Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Lögregluofbeldi og kynþættir

Enginn afsakar hrottaskap lögreglu, hvað þá heldur þegar það leiðir til manndráps eins í Minnesota í Bandaríkjunum fyrir stuttu. Lögreglumaðurinn hefur með réttu verið settur af og ákærður fyrir morð. Enginn ágreiningur er um að lögreglumaðurinn framdi óafsakanlegt, fordæmanlegt ofbeldisbrot.

Hvað sem því líður, þá hafa brotist út fjöldamótmæli vegna meints kynþáttamisréttis og kynþáttakúgunar og þau sjónarmið fá enduróm og undirtektir hjá öllum óvinum Bandaríkjanna vítt og breitt um veröldina. Þann enduróm mátti heyra af vörum sérfræðings RÚV í gær. Þar talaði "sérfræðingurinn" um langvarandi og vaxandi ólgu og kynþáttamisrétti, sérstaklega í viðbrögðum lögreglu gagnvart hörundsdökku fólki. Var nánast svo að skilja, að hörundsdökkt fólk væri það eina sem yrði fyrir lögregluofbeldi og léti lífið í samskiptum við lögregluna.

Staðreyndin er sú, að árið 2019 skaut lögreglan í Bandaríkjunum 370 hvíta til bana og 235 hörundsdökka. Hörundsdökkir eru þó ekki nema 13.5% íbúafjöldans. Séu tölur yfir ofbeldisglæpi skoðaðar til samanburðar, þá kemur í ljós að hörundsdökkir fremja 22.4% þeirra. Fjöldi ofbeldisglæpa á móti fjölda þeirra sem falla í valinn fyrir lögreglunni er því nánast sá sami skv. þessari tölfræði. Segir það einhverja sögu? 

Réttarríkið verður að hafa sinn framgang og það er rétt að mótmæla ef fólki er mismunað hvað þá ef það er tekið af lífi án réttlætingar eða dóms og laga. Slík mótmæli eru einungis afsakanleg svo fremi þau fari friðsamlega fram og vísi til þess, sem verið er að mótmæla. Mótmæli í bandarískum borgum nú, sem fagnað er víða af óvinum Bandaríkjanna eiga í sívaxandi mæli lítt skylt við eðlileg mótmæli. Eignir fólks eru skemmdar, brotist er inn í verslanir og þar rænt og ruplað. Oftar en ekki eru þessar verslanir í eigu hörundsdökkra. Ekkert afsakar slík mótmæli og þau geta aldrei gert annað en að verða til tjóns fyrir málstað þeirra sem vilja vekja athygli á réttlætinu og mótmæla ranglætinu.

Því miður.

  


Hver á peningana þína?

Stutta svarið við spurningunni hver á peningana þína er "eignarrétturinn er friðhelgur skv. 72.gr. stjórnarskrárinnar. Nú hefur ferðamála-iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp, sem tekur fyrir virk eignarréttindi neytenda á peningunum sínum og það afturvirkt.

Neytendur á Íslandi í ásamt með neytendum annarra Norðurlanda háðu um árabil harða baráttu til að tryggja lágmarksréttindi neytenda í pakkaferðum, sem ferðaskrifstofur skipuleggja og selja. Þar er kveðið á um lágmarksþjónustu og gæði, sem þurfi að vera til staðar og skuldbindingu um endurgreiðslu þeirra peninga, sem neytandinn greiðir til ferðarskrifstofunnar falli ferðin niður.

Ákvæðið um endurgreiðslu ferðakostnaðar er svo afdráttarlaust, að jafnvel þó að sá sem selur ferðina verði að fella hana niður vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna fyrir upphaf ferðar verður hann samt að endurgreiða neytandanum innan 14 daga. Auk þess er seljandi ferðarinnar skyldaður til að hafa tryggingar fyrir endgurgreiðslu til neytenda.

Í frumvarpi ferðamálaráðherra er tekið fyrir, að neytandinn geti fengið pakkaferð endurgreidda, sem hann greiddi frá 15. mars s.l. Í stað þess að fá peningana sína segir frumvarpið, að hann geti fengið inneignarnótu, sem neytandanum er heimilt að innleysa á 12 mánaða tímabili sömu fjárhæðar og þær greiðslur sem neytandinn innti af hendi. En hækki ferð í verði hvað þá? Frumvarpið segir ekkert um það. 

Það datt engum í hug við bankahrunið, að til að auðvelda og leysa tímabundið lausafjárstöðu fallinna banka, að þá yrðu innistæður neytenda bundnar í 12 mánuði. 

Ferðaskrifstofur sem eru nánast einu skipuleggjendur og söluaðilar pakkaferða fá skv. lögum ferðamálaráðherra að fara með fjármuni neytenda í 12 mánuði gegn útgáfu þeirra sérstöku aflátsbréfa, sem inneignarnótur nefnast. Þetta er nokkuð sérstakt ráðslag þar sem ferðaskrifstofurnar hafa iðulega ekki greitt neitt eða mjög takmarkaðan hluta kostnaðar vegna pakkaferðarinnar sem var aflýst. Ferðaskrifstofan gerir samning við flugfélag og hótel, en þarf ekki að greiða þeim fyrr en síðar og iðulega ekki verði ferð felld niður af óviðráðanlegum ástæðum. Samt sem áður á ferðaskrifstofan að hafa leyfi til að valsa með peninga neytandans eins og þeim sýnist næstu 12 mánuði skv. lagafrumvarpi ráðherrans. Ætlar ríkið síðan að ábyrgjast endurgreiðslu fari ferðaskrifstofan í þrot og tryggingarféð dugar ekki. Hvað með vexti af þessum haldlögðu fjármunum?

Frumvarpið er afturvirkt og tekur til ferða sem ekki voru farnar frá 15.mars. Neytendur hafa átt rétt á endurgreiðslu slíkra ferða frá 29. mars í fyrsta lagi, en ferðaskrifstofu ber að endurgreiða pakkaferð sem ekki er farin innan 14 daga frá aflýsingu. Er það skoðun ferðamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar, að hafi ferðaskrifstofa þráast við og vanrækt að sinna þeirri lagalegu skyldu sinni að endurgreiða neytandanum innan 14 daga frá niðurfellingu ferðar, að þá skuli ferðaskrifstofan ölast rétt til að fara með peninga neytandans næstu 12 mánuði. Hvað er það annað en eignaupptaka? 

Svona aðför að stjórnarskrárvörðum eignarrétti og neytendarétti er ekki hægt að samþykkja. Ég skora á ráðherra að láta starfsfólk ráðuneytis hennar ekki fleka sig lengur til þessarar vanhugsuðu lagasetningar og draga þetta frumvarp til baka. Ef ekki þá vona ég að þingmenn sýni réttindum neytenda og stjórnarskrárvörðum eignarrétti einstaklinga þá virðingu að fella frumvarpið. 

 

 


Ekki staðurinn eða tíminn.

WHO hefur gefið rangar upplýsingar og stutt kínversku kommúnistastjórnina í því að ljúga að heimsbyggðinni.

Rifjum aðeins upp: 

2019

30.12. Kínverskur læknir Li Wenliang 34 ára varar   við hættulegri veiru. Lögreglan þaggar niður í honum.

31.12. Taiwan hefur samband við WHO eftir að hafa séð skýrslu Li Wenliang um að veiran smitist á milli fólks. WHO heldur skýrslunni leyndri.

2020

3.1. Heilbrigðisyfirvöld í Kína krefjast þess af læknum og sjúkrastofnunum, að engar upplýsingar séu gefnar um veiruna.

9.1. Kína tilkynnir um undarlegan sjúkdóm í Wuhan.

14.1 Tíst frá WHO. Engar sannanir fyrir að veiran smitist milli fólks. 

20.1. Kína tilkynnir að smit berist á milli manna.

23.1. Wuhan héraðið lokað af en fram til þess voru ferðir frjálsar frá Wuhan til hvaða lands í heimi, en ferðabann var frá Wuhan til annarra héraða Kína á sama tíma.

28.1  Tedros framkvæmdastjóri WHO ber lof á Kínversku ríkisstjórnina fyrir góð viðbrögð við veirunni og lofar þau fyrir upplýsingagjöf.

30.1. Tedros heimsækir Kína og lofar stjórnvöld fyrir frábær viðbrögð til að vinna bug á veirunni.

31.1. Trump Bandaríkjaforseti tilkynnir um bann við flugferðum til Bandaríkjanna sem taki gildi 2.2.

4.2. Tedros framkvæmdastjóri átelur Bandaríkjaforseta vegna ferðabannsins og segir það geta haft alvarlegar afleiðingar og aukið á ótta fólks án þess að hafa jákvæða heilsufarslega þýðingu.

7.2. Le Wenliang læknir sá sem fyrstur vakti athygli á veirunni deyr.

14.2 Tedros varar fólk við að gagnrýna Kína nú sé ekki rétti staðurinn eða tíminn.

28.2. WHO gefur út 40 síðna skýrslu þar sem framganga Kínverja við að ráða niðurlögum veirunnar eru lofuð.

11.3. Tedros yfirlýsir að um heimsfaraldur sé að ræða.

18.3. Yfirmaður hjá WHO gagnrýnir Trump fyrir að tala um Kínaveiru.

29.3. Ai Fen læknir í Wuhan sem var meðal þeirra fyrstu til að vara við veirunni hverfur. Talið að kínversk stjórnvöld beri ábyrgð á því.

Þessi upptalning sýnir að WHO hafði aldrei frumkvæði og lagði aldrei neitt til sem skipti máli varðandi veiruna. WHO brást algjörlega. WHO er algjörlega í vasanum á Kínverjum. Þá sést líka, að Kínverjar leyndu staðreyndum eins lengi og þeir gátu um veiruna. 

Á meðan ferðabann var frá Wuhan til Kína var ekkert ferðabann frá Wuhan til annarra landa. Veiran dreifðist óhindrað út frá Kína. Kínversk yfirvöld héldu því fram lengi að veiran smitaðist ekki á milli fólks þó svo þau vissu að það var rangt. Tedros WHO forstjóri tók undir það og sagði lengi vel að veiran smitaðist ekki á milli fólks. Hvar skyldu rannsóknirnar sem réttlætu þær yfirlýsingar vera. Einfalt: Þær eru ekki til. Þetta var argasta lygi og bæði Tedros og kínversk stjórnvöld vissu það.

Til er orðtæki sem segir "margur verður af aurum api." Það mætti útfæra og segja "Margur verður af annars aurum api." Það virðist svo sannarlega eiga við um þær ríkisstjórnir Vesturlanda sem fordæma þá ákvörðun Trump að greiða ekki að sinni til WHO. Hvað þá heldur þann stjórnmálamann á Vesturlöndum, utanríkisráðherra Íslands, sem jók í kjölfarið framlag til WHO.

Stjórnmálamenn á Vesturlöndum eru á nálum yfir því að missa velvild kínverskra stjórnvalda og hafa látið þá gera sig að viðundri allt of lengi. Þeir hafa ekki staðið með lýðræði og mannréttindum til að njóta viðskiptalegrar náðarsólar Kínverja. Nú reynir á. Ætlar Evrópa að standa með þeim gildum, sem hafa skapað frelsi og velmegun í álfunni eða á að halda áfram að standa með ófrelsinu og afsaka það, að Kínverjar skuli hafa hrint af stað heimsfaraldri sem þeim hefði verið í lófa lagið að koma í veg fyrir og segja satt og fá aðrar þjóðir í lið með sér á upphafsdögum veirunnar. 

Í leiðara Fréttablaðsins á fimmtudaginn var vísað í aðgerðir Trump gagnvart WHO og sagt að nú "væri hvorki rétti staðurinn eða tíminn til að vandræðast við WHO. Nákvæmlega sama sögðu stjórnmálamenn og íþróttaforusta Evrópu fyrir Olympíuleikana í Berlín. Þó vitað væri um mannréttindabrot nasista og ofsóknir gegn Gyðingum þá sameinaðist hagsmunakór velviljaðra afglapa í að segja. "Nú er ekki rétti staðurinn eða tíminn til að gagnrýna"  

Seint virðist það ætla að ganga að stjórnvöld lýðræðisríkja grípi tímanlega til sameiginlegra aðgerða gegn ógnar- og einræðisstjórnum þrátt fyrir að þær sýni eðli sitt eins og Kínverjar núna. 

Ef það er ekki rétti staðurinn eða tíminn núna til að láta Kína og WHO svara til saka fyrir afglöp sín, sem valdið hafa heimsfaraldri og ógnar efnahagskerfi Vesturlanda og fleiri svæða í heiminum hvenær þá?

Nú er einmitt rétti staðurinn og tíminn fyrir Vesturlönd til að mótmæla lyginni og krefjast rannsóknar á framgöngu Kínverja og WHO í málinu. 

        

 

 


Danir opna á morgun- Af hverju ekki við?

Dönsk yfirvöld hafa ákveðið að heimila á ný að margvísleg atvinnustarfsemi verði leyst úr viðjum C-19 lokunnar. Fjarri fer því að danir hafi ekki beitt ýtrustu varfærni í samskiptum við þessa veiru og gengið ef eitthvað er lengra en við.

Hárskerar,hárgreiðsla, sjúkraþjálfarar og margar fleiri starfsgreinar verða opnar og til þjónustu frá og með morgundeginum 20.apríl skv. tilkynningu frá dönsku ríkisstjórninni. Skilyrt er að gætt verið ákveðinna leiðbeiningarreglna.

Þar sem samfélagslegt smit hér á landi er komið niður í lágmark er spurning af hverju á að meina þessum starfsstéttum hér að hefja störf næsta hálfa mánuðinn?

Er einhver vitræna glóra í því að halda við stífri lokun til 4. maí og gera höggið á efnahagskerfið enn þyngra en það þyrfti að vera? Er ekki hætta á því að fólk í auknum mæli hætti að vera "almannavarnir" ef samskiptareglur og atvinnustarfsemi er lokað mun lengur en nokkur skynsemi er til að gera það?


Lokaðar kirkjur

Svo mjög hefur kristnum þjóðum fleygt fram í trúleysi sínu, að nú þykir rétt á viðsjárverðum tímum, að skella öllum kirkjum í lás og stunda sjáluhjálp á netinu.

Í 2000 ár hafa kirkjur verið griðastaður trúðara, á hverju sem hefur dunið. Drepsóttir og styrjaldir hafa ekki megnað að loka kirkjum. Þvert á það sem nú er, þá hafa kirkjunnar þjónar talið það vera mikilvæga skyldu sína að veita styrk í neyð með vísun til kristinnar trúar og lagt áherslu á mátt bænarinnar og einstaklingsbundna aðstoð og sáluhjálp. Nú opna prelátar  fjarfundarbúnað og básúna út í tómið.   

Af gefnu tilefni vegna helstu raunverulegu trúarhátíðar kristins fólks, sem fer í hönd í Dymbilviku og upprisuhátíðinni í framhaldi hennar, þá er vert að spyrja hvort kirkjuleg yfirvöld hafi farið fram á að hafa messur á föstudaginn langa og páskadag, með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt, varðandi fjarlægð kirkjugesta hver frá öðrum o.fl. 

Kirkjulegar athafnir eru því miður jafnan illa sóttar og á það líka við um messur á upprisuhátíðinni. Sú kirkja er ekki til á höfuðborgarsvæðinu og víðar, þar sem messur geta ekki farið fram þannig, að tryggt sé að meir en tveir metrar séu á milli kirkjugesta. Vandamálið er þá, að fá undanþágu frá hámarksfjölda á samkomum og gera ráðstafanir sem eru í sjálfu sér einfaldar til að tryggja sóttvarnir og öryggi kirkjunnar þjóna og þeirra sem vilja taka við kristilegum boðskap. 

Telji yfirstjórn þjóðkirkjunnar enga ástæðu til að sækjast eftir því að opna kirkjur og veita þá þjónustu sem kirkjunni er ætlað að veita að viðhöfðum öryggisreglum, þá er hætt við því að hin hefðbundna kirkja hafi týnt hlutverki sínu og muni í framtíðinni standa í enn stærra tómi vantrúar og vonleysis.

Uns til þess kemur að virk kristileg boðun leysi hana endanlega af hólmi. 


Arðgreiðslur og ríkisaðstoð

Ríkisvaldið hefur ákveðið m.a. að greiða launþegum sem þurfa að sætta sig við skert starfshlutfall vegna Kóvit faraldursins ákveðnar bætur skv. nýsamþykktum lögum um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. 

Ljóst er t.d. að ferðamannaiðnaðurinn er hruninn tímabundið og mörg lítil einkafyrirtæki í verslun og þjónustu þurfa að draga verulega saman vegna þess að eftirspurn er mun minni en áður og í sumum tilvikum engin. 

Lögin eiga aðtryggja launþegum svipaða afkomu tímabundið eins og þeir bjuggu við áður en til þessara hamfara kom. 

Allir voru sammála þessum aðgerðum þegar lögin voru afgreidd frá Alþingi. Nú heyrist hins vegar víða úr holtum nær og fjær, að það sé hið versta mál að borga launakostnað aðila sem hafi grætt vel á undanförnum árum og eigendurnir hafi leyst til sín mikinn hagnað í formi arðgreiðslna. 

Eðlilegt er að mörgum finnist það fjarri félagslegu réttlæti að borga að sumra mati hluta launakostnað fyrirtækja, sem voru í góðum rekstri og hafa mokað inn hagnaði á undanförnum árum. En lögin og þessar greiðslur hafa ekkert með arðsemi og arðgreiðslur fyrirtækjanna að gera. Lögin og úrræðin snúa að launþegum og því, að launþegar verði ekki fyrir hnjaski. 

Þeir sem gagnrýna þessar ráðstafanir út frá sjónarmiðum svokallaðs félagslegs réttlætis sést yfir þær staðreyndir, að það er ekki verið að borga launakostnað fyrirtækja hvorki Bláa lónsins né annarra og það ættu allir að geta verið sammála um að það er betra að taka þessu vonandi tímabundna höggi með því að fyrirtækin skerði starfshlutfall og því sé mætt af ríkinu með greiðslum til launþega heldur en að fyrirtækin segi upp starfsfólki. Þá yrðu heildargreiðslur vegna atvinnuleysis mun meiri en með þessu fyrirkomulagi. 

Öllum er vonandi ljóst, að segi fyrirtæki upp starfsfólki og það starfsfólk fær greiðslur úr atvinnuleysistryggingarsjóði, þá er ekki verið að borga launakostnað fyrirtækjanna ekki frekar en þegar starfsólk fyrirtækjanna þarf að sæta skertu starfshlutfalli.

Í umræðunni nú sem fyrr skiptir máli að draga réttar ályktanir af gefnum forsendum en rugla ekki saman andstöðu við einstök fyrirtæki og eigendur þeirra græði, og þess félagslega réttlætis fyrir launafólk, sem verið er að hlúa að með lögunum.


Kynbundið ofbeldi eða pólitískt samsæri?

Í gær var Alex Salmond fyrrum fyrsti ráðherra Skotlands og þáverandi formaður Skoska þjóðarflokksins sýknaður af ákærum um nauðgun, kynferðslegt áreiti og ósæmilega hegðun gagnvart konum. Saksóknari höfðaði málið gegn Salmond vegna meintra brota gagnvart 13 konum.

Það tók kviðdóminn, sem var að meirihluta til skipaður konum, ekki langan tíma að komast að þeirri niðurstöðu, að Salmond væri ekki sekur um þær ávirðingar sem bornar voru á hann. 

Þessi niðurstaða sýnir ein með fleirum hversu svona mál eru vandmeðfarin og hversu auðvelt er að nota ávirðingar af þessu tagi gagntvart mönnum,ekki síst þeim sem eru í pólitík, þó þeir hafi ekkert til saka unnið. Alex Salmond telur að málatilbúnaðurinn gagnvart sér sé af pólitískum rótum runnið og svo virðist sem mikið sé til í því.

Þá sýna þessi réttarhöld og niðurstaða þeirra hversu glórulaus sú krafa öfgafemínista er, að þeim mun fleiri konur sem komi fram og saki karlmann um kynferðislegt áreiti eða eitthvað þaðan af verra, þá hljóti staðhæfingar þeirra að vera réttar. 

Salmond var sýknaður af kröfum og ávirðingum 13 kvenna. Svo fjölmennur hópur hefði samkvæmt kenningunni átt að vera yfirdrifinn til að Salmond yrði dæmdur án laga og réttar. Sem betur fer lifum við í réttarríki og málið fékk eðlilega umfjöllun og í stað sakfellingar almenningsálitsins kom sýknudómur hlutlauss dómstóls eftir að málið hafði fengið eðlilega réttarfarslega umfjöllun.

Fyrir nokkrum árum gerði Donald Trump tillögu um að Brett Kavanaugh yrði skipaður Hæstaréttardómari í Bandaríkjunum. Þá kom fram kona að nafni Christine Blasey Ford og sakaði hann um kynferðislega áreitni. Fljótlega bættust fleiri konur í hópinn. Öfgafemmínistar og Demókratar settu þá fram þá kenningu,að þegar margar konur ásökuðu mann um ósæmilega kynferðislega hegðun þá skyldi taka það sem heilögum sannleik. Rannsókn lögreglu sýndi hinsvegar fram á, að ávirðingarnar á hendur Brett Kavanaugh voru gjörsamlega tilhæfulausar. Algjör tilbúningur. Þær voru settar fram til að koma höggi á hann og að sjálfsögðu Trump í pólitískum tilgangi.

Í báðum tilvikum urðu þeir Brett Kavanaugh og Alex Salmond fyrir verulegum persónulegum álitshnekki,áður en þeir gátu sýnt fram á sakleysi sitt.

En síðan er hin hliðin á þessu makalausa réttleysisfari, þar sem menn geta átt það á hættu, sérstaklega ef þeir eru áberandi, að vera stimplaðir glæpamenn á samfélagsmiðlum án þess að geta rönd við reist fyrr en síðar, þó ekkert sannleikskorn sé í ávirðingunum.  Þá er spurningin hvaða refsingu fá þeir sem bera fram rangar sakir og valda fólki miklu tjóni og mannorðsmissi. Engar.

Á sama tíma og það er og var mikilvægt að vekja athygli á og bregðast við kynbundnu ofbeldi sem bitnar í yfirgnæfandi tilvika á konum og koma lögum yfir þá sem gerast sekir um slíkt, þá verður samt alltaf að hafa í huga grunnreglur réttarríkisins og hvika ekki frá þeim eins og öfgafemínistarnir hafa þó ítrekað krafist að verði gert.  


"Vinir okkar" Tyrkir og NATO

Tyrkir hafa haldið úti vígasveitum í Sýrlandi frá því að svokölluð borgarastyrjöld hófst þar í landi. Tyrkir hafa leynt og ljóst stutt ýmsa harðsvíruðustu hópa Íslamista og leyft liðsmönnum ISIS, Al Kaída, Al Nusra ásamt öðrum álíka svívirðilegum glæpasamtökum Íslamista frjálsa för og vöruflutninga um Tyrkland. 

Tyrkland hefur oftar en ekki farið með hernaði inn fyrir landamærin á Sýrlandi og lagt undir sig stór landssvæði í Sýrlandi, sem er ekkert annað en árás á frjálst og fullvalda ríki. Atlantshafsbandalagið hefur ekkert haft um þessi brot Tyrkja skv. alþjóðalögum að segja. Sama er um Bandaríkin og Evrópusambandið sem setja viðskiptabann á Rússa fyrir að innlima Krím á nýjan leik í Rússland, þar sem meirihlutinn eru Rússar, en lýsa velþóknun á árásum og landvinningum Tyrkja í Sýrlandi. 

Nú er svo komið að sýrlenski stjórnarherinn sækir að síðasta vígi öfgaíslamistanna í Sýrlandi, en þá koma Tyrkir þeim til hjálpar einu sinni sem oftar, en nú með virkum hætti. Ljóst var að þegar Tyrkir tóku þá afstöðu og berjast við hlið Al Nusra, Al Kaída og ÍSIS liðum í Ídlib, að það mundi koma til átaka við Sýrlenska stjórnarherinn. Það gerðist í gær. 

Þá veinar Erdogan Tyrkjasoldán eins og stunginn grís og heimtar fund í fastaráði Atlantshafsbandalagsins (NATO) og í dag komu utanríkisráðherrar allra 29 aðildarríkja NATO saman á fund í Brussel borg og lýstu yfir eindreginni samstöðu með Tyrkjum og framkvæmdastjórinn lofaði þeim hernaðarstuðningi. 

Hernaðarstuðningi við hvað? Hernaðarstuðningi við að leggja undir sig fleiri landssvæði í Sýrlandi. Hernaðarstuðningi við að aðstoða Al Kaída, Al Nusra og ÍSIS við að halda síðasta landssvæðinu í Sýrlandi. Hvernig er hægt að réttlæta það að utanríkisráðherra Íslands og annarra NATO ríkja skuli lýsa yfir stuðningi við afskipti Tyrkja af Sýrlandi, sem eru brot á samskiptum þjóða skv. alþjóðalögum. 

Óhætt er að reikna með að mál eins og það að lýsa yfir stuðningi við landvinningastríð Tyrkja og samstöðu þeirra með ÍSIS, Al Kaída, Al Nusra og álíka fyrirlitlegum glæpasamtökum hafi verið rætt í ríkisstjórninni, en utanríkisráðherrann hafi ekki einn tekið ákvörðun um að samþykkja afdráttarlausan stuðning við landvinningastríð Tyrkja, mannréttindabrot þeirra og brot á alþjóðalögum. 

Hvenær misstu bandalagsþjóðir NATO eiginlega jarðtengingu við hagsmuni sýna og heilbrigða skynsemi.

Já og hvernig samrýmist það stefnu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að lýsa yfir algerri samstöðu með ofbeldislandi eins og Tyrkjum þegar þeir leitast við í lengstu lög að tryggja að samtök sem hafa staðið fyrir að hneppa fólk í ánauð, kynlífsþrælkun hryðjuverk og þjóðarmorð haldi tökum á landssvæði í Sýrlandi, fyrir utan þau mannréttindabrot, sem stjórn Erdogan stendur fyrir á heimavelli.

Síðast en ekki síst þá er Gulli utanríkisráðherra og NATO, að lýsa yfir stuðningi við að Tyrkir geri árás á frjálsa og fullvalda þjóð.

Forsætisráðherra bliknar hvorki né blánar yfir þessu, ekki frekar en aðrar stríðshetjur í ríkisstjórninni, sem ætla nú að leggja Tyrkjum hernaðarlega lið við að koma í veg fyrir að frálst og fullvalda ríki geti gengið milli bols og höfuðs á öfgasamtökum og glæpamannasamtökum Íslamista í landi sínu, þar sem meginhluti stríðsmannanna eru erlendir vígamenn eða málaliðar Tyrkja. 

Rétt er að spyrja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hvort þetta sé virkilega sæmandi ríkisstjórn Íslands?


Stefnuleysi og vingulsháttur

Sýrlandsher sækir fram í Idlib héraði í Sýrlandi,  þar sem mismunandi öfgahópar hafa ráðið mestu undanfarin misseri. Hópar eins og ISIS, Al Kaída, Al Nusra og aðrir álíka ógeðslegir öfgahópar, sem hafa drepið fólk miskunarlaust,hneppt fólk í ánauð m.a. stóra hópa kvenna í kynlífsánauð. Það ætti að vera gleðiefni að síðasta vígi öfgahópanna í Sýrlandi verði sigrað. 

En Evrópusambandið og Tyrkir eru ekki á sama máli. Evrópusambandið beitti 7 aðila refsiaðgerðum fyrir að eiga viðskiptaleg samskipti við Sýrlandsstjórn, í framhaldi af sókn Sýrlandshers, þar sem frelsuð hafa verið landssvæði í nágrenni Aleppo og tyggt að hægt er að nota flugvöll borgarinnar aftur. 

Algert stefnuleysi er og hefur ríkt hjá Evrópusambandinu varðandi styrjöldina í Sýrlandi nema helst að veita öfgaÍslamistunum stuðning.

Jafnan er talað um borgarastyrjöldina í Sýrlandi, en það er á mörkunum að hægt sé að tala um borgarastyrjöld þegar tugir þúsunda erlendra vígamanna hafa haldið stríðsvél uppreisnarmanna gangandi og Tyrkir, Saudi Arabar o.fl. hafa blandað sér með virkum hætti í styrjöldina sérstaklega Tyrkir. 

Af hverju stuðlar Evrópusambandið ekki að því að útrýma völdum og áhrifum öfga-Íslamistanna? Með því að gera það ekki, þá stuðlar bandalagði eingöngu að því að ófriðurinn stendur lengur og mannlegar hörmungar og flóttamannastraumurinn aukast. 

Tyrkir hafa hernumið ákveðin svæði í Sýrlandi meðan styrjöldin í Sýrlandi hefur staðið og þeir og ætla ekki að láta þessi landssvæði af hendi. Gildir eitthvað annað um Tyrkland heldur þegar Rússar innlimuðu Krímskagann þar sem mikill meirihluti fólksins eru Rússar? Tyrkir eru að hertaka landssvæði í Sýrlandi þar sem enginn er af tyrkneskum uppruna. Þeir eru að innlima landssvæði þar sem býr fólk, sem vill ekkert með Tyrki hafa. Væri Evrópusambandið sjálfu sér samkvæmt ætti það að beita Tyrki refsiaðgerðum m.a. viðskiptaþvingunum ekkert síður en Rússa. Skyldu íslensk stjórnvöld telja eðlilegra að eiga viðskipti við Tyrki en gamla vinaþjóð okkar Rússa? Ef svo er af hverju?

 


Líkt hafast menn að.

Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar tóku yfirvöld í þáverandi Sovétríkjum upp á því að senda stjórnarandstæðinga á geðveikrahæli. Það vakti ekki eins mikla eftirtekt og þegar þau voru send í hinar alræmdu fangabúðir kommúnista í Gúlaginu. Auðveldara var síðan fyrir stjórnvöld að bregðast við ef gagnrýnin varð mikil eins og Tom Stoppard gerir svo einstaklega góð skil í leikriti sínu "Every good boy deserves favour." 

Nú hefur dómsmálaráðherra brugðist við eins og þeir í Sovét forðum með því, eftir að hafa kiknað í hnjáliðunum vegna mótmæla við dómsmálaráðuneytið, að láta stjórnvöld sem undir hana heyra senda ólöglegan innflytjenda á barna og ungliðageðdeild til þess eins og Sovétherrarnir forðum að komast hjá gagnrýni fyrir lagabrot. 

Skyldi það fornkveðna eiga við að margt sé líkt með skyldum? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 2561
  • Frá upphafi: 2514346

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2359
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband