Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Svörtu herdeildirnar

Í víðlesnasta blaði Þýskalands "Bild" var forsíðufrétt í gær um fjöldagöngu svartklæddra Íslamista í Hamburg (Islamisten Afmarch mitten in Hamburg). Sagt er frá því að borg og ríki hafi ekkert gert þrátt fyrir að gangan og kröfur göngumanna hafi verið svipaðar og fyrir rúmri öld síðan í Hamburg og öðrum borgum Þýskalands.

Þá voru það brúnu herdeildirnar, sem Horst Wessel orti um í flokkssöng stjórnmálaflokksins, að rýma ætti göturnar fyrri brúnu herdeildunum. Nú eru það Íslamistarnir sem krefjast þess að göturnar verði rýmdar fyrir svörtu herdeildunum og Gyðingum útrýmt.

Svörtu herdeildirnar hafa sitt merki á einkennisbúningunum sínum. Hjá þeim er það blóðdropi en hakakrossinn hjá samtökunum sem marséruðu fyrir öld síðan. Enn beinist hatrið að Gyðingum, lýðræði, vestrænni menningu og trúleysingjum, þeim sem ekki játa viðunandi útgáfu af Íslam. 

Þetta er að gerast í miðri Evrópu. Miðað við þann fjölda ungs Múhameðstrúarfólks, sem fór til að berjast og fremja hryðjuverk fyrir Íslam undir gunnfána ÍSIL, þá eiga þessar ótrúlegu öfgar og mannvonska víðtækan stuðning meðal þessa trúarhóps í Evrópu.

Helsta ógnin sem steðjar að Evrópu í dag er innan þjóðfélaganna sjálfra hið pólitíska Íslam. Það er fólk sem hafnar vestrænum gildum. Hafnar hugmyndafræði lýðræðis og mannréttinda og telur afsakanlegt að refsa hverjum þeim og jafnvel taka af lífi, sem tala niðrandi um Íslam eða standa í vegi fyrir liðsmönnum svörtu herdeildanna. Gyðingar eru í sérflokki, eins og kemur fram í stefnu Hamas í Gyðingalandi, en stefna Hamas er að útrýma öllum Gyðingum hvar svo sem þeir finnast. Múslimska bræðralagið er ekki langt undan í þessari hugmyndabaráttu. 

Það er til marks um andvaraleysi og vilja til að loka augunum fyrir staðreyndum, að dómsmálaráðherra skuli hafa hlutast til um að félagi í hryðjuverkasamtökunum Múslimska bræðralagsins var ekki vísað úr landi á síðasta ári, sem og ýmsum öðrum, sem hafa ekki rétt til þess að koma hingað eða dvelja hér svo fremi að kæmu fram mótmæli gegn ákvörðunum löglegra stjórnvalda um að vísa viðkomandi aðilum á brott. 

Þrátt fyrir vitlausustu útlendingalög Evrópu, sem opna landið upp á gátt,þá dugar það ekki til. Öfgaliðið, sem vill koma Evrópu frá því að vera frjálslynd álfa lýðræðis og mannréttinda og lúta einmenningu íslamistanna, sækir stöðugt á.  Það verður aldrei hægt að gera því liði til hæfis nema fórna eigin gildum og þjóðmenningu. Það hefðu íslenskir stjórnmálamenn átt að sjá fyrir löngu. En sumum þeirra er í mun að tryggja það, að við lendum í því sama og Þjóðverjar að allt í einu verði göturnar ekki lengur okkar heldur svörtu herdeildanna.

Franskir hershöfðingjar ályktuðu fyrir nokkru um ástandið í Frakklandi og ljóst að þeir eru ekki í vafa um að helsta ógnin sem stafar að öryggi Frakklands er innan Frakklands sjálfs hin nýja heredeild pólitísks Íslam.

Þrátt fyrir þetta hamast íslensk stjórnvöld og sérstaklega ákveðnir stjórnmálamenn við að hlaða inn fólki, sem afneitar vestrænum gildum, menningu og stjórnarfari. 

 


Raunir Sviss í samningum við Evrópusambandið.

Viðskiptaritstjóri breska stórblaðsins Daily Telegraph skrifar grein í blaðið í dag undir heitinu "Switserlands ordeal ends all doubts: the EU poisons relation with every neighbour."

Í greininni rekur hann hvernig samningamenn Evrópusambandins hafi gengið gjörsamlega fram af Svisslendingum og sjö ára samningaferli hafi nú verið slitið. Svisslendingar halda því fram,að ráðamenn í Brussel hafi viljað koma þeim bakdyramegin inn í EES, en það segja þeir að sé of mikið valdaframsal varðandi m.a. löggjöf, skattheimtu, heilsuvernd og málefnum innflytjenda og hælisleitenda auk annars. 

Svisslendingar eru ekki tilbúnir að kalla það ok og afsal fullveldis yfir sig og hafa því sagt sig frá samningum við Evrópusambandið þrátt fyrir hótanir Evrópusambandsins um aðgerðir gagnvart Sviss. Stuðningur við aðild Sviss að Evrópusambandinu er nú 10% en var um og yfir 50% þegar best lét á árum áður. 

Í greininni er líka fjallað lítillega um frekju og yfirgang Evrópusambandsins í orkumálum gagnvart Noregi, en það sama á við um okkur og kröfur um frekara framsal valds í þeim málum af hálfu Norðmanna og það sama á þá við um okkur. 

Eigum við ekki að láta staðar numið og taka upp viðræður við Noreg um gagngerar breytingar á EES samningnum, sem var gerður við allt aðrar aðstæður en nú er uppi og vera reiðubúnir til að yfirgefa þann samning taki Evrópusambandið ekki sönsum og virði og viðurkenni fullveldi okkar í löggjafarmálum sem og öðrum málum en þeim sem sérstaklega kann að vera samið um. 

Íslenskir ráðamenn geta ekki látið sem allt sé í lagi í þessum málum og EES samningurinn sé enn réttlætanlegur óbreyttur og þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar.   


Aðför að tjáningarfrelsi og lýðræðishugsjóninni

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi þvinguðu flugvél Ryanair á alþjóðlegri flugleið til að lenda í Minsk. Ástæðan var, að ná til 26 ára frétta- og andófsmanns Roman Protasevich 

Protasevich flúði frá Hvíta-Rússlandi 2019 og fór til Póllands, þar stofnaði hann útvarpsstöðina Nexta, sem er með meira en 2 milljónir áskrifenda. Í mótmælunum í fyrra gegndi Nexta miklu hlutverki í því að miðla upplýsingum. Þess vegna þarf að þagga niður í honum. 

Protasevich sótti um hæli í Póllandi árið 2020 en skömmu síðar ásökuðu kommúnistarnir sem stjórna Hvíta-Rússlandi hann um að raska almannafriði, lögum og reglu. Við því liggur allt að 12 ára fangelsi þar í landi. 

Einræðis- og ógnarstjórnir vita, að stjórnmálamenn á Vesturlöndum eru pappírstígrisdýr þegar kemur að því að standa vörð um mikilvæg mannréttindi sem skipta miklu í lýðræðisríki.

Í Tyrklandi situr Erdogan, sem hefur fangelsað hundruði blaða- og fréttamanna auk fjölda annarra vegna álíka atriða og Protasevich er gefið að sök. Samt gera Vesturlönd allt fyrir Erdogan. Hann er í NATO og Evrópusambandið vill fá hann inn.

Það kom því vel á vondan þ.e. Erdogan, þegar æðstu stjórnvöld í Saudi Arabíu myrtu blaðamanninn Yamal Khashoggi í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbul í október 2018. 

Viðbrögð Vesturlanda við þessum bolabrögðum Tyrkja og Sáda gegn tjáningarfrelsi og lýðræði eru nánast engin. Eðlilega telur einræðisherrann í Hvíta Rússlandi, Lúkjasjenkó, að hann komist upp með það sama og Tyrkir og Sádar.

Vesturlönd brugðust þegar fyrst reyndi á gagnvart þursaríkjum. Það var þegar Khomeni þá einræðisherra í Íran, kvað upp líflátsdóm yfir Salman Rushdie rithöfundi í Bretlandi í febrúar 1989. Salman Rushdie hefur verið í felum undir lögregluvernd síðan þá. 

Þursarnir vita vel, að þeir geta farið sínu fram gegn lýðræði og mannréttindum. Vesturlönd munu láta í sér heyra, en síðan fjarar það út, en er ekki kominn tími til að taka á þeim öllum og móta sameiginlega stefnu gegn þursaríkjunum, sem virða engar lýðræðislegar leikreglur í samskiptum við eigin borgara?

 


Gleymda stríðið

Fjölmiðlar í okkar heimshluta sem og stjórnmálamenn hafa vart mátt vatni halda yfir viðbrögðum Ísraelsmanna við árásum Hamas liða á Ísraelska borgara. Á sama tíma er stríð í gangi, mun alvarlegra og kostar margfalt fleiri mannslíf. En því hafa íslenskir fjölmiðlar algerlega gleymt.

Sex mánuðir eru liðnir frá innrás Eþíópíuhers inn á land Tigray fólksins í Eþíópíu með stuðningi hers Eritreu. Forsætisráðherra Eþíópíu Abiy Ahmed friðarverðlaunahafi Nóbels,vílar ekki fyrir sér, að ráðast gegn þjóðarbroti Tigray í landinu. 

Sagt er að tugir þúsunda hafi fallið og mun fleiri flúið til nágrannaríkisins Kenýa. 

Auk þess að drepa tugi þúsunda eru heilu þorpin brennd, konum nauðgað kerfisbundið og grunur leikur á að óleyfileg efnavopn séu notuð gegn þjóðarbroti Tigray í Eþíópíu.

Hvað veldur því að þetta hroðalega stríð fer framhjá fjölmiðlum að mestu og hvernig stendur á því að alþjóðasamfélagið lætur þetta viðgangast. Af hverju er ekki kallað eftir fundum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og afhverju er Bandaríkjaforseti ekki krafinn um aðgerðir og afstöðu eins og þegar Hamas liðar eiga í hlut. Eða þá Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Því miður sýnir þetta þá dapurlegu staðreynd hvar nútíma fjölmiðlun er stödd og hversu sér pólitísk hún er. Auk þess sýnir hún þá dapurlegu staðreynd, að alþjóðasamfélagið bregst ekki við og kemur ekki til varnar fólki í brýnni neyð eins og Tigray fólkinu í þessu tilviki, þegar engin telur sig eiga hagsmuni að gæta. 

En ástandið er eftir sem áður dapurlegt og óafsakanlegt og heimurinn getur ekki horft á þetta þjóðarmorð á Tigray þjóðinni lengur án þess að stöðva þjóðarmorðið, beitingu efnavopna og aðra stríðsglæpi, sem framin eru í tilraun friðaraverðlaunahafans til að eyða Tigray þjóðinni í Eþíópíu.

Ég vænti þess af utanríkisráðherra og ríkisstjórninni að þetta mál verði tekið upp strax. Það hefur ekki þolað bið í hartnær hálft ár.


Af hverju?

Í lok glæsilegs fundar Norðurskautsráðsins átti Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands. Lavrov innti forsætisráðherra eftir því hvort ekki væri rétt, að þjóðirnar tækju upp eðlileg samskipti og Íslendingar hættu "refsiaðgerðum" gegn Rússum með því að leggja bann á ákveðin viðskipti. Forsætisráðherra svaraði hvatvíst að bragði að það kæmi ekki til greina.

Af hverju ekki?

Hvaða tilgangi þjóna þessar refsiaðgerðir? Hvaða markmiði eiga þær að ná? Svörin eru einföld. Þessar refsiaðgerðir þjóna engum tilgangi og þær eiga að ná því markmiði að Rússar skili Krímskaga til Úkraínu, sem allir vita að þeir munu aldrei gera. Er það þá vilji íslenskra stjórnvalda að troða endalaust illsakir við Rússa í algjöru tilgangsleysi og til milljarða tjóns fyrir framleiðendur vítt og breytt um landið. 

Í lok fyrri heimstyrjaldar lagði þáverandi Bandaríkjaforseti Woodrow Wilson fram skynsamlega tillögu  á Versalaráðstefnunni 1919, sem náði að hluta fram að ganga og leiddi m.a. til þess að fólk í Slesvík fékk að kjósa um það hvort það vildi tilheyra Þýskalandi eða Danmörku. Farið var eftir niðurstöðunni og landamæri Þýskalands og Danmerkur grundvölluð á vilja fólksins hvað þetta varðar. 

Á Krímskaga fór líka fram þjóðaratkvæðagreiðsla um  það hvort fólkið þar vildi vera í Rússlandi eða Úkraínu. Niðurstaðan var afgerandi fólkið á skaganum vildi tilheyra Rússlandi. Enginn hefur mótmælt niðurstöðu þessarar atkvæðagreiðslu Krímverja með haldbærum rökum. Af hverju unum við því ekki að sama gildi um Krímverja og íbúa Slésvíkur?

Við megum ekki gleyma því að samskipti okkar við Rússa hafa alltaf gengið vel m.a. á tímum kalda stríðsins og íslensk stjórnvöld áttuðu sig á hagsmunum Íslands á tímum kalda stríðsins og héldu góðum samskiptum við Sovétríkin, en það kom í veg fyrir að Bretar gætu farið sínu fram og kúgað Ísland til hlýðni í landhelgisdeilum þjóðanna.

Forsætisráðherra hefur ekki fært nein skynsamleg rök fyrir áframhaldandi viðskiptastríði við Rússa. En ef við erum svona heilög í utanríkispólitíkinni af hverju eigum við þá viðskipti við Kínverja og Tyrki.

Þess verður að krefjast að stjórnarstefna í viðskiptum við aðrar þjóðir stjórnist af skynsemi en ekki glórulausu rugli.


Innflytjendur og Schengen

Mörgum þykir hin mesta goðgá, þegar fólk lýsir þeim skoðunum, að það þurfi að takmarka aðstreymi innflytjenda og hælisleitenda og endurskoða ákvæði Schengen samningsins, en segja sig frá því samstarfi ella. Þeir sem ræða slíkt eru tíðum kallaðir öfgamenn,rasistar, náttröll eða að þeir  en fylgist ekki með tímanum, þar sem við komumst ekki hjá, að taka á okkur alþjóðlegar skuldbindingar og þá oftast vísað í strákana sem ráða í Brussel gæðum og reglum í Evrópusambandinu. Manna eins og t.d. Michel Barnier, sem var samningamaður Evrópusambandsins vegna útgöngu Breta úr Evrópusamstarfinu og þótti halda fast á málum og vera lítt sveigjanlegur í þeim viðræðum.

Nú hefur sá hinn tilkomumikli franski stjórnmálamaður Michel Barnier,sá mikli mógúll Evrópusamstarfs og pólitískrar rétthugsunar viðrað þær skoðanir til heimabrúks í Frakklandi að nauðsynlegt sé að banna aðflutning innflytjenda utan Evrópu næstu 3-5 árin og breyta þurfi ýmsum ákvæðum Schengen samningsins.

Þessar skoðanir Barnier ganga mun lengra en flestir þeir sem fjallað hafa um málin hér á landi hafa leyft sér að orða. Barnier, sem mundi flokkast sem hægri miðjumaður í frönskum stjórnmálum ætti því að eiga pólitíska samleið með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og fróðlegt væri að vita hvaða skoðanir þær hafa á þessum sjónarmiðum Barniers.

 


Seinfærasta barnið í bekknum.

Í fyrradag að okkar tíma sprungu þrjár bílsprengjur við stúlknaskóla í Kabúl höfðborg Afganistan. Sprengjunum var þannig fyrirkomið og tímastilltar, að þær gætu drepið sem flestar skólastúlkur. Fyrsta sprengjan sprakk við skólann og stúlkurnar og kennarar þustu út á götu en þá sprungu tvær til viðbótar allt gert til að drepa sem flestar. 

Enginn velkist í vafa um að öfgafullir Íslamistar, sem allt of mikið er af á þessum slóðum, bera ábyrgð á þessum morðum. En hvað getur eiginlega fengið fólk til að drepa unglingsstúlkur, sem ekkert hafa til saka unnið í og við skólann sinn? Það er tryllingsleg mannvonska, sem við skiljum ekki. Hver var glæpur þeirra? Jú að þær voru í skóla. Þær vildu afla sér menntunar.

Við skiljum heldur ekki, að víða í Íslamska heiminum eru konur undirokaðar og fjöldi Íslamista telur það synd gegn trúnni og spámanninum, að konur mennti sig. 

Íslam er í dag og hefur verið lengi, seinfærasta barnið í bekknum hvað varðar viðurkenningu staðreynda, mannréttindi og menningu. Þannig var það ekki alltaf, en þannig er það í dag. 

Enn og aftur lögðu Bandaríkjamenn út í hernað í fjarlægu landi nú í Afganistan og fórnuðu mannslífum og gríðarlegum fjármunum til að breyta siðum fjarlægrar þjóðar. Það tókst ekki.  

Vesturlandabúar verða, að horfast í augu við, að því fleiri, seinfærustu nemendur, sem koma til Vesturlanda og taka þar búsetu þeim mun meiri líkur eru á, að þau sjónarmið og hugmyndafræði sem þessir nemendur aðhyllast láti til sín taka á Vesturlöndum, með glæpum eins og "heiðursmorðum", hryðjuverkum, svo ekki sé talað um  kvennfyrirlitningu. 

Margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa sett dulur fyrir bæði augu og neitað að horfast í augu við þær staðreyndir. Samt sem áður hefur bráð af mörgum í seinni tíð t.d. Macron, Frakklandsforseta og dönskum Sósíaldemókrötum, sem láta alla vega svo, sem þeir vilji bregðast við af skynsemi.

Á sama tíma erum við, öndvert við aðrar Evrópuþjóðir, að búa til farveg til að fá sem flesta af þessum seinfærustu nemendum til okkar.

Mér er óskiljanlegt, að að dómsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa gerst sérstakir talsmenn þessarar glópsku og dómsmálaráðherra skuli í ræðu og riti berjast fyrir því, að sem allra fyrst skuli skipt um þjóð í landinu. 


Þjóðarmorð Tyrkja á Armenum

Á árunum 1915 til 1917 meðan fyrri heimstyrjöld stóð yfir frömdu Tyrkir svívirðilegan glæp með þjóðarmorði á Armenum eftir því sem þeir gátu við komið. Ekki er vitað með vissu hvað margir Armenar voru drepnir í þessari útrýmingarherferð, en alla vega voru það ekki færri en ein og hálf milljón manna. Sumir nefna tölur, sem eru allt að helmingi hærri. Hefðu Tyrkir haft mannafla og tæki til þess, þá hefðu drápin orðið enn stórtækari.

Ólíkt Þjóðverjum, sem hafa viðurkennt svívirðilegan glæp sinn í síðari heimstyrjöld þegar nasistatjórnin fór í útrýmingaherferð gegn Gyðingum, og beðist ítrekað afsökunar, þá neita Tyrkir því eindregið að hafa gert það sem þeir gerðu gagnvart Armenum. 

Það er vonum seinna, að Bandaríkjamenn viðurkenni nú þetta þjóðarmorð Tyrkja á Armenum rúmum 100 árum eftir að þau áttu sér stað. En þökk sé Biden forseta fyrir að stíga loks fram og viðurkenna þennan voðaverknað Tyrkja. 

Ísland hefur ekki viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum og frumvarp sem var borið fram á Alþingi fyrir nokkrum árum náði ekki fram að ganga. Það er okkur til skammar að hafa ekki viðurkennt og fordæmt þjóðarmorð Tyrkja á Armennum og vonum seinna að við gerum bragabót og gerum það nú þegar. 

Það er líka full ástæða til að gera það núna, þar sem að fyrir nokkrum mánuðum síðan réðist Azerbadjan með stuðningi Tyrkja á Armena í Nagorno Karabak héraði og framdi þar fjölda hryðjuverka auk manndrápa og sölsaði undir sig land sem er eingöngu byggt af Armenum.  

Kristnar þjóðir horfðu á þetta án þess að hreyfa legg eða lið og létu Tyrki komast upp með þessa árás á kristið ríki, sem hefur mátt þola árásir þeirra og manndráp í aldanna rás og þjóðarmorð á árunu m2015-2017. Er nú ekki mál til komið að láta í sér heyra og fordæma Tyrki fyrir þjóðarmorðin. 

Svo geta menn velt því fyrir sér hvort það er eðlilegt að setja refsiagðgerðir gegn vinaþjóð okkar Rússum í stað þess að beina því gegn ofbeldisríkinu Tyrklandi. 

Fordæmum strax þjóðarmorð Tyrkja á Armenum. 


mbl.is Viðurkenndi þjóðarmorð Tyrkja á Armenum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsemi eða nauðhyggja

Í umræðuþætti á RÚV, Silfrinu í gær fóru fyrstu 80% þáttarins í að tala um getgátur eða allir eru sammála um. Þegar leið að lokum sagði stjórnandinn, að Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins hefði hreyft ákveðnum hugmynum varðandi ólöglega innflytjendur(hælisleitendur), en vakti um leið athygli á að lítið væri eftir af þættinum. Ólafur vakti m.a. athygli á stefnu danskra jafnaðarmanna í málinu og taldi að um væri að ræða stefnumótun, sem ástæða væri fyrir okkur að skoða.

Fulltrúar nauðhyggjunar í málinu fundu þessu ýmislegt til foráttu. 

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins minnti á Altúngu í Birtingi Voltaire og sagði nánast,að frv. dómsmálaráðherra í málinu væri stefna, sem væri sú besta sem til væri. Raunar eru þær tillögur þegar grannt er skoðað ámóta skilvirkar til að yfirstíga vandamálið eins og að ætla að girða norðanáttina af í Reykjavík með því að setja upp skjólvegg í Örfirisey.

Fulltrúi Pírata vildi hætta öllu veseni á landamærunum, en mæltist að öðru leyti skynsamlega.

En svo kom rúsínan í pylsuendanum, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar, sem fann stefnu bræðraflokks síns í Danmörku allt til foráttu og ekki var annað á henni að skilja en þarna færu danskir sósíaldemókratar villur vegar svo fordæmanlegt væri. Ekki var annað að skilja á þingmanninum, en allar breytingar á stjórnleysinu í þessum málum væri til hins verra og afstaða danskra krata fordæmanleg. 

Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins benti m.a á, að með því að fara þá leið sem að danskir jafnaðarmenn vilja, væri hægt að hjálpa fleirum og þau vandamál, sem nú væri við að etja vegna stjórnlauss aðstreymi svokallaðra hælisleitenda, sem eru um 80% ungir karlmenn mundu verða að miklu leyti úr sögunni. 

Sérkennilegt að þinmenn og verðandi þingmenn skuli ekki vilja skoða þessar hugmyndir danskra krata, sem loksins sáu og viðurkenndu, að áfram yrði ekki haldið á þeirri óheillabraut, sem meirihluti þingmanna á Íslandi virðist vilja halda. 

Það væri hægt að hjálpa 135 manns í nágrenni við heimkynni sín sem eru í bráðri neyð, fyrir hvern einn hlaupastrák sem hefur haft ráð á því að láta smygla sér yfir hafið og þessvegna land úr landi í Evrópu. Hagnaður glæpamannanna sem sjá um þetta smygl hleypur á tugum milljarða íslenskra króna. Er það ekki glórulaus heimska að ætla að halda áfram vonlausu kerfi, sem  hjálpar fáum og síst þeim sem mest þurfa á að halda í stað þess að leita skynsamlegra leiða út úr vitleysunni?

Danskir sósíalistar eiga heiður skilið fyrir að sýna þá djörfung til tilbreytingar að bera sannleikanum og skynseminni vitni. Þeir vilja taka stjórn á sínum landamærum hvað þetta varðar. Af hverju gerum við það ekki líka. Fróðlegt verður að sjá hvaða þingmenn og stjórnmálaflokkar vilja að við höfum stjórn á landamærunum og hverjir vilja að við týnumst fyrr en síðar í þjóðahafinu.


Sigur á fátækt

Forseti alþýðulýðveldisins Kína, Xi Jinping, lýsti því yfir í morgun að sigur hefði unnist gegn algjörri fátækt í Kína. Þetta er merkileg yfirlýsing. 

Fyrir rúmum tveim áratugum tók kommnúistaríkið Kína upp kapítalískt eða markaðstengt kerfi að mestu leyti. Á þeim tíma hefur velmegun aukist. Sennilega eru fleiri ofurríkir einstaklingar í Kína en nokkru öðru ríki heims, millistétt í borgum Kína hefur styrkst efnalega mjög mikið og nú hefur tekist að útrýma algjörri fátækt að sögn forsetans.

Sigur kommúnistanna í Kína á algjörri fátækt er sigur markaðshagkerfisins, sem hefur náð að lyfta landinu frá fátækt til bjargálna.

Forsetinn talar um að sigur hefði unnist gegn algjörri fátækt. Það er sú viðmiðun sem er eðlilegust. Hér á landi og hjá þeirri stöðugt furðulegri stofnun Sameinuðu þjóðunum er hinsvegar ekki miðað við raunverulega fátækt heldur hlutfallslega. Sigur getur aldrei unnist á hlutfallslegri fátækt. Þessvegna getur Inga Sælandi og aðrir af slíku sauðahúsi endalaust bullukollast um fátækt út frá slíkum ruglanda. 

Hlutfallsleg fátækt er ekki spurning um fátækt heldur tekjuskiptingu. Þannig getur verið meiri hlutfallsleg fátækt í Noregi en í Serbíu svo dæmi sé tekið, þrátt fyrir að meðaltekjur þeirra sem hafa það lakast í Noregi séu mörgum sinnum hærri en í Serbíu. En þetta er sú viðmiðun sem talað er um hér og þegar síðast var rætt um málið á Alþingi þá var notast við þessa viðmiðun og samkvæmt henni áttu þá tug þúsund barna að búa við fátækt hér á landi, sem er rangt miðað við alþjóðlegar viðmiðanir um raunverulega fátækt. 

Æskilegt væri, að rannsakað yrði hverjir búa við raunverulega fátækt og snúið sér að því að koma öllum þeim sem búa við raunverulaga fátækt frá þeim lífskjörum til bjargálna, þannig að við getum státað að því þegar kemur að næstu kosningum eins og Alþýðulýðveldið Kína að hafa lyft öllum borgurum þessa lands frá raunverulegri fátækt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 401
  • Sl. viku: 3207
  • Frá upphafi: 2513707

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2995
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband