Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Ber ekki ábyrgð á Stalín

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari og Gunnar Smári Egilsson foringi Sósíalista ræddu málin í spjallþætti á Bylgjunni í gærmorgun.

Arnar Þór benti af gefnu tilefni á ýmsar staðreyndir varðandi sósíalismann og arfleifð hans um víða veröld. 

Sósíalistaforinginn kom sér fimlega hjá því að svara fyrir syndir sósíalismans, en sagði Sjálfstæðisflokkinn sekan um að hafa ætíð staðið gegn réttmætum kröfum og réttindabaráttu verkafólks og almennings í landinu.

Upptalning Gunnars Smára á þessum meintu ávirðingum, var athyglisverð en röng. En sósíalistaforinginn bregður á það ráð, sem sósíalistar hafa alltaf gert, að veifa frekar röngu tré en öngvu.

Gunnar Smári sagði t.d., að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið einarðlega gegn svonefndum vökulögum um lágmarkshvíldartíma sjónamanna. Vökulögin voru samþykkt á Alþingi 1921 en Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929.

Þá sagðist Gunnar Smári ekki bera ábyrgð á Stalín. Það er vissulega rétt. Hann ber enga ábyrgð á Stalín og hann ber heldur enga ábyrgð á Karli Marx, Rauðu Khmerunum og áfram mætti halda. En hann er að boða hugmyndafræði þeirra. Hugmyndafræði sem alltaf og alls staðar hefur leitt til frelsisskeringar, örbirgðar og ógnarstjórnar.  

Þó Gunnar Smári beri ekki ábyrgð á Maó eða Stalín, þá er hann að boða kenningu þeirra, þrátt fyrir að sósíalisminn leiði ævinlega til hörmunga. Tilraunir með sósíalismann ættu því að vera fullreyndar eftir hörmungasögu hans í rúm 100 ár. 

Þeir, sem gera alltaf sömu mistökin og halda að næst verði það öðruvísi eru firrtir öllum ályktunarhæfileika auk annars.

Boðskapur sósíalista og afsökun er í því sambandi alltaf sá sami. Þeir sem stjórnuðu í nafni sósísalismans gerðu það ekki í raun og veru. Gerðu margvísleg mistök hans, en núna verði þetta öðruvísi. Það sögðu bankamennirnir og útrásarvíkingarnir líka fyrir hrun. Þú skilur þetta ekki sögðu þeir. Þetta er allt öðru vísi en áður þá voru gerð mistök, en fjármálakerfið hefur aðlagað sig.  Gunnar Smári flytur að breyttum breytanda boðskap sósíalismans á þessum fölsku forsendum þeirra sem ekkert muna og engu hafa gleymt.  


Hvenær ber ráðherra ábyrgð?

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir forsætisráðherra, að það hafi ekki verið hennar að meta hæfi Páls Hreinssonar forseta EFTA dómstólsins, heldur hans sjálfs þegar hún réði hann til að gera álitsgerð um aðgerðir í sóttvarnarmálum.

Þetta svar forsætisráðherra sýnir undarlegt viðhorf, sem því miður allt of margir stjórnmálamenn eru illa haldnir af. Að þeir beri almennt ekki ábyrgð.

Í þessu svari forsætisráðherra felst, að henni beri ekki að kynna sér hvaða reglur gilda um dómara við fjölþjóðlegan dómstól, en ekki þarf að kafa lengi í ákvæði um dómstólinn til að sjá, að ráðning dómarans til starfans var í besta falli vafasöm. 

Katrínu Jakobsdóttur veit hvað hlutverk EFTA dómstólsins er og viðfangsefni hans varða fyrst og fremst aðgerðir eða aðgerðarleysi stjórnvalda þ.á.m. ríkisstjórna viðkomandi aðildarríkja þ.á.m. Íslands. Út frá almennri skynsemi og siðrænum forsendum var eða átti Katrínu að vera ljóst, að það var fráleitt að ráða dómsforseta EFTA dómstólsins til að fjalla um íslensk löggjafarmálefni og gera tillögur um breytingar, sem hann kynni síðar að þurfa að fást við sem dómari. 

Það er hlutverk ráðherra líka forsætisráðherra að leggja heildstætt mat á þau viðfangsefni,sem þeir fjalla um. Þeir eiga ekki að geta vikið sér undan ábyrgð. 

Meginatriðinu er samt ósvarað hvað sem líður þessu viðhorfi forsætisráðherra. Spurningunni um hvort það hafi verið eðlilegt að ráða dómsforseta EFTA dómstólsins til þessara starfa fyrir ríkisstjórnina, en því kemur Katrín Jakobsdóttir sér hjá að svara og vísar eingöngu í formið en ekki efnisatriði. Síðast en ekki síst. Hvað segir dómarinn Páll Hreinsson um málið. Gagnrýninni er jú fyrst og fremst beint að honum, þó að forsætisráðherra þrátt fyrir góða tilraun geti ekki heldur frýjað sig ábyrgð.  


Hrikaleg gráglettni örlaganna.

Þ.30.september 2005 birtist grein í danska blaðinu Jyllands Posten, sem hét Sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi(selvcensur og ytringsfrihed)Með myndinni fylgdu teikningar af Múhameð spámanni eftir danska skopmyndateiknarann Kurt Vestergård, sem lést fyrir nokkrum dögum.

Skopmyndirnar af Múhameð leiddu til fjöldauppþota múslima um allan heim og ríkisstjórnir flestra Íslamskra landa kröfðust þess að bannað yrði að birta þær og teiknaranum og útgefendum Jyllands Posten yrði refsað. 

Þáv. forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rassmussen, stóð sig vel og sagði Danmörku lýðræðisland, sem virti tjáningarfrelsi. 

Fjöldamótmæli urðu í Íslömskum ríkjum, danski fáninn var brendur,kveikt var í sendiráðum Dana í Damascus og Beirut, danskar vörur eyðilagðar í verslunum og bannað að kaupa þær. Fornaldarveldið Saudi Arabía birti lista yfir danskar vörur og fyrirtæki sem á bannlista m.a. Radisson SAS hótelin, 7 up, Halls hálsbrjóstykur, Carlsberg o.fl. o.fl.

Það voru örfáir, sem þorðu að birta Múhameðs teikningarnar. Eitt blað í Noregi, gerði það og þáv.forsætisráðherra Noregs og núverandi framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg,Kallaði Vebjörn ritstjóra blaðsins á teppið skammaði hann og sagði hann hafa leitt skömm yfir Noreg. Mikil virðing fyrir lýðfrelsi þar.

Danska lögreglan gætti Kurt Vestergård teiknara eftir þetta allan sólarhringinn og útbúið var sérstakt neyðarherbergi í íbúð hans ef svo illa tækist til að íslamistar kæmust inn. 

12.febrúar 2008 handtók danska lögreglan marga Íslamista vegna fyrirhugaðs morðs á Vestergård. Daginn eftir birtu 17 fjölmiðlar Múhameðs teikningar Vestergård. Síðan hafa þær ekki birst í fjölmiðlum. Endurbirting myndanna leiddi til óeirða í Pakistan og Gaza svæðinu, hvatt var til sniðgöngu á dönskum vörum og kveikt í dönsku sendiráði.

Síðar voru fleiri morðtilræði gegn Vestergård.

Við andlát Vestergård hefði mátt búast við því að einhverjir fjölmiðlar birtu myndir hans af Múhammeð spámanni. Svo varð ekki. Sjálfritskoðun fjölmiðla á Vesturlöndum er svo mikil. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt þegar litið er til þess hve marga Íslamistarnir hafa drepið í hinum kristnu löndum Evrópu fyrir að þeirra mati að hafa móðgað þá eða þennan spámann þeirra. Svo ekki sé minnst á þegar þeir drápu alla ritstjórn og stóran hóp blaðamanna franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. 

Það sýnir sig vel hvað sjálfsritskoðunin í Vestrænum löndum er mikil, að nú við andlát Vestergård þorir ekki einn einasti fjölmiðill að birta skopmyndir hans. 

Ég sótti ráðstefnu á vegum félagsins "Tjáningarfrelsið" í Danmörku á 10 ára afmæli birtingar Múhammeðsteikninganna í september 2015 við það tækifæri var vakin athygli á því að þó að ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um þetta afmæli, þá birti engin myndirnar. Einnig að vegna ráðstefnunnar þá þurfti sérstaka öryggisgæslu og fundarstaðurinn var vaktaður og nákvæm leit var gerð á öllum sem sóttu ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni var m.a. sagt frá því, að í dönskum skólum væri fjallað um Múhammeðsteikningarnar og viðbrögð Íslamska heimsins við þeim, en myndirnar væru hvergi sjáanlegar og þegar dönsk skólayfirvöld hafa verið innt eftir af hverju, þá hefur verið svarað, að þær skiptu ekki máli í þessu samhengi. 

Hvað skyldi þá skipta máli í samhenginu?

Hinn hrikalega gráglettni örlaganna er sú, að myndirnar, sem prýddu grein um sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi fæst hvergi birt vegna sjálfsritsskoðunar og hræðslu við að nýta tjáningarfrelsið. 

 

 

 


Leiðindi og tepruskapur

Rowan Atkinson leikari, þekktur hér á landi fyrir að leika Mr. Bean sagði vegna frv. til fjölmiðlalaga, að það væri fráleitt, að ekki mætti gera grín af hverju sem væri. Trúarbragðahópar, kynþættir, þjóðir og aðrir yrðu að þola græskulaust grínið. Hann sagði að umræðan yrði miklu leiðinlegri og teprulegri ef fólk þyrfti alltaf að passa sig á því að móðga ekki einhvern. 

En þannig er það í dag. Það eru allir að passa sig og uppfullir af ótta við að móðga einhvern minnihlutahóp. Afleiðingar eru m.a. að stjórnmálaumræða, sem og önnur almenn umræða er orðin húmorslaus og leiðinleg. Fólk getur átt á hættu að verða ofsótt vegna græskulausra ummæla, ef einhver tekur upp á því að móðgast vegna þeirra og þarf að beygja sig í duftið og biðjast auðmjúklega afsökunar. En ritskoðunin teygir sig stöðugt lengra

Nýlega fundu einhverjir að barna- og unglingabækur Enid Blyton væru fullar af kynþáttahyggju og útlendingahatri. Ævintýrabækurnar og Svaðilfarir hinna fimm fræknu eru því orðnar hættulegar fyrir ungt fólk og ber að fjarlægja.

Vinsælu gamanþættirnir Friends eru líka skotspónn teprugangsins og þar hafa handhafar ásættanlegra skoðana komist að þeirri niðurstöðu að þátturinn sé fordæmanlegur vegna kynjahyggju, andúð á samkynhneigðum og gert sé grín að feitu fólki.

Það er orðið vandlifað í henni veröld. Feisbók, twitter, google og you tube ráðskast með það sem má segja. Þeir sem fara yfir mörkin eru útilokaðir. Ekki mátti segja að Covid veiran hafi verið manngerð í Kína svo einfalt dæmi sé tekið. 

Er ekki nauðsynlegt að venjulegt fólk rísi gegn þessu rugli og tali eðlilega og leyfi sér að gera gantast og vera skemmtilegt þó það sé á annarra kostnað svo fremi grínið sé græskulaust.

Er ekki heimurinn miklu skemmtilegri þannig. 

 

 


Íhaldið og frjálslyndið

Fréttablaðið segir frá því með nokkrum fögnuði að íhaldssamir frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins hafi tapað fyrir hinum frjálslyndari. Í huga Fréttablaðsins felst Frjálslyndi í því að vilja sem nánasta samstarf með Evrópusambandinu helst fulla aðild, en íhaldsstefna að vilja það ekki.

Nafngiftir eins og þessar eru oft misvísandi og miðað við þá þingmenn sem blaðið minnist á, þá verður ekki séð, að þar sé um  algjöra einsleitni að ræða í pólitískri afstöðu ef undan er skilið að öll hafa þau verið mótfallin þéttara faðmlagi við Evrópusambandið og no border stefnuna sem fylgt er í innflytjendamálum. En það hafa raunar nokkrir aðrir þingmenn flokksins líka verið.

Frétt blaðsins vekur samt sem áður athygli á atriðum, sem er nauðsynlegt að Sjálfstæðisfólk hafi í huga við stefnumörkun á næsta Landsfundi. 

Þar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka afgerandi afstöðu fyrir og með fullveldi þjóðarinnar og krefjast endurskoðunar á EES samningnum þannig að löggjafarvaldið m.a. verði að öllu leyti í höndum Alþingis en ekki kommissara í Brussel. Þá verður að taka skynsamlega og ákveðna stefnu í innflytjendamálum svo við lendum ekki í sama hjólfari og Svíar eru lentir í.

Framhjá þessu verður ekki komist vilji Sjálfstæðisflokkurinn tryggja öryggi borgaranna og rétt íslenskra ríkisborgara til lands, náttúruauðlinda og landgæða. 

 

 


"America is back"

Slagorð Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir NATO ráðstefnuna í síðustu viku var "America is back" Þetta slagorð, sem ráðgjafar hans bjuggu til áður en haldið var á leiðtogafund G7 ríkjanna og NATO átti að sýna a.m.k. vestrænum bandalagsþjóðum Bandaríkjanna, að nú væri annað uppi á teningnum en á tímum Trump.

Að loknum fundunum,liggur því miður fyrir, að Bandaríkjaforseti sýndi af sér afgerandi veikleika, sem fréttamiðlar heimsins gæta vel að greina sem minnst og helst ekkert frá. Öðru vísi fólki áður brá, þá er Trump reið um þessi héruð.

Það var aldrei hægt að saka Trump um að sýna af sér veikleika. Hann herti refsiaðgerðir gegn hryðjuverkastjórninni í Íran og var óragur við að beita hervaldi til að rústa ríki Ísis í Sýrlandi og Írak svo dæmi séu nefnd. 

Óneitanlega var dapurlegt að sjá Bandaríkjaforseta ítrekað rugla saman Sýrlandi og Líbanon og hafa engan boðskap að flytja á leiðtogafundi G-7 ríkjanna t.d. varðandi stefnu uppbyggingar og framsækni eftir Covid hörmungarnar. Ekkert hafði hann heldur fram að færa varðandi ögranir og áskoranir Kínverja og sýndi með því afgerandi skort á forustuhæfileikum auk þess, sem það liggur fyrir að utanríkismálastefna Bandaríkjanna er í besta falli óljós en í versta falli afturhvarf til Obama-Hillary Clinton undanlátsstefnunnar.

Kína og Rússland geta verið öruggari með sjálf sig og Kínverjar sér í lagi með útþennslustefnu sína þegar nú því miður liggur fyrir öryggisleysi og vanhæfni Bandaríkjaforseta á vettvangi alþjóðastjórnmála.

En það er slæmt fyrir hinn lýðfrjálsa heim. Hinn svokallaði lýðfrjálsi heimur ætti líka að huga að því með hvaða hætti helstu fréttamiðlar heims eru reknir þ.e. hvernig fréttamiðlar brugðust við hverju ónytjuorði Donald Trump og með hvaða hætti þessir sömu fjölmiðlar skauta nú algerlega framhjá því að tala um veikleika og vanhæfni Joe Biden. 


Hann var Íslendingur

Fyrir nokkrum árum tóku fréttamiðlar upp þann ósið, að greina ekki frá því hvaðan glæpamenn kæmu eða segja á þeim nauðsynleg deili. Sagt var að það væri óþarfi og aðalatriðið væri að bregðast við afbrotinu, en þjóðerni viðkomandi skipti engu máli. Þessar röksemdir eru afsökun á því, að gera ekki grein fyrir hlutum eins og þeir eru. Stjórnvöld og fréttaelítan vilja leyna ákveðnum staðreyndum fyrir fólkinu í landinu. 

Í gær var sagt frá hnífaárás, þar sem fórnarlambið lá þungt haldið á sjúkrahúsi. Gerð var kyrfilega grein fyrir því í fréttum, að sá sem ódæðið framdi væri Íslendingur. 

Vonandi veit þetta á breytingu hjá fréttaelítunni, að í framtíðinni verði gerð grein fyrir þjóðerni brotamanns og jafnvel frekari deili. Allt eru það nauðsynlegar upplýsingar sem eiga erindi við almenning í lýðræðisríki.

Eða verður það þannig, að einungis verði sagt frá því þegar Íslendingur brýtur af sér og við getum þá gengið út frá því, að þegar ekki er gerð grein fyrir þjóðerni brotamanns, að þá sé ekki um Íslending að ræða? 


Hrollvekjan

Oft er reitt hátt til höggs í pólitískri orðræðu jafnvel svo mjög að þó þau séu allsendis ómakleg og fordæmanleg, að þá eru þau fyrst og fremst hlægileg. Illskeytt og rætin orðræða sem fer yfir öll velsæmismörk er jafnvel þó hlægileg sé fordæmanleg og sýnir vel innræti þess og þeirra, sem henni beita. 

Það hefur komið á óvart að undanförnu, hvað sá hópur, sem vill gera flest til að afsala þjóðinni ákvörðunarvaldi í eigin málum, ganga í Evrópusambandið, skipta um þjóð í landinu og tryggja útlendingum fullan aðgang að kaupum lands, fasteigna og annarra landgæða fer hart fram gegn þeim, sem krefjast þess, að allt vald sé í höndum þjóðkjörinna fulltrúa íslendinga sjálfra og gjalda varhug við áformum um að afsala eða deila fullveldi þjóðarinnar meir en gert hefur verið, en krefjast þess í stað að íslendingar sjálfir og Alþingi hafi fullt vald á eigin málum sér í lagi setningu íslenskra laga.

Það hefði því ekki átt að koma svo mjög á óvart, að lesa rætin ummæli um einn frambjóðanda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi Arnar Þór Jónsson, en í Fréttablaðinu segir:

"Eins og túnfíflar finnur hressa íhaldið sér alltaf leið. Blasir nú við að þeirra næsta hrollvekja er rétt handan við hornið í líki Arnars Þórs Jónssonar sem er líklegur inn í Kraganum"

Óneitanlega er sérstakt þegar sómakær hugsjónamaður eins og Arnar Þór Jónsson, gefur kost á sér í prófkjöri, að þá skuli dynja á honum skammir frá þeim, sem vilja að helstu ákvarðanir um framtíð landsins séu teknar í Brussel. Einstakt að slíkum manni skuli líkt við "hrollvekju" og þar er farið yfir mörk eðlilegrar umræðu.

Hvað skyldi svo þessi frambjóðandi Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hafa unnið sér til sakar hjá þessum hópi landssölufólks svo notað sé mildara orðfæri en í tilvitnaðri grein. 

Arnar hefur vakið athygli á því, að fullveldi Íslands hefur verið skert og lagasetningarvaldið hefur að hluta verið flutt til Brussel. Hann hefur krafist þess, að við höfum sjálf með eigin löggjöf að gera. Eru þessi stefnumál fullveldis og sjálfsákvörðunarréttar íslensku þjóðarinnar virkilega sá þyrnir í augum Evrópusambandssinna, að þeir telji þær hrollvekju?

Sé svo, þá er ljóst að illbrúanleg gjá er komin upp á milli þeirra sem vilja varðveita landsréttindi Íslands og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og þeirra, sem sjá enga framtíð nema við afsölum okkur fullveldi þjóðarinnar til Evrópusambandsins. 

Þessar árásir ættu að vera hvatning fyrir frjálshuga fólk sem er annt um réttindi þjóðarinnar og framgang hennar í nútíð og framtíð til að fjölmenna á kjörstað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og kjósa hugsjónamann eins og Arnar Þór Jónsson, sem hefur verið öflugur talsmaður fullveldis íslensku þjóðarinnar.


Skiptir EES máli í íslenskri pólitík?

Birgir Örn Steingrímsson er eini frambjóðandinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem gerir valdaframsal Íslands til Evrópusambandsins að umtalsefni.  Hann hefur bent á regluverk bandalagsins, sem reynt verður að troða upp á okkur með sama hætti og þriðja Orkupakkanum, en það mun jafnvel koma í veg fyrir að við höfum sama aðgengi og í dag að alþjóðlegri fjölmiðlun. 

Birgir benti á, að nú væri spurning hvort Alþingi mundi samþykkja tilskipun Evrópusambandsins um þessi mál þegjandi og hljóðalaust og draga þar með úr frelsi borgaranna.

EES hefur tekið breytingum frá því að við gerðumst aðilar. Það sem vakti fyrir ráðamönnum við inngönguna var fyrst og fremst að Ísland yrði aðili að sameiginlegum markaði Evrópu. Önnur atriði fylgdu. Í sumum tilvikum gerðu íslendingar fyrirvara, en þeir hafa ekki haft neina þýðingu vegna slappleika okkar. 

Það var aldrei vilji þjóðarinnar, að þvingað yrði upp á Ísland margvíslegum reglum af hálfu Evrópusambandsins, sem íslenski löggjafinn mundi síðan kokgleypa án athugasemda og helstu stjórnmálamenn þjóðarinnar yppta öxlum og segja við þessu verður ekkert gert Evrópusambandið ræður þessu. 

En það er ekki svo. Við afsöluðum ekki löggjafarvaldinu algjörlega við inngöngu í EES eins og raunar annar frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, Arnar Þór Jónsson héraðsdómari,sem er í framboði í SV kjördæmi, hefur bent skilmerkilega á í frábærum greinum í Morgunblaðinu undanfarin misseri. 

Þeir Birgir og Arnar láta sér annt um fullveldi þjóðarinnar og hafna því,að valdaframsalið til Brussel með EES samningnum sé algjört. 

Stöðugar kröfur valdsherrana í Brussel til Íslands um að lúta þeim í einu og öllu sýnir, að nauðsynlegt er að spyrna við fótum og gera kröfu um endurskoðun EES samningsins með það að markmiði, að tryggja fullveldi Íslands svo sem kostur er.

Birgir Örn Steingrímsson á þakkir skildar fyrir að benda á nauðsynlegar staðreyndir varðandi ofurvald Evrópusambandsins. Í prófkjörinu. Hann er ekki með kosningaskifstofu eða dýrar auglýsingar. Hann er hugsjónamaður, sem gefur kost á sér til að koma á framfæri sjónarmiðum, sem varða heill og sjálfstæði Íslands. Fyrir það á hann skilið stuðning þeirra, sem sætta sig ekki við að Evrópusambandið troði öllum sínum tilskipunum upp á okkur án þess að ráðamenn þjóðarinnar spyrni við fótum.  


Ralph Nader

Ralph Nader var þekktasti talsmaður neytenda um árabil í Bandaríkjunum og öðlaðist heimsfrægð. Hann varð þekktur þegar hann gagnrýndi bandaríska bílaiðnaðinn fyrir að sinna ekki öryggismálum. Í framhaldi af því skrifaði hann bókina "Unsafe at any speed".(óörugg á hvaða hraða sem er) um bifreið af tegundinni Corvair, sem General Motors framleiddi.

Viðbrögð General Motors þá stærsta fyrirtækis Bandaríkjanna, var ekki að bregðast við gagnrýninni og lagfæra galla í framleiðslu sinni heldur að veitast persónulega að Ralph Nader til að reyna að gera hann ómerkan.

Öldungardeildarþingmaðurinn Abe Ribicoff tók málið upp að höfðu samráði við Nader og málið var rannsakað og þá kom í ljós, að General Motors hafði ráðið einkaspæjara til að afla neikvæðra upplýsinga um Nader til að gera hann tortryggilegan, en ekki nóg með það þeir höfðu leigt vændiskonur til að leggja snörur fyrir Nader og honum var veitt eftirför. Allt var gert til að reyna að finna eitthvað neikvætt um Nader í stað þess að svara gagnrýninni. 

Málið endaði með þeim hætti, að General Motors var dæmt til að greiða Ralph Nader 425.000 dollara vegna brots á friðhelgi einkalífs og fleira. Nokkru síðar afgreiddi Bandaríkjaþing lög sem gerði kröfur til aukins öryggis í bandarískri bílaframleiðslu.

Þetta er rifjað upp hér af gefnu tilefni. Það er ekki ásættanlegt að stórfyrirtæki reyni að svara gagnrýni með að gera lítið úr eða veitast að gagnrýnandanum persónulega og brjóta gegn friðhelgi einkalífs hans.

Mér er ekki kunnugt um að nokkur þingmaður  á Bandaríkjaþingi hafi treyst sér til að verja þessar löglausu aðfarir General Motors gegn Ralph Nader á sínum tíma. 

Á sama tíma og gæta verður þeirrar meginreglu, að enginn sé sekur fyrr en sekt hans er sönnuð, þá er að sama skapi óafsakanlegt að vega að friðhelgi einkalífs einstaklinga, sem setja fram gagnrýni, jafnvel þó hún sé röng. Það eru með öllu óásættanlegar aðfarir hver eða hverjir svo sem í hlut eiga.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 634
  • Sl. viku: 2335
  • Frá upphafi: 2506097

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2181
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband