Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Innrásin

Í gær var því haldið fram í fréttatíma RÚV sjónvarpsins af afganskri konu sem hér býr, að Ísland hefði ráðist inn í Afganistan. Þessi ummæli voru ekki leiðrétt í fréttatímanum, en konan ásamt stallsystur sinni var síðan gestur Kastljóss.

Íslendingar réðust aldrei inn í Afganistan, það gerðu Bandaríkin árið 2001. Íslendingar studdu ekki þá innrás þeir voru ekki um hana spurðir. NATO ríkin studdu við uppbyggingar og hjálparstarf í Afagnistan og sum sendu herlið til aðstoðar við að tryggja frið í landinu og stuðla að virkri uppbyggingu og lýðréttindum ekki síst lýðréttindum kvenna. 

Einn róttækasti þingmaður þjóðárinnar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir segir að þáttaka Íslands hafi verið á sviði öryggismála,endurreisnar og eflingar stjórnarfarsins og landið sé eitt af áhersluríkjum okkar í þróunarsamvinnu og áherslan sé á stuðning við afganskar konur og janfréttismál. Þetta er raunar sannleikurinn í málinu, jafnvel þó að Rósa Björk segi hann. 

Við sendum lögreglumenn til að stuðla að öryggi borgara í landinu. Við sendum hjúkrunarfólk, kennara og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að freista þess að tryggja mannréttindi og öryggi borgara Afganistan fyrir öfgafullum múslimskum miðaldahyggjumönnum.

Þær stöllur sem töluðu í Kastljósi í gær lýstu því raunar hvað þær hefðu getað notið mun meira frelsis, öryggis og lýðréttinda síðustu 20 ár meðan vestræn ríki reyndu að tryggja mannréttindi og kynjajafnrétti í landinu. 

Hver er þá sú ábyrgð sem við þurfum að axla eftir að hafa stundað hjálparstarf í landinu á annan áratug. Berum við ábyrgð á því að ekki var hægt að uppræta víðtæka spillingu í landinu. Berum við ábyrgð á því að her landsins eða yfirstjórn var reiðubúin til að verja frelsi sitt. Staðreyndin er sú, að við berum enga ábyrgð á því að herir miðaldahyggjunnar skuli hafa tekið yfir í landinu þrátt fyrir víðtæka aðstoð Vesturlanda.

Við getum verið stolt af því framlagi sem við lögðum fram í Afganistan. Það er fráleitt að reyna að koma því inn  hjá fólki, að Vesturlönd beri ábyrgð á því að afganska þjóðin skuli ekki bera gæfu til að vernda eigið frelsi. Vonandi verður það sáðkorn sem var sáð varðandi lýðréttindi á síðustu 20 árum í landinu til að eitthvað vitrænt gerist þar í mannréttindamálum og stjórnarfari á næstu árum. En sú staðreynd að þessi tilraun til að koma á vitrænu stjórnarfari í landi múslima leiðir ekki til ábyrgðar þeirra sem það reyna.

Allt tal um að axla ábyrgð leiðir í raun að því, að þeir sem það segja eru að réttlæta það að við eigum að taka við miklum fjölda fólks, sem var ekki tilbúið að berjast sjálft fyrir frelsi sínu og mannréttindum. 

Við þurfum ekki að axla neina ábyrgð. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir eitt eða neitt varðandi Afganistan og við þurfum ekki að leggja neitt sérstakt fram vegna aðgerða okkar þar í landi.

Það tal sem stjórnmálamenn í landinu hafa nú uppi hver um annan og éta upp eftir forsætisráðhera, að við þurfum að axla ábyrgð á Afganistan er ekkert annað en bull. Er það einhver erfðasynd sem er þess valdandi eða hvað. Megum við ekki reyna að hjálpa fólki án þess að bera ábyrgð ef það er ekki fólk til að taka við hjálpinni. Berum við t.d. ábyrgð á því að skip sekkur þar sem við höfum kennt fólki fiskveiðar?  


Að axla ábyrgð

Katrín Jakobsdóttir segir að Íslendingar sem NATO þjóð þurfi að axla ábyrgð á málum í Afganistan. Það þýðir,að við eigum að taka við fjölda flóttamanna þaðan. En berum við einhverja ábyrgð? Nei enga. Við höfum hvorki verið gerendur né tekið ákvarðanir að einu eða neinu leyti varðandi Afganistan. 

Svo allri sanngirni sé fullnægt og komið til móts við Katrínu, sem ætlar skattgreiðendum að greiða fyrir góðmennsku sína í þessum efnum sem öðrum, þá legg ég til, að við bjóðum alþjóðasamfélaginu og Katrínu, að við tökum hlutfallslega við jafn mörgum afgönskum flóttamönnum og Saudi Arabía að frádregnum þeim fjölda sýrlenskra flóttamanna sem við höfum þegar tekið við umfram Saudi Arabíu ,en þeir hafa ekki tekið við einum einasta flóttamanni þaðan. 

Það ætti að standa Saudi Aröbum nær að taka við sínum múslimsku bræðrum og systrum, heldur en okkur og þar fyrir utan hafa þeir blandað sér bæði í sýrlensku borgarastyrjöldina og stríðið í Afganistan með gríðarlegum fjárframlögum til uppreisnarmanna í Sýrlandi og Talibana í Afganistan. Það ætti því að standa þeim mun nær en okkur að axla ábyrgð á því sem nú er að gerast í Afganistan. Því þeir bera óneitanlega ábyrgð.


Stórslys bandarískrar utanríkisstefnu

Nú þegar soldátar Talibana marséra syngjandi inn í Kabúl 10 dögum eftir að sókn þeirra hófst, þá er um leið staðfest mesta stórslys bandarískrar utanríkisstefnu síðan Víetnam.

Innrás Bandaríkjanna í Afganistan fyrir 20 árum, til að steypa þáverandi stjórn Talibana var í sjálfu sér rökrétt, eftir árás Al Kaída á tvíburaturnana o.fl. en þeir störfuðu í skjóli Talibananna. En það sem eftir hefur fylgt er það ekki. 

Það er ekki hlutverk Bandaríkjanna eða NATO að berjast gegn spillingu í Afganistan eða reyna að koma á lýðræði að vestrænni fyrirmynd. Þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna Donald Rumsfeld sagði  "They are not our broken societies to fix." og það átti að gefa auga leið. 

Á þeim 20 árum sem liðin eru síðan er áætlað að Vesturlönd aðallega Bandaríkin hafi eytt 2 trilljónum Bandaríkjadala í að byggja upp Afganistan þ.á.m. 300 þúsund manna herlið sem er hvergi sýnilegt, þegar 80 þúsund manna herlið Talibana lætur til sín taka og leggur undir sig landið á 10 dögum. 

Niðurlæging utanríkisstefnu Bandaríkjanna er því algjör og nokkuð ljóst að Talibanar sem og margir aðrir eru sannfærðir um að þeir geti farið sínu fram, þar sem núverandi Bandaríkjaforseti Joe Biden, sé hvorki til stórræðana né annarra ræðanna.

 

 


Við ráðum og við ein vitum.

Evrópusambandið tekur að sér yfirstjórn aðildarríkja sinna og sækist stöðugt eftir að ráða meiru og meiru um ákvarðanir ríkisstjórna einstakra aðildarríkja. Ítrekað er einstökum ríkjum send tilmæli eða hótanir m.a. vegna efnahagsstjórnunar, innflytjendastefnu, landamæra o.fl. 

Nú hamast yfirstjórn Evrópusambandsins gegn Pólverjum og Ungverjum, en þó sérstaklega Ungverjum fyrir að banna hinsegin fólki ávirkan áróður fyrir unglinga og börn undir 18 ára. Evrópusambandið og RÚV kalla það að virða ekki mannréttindi.

Athyglisvert að skoða grein sem Douglas Murray, skrifaði fyrir nokkru undir heitinu. "Menningarleg styrjöld milli Austur og Vestur (Evrópu),gæti skipt EU í tvennt." Tekið skal fram að Douglas Murray er samkynhneigður.

Í greininni víkur hann að því hvernig barátta fyrir jafnrétti samkynhneigðra hafi að óþörfu farið út af sporinu á síðustu árum, þegar sú barátta hefði sigrað í Vestur Evrópu hefði umræðan umhverfst um baráttu fyrir að afneita kynferðislegum mismun og ýta áfram "trans" hugmyndafræði. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt að Ungverjaland hafni því að taka upp kynfræðslu fyrir ungt fólk byggt á slíkri hugmyndafræði. 

Evrópusambandið hefði ekki þurft að gera neitt, en hefur kosið að gera það og enn og aftur segir Murray að þessi afskipti ýti undir þá skoðun Austur Evrópu ríkjanna (Visegard), að EU sé að reyna að þvinga sínum lífsháttum upp á þau. 

Ursula von der Leyen heldur því fram, að þessi Ungversku lög sem banna kynfræðslu hinsegins fólks til unglinga undir 18 ára aldri "stríði gegn öllum gildum--- Evrópusambandsins."

Sérkennilegt ef það eru helstu gildi Evrópusambandsins, að skylda einstök aðildarríki til að taka upp kynfræðslu sem er þóknanleg kommissörunum í Brussel. En í framhaldi af því hefur yfirstjórn EU ákveðið að bregðast við með lögsókn á hendur ríkisstjórn Ungverjalands. 

Ríkisstjórn Ungverjalands hefur ákveðið að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta umdeilda frumvarp, en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar mun ekki hafa nein áhrif á yfirstjórnina í Brussel, sem hefur nú tekið að sér yfirstjórn á kynfræðilegum og siðferðilegum ákvörðunum einstakra aðildarríkja á hvaða lagagrundvelli sem það er nú byggt. 

Sérkennilegt að enn skuli vera fólk á Íslandi sem mælir með því og telur horfa til framþróunar, að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og það hefur þróast á undanförnum árum. 


Hrikaleg gráglettni örlaganna.

Þ.30.september 2005 birtist grein í danska blaðinu Jyllands Posten, sem hét Sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi(selvcensur og ytringsfrihed)Með myndinni fylgdu teikningar af Múhameð spámanni eftir danska skopmyndateiknarann Kurt Vestergård, sem lést fyrir nokkrum dögum.

Skopmyndirnar af Múhameð leiddu til fjöldauppþota múslima um allan heim og ríkisstjórnir flestra Íslamskra landa kröfðust þess að bannað yrði að birta þær og teiknaranum og útgefendum Jyllands Posten yrði refsað. 

Þáv. forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rassmussen, stóð sig vel og sagði Danmörku lýðræðisland, sem virti tjáningarfrelsi. 

Fjöldamótmæli urðu í Íslömskum ríkjum, danski fáninn var brendur,kveikt var í sendiráðum Dana í Damascus og Beirut, danskar vörur eyðilagðar í verslunum og bannað að kaupa þær. Fornaldarveldið Saudi Arabía birti lista yfir danskar vörur og fyrirtæki sem á bannlista m.a. Radisson SAS hótelin, 7 up, Halls hálsbrjóstykur, Carlsberg o.fl. o.fl.

Það voru örfáir, sem þorðu að birta Múhameðs teikningarnar. Eitt blað í Noregi, gerði það og þáv.forsætisráðherra Noregs og núverandi framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg,Kallaði Vebjörn ritstjóra blaðsins á teppið skammaði hann og sagði hann hafa leitt skömm yfir Noreg. Mikil virðing fyrir lýðfrelsi þar.

Danska lögreglan gætti Kurt Vestergård teiknara eftir þetta allan sólarhringinn og útbúið var sérstakt neyðarherbergi í íbúð hans ef svo illa tækist til að íslamistar kæmust inn. 

12.febrúar 2008 handtók danska lögreglan marga Íslamista vegna fyrirhugaðs morðs á Vestergård. Daginn eftir birtu 17 fjölmiðlar Múhameðs teikningar Vestergård. Síðan hafa þær ekki birst í fjölmiðlum. Endurbirting myndanna leiddi til óeirða í Pakistan og Gaza svæðinu, hvatt var til sniðgöngu á dönskum vörum og kveikt í dönsku sendiráði.

Síðar voru fleiri morðtilræði gegn Vestergård.

Við andlát Vestergård hefði mátt búast við því að einhverjir fjölmiðlar birtu myndir hans af Múhammeð spámanni. Svo varð ekki. Sjálfritskoðun fjölmiðla á Vesturlöndum er svo mikil. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt þegar litið er til þess hve marga Íslamistarnir hafa drepið í hinum kristnu löndum Evrópu fyrir að þeirra mati að hafa móðgað þá eða þennan spámann þeirra. Svo ekki sé minnst á þegar þeir drápu alla ritstjórn og stóran hóp blaðamanna franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. 

Það sýnir sig vel hvað sjálfsritskoðunin í Vestrænum löndum er mikil, að nú við andlát Vestergård þorir ekki einn einasti fjölmiðill að birta skopmyndir hans. 

Ég sótti ráðstefnu á vegum félagsins "Tjáningarfrelsið" í Danmörku á 10 ára afmæli birtingar Múhammeðsteikninganna í september 2015 við það tækifæri var vakin athygli á því að þó að ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um þetta afmæli, þá birti engin myndirnar. Einnig að vegna ráðstefnunnar þá þurfti sérstaka öryggisgæslu og fundarstaðurinn var vaktaður og nákvæm leit var gerð á öllum sem sóttu ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni var m.a. sagt frá því, að í dönskum skólum væri fjallað um Múhammeðsteikningarnar og viðbrögð Íslamska heimsins við þeim, en myndirnar væru hvergi sjáanlegar og þegar dönsk skólayfirvöld hafa verið innt eftir af hverju, þá hefur verið svarað, að þær skiptu ekki máli í þessu samhengi. 

Hvað skyldi þá skipta máli í samhenginu?

Hinn hrikalega gráglettni örlaganna er sú, að myndirnar, sem prýddu grein um sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi fæst hvergi birt vegna sjálfsritsskoðunar og hræðslu við að nýta tjáningarfrelsið. 

 

 

 


Styðjum við hryðjuverkamenn?

Tyrkir undir stjórn Erdogan stuðluðu að borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og hafa stutt mismunandi uppreisnarhópa í áranna rás m.a. Ísis þegar það hentaði. Þeir hafa vopnaðar sveitir sem eru á þeirra vegum í Sýrlandi og fá laun sín greidd af Tyrkjum.

Hugmyndafræði Erdogan er augljós. Breyta landamærunum og innlima hluta af Sýrlandi í Tyrkland.

Eftir því sem stjórnarher Sýrlands og bandamanna þeirra óx ásmeginn flúðu vígamenn Al Kaída, Ísis og fleiri samtaka Íslamskra hryðjuverkasveita til héraðsins Ídlip í Sýrlandi, sem Tyrkir hafa í raun yfirtekið komið í veg fyrir að Sýrlandsher kláraði borgarastyrjöldina. Tyrkir halda þar verndarhendi yfir meir en milljón vígamanna Íslamskra öfgamanna. Nú eins og í svo mörgu öðru sýna Tyrkir þá kænsku að láta aðra borga. 

Talið er að um 4 milljónir búi í Ídlib og um 3.5 milljónir lifa á matargjöfum frá Sameinuðu þjóðunum. Þær matargjafir fara í gegnum Tyrkland. Sameinuðu þjóðirnar með velþóknun Bandaríkjamanna og NATO ríkja styðja Tyrki til að viðhalda yfirráðum yfir héraði í Sýrlandi og styðja um leið fjölda hermanna vígasveita hryðjuverkahópa sem þar dveljast. 

Þegar hryðjuverkamenn Al Kaída flugu á tvíburaturnana í Bandaríkjunum þann 11. september fyrir 20 árum skar Bush jr. þáverandi Bandaríkjaforseti upp herör gegn Íslömskum öfgasveitum, en sló um leið á útrétta hönd Rússa, sem buðu fram alla aðstoð í þeirr baráttu. Nú 20 árum síðar senda Bandaríkjamenn hryðjuverkamönnunum í Ísis og Al Kaída matargjafir í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og styðja Tyrki til að viðhalda ófriði í þessum heimshluta og vernda vígamennina. 

Það er með ólíkindum að engin stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur í Evrópu skuli hafa gert athugasemd við þetta og krafit þess, að hætt verði að styðja vígamennina og Tyrkir dregnir til ábyrgðar vegna stríðsglæpa í Sýrlandi. 


Hver má koma út að leika?

Lítið er til sparað, til að knýja fólk úr öllum aldurshópum til að láta sprauta sig gegn Covíd. Einkum beinist áróðurinn nú að ungu fólki og börnum jafnvel þó spurning sé, hvort þeir aldurshópar séu jafnvel í minni hættu af því að fá Cóvíd heldur en að fá sprautuna.

Í síðustu viku birti bjórfyrirtækið Heineken mynd af fólki á bar. Allt var það í eldra lagi miðað við hefðbundnar Barflugur og auglýsingin var á þessa leið: "Þau eru bólusett. Er ekki kominn tími til fyrir þig, að geta hagað sér eins og þau."

Um svipað leiti birtist auglýsing þar sem barnastjörnurnar, teiknimyndafígúrurnar "Stubbarnir" voru í aðalhluthverkig og þar sagði: "Hver getur komið út að leika." vísað til að það væru bara bólusettir.

Þessar auglýsingar og fleiri dynja á ungu fólki og fólk undir tvítugu allt niður í börn og það hvatt til að láta bólusetja sig og reynt að koma því inn hjá þeim, að það jafnbrýni svikum við samfélagið að gera það ekki auk þess sem slíkir "Þjóðníðingar" verði utangátta í samfélaginu innilokaðir í leiðindum og megi hvorki koma út að leika né fara á barinn.

Á sama tíma tilkynna stjórnvöld í Ísrael að þau hafi hafið 3 bólusetningu með Pfizer bóluefninu á hópum, sem þeir telja viðkvæma. Tveir skammtar duga greinilega ekki að mati þessara stjórnvalda - en dugar þá þriðji skammturinn? 

Vonandi eignast heimurinn fljótlega leiðtoga, sem eru tilbúnir til að vega og meta málin heilstætt og bregðast við af skynsemi í stað þess að dansa eftir flautleik lyfjafyrirtækjanna, eins og börnin gerðu í bænum Hamelin í Þýskalandi eftir flautuleik rottufangarans með hörmulegum afleiðingum. 

 


Für das Volk /Fyrir þjóðina

Í fána kommúnistaríkisins Austur Þýskalands var aðalatriðið vígorðið "fyriþjóðina" (Für das Volk).

Nú hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti gert þessa stefnu að sinni og segir þá sem hafa ekki látið bólusetja sig gegn Cóvíd séu óvinir þjóðarinnar og stefni samfélaginu í hættu. Í frétt rétthugsunar fréttastofu ríkisins (FÚV)var því bætt við að vondir Repúblikanar og Trumpistar væru óvinir þjóðarinnar og væru á móti bólusetningum. Hvoru tveggja alrangt en skiptir í sjálfu sér ekki máli.

Fréttafólk leitar ekki skýringa á því af hverju stór hópur fólks vill ekki láta bólusetja sig. Helstu fréttamiðlar og talsmenn heilbrigðisstofnana gera sitt til að kæfa alla umræðu um alvarlegar afleiðingar Cóvíd bólusetninga og málið er drifið áfram hér á landi sem einskonar Guðdómlegur gleðileikur með undirspili hljómsveita og aðkomu vinsælla plötusnúða og listamanna. 

Til að kóróna rétthugsunina eru síðan myndatökur af helstu hetjum Cóvíd baráttunnar eins og Kára, land- og sóttvarnarlækni. Svona á þetta að vera og vei ykkur fáráðar sem hlýðið ekki kallinu. 

En er það ekki skiljanleg afstaða og langt frá því að vera fordæmanleg, að einstaklingar vilji bíða og sjá til meðan bóluefnin eru þannig, að jafnvel framleiðendur þeirra þora ekki að taka ábyrgð á þeim. Er það einhver goðgá að hafa aðrar skoðanir en þær viðteknu? 

Eftir fjöldabólusetningar undanfarna mánuði þá verður ekkert sagt með vissu um afleiðingar bólusetninganna til langs tíma. Ekkert verður fullyrt um þýðingu þeirra gagnvart mismunandi afbrigðum Cóvíd og aðalatriðið er að framleiðendurnir þora ekki að taka ábyrgð á þeirra eigin framleiðslu. Vitað er um fjölda dauðsfalla í kjölfar bólusetninga og alvarlegar aukaverkanir.

Við þær aðstæður er þá ekki fordæmanlegt að forustufólk í stjórnmálum og heilsugæslu skuli gera þá kröfu að fólk fórni sér fyrir þjóðina, þó ekki liggi ljóst fyrir hvort sú fórn þjóni tilgangi. Væri ekki eðlilegra að hafa opna og öfgalausa umræðu um málið og krefjast þess að öll gögn og staðreyndir varðandi bólusetningarnar verði lögð á borðið. 

 

 

 


"America is back"

Slagorð Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir NATO ráðstefnuna í síðustu viku var "America is back" Þetta slagorð, sem ráðgjafar hans bjuggu til áður en haldið var á leiðtogafund G7 ríkjanna og NATO átti að sýna a.m.k. vestrænum bandalagsþjóðum Bandaríkjanna, að nú væri annað uppi á teningnum en á tímum Trump.

Að loknum fundunum,liggur því miður fyrir, að Bandaríkjaforseti sýndi af sér afgerandi veikleika, sem fréttamiðlar heimsins gæta vel að greina sem minnst og helst ekkert frá. Öðru vísi fólki áður brá, þá er Trump reið um þessi héruð.

Það var aldrei hægt að saka Trump um að sýna af sér veikleika. Hann herti refsiaðgerðir gegn hryðjuverkastjórninni í Íran og var óragur við að beita hervaldi til að rústa ríki Ísis í Sýrlandi og Írak svo dæmi séu nefnd. 

Óneitanlega var dapurlegt að sjá Bandaríkjaforseta ítrekað rugla saman Sýrlandi og Líbanon og hafa engan boðskap að flytja á leiðtogafundi G-7 ríkjanna t.d. varðandi stefnu uppbyggingar og framsækni eftir Covid hörmungarnar. Ekkert hafði hann heldur fram að færa varðandi ögranir og áskoranir Kínverja og sýndi með því afgerandi skort á forustuhæfileikum auk þess, sem það liggur fyrir að utanríkismálastefna Bandaríkjanna er í besta falli óljós en í versta falli afturhvarf til Obama-Hillary Clinton undanlátsstefnunnar.

Kína og Rússland geta verið öruggari með sjálf sig og Kínverjar sér í lagi með útþennslustefnu sína þegar nú því miður liggur fyrir öryggisleysi og vanhæfni Bandaríkjaforseta á vettvangi alþjóðastjórnmála.

En það er slæmt fyrir hinn lýðfrjálsa heim. Hinn svokallaði lýðfrjálsi heimur ætti líka að huga að því með hvaða hætti helstu fréttamiðlar heims eru reknir þ.e. hvernig fréttamiðlar brugðust við hverju ónytjuorði Donald Trump og með hvaða hætti þessir sömu fjölmiðlar skauta nú algerlega framhjá því að tala um veikleika og vanhæfni Joe Biden. 


Ráðgjafinn snjalli

Formaður Samfylkingarinnar Logi Einarsson er maður mikilla sanda og mikilla sæva eins og alþjóð veit. Nýlega samþykkti danska þingið með miklum atkvæðamun frumvarp Mette Fredriksen forsætisráðherra Dana um breytingar á útlendingalöggjöfinni, sem er ætlað að koma í veg fyrir að hælisleitendur og annar sambærilegur mannsöfnuður leiti eftir vist í Danmörku. 

Formanninum hugumstóra Loga Einarssyni hugnast ekki þessi stefna sagði henni, að með þessu færu Danir villur vegar í útlendingamálum. Mette svaraði og sagðist mega heyra formannsins orð, en ráðin væri hún í að hafa þau að engu, þar sem þau væru glórulaus vitleysa. Logi mun ekki hafa gefist upp við svo búið heldur bent á að með þessu væru danskir kratar búnir að taka upp stefnu Piu Kærsgaard og Framfaraflokksins í útlendingamálum. Mette sem er skynsemishyggjustjórnmálamaður telur að það sé sama hvaðan gott kemur.

Hinn hugumstóri formaður Samfylkingarinnar mun síðan hafa farið hnugginn og sneyptur af samskiptamiðli þeirra Mette  sér í lagi eftir að Mette benti hinum íslenska sósíalistaforingja á, að hann og flokkur hans væri orðinn eins og nátttröll í útlendingamálunum í samfélagi norrænna krata, sem allir væru horfnir sem lengst frá "open border" leið Samfylkingarinnar.

Nú er stóra spurningin hvort Helga Vala Helgadóttir og Logi Einarsson og e.t.v. allur þingflokkur Samfylkingarinnar, muni sýna Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana á sér skutstykkið þegar þau eiga þess kost að hlusta á hana tala, með svipuðum hætti og Helga Vala Helgadóttir gerði á Þingvöllum forðum þegar Pia Kærsgaard skoðanasystir Mette Frederiksen í þessu máli ávarpaði á hátíðarsamkomu á Alþingis fyrir nokkrum árum. Allavega ætti Helga Vala að gera það ef hún vill vera samkvæm sjálfri sér.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 361
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 3862
  • Frá upphafi: 2513666

Annað

  • Innlit í dag: 336
  • Innlit sl. viku: 3613
  • Gestir í dag: 314
  • IP-tölur í dag: 310

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband