Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Skattahækkanir lengja og dýpka kreppuna. Steingrímur hefur brugðist.

Bretar, Írar og Íslendingar lentu í verulegum erfiðleikum vegna bankahruns síðari hluta árs 2008. Hér völdu menn bestu leiðina með því að fella vonlausa banka í stað þess að pumpa inn í þá peningum sem ekki voru til eins og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vildi gera.

Ljóst var strax haustið 2008 að tekjur ríkissjóðs mundi dragast saman og Írar brugðust við þeim vanda með því að skera verulega niður ríkisútgjöld. Þeir lækkuðu laun opinberra starfsmanna og drógu saman á öllum sviðum þjóðlífsins þó hlutfallslega minnst í velferðarmálum.

Írar voru í erfiðari aðstæðum en við að því leyti að þeir gátu ekki verðfellt alla hluti í þjóðfélaginu af því að þeir eru með Evru. Það hafði hins vegar þá þýðingu að eignir fólksins héldu nánast verðgildi sínu í stað þess að hrapa í verði um 50-65% í Evrum talið eins og hér.

Sú sársaukafulla leið sem Írar völdu að draga saman ríkisútgjöld hefur nú skilað árangri og hagvöxtur eykst á ný þar í landi. Írska ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að auka samkeppni og skapa eðlilegt umhverfi fyrir fjármála- og atvinnulíf. Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Paul Krugmann hefur lofað mjög þessar aðgerðir Íra og gagnrýnt að þeir fái ekki eðlileg verðlaun í samræmi við þann efnahagsbata sem hafi orðið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar þar í landi.

Hér er fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon sem stöðugt ber sér á brjóst og segist hafa gert mjög mikið. Samt sem áður er hann að reka ríkissjóð með bullandi halla og samdráttur í eyðslu hins opinbera er hverfandi lítill þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Steingrímur fór þá leið öfugt við Íra að hækka skatta og draga óverulega úr ríkisútgjöldum. Nú situr skattahækkana nefnd hans að störfum við að leita leiða til að auka enn skattheimtuna.

Aðgerðarleysiskostnaður ríkisstjórnarinnar þá sérstaklega Steingríms J í ríkisfjármálum er orðinn að gríðarlegum vanda og dregur úr hagvexti og framtíðarmöguleikum. Rangar ákvarðanir og heigulsháttur við að taka á opinberum útgjöldum veldur því að kreppan verður hér mun lengri en ella hefði þurft að vera.

Það sem verður að gera nú er að draga verulega úr ríkisútgjöldum í stað þess að hækka skatta. Áframhald skattastefnunnar og óhófseyðslunnar eykur hættu á því að nýtt efnahagshrun verði í stað efnahagsbata sem hefði getað verið kominn fram hefðum við haft alvöru ríkisstjórn sem hefði þorað að gera það sem þarf að gera.


Háskólaspeki hin nýja

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við sama háskóla og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur sett fram nýja kenningu varðandi umgengni ráðherra við sannleikann.

Sjálfsagt vill Gunnar Helgi koma samkennara sínum í Háskóla Íslands til aðstoðar í þeim mikla vanda sem Gylfi er í vegna þess að hann sagði Alþingi ósatt í fyrirspurn um krónulánin sem tengd voru myntkörfu.

Hin nýja háskólaspeki Gunnars Helga stjórnmálafræðiprófessors er sú að Gylfi Magnússon hafi ekki sagt Alþingi ósatt heldur hafi hann afvegaleitt Alþingi með svörum sínum með því að segja þinginu ekki satt. Ef til vill má finna hárfínan fræðilegan mun á þessu, sem getur nýst Gunnari Helga til heilabrota og fræðilegrar framsetningar með einum eða öðrum hætti í nokkur ár. Venjulegt fólk skilur hins vegar þegar verið er að segja því ósatt og vill kalla hlutina réttum nöfnum.

Gunnar Helgi vill nú láta setja lög um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.  Af hverju skyldi stjórnmálafræðiprófessorinn nálgast málið með þessum hætti?

Veit prófessorinn ekki að til eru ákvæði í lögum sem gilda líka fyrir ráðherra og þá sem gegna stjórnmálastarfi og störfum á vegum framkvæmdavaldsins. 

En af hverju segir prófessorinn ekki hvort hann telur framgöngu Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra vera þess eðlis að hann geti setið áfram eða verði að víkja. Hefur hann ekki skoðun á því.

Finnst Gunnari Helga e.t.v. réttlætanlegt út frá heilaleikfimi háskólaspekinnar að það sé afsakanlegt fyrir mann eins og Gylfa að segja Alþingi ósatt. Alla vega fordæmir hann ekki framgöngu ráðherrans út frá fræðunum. 

Gæti einhver sagt öðruvísi mér áður brá?


Skjaldborgin um Gylfa Magnússon ráðherra

Undanfarna daga hefur þjóðin orðið vitni að  alvarlegustu tilraun forustumanna í ríkisstjórn og stjórnsýslu til að leyna hana upplýsingum og afflytja mál í því skyni að slá skjaldborg um viðskiptaráðherra.

Afskipti Jóhönnu Sigurðardóttur og nokkurra hátt settra embættismanna þ.m.t. Seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra af vandamálum viðskiptaráðherra bera ekki vott um opna og heiðarlega stjórnsýslu.  Þrátt fyrir tilraunir forustumanna í stjórnsýslu og ríkisstjórn til að halda upplýsnigum frá þjóðinni þá liggja samt fyrir upplýsingar sem sýna að viðskiptaráðherra getur ekki setið.

Viðskiptaráðherra hefur verið beraður af því að gefa Alþingi rangar upplýsingar um gengisviðmiðuðu lánin. Upplýst hefur verið að upplýsingar um verulegan vafa um gildi lánanna lágu fyrir í ráðuneytinu vorið 2009 og ráðherra hefur viðurkennt að hafa vitað af málinu sama haust. Samt sem áður gerði hann í fyrsta lagi ekkert til að leiðrétta ummæli sín á Alþingi sem svar við fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um málið.

Í öðru lagi þá hafði viðskiptaráðherra engan viðbúnað vegna þess vafa sem óneitanlega var fyrir hendi um gildi lánanna.

Í þriðja lagi þá verður ekki séð að hann hafi gert samráðherrum sínum í ríkisstjórn grein fyrir málinu svo sem honum bar að gera.

Í fjórða lagi leitaði viðskiptaráðherra ekki upplýsinga um málið hjá Neytendastofu eða Fjármálaeftirliti og kannast ekki við aðvaranir Talsmanns neytenda svo merkilegt sem það nú er.

Í fimmta lagi gerði viðskiptaráðherra ekkert með viðvaranir sem honum bárust sannanlega eftir því sem hann sjálfur segir í september 2009. 

Í sjötta lagi þá kann viðskiptaráðherra með vanrækslu sinni að hafa bakað þjóðinni skaðabótaábyrgð svo nemur milljörðum króna, en um það ræðir Árni Tómasson hjá skilanefnd Glitnis í morgun hafi menn vitað meira en þeir gerðu grein fyrir.

Óneitanlega er það furðulegt að skjaldborg skuli nú slegin um viðskiptaráðherrann, Gylfa Magnússon af  ríkisstjórn og forustumönnum Seðlabanka Íslands. Hvar sem væri í nágrannalöndum okkar hefði verið óhjákvæmilegt að Gylfi Magnússon segði af sér að ósk forsætisráðherra ekki síðar en á mánudaginn. Sú staðreynd að hann skuli sitja ennþá sem ráðherra sýnir betur en margt annað hversu spillt og vanhæf ríkisstjórnin er og hvað litla dómgreind og stjórn Jóhanna Sigurðardóttir hefur á málunum.

Óneitanlega velta margir fyrír sér hvernig á því stendur að vaski stjórnsýslufræðingurinn Sigurbjörg kveður sér ekki hljóðs núna um vanhæfa ráðamenn og vonda stjórnsýslu. Hvar er nú Lilja Mósesdóttir sem er formaður viðskiptanefndar?

Þá vekur þögn vinanna og bandamannanna Egils Helgasonar og verðlaunablaðamannsins Jóhanns Haukssonar sérstaka athygli. E.t.v. er vert að minna á að meðan Gylfi Magnússon var formaður Samkeppnisráðs þá sá ráðið ekki ástæðu til annars en fara mildum höndum um Baug og fyrirtæki því tengdu.

Geri forsætisráðherra sér ekki ljóst að Gylfi Magnússon getur ekki setið lengur sem ráðherra og henni ber að víkja honum úr ríkisstjórn sinni þegar í stað,  sýnir hún ótvírætt fram á vanhæfni sína til að leiða ríkisstjórnina.


Og ríkisstjórnin situr um sinn

Ríkisstjórnin notar ítrekað peninga skattborgaranna til að tryggja sér stuðning á Alþingi.  Nokkrir þingmenn Vinstri grænna sögðust ekki styðja stjórnina lengur nema hún eyddi tugum milljarða í að ógilda samninga milli tveggja lögaðila sem koma ríkisstjórninni ekkert við og heyra ekki sérstaklega undir boðvald hennar.  Til að kaupa stuðning þessara þingmanna var ákveðið að skipa nefnd á kostnað skattgreiðenda. 

Friðunarnefndin var skipuð í gær. Kostnaður við nefndarstarfið greiðist úr ríkissjóði. Væntanlega hefur þá allt fallið í ljúfa löð á kærleiksheimili hinnar hreinu Vinstri stjórnar.  Hins vegar liggur ekki fyrir hvað á að gera við nefndarálitið.

Óneitanlega er það áleitin spurning hvað kaup Steingríms og Jóhönnu á fylgi einstakra þingmanna við ríkisstjórnina hafa kostað skattgreiðendur. Þá hljóta að vakna áleitnar spurningar um heimildir ríkisstjórnar til að kaupa sér meirihlutastuðning á Alþingi á kostnað skattgreiðenda. Siðfræði kaupa á sannfæringu þingmanna til stuðnings við ríkisstjórn er síðan mál sem e.t.v. þarf að skipa nefnd til að kryfja.

Hafi ríkisstjórnin talið að vafi léki á lögmæti kaupa Magma á hlutum í HS Orku hefði verið eðlilegt að hún aflaði sér lögfræðilegs álits um það atriði. En það er ekki viðfangsefnið heldur að friða órólegu deildina í Vinstri grænum. Skyldu nefndarmenn í friðunarnefndinni gera sér grein fyrir þessu?

Hvað á svo að gera við nefndarálitið?


Uppreisn Alþingis?

Fréttamaður Bloomberg fréttastofunnar á Íslandi sá ástæðu til þess að birta "ekki frétt" á fréttavefnum í gær sem er til þess fallin að skaða hagsmuni Íslands. Til þess fær hann sérstaka aðstoð Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur þingflokksformanns Vinstri grænna.

Í  fréttinni er sagt að Alþingi geri uppreisn gegn aðstoð við banka og haft er eftir Guðfríði Lilju að allt of miklum peningum hafi verið pumpað inn í fjármálakerfið nú þegar. Þá er sagt að 34 þingmenn muni greiða atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um að bjarga lánastofnunum. Inn í fréttina er síðan sett sú greining Moody´s um að lánshæfi Íslands yrði hugsanlega fært niður í ruslflokk.

Niðurstaða fréttarinnar er síðan sú með tilvísun í ummæli forstjóra FME að Ísland gæti verið á leið inn í aðra fjármálakreppu meðan Alþingi sé í fríi til 1. september. Þá segir að áhættan af öðru bankahruni ógni tilraunum Íslands til að byggja upp á nýjan leik samband við fjárfesta.

Þeir sem trúa þessari frétt geta ekki annað en ályktað sem svo að Ísland sé á leið í enn verri fjármálakreppu en nokkru sinni fyrr en Alþingi taki þessum alvarlegu málum svo létt að þar á bæ séu menn bara í góðu fríi og meiri hluti þingsins sé fyrirfram búinn að taka óábyga fyrirfram afstöðu til tillögu ríkisstjórnarinnar sem þó liggur ekki fyrir.

Því miður sér Guðfríður Lilja ástæðu til að bullukollast við fréttamanninn Ómar Valdimarsson, en sá bullukollugangur gefur rangri frétt ákveðinn trúverðugleika fyrir þá sem ekki þekkja til.

En hvernig á að bregðast við?

Í fyrsta lagi hljóta forsætis-fjármála- og viðskiptaráðherra að gefa út yfirlýsingar um íslenska fjármálamarkaðinn af gefnu tilefni sem og Seðlabankastjóri og forstjóri FME.

Síðan væri það mikill mannsbragur af þeim Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins að gefa út yfirlýsingar vegna fréttarinnar um að gætt verði íslenskra hagsmuna í hvívetna þar með talið hagsmuna íslenska fjármálakerfisins og því fari fjarri að Alþingi Íslands sé í uppreisn gegn ómótuðum hugmyndum ríkisstjórnar um hugsanlega aðstoð við lánastofnanir ef svo færi að ef til vill kæmi til þess að Alþingi þyrfti að fjalla um málið.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að fréttin fjallar um uppreisn Alþingis gegn tillögu sem ekki er til vegna atburða sem ekki hafa orðið.  

Þrátt fyrir það að þessi vonda ekki frétt sé jafn fáránleg og hún er í raunveruleikanum þá verður að bregðast við henni vegna þess vantrausts sem er ríkjandi í þjóðfélaginu á fjármálastofnunum og Alþingi.  


Talsmenn ranglætis

Aðstoðarbankastjóri Seðlabankans og forstjóri Fjármálaeftirlitsins boðuðu til blaðamannafundar í síðustu viku til að birta tilkynningu um það með hvaða löglausa hætti fjármálastofnanir ættu að innheimta ólögmæt gengislán. Úr hugarfylgsnum sínum tíndu þessir boðberar viðskiptaráðherra og ríkisstjórnarinnar hugmyndir um greiðslur neytenda af ólögmætum gengislánum.

Ekki væri gagnrýnisvert ef þessir sendiboðar ríkisstjórnarinnar færu að lögum og reglum í landinu en það gera þeir ekki. Þeir búa til viðmiðanir sem styðjast ekki við neitt annað en þeirra eigin hugarfóstur og fer raunar gegn leikreglum á lánamarkaði eins og sakir standa.

Talsmaður neytenda reynir þá að bæta aðeins úr og tínir annað hugarfóstur upp úr kolli sínum sem að vísu er hagstæðara lántakendum en er sama marki brennd og tilkynning tvíeykisins í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu að hún hefur enga lagalega skírskotun eða viðmiðun.

Staðreynd málsins er einföld. Lán í íslenskum krónum bundin gengisviðmiðun erlendra gjaldmiðla eru óheimil. Höfuðstóll lánanna er krónutalan sem tilgreind er á lánasamningnum að frádregnum innborgunum. Lánasamningurinn stendur að öðru leyti þar á meðal ákvæði um vexti. Þess vegna eiga fjármálastofnanir að gefa út greiðsluseðla í samræmi við dóm Hæstaréttar á grundvelli lánasamningsins þ.e. þeirra vaxta sem þar eru tilgreindir.

Lánasamningum gengisbundinna lána í íslenskum krónum hefur ekki verið vikið til hliðar nema hvað varðar ólögmætar breytingar á höfuðstól. Þess vegna er óskiljanlegt að aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðherra skuli mæla fyrir ólögmætum aðgerðum fjármálastofnana gagnvart skuldurum.

Hvað skyldu talsmenn norrænu velferðarstjórnarinnar þau Steingrímur og Jóhanna segja um þetta?

Stýrir Jóhanna núna velferðarstjórn fjármálafyrirtækjanna og erlendra kröfuhafa á kostnað fólksins í landinu? 

Það er athyglivert að þau Steingrímur og Jóhanna eru horfin úr umræðunni. En þau geta leyft sér það meðan kjölturakkar þeirra undir stjórn Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra boða löglausar aðgerðir fjármálafyrirtækja.


Gylfi Magnússon verður að víkja

Gylfi Magnússon hafði engan viðbúnað vegna gengislánanna þó honum hafi verið gert ljóst fyrir meir en ári síðan að svo gæti farið að samningar fjármálastofnana um gengislán yrðu talin ólögmæt.

Gylfi Magnússon hefur upplýst að hann leitaði ekki sérstaks lögfræðiálits vegna þessa máls

Gylfi Magnússon gerði ekkert með viðvaranir sem beint var til hans vegna málsins.

Gylfi Magnússon gerði ekki fyrirspurn um málið til stofnana sem undir hann heyra t.d. Neytendastofu og Fjármálaeftirlit eða vísaði erindi vegna málsins til þessara stofnana.

Gylfi Magnússon vakti ekki sérstaka athygli á málinu í ríkisstjórninni eða fór fram á aðgerðir ríkisstjórnarinnar meðan málið var til meðferðar hjá dómstólum.

Gylfi Magnússon hefur gerst sekur um alvarlega vanrækslu í starfi og vítaverðan dómgreindarbrest.

Gylfa Magnússyni  ber siðferðileg og pólitísk skylda til að segja af sér sem ráðherra. 

Gylfa Magnússyni  ber nú að dæma sjálfan sig á sömu forsendum og hann hefur áður dæmt aðra sem gegnt hafa svipuðum störfum og hann gegnir nú.

Geri Gylfi Magnússon sér ekki grein fyrir skyldu sinni til að segja af sér ber forsætisráðherra að víkja honum úr starfi þegar í stað.

 


Hvað ef?

Hefði gengi íslensku krónunnar ekkert breyst hefði nokkrum þá dottið í hug að það væru forsendur til að hækka vexti á gengislánum?  Datt einhverjum í hug að lækka vexti á gengislánum eftir að íslenska krónan hrundi?  

Vextir af lánum eru ákveðnir í lánasamningum.  Í lánasamningum um gengislán eru ákvæði um heimild til að endurskoða vexti lánanna samkvæmt ákveðnum reglum. Slík endurskoðun getur þó aldrei tekið til fortíðar heldur einungis framtíðar, en til slíkrar breytingar verða að liggja þau rök og sjónarmið sem kveðið er á um í lánasamningnum.  Þetta eru leikreglur á markaði.

Norræna "velferðarstjórn" Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms hefur uppi ráðagerðir  um að vega að neytendum með ólögmætum aðgerðum varðandi vaxtaákvarðanir af gjaldeyrislánunum. Vextir þeirra hafa ekkert breyst við dóm Hæstaréttar og verður ekki breytt nema til komi heimild í lánasamningi.  Kæmi til þess mundi "velferðarstjórn" bankanna undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur grípa til siðlausra og ólögmætra aðgerða. 

Gamli Marxistinn Már Guðmundsson Seðlabankastjóri telur að sjálfsögðu eðlilegt að valdstjórnin beiti sér með  þeim hætti sem honum þykir eðlilegt án tilltits til ákvæða laga og eðlilegra stjórnunarhátta.


Verðtrygging er verri en gengislán

Hvernig sem það er reiknað þá eru verðtryggð lán til langs tíma verri lán en gengislán þó að gengishrun verði.  Sé miðað við lánstíma til 20 ára eða lengri þá kemur verðtryggða lánið  verst út.

Enginn gjaldmiðill í öllum heiminum stenst sterkasta gjaldmiðli heimsins snúning. Sá gjaldmiðill er verðtryggða íslenska krónan. Þessi gervimynt, útreikningsmynt hagfræðinga sem kyndir undir verðbólgubál og stuðlar að óábyrgri lánastarsemi.

Það er einstakt að fulltrúar verkalýðsins skuli harðast verja verðtrygginguna eins og forseti ASÍ og aðrir lífeyrisfurstar. Þá er það einstök upplifun að sjá gamla komma eins og Mörð Árnason og Kristinn H. Gunnarsson sameinast í kröfunni um, að þeir sem hafa verið skornir niður úr skuldasnörunni með dómi Hæstaréttar verði hengdir upp á aðra verri þ.e. verðtryggingarsnöruna.

Verðtryggingin kann að vera lögleg en hún er algerlega siðlaus. Þegar ég settist á þing lét ég verða eitt mitt fyrsta verk að setja fram kröfu um að fólkið í landinu byggi við sambærileg lánakjör og fólk á hinum Norðurlöndunum. Athyglivert að aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðirnir og bankarnir skyldu vera á móti því.  Af hverju skyldi það vera?

Er hægt að halda uppi þjóðfélagi sem er á algjörum sérleiðum í lánamálum og gjaldmiðilsmálum?

Ég  held ekki.


Gengislán. Vondir fjölmiðlar og lélegir fulltrúar fólksins

Sérkennilegt er að fylgjast með opinberri umræðu um dóma Hæstaréttar í gengistryggingarmálum. Dómarnir segja að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla og slík ákvæði í lánasamningum skuldbindi ekki lántakendur.  Dómarnir kveða hins vegar ekki á um breytingar á öðru í lánasamningum aðila.

Af fjölmiðlaumræðunni og frá sumum þingmönnum hefur heyrst að eitthvað meira felist í dómnum. Þannig hefur verið fjallað með gálausum og iðulega röngum hætti um vexti af þessum lánum eins og fram komi ákvæði í dómunum um breytingar á umsömdum vöxtum. Svo er ekki. 

Fjármálafyrirtækin geta reynt að skýra málið með sínum hætti en þau geta hins vegar ekki farið á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í málinu eða túlkað einhliða breytingar á gengistryggðum lánasamningum hvað varðar vexti eða önnur lánakjör. 

Það er öldungis merkilegt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hinn vaski viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon virðast hafa verið gjörsamlega óviðbúin niðurstöðu Hæstaréttar og ekki haft neinn viðbúnað. Sama gildir um orðfima en starfslitla fjármálaráðherrann.  Mörgum fannst nóg um andvaraleysi ríkisstjórnarinnar þegar bankahrunið varð. Hvað má þá segja um fólkið sem nú stýrir þjóðarskútunni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 211
  • Sl. sólarhring: 471
  • Sl. viku: 3590
  • Frá upphafi: 2606480

Annað

  • Innlit í dag: 201
  • Innlit sl. viku: 3384
  • Gestir í dag: 190
  • IP-tölur í dag: 189

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband