Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Saklaus þangað til sekt hans er sönnuð

Hreiðar Már Sigurðsson var settur í gæsluvarðhald í dag. Af ummælum á vefmiðlum að dæma þá ríkir fögnuður yfir handtöku og kröfu um gæsluvarðhald mannsins. Flestir sem tjá sig telja það jafnbrýna því að sök sé sönnuð að krafist hafi verið gæsluvarðhalds yfir manninum. Þannig er það ekki.

Í réttarríkinu er við það miðað að hver maður sé saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. Þáverandi Bandaríkjaforseti fékk m.a. bágt fyrir að kalla ákveðinn mann glæpamann þar sem hann hafði ekki verið dæmdur fyrir ódæði  sem hann framdi.

Því má ekki gleyma að þess eru mörg dæmi að fólk hafi verið hneppt í gæsluvarðhald án þess að ákæra væri síðar birt á hendur því. Í Bretlandi þá heyrði ég einhvern tíma talað um það þegar maður fór í gæsluvarðhald að þá var talað um það í fjölmiðlum þannig: A man is helping the police etc. Maður er að hjálpa lögreglunni við upplýsingaöflun. Það fannst mér snyrtilega gert í samræmi við þau gildi sem réttarríkið byggir á.

Ekki veit ég hvort ástæða er til að hneppa ofangreindan mann í gæsluvarðhald en það er óneitanlega nokkuð sérstakt að maður sé settur í gæsluvarðhald vegna meints brots, sem varða sýnileg gögn, meir en 20 mánuðum eftir að meint brot var framið. 

Hvað svo sem okkur finnst um þennan eða hinn þá megum við aldrei hvika frá þeim gildum sem gerir okkur að siðuðu þjóðfélagi. Þar skiptir miklu að hvika ekki frá gildum réttarríkisins.


Skjaldborg um neyslulán

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að slá upp skjaldborg um ákveðna tegund neyslulána  með frumvarpi um lækkun höfuðstóls bílalána.

Forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin ætlaði sér að slá upp skjaldborg um heimilin í landinu en nú hefur verið breytt um stefnu.

Íbúðareigendum er boðið upp á greiðsluaðlögun sem er hjálp í viðlögum við að komast hjá gjaldþroti og leigja íbúðirnar sem þeir missa á naðungaruppboðum.  Það er skjaldborgin fyrir íbúðareigendur.

Áfram skal haldið verðtryggingunni sem hækkar  höfuðstól verðtryggðu lánanna mánaðarlega þó að engin virðisauki sé í þjóðfélaginu. Verkalýðshreyfingin dásamar þetta kerfi sem er hengingaról um lífskjör launþega. Fjármálaráðherra dásamar það að við skulum hafa krónuna sem hefur rýrt launatekjur fólks og verðmæti eigna þess miðað við virði í helstu gjaldmiðlum um 80%. Þar við bætist gegndarlaus hækkun á nauðsynjavörum. Launin lækka hjá öllum nema Seðlabankastjóra

Er þetta það Nýja Ísland sem stefnt var að því að byggja upp. 


Hin nýju goð álitsgjafa og háskólamanna?

Athyglivert hefur verið að fylgjast með stórum hópi Háskólasamfélagsins á Íslandi og álitsgjafa í kjölfar útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar hoppar þessi hópur knékrúpandi í andakt og takt og boðar að hér hafi hinn heilagi sannleikur loksins komið fram um bankahrunið.

Þessi sami hópur hoppaði raunar líka fyrir tveimur árum knékrúpandi í andakt og aðdáun fyrir bankamönnum og útrásarvíkingum. Þá var spurt eins og einn háskólamaður orðaði það í gær í útvarpi  þegar menn þar á bæ veltu fyrir sér hlutunum: "Hvað skyldi Björgólfur segja um þetta"  Ég gat ekki skilið orð þessa manns með öðrum hætti en þeim að aðgerðir og áherslur í háskólasamfélaginu hafi verið í samræmi við vilja og þarfir þeirra ríku, en gagnrýnin hugsun hafi vikið þar sem styrkja og velgjörða var helst von af gnægtaborðum gullæta úr bankakerfinu og sporgöngumanna þeirra í hópi stærstu lántakenda.

Hvar var hin gagnrýna hugsun á þessum tíma?  Háskólasamfélagið og opinberu álitsgjafarnir ættu að spyrja sig þeirrar spurningar og svara heiðarlega. Það er ekki vanþörf á.

Í dag bendir Jón Tómasson fyrrum stjórnarformaður SPRON og Ríkislögmaður, sá sem harðast barðist gegn því að hirðarnir hirtu fé sparisjóðanna, á það að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki skoðað Sparisjóði landsins sérstaklega. Um það segir nefndin raunar að ekki hafi unnist tími til að taka þau mál til sérstakrar skoðunar. Nú verður það að teljast með nokkrum endemum að Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, sem telur eðlilegt að fjalla um pólitíska þróun þjóðfélagsins í tuttugu ár og fella pólitíska dóma um stjórnun, stjórnarfar og efnhagsstjórn þann tíma á hundruðum blaðsíðna, skuli ekki hafa séð ástæðu til að fjalla ítarlega og skoða þann mikilvæga hluta fjármálakerfisins sem sparisjóðakerfið var og samspil þess og annarra leikenda í fjármálalífinu.

Skipti það ekki máli að fjármunir sparisjóðanna skyldu vera hirtir með þeim hætti sem gert var?

Háskólasamfélagið ætti að standa undir nafni og sýna fram á tilverurétt sinn með því m.a. að fara með gagnrýnum hætti ofan í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar og velta við hverjum steini og mynda sér sjálfstæða skoðun í stað þess að lúta nú nýjum goðum í stað þeirra sem féllu 6. október 2008.


Sorgarsaga í sumarbyrjun

Á sumardaginn fyrsta var greint frá því að Sparisjóður Keflavíkur og Byr væru komnir undir stjórn ríkisins. Kom að vísu ekki á óvart þar sem að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málum fjármálastofnana hefur verið slík að óvissan hefur smám saman dregið úr þeim allan lífsþrótt og möguleika.

Nú verður ekki lengur vikist undan því að ríkisstjórnin marki skynsamlega stefnu varðandi ríkisaðstoð og starfsemi fjármálastofnana í eigu ríkisins. Stærstu mistökin voru gerð þegar ríkisstjórnin ákvað algjörlega að nauðsynjalausu að fella SPRON og Straum. En þau mistök verða ekki tekin til baka þó ef til vill væri rétt að viðkomandi ráðherrar væru látnir sæta ábyrgð vegna þeirra mistaka.

Enn eykst kostnaður þjóðfélagsins vegna stefnu- og aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar.


Ábyrgðin á bankahruninu

Megin niðurstaða skýrslu rannsóknarnefndarinnar um bankahrunið er sú að stjórnendur bankanna beri ábyrgð á hruni íslensku bankanna í október 2008. Þeirri ábyrgð verður ekki lengur vísað á stjórnmálamenn, Fjármálaeftirlit eða Seðlabanka Íslands.

Hvað sem öðru líður og meintum ávirðingum, athöfnum eða athafnaleysi einstakra aðila innan stjórnsýslunnar þá er þetta samt sú niðurstaða sem skiptir höfuðmáli. 

Þetta er í samræmi við niðurstöðu sænska bankasérfræðingsins Mats Josefsson sem þekkir vel til íslenskra mála en hann sagði á ráðstefnu í Reykjavík 11.11.2009:  "The banking crisis that emerged in Iceland was spectacular and it is definitely true to say that a handful of bankers brought down the country or at least the economy.“  

Það kom mér á óvart að sjá hvað formlegheitin bera staðreyndir máls ofurliði í niðurstöðum nefndarinnar einkum hvað varðar áfellisdóm yfir Björgvin Sigurðssyni þáverandi viðskiptaráðherra vegna atriða sem formaður hans Ingibjörg Sólrún hélt frá honum en ekki er vikið að sérstakri ábyrgð Ingibjargar og af hverju jú vegna þess að formlega gegndi hún ekki annarri stöðu en stöðu utanríkisráðherra þó hún hafi greinilega ítrekað brotið trúnað gagnvart flokksbróður sínum Björgvin Sigurðssyni og vanrækt að upplýsa hann um mikilvæg mál sem hún hafði fengið upplýsingar um eftir hljóðskraf við forsætisráðherra og Seðlabankastjóra.  

Ég minni á að fyrst eftir hrunið þá var spilltum stjórnmálamönnum og lélegum eftirlitsstofnunum kennt um hrunið en nú hefur það moldviðri fokið í burtu eftir því sem betur og betur upplýsist um þá starfsemi sem stunduð var í bönkunum og varð þeim á endanum að falli.  

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis er ekki sú að spilltir stjórnmálamenn eða embættismenn hafi verið valdir að bankahruninu. Þeim er í besta falli kennt um vanrækslu sem þó skipti ekki máli varðandi það að koma í veg fyrir hrunið.  

Hvergi er vísað til þess að ráðherrar, eða æðstu embættismenn eftirlitsstofnana hafi brotið af sér af ásetningu eða stórkostlegu gáleysi. Í umfjöllun nefndarinnar verður ekki séð að vísað sé til annars varðandi stjórnmálamenn eða embættismenn en ýmsir hlutir hefðu betur mátt fara og nauðsynlegt sé að koma stjórnsýslunni fyrir með skilvirkari hætti.  

Ég sakna þess hvað sárlega vantar glögga úttekt á þeim í samfélagi stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og í háskólasamfélaginu sem voru á mála hjá bönkum og útrásarvíkingum og þáðu af þeim stóra styrki og margvíslegan annan viðgjörning.   

Þá hefði að mínu mati mátt koma fram í skýrslunni með hvaða hætti tókst á fyrstu mánuðum eftir hrunið að vinna úr vondri stöðu og með hvaða hætti Seðlabanki og Fjármálaeftirlit unnu á þeim tíma þrekvirki við að halda gangverki þjóðfélagsins í lagi.   

Ef til vill á svona skýrsla alls ekki að fjalla um það sem vel er gert bara það sem miður fer.  

Ég leyfi mér að minna enn og aftur á það að skýrsla rannsóknarnefndarinnar er ekki dómur heldur niðurstaða þriggja einstaklinga sem vafalaust hafa gert sitt besta við að vinna það verkefni sem þeim var falið. En þessir einstaklingar eru ekki frekar óskeikulir en aðrir og því miður þá var ekki brugðist við ábendingum um vanhæfi nefndarmanna sem skyldi.

Nefndarmenn gera nefnilega líka mistök eins og venjulegt fólk. 


Úrræði eða úrræðaleysi

Ríkisstjórnin birti í vikunni aðgerðaráætlun til aðstoðar skuldsettu fólki. Athygli vekur að ekkert í aðgerðunum nýtist venjulegu  fólki sem horfir fram á vaxandi skuldabyrði og meiri greiðsluerfiðleika vegna hruns krónunnar og þar af leiðandi stökkbreytta höfuðstóla verð- og gengistryggðra lána.  

Þjóðfélagsúrræði verða að miða að því að taka á sértækum vanda venjulegs fólks vegna hruns gjaldmiðils með tilheyrandi verðbólgu sem hefur stökkbreytt höfuðstólum lána. Ekkert í nýjasta aðgerðarleysispakka ríkisstjórnarinnar sem heitir  aðgerðarpakki gerir neitt í þeim málum.  Er það furða þó fólk sé orðið uppgefið á úrræðalausri ríkisstjórn.

Áfram  skal haldið að innheimta að fullu stökkbreyttu höfuðstóla húsnæðislána svo lengi sem hægt er að kreista nokkuð blóð undan nöglum skuldara. Þegar það er ekki lengur hægt þá býður ríkisstjórnin upp á tímabundinn aðgerðarpakka við nauðungaruppboð, gjaldþrot eða greiðsluaðlögun. Skuldarar hljóta síðan að fagna því að stofna á nýtt embætti umboðsmanns skuldara þar sem einn Samfylkingarfursti í viðbót verður settur á spenann.

Aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar sem heitir "Umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna" er athygliverð lesning.  Samantekt, efnisyfirlit og lýsing á því sem gert hefur verið tekur 6 blaðsíður af 12 og megin hluti þess sem síðan er talið eru hlutir sem stefnt er að því að gera einhvern tíma í framtíðinni.

Í hvert skipti sem ríkisstjórnin kynnir aðgerðir til aðstoðar skuldsettu fólki þá er ég svo einfaldur að halda að nú muni ríkisstjórnin ætla að gera eitthvað að viti en verð eilíft og ævinlega fyrir vonbrigðum við að sjá stefnu-úrræða- og getuleysi þessa fólks. 

Ríkisstjórnin þyrlar upp reykskýí  og gefur fyrirheit en þegar rykið sest þá blasir áfram við endalaus sandauðnin og tilboðið er aðeins um áframhaldandi eyðimerkurgöngu í boði ríkisstjórnarinnar. 


Óvissa um gildi gjaldeyrislána

Óneitanlega er það skrýtin staða að sami dómstóll Héraðsdómur Reykjavíkur skuli kveða upp tvo ósamrýmanlega dóma um lán í íslenskum krónum miðuð við erlenda gjaldmiðla.  Óneitanlega er það líka sérkennilegt að dómurinn skuli ekki hafa verið fjölskipaður í jafn mikilvægu máli þegar þetta álitamál var upphaflega til afgreiðslu hjá dómstólnum.

Nú er algjör réttaróvissa um gildi gjadleyrislánanna og svo verður þangað til Hæstiréttur kveður upp dóma í þessum málum. Nauðsynlegt er að þessi mál fái forgang í réttarkerfinu hagsmunirnir eru það mikilvægir.

Eðlilega kviknar von hjá þeim sem tóku þessi lán og margir sjá fram á að halda eignum sínum verði vitleysa gengistryggðu lánanna leiðrétt. Raunar hefðu stjórnvöld átt að gera það strax.  En þau gerðu það ekki frekar en annað sem þeim bar að gera.

Mér finnst síðari gjaldeyrislánadómurinn athygliverður og er honum sammála að öðru leyti en því að mér sýnist að Neytendastofa hefði átt að tjá sig um þessar lánveitingar á sínum tíma og það stendur í raun enn upp á hana að gera það betra seint en aldrei. 

 


Ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera fyrir skuldara

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði á Rás 2 í morgun aðspurður um hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera fyrir skuldsett fólk, að það yrði að snúa sér til bankanna sinna. Með öðrum orðum þýðir það að ríkisstjórnin ætli ekkert að gera.

Stökkbreyttir höfuðstólar lána sem hafa hækkað vegna gengishruns og efnahagshruns eiga þá að mati ríkisstjórnarinnar að vera á ábyrgð fólks sem vildi fjárfesta í íbúðarhúsnæði.  Á sama tíma og verið er að fella niður milljarða skuldir þeirra sem ollu hruninu og þeir halda fyrirtækjunum sínum er verið að auglýsa þúsundir íbúða á nauðungarsölu. Það er vegna þess að höfuðstólar lánanna hafa hækkað gríðarlega á meðan verð eignanna hefur lækkað.

Ríkisstjórn sem vill ekki horfast í augu við skuldavanda heimilanna og gera nauðsynlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir að stór hluti landsmanna verði eignalaus og skuldum vafinn verður að fara frá. Það var tímabært fyrir hrun að afnema verðtryggingu lána og það var réttlætismál við hrun að leiðrétta gengisbundnu lánin.  Svona óréttlæti gagnvart venjulegu fólki gegnur ekki.


Skynsemi eða mistök.

Það hefði verið skynsamlegra að ráða vanan samningamann en Svavar Gestsson sagði forsætisráðherra í kastljósi í gær. Hún viðurkenndi samt ekki að það hefðu verið mistök að fá Svavar Gestsson til verksins.  Þessi hárfína túlkun á mismun skynsemi og mistaka er þeim einum lagið sem setið hafa lengur á Alþingi en minnisbestu menn muna. 

Almenn skynsemi segir manni hins vegar að sé eitthvað skynsamlegt sem maður gerir ekki þá séu það mistök. Það hljóta að vera mistök að gera ekki það sem er skynsamlegast. 

Annað vakti einnig athygli í viðtalinu við Jóhönnu en það var yfirlýsing hennar um getuleysi ríkisstjórnarinnar til að hafa  stjórn á bönkunum.  Þannig reynir hún að koma sér, vanhæfum viðskiptaráðherra, ríkisstjórn og flokki sínum undan ábyrgð á milljarðaniðurfellingu bankanna á skuldum útrásarvíkinga og meðreiðarsveina þeirra. Milljarðaniðurfellingum sem miða að því að  halda gjaldþrota fyrirtækjum þessara Matadorspilara áfram undir þeirra stjórn.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon talaði um að það þyrfti að frysta eignir auðmanna átti hann þá við að það þyrfti að frysta þær í höndum og undir stjórn auðmannanna?


15 milljarða jólagjöf Jóhönnu og Steingríms

Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á árinu hækka höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna um 15 milljarða. Þannig gefur ríkisstjórnin fjármagnseigendum 15 milljarða.  Verðtryggingin er djöfullegasta lánakerfi sem fundið hefur verið upp.  Þegar skattar hækka og fólk á minni peninga hækka lánin. Þó engin virðisauki sé í þjóðfélaginu eða jafnvel neikvæður eins og hjá okkur þá hækka verðtryggðu lánin samt. Þau hækkuðu líka þegar íslenska krónan var í hæstu hæðum. Kerfið er nefnilega galið.

Var það skjaldborg um fjármagnseigendur, banka og lánastofnanir sem Jóhanna ætlaði að slá upp?

Svona ranglæti má ekki þrífast lengur. Ríkisstjórnin verður að koma á eðlilegu lánakerfi strax, sambærilegu við það sem er í okkar heimshluta. Jóhanna Sigurðardóttir var einu sinni á móti verðtryggingu. Nú hefur hún völdin. Ætlar hún að standa með skoðunum sínum eða eru það aðrir hagsmunir sem ráða?

Höfuðstólsleiðrétting lána og eðlilegt lánakerfi er mikilvægast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 13
  • Sl. sólarhring: 199
  • Sl. viku: 4852
  • Frá upphafi: 2591965

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 4553
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband