Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Öryrkjabandalagið og mannréttindi

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur kynnt þá fyrirætlun bandalagsins að kæra framkvæmd forsetakosninga fyrir þann ágalla, að farið skuli að íslenskum kosningalögum við framkvæmd kosninganna. Fróðlegt verður að sjá málatilbúnað lögmanns bandalagsins þegar kæran lítur dagsins ljós.

Stjórn Öryrkjabandalagsins heldur því fram að framkvæmd forsetakosninganna hafi verið mannréttindabrot af því að farið hafi verið eftir 3.mgr. 63 gr. laga um kosningar til Alþingis, sem einnig gilda um forsetakjör, en þar er kveðið á um það að fulltrúar kjörstjórnar megi einir veita aðstoð þeim sem þurfa.

Formaður Öryrkjabandalagsins og nokkrir sem hafa tjáð sig telja það mannréttindi sín að geta sjálfir valið hver skuli aðstoða þá við að kjósa. Það gleymist í þessari umræðu að þetta ákvæði var sett til að tryggja leynilega kosningu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda með tilliti til hagsmuna þeirra.

Í mörgum tilvikum er heppilegt að sá sem öryrki kýs að aðstoði hann geri það. Það er þó ekki einhlítt. Í sumum tilvikum getur öryrkinn verið undir óeðlilegum og óþægilegum þrýstingi og verður að hlíta því með breyttum reglum að velja þess vegna aðila sér nákominn sem ræður þá atkvæði hans í raun. Tryggjum við mannréttindi betur með þeim hætti? Tryggjum við betur leynilegar kosningar?

Skv. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um það að fatlaðir geti notið aðstoðar einstklings að eigin vali við að greiða atkvæði.  Eðlilegt er að löggjöfinni verði breytt til að fullnægja því ákvæði, en spurningin er hvað átt er við með ákvæðinu. Nú getur fatlaður einstaklingur valið hvern sem er úr kjörstjórninni til að aðstoða sig, en vafi er um hvort það uppfylli skilyrði ákvæðisins. Ef til vill mætti hugsa sér að hópur trúnaðarmanna yrði ákveðinn og fatlaðir gætu valið úr þeim hópi. Það er nefnilega ekki endilega víst að það þjóni best hagsmunum fatlaðra að vera undir handarjaðri fólki sem er þeim nátengt ef tryggja á að vilji þeirra í leynilegri kosningu nái fram að ganga.

Það eru hræðileg örlög að búa við alvarlega fötlun. Þjóðfélaginu ber að gera það sem unnt er til að tryggja hag og réttindi þeirra sem þannig er komið fyrir. Bestu úrræðin þurfa ekki alltaf að vera þau að þeir sem næst standi þeim fatlaða hafi í raun vald yfir honum.

Hafi einhver brugðist í því að aðlaga íslenska löggjöf að samningi Sameinuðu þjóðanna þá eru það viðkomandi ráðherra og Alþingi. Eðlilegt er að ræða þau mál öfgalaust og ná sem bestri niðurstöðu fyrir fatlaða svo það sé tryggt sem best að vilji þeirra fái að koma fram í leynilegum kosningum. Það borgar sig hins vegar ekki að hrapa að niðurstöðunni og fordæma ákvæði löggjafar sem einmitt var sett á sínum tíma til að tryggja hagsmuni þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í kjörklefanum.

Sú afstaða Öryrkjabandalagsins að ætla að kæra forsetakosningar er í ljósi þessa vægast sagt vafasöm. Ekki verður séð að sú kæra þjóni hagsmunum fatlaðra, en gæti e.t.v. flokkast undir pólitíska misnotkun á Öryrkjabandalaginu. Hagsmunir öryrkja eru fólgnir í því að um þessi mál verði rætt öfgalaust og náð þeirri niðurstöðu sem best hentar hagsmunum fatlaðra til að tryggja réttindi þeirra í stað pólitískra upphlaupa eins og þessi málflutningur formanns Öryrkjabandalagsins ber með sér.


Hvað nú kona?

Til hamingju með baráttudaginn íslenskar konur. 

Ef til vill var það þannig að þegar konur tóku sér frí og héldu einn best heppnaða útifund sem haldinn hefur verið í landinu, að þá opnuðust augu margra varðandi kynjamismun í landinu. Einn elsti þingmaðurnin á þeim tíma, dr. Gunnar Thoroddsen var af sumum atyrtur fyrir að leggja fram frumvarp um jafna stöðu karla og kvenna. En frumvarpið var samþykkt af Alþingi og  jafnstaða kynjanna urðu lög í landinu.

Hvað hefur gerst síðan? Njóta konur jafnréttis og jafnstöðu?   Í lagalegu tilliti gera þær það en mikill launamunur er enn á milli kynjanna. Stafar hann bara af kynferði eða eru aðrar ástæður sem valda því?

Viðurkennt er og hefur verið sýnt fram á í ítrekuðum könnunum á vegum Sameinuðu þjóðanna að velferð þjóða er þeim mun meiri eftir því sem jafnstaða kynjanna er meiri og atvinnuþáttaka kvenna. Þrátt fyrrir það býr rúmur helmingur mannkyns við mikla kvennakúgun.  Þvingaðar giftingar, umskurn, svipting eðlilegra réttinda, bann við skólanámi, atvinnuþáttöku og fleira er víða í Afríku, Asíu og raunar víðar. Í Evrópu viðgengst þrælasala þar sem konur eru hnepptar í ánauð og misnotaðar. 

Kvennréttindahópar hafa því verk að vinna sem og aðrir sem unna mannréttindum. Þetta er ekki einkamál kvenna. Þetta er hluti af almennri mannréttindabaráttu. Það skiptir máli að berjast fyrir því sem máli skiptir en láta vera aukaatriði sem jafnvel geta á endanum orðið til tjóns fyrir eðlilega starfsemi í þjóðfélagið.

Spurning er hvort að sumar kröfur femínístanna hafa orðið til þess t.d. að lækka laun ákveðinna stétta í stað þess að koma á launajafnrétti sem að var stefnt. Þá er spurning um hvort kynjakvótar og fléttuhugmyndir allskonar á kynjavísu eigi rétt á sér eða standist kröfur um jafnstöðu kynjanna.

Ég lít á réttindabaráttu kvenna fyrir jafnstöðu sem sjálfsagðan og eðlilegan lið í að koma á mannréttindum.  En það er rangt að láta fólk njóta eða gjalda kynferðis síns vegna þess að svo og svo margar konur eða karlar eru í fleti fyrir þar sem einstaklingur vill hasla sér völl

Aðalatriðið er samt að gleyma ekki grundvelli hugmyndarinnar um jafnstöðu kynjanna og nú er baráttuvettvangurinn sérstaklega að ná jafnstöðu fyrir konur þar sem réttindi þeirra eru smáð og svívirt og koma í veg fyrir kynlífsþrælkun og misnotkun á fólki. Það eru næg verkefni.

 Unga kona það er aldrei hægt að játa oki kynsystra þinna á forsendum ólíkrar menningar eða trúarbragða. Mannréttindi eru algild og það er aldrei hægt að samþykkja frávík frá þeim.


Umboðsmaður Alþingis bregst.

Halldór Jónsson, verkfræðingur, hefur ritað athyglisverða pistla um SpKef máilð á bloggsíðu sinni.  Í einum þeirra rekur hann kvörtun sína til Umboðsmanns alþingis vegna SpKef og Byr, en síðarnefnda fyrirtækið er einnig dæmi um ábyrgðarlausan fjáraustur Steingríms J. Sigfússonar úr sjóðum skattgreiðenda. 

 

Umboðsmaður Alþingis mun hafa komið sér undan því að fjalla um málið - taldi að Halldór ætti ekki aðild.  Umboðsmaður alþingis taldi ekki ástæðu til að taka málið upp af eigin frumkvæði, eins og hann hefur fulla heimild til skv. 5. gr. laga um Umboðsmann alþingis. 

 

Í málefnum Byrs og Spkef, einkum Spkef, liggur fyrir að fjármálafyrirtæki voru rekin á undanþágu í heilt ár og síðan stofnuð ný án þess að nokkur forsenda væri fyrir slíku.  Ekkert liggur fyrir um það að stjórnvöld hafi byggt á traustum gögnum við veitingu undanþágu ítrekað eða stofnun nýrra fyrirtækja.  Samtals tapaði SpKef um 30 milljörðum á árunum 2009 og 2010 - eigið fé fór úr því að vera jákvætt um 5,4 milljarða í upphafi árs 2009 (að teknu tilliti til bankahrunsins í október 2008) í 25 milljarða byrði á skattborgara þessa lands. 

 Það er furðulegt að embætti sem á að hafa eftirlit með stjórnvöldum sinni ekki slíku eftirliti og það kallar á spurningar um samkennd Umboðsmanns með núverandi stjórnvöldum. 

 

Þessi sami umboðsmaður Alþingis brást við með öðrum hætti  þegar  hann hóf  að eigin frumkvæði rannsókn á því þegar Geir Haarde, forsætisráðherra, réð tímabundið hagfræðing í skrifstofustjórastöðu á nýrri efnahags-og alþjóðamálaskrifstofu í forsætisráðuneytinu í miðju bankahruni.  Þá brást umboðsmaður alþingis skjótt við, að eigin frumkvæði, og lokaði málinu á methraða, 2 mánuðum, með ávítum á Geir þann 29. desember 2008.  

 

Á þessum tíma stóðu öll spjót á Geir og auðvelt að kaupa sér vinsældir með því að hnýta í hann. 

 

Það skiptir greinilega máli hver á í hlut en þetta dæmi miðað við þann hroða sem stjórnsýslan er í Spkef málinu og Byr málinu sýnir að umboðsmanni Alþingis virðist mislagðar hendur í mati sínu á mikilvægi mála og  ásættanlegri stjórnsýslu.


Stjórnmálamaður með framtíðarsýn

Þess er minnst að breski stjórnmálamaðurinn Enoch Powel hefði orðið 100 ára um þessar mundir.

Enoch Powell var framsýnn, víðlesinn, fjölmenntaður og einna gáfaðasti maðurinn í enskri pólitík á árunum upp úr seinni heimstyrjöld og fram yfir 1980.

Hann varaði við því að sameiginleg mynt í Evrópu gæti ekki haft neitt annað í för með sér en sameiginlega ríkisstjórn og sagði "annað er meiningarlaust og ómögulegt án hins"  Þessi ummæli eiga svo sannarlega við í dag þó þau væru sögð fyrir tæpum 30 árum.

Hann var á móti afskiptum Bandaríkjamanna í Víetnam frá upphafi og sagði þá m.a. "Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn búa ekki í Suð Austur Asíu eins og Víetnamar og nágrannar þeirra gera."

Með sama hætti má ætla að hann hefði verið á móti afskiptum í Írak, Afganistan og Líbýu. 

Hann krafðist þess að allir hermenn fengju góða og sömu meðferð, líka óvinahermenn. Í því sambandi gagnrýndi hann harðlega aðgerðir breska hersins gegn Mau Mau uppreisnarmönnum í Kenýa og fordæmdi harðlega þá sem kölluðu svörtu Mau Mau uppreisnarmennina "sub human".  Þá var annað andrúmsloft og virðing fyrir fólki af öðrum kynþáttum ólík því sem er í dag. Andstæðingur hans í pólitík Denis Healey sagði um ræðu Powell um baráttuna við uppreisnarmenn í Kenýa "the greatest paliamentary speech I ever heard, with all the moral passion and rhethorical force of Demosthenes."

Margir segja að ræða Powell um Mau Mau stríðsfangana og meðferðina á þeim megi allt eins vel heimfæra upp á fangana í Guantanamo í dag

Powell var einn merkasti þingmaður á breska þinginu á sínum tíma og viðurkenndur lærdóms- og gáfumaður. Hann varð þó viðskila við flokk sinn og er helst minnst í dag fyrir ummæli um innflytjendamál þar sem hann fordæmdi afneitunina og þöggunina varðandi þetta málefni og taldi að innflytjendum mundi fjölga mun meira en opinberar áætlanir gerðu ráð fyrir. Powell var fordæmdur fyrir þetta og kallaður rasisti. Í dag átta menn sig á að Powell hafði rétt fyrir sér. Hann hafði hins vegar rangt fyrir sér varðandi vaxandi átök milli fólks af ólíkum kynþáttum.

Ásakanir um rasisma leiddu til þess að Powell fór úr breska íhaldsflokknum. Í dag viðurkenna flestir að þær ásakanir voru rangar. Merkimiði sem hengdur var á hæfan málsvara málefnalegra skoðana til að reyna að þagga niður í honum og koma honum út í horn í breskri pólitík.

Í dag viðurkenna menn að Enoch Powell var langt frá því að vera rasisti. Meira að segja Michael Foot sem varð formaður Verkamannaflokksins viðurkenndi það og benti á viðhorf Powell varðandi Mau Mau uppreisnarmennina.

En óréttmætir merkimiðar eru hentugir fyrir þá sem vilja girða fyrir málefnalega umræðu og réttmætar en hættulegar skoðanir að mati þeirra sem hafa einkaleyfi á pólitískri rétthugsun.


Er kvótinn þjóðareign?

Ef kvótinn er þjóðareign af hverju fá þá Hveragerði og Egilsstaðir aldrei úthlutað byggðakvóta?

Þegar Jesú er úthýst

"Í meir en 2000 ár hefur verið ómögulegt fyrir þjóðfélag að útiloka eða afmá Krist úr þjóðfélagslegu og pólitísku lífi án hræðilegra þjóðfélagslegra og stjórnmálalegra afleiðinga".

Þessa hugsun meitlaði Margaret Thatcher þá forsætisráðherra Bretlands í orð árið 1990. Hún var ekki að tala um aukin áhrif kirkju á stjórnmálin eða lýsa eindreginni trúarskoðun þegar hún sagði þessi orð. Hún var mun frekar að lýsa því að þjóðfélag sem byggði á siðaboðskap og manngildishugsjón kristindómsins, væri þjóðfélag sem væri byggt á kletti en án þeirra gilda væri þjóðfélagið byggt á sandi.

Sennilega mundi vestrænn stjórnmálamaður ekki viðhafa þessi ummæli í dag. Jafnvel þó þeir segi eitthvað fallegt um Jesús þá áræða þeir ekki að tala með jafn afdráttarlausum hætti um þær ógnir sem þjóðfélaginu stafar af því að gera Krist útlægan úr samfélaginu.

Sú skoðun hefur átt vaxandi fylgi að fagna á opinberum vettvangi í kristnum samfélögum, að trúarbrögð skipti annað hvort ekki máli eða séu jafnvel til tjóns. Elskaðu náunga þinn segir helsti páfi vantrúarinnar að skipti ekki máli og sé ekkert bundið trúarbrögðum. Þannig virðast margir ráðamenn telja eðlilegt að fólk geti muldrað bænir bakvið luktar dyr, en ekki meir.  Kristið fólk er ofsótt fyrir að bera krossmark. Í Bretlandi berst kona fyrir rétti sínum til að bera krossmark án þess að tapa þjóðfélagslegum réttindum vegna þess.

Þau einstaklingsbundnu réttindi sem við búum við hefðum við ekki fengið án áhrifa kristindómsins um óumbreytanlega virðingu hvers einasta einstaklings.  Við erum öll jöfn fyrir Jesú Kristi sagði Páll postuli. Þess vegna gat þrælahald aldrei staðist til lengdar í kristnum samfélaögum þó það tæki ótrúlega langan tíma að gera það ólöglegt.  En bann við þrælahaldi er ekki náttúrulegt lögmál þvert á móti. Með hnignandi áhrifum kristilegra lífs- og siðaskoðana sækir þrælahaldið á að nýju í ýmsum myndum

Í frönsku stjórnarbyltingunnni var kristindómnum úthýst og það sama gerðist í nasistaríkjunum og kommúnistaríkjunum. Hryllingurinn og hryðjuverkin sem unnin voru af öllum þessum aðilum hefðu ekki verið möguleg nema kristilegum gildum hefðu fyrst verið vikið til hliðar og þeim úthýst. 

Þar sem Jesús hefur verið úthýst hverfa grunngildi mannréttinda eitt af öðru. Trúleysingjar mættu stundum hugsa til þess og þakka fyrir að búa í kristnum samfélögum þar sem mannréttinda þeirra er gætt eins og annarra.

Kristið fólk verður að standa á grundvallaratriðum varðandi lífs- og siðaskoðanir og hafna því að Jesú sé úthýst úr skólum landsins. Gera verður kröfu til þess að í skólunum sem og annarsstaðar í þjóðfélaginu sé kristin trúfræðsla eðlilegur  og sjálfsagður hluti af náminu.

Þjóðfélag sem er á sandi byggt skolar burt. Byggja verður grundvallaratriði hvers samfélagssáttmála  á traustum grundvelli trúarskoðana kristninnar. Grunngildi kristinnar trúar hafa fært kristnum þjóðfélögum velmegun, virðingu fyrir einstaklingnum og mannréttindi. Þess vegna m.a. hefur páskaboðskapur Benedikts páfa sérstaka skírskotun til alls hins kristna heims. Færið heiminum ljós svo að augljósar staðreyndir um gildi kristinnar trúar komi fram.


Kynþáttaníð og kennimannleg dómharka.

Sá leiði atburður varð fyrir skömmu að unglingspiltum lenti saman í knattspyrnuleik. Annar mun hafa haft niðrandi orð og vísað til kynþáttar hins en sá lét hendur skipta. Báðir hafa fengið agaviðurlög frá KSÍ og beðist afsökunar á þessu leiða atviki eftir því sem ég fregna best.

Þeir sem hafa tekið þátt í hópíþrótt eins og knattspyrnu þekkja það að iðulega verður leikmönnum sundurorða og láta þá orð falla sem betur hefðu verið ósögð. Þetta gerist jafnvel í hópi þeirra bestu, jafnvel í úrslitaleik um heimsmeistaratitil í knattspyrnu eins og dæmin sanna.

Heimssamband knattspyrnumanna hafa sem einkenni að knattspyrna sé leikur án fordóma. Þess er jafnan getið í upphafi knattspyrnuleikja þar sem fólk greiðir aðgangseyri.  Þeir sem leika knattspyrnu þekkja þetta og játast undir þessi einkunarorð. Samt sem áður geta menn látið óheppileg orð falla, en það er þá gert í stundarreiði og venjulegast er óþarfi að leggja mjög djúpa merkinu í slíka stundarreiði.

Flestir sem til þekkja og hafa vit á reyna að gera sem minnst úr svona tilvikum. En það er ekki öllum þannig farið. 

Í samræmi við kristilegan kærleiksanda þá sýna þeir sem þá trú játa yfirleitt kristilegt umburðarlyndi og fyrirgefa í samræmi við kenningu Jesú. 

Baldur Kristjánsson prestur þjóðkirkjunnar, virðist ekki átta sig á inntaki kristinnar trúar um umburðarlyndi og fyrirgefningu og veður fram vegna þessa leiðindatilviks af óheyrilegri dómhörku. Hann krefst þess að sá sem vísaði til litarháttar hins leikmannsins verði beittur þungum refsingum. Baldur telur sig vera sérfræðing í öllum málum sem lúta að kynþátattamálum af því að hann var endur fyrir löngu kosin í nefnd sem fjallar um málið. Sérfræði hans virðist þó af skornum skammti.

Mér er sagt að báðir leikmennirnir hafi beðist afsökunar á því leiðindatilviki sem um ræðir. Þá er spurning hvort ekki sé tímabært að Baldur Kristjánsson prestur biðjist velvirðingar á fráleitum ummælum sínum í málinu og refsikröfum, sem eiga meira skylt við Íranska múlla og þeirra málstað,  en presta þjóðkirkjunnar og trúarviðhorf kristins fólks.


Eru líkamsárásir á lögmenn afsakanlegar?

Skelfing er að lesa ummæli Þórs Saari alþingismanns á bloggsíðu hans á Eyjunni, þar sem hann reynir að finna skýringar já og jafnvel asfakanir á fólskulegri manndrápstilraun á starfsmann lögmannsstofu í gær.

Þór Saari virðist álíta að hann lifi í glæpamannasamfélagi þar sem allt er rotið og engu hægt að treysta. Það virðist að hans mati vera ástæða manndrápstilraunarinnar þó Þór fari að vísu fimlega í kring um heita grautinn sem hann kokkar upp hvað þetta varðar.

Þegar ógæfumaður eyðilagði hús sem hann hafði reist en skuldaði algerlega og braut það niður með stórvirkri vinnuvél tók þessi sami Þór Sarri brotna spítu úr húsinu og gerði að gunnfána Hreygingarinnar. Þar með samsamaði þessi þingmaður sig með ofbeldinu og lögleysunni.

Í skrifum Þórs er margt fullyrt sem ekki kemur heim og saman við raunveruleikann eins og t.d. um mikla aukningu sjálfsmorða og annað í þeim dúr.  Einfalt ætti að vera fyrir þingmanninn að afla sér haldbærra upplýsinga áður en hann ruglar svona í skrifum sínum.

Ef til vill áttar Þór Saari sig ekki á því að það er m.a. maður eins og hann sem veldur auknu vonleysi og erfiðleikum í þjóðfélaginu. Endalaus neikvæðni og rógur um samborgarana og samstarfsmenn og ítrekaðar upphrópanir um að heiðvirt fólk séu glæpamenn er ekki til þess fallið að glæða vonir fólks eða auka fólki bjartsýni. Þvert á móti leiðir það til þess að sumir aðrir taka trúa röngum fullyrðingum Þórs Saari með vondum afleiðingum fyrir samfélagið.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að átta okkur á því hvað við eigum mikla möguleika og viðurkenna hvað margt er þó gott í okkar samfélagi og mikið af góðu og grandvöru fólki. Það væri hægt að áorka miklu til góðs í samfélaginu með ögn af kristilegum kærleika og eðlilegri bjartsýni.


Þar sem menn ganga uppréttir

Þegar þingsályktunartillagan, um að fallið yrði frá ákæru á hendur Geir H. Haarde, var tekin til afgreiðslu eftir fyrri umræðu á Alþingi lýsti Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður stuðningi við tillöguna.

Stuðning gat Sigmundur þó ekki veitt nema í orði, þar sem hann var á ferðalagi í Afríkuríkinu, Burkina Faso.

Nafnið Burkina Faso var tekið upp sem nafn landsins þegar frjálsræðis- og framfaraviðhorf sigruðu nýlenduhugsun og undirlægjuhátt. Nafnið Burkina Faso þýðir  "Þar sem menn ganga uppréttir".

Við atkvæðagreiðslu um fráfall ákæru á hendur Geir heyrðist allt í einu skrýtið hljóð frá Sigmundi Erni sem hætti við að ganga uppréttur.  Nú brá svo við að  Sigmundur Ernir greiddi atkvæði með frávísun tillögunar sem hann sagðist styðja.

Sennilega eru sinnaskipti Sigmunar Ernis í beinu samhengi við það að á þingflokksfundum Samfylkingarinnar hafa félagar hans sagt honum að það væri ekki til siðs í Samfylkingunni að menn gengju uppréttir. Þeir yrði að beygja sig undir okið hvort sem þeim líkað betur eða verr. Sigmundur Ernir hlýddi eins og vel upp alinn kjölturakki sem aldrei gengur uppréttur.

 Það gerðu líka þingmennirnir hugumstóru þeir Björgvin Sigurðsson, Árna Páli Árnasyni og Kristjáni L. Möller, sem treysta sér ekki heldur til að ganga uppréttir. 

Það er gott fyrir Jóhönnu að hafa hóp kjölturakka þegar hún þarf að smala köttum.


Vilja læknar flensa í Malakoff.

Áróður er nú hafinn fyrir því að ríkið fari með eignarrétt á líffærum fólks að því gengnu svo fremi fólk hafi ekki með sannanlegum hætti bannað ríkinu að flensa í sig og færa burtu endurnýtanleg líffæri.

Á sínum tíma gat fólk selt líkama sinn eftir dauðann eins og vísan fræga sem sungin var fyrir miðja síðustu öld um Malakoff segir frá. Þá var einn ógæfumaður talinn látinn og læknarnir biðu ekki boðanna og báru hann upp á spítala til að fara að flensa í hann. Þórður Malakoff var hins vegar ekki dauður og brást ókvæða við.

Einstaklingar eiga að geta ráðstafað líkama sínum eftir dauða sinn, en það er hættulegt ef það á að vera almenn regla að taka megi líffæri fólks til líffæragjafa ef það hefur ekki beinlínis bannað það. Áttar þetta góða og velviljaða fólk sem vill afnema samþykki einstaklingsins fyrir líffæragjöf sig ekki á því hvað slík regla getur verið hættuleg.

Við lifum á tímum þar sem auðvelt er að afla upplýsinga um einstaklinga. Tryggingafélög liggja með upplýsingar um heilsufar og margt fleira varðandi einstaklinginn og sjúkrastofnanir gera það líka og ýmsir fleiri. Hvað skyldu líffæri kosta á markaði ef um það væri að ræða? Hvaða hættu hefur það í för með sér að ævinlega megi taka líffæri fólks til ígræðslu í annan líkama ef það hefur ekki ótvírætt bannað það.

Það er alltaf hættulegt að víkja frá elstu mannréttindunum um að fólk ráði líkama sínum.  Þess vegna verður sú meginregla að gilda að fólk geti sjálft gefið upplýst samþykki varðandi ráðstöfun líkamans og liffæra eftir dauðann. En það má aldrei taka rétt af fólki yfir ráðstöfun eigin likama lífs eða liðnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 231
  • Sl. viku: 2575
  • Frá upphafi: 2517675

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 2381
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband