Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Lokun landamæra

Covid geisar nú sem aldrei fyrr í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Vegna hnattrænnar legu sinnar töldu stjórnmálamenn og sóttvarnarlæknar í þeim löndum, að með því að skella öllu í lás og takmarka öll samskipti við önnur lönd mundi þeim takast að komast hjá Kórónuveirufaraldrinum. Að sjálfsögðu tókst það ekki.

Fyrir rúmum áratug árið 2009 kom ný veira H1N1 svokölluð svínaflensa fram í Mexícó og það tók hana bara klukkustundir og daga að dreifast til allra meginlanda heimsins. Þá eins og nú reyndu yfirvöld að koma í veg fyrir að veiran bærist inn í lönd þeirra og freistuðu að beita allskyns lokunum, en þær komu fyrir lítið. Birtar voru hryllingsfréttir um gríðarlegan fjölda dauðsfalla vegna þessa nýja flensuafbrigðis.

Ég var staddur erlendis þegar fréttir bárust um þetta hræðilega flensuafbrigði. Fréttastofur létu að því liggja að flugferðir milli landa mundu stöðvast innan skamms sem og viðskipti. En til þess kom aldrei sem betur fer og sennilega muna fáir það fár, sem varð á fyrstu dögum þessa meinta ógnarlega vágests. Á þeim tíma sem betur fer tóku hvorki fréttamiðlar né sóttvarnaryfirvöld yfir og tókst ekki að hræða fólk frá því að lifa eðlilegu lífi. Hræðilega svínaflensan geisaði og leið hjá og fáir minnast hennar nú rúmum áratug síðar.

Af fenginni reynslu ættum við að geta gert okkur grein fyrir að það þýðir ekki að reyna að loka landamærum til að koma í veg fyrir að veirusmit berist. Delta afbrigðið dreifðist t.d. með ógnarhraða um allan heim á stuttum tíma. Þá liggur það fyrir að ástandið er síst verra nú í þeim löndum sem eru galopin eins og t.d. Svíþjóð og Spánn en í þeim löndum, sem beita hvað mestum lokunum á ferðafólk.

Af hverju tökum við ekki mið af þessu og tökum upp sömu reglur. 

Fyrr frekar en síðar verður að koma á aðlilegu lífi í landinu sem og á landamærunum. Vandamál Íslands eru ekki bara vondum útlendingum eða smituðum að kenna.

  

 

 


Þegar betur er að gáð.

Nýráðinn ritstjóri Fréttablaðsins Sigmundur áður þingmaður Samfylkingarinnar ritar leiðara í blað sitt í dag og fjallar um fullveldi þjóða. Ritstjórinn telur að fordjarfi Íslendingar ekki fullveldi sínu verði þeir einskonar Kúba. Raunar þekkt samlíking þ.e. Kúba norðursins. 

Eitthvað virðist hugtakafræðin vefjast fyrir ritstjóranum, en helst má skilja skrif hans um aflát fullveldis með þeim hætti, að alþjóðasamningar og samstarf svo og frjáls viðskipti leiði óhjákvæmilega til afsals fullveldis. En það er fjarri lagi.

Síðan tiltekur ritstjórinn þær þjóðir, sem hann telur að hafi mest fullveldi þjóða í heiminum. Þær eru að hans mati, Kúba, Venesúela og Norður-Kórea. Þessi tilvísun er klaufaleg í besta falli. Það eina sem þjóðirnar eiga sameiginlegt, hefur ekkert með fullveldi að gera. Sósíalískar kommúnistastjórnir fara þar með völdin og því pólitískt tengdar hugmyndafræði ritstjórans um Internationalinn sem muni tengja strönd við strönd og þjóðríki leggist af. 

Ritstjóranum datt ekki í hug að nefna Sviss, en þar er hvað besta dæmið um þjóð, sem heldur fullveldi sínu inni í miðri Evrópu og neitar að láta Evrópusambandið kúga sig til afsals fullveldis síns. Ritstjórinn ætti í því sambandi að huga að því sem gerðist nýlega þegar Sviss hafnaði því að verða EES þjóð vegna þess, að þeim hugnaðist ekki fullveldisafsalið, sem það hafði í för með sér. Samt býður Sviss borgurum sínum upp á ein bestu lífskjör í heimi og eru með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Fullveldi er annað og meira en verslun og viðskipti. Hvorki Þjóðverjar né Frakkar afsöluðu sér fullveldi þegar þeir komu á Kola-og Stálsambandinu og það sem þróaðist upp úr því viðskiptasamband Evrópuríkja leiddi ekki til þess fyrr en steininn tók að töluverðu leiti úr með Maastricht samningnum og síðar Lissabon sáttmálanum. Þá breyttist Evrópusambandið í annað og miklu miklu meira en viðskiptasamband aðilarríkjanna með tilheyrandi hlutbundnu fullveldisafsali til Brussel og Strassborgar.

Íslendingar hafa alltaf verið opnir og jákvæðir fyrir samstarfi og viðskiptum við aðrar þjóðir. Sem betur fer hefur meirihluti þjóðarinnar verið sammála um að slík samskipti verði á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar og fullveldisréttar Íslands. Það er fyrst á síðustu tuttugu árum, sem ákveðnir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafa haldið því fram, að fullveldið skipti engu máli, þegar valkosturinn sé framsal hluta sjálfstæðis- og fullveldisréttar þjóðarinnar til yfirþjóðlegs valds gegn þeirri dásemd að öðlast Evru sem gjaldmiðil. 

Því miður er svo komið fyrir okkur, að það eru valdamikil öfl í þjóðfélaginu sem krefjist þess að við afsölum okkur því fullveldi sem við höfum gegn ímynduðum hagsmunum. Þvert á móti ætti umræðan að snúast um nauðsyn þess að endurskoða EES samninginn miðað við þá þróun sem orðið hefur til að tryggja fullveldi þjóðarinnar enn betur en nú er og að því leyti ættum við að horfa til Sviss sem hefur gott samband við allar þjóðir sem vilja hafa samband og samstarf við Sviss á sama tíma og þeir neita að hlusta á erkibiskups boðskap hvort heldur hann er í Niðarósi eða Brussel.

Ekki væri úr vegi að ritstjóri Fréttablaðsins sem og aðrir skoðanabræður hans mundu hyggja að því sem frelsishetja Íslands Jón Sigurðsson forseti sagði í ritgerð sinni 1841 um Alþingi á Íslandi.

"Veraldarsagan ber ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefur þá vegnað best, þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu."

Þessu ættu íslenskir stjórnmálamenn og ritstjórar aldrei að gleyma.

 


Örvunarskammtur spilafíkilsins

Þrátt fyrir að þjóðin hafi öll verið bólusett gegn Kóvíd að undanskildum börnum og unglingum og þeim sem ekki vilja láta bólusetja sig, þá eru fleiri smitaðir nú en nokkru sinni fyrr. Bólusetningin dugði ekki til að koma í veg fyrir smit eða koma í veg fyrir að bólusettir smituðu. 

Sem betur fer virðist veiran hafa tekið þeirri stökkbreytingu, að örfáir veikjast alvarlega þrátt fyrir að sumir álitsgjafar RÚV haldi öðru fram. Öðrum er ekki hleypt að á þeim vettvangi. 

Hvað skyldu þá sóttvarnaryfirvöld telja að helst geti orðið til varnar þeirra sóma?  Jú að fólk fái meira af tilraunabóluefninu. Mælt er með örvunarskömmtum fyrir fólk sem þýðir að það fær viðbótarmagn af bóluefninu sem virkar ekki. Það minnir á viðbrögð spilafíkilsins sem heldur áfram að spila þegar hann hefur eytt öllu sem hann á, en tekur lán í þeirri sannfæringu að næsta spil muni færa honum fjármuni sem leysa muni öll hans vandamál. 

Dapurlegt að hlusta á, að leiðtogar margra helstu lýðræðisríkja heims skuli ætla að banna almenningi sem ekki er bólusettur  að njóta almennra mannréttinda eins að ferðast með almenningssamgöngum, sækja veitingahús eða listviðburði. Er veröldin virkilega orðin galin. Hvernig dettur stjórnmálamönnum í hug að mismuna fólki eftir því hvort það hefur verið sprautað með tilraunabóluefni sem virkar ekki og þeirra sem hafa ekki viljað fá það. 

Frjálshuga fólk sem ann mannréttindum verður að sameinast um það hvar í flokki sem það stendur að verja grundvallarmannréttindi. Mannréttindi eru algild og eiga að vera það og við megum aldrei hvika frá því.  


Aukastörf dómsforseta EFTA dómstólsins í þágu aðildarríkis.

Fyrrum forseti EFTA dómstólsins gagnrýnir eftirmann sinn Pál Hreinsson harðlega í grein sem birtist í Morgunblaðinu 31.júlí s.l. Óvenjulegt er að sjá jafn harðorða gagnrýni frá dómurum um framgöngu eftirmanna sinna og útilokað annað en að taka hana til málefnalegrar umfjöllunar.  

Á s.l. ári fékk ríkisstjórnin Pál Hreinsson dómsforseta EFTA dómstólsins til að vinna álitsgerð um valdheimildir sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra o.fl. til opinberra sóttvarnarráðstafana skv. sóttvarnarlögum o.s.frv. með tilliti til stjórnarskrár. Jafnframt var þess óskað að dómarinn gerði frumtillögur að breytingum á lögum og reglum eftir því sem dómarinn teldi tilefni til. 

Óneitanlega vekur það upp ýmsar spurningar að dómari við alþjóðlegan dómstól, sem fjallar m.a. um aðgerðir íslenska ríkisins og/eða aðgerðarleysi skuli taka að sér lögfræði- og ráðgjafarverkefni fyrir íslenska ríkið. Iðulega reynir á mál gegn íslenska ríkinu fyrir dómstólnum og í álitinu er dómarinn að fjalla um málefni þar sem hæglega getur reynt á EES reglur t.d. varðandi frjálsa för fólks. Þessi aukastörf dómarans eru því með öllu óeðlileg.

Vinna dómarans fyrir íslensku ríkisstjórnina í sóttvarnarmálum vegna Kóvíd vekur upp spurningar um sjálfstæði og hæfi auk þess hvort eðlilegt sé að dómari þiggi verkefnagreiðslur frá ríki sem á undir í ýmsum dómsmálum þar sem hann er dómari.

Lögmannafélag Íslands hlítur að gera athugasemd við óeðlilega samkeppni dómara við alþjóðlegan dómstól við starfandi lögmenn, sem greiða skatta og skyldur til ríkisins og lúta ýmsum reglum um ábyrgð fyrir vinnu sína og hafa sérstaka skyldutryggingu vegna starfa sinna sem dómarinn hefur ekki. 

Á sínum tíma þótti þeim sem þetta ritar þessi skipan mála hjá forsætisráðherra með ólíkindum vegna ákvæða sem gilda um EFTA dómstólinn auk þess sem að framan er getið. En strangar kröfur eru auk þess gerðar til  að sjálfstæði dómara við EFTA dómstólinn verði ekki dregið í efa sbr. 30.gr. samnings milli EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um að óhæði og sjálfstæði dómara við dómstólinn. Við það bætist að í 4.gr.bókunar (protocol) 5 við samninginn um EFTA dómstólinn er m.a. talað um að dómarar skuli ekki taka að sér önnur störf nema með sérstöku samþykki allra ríkisstjórna EFTA ríkjanna.

Ekki liggur fyrir hvort slíks samþykkis hafi verið aflað áður en Páll Hreinsson hóf störf fyrir forsætisráðherra alla vega hefur það hvorki verið birt eða kynnt.

Þessi ákvæði um EFTA dómstólinn auk eðlilegra viðmiðana um aukastörf dómara eru þess eðlis, að Páll Hreinsson dómari verður að gera rækilega grein fyrir aðkomu sinni í íhlaupastörf hjá íslensku ríkisstjórninni og með hvaða hætti hann getur fengið það út, að slíkt samrýmist störfum hans sem óháður og sjálfstæður dómari hjá EFTA dómstólnum. Þögn í þessu sambandi er ekki ásættanleg hvorki frá forsætisráðherra né dómaranum. 

Hvað sem líður hugsanlegum réttlætingum Páls Hreinssonar á þessum aukastörfum fyrir ríkisstjórnina, þá liggur samt fyrir að þetta ráðslag Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er út frá öllum almennum sjónarmiðum og viðmiðunum með öllu óeðlileg og það átti bæði hún og dómarinn að gera sér grein fyrir. 

 


Hóflegar aðgerðir?

Aðgerðir í sóttvarnarmálum, sem ríkisstjórnin kynnti í gær eru skynsamlegar og hóflegar miðað við stöðuna og þær kröfur sem settar eru fram af sóttvarnarlækni og heilbrigðisstarfsfólki. Aðgerðirnar eru tímabundnar og falla sjálfkrafa úr gildi verði þær ekki endurnýjaðar. Þessar aðgerðir takmarka lítið frelsi fólks og koma ekki niður á ferðaþjónustunni.

Um nokkurt skeið hefur verið ljóst, að fólk er  smitast helst í miðborg Reykjavíkur um helgar. Þessvegna var sérstakt að sóttvarnarlæknir skyldi ekki hafa lagt til aðgerðir vegna þess um leið og hann mælti fyrir hertum aðgerðum á landamærunum.

Ríkisstjórnin er samstíga í málinu eins og jafnan í þessum málaflokki og ákveður nú sem betur fer tímabundnar aðgerðir.

Um nokkurt skeið hefur verið látið í veðri vaka af ýmsum fréttamiðlum, að upplausn sé í ríkisstjórninni vegna mismunandi áherslna í sóttvarnarmálum. Þar hefur fréttastofa RÚV farið fremst í flokki og af fréttmönnum á RÚV hefur Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir leikið traustastasta sóknarleikinn til að koma því inn hjá fólki, að nú léki allt á reiðiskjálfi og litlar líkur á að stjórnarsamstarfið yrði endurnýjað eftir kosningar. 

Eftirtektarverðast var þegar Jóhanna dró Ólaf Harðarson fyrrum prófessor einu sinni sem oftar upp úr pússi sínu og spurði hann ítrekað að því hvort ekki væri sýnt að stjórnarsamstarfið væri í hættu vegna ágreinings í sóttvarnarmálum. Ólafur svaraði ítrekað, "jamm og já og humm og ha, kannski og ef til vil og erfitt að segja til um". Þetta barnaði Jóhanna síðan með því að halda fram í yfirskrift þessarar ekki fréttar, að prófessor í þjóðfélagsfræði, teldi verulegan vafa leika á að stjórnarsamstarfið yrði endurnýjað eftir kosningar.

Það sagði prófessorinn raunar aldrei.

Gagnrýna má ríkisstjórnina og stjórnarflokkana fyrir að fela sig stöðugt bakvið sóttvarnarlækni og setja hann í þá óþægilegu aðstöðu að vera í raun sá sem öllu ræður í sóttvarnarmálum. Um þá afstöðu hefur ríkt einhugur innan ríkisstjórnarinnar eins og raunar flestra ríkisstjórna í Evrópu. Vegna þessa afstöðuleysis og skorts á langtímastefnumörkun liggur það ekki fyrir hverju fólk og fyrirtæki mega búist við.

Meginspurningin er sú eftir sem áður.

Ætlum við að lifa með veirunni og þá hvernig eða freista þess að útrýma henni úr landinu? Þeim spurningum verða allir stjórnmálaflokkar að svara fyrir kosningar. 


Hrikaleg gráglettni örlaganna.

Þ.30.september 2005 birtist grein í danska blaðinu Jyllands Posten, sem hét Sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi(selvcensur og ytringsfrihed)Með myndinni fylgdu teikningar af Múhameð spámanni eftir danska skopmyndateiknarann Kurt Vestergård, sem lést fyrir nokkrum dögum.

Skopmyndirnar af Múhameð leiddu til fjöldauppþota múslima um allan heim og ríkisstjórnir flestra Íslamskra landa kröfðust þess að bannað yrði að birta þær og teiknaranum og útgefendum Jyllands Posten yrði refsað. 

Þáv. forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rassmussen, stóð sig vel og sagði Danmörku lýðræðisland, sem virti tjáningarfrelsi. 

Fjöldamótmæli urðu í Íslömskum ríkjum, danski fáninn var brendur,kveikt var í sendiráðum Dana í Damascus og Beirut, danskar vörur eyðilagðar í verslunum og bannað að kaupa þær. Fornaldarveldið Saudi Arabía birti lista yfir danskar vörur og fyrirtæki sem á bannlista m.a. Radisson SAS hótelin, 7 up, Halls hálsbrjóstykur, Carlsberg o.fl. o.fl.

Það voru örfáir, sem þorðu að birta Múhameðs teikningarnar. Eitt blað í Noregi, gerði það og þáv.forsætisráðherra Noregs og núverandi framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg,Kallaði Vebjörn ritstjóra blaðsins á teppið skammaði hann og sagði hann hafa leitt skömm yfir Noreg. Mikil virðing fyrir lýðfrelsi þar.

Danska lögreglan gætti Kurt Vestergård teiknara eftir þetta allan sólarhringinn og útbúið var sérstakt neyðarherbergi í íbúð hans ef svo illa tækist til að íslamistar kæmust inn. 

12.febrúar 2008 handtók danska lögreglan marga Íslamista vegna fyrirhugaðs morðs á Vestergård. Daginn eftir birtu 17 fjölmiðlar Múhameðs teikningar Vestergård. Síðan hafa þær ekki birst í fjölmiðlum. Endurbirting myndanna leiddi til óeirða í Pakistan og Gaza svæðinu, hvatt var til sniðgöngu á dönskum vörum og kveikt í dönsku sendiráði.

Síðar voru fleiri morðtilræði gegn Vestergård.

Við andlát Vestergård hefði mátt búast við því að einhverjir fjölmiðlar birtu myndir hans af Múhammeð spámanni. Svo varð ekki. Sjálfritskoðun fjölmiðla á Vesturlöndum er svo mikil. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt þegar litið er til þess hve marga Íslamistarnir hafa drepið í hinum kristnu löndum Evrópu fyrir að þeirra mati að hafa móðgað þá eða þennan spámann þeirra. Svo ekki sé minnst á þegar þeir drápu alla ritstjórn og stóran hóp blaðamanna franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. 

Það sýnir sig vel hvað sjálfsritskoðunin í Vestrænum löndum er mikil, að nú við andlát Vestergård þorir ekki einn einasti fjölmiðill að birta skopmyndir hans. 

Ég sótti ráðstefnu á vegum félagsins "Tjáningarfrelsið" í Danmörku á 10 ára afmæli birtingar Múhammeðsteikninganna í september 2015 við það tækifæri var vakin athygli á því að þó að ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um þetta afmæli, þá birti engin myndirnar. Einnig að vegna ráðstefnunnar þá þurfti sérstaka öryggisgæslu og fundarstaðurinn var vaktaður og nákvæm leit var gerð á öllum sem sóttu ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni var m.a. sagt frá því, að í dönskum skólum væri fjallað um Múhammeðsteikningarnar og viðbrögð Íslamska heimsins við þeim, en myndirnar væru hvergi sjáanlegar og þegar dönsk skólayfirvöld hafa verið innt eftir af hverju, þá hefur verið svarað, að þær skiptu ekki máli í þessu samhengi. 

Hvað skyldi þá skipta máli í samhenginu?

Hinn hrikalega gráglettni örlaganna er sú, að myndirnar, sem prýddu grein um sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi fæst hvergi birt vegna sjálfsritsskoðunar og hræðslu við að nýta tjáningarfrelsið. 

 

 

 


Þú mátt það fyrir mér

Á dögum vöruskömmtunar eftir stríð voru embættismenn, sem gátu bannað innflutning á ákveðnum vörum og ákveða hverjir fengu uppáskrifað að þeir mættu kaupa slíkar vörur m.a. nauðsynjar  þess tíma eins og kol. Eftir að reglurnar voru afnumdar áttu sumir þessara embættismanna erfitt með að sjá á eftir valdi sínu og létu í veðri vaka að þeir réðu og full þörf væri á því fyrir velferð þjóðarinnar. 

Einn slíkur valdsmaður skrifaði neðangreinda yfirlýsingu eftir að meint þjóðhagsleg þörf fyrir skömmtunarstörf hans var liðin en hann lýsti yfir eftirfarandi:

"Jón Jónsson smiður Holtsgötu 33 Reykjavík, má kaupa 3 kolapoka fyrir mér."

Sóttvarnarlæknir, hefur undanfarna daga velt því fyrir sér hvað hann gæti gripið til bragðs, til að sýna valdsmannslegan myndugleika vegna Cóvíd smita að undanförnu. 

Loksins tók sóttvarnarfjallið jóðsótt og varð þá að hans mati helst til varnar vorum sóma, að ferðamenn innlendir sem erlendir, bólusettir sem óbólusettir yrðu að fara í sýnatöku innan við 72 stundum áður en þeir kæmu til landsins. 

Þetta ráðslag er næsta sérkennileg þegar ítrekað hefur komið í ljós, að ferðamenn, sem hafa skilað slíku vottorði við hingaðkomu greinast síðar smitaðir eftir nokkra dvöl í landinu, án þess að hafa smitast hér.

Þessar ráðstafanir eru verulega kauðskar skoðað í því ljósi, að helsta smitleiðin er ekki tengd landamærunum. En heilbrigðisráðherra og sóttvarnarlæknir starfa eftir einkunarorðunum.

"Til hvers að hafa vald ef maður notar það ekki."  

Í tilefni dagsins fannst heilbrigðisráðherra rétt að fordæma ábyrgðarleysi samstarfsflokks síns Sjálfstæðisflokksins og taka sér til fyrirmyndar faríseann sem stillti sér upp til bæna við hlið tollheimtumannsins í musterinu forðum, sbr. dæmisögu Jesú, til að gera Guði sínum grein fyrir hve miklu betri hann væri en tollheimtumaðurinn sem sýndi þó fulla einlægni og iðrun ólíkt faríseanum. 

 

 

 


Vertu öruggur um leiðina

Á síðasta degi fjöldabólusetningar gegn Covíd boðaði sóttvarnarlæknir á ný upplýsingafund vegna aukinna smita. Á þeim fundi kom fram, að bólusetningar veita ekki vörn gegn smiti og bólusettir geta smitað. 

Eðlilega eru þetta vonbrigði fyrir alla. Lærðir sem leikir höfðu fram að þessu trúað að með fjöldabólusetningum myndaðist hjarðónæmi, við yrðum laus úr viðjum ótta og innilokunar og lífið gengi eftir það sinn vanagang eins og það var fyrir janúar 2020. 

Nú er hnípið veirutríó í vanda og veit ekki hvað í ósköpunum á til bragðs að taka. Fullyrðingar um bólusetningar hafa reynst rangar eða í besta falli gróflega yfirdrifnar. Smit aukast, en engin veikist samt alvarlega eftir því sem sóttvarnarlæknir upplýsir.

Vegna aukinna smita þó ekki alvarlegra íhugar sóttvarnarlæknir nú að grípa til aðgerða þó hann viti ekki hverjar þær eigi að vera, vegna þess að e.t.v. í framtíðinni komi í ljós, að einhverjir sem veikjast þurfi á spítalainnlögn að halda. 

Slíkar forsendur fyrir því að hefta borgaralegt frelsi eru vægast sagt ófullburða.

Telji sóttvarnarlæknir nú, að bólusetningar komi ekki í veg fyrir alvarlegar afleiðingar Cóvíd smita,þá hefur hann því miður haft rangt fyrir sér og búið er að bólusetja þorra þjóðarinnar með bóluefni á tilraunastigi, sem ekki sér fyrir endan á hvaða afleiðingar muni hafa á framtíðarheilsufar þjóðarinnar. Bóluefni sem framleiðendur taka enga ábyrgð á ekki einu sinni virkni framleiðslunnar, en ríkisvaldið taldi samt nauðsynlegt að dæla í fólk án nokkurs fyrirvara og skerti réttindi þeirra sem ekki létu bólusetja sig.

Hafi sóttvarnarlæknir rétt fyrir sér um virkni bólusetningar fyrir þá sem smitast, þá er lítil ástæða til að grípa til annarra aðgerða en að brýna fyrir fólki einstaklingsbundnar varnir.

Vafalaust hefðu stjórnvöld átt að tileinka sér einkunarorð bandarísku frelsishetjunnar Davy Crockett í allri þessari baráttu: "Vertu öruggur um leiðina og haltu síðan áfram." 

 

 

 


Für das Volk /Fyrir þjóðina

Í fána kommúnistaríkisins Austur Þýskalands var aðalatriðið vígorðið "fyriþjóðina" (Für das Volk).

Nú hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti gert þessa stefnu að sinni og segir þá sem hafa ekki látið bólusetja sig gegn Cóvíd séu óvinir þjóðarinnar og stefni samfélaginu í hættu. Í frétt rétthugsunar fréttastofu ríkisins (FÚV)var því bætt við að vondir Repúblikanar og Trumpistar væru óvinir þjóðarinnar og væru á móti bólusetningum. Hvoru tveggja alrangt en skiptir í sjálfu sér ekki máli.

Fréttafólk leitar ekki skýringa á því af hverju stór hópur fólks vill ekki láta bólusetja sig. Helstu fréttamiðlar og talsmenn heilbrigðisstofnana gera sitt til að kæfa alla umræðu um alvarlegar afleiðingar Cóvíd bólusetninga og málið er drifið áfram hér á landi sem einskonar Guðdómlegur gleðileikur með undirspili hljómsveita og aðkomu vinsælla plötusnúða og listamanna. 

Til að kóróna rétthugsunina eru síðan myndatökur af helstu hetjum Cóvíd baráttunnar eins og Kára, land- og sóttvarnarlækni. Svona á þetta að vera og vei ykkur fáráðar sem hlýðið ekki kallinu. 

En er það ekki skiljanleg afstaða og langt frá því að vera fordæmanleg, að einstaklingar vilji bíða og sjá til meðan bóluefnin eru þannig, að jafnvel framleiðendur þeirra þora ekki að taka ábyrgð á þeim. Er það einhver goðgá að hafa aðrar skoðanir en þær viðteknu? 

Eftir fjöldabólusetningar undanfarna mánuði þá verður ekkert sagt með vissu um afleiðingar bólusetninganna til langs tíma. Ekkert verður fullyrt um þýðingu þeirra gagnvart mismunandi afbrigðum Cóvíd og aðalatriðið er að framleiðendurnir þora ekki að taka ábyrgð á þeirra eigin framleiðslu. Vitað er um fjölda dauðsfalla í kjölfar bólusetninga og alvarlegar aukaverkanir.

Við þær aðstæður er þá ekki fordæmanlegt að forustufólk í stjórnmálum og heilsugæslu skuli gera þá kröfu að fólk fórni sér fyrir þjóðina, þó ekki liggi ljóst fyrir hvort sú fórn þjóni tilgangi. Væri ekki eðlilegra að hafa opna og öfgalausa umræðu um málið og krefjast þess að öll gögn og staðreyndir varðandi bólusetningarnar verði lögð á borðið. 

 

 

 


"America is back"

Slagorð Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir NATO ráðstefnuna í síðustu viku var "America is back" Þetta slagorð, sem ráðgjafar hans bjuggu til áður en haldið var á leiðtogafund G7 ríkjanna og NATO átti að sýna a.m.k. vestrænum bandalagsþjóðum Bandaríkjanna, að nú væri annað uppi á teningnum en á tímum Trump.

Að loknum fundunum,liggur því miður fyrir, að Bandaríkjaforseti sýndi af sér afgerandi veikleika, sem fréttamiðlar heimsins gæta vel að greina sem minnst og helst ekkert frá. Öðru vísi fólki áður brá, þá er Trump reið um þessi héruð.

Það var aldrei hægt að saka Trump um að sýna af sér veikleika. Hann herti refsiaðgerðir gegn hryðjuverkastjórninni í Íran og var óragur við að beita hervaldi til að rústa ríki Ísis í Sýrlandi og Írak svo dæmi séu nefnd. 

Óneitanlega var dapurlegt að sjá Bandaríkjaforseta ítrekað rugla saman Sýrlandi og Líbanon og hafa engan boðskap að flytja á leiðtogafundi G-7 ríkjanna t.d. varðandi stefnu uppbyggingar og framsækni eftir Covid hörmungarnar. Ekkert hafði hann heldur fram að færa varðandi ögranir og áskoranir Kínverja og sýndi með því afgerandi skort á forustuhæfileikum auk þess, sem það liggur fyrir að utanríkismálastefna Bandaríkjanna er í besta falli óljós en í versta falli afturhvarf til Obama-Hillary Clinton undanlátsstefnunnar.

Kína og Rússland geta verið öruggari með sjálf sig og Kínverjar sér í lagi með útþennslustefnu sína þegar nú því miður liggur fyrir öryggisleysi og vanhæfni Bandaríkjaforseta á vettvangi alþjóðastjórnmála.

En það er slæmt fyrir hinn lýðfrjálsa heim. Hinn svokallaði lýðfrjálsi heimur ætti líka að huga að því með hvaða hætti helstu fréttamiðlar heims eru reknir þ.e. hvernig fréttamiðlar brugðust við hverju ónytjuorði Donald Trump og með hvaða hætti þessir sömu fjölmiðlar skauta nú algerlega framhjá því að tala um veikleika og vanhæfni Joe Biden. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 477
  • Sl. sólarhring: 620
  • Sl. viku: 3657
  • Frá upphafi: 2514157

Annað

  • Innlit í dag: 444
  • Innlit sl. viku: 3414
  • Gestir í dag: 428
  • IP-tölur í dag: 419

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband