingríms og aðgerða og aðgerðarleysis Más Seðlabankastjóra

Í annan stað er nefnt af Markaðnum sem dæmi um slæm viðskipti á árinu eru 26 milljarða framlag Ríkisins fyrir atbeina Steingríms J.Sigfússonar til VBS fjárfestingabanka.

Í þriðja lagi nefnir Markaðurinn sem dæmi um verstu viðskipti ársins, yfirtöku Ríkisins á sparisjóðum landsins. Þar er rakið að Ríkið tók yfir rekstur Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs, en í blaðinu segir að björgunaraðgerðir Ríkisins kunni að kosta á annan tug milljarða. Steingrímur J. Sigfússon ber einnig höfuðábyrgð á því að farið skuli í þessa vegferð.

Markaðurinn hefði í framhaldi af þessu mati sínu átt að velja versta viðskiptamann ársins, en það hefði þá án vafa orðið maðurinn sem stendur fyrir öllum þessum vondu viðskiptum, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður Vinstri Grænna.

Steingrímur J. Sigfússon og gjörvallur þingflokkur hans greiddi atkvæði með því í haust að fjórir fyrirverandi ráðherrar yrðu ákærðir og dregnir fyrir Landsdóm. Er ekki rétt að Steingrímur J. Sigfússon sem ber ábyrgð á verstu viðskiptum ársins svari til saka fyrir Landsdómi fyrir þær raunverulegu sakir sem fyrir liggja hvað hann varðar.  Það væri mannsbragur að því að þingflokkur Vinstri grænna bæri fram tillöguna til að vera sjálfum sér samkvæmur.


Varnarlínan um Steingrím J.

Samningsdrögin í Icesave málinu eru allt að 300 milljörðum hagstæðari  okkur en Icesave samningurinn sem Steingrímur J. og Jóhanna vildu þvinga upp á þjóðina.

Samninganefndin sem Steingrímur J. skipaði undir forustu Svavars Gestssonar var vanhæf. Næsta samninganefnd undir forustu aðstoðarmanns Steingríms var líka vanhæf. Í báðum tilvikum lýsti Steingrímur yfir sérstöku trausti á samningamenn sína. Eftir að alvörusamningamenn voru kallaðir til liggur fyrir að aðgerðir Steingríms í málinu voru í besta falli alvarleg mistök, vanræksla og dómgreindarleysi.

Mistökin,vanræskslan og dómgreindarleysið sem  Steingrímur J. hefur gerst sekur um í Icesave málinu mundu í öðrum lýðræðisríkjum leiða til þess að viðkomandi ráðherra segði af sér. Það ætlar Steingrímur ekki að gera og nú er dregin varnarlína í kring um hann.

Jón Baldvin og aðrir sem verja Steingrím vísa til  kurteisisorða forustumanns samninganefndar Íslands í Icesave málinu. Slík kurteisisorð heiðursmanns sýna innræti hans en afsakar ekki Steingrím J í nokkru. 

Sú síbylja er kyrjuð og markvisst haldið að fólki að þau samningsdrög sem nú liggja fyrir um Icesave séu svona miklu hagstæðari en þau fyrri vegna þess að nú séu aðstæður allt aðrar í heiminum og því hafi í raun ekkert áunnist.

Þegar nær er skoðað sést að þessi varnarlína er þunn og heldur ekki. Kurteisisorð heiðursmanns hafa litla þýðingu við mat á því sem raunverulega gerðist. 

Málefnalegar röksemdir varnarlínunnar um Steingrím halda ekki heldur. Mikill órói er í Evrópu og mun meiri en var þegar samninganefndir Steingríms voru að störfum og luku þeim með  óskapnaði sínum. Efnahagsástandið í Bretlandi hefur versnað til muna og ríkisstjórnin þar verður að grípa til mun harkalegri niðurskurðar í ríkisútgjöldum en Steingrímur J. gerir þó hann þyrfti þess. Það eru því falsrök að halda því fram að aðstæður séu nú allt aðrar og hagstæðari okkur til að ná hagfelldum samningum um Icesave.

Steingrímur á sér enga málsvörn í Icesave klúðri sínu og ber að segja af sér.

Því  má ekki gleyma að Steingrímur J. Sigfússon vildi draga 4 fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm vegna vanrækslu. Nú liggur fyrir að  Steingrímur J. hefur gerst sekur um mun alvarlegri hluti sem hefðu getað bakað þjóðinni mun meira raunverulegt tjón, en það meinta tjón sem þeir fjórir ráðherrar sem Steingrímur ákærði áttu að hafa gerst sekir um.

Steingrímur J. verður að axla ábyrgð á gjörðum sínum og segja af sér?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 631
  • Sl. sólarhring: 650
  • Sl. viku: 3661
  • Frá upphafi: 2606252

Annað

  • Innlit í dag: 603
  • Innlit sl. viku: 3447
  • Gestir í dag: 577
  • IP-tölur í dag: 560

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband