Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Löggæsla

Valdníðsla

Það gerist sem betur fer ekki oft, að ráðherra í ríkisstjórn Íslands gerist sekur um valdníðslu, en í gær féll úrskurður í héraðsdómi Reykjavíkur, sem segir að reglugerð sem heilbrigðisráðherra setti þ.23.mars. s.l. um frelsissviptingu fólks sem kemur til landsins og nauðungarvistun þess væri ólögmæt.

Þetta þýðir að frelsisssvipting fólks við komuna til landsins og nauðungarvistun er ólögmæt, fyrst reglugerðin fer umfram þær heimildir, sem eru í sóttvarnarlögum. Raunar kemur fleira til, em veldur því að um ólögmæta aðgerð og framkvæmd var að ræða frá fyrstu hendi. 

Heilbrigðisráðherra ber alla ábyrgð á þessu klúðri, sem hefur leitt til þess að yfir 200 manns hafa verið frelsisviptir án þess að nokkur heimild sé til þess í lögum. Leiga á gríðarstóru hóteli þjónar engum tilgangi lengur. Þannig hefur milljörðum af peningum skattgreiðenda verið kastað á glæ. Þegar um er að ræða jafn alvarlegt brot í stjórnsýslunni, þá getur ráðherra ekki komið sér undan því að axla ábyrgð.

Framkvæmdin var einnig ámælisverð, þannig var fólki m.a. ekki kynnt réttarstaða sín og sóttvarnarlæknir, hafði ekki þann viðbúnað til að tryggja réttarstöðu fólks og réttláta málsmeðferð,sem og að taka stjórnvaldsákvarðanir um nauðungarvistun svo sem tilskilið er í lögunum. Það getur leitt til þess að fjöldi fólks geti sótt bótamál á hendur ríkinu. 

Óneitanlega var fróðlegt að fylgjast með umræðum í netheimum í aðdraganda þess að úrskurður féll í héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmenn aðila voru ítrekað útmálaðir með þeim hætti, að þeir stjórnuðust af gróðafíkn og verið væri að rífa niður heilbrigðiskerfið og skapa almannahættu með því að fólk leitaði réttar síns. Þá kom ítrekað fram, að allt þetta væri runnið undan rifjum lögmannastóðsins í Sjálfstæðisflokknum.

Af þeim lögmönnum, sem komu að þessum málum, þá er ég sá eini sem er flokksbundinn Sjálfstæðismaður. Þó umfangsmikill sé, þá fullnægi ég samt ekki þeirri skilgreiningu að vera stóð. Öll þessi umræða sýndi fyrst og fremst mikið skilningsleysi á störfum og skyldum lögmanna. Ég sóttist ekki eftir þessu verkefni, en það var leitað til mín af aðila, sem vildi halda sóttkví heima hjá sér og allt sem því fylgir, en undi því ekki að vera nauðungarvistuð á hóteli. Lögmaður sem hefur tök á að sinna slíkri beiðni gerist að mínu viti brotlegur við þær frumskyldur réttarríkisins sem lögmönnum er ætlað að virða í störfum sínum, með því að koma aðilum sem þess óska og eru frelsissviptir til aðstoðar, svo langt sem hæfi þeirra, geta og þekking nær til. 

En svo langt gekk umræðan að m.a. tveir valinkunnir sómamenn orðuðu það með sínum hætti að tjarga og fiðra ætti alla þá sem leyfðu sér að leita réttar síns í þessum málum og lögmenn þeirra ættu að sæta enn verri útreið. Svona umræða dæmir fyrst og fremst þá,sem sækja mál sín með þessum hætti.

Ekki skyldu menn gleyma orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða við kristintöku á Íslandi: "Ef vér slítum í sundur lögin slítum vér í sundur friðinn." En þau orð viðhafði hann þegar hann mælti fyrir mestu og bestu málamiðlun sem nokkru sinni hefur gengið eftir í landi þessu þegar kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000.

Nú er hrópað á nýja lagasetningu, þar sem kostir borgaranna verði takmarkaðir enn meir en nú og stjórnvöldum heimiluð víðtækari frelsissvipting en skv. sóttvarnarlögunum. Það er mikið óráð. Heimildir stjórnvalda eru nú þegar mjög rúmar. Dæmið um valdníðslu heilbrigðisráðherra sýna að það er ekki gott að hrapa að lagasetningu. Víðtækar breytingar voru gerðar á sóttvarnarlögum eftir vandaða meðferð Alþingis, þar sem m.a. voru sett inn ákvæði sem stuðluðu að því að úrskurðurinn féll með þeim hætti sem hann gerði í héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Alþingi hefur mikinn sóma af þeim breytingum, sem urðu á frumvarpinu og setningu laganna í sátt allra þingflokka ef ég man rétt.  

Allir eru sammála um það að gæta sóttvarna gegn Cóvíd og beita eðlilegum aðgerðum hins opinbera til að tryggja að smit verði í lágmarki og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. En það er ekki sama hvernig það er gert og allt þarf að vera í samræmi við lög og reglur. Af hálfu heilbrigðisráðherra var haldið fram að brögð væru að því að fólk væri að brjóta reglur um heimasóttkví. Hvað er þá til ráða í því efni? Er rétt að nauðungarvista alla sem koma til landsins vegna örfárra sem brjóta af sér? Slíkt er varhugavert.

Af hverju ekki að grípa til þess ráðs, sem er einfaldast og sennilega ódýrast? Að efla lögregluna þannig að hún geti sinnt störfum sínum betur Í því sambandi verður að hafa í huga, að lögreglan hefur verið svo fjársvelt um langan tíma að öryggi fólks er hætta búin og erlendir ofstopamenn eru sakaðir um að hafa myrt tvo einstaklinga við heimili sín á Reykjaíkursvæðinu með stuttu millibili.

Er ekki rétt að fólk hugi sérstaklega að þeirri vá, sem er hvað alvarlegust í þjóðfélaginu og bregðist við með eðlilegum hætti og efli lögregluna til a gæta öryggis borgaranna í stað þess að breyta þjóðfélaginu í eitt risastórt fangelsi vegna meintra brota hinna fáu,sem fámennt lögreglulið ræður ekki við að sinna sem skyldi vegna þess, að stjórnmálamenn hafa ekki sinnt þeirri frumskyldu sinni að gæta þess að lögreglan sé jafnan svo búin, að hún geti tryggt öryggi borgaranna og innanlandsfrið á grundvelli laganna. 

 


Tilgangurinn helgar meðalið

Nokkrir leiðtogar stjórnarandstöðunar voru spurðir í gær um lögmæti reglna um frelsissviptingu fólks við komu frá útlöndum og flytja það til nauðungarvistar á hóteli í 5 daga. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Jón Ólafsson frá Pírötum tóku á málinu eins og ábyrgum stjórnmálamönnum ber að gera og lögðu áherslu á mikilvægi þess, að rétt og löglega væri farið að þegar fólk væri svipt þeim mannréttindum að ráða dvalarstað sínum. 

Síðan kom Inga Sæland, sem sagði efnislega, að lög og réttur skipti engu máli þegar svona mál væri um að ræða. Tilgangurinn helgaði meðalið. Að mati frú Sæland má taka mannréttindi úr sambandi og skauta yfir lög og reglur ef svo býður við að horfa. Þetta sögðu líka Hitler, Mússólíni og Stalín á sínum tíma sem og einræðisherrar og harðstjórar á öllum öldum. 

Samt hefur frú Sæland skrifað undir eiðstaf um að virða stjórnarskrá landsis, en það skiptir greinilega engu máli. 

 

 


Er þetta aprílgabb?

Fimmtudaginn 1. apríl 2021 koma Árni Árnason forstjóri og Bjarni Bjarnason tæknimaður heim úr 7 daga vinnuferð til Svíþjóðar. Þeir framvísa báðir neikvæðu PCR prófi, sem sýnir að þeir eru ekki smitaðir af Covid. Í framhaldi af því eru þeir skimaðir við heimkomu og að því loknu handteknir vegna gruns um að þeir séu Covid smitaðir og fluttir nauðugir í sóttvarnarhús skv. valdboði ríkisstjórnarinnar.

Álíka og að framvísa hreinu sakavottorði og vera í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Þeir fá ekki að fara heim til sín í sóttkví heima þó báðir búi vel og rýmilega. Báðir halda þeir, að hér sé um vel útfært aprílgabb að ræða. Hvað annað á vitiborið fólk að halda. En þetta er ekki aprílgabb heldur sóttvarnaryfirvöld komin yfir öll eðlileg mörk skynsamlegrar beitingar sóttvarnarreglna.

Enn er tími fyrir ríkisstjórnina að hverfa frá þessari lögleysu, sem er án nokkurs vafa brot á reglum um meðalhóf, auk þess, sem ákvæði sóttvarnarlaga heimila ekki slíka valdbeitingu miðað við þessar aðstæður.

Er ekki rétt að ríkisstjórnin afstýri þessu aprílgabbi áður en það raungerist?

 


Ef

Ef sóttvarnarlæknir hefði ekki farið á taugum fyrir 5 dögum og krafist harkalegra aðgerða er þá líklegt að hann mundi gera það í dag, þegar fyrir liggur að engin ástæða var til svo hörkulegra aðgerða. Ríkisstjórnin fylgdi eins og vanalega sem hlýðinn kjölturakki. Gerir hún eitthvað til að stytta tímann eða aflétta þessu fári þegar í ljós er komið að ekki var ástæða til þessara aðgerða?

Miðað við tíðni smita utan sóttkvíar frá því að þessi ákvörðun var tekin, þá liggur fyrir að viðbrögðin voru yfirdrifin. Samt sem áður verður frelsisskerðingin ekki afnumin vegna þess að það er auðveldara að svipta fólk frelsi en veita því það á nýjan leik. 

Fyrir um ári var talað um, að við yrðum að læra að lifa með veirunni. Það var þá, en sú afstaða gufaði upp, þrátt fyrir að viðkvæmustu hóparnir hafi að mestu leyti fengið bólusetningu.

Í ráðstjórnarlýðveldum verða hömlurnar sífellt víðtækari. Það þótti vel í lagt þegar fólk var skimað á landamærunum og þurfti síðan í sóttkví í 5 daga og fara síðan aftur í skimun. Nú hefur bæst við að fólk þarf að skila inn PCR prófi sem má ekki vera eldra en 72 stunda frá inngöngu í flugfar og þar við bætist, að innlendir sem erlendir þurfa að sæta því að fara í nauðungarvistun í séstöku sóttvarnarhúsi í viku eftir að viðkomandi kemur frá löndum með töluverða smittíðni.

Sovétið lætur aldrei að sér hæða og það er bara Sigríður Andresen ein stjórnmálafólks, sem þorir að andæfa og enginn annar spyr um lögmæti þessara aðgerða, sem vægast sagt orka mjög tvímælis. 

 


Mitt er þitt

Ríkissjóður er rekinn með meir en milljarðs halla á sólarhring. Þannig gengur það ekki endalaust. Fyrr en síðar lendum við í ógöngum.

Einn af þeim sem skilur ekki samhengi á milli tekna og útgjalda ríkissjóðs er félagsmálaráðherrann Ásmundur Einar Daðason. Nýverið ákvað hann, að erlendir velferðarfarþegar, sem heita á fínu máli umsækjendur um alþjóðlega vernd skyldu fá sömu þjónustu og svonefndir kvótaflóttamenn.

Að sjálfsögðu er reginmunur á kvótaflóttamönnum,sem ríkisstjórn ákveður að taka inn í landið, vegna báginda sinna og hlaupastráka, sem leita uppi hagkvæmasta landið í Evrópu þar sem viðgjörningurinn er bestur og margir hafa þeir farið yfir mörg lönd Evrópu áður en þeir ákveða að reyna að koma sér inn hér á þeim vafasömu forsendum sem þeir jafnan byggja á.

Velferðarfarþegarnir eru venjulegast með nýjustu og dýrusta farsíma, en svo merkilega vill til að þeir hafa týnt öllum sínum persónulegu gögnum þ.á.m. vegabréfi og því upphefst dýr málarekstur á kostnað skattgreiðenda og á þeim tíma hefur félagsmálaráðherra ákveðið að þeir skulu hafa betri kjör en þeir Íslendingar sem lakast eru settir. 

Nú á að verðlauna þessa ólöglegu innflytjendur með því að útvega þeim sama viðgjörning og kvótaflóttamenn sem leiðir til verulegs útgjaldaauka ríkissjóðs. 

Af hverju er félagsmálaráðherra svona heillum horfinn, að hann telji rétt að verðlauna þessa svonefndu hælisleitendur með því að bjóða þeim upp á betri kjör en Íslendingum sem eru í fjárhagsvanda? 

Félagsmálaráðherra þykir greinilega mikilvægt að ólöglegu innflytjendurnir fái hér betri viðgjörning á kostnað skattgreiðenda úr galtómum ríkissjóði, en hann er tilbúinn til að bjóða þeim sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. 

Ásmundur Einar telur þetta greinilega til vinsælda fallið. En er ekki rétt að íslenskir kjósendur sýni honum svörtu á hvítu í næstu kosningum að svona óráðssíufólk eins og hann eiga ekkert erindi í íslenska pólitík lengur. 

 


Mannréttindafrömuðurinn Erdogan Tyrklandsforseti.

Skömmu eftir að Erdogan nánast einræðisherra í Tyrklandi kvaddi Róbert Spanó forseta Mannréttindadómstóls Evrópu með miklum gagnkvæmum kærleika af beggja hálfu, skipaði hann félaga sinn og flokksbróður rektor í helsta háskóla í Tyrklandi BOUN sem stendur fyrir Bosporus University í Konstantínópel nú Istanbul.

Fjölmargir stúdentar við skólann voru ósáttir við að flokkslíkamabarn úr flokki Erdogan yrði rektor við skólann og mótmæltu því kröftuglega, en þó friðsamlega. Erdogan hefur látið handtaka meir en 250 stúdenta vegna þessara mótmæla og ekki nóg með það. Húsleit hefur verið framkvæmd hjá mörgum þeirra og fjölskyldur þeirra teknar til spurninga og yfirheyrslu hjá lögreglu. Þannig er nú farið að í mannréttindaríkinu Tyrklandi.  

En að sjálfsögðu hefur Erdogan vaðið fyrir neðan sig og segir að stúentarnir sem leyfðu sér að mótmæla, séu ekki mótmælendur heldur hryðjuverkamenn. Sé svo, þá eru þetta fyrstu mótmæli hryðjuverkafólks, sem fara friðsamlega fram dögum saman.

En skyld Mannréttindasómstóllin kaupa skýringu Erdogan eða hafa eitthvað um þetta mál að segja yfir höfuð?


Frelsið og manndáðin best.

Í gær var sagt frá því í fréttum, að síðast hefði greinst Covid smit utan sóttkvíar þann 20.janúar s.l.

Eðlilegt er að spurt sé hversvegna þarf að beita sóttvarnaraðgerðum innanlands þegar engin er sóttin? Er afsakanlegt að svipta fólk frelsi vegna sóttar sem geisar ekki í landinu? 

Af hverju þarf að telja inn í verslanir og af hverju er grímuskylda. Já og af hverju er tveggja metra fjarlægðarregla og fólki bannað að horfa á íþróttakappleiki nema í sjónvarpi. Hversvegna er fólki bannað að heimsækja vini og ættingja á elli- og sjúkraheimili og bannað að mæta í jarðafarir án þess að það sé talið inn. 

Íslenska þjóðin hefur tekið ótrúlega vel í þau tilmæli sem til hennar hefur verið beint varðandi sóttvarnir í Covidinu og góðan árangur í baráttunni má fyrst og fremst þakka ábyrgðarkennd alls þorra landsmanna, sem hefur gætt þess í hvívetna að hamla sem mest smitum vegna Covid.

Nú eru liðnir 37 dagar án þess að smit hafi greinst í landinu utan sóttkvíar. Yfirvöld hafa því engan rétt af sóttvarnarástæðum eða öðrum til að takmarka frelsi fólksins til að lifa lífi sínu með venulegum og eðlilegum hætti. 

Við þessar aðstæður er það ekkert annað en ábyrgðarleysi af ríkisstjórninni að létta ekki af hömlum á frelsi fólksins til leika og starfa eins og var fyrir Covid með þeirri undantekningu þó, að gæta verður þess að smit berist ekki inn í landið. 

Það kostar þjóðfélagið mikið að skerða frelsi fólksins og það er atlaga að framtíð og velmegun í landinu beiti ríkisvaldið áfram ónauðsynlegum frelsisskerðingum með þeim afleiðingum, að yfirdráttur ríkisins vegna innistæðulausra útgjalda eykst um eina milljón króna á hverri mínútu líka meðan fjármálaráðherra sefur. 

Það er greinilega auðveldara að svipta fólk frelsi en að koma því á aftur, jafnvel þó að ástæðu frelsissviptingarinnar sé löngu liðin hjá. Hvar skyldi nú vera "frelsið og manndáðin best", sem þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson kvað um?

Ef til vill fallin í gleymsku og dá 

 

 

 


Ofbeldi og ógn má ekki líða

Frá því var skýrt í gær, að skotið hefði verið á mannlausan bíl borgarstjóra við heimili hans. Skotið hefur verið að skrifstofum Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og fleiri stjórnmálaflokka að undanförnu. 

Þessar skotárásir eru óhugnanlegar. Ógnin verður alvarlegust, þegar veist er að heimilum stjórnmálafólks og eigum þeirra. 

Atburðir sem þessir gefa tilefni til að stjórnmálamenn og aðrir talandi og skrifandi einstaklingar gæti að því að vera ekki með hatursáróður í garð annarra og/eða fordæmingar, heitingar og ógnanir sem beint er að öðrum í rituðu eða mæltu máli óháð því hver í hlut á. 

Við búum í þjóðfélagi þar sem við njótum þess frelsis, að geta verið nokkuð örugg á flestum stöðum jafnvel einstaklingar, sem gegna æðstu trúnaðarstöðum í samfélaginu ganga meðal fólks eins og hver annar og/eða stunda útvist án þess að einhver þurfi að fylgjast með öryggi þeirra. 

Mér fannst jafnan gaman að því þegar ég mætti þáverandi forseta Ólafi Ragnari Grímssyni í Esjuhlíðum einsömlum eða með konunni og hundinum og það minnti mig á hvað við eru gæfusöm þjóð, að geta búið við frelsi sem er nánast hvergi til í heiminum nema hér. Við skulum ekki eyðileggja það. Við skulum vanda okkur og vísa öllu ofbeldi og ógn á bug. 

Vöndum okkur því í opinberri framsetningu og fjöllum málefnalega um mál og vísum með þeim hætti að einstaklingum, en gerum ekkert sem gæti orðið til þess að einhver eða einhverjir telji sig eiga skotleyfi í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu á annað fólk. Við höfum öll sama rétt til lífsins og skulum standa öflugan vörð um þann rétt.


Ekki slaka á

Í síðustu sjónvarpsútsendingu sinni sagði sóttvarnarlæknir, að ekki væri ástæða til að slaka á sóttvarnaraðgerðum. Af hverju var þá ekki ástæða til að taka þær upp þegar ástandið var svipað að áliðnu sumri og það er núna?

Smit innanlands eru svo lítil, að það er full ástæða til að slaka á ef meiningin er að fólkið í landinu búi einhverntíma við venjulegt ástand. Miðað við ástandið erlendis er hinsvegar full ástæða til að gæta allrar varúðar í samskiptum við útlönd. 

Athyglisvert er að hlusta á veirutríóið og reiknimeistara þess viðhalda hræðsluáróðri og virðist ætla sér það út í það óendanlega. 

Þegar talað er um ástandið í nágrannalöndum okkar, þá gleymist að næstu nágannalönd eru Færeyja og Grænland. Hvernig gengur baráttan við veiruna þar? Í sjálfbirgingshætti okkar hættir okkur til að tala um að allt sé best og fullkomnast hjá okkur. En hvað þá með árangur Grænlendinga og Færeyinga. Er ekki rétt að skoða hann til viðmiðunar og er hann ekki eðlilegri samanburður en samanburður við milljónaþjóðir í nánu samabýli?

Stjórnmálamenn hafa vanrækt að setja almennar viðmiðanir varðandi sóttvarnir og viðbrögð við Kóvíd fárinu og þessvegna fara allar ákvarðanir eftir kenjum og geðþóttaákvörðunum eins manns og í besta falli tveggja. Stjórnmálamenn eru stikkfrí sem ábyrgðarlausir leikendur þó þeir beri á endanum pólitíska og siðferðilega ábyrgð á þeim ákvörðunum sem eru teknar þó þeir reyni til hins ítrasta að koma sér hjá þeirri ábyrgð. 

 


Átök í Borgarholtsskóla

Fyrir nokkru var sagt frá fólskulegri árás í Borgarholtsskóla. Ungur maður beitti kylfu og hníf. Rætt var um málið í öllum fréttamiðlum landsins sama dag og daginn eftir. Skólastjórinn velti fyrir sér hvort eitthvað væri að breytast í íslensku umhverfi. 

Jafn skyndilega og umræðan byrjaði, dó hún út. Engin fréttamiðill minnist lengur á þessa illvígu innrás og árás.

Þegar skyndilegur þagnarmúr er settur um ákveðið mál, þá er venjulega eitthvað skrýtið á ferðinni. Eitthvað sem fjölmiðlamenn og í þessu tilviki lögregluyfirvöld líka telja æskilegt, að almenningur verði ekki upplýstur um.

Hvað skyldi það nú annars vera?

Gæti verið að skólastjórinn hafi átt kollgátuna, að eitthvað væri að breytast í íslensku umhverfi, en stjórnmálaelítan, fréttaelítan og lögreglan telji heppilegt, að upplýsa ekki um það hvað það er? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 853
  • Sl. viku: 3045
  • Frá upphafi: 2511788

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2837
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband