Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Breyttist eitthvað við bankahrunið?

Þegar stóru viðskiptabankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 opnaðist fyrir fólki margt furðulegt í fjármálaheiminum. Margir ráku augun í að sami eða sömu aðilar áttu ógrynni félaga sem áttu síðan hvort í öðru og mynduðu ógrynni af viðskiptavild og óefnislegum verðmætum sem voru síðan einskis virði.

Spurningarnar sem vöknuðu hjá fólki voru m.a. af hverju þurftu sömu aðilar að eiga tug eða hundruð einkahlutafélaga þegar eitt hefði  verið nóg nema þegar þurfti að millifæra, búa eitthvað til og kaupa þrotabú félaga í eigu sömu aðila. Þá spurði fólk líka hvernig á því hefði staðið að stjórnendur gjaldþrota bankanna hefðu verið svo vitlausir að lána félögum sem voru í raun gjaldþrota ef ekki hefði tilkomið bókhaldslegar færslur um svonefnd óefnisleg verðmæti.

En hefur eitthvað breyst?

Helsti samnefnari eigenda fjölmiðlasamsteypunnar 365 miðla, sem á 99.97% hlutafjár hefur  sett  hlutafjáreign sína að veði til  Landsbankans. Hvað skyldi vera virði þeirra?

Heildarskuldir 365 eru í dag 7.6 milljarðar og heildareignir eru 8.4 milljarðar samkvæmt nýju uppgjöri. Í sjálfu sér fínt þegar skuldsett félag á  700 milljónum meira en það skuldar. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að 5.7 milljarðar af eigninni er óefnisleg,viðskiptavild. Rauneignir félagsins eru bara 2.4 milljarðar.

Nýi Landsbankinn hefur lánað 365 miðlum 7 milljarða þrátt fyrir að efnislegar eignir félagsins séu aðeins 2.4 milljarðar eða þriðjungur lánsins.  Er einhver glóra í svona lánveitingum. Hvað skyldu nú vökulir rannsóknarblaðamenn og margverðlaunaðir fréttahaukar á RÚV og víðar hafa um þetta að segja? 


DR1 og RÚV

Áramótaávarp danska forsætisráðherrans Helle Thorning-Schmidt var mjög athyglisvert. Hún lagði m.a. áherslu á að frelsi fylgdi ábyrgð, nokkuð sem samflokksfólk hennar hér telur ekki vera. Einnig var henni tíðrætt um nauðsyn samkeppni og að danir stæðu sig betur og legðu sig meira fram hver og einn til að ná árangri. Loks vék hún sérstaklega að menntun unga fólksins og sagði það stefnu sína að dönsk börn væru með bestu menntun sem völ væri á.

Að loknu ávarpi danska forsætisráðherrans var fjallað um ræðu hennar af tveim fréttamönnum danska sjónvarpsins og þrem fulltrúum stjórnmálaflokka. Að mínu mati fagleg afgreiðsla fjölmiðils á einni mikilvægustu ræðu sem forsætisráðherra flytur á hverju ári.

Á RÚV í gær flutti forsætisráðherra sína áramótaræðu, sem var að mestu endurtekning á þeim atriðum sem hún fjallaði um í Morgunblaðsgrein sama dag. Að ræðunni lokinni var engin umræða frekar en verið hefur. Stjórnendur RÚV þurfa að skoða hvort það er ekki meiri þjónusta við almenning í landinu og faglegra að fara að eins og þeir gera hjá danska ríkissjónvarpinu.

Helle Thorning-Schmidt lagði í ræðu sinni áherslu á gildi ábyrgðar, frjáls markaðar,samkeppni og framtíðina. Jóhanna Sigurðardóttir lagði áherslu á hvað ríkisstjórnin væri góð og hvað við værum í góðum málum. Eina framtíðarsýnin var sú að troða stjórnlagaráðstillögunum ofaní þjóðina.

Forseti lýðveldisins gerði stjórnlagaráðstillögurnar og fruntaskap forsætisráðherra að umtalsefni í áramótaræðu sinni og fjallaði um málið eins og sannur landsfaðir og benti á það mikilvægasta í málinu. Formenn stjórnmálaflokka ættu að taka mark á því sem forseti lýðveldisins sagði í þessu efni og setjast nú þegar niður til að móta þær tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem þokkaleg sátt er um og þjóðin er almennt sammála um að nái fram.

En varðandi ávarp forsetans þá væri einnig við hæfi að RÚV hefði umræður um ræðuna strax að henni lokinni eins og gert er í danska sjónvarpinu varðandi ræðu forsætisráðherra.


Málfrelsi

Við göngum út frá því sem vísu að tjáningarfrelsi ríki í landinu. Formlega er það verndað í stjórnarskrá lýðveldisins. Þó að málfrelsi ríki þá þýðir það ekki að auðvelt sé að koma málum á framfæri. Skilningur  sumra fjölmiðla og fjölmiðlafólks virðist harla lítill á mikiilvægi þess að gæta hlutlægni í fréttaflutningi og umfjöllun um mál sem og að gefa fólki eðlilega möguleika til tjáningar.

Í Ríkisútvarpinu hefur verið fjallað um sömu fréttina í a.m.k.  fjórum fréttatímum allt út frá sjónarmiðum höfunda skýrslu sem gerð var fyrir fjármálaráðherra um ómöguleika þess að  lækka höfuðstól stökkbreyttra húsnæðislána. Ekki er talað við þá sem telja nauðsynlegt að færa niður höfuðstóla stökkbreyttu lánanna. Nú sem fyrr er tjáningarfrelsi þeirra ekki virkt í Ríkisútvarpinu.

Sunnudagskvöldið var umræðufundur þriggja frambjóðenda til forsetakjörs á Stöð 2. Upphaflega átti bara að bjóða 2 frambjóðendum og meina hinum 4 að tjá sig á jafnréttisgrundvelli. Þegar það gekk ekki upp þá var ákveðið af stjórnendum þessa fjölmiðils að skipta frambjóðendunum upp í hópa. Eðlilega létu sumir frambjóðendur ekki bjóða sér slíkan dónaskap og þeir sem eftir stóðu hefðu átt að mótmæla andlýðræðislegu fyrirkomulagi sem Stöð 2 hafði ákveðið.

Stöð 2 ætlaði aldrei að leyfa frambjóðendum að tjá sig á jafnræðisgrundvelli og það ber að fordæma.

Þeir sem bjóða sig fram til æðstu embætta í þjóðfélaginu verða að vera tilbúin til að bjóða ofurvaldi fjölmiðils byrginn þegar fjölmiðillinn misvirðir jafnræði frambjóðenda til að tjá sig. 

Í forkosningum í Bandaríkjunum dettur alvöru fréttamiðlum sérstaklega sjónvarpsstöðvum ekki í hug að hafa umræður frambjóðenda án þess að þeir fái allir sömu tækifærin til að tjá sig við kjósendur. Ekki skiptir máli hvort einhverjir mælast lítið í skoðanakönnunum.  Hér eru greinilega önnur viðhorf hjá fjölmiðlafólki og það ber að fordæma.

Sama gildir að vera með neikvæðan fréttaþátt um einn frambjóðandann samhliða umræðum frambjóðenda. Hverjum datt slíkt rugl í hug.

Stöð 2 ætti að biðjast afsökunar á þeirri lítilsvirðingu sem sjónvarpsstöðin sýndi frambjóðendum og kjósendum og bjóða frambjóðendum upp á alvöru umræðuþátt í sjónvarpssal á jafnréttisgrundvelli.

Mér fannst miður að forseti lýðveldisins og forsetaframbjóðendurnir Herdís og Þóra skyldu ekki ganga á dyr með hinum eða hóta því svo fremi að jafnræðis frambjóðenda væri gætt. Virkt tjáningarfelsi er jú  eitt mikilvægasta grundvallaratriði lýðræðislegrar kosningabaráttu.


Samstaða Samfylkingarinnar gliðnar.

Árni Páll Árnason alþingismaður sagði í viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu í dag, að nauðsynlegt væri að samstaða og þjóðarsátt yrði um nýja stjórnarskrá. Þrátt fyrir það að í öllum þróuðum lýðræðisríkjum sé fólk sammála þessum sjónarmiðum Árna Páls, þá hefur Jóhanna Sigurðardóttir rekið stjórnarskrármálið með þeim hætti að einræði meirihlutans ætti að ráða varðandi breytingar á stjórnarskrá.

 Ummæli Árna Páls sýna að samstaða innan Samfylkingarinnar um að keyra áfram breytingar á stjórnarskrá í  ósætti við stóran hluta þjóðarinnar nýtur ekki lengur fulls stuðnings. Ljóst er að Jóhanna þarf því að smala köttum á sínum eigin bæ en ekki aðeins hjá Vinstri grænum ætli hún að keyra fram þá einstöku aðferðarfræði í stjórnarskrármálinu sem hún hefur fylgt fram að þessu. Þannig er raunar farið að í einræðisríkjum og aðferðarfræði þeirra ríkja eru Jóhönnu Sigurðardóttur hugleiknari en virðing fyrir eðlilegum leikreglum lýðræðisinis.

Engin furða að hinu betra og góðgjarnara fólki innan Samfylkingarinnar sé ofboðið.

Þá var athyglivert að í sama umræðuþætti skyldi varaformaður stjórnarskrárnefndar Alþingis, Álfheiður Ingadóttir halda því fram að kosning til stjórnlagaþings hefði ekki verið dæmd ógild.  Hafi svo ekki verið af hverju þurfti Álfheiður Ingadóttir þá að bera fram sérstaka þingsályktunartillögu um stjórnlagaráð í stað stjórnlagaþings. 

Ákvörðun Hæstaréttar Íslands þ.25.1.2011 um stjórnlagaþingskosninguna var samt sem áður þessi:

Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda hana.

Ályktarorð:

Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild. 

Sérkennilegt að Álfheiði Ingadóttur skuli hafa sést yfir jafnmikilvæga staðreynd í málinu. En þessi yfirlýsing Álfheiðar vekur athygli þar sem hún hefur nýlega sent frá sér aðra yfirlýsingu vegna ummæla Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns um byltingarforingjann í Alþingishúsinu, en þar afneitaði hún að hafa haft afskipti af aðgerðum óeirðarfólks utan Alþingishússins. Skyldi minni Álfheiðar vera jafn óbrigðult um það sem um ógildingu kosninga til Stjórnlagaþings?


Á lægsta plani

Vafalaust er það vilji stjórnenda RÚV að þjóðmálaumræða í þáttum ríkissjónvarpsins sé hlutlæg og valdir séu viðmælendur sem hafa mesta eða alla vega viðunandi þekkingu á umfjöllunarefninu.

Silfur Egils er dæmi um þátt í ríkissjónvarpinu þar sem þessar meginreglur eru ítrekað brotnar. 

Ákveðnir vinir og jáfólk stjórnandans Egils Helgasonar er ítrekað boðið í drottningarviðtöl iðulega til að tala um mál sem það hefur takmarkaða þekkingu á. Alla vega þar sem til er fjöldi viðmælenda sem hafa mun meiri þekkingu og vit á því sem um er að ræða en fastakúnnar Egils Helgasonar í boði ríkisfjölmiðilsins í Silfri Egils.

Sérstakir vinir Egils eins og t.d. Eva Joly, Þorvaldur Gylfason og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur koma ítrekað venjulgast til að segja það sama og þau hafa áður sagt.

Þegar Egill Helgason í Silfri Egils dagsins í dag fær sem sérstakan sérfræðing Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðing til að ræða um Landsdóm þá er seilst langt til fanga og út yfir öll fagleg mörk hvað varðar viðmælanda sem hefur faglega þekkingu á viðfangsefninu. Hvað þá að vera þannig í sveit sett að hafa burði til að fjalla um málið með hlutlægum hætti. 

Óneitanlega er það ansi skondið að á sama tíma og Egill Helgason fordæmir einkavinavæðingu annarra þá skuli hann gerast sekur um augljósustu einkavinavæðinguna sem getur að líta í fjölmiðlum landsins.

Hvað skyldi útvarpsstjóri leyfa það lengi að þáttastjórnandi mikilvægasta umræðuaþáttarins um stjórnmál í sjónvarpinu gæti ekki hlutlægni og faglegra vinnubragða?


Borgarstjórinn hugumstóri

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr hefur fundið köllun sína. Hann talar ekki illa um fólk.

Í Kastljósi kvöldsins kom fram að tugir fólks liggur beinbrotið heima vegna skorts á hálkuvörnum í Reykjavík. Óneitanlega hlýtur það að lina þrautir og sársauka slasaðra að verða vitni að þessari  köllun Jóns Gnarr.

Mitt í aukinni skattheimtu, innilokunar vegna snjóa og hálku og hærri reikninga frá Orkuveitu Reykjavíkur hefur  Jón Gnarr þennan gleðiboðskap að flytja Reykvíkingum.  En ekkert annað.

Þegar ég hlustaði á viðtalið við borgarstjórann datt mér í hug sagan af Alexandrínu drottningu Dana, þegar hún spurði um sósíalismann í upphafi síðustu aldar og henni var sagt að margt fólk væri óánægt með kjör sín. Þá sagði Alexandrína. Hvílíkt vanþakklæti og við sem höfum gefið fólkinu  Tívolí.

Það væri allt í lagi fyrir Jón Gnarr ef tilveran væri eilíft Tívolí. Pólitískur raunveruleiki hans virðist svipaður og dönsku drottningarinnar fyrir einni öld. 

Þeir sem kusu Jón Gnarr átta sig á því í dag að pólitík er ekki brandari heldur fúlasta alvara á stundum og þá skiptir máli hver stjórnar.


Hlutdræg fréttastofa RÚV

Eftir bankahrun 2008 auglýsti fréttastofa RÚV dyggilega öll fyrirhuguð mótmæli og var iðulega komin með tökulið sjónvarps á vettvang á undan óeirðarseggjum sem komu boðskap sínum venjulega á framfæri með valdbeitingu.  Ríkissjónvarpið gerði vel og dyggilega grein fyrir útifundum sem haldnir voru á Austurvelli haustið 2008 og fram að kosningum 2009. Jafnvel var um beinar útsendingar að ræða. Þá töldu fréttamenn á þeim tíma fjöld mótmælenda vera mun meiri en raun bar vitni.

Annað var athyglivert við störf fréttastofu RÚV haustið 2008 og fram á  2009, að fréttamenn RÚV sóttu í valdbeitingu mótmælenda og greindu frá því í fréttum eins og hér væri um sjálfsagða og eðlilega hluti að ræða jafnvel þó að veist væri með ofbeldi að ráðherrum og þingmönnum.

Nú hefur fréttastofa RÚV breytt um áherslur enda komin önnur ríkisstjórn og þóknanlegri stjórnmálaflokkar sem að henni standa en var árið 2008. Nú gerir fréttastofa RÚV lítið  úr mótmælum og segir að mun færri hafi mótmælt en raunin er. Nú auglýsir RÚV ekki mótmælafundi fyrirfram hvað þá að tökulið RÚV sjónvarpsins sé mætt tímanlega á staðinn eins og var 2008.

Hvað skildi valda þessum viðsnúningi á fréttamati  RÚV? 


Davíð Þór Jónsson

Í þeirri orrahríð sem hefur geisað að undanförnu um málefni þjóðkirkjunnar þá var það nánast andleg svölun að hlusta á yfirvegaðan og öfgalausan málflutning Davíðs Þórs Jónssonar í Kastljósi í kvöld.

Það er allt of algengt að fólk beri af leið í umræðum hér á landi og þær séu óvandaðar. Sú var hins vegar ekki raunin á í Kastljósi kvöldsins. Viðmælandi Davíðs var mjög góð, en Davíð var að mínu mati þungavigtarmaður í umræðunni.  Það er full ástæða til að óska honum til hamingju með frammistöðu sína í kvöld. Hann á það skilið.  


Fjölmiðlar í hafti?

Gömlu flokksblöðin höfðu þann kost að lesendur þeirra gátu áttað sig á hvaða hagsmuni blaðið hafði og hvaða fréttum væri varlegt að treysta.  Síðar þegar flokksfjölmiðlarnir gáfust upp og í stað þeirra komu svonefndir "frjálsir fjölmiðlar" áttaði fólk sig síður á þeim hagsmunatengslum sem girtu stundum fyrir eðlilega umfjöllun.

Í Morgunblaðinu í dag, sem kemur út seinni part laugardags er úttekt Agnesar Bragadóttur á vægast sagt vafasömum og óeðlilegum lánveitingum Glitnis banka til fyrirtækja tengdum bankanum.  Svo bregður við að þrátt fyrir að sumir eigi erfitt með að fá greinar sínar birtar þá njóta eigendur annars hagræðis. Í Fréttablaðinu í morgun birtist svar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við umfjöllun Agnesar við hlið leiðara blaðsins. Snögg viðbrögð það.

Annars er þetta svar Jóns Ásgeirs og umfjöllun hans í fréttum merkilegt fyrir það að þeim atriðum sem Agnes veltir upp er ekki svarað til hlítar og eftir situr óneitanlega rökstuddur grunur um verulega misnotkun eigenda bankans og félaga þeim tengdum svo og æðstu stjórnenda bankans á gamla Glitni. Það mál verður að rannsaka til hlítar þegar í stað.  Hér er um svo grafalvarlegt mál að ræða.  Sé það rétt sem Jón Ásgeir vill halda fram að grein Agnesar Bragadóttir sé í helstu efnisatriðum röng, þá hlítur hann og Hannes Smárason að hafa af því verulega hagsmuni að hið sanna verði leitt í ljós.

Annars á Agnes sögu sem áreiðanlegur innanbúðarmaður í bankakerfinu frá þeim tíma að Sverrir Hermannsson var bankastjóri í Landsbankanum og Agnes gerði ákveðna úttekt á stöðu ákveðins viðskiptavinar þar.  Miðað við reynslu af úttektum Agnesar þá og síðar þá verður þeim ekki vippað út af borðinu með orðagjálfri einu.

Þessir atburðir vekja óneitanlega upp þá spurningu hvort það sé samræmanlegt lýðræðislegri umfjöllun um mikilvægustu mál samtímans að Jón Ásgeir Jóhannesson og aðilar honum tengdir eigi alla aðra fjölmiðla en ríkisfjölmiðlana að Útvarpi Sögu einni undanskilinni.

Um nokrra hríð hefur verið ljóst að mönnum, flokkum og málefnum hefur verið mismunað og hinir svonefndu frjálsu fjölmiðlar hafa iðulega útilokað  þá sem hafa ekki verið þóknanlegir hagsmunum  eigendanna.

Þannig höfum við í Frjálslynda flokknum iðulega mátt finna fyrir því hvað útgerðarhagsmunirnir vega þungt hjá fjölmiðlunum. Kvótagreifarnir og bankaveldið sem byggði skýjaborgirnar á kvótakerfinu hafa reynt að útiloka andstæðinga kvótakerfisins sem mest frá almennri stjórnmálaumræðu. Þá staðreynd höfum við mátt kynnast.


mbl.is Björn: Fjölmiðlar marklausir við núverandi aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 293
  • Sl. sólarhring: 708
  • Sl. viku: 4114
  • Frá upphafi: 2427914

Annað

  • Innlit í dag: 269
  • Innlit sl. viku: 3805
  • Gestir í dag: 261
  • IP-tölur í dag: 250

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband