Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Hjarðhræðslan

Sennilega hefur yfirvöldum aldrei í veraldarsögunni, tekist jafnvel og á síðasta rúma ári, að koma á alræði óttans og blindri hlýðni fólks við yfirvöld. Þetta er ekki staðbundið heldur á heimsvísu. Bandalag fjölmiðla, fyrirfólks í læknisfræði og stjórnmálamanna tryggði þessa algjöru hugrænu undirokun og uppgjöf mannsandsans fyrir ofurvaldi "sérfræðinnar" og valdsins.

Þrígengið sem var í raun fjórgengi hélt daglega ógnar- og hræðslufundi til að tryggja algjöra hlýðni við minnisblöð sóttvarnarlæknis og reglugerðir heilbrigðisráðherra. Alþingi laut valdi "sérfræðinnar" þegjandi og hljóðalaust að einum undanskildum og ungaði út nýjum sóttvarnarlögum og síðar breytingum við sóttvarnarlögin.

Raunar hefði mátta auðvelda Alþingi og ráðuneytisstarfsmönnum vinnuna með því að setja í lög einfalt ákvæði í samræmi við það sem vilji Alþingis stóð til. Það hefði getað hljóðað svona:

"Nú er það mat sóttvarnarlæknis, að grípa þurfi til einhverra þeirra aðgerða, sem heimilaðar eru í lögum þessum og skal þá gripið til þeirra aðgerða án nokkurs fyrirvara."

Eini þingmaðurinn á Alþingi sem andæfði þessari skefjalausu hjarðhegðun Alþingis og valdaframsali, Sigríður Andersen mátti gjalda fyrir stöðutöku með frelsinu og var tekin af lífi pólitískt, í bili, fyrir þá sök, að standa með frelsinu gegn helsinu. 

Loksins rann upp stund fagnaðar fyrir hrjáð og hrætt fólk og bóluefni komu fram í stríðum straumum. Þau eru þó með þá vankanta, að þau hafa ekki fengið tilskyldar prófanir, framleiðendur efnanna neita að taka ábyrgð á þeim og þrátt fyrir að aukaverkanir komi fram, er reynt að þegja þær í hel og láta sem ekkert c.

Fyrir skömmu komust opinberir álitsgjafar að því að af fjölmörgum dauðsföllum í kjölfar bólusetninga þá væri ekki hægt að fullyrða óyggjandi að nokkuð þeirra væri tengt bólusetningunni nema e.t.v. eitt. Hefði sömu aðferðarfræði verið beitt gagnvart meintum dauðsföllum af hálfu Cóvíd er líklegt að komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra væri óyggjandi tengt Cóvíd heldur undirliggjandi sjúkdóma nema e.t.v. eitt eða tvö. 

En guðdómlegi gleðileikur bólusetninganna skal leikinn af fullri orku. Sjónvarpsstöðvar sýna aftur og aftur á hverjum degi þegar hópur fólks er sprautaður og fjórgengið hvetur fólk til að láta bólusetja sig og það er talið jafnbrýna svikum við þjóðina að skerast úr leik. Jafnvel þó um bóluefni sé að ræða, sem nágrannaþjóðir okkar hafa tekið úr umferð og telja hættuleg.

En er ekki of langt gengið þegar verið er að bólusetja ungt fólk og unglinga með efni, sem framleiðandinn tekur enga ábyrgð á. Efni, sem hefur ekki verið prófað með eðlilegum hætti. Efni sem gæti haft mjög alvarlegar aukaverkanir í framtíðinni. Látum vera þó að eldri borgarar og þeir sem eru í námunda við það glæpist á þessu, en er það virkilega svo, að ráðamenn telji eðlilegt að troða tilraunaefnum í fólk, sem skv. könnunum og reynslu er ekki í neinni verulegri hættu jafnvel þó það smitist af hinni raunverulegu veiru.

Valdboðinu skal síðan fylgt út í æsar. Venjulegt vegabréf verður ekki nóg í framtíðinni heldur kemur auk þess bólusetningarvegabréf Evrópusambandsins og þeir sem hafa það ekki mega sig hvergi hræra nema innanhúss og e.t.v. innanlands.


Ráðgjafinn snjalli

Formaður Samfylkingarinnar Logi Einarsson er maður mikilla sanda og mikilla sæva eins og alþjóð veit. Nýlega samþykkti danska þingið með miklum atkvæðamun frumvarp Mette Fredriksen forsætisráðherra Dana um breytingar á útlendingalöggjöfinni, sem er ætlað að koma í veg fyrir að hælisleitendur og annar sambærilegur mannsöfnuður leiti eftir vist í Danmörku. 

Formanninum hugumstóra Loga Einarssyni hugnast ekki þessi stefna sagði henni, að með þessu færu Danir villur vegar í útlendingamálum. Mette svaraði og sagðist mega heyra formannsins orð, en ráðin væri hún í að hafa þau að engu, þar sem þau væru glórulaus vitleysa. Logi mun ekki hafa gefist upp við svo búið heldur bent á að með þessu væru danskir kratar búnir að taka upp stefnu Piu Kærsgaard og Framfaraflokksins í útlendingamálum. Mette sem er skynsemishyggjustjórnmálamaður telur að það sé sama hvaðan gott kemur.

Hinn hugumstóri formaður Samfylkingarinnar mun síðan hafa farið hnugginn og sneyptur af samskiptamiðli þeirra Mette  sér í lagi eftir að Mette benti hinum íslenska sósíalistaforingja á, að hann og flokkur hans væri orðinn eins og nátttröll í útlendingamálunum í samfélagi norrænna krata, sem allir væru horfnir sem lengst frá "open border" leið Samfylkingarinnar.

Nú er stóra spurningin hvort Helga Vala Helgadóttir og Logi Einarsson og e.t.v. allur þingflokkur Samfylkingarinnar, muni sýna Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana á sér skutstykkið þegar þau eiga þess kost að hlusta á hana tala, með svipuðum hætti og Helga Vala Helgadóttir gerði á Þingvöllum forðum þegar Pia Kærsgaard skoðanasystir Mette Frederiksen í þessu máli ávarpaði á hátíðarsamkomu á Alþingis fyrir nokkrum árum. Allavega ætti Helga Vala að gera það ef hún vill vera samkvæm sjálfri sér.   


Aftur til fortíðar

Í júní 1974 var ég í Berlín ásamt vini mínum Haraldi Blöndal heitnum. Við ákváðum að fara austur fyrir þáverandi Berlínarmúr, til Austur Berlínar.

Þegar við komum á brautarstöðina austan múrsins tóku við passaskoðanir og skimanir. 

Eftir þrjár atrennur skoðana að okkur félögum komumst við í gegn og inn í Austur Berlín. 

Í gær kom ég til landsins frá útlöndum og þar biðu jafnmargar skoðanir og skimanir og í Austur Berlín forðum.

Svona er þegar stjórnvöld telja einstaklinga fyrirfram hættulega, jafnvel þó þeir hafi vottorð upp á hið gagnstæða. 

Annað sem mér fannst annkannanlegt. Enginn af þeim sem ég þurfti að eiga samskipti við í þessum þrem móttökustöðum Cóvíd óttans talaði íslensku. Hvað varð að þjóðernislegum metnaði þessar þjóðar varðandi íslenska tungu. Hvers eiga Íslendingar að gjalda að geta ekki talað eigið tungumál í eigin landi þegar þeir meira að segja ræða við fulltrúa innlends allmannavalds.

 


Hatursorðræðan og glæpasamtökin

Fyrir nokkru var forgangsraðað með þeim hætti í lögreglunni, að stofnuð var sérstök deild til að fylgjast með hatursorðræðu. Þeir glæpir hafa aldrei verið fyrirferðamiklir í íslensku samfélagi eða skaðað fólk verulega eða valdið því fjörtjóni.

Á sama tíma er ljóst, að að það eru önnur mál, sem skipta meira máli fyrir heill og öryggi borgaranna.

Þá er einnig ljóst, að lögreglan er of fáliðuð og hefur orðið hlutfallslega fáliðaðri á undanförnum árum, þrátt fyrir að verkefnin hafi vaxið með auknum íbúafjölda og gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Dómsmálaráðherra hefur ekki gætt þess, að gera tillögur um og sjá svo til, að lögreglan sé svo búinn hvað varðar mannskap, tæki og aðbúnað að hún geti sinnt brýnustu verkefnum sínum. 

Það segir e.t.v. sína sögu, að á sama tíma og lögreglumenn eru uppteknir viða að skoða meinta hatursorðræðu á samfélagsmiðlum, þá skuli ná rótfestu í landinu 15 erlend glæpagengi, eftir því sem yfirmenn í lögreglunni greina frá. Þau víla ekki fyrir sér að fremja alvarlega glæpi, sem varða líf og heilsu borgaranna.

Það er óneitanlega ámælisvert,að dómsmálaráðherra skuli ekki hafa gert neitt í þessu máli og forgangsraðað fyrir öryggi borgaranna en ekki gæluverkefni. 


Svörtu herdeildirnar

Í víðlesnasta blaði Þýskalands "Bild" var forsíðufrétt í gær um fjöldagöngu svartklæddra Íslamista í Hamburg (Islamisten Afmarch mitten in Hamburg). Sagt er frá því að borg og ríki hafi ekkert gert þrátt fyrir að gangan og kröfur göngumanna hafi verið svipaðar og fyrir rúmri öld síðan í Hamburg og öðrum borgum Þýskalands.

Þá voru það brúnu herdeildirnar, sem Horst Wessel orti um í flokkssöng stjórnmálaflokksins, að rýma ætti göturnar fyrri brúnu herdeildunum. Nú eru það Íslamistarnir sem krefjast þess að göturnar verði rýmdar fyrir svörtu herdeildunum og Gyðingum útrýmt.

Svörtu herdeildirnar hafa sitt merki á einkennisbúningunum sínum. Hjá þeim er það blóðdropi en hakakrossinn hjá samtökunum sem marséruðu fyrir öld síðan. Enn beinist hatrið að Gyðingum, lýðræði, vestrænni menningu og trúleysingjum, þeim sem ekki játa viðunandi útgáfu af Íslam. 

Þetta er að gerast í miðri Evrópu. Miðað við þann fjölda ungs Múhameðstrúarfólks, sem fór til að berjast og fremja hryðjuverk fyrir Íslam undir gunnfána ÍSIL, þá eiga þessar ótrúlegu öfgar og mannvonska víðtækan stuðning meðal þessa trúarhóps í Evrópu.

Helsta ógnin sem steðjar að Evrópu í dag er innan þjóðfélaganna sjálfra hið pólitíska Íslam. Það er fólk sem hafnar vestrænum gildum. Hafnar hugmyndafræði lýðræðis og mannréttinda og telur afsakanlegt að refsa hverjum þeim og jafnvel taka af lífi, sem tala niðrandi um Íslam eða standa í vegi fyrir liðsmönnum svörtu herdeildanna. Gyðingar eru í sérflokki, eins og kemur fram í stefnu Hamas í Gyðingalandi, en stefna Hamas er að útrýma öllum Gyðingum hvar svo sem þeir finnast. Múslimska bræðralagið er ekki langt undan í þessari hugmyndabaráttu. 

Það er til marks um andvaraleysi og vilja til að loka augunum fyrir staðreyndum, að dómsmálaráðherra skuli hafa hlutast til um að félagi í hryðjuverkasamtökunum Múslimska bræðralagsins var ekki vísað úr landi á síðasta ári, sem og ýmsum öðrum, sem hafa ekki rétt til þess að koma hingað eða dvelja hér svo fremi að kæmu fram mótmæli gegn ákvörðunum löglegra stjórnvalda um að vísa viðkomandi aðilum á brott. 

Þrátt fyrir vitlausustu útlendingalög Evrópu, sem opna landið upp á gátt,þá dugar það ekki til. Öfgaliðið, sem vill koma Evrópu frá því að vera frjálslynd álfa lýðræðis og mannréttinda og lúta einmenningu íslamistanna, sækir stöðugt á.  Það verður aldrei hægt að gera því liði til hæfis nema fórna eigin gildum og þjóðmenningu. Það hefðu íslenskir stjórnmálamenn átt að sjá fyrir löngu. En sumum þeirra er í mun að tryggja það, að við lendum í því sama og Þjóðverjar að allt í einu verði göturnar ekki lengur okkar heldur svörtu herdeildanna.

Franskir hershöfðingjar ályktuðu fyrir nokkru um ástandið í Frakklandi og ljóst að þeir eru ekki í vafa um að helsta ógnin sem stafar að öryggi Frakklands er innan Frakklands sjálfs hin nýja heredeild pólitísks Íslam.

Þrátt fyrir þetta hamast íslensk stjórnvöld og sérstaklega ákveðnir stjórnmálamenn við að hlaða inn fólki, sem afneitar vestrænum gildum, menningu og stjórnarfari. 

 


Ralph Nader

Ralph Nader var þekktasti talsmaður neytenda um árabil í Bandaríkjunum og öðlaðist heimsfrægð. Hann varð þekktur þegar hann gagnrýndi bandaríska bílaiðnaðinn fyrir að sinna ekki öryggismálum. Í framhaldi af því skrifaði hann bókina "Unsafe at any speed".(óörugg á hvaða hraða sem er) um bifreið af tegundinni Corvair, sem General Motors framleiddi.

Viðbrögð General Motors þá stærsta fyrirtækis Bandaríkjanna, var ekki að bregðast við gagnrýninni og lagfæra galla í framleiðslu sinni heldur að veitast persónulega að Ralph Nader til að reyna að gera hann ómerkan.

Öldungardeildarþingmaðurinn Abe Ribicoff tók málið upp að höfðu samráði við Nader og málið var rannsakað og þá kom í ljós, að General Motors hafði ráðið einkaspæjara til að afla neikvæðra upplýsinga um Nader til að gera hann tortryggilegan, en ekki nóg með það þeir höfðu leigt vændiskonur til að leggja snörur fyrir Nader og honum var veitt eftirför. Allt var gert til að reyna að finna eitthvað neikvætt um Nader í stað þess að svara gagnrýninni. 

Málið endaði með þeim hætti, að General Motors var dæmt til að greiða Ralph Nader 425.000 dollara vegna brots á friðhelgi einkalífs og fleira. Nokkru síðar afgreiddi Bandaríkjaþing lög sem gerði kröfur til aukins öryggis í bandarískri bílaframleiðslu.

Þetta er rifjað upp hér af gefnu tilefni. Það er ekki ásættanlegt að stórfyrirtæki reyni að svara gagnrýni með að gera lítið úr eða veitast að gagnrýnandanum persónulega og brjóta gegn friðhelgi einkalífs hans.

Mér er ekki kunnugt um að nokkur þingmaður  á Bandaríkjaþingi hafi treyst sér til að verja þessar löglausu aðfarir General Motors gegn Ralph Nader á sínum tíma. 

Á sama tíma og gæta verður þeirrar meginreglu, að enginn sé sekur fyrr en sekt hans er sönnuð, þá er að sama skapi óafsakanlegt að vega að friðhelgi einkalífs einstaklinga, sem setja fram gagnrýni, jafnvel þó hún sé röng. Það eru með öllu óásættanlegar aðfarir hver eða hverjir svo sem í hlut eiga.

 


Sigríður brást ekki.

Ríkisvaldið lætur engan fá peninga nema með því að taka þá frá öðrum. Það er sú ófrávíkjanlega staðreynd, sem ætti öllum að vera ljóst.

Með því að auka millifærslur deilir ríkið út meiri peningum til sumra, sem það tekur frá öðrum. Um leið er verið að taka frelsi af fólki til að hafa sjálft ákvörðunarvald um, hvernig það vill eyða peningunum sínum.

Meðan Kóvíd hefur lamað þjóðfélagið virðist, sem ráðamenn hafi gjörsamlega misst tengslin við fjárhagslegan raunveruleika og talið að þar sem hvort sem er væri verið að eyða um efni fram, þá munaði ekkert um milljarð í viðbót í þetta eða hitt,sem ekki verður með nokkru móti tengt Kóvíd.

Þó talað sé um að þetta verði auðvelt að leysa þegar Kóvíd fer og ferðamenn flykkjast á nýjan leik til landsins, þá gleymist, að árið fyrir Kóvíd,var ríkissjóður ekki sjálfbær.

Nú hefur menntamálaráðherra Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, knúið fram í algjöru ábyrgðarleysi sérstakan stuðning við einkafyrirtæki, sem reka fjölmiðla. Helstu fyrirtækin sem gera það eru í eigu auðmanna. Það skiptir e.t.v. ekki máli, en er það ekki og á það ekki að vera aðalsmerki einkareksturs, að hann sé rekinn á áhættu þeirra sem reksturinn eiga og þeir njóti síðan ágóðans. Eða á það að vera þannig, að skattgreiðendur greiði og síðan njóti eigendurnir ágóðans. Þá er forsenda samkeppnisrekstrar orðin ansi veik.

Nú hefði maður ætlað,að þingmenn stjórnmálaflokka,sem berjast fyrir einstaklingsfrelsi og takmörkuðum ríkisumsvifum hefðu greitt atkvæði gegn því að taka peninga frá skattgreiðendum til að borga til fjölmiðla,sem almenningur hefur jafnvel engan áhuga á. En nei. Aðeins einn þingmaður stóð sig þegar kom að atkvæðagreiðslunni Sigríður Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra.

Sigríður Andersen á heiður skilið fyrir það að vera enn í hugmyndafræðilegum tengslum við það sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir. En það er synd, að hún skyldi vera sú eina.


Aðför að tjáningarfrelsi og lýðræðishugsjóninni

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi þvinguðu flugvél Ryanair á alþjóðlegri flugleið til að lenda í Minsk. Ástæðan var, að ná til 26 ára frétta- og andófsmanns Roman Protasevich 

Protasevich flúði frá Hvíta-Rússlandi 2019 og fór til Póllands, þar stofnaði hann útvarpsstöðina Nexta, sem er með meira en 2 milljónir áskrifenda. Í mótmælunum í fyrra gegndi Nexta miklu hlutverki í því að miðla upplýsingum. Þess vegna þarf að þagga niður í honum. 

Protasevich sótti um hæli í Póllandi árið 2020 en skömmu síðar ásökuðu kommúnistarnir sem stjórna Hvíta-Rússlandi hann um að raska almannafriði, lögum og reglu. Við því liggur allt að 12 ára fangelsi þar í landi. 

Einræðis- og ógnarstjórnir vita, að stjórnmálamenn á Vesturlöndum eru pappírstígrisdýr þegar kemur að því að standa vörð um mikilvæg mannréttindi sem skipta miklu í lýðræðisríki.

Í Tyrklandi situr Erdogan, sem hefur fangelsað hundruði blaða- og fréttamanna auk fjölda annarra vegna álíka atriða og Protasevich er gefið að sök. Samt gera Vesturlönd allt fyrir Erdogan. Hann er í NATO og Evrópusambandið vill fá hann inn.

Það kom því vel á vondan þ.e. Erdogan, þegar æðstu stjórnvöld í Saudi Arabíu myrtu blaðamanninn Yamal Khashoggi í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbul í október 2018. 

Viðbrögð Vesturlanda við þessum bolabrögðum Tyrkja og Sáda gegn tjáningarfrelsi og lýðræði eru nánast engin. Eðlilega telur einræðisherrann í Hvíta Rússlandi, Lúkjasjenkó, að hann komist upp með það sama og Tyrkir og Sádar.

Vesturlönd brugðust þegar fyrst reyndi á gagnvart þursaríkjum. Það var þegar Khomeni þá einræðisherra í Íran, kvað upp líflátsdóm yfir Salman Rushdie rithöfundi í Bretlandi í febrúar 1989. Salman Rushdie hefur verið í felum undir lögregluvernd síðan þá. 

Þursarnir vita vel, að þeir geta farið sínu fram gegn lýðræði og mannréttindum. Vesturlönd munu láta í sér heyra, en síðan fjarar það út, en er ekki kominn tími til að taka á þeim öllum og móta sameiginlega stefnu gegn þursaríkjunum, sem virða engar lýðræðislegar leikreglur í samskiptum við eigin borgara?

 


Gleymda stríðið

Fjölmiðlar í okkar heimshluta sem og stjórnmálamenn hafa vart mátt vatni halda yfir viðbrögðum Ísraelsmanna við árásum Hamas liða á Ísraelska borgara. Á sama tíma er stríð í gangi, mun alvarlegra og kostar margfalt fleiri mannslíf. En því hafa íslenskir fjölmiðlar algerlega gleymt.

Sex mánuðir eru liðnir frá innrás Eþíópíuhers inn á land Tigray fólksins í Eþíópíu með stuðningi hers Eritreu. Forsætisráðherra Eþíópíu Abiy Ahmed friðarverðlaunahafi Nóbels,vílar ekki fyrir sér, að ráðast gegn þjóðarbroti Tigray í landinu. 

Sagt er að tugir þúsunda hafi fallið og mun fleiri flúið til nágrannaríkisins Kenýa. 

Auk þess að drepa tugi þúsunda eru heilu þorpin brennd, konum nauðgað kerfisbundið og grunur leikur á að óleyfileg efnavopn séu notuð gegn þjóðarbroti Tigray í Eþíópíu.

Hvað veldur því að þetta hroðalega stríð fer framhjá fjölmiðlum að mestu og hvernig stendur á því að alþjóðasamfélagið lætur þetta viðgangast. Af hverju er ekki kallað eftir fundum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og afhverju er Bandaríkjaforseti ekki krafinn um aðgerðir og afstöðu eins og þegar Hamas liðar eiga í hlut. Eða þá Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Því miður sýnir þetta þá dapurlegu staðreynd hvar nútíma fjölmiðlun er stödd og hversu sér pólitísk hún er. Auk þess sýnir hún þá dapurlegu staðreynd, að alþjóðasamfélagið bregst ekki við og kemur ekki til varnar fólki í brýnni neyð eins og Tigray fólkinu í þessu tilviki, þegar engin telur sig eiga hagsmuni að gæta. 

En ástandið er eftir sem áður dapurlegt og óafsakanlegt og heimurinn getur ekki horft á þetta þjóðarmorð á Tigray þjóðinni lengur án þess að stöðva þjóðarmorðið, beitingu efnavopna og aðra stríðsglæpi, sem framin eru í tilraun friðaraverðlaunahafans til að eyða Tigray þjóðinni í Eþíópíu.

Ég vænti þess af utanríkisráðherra og ríkisstjórninni að þetta mál verði tekið upp strax. Það hefur ekki þolað bið í hartnær hálft ár.


Seinfærasta barnið í bekknum.

Í fyrradag að okkar tíma sprungu þrjár bílsprengjur við stúlknaskóla í Kabúl höfðborg Afganistan. Sprengjunum var þannig fyrirkomið og tímastilltar, að þær gætu drepið sem flestar skólastúlkur. Fyrsta sprengjan sprakk við skólann og stúlkurnar og kennarar þustu út á götu en þá sprungu tvær til viðbótar allt gert til að drepa sem flestar. 

Enginn velkist í vafa um að öfgafullir Íslamistar, sem allt of mikið er af á þessum slóðum, bera ábyrgð á þessum morðum. En hvað getur eiginlega fengið fólk til að drepa unglingsstúlkur, sem ekkert hafa til saka unnið í og við skólann sinn? Það er tryllingsleg mannvonska, sem við skiljum ekki. Hver var glæpur þeirra? Jú að þær voru í skóla. Þær vildu afla sér menntunar.

Við skiljum heldur ekki, að víða í Íslamska heiminum eru konur undirokaðar og fjöldi Íslamista telur það synd gegn trúnni og spámanninum, að konur mennti sig. 

Íslam er í dag og hefur verið lengi, seinfærasta barnið í bekknum hvað varðar viðurkenningu staðreynda, mannréttindi og menningu. Þannig var það ekki alltaf, en þannig er það í dag. 

Enn og aftur lögðu Bandaríkjamenn út í hernað í fjarlægu landi nú í Afganistan og fórnuðu mannslífum og gríðarlegum fjármunum til að breyta siðum fjarlægrar þjóðar. Það tókst ekki.  

Vesturlandabúar verða, að horfast í augu við, að því fleiri, seinfærustu nemendur, sem koma til Vesturlanda og taka þar búsetu þeim mun meiri líkur eru á, að þau sjónarmið og hugmyndafræði sem þessir nemendur aðhyllast láti til sín taka á Vesturlöndum, með glæpum eins og "heiðursmorðum", hryðjuverkum, svo ekki sé talað um  kvennfyrirlitningu. 

Margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa sett dulur fyrir bæði augu og neitað að horfast í augu við þær staðreyndir. Samt sem áður hefur bráð af mörgum í seinni tíð t.d. Macron, Frakklandsforseta og dönskum Sósíaldemókrötum, sem láta alla vega svo, sem þeir vilji bregðast við af skynsemi.

Á sama tíma erum við, öndvert við aðrar Evrópuþjóðir, að búa til farveg til að fá sem flesta af þessum seinfærustu nemendum til okkar.

Mér er óskiljanlegt, að að dómsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa gerst sérstakir talsmenn þessarar glópsku og dómsmálaráðherra skuli í ræðu og riti berjast fyrir því, að sem allra fyrst skuli skipt um þjóð í landinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 502
  • Sl. viku: 3296
  • Frá upphafi: 2514194

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 3076
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband